Færslur

Faxi

Í Faxa 1977 fjallar Svavar Árnason um Grindavík undir yfirskriftinni “Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið“.

Svavar Árnason

Svavar Árnason.

“Alþingi veitti Grindavík kaupstaðarréttindi með lögum nr. 18, 10. apríl 1974. Grindavíkurkaupstaður er því með alira yngstu kaupstöðum landsins. Saga hans er að vonum ærið stutt og naumast annálsverð enn sem komið er, en Grindavíkurhreppur, sem er eðliiegur undanfari kaupstaðarins, á sér aftur á móti langa og að ýmsu leyti merka sögu, sem rekja má allt til landnámsaldar. Þess er þó enginn kostur að rekja þá sögu í stuttu máli, aðeins skal lauslega minnst á minnisverða atburði og þá ekki síður þá atburði, sem minni eftirtekt hafa vakið í gegnum tíðina.
Um það hvernig Grindavík byggðist segir svo frá í Landnámabók: „Maður hét Hrólfur höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn
af ellifu
banaorð.
Blástu meir.

Núpshlíðarhorn

[G]Núpshlíðarhorn – varða.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígfar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar. Þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórðu leggjaldi.

Hraustir menn og vígreifir víkingar

Grindavík

Grindavík og nágrenni.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímkaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur. Síðan var hann Hafur-Björn kallaður.

Geithafur

Geithafur.

Það sáu ófreskir menn, að landvættir fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Af þessari lýsingu er bersýnilegt, að þeir sem námu land í Grindavík voru hraustir menn og vígreifir víkingar, sem létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna svo sem kviðlingur Vémundar ber vott um. Það er víst að Landnámsmennirnir hafa frá upphafi byggðar í Grindavík stundað jöfnum höndum landbúnað og fiskveiðar og farnast vel, enda til þess notið fulltingis landvættanna eftir því sem sagan segir.
Landafræðin kenndi okkur að Grindavík væri lítið og afskekkt sjávarþorp á sunnanverðum Reykjanesskaganum, umkringt hraunum og langt frá öðrum byggðum. Landkostir rýrir en stutt á fangsæl fiskimið. Úthafsaldan, ferleg og há, komin um óravegu sunnan úr höfum, brotnar hér við ströndina með háreisti og gný. Af því leiðir að Grindavík hefur ávallt verið talin brimveiðistöð.

Skipströnd og björgunarafrek

Skipsskaðar

Skipsskaðar við Grindavík.

Strandlengjan fyrir landi Grindavíkur nær frá Valahnúk á Reykjanesi, eða nánar tiltekið frá miðri Valahnúkamöl og austur að Seljabót, en þar tekur við Selvogur í Árnessýslu.

Guðsteinn Einarsson

Guðsteinn Einarsson.

Á þessari strönd hefur mörg harmsagan gerst. Guðsteinn Einarsson hreppstjóri hefur í ágætri grein í bókinni “Frá Suðurnesjum“, skráð örnefnin og um leið fléttað inn í frásögnina viðburðaríkum atburðum af skipsströndum og björgunarafrekum, sem unnin hafa verið á þessari strandlengju, sem hann telur vera um 70 til 80 km. langa.
Fjallahringur upp til landsins umlykur Grindavík og gefur henni hlýlegt svipmót. Fjöllin eru fremur lág, en Þorbjörn er þeirra nálægastur byggðinni og nýtur mestrar virðingar innfæddra Grindvíkinga, þótt hann sé ekki nema 243 metrar á hæð. Þar skammt frá er- Hagafell” með Gálgaklettum og síðan kemur Svartsengi, sem nú er þekkt vegna háhitans, sem er á því svæði, og nú er virkjaður af Hitaveitu Suðurnesja í þágu íbúa á Suðurnesjum.

