Tag Archive for: sýning

Reykjanesviti

Áhugaverðri sýningu um Reykjanesvita og sögu sjóslysa á Reykjanesi hefur verið komið upp í „Radíóhúsinu“ neðan við vitann undir yfirskriftinni „Leiðarljós í lífhöfn„.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – upplýsingaskilti.

Eftirfarandi umfjöllun um sýninguna birtist í Víkurfréttum 23. okt. 2021:
„Þetta er skemmtilegt verkefni sem við byrjuðum á árið 2018 þegar við settum upp skjöldinn á Reykjanesvita og í framhaldi af því tókum við þetta húsnæði á leigu og höfum verið að taka það í gegn. Það hefur verið málað að utan sem innan og skipt um glugga.

Hallur J. Gunnarsson

Hallur J. Gunnarsson við nafnatöflu þeirra u.þ.b. 3400 Íslendinga, sem fórust á sjó á 20. öld.

Það er alveg draumur að sjá að þetta sé að smella,“ segir Hallur J. Gunnarsson sem fer fyrir Hollvinasamtökum Reykjanesvita. Félagsskapurinn opnaði sýninguna Leiðarljós í lífhöfn – Saga Reykjanesvita og sjóslysa í gamla vélarhúsinu við Reykjanesvita á safnahelgi á Suðurnesjum. Sýningin er samstarfsverkefni Hollvinasamtaka Reykjanesvita og nágrennis og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri og hönnuður er Eiríkur P. Jörundsson.

Reykjanesviti

Upplýsingar um nöfn látinna Íslendinga á sjó á 20. öldinni.

Hallur bauð FERLIRsfélögum að skoða sýninguna, en hann fékk m.a. til liðs við Hollvinasamtök Reykjanesvita við uppsetningu sýningarinnar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – sýningin er í húsinu lengst t.h.

Sýningin á Reykjanesi er í húsi sem var byggt 1936 sem radíóviti en hefur lengi vel verið kallað vélarhús. Nú stendur til að merkja húsið sem radíóvita en auk sýningarrýmis er í húsinu salernisaðstaða fyrir ferðafólk sem leggur leið sína að Reykjanesvita.

Gríðarlegur tollur til Ægis konungs

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Eiríkur P. Jörundsson kom að uppsetningu sýningarinnar um Reykjanesvita og sögu sjóslysa við Reykjanesskagann. Hann segir efnið vera á sínu áhugasviði en Eiríkur skrifaði meistararitgerð um fiskveiðar við Faxaflóa og vann í áratug á Sjóminjasafninu í Reykjavík. „Ég þekki þessi mál vel og hef kynnst þeim og það hefur verið mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni. Þetta er svo gríðarlega mikil saga þegar við tökum sjóslysin inn í þetta og tengjum það við samfélagið sem er að breytast og uppbygging á þessu neti vita í kringum landið og hvernig menn hafa verið að bæta öryggi sjófarenda. Þetta var rosalegt á síðustu öld og reyndar um aldir. Árabátarnir fórust hér alveg umvörpum og þetta var mikið högg fyrir þessi litlu samfélög.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fjölmargir sjóskaðar hafa orðið við Reykjanesið í gegnum tíðina.

Á vegg hér á sýningunni verðum við með nöfn allra þeirra sem fórust í sjóslysum við Íslandsstrendur ár 20. öldinni. Það er gert sem virðingarvottur og að fólk átti sig á því hvað þetta er mikið fyrir þessa litlu þjóð. Megnið af þessum sjósköðum urðu á fyrri hluta aldarinnar. Þetta eru um 3.400 manns sem fórust á síðustu öld en það eru að jafnaði 35 manns á ári alla síðustu öld og þætti mikið í dag. Á fyrri hluta síðustu aldar voru þetta 54 sem fórust að meðaltali á ári á árunum 1900 til 1950 og þá var íslenska þjóðin innan við 180.000 manns. Þetta voru gríðarlegir tollar sem við vorum að greiða Ægi konungi fyrir afnot af hafinu og fiskimiðunum.“

Engum datt í hug að sigla til Íslands á veturna

Reykjanesviti

Reykjanesviti. Efnisöflun fór landleiðina. Gjótið í fyrsta vitann, sem og í þann síðari, var unnið úr hraunhellu vestan Valahnúks.

Hversu mikið mál var það árið 1878 að reisa fyrsta vita landsins hér á Reykjanesi og af hverju var hann staðsettur hér?

