Þegar FERLIR hitti Ellert Skúlason, verktaka, vakti hann athygli á eftirfarandi lýsingu af “Tanahelli” eða Dollunni svonefndu:
“Allt fram til ársins 1970 var hellirinn hulinn mönnum en það ár var unnið að endurbótum á Grindavíkurveginum og hafði Ellert Skúlason verktaki úr Njarðvík það verk með höndum. Dag einn þegar þungavinnuvélamaðurinn Jónatan Einarsson var að ryðja stóru og miklu efnishlassi frá vegalögninni, varð hann var við að hlassið, sem hann hafði rutt á undan sér, hvarf skyndilega ofan í jörðina. Vönum vélamanninum var nokkuð brugðið við þetta og stökk út úr jarðýtunni til að kanna aðstæður. Blasti þá við honum stærðarinnar gat í hrauninu en hlassið hvergi sjáanlegt. Við nánari skoðun tók hann jafnframt eftir því að jarðýtan, sem var stór og sýr vél á þeirra tíma mælikvarða, stóð að því er virtist á þynnri skán á þaki hellsis sem þar var undir. Til að bjarga ýtunni hentist Jónatan því uppí hana og bakkaði á fullri ferð góðan spöl til baka. Hafði Jónatan á orði þegar hann sagði frá þessu atviki að hefði hann haft meiri tíma til að hugsa sig um og skoða aðstæður, hefði hann sennilega ekki tekið þessa áhættu.
Fálagi hans við verkið, Gunnar Mattason, bar skjótt að og furðaði hann sig með Jónatan á þessum nýuppgötvaðasta helli veraldarinnar. Bundu þeir spotta í jeppa Gunnars og seig hann niður í myrkrið. Þar var þó enga viðspyrnu að finna heldur hékk hann í lausu lofti. Var því nokkuð bras að koma honum upp aftur þó það tækist að lokum með því að setja lykkjur á spottann. Enda kom síðar á daginn þegar Jónatan fór í könnunarleiðangur um hellinn ásamt félögum sínum í Björgunarsveitinni Stakk frá Keflavík, að hann var bæði djúpur og stór. Sigu þeir niður í hellinn og skoðuðu hann að dýpt og lengd. Í þeirri ferð skriðu þeir eins innarlega og þeir komust og settu þar inn flöskuskeyti sem þeir voru búnir að útbúa með nafni Tana en það var gælunafnt Jónatans, eftir það var hellirinn ávallt kallaður “Tanahellir”.
Síðar voru gerðar tilraunir til þess að fylla hellinn og brjóta af hellisþakinu þar sem það var þynnst til þess að koma í veg fyrir að fólk slasaðist af hans völdum. En hann var svo stór að efnið sem sett var í hann hafði lítið að segja.
Fleiri minjar urðu til um vinnu þeirra við Grindavíkurveginn. Eftir sprengingu við vegarlögnina var einn stór og mikill steinn sem skar sig úr er stærðar varða. Dunduðu þeir félagar sér við það í tvö kvöld við þriðja mann, Sigurð að nafni, að reisa steininn upp með jarðýtum og stóð til að setja á hann skjöld þar sem tilurð hans væri lýst. Af því varð ekki, en steinninn er vel sjáanlegur frá veginum norðanmegin á móti tanknum við Þorbjörn.
Sólveig Þórðardóttir, eiginkona Jónatans, skrifaði þess lýsingu eftir sögu hans.”
Tanahellir er á Gíghæðinni og er sami hellir og nefndur hefur verið “Dollan”. Hellirinn er fast við hlið áningarstaðar (plans), sem lagður hefur verið bundnu slitlagi vestan vegarins. Beggja vegna hans má slá leifar gamla malarvegarins til Grindavíkur sem lýst er hér að framan. Hægt er að komast niður í rásina um tréstiga, sem komið hefur verið þar fyrir.