Útilegumenn hengdir í Gálgaklettum

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þar sem fjallið Þorbjörn rís upp úr hraunflákanum í allri sinni tign með klofinn toppin og myndar gjá, sem heitir Þjófagjá, þar eiga útilegumenn endur fyrir löngu að hafa átt skjól. Þjóðsagan segir að þeir hafi um síðir verið handsamaðir og færðir til hengingar í Gálgaklettum.

Festisfjall

Festarfjall.

Lengra austur eftir Sakganum koma svo Húsafell í grennd við býlið að Hrauni, þá Fiskidalsfjall, Fagradalsfjall og Festi eða Festarfjall. Festi er fyrir botni Hraunsvíkur. Þar þykir skemmtilegt útivistarsvæði undir fjallinu á Hraunssandi við sjó fram. Ekki er þó þessi staður með öllu hættulaus vegna grjóthruns úr fjallinu og engan veginn er hættulaust að fara þar í sjóinn vegna strauma, sem liggja fram með ströndinni, og hafa gert færustu sundmönnum örðugt að ná landi aftur.
Býlið Hraun er austan við Þorkötlustaðahverfið, en austasti bærinn er ísólfsskáli og er yfir Hálsa að fara þangað. Austan við Ísólfsskála eru fjöllin Slaga og Skála-Mælifell og enn austar er svo Krýsuvíkur-Mælifell, en austast er Geitahlíð með Æsubúðir efst á tindi. Skammt austan við Ísólfsskála eru Selatangar. Þaðan var útræði frá Skálholti á fyrri tíð, og enn má sjá þar ummerki og tóftabrot, er minna á frumstæðan aðbúnað sjómanna í verbúðum þeirra tíma.

Járngerður og Þorkatla

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Grindavík hefur frá fornu fari verið skipt í þrjú hverfi, þ.e. Staðarhverfi vestast, þá kemur Járngerðarstaðahverfi og austast Þorkötlustaðahverfi, en auk hverfanna þriggja voru svo einstaka bæir svo sem Hóp — þar sem nú er höfnin — lífæð byggðarinnar —, Hraun og Ísólfsskáli og áður fyrr byggðarhverfi í Krýsuvík. — Í Krýsuvík er risinn myndarlegur skóli, sem sveitarfélögin í Reykjanesumdæmi, SASÍR, hafa barist fyrir að koma á fót, en kennsla er rétt óhafin.
Það er athyglisvert við nöfn hverfanna, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi, að svo virðist sem “rauðsokkur” þeirra tíma hafi látið mikið til sín taka í Grindavík.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki greinir þó sagan frá jafnréttisbaráttu kvennanna þar, en víst má telja að konur þessar, Járngerður og Þorkatla, hafi verið hinir mestu skörungar og stórbrotnar að allri gerð. Þær sátu báðar jarðirnar, sem einnig bera þeirra nöfn. Báðar munu þær hafa átt útvegsbændur og framsækna fiskimenn, en gifta þeirra fylgdist ekki að. Járngerður missti bónda sinn í sjóinn á Járngerðarstaðasundi. Segja munnmæli að þá hafi Járngerður orðið myrk í skapi, og kveðið svo á, að 20 skip skuli farast á Járngerðarstaðasundi. Telja fróðir menn að þeirri tölu sé náð. Af Þorkötlu er aftur það að segja, að hún hafi látið svo ummælt, að aldrei skyldi skip farast á Þorkötlustaðasundi, ef rétt væri farið og fomann brysti ekki dáð og dug, og þykir það hafa farið eftir.

Oft var teflt á tæpasta vað
Grindavík
Landnámsmennirnir komu til Íslands á opnum skipum. Molda-Gnúpur og synir hans stunduðu sjóinn á opnum skipum að sjálfsögðu, og Grindvíkingar hafa löngum háð sína hörðu lífsbaráttu á opnum skipum — fyrst og fremst áraskipum — fram yfir árið 1926 og þar næst á opnum vélbátum, „trillum,” allt þar til að hafnarskilyrði sköpuðust í Hópinu fyrir stærri skip og báta, svo að sambærilegt er orðið við hvaða verstöð sem er á landinu.