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur.

„Það er gaman að segja frá því að þegar Íslendingar fengu sjálfstjórn og sitt eigið löggjafarþing og fjárveitingarvald árið 1874, þá var þetta eitt af fyrstu málunum á fyrsta þinginu að samþykkja byggingu vita. Fram að þeim tíma höfðu bara verið siglingar til landsins á sumrin og það datt engum í hug að sigla hingað frá Evrópu á veturna. Með vaxandi kaupmannastétt í lok 19. aldar þá fer að koma þörf fyrir vita því það vildi enginn sigla hingað yfir vetrarmánuðina nema það væri viti og í raun kom hvergi annars staðar til greina að setja vita en hér á Reykjanestánni. Hér koma menn upp að landinu og mikilvægt að það sjáist strax hér hvað þú ert staddur. Það var því ráðist í það strax að koma upp þessum vita því þessi siglingaleið fyrir Reykjanesið er hættuleg og flest skip sem voru að koma frá Evrópu voru á leið til Reykjavíkur. Menn fóru því í þetta brölt og fengu Dani með sér í lið. Danskur verkfræðingur hannaði vitann og sá um framkvæmdir hérna 1878 en þeir voru hérna allt sumarið og fram á haust. Þetta var gríðarlega erfitt. Þetta var afskekkt og hér var ekkert nálægt. Það var ekki hægt að lenda bátum í fjörunni og hestar þurftu að fara yfir úfið hraun. Það var ekki hægt að nota neitt grjót hér í kring því hér er bara hraun. Það þurfti því að flytja allt um langan veg. Það sem kom að utan var sett á land í Keflavík. Það var flutt á litlum bátum í land í Keflavík og þar dröslað upp á hesta sem fluttu það hingað á Reykjanes. Hér hýrðust menn í tjöldum, hátt í tuttugu manns allt sumarið, og sá danski kvartaði yfir því meira og minna allt sumarið að það væri alltaf kolvitlaust veður. Þetta gekk því ekki eins hratt og menn ætluðu sér en þetta tókst og það var kveikt á vitanum 1. desember 1878 og þá var fyrsti viti landsins kominn í gagnið,“ segir Eiríkur.

Margir að uppgötva þetta svæði í dag

Reykjanesviti

Reykajnesviti 1915.

Hallur fer fyrir Hollvinasamtökum Reykjanesvita og segist hafa haft áhuga á sögu og minjum allt frá barnæsku. Í gegnum Sögu- og minjafélag Grindavíkur hafi áhuginn á Reykjanesvita vaknað. Fyrir nokkrum árum hafi hann, ásamt Ólafi Sigurðssyni, farið og skoðað konungsskildina sem voru á Reykjanesvita á Bæjarfelli þegar hann var reistur. Þar hafi boltinn farið að rúlla og ákveðið að stofna sérstakt félag um verkefnið á Reykjanesi, sem var uppsetning á konungsskjöldunum, sýningin í radíóvitanum og framtíðardraumurinn er, að sögn Halls, að semja við Vegagerðina, sem á og rekur Reykjanesvita, um að þar verði leyfilegt að taka á móti fólki og hleypa því upp í vitann.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjóthleðsla neðan Valahnúks.

„Svo vitum við að Reykjanes Geopark er búinn að undirbúa gönguleiðir um svæðið en á þessu svæði er hægt að gera svo margt skemmtilegt. Það eru til dæmis ennþá til steinar hérna úr fyrsta vitanum sem mætti færa til, raða upp og gera eitthvað skemmtilegt með,“ segir Hallur og Eiríkur bætir við: „Það eru margir að uppgötva þetta svæði í dag. Við erum hérna í október og það er stöðugur straumur af fólki hérna, ferðamönnum. Þegar við fórum að grúska í þessari sögu þá kemur í ljós að vitinn hérna varð strax vinsæll til heimsókna. Menn voru að koma hérna á sumrin og fá að skoða vitann. Ásóknin var svo mikil að vitaverðir voru farnir að kvarta undan þessu því það tók frá þeim tíma að vera alltaf að taka á móti gestum og svo þurfti að bjóða uppá kaffi og með því, þannig að þetta voru heilmikil útgjöld fyrir vitaverðina. Vitaverðir sóttu því um heimild fyrir því að selja inn í vitana. Það var leyft og jafnframt var sett reglugerð hvernig á að meðhöndla þessa gesti.“

Í gegnum tíðina hafa orðið hér mörg alvarleg sjóslys.
„Já og við verðum með sjóslysakort hérna sem var unnið fyrir okkur og munum sýna alla sjóskaða sem orðið hafa við Reykjanesið og þeir eruu gríðarlega margir því ég held að það hafi hvergi á landinu orðið fleiri sjóskaðar en við Reykjanes. Þetta var algeng siglingaleið og svo var vetrarvertíðin hér í skammdeginu og versta veðrinu,“ segir Eiríkur.

