Tag Archive for: Svartihellir

Skessuhellir

Í Fréttablaðinu árið 2008 mátti lesa eftirfarandi um Svartahelli í Reykjanesbæ (Keflavík):
svartihellir-1Nýverið flutti óvenjulegur nýr íbúi inn í helli í Hólmsbergi við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ. Það er fimm metra há og fjögur hundruð ára gömul skessa sem þó er með barnshjarta.
Það var Herdís Egilsdóttir rithöfundur sem skapaði skessuna og hún átti líka hugmyndina að því að skessuhellirinn yrði reistur á Reykjanesi nú. „Víða um lönd hafa verið gerð söfn í kringum sögupersónur úr barnabókum. Ég nefndi þetta við Árna Sigfússon bæjarstjóra og hann tók verkefnið strax upp á sína arma.“
Fjöllistahópurinn Norðanbál vann verkefnið í samstarfi við Ásmund Friðriksson verkefnisstjóra og réð útliti og stærð hellisins. Hann er hlaðinn í kringum smá skúta sem heitir Svartihellir en byggingin kostar tæplega sautján milljónir.
Allt sem tengist safninu er stórt í sniðum. Krakkar geta farið ofan í skóna hennar og stór fótsporin. Innanstokksmunir hellisins eru í sama stærðarflokki, borð, stólar og risarúm sem má skríða upp í. „Augu skessunnar eru á stærð við fótbolta og þau hreyfast. Svo andar hún og situr í ruggustól og prjónar þannig að safnið verður líflegt,“ segir Herdís. „Svo er hugmyndin að hengja fötin hennar á snúru meðfram veginum og mála sporin hennar á götur Reykjanesbæjar svo krakkarnir sjái hvar hún hafi verið.“
Herdís hefur skrifað fimmtán bækur um skessuna og vinkonu hennar hana Siggu. Nú er ný bók á leiðinni sem mun fjalla um ævintýri skessunnar í nýja bústaðnum á Suðurnesjum.

Heimild:
-Fréttablaðið 29 ágúst 2008, bls. 42.

Reykjanesbær

Svartihellir (Skesuhellir).