Grindavík

Áttæringar í Nesi.

Þeir einir, sem muna tímana tvenna og þær stórkostlegu breytingar, sem hafa orðið á aðstöðu allri til sjósóknar og fiskveiða í Grindavík síðustu 50 árin, hljóta að undrast það nú, að það skuli hafa verið mögulegt að stunda róðra á þessum litlu fleytum og bjóða þeim það sem þeim var boðið og ekki síður eftir að „trillurnar” komu til sögunnar. Þeir sóttu sjóinn fast, og tefldu oft á tæpasa vað. Lendingin var oft erfið og áhættusöm þegar komið var upp að Járngerðarstaðasundi og þurfti að liggja til laga eins og það var kallað. Þeir sem í landi voru, og fylgdust með þegar lagið var tekið, biðu í ofvæni og eftirvæntingu úrslitanna um það, hvort mætti sín meira, mannlegur máttur ræðaranna, eða hrammur holskeflunnar. Oftast tókst þetta vel, og formennirnir lærðu að finna rétta lagið — nákvæmlega rétta augnablikið — þegar lagt var á sundið í tvísýnu. Oft skall hurð nærri hælum og slysin urðu ekki umflúin, eins og hún Járngerður, og svo ótal margir fleiri hafa orðið að horfa upp á og þola. —

Áfram nú í Herrans hafni
Grindavík
En nú er allt orðið gjörbreytt til hins betra. Hætturnar leynast að vísu alls staðar, bæði á sjó og landi. Bátastærðin, öryggistækin og höfnin, allt ber það vott um þá stórkostlegu byltingu, sem átt hefur sér stað í þróun og vexti staðarins. —

Grindavík

Brimlending.

Þegar þróunin verður skyndilega ör, vill það stundum gleymast að halda til haga ýmsum fróðleik varðandi atvinnusöguna og líf fólksins á viðkomandi stað. Hvert tímabil á sína sögu.
Ef við hugsum til þess að fram til ársins 1926 er svo til eingöngu róið á árabátum, þá er líklegt að ýmsir siðir og venjur, áhöld og tæki, sem þá voru notuð, séu nú lítt þekkt eða með öllu ókunn þeirri kynslóð, sem nú er að alast upp í landinu.
Við skulum leiða hugann að því að formaðurinn á áraskipinu fer árla dags á fætur, gáir til veðurs, því að þá er engin veðurþjónusta, fer síðar um kotin og kallar, þ.e. ræsir skipshöfnina. Hún bregður skjótt við og innan tíðar eru allir komnir til skips í nausti, hver maður skinnklæddur og kominn að sínum keip. Það fyrsta sem þeir gera, er að þeir taka ofan og signa sig. Þá er losað um skorður og formaðurinn segir: Áfram nú í herrans nafni.

Áttæringur

Áttæringur við Grindavík.

Samtaka ganga nú allir til verks og setja skipið á hlunnum fram í vörina, og þegar skipið flýtur, hoppa allir léttilega upp í, og setjast undir árar, en formaðurinn kemur fyrir stýri. —
Á vetrarvertíð voru skipin flest tíróin, kölluð teinæringar.
Þegar ýtt hefur verið úr vörinni er fyrst róið yfir Lónið á Járngerðarstaðavíkinni og fram á snúning, en það er hættulegasti staöurinn þegar brim er. Þegar snúningi er náð, er stefnan tekin út Víkina, en þá taka allir ofan, og halda þó róðrinum áfram, en um leið sameinast skipshöfnin í Ijóðlátri sjóferðabæn. Þegar bænin er á enda setja menn upp sjóhattinn á ný. Þannig hefst sjóferðin.

Og forða því frá öllu grandi
Grindavík
Ef til vill er verið með línu, þá er hún lögð þegar komið er fram á mið, eða þá að verið er að vitja um netin.
Yfirleitt er hraði í öllum verkum og kostur þótt það að vera fljótur á sjó, því að á skammri stund skipast veður í lofti. — Glöggir formenn gerðu sér Hjótt grein fyrir því, hvort farið væri að brima eða ekki. Þeir sáu það á öldunni og það engu síður þótt í logni væri.