Stórslys á forsíðum blaðanna

Reykjanesvit

Reykjanesviti – Frásögn af slysi Jóns forseta.

Á sýningunni í Radíóvitanum á Reykjanesi eru m.a. forsíður dagblaða frá síðustu öld þar sem sagt var frá stórum sjóslysum. Meðal annars er sagt frá strandi Jóns forseta á Stafnesi. Þar fórst öll áhöfnin en í landi stóðu menn og horfðu á og gátu ekkert gert. Slysið við Stafnes varð endanleg kveikja þess að stofnaðar voru slysavarnadeildir um allt land.

Reykjanesviti

Fróðleikur um fyrrum vitaverði á Reykjanesi.

Á sýningunni á Reykjanesi er fjöldi ljósmynda og upplýsandi og fróðlegur texti. Sýndar eru myndir af fyrsta vitanum á Valahnúk og einnig frá byggingu vitans á Bæjarfelli. Eins og í dag þá höfðu jarðskjálftar áhrif á Reykjanesi í gamla daga. Fljótlega, eða um ttuttugu árum síðar, var farið að huga að nýjum vita á Bæjarfelli því jarðskjálftar og brim höfðu áhrif á Valahnúk. Hrunið hafði úr klettinum og ef ekkert hefði verið að gert þá hefði vitinn fallið fyrir björg og í hafið.

Fyrsti vitavörðurinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fyrsti vitavörðurinn.

Reykjanesviti þurfti mikla umhirðu fyrstu áratugina eins og vitar almennt á þeim tímum. Þar að auki var hann byggður á afskekktum stað og torfarið að komast að og frá vitanum. Því var ekki annað til ráða en að hafa starfandi vitavörð í fullu starfi sem byggi á staðnum og sinnti vitanum.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1910.

Þar sem vitagæslan þurfti að vera stöðug varð ekki komist hjá því að hafa þar a.m.k. tvo menn að störfum. Arnbirni Ólafssyni, fyrsta vitaverðinum, var skylt að halda aðstoðarmann og greiða honum kaup af árslaunum sínum. Honum þótti hins vegar launin lág og þegar haustið 1879 var kominn í hann brottfararhugur. Í bréfi hans til Jóns Jónssonar landritara segir hann að hann sé alltaf að sjá betur og betur að ómögulegt sé að „komast af með 2 menn til að gæta vitans, vegna þess að verði eitthvað að öðrum þeirra, eða þurfi að leita til byggða einhverra orsaka vegna, þá er ef til vill ekki fært öðrum en fullröskum karlmanni og þó valla að komist verði til baka aptur sama dag þegar stuttur er dagur. Þess vegna er óumflýjanlega nauðsynlegt að hafa 3ja mann yfir veturinn …“.

Þá féll Arnbirni illa að búa í þeirri miklu einangrun sem fylgdi vistinni. Þegar við bættist að brunnurinn varð stundum vatnslaus á veturna svo heimilisfólkið varð að láta sér nægja „klaka og skítugan snjó“ svo dögum skipti og torfþakið á vitavarðabænum lak svo hann varð fullur af sagga varð vistin lítt eftirsóknarverð. Arnbjörn sagði endanlega upp og fékk lausn frá embættinu 1. ágúst 1884. Við stöðunni tók Jón Gunnlaugsson skipasmiður og gegndi starfinu til ársins 1902.

Reglur um heimsóknir gesta í vita

Reykjanesviti

Í Stjórnartíðindum frá 1897 eru birtar reglur um heimsóknir í vita. Þar segir m.a.: „Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara.“

Veturnir voru oft langir og tilbreytingasnauðir á afskekktum vitastöðum líkt og lengi var á Reykjanesvita – en vitarnir urðu fljótt vinsælir til heimsókna á sumrin og jafnvel svo að vörðum þótti nóg um. Vitaverðir við Faxaflóavitana kvörtuðu undan því að þeir yrðu fyrir umtalsverðum töfum frá vinnu og hefðu þar að auki „eigi allsjaldan önnur óbeinlínis útgjöld við slíkar gestakomur samkvæmt gamalli íslenskri siðvenju“. Þeir fóru fram á heimild til að taka gjald af gestum og var það samþykkt árið 1910. Nokkrum árum fyrr höfðu verið gefnar út sérstakar reglur varðandi heimsóknir gesta í vitana, eins og fram kemur í Stjórnartíðindum frá 1897. Þar segir m.a.:

Reykkjanes

Skipsströnd utan við Reykjanes.

„Aðkomumenn skulu rita nöfn sín, stöðu og heimili í þar til gjörða bók, áður en þeim er sýndur vitinn. Ekki má hleypa fleirum inn í vitann en rúm leyfir. Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara. Vitavörður skal vera þægilegur í viðmóti við þá, sem óska að sjá vitann, og skýra þeim frá ásigkomulagi allra vitafæranna. Á þeim tíma, er logar á vitanum, leyfist engum aðkomandi manni að ganga í vitann.“

Um sýninguna á Reykjanesi

Reykjanesviti

Reykjanesviti ~1960.

Um aldir, líkast til alveg frá landnámi, hafa Íslendingar þurft að færa Ægi konungi miklar fórnir. Annars vegar veitti hafið landsmönnum greiða för milli staða og landa og í djúpin sóttu menn í gullkistuna sem fiskimiðin hafa ætíð verið hér við land. Hins vegar voru siglingar og veiðar hættuspil, ekki síst yfir skammdegið þegar allra veðra var von. Sjóskaðar og manntjón voru daglegt brauð og oft voru hoggin stór skörð í lítil samfélög þegar skip og bátar fórust.

Bygging Reykjanesvita á Valahnúk árið 1878 markaði tímamót í siglingsögu landsins. Það sýnir vel þá þörf sem landsmenn höfðu fyrir vita og öruggari siglingar að og umhverfis Ísland að frumvarp um byggingu vita var lagt fyrir á fyrsta löggjafarþinginu árið 1874, eftir að Íslendingar fengu stjórnarskrá og Alþingi fékk löggjafar- og fjárveitingavald. Ekki er að sjá að komið hafi til greina að reisa fyrsta vita á Íslandi annars staðar en á Reykjanesi, enda munu langflest skip sem til Íslands komu hafa átt erindi fyrir Reykjanes og leituðu því upp að suðvesturhorni landsins.

Reykjanesviti

Reykjanesviti í dag, okt 2021, „Radíohúsið“ t.h.

Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa farist á sjó í gegnum aldirnar og sjómenn eiga skilið að þeirra fórna sé minnst. Þessi saga er hrikaleg og erfið oft á tíðum að meðtaka en um leið er þetta saga hugrekkis og krafta sem tekst að leysa úr læðingi þegar aðstæður krefjast og menn þurfa að snúa bökum saman.

Reykjanesviti

Árið 1905 var svo komið að jarðskjálftar og brim höfðu brotið svo mikið úr Valahnúk að hætta var talin á að Reykjanesviti félli í hafið. Var því ákveðið að reisa nýjan vita. Á árunum 1907-1908 var byggður nýr viti á Bæjarfelli á Reykjanesi. Gamli vitinn var felldur með sprengingu þann 16. apríl 1908. Alþingi veitti fé til byggingar vitans til að flýta fyrir framkvæmdum.
Vitinn er byggður úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Þeir Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur teiknuðu vitann. Framkvæmum lauk á Þorláksmessu 1907 og kveikt var á vitanum 20. mars 1908.

Sýningunni er ætlað að veita örlitla innsýn í mikla og mikilvæga sögu sjóslysa og uppbyggingar á vitum til að auka öryggi sjófarenda. Um leið gera aðstandendur hennar sér vonir um og fyrirætlan að sýningin vaxi og geri sögunni betri skil til lengri tíma. Til stendur að reisa þjónustu- og upplýsingamiðstöð í því magnaða umhverfi og náttúru sem umlykur Reykjanesvita og þangað á slík sýning mikið erindi.“

Heimild:
-Víkurfréttir – Laugardagur 23. október 2021 kl. 06:03; Leiðarljós í lífhöfn, Áhugaverð sýning um Reykjanesvita og sögu sjóslysa á Reykjanesi.
-Hallur J. Gunnarsson.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – upplýsingaskilti.