Seil

Seilaður fiskur í vör.

Þegar komið var að landi og sjóferðin var á enda var það venjan að tveir fremstu ræðararnir lögðu upp árarnar áður en komið var í vörina.
Þeir voru kallaðir framámenn og tóku sér í hönd „kolluband” og settust framan á kinnungin og höfðu það Þýðingarmikla og vandasama starf með höndum að taka skrið af skipinu þegar þeir sjálfir höfðu fengið fótfestu, og halda því á floti á meðan bskurinn var seilaður þ.e. dreginn upp á snæri, sem kallað var seilaról, því að engin var þá bryggjan til að landa við. Seilaról var þannig gerð, að á öðrum endanum var tréspjald en á hinum endanum var lykkja. Lykkjan var þrædd í auga á seilarnál, sem venjulegast var tiltelgd úr hvalbeini.
Með seilarnálinni var svo fiskurinn seilaður upp á seilarólina og þegar allir höfðu lokið við það, voru seilarólarnar sameinaðar og bundnar við streng eða tóg, sem fesi var við klettanöf í fjöruborðinu. Á meðan þessu fór fram hafði formaðurinn nóg að gera við að halda skipinu í horfi í vörinni með sérstökum krókstjaka, sem til þess var ætlaður. Þannig unnu þeir saman formaðurinn og framámennirnir, að því að halda skipinu í réttu horfi og forða því frá öllu grandi. Var það oft erfitt verk og vandasamt, ef sogadráttur var í vörinni og mikil lá.

Hvort viltu heldur, sporð eða haus?

Grindavík

Þegar skipið hafði verið sett í naust var næsta verkefnið að bera aflann upp á bakinu, um annað var ekki að ræða. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðri birðaról, einnig úr snæri, en miklu styttri en seilarólin. Hver maður bar það sem hann vildi í einu og var stundum keppni um það hve marga fiska var hægt að bera í einni ferð. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðan skiptavöll og þar skipti formaðurinn aflanum í köst. Það var reyndar kallað að skipta í fjöru.

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Í kastinu voru 2 hlutir. Síðan var dregið um köstin og þar sem 2 menn voru um kastið skiptu þeir á milli sín, og gerðu út um skiptin með því að annar sneri frá, en hinn spurði t.d. hvort viltu heldur sporð eða haus, lófa eða laska, skaft eða blað, hæl eða tá og sitt hvað fleira mátti nota til að gera út um skiptin. — Síðan gerði hver að sínum aflahlut.
Hér áður fyrr var talið að vetrarvertíð byrjaði 2. febrúar ár hvert og lokadagurinn var óumdeilanlega 11. maí. Í vitund fólksins var lokadagurinn mikill hátíðisdagur, sérstaklega ef vertíðin hafði verið gjöful og stórskaðalaus.
Á tímum áraskipanna var það mjög algengt, að ungir og frískir bændasynir austan úr sveitum og víðar að, fóru í verið út í Vík þ.e. Grindavík, og dæmin voru þess, að þeir komu ár eftir ár, sömu mennirnir og voru hjá sama formanninum og á heimilum þeirra og annara, sem að útgerðinni stóðu. Þessir menn voru á þeim tíma kallaðir útgerðarmenn þ.e. þeir voru gerðir út. Með þessum mönnum og heimamönnum var náið samstarf, sem leiddi oft til traustrar vináttu og samhjálpar í erfiðri lífsbaráttu. Og trúlega munu þeir menn enn finnast, sem eiga hugljúfar minningar um samveruna í verinu og kveðjustundirnar á lokadaginn 11. maí.”

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.08.1977, Grindavík – Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið, Svavar Árnason, bls. 2-4.

Grindavík

Grindavík 1963.