Færslur

Klöpp

Þótt tóftir bæjarins Klappar austan Buðlungu í Þórkötlustaðahverfi Grindavíkur gefi ekki til kynna mikil merkilegheit er þar margs að minnast.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur 2018.

Fjallað er um bæjarstæðið í skýrslu um “Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð“. Þar segir m.a. um Klöpp og nágrenni:
“Þórkötlustaða er getið 1270 í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Hjáleigur 1703 voru: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.

Buðlunguvör

Buðlungavör

Buðlungavör 2023.

“Í klapparskoru (bás) við sjóinn framan við eystri Þórkötlustaðabæina er Buðlungavör. Þessi lending var notuð þegar hægt var,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar. “Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni
eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi,” segir í örnefnaskrá AG.

Buðlungavör

Buðlungavör – för eftir kili árabátanna á klöppinni ofan vararinnar.

Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.” segir Guðsteinn Einarsson. Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestari-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austur, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austanvið klöppina er lygnara en þar er lendingin í Buðlunguvör. Buðlungavör er um 175 m suðaustan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 70 m beint suður af Buðlungu. Ryðgaðir festarboltar eru á þessum slóðum við sjóinn. Stórgrýttur sjávarkampur og svartar hraunklappir í sjó fram. Vörin er stórt skarð í klettana um 15-20 m langt og 10 m breitt. Samkvæmt Lofti Jónssyni var lent upp við klöpp við vörina vestanverða og síðan var aflinn borinn upp á klöppina fyrir ofan sem nefnd var Skiptivöllur.

Teigur (eldri)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

“Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson (94 ára) við bæjarstæði Klappar.

Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus [Harður]. Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35x 12m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást.

Öskugarður

Klöpp

Klöpp – Suðurgarður efst. Öskurgarðurinn kominn undir kampinn.

Garðlag sem líklega hefur að hluta til verið varnargarður lá áður frá túninu í Buðlungu/Klöpp og til vesturs alla leið að kálgörðum frá Austurbæjum Þórkötlustaða. Garðurinn hefur einnig markað af suðurhlið túna sem tilheyrðu Buðlungu/Klöpp. Segja má að þetta garðlag og suðurhlið hans austar hafi mögulega tengst en á milli er túnskiki Buðlungu/Klappar auk þess sem suðurhlið fyrrnefnds garðs er alveg horfin í rof. Garðurinn sem hér er skráður hefur upphaflega verið tæpir 110 m á lengd og var fast ofan við fjörukambinn. Á þeim slóðum sem garðurinn var hefur sjórinn þeytt yfir nokkru grjóti og er garðurinn alveg horfinn á löngum kafla.

Verbúð

Klöpp

Hraunreipi neðan sjávargötu Klappar að Buðlungavör. Minjar verbúðarinnar eru nú horfnar, enda segir Árni að “drjúgur hluti Klappartúnsins” sé kominn undir kampinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Heimræði árið um kring og gánga þar skip heimabóndans. item áttært skip dómkirkjunnar um vertíðina, og fylgja því staðarins skipi bæði búð og vergögn, sem staðurinn við magt heldur”. Ekki er vitað hvar verbúðin hefur verið en líklegast hefur hún verið neðan við Þórkötlustaði eða á milli bæjarins og Buðlungu. Elsta þekkta lýsing á verbúðum í Þórkötlustaðalandi er í úttekt frá 4, júní 1738 þar sem getið er um tvær „sjómannabúðir. Var önnur þeirra í tveim stafgólfum, en hin í þrem, og báðar sagðar vel stæðilegar. Þessar búðir hafa að líkindum aðeins hýst eina skipsáhöfn hvor, en einnig voru til búðir fyrir tvær skipshafnir.“ segir í Sögu Grindavíkur.
Hafa ber í huga að sjávarkampurinn hefur sífellt verið að færa sig upp á landið ofanvert. Árni Guðmundsson vitnar um það í viðtali á Klapparstæðinu, þá 94. ára.

Buðlunga (elsta staðsetning)

Klöpp

Klöpp og hluti gömlu Buðlungu neðst t.v.

1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,” segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram af þeim.

Buðlunga (yngra bæjarstæði) 

Klöpp

Tóftir Klappar og Buðlungu.

1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.” segir í sóknarlýsingu. “Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,” segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir:
“Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingu, matjurtagarðar 200 □ faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefa af sér 55 hesta, mætti græða út. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar
virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu. Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er tihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana. Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp.

Klöpp

Klöpp

Klöpp – sjórinn hefur brotið landið neðanvert í gegnum aldirnar…

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13.
Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,” segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930.  Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.

Klöpp (yngra bæjarstæðið)

Klöpp

Klöpp – yngsta bæjarstæðið.

1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,” segir í sóknarlýsingu. “Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig.

Guðmundur Jónsson og margrét Árnadóttir í Klöpp.

Klapparhjónin Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir.

Í fasteignamati 1916-1918 segir: “Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson við gömlu Klöpp.

Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5×21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin framan við bæjardyrnar, beint fyrir utan baðstofugluggann, sem var austan við eldhúsið. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.

Gata

Klöpp

Sjávargatan frá Buðlungavör að Klöpp.

Sjávargatan frá Klöpp lá frá Klapparbænum gamla og niður að sjó í gegnum sjóvarnargarðinn. Gatan er merkt inn á túnakort frá 1918. Túngarður Klappar
myndaði vesturhlið traðanna alla leið að bænum, þar sem var hlið á túngarðinum en hlaðinn var traðarveggur að austan. Umhverfis traðirnar er grasi gróin slétta. Hólfið er nýtt fyrir hross og sést traðk og hrossaskítur víða.
Túngarður Klappar/Buðlungu markar vesturhlið traðanna frá suðurenda þeirra (þar sem hlið hefur verið á sjóvarnargarði) og hálfa leið heim að tóft Klappar eða samtals 28 m löngum kafla. Vesturveggurinn (túngarðurinn) mjög stæðilegur, víða 1 m á hæð en um 1,5 m þar sem mest er. Í veggnum sjást 6-8 umför af hleðslu. Austurhlið traðanna er 1-2 umför af grjóti. Hæð að innri brún allt að 0,5 m en ytri brún er ógreinilegri. Veggurinn er 0,3 á hæð og 0,8 m á breidd.
Austurhliðin er merkjanleg á um 16 m kafla. Um 4 m norðan við suðurenda traðanna hefur verið hlaðið þvert yfir þær, og girðing strengd þvert yfir svæðið. Timburþil hefur einnig verið lagt yfir traðarendann að sunnan.

Klöpp (þriðja bæjarstæði)

Klöpp

Klöpp – eldhúsið.

“Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra bæjarstæðið og er það bæjarstæði skráð undir þessu númeri. Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.

Klöpp

Klöpp – bæjarstæðið.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: “”Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]” Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Árni staðfesti það síðar í viðtali. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.

Hlaða

Klöpp

Klöpp – hlaðan.

Stæðileg útihúsatóft er um 14 m sunnan við bæjarstæði Klappar. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var heyhlaða á þessum stað sem faðir hans byggði. Guðmundur seldi reif svo húsið og seldi Indriða Guðmundssyni sem flutti það að Auðsholti. Túngarður markar af túnstæði Klappar/Buðlungu. Nú er beitarhólf fyrir hross á þessum slóðum. Tóftin er 11×7 m stór og snýr norður-suður. Hún er grjóthlaðin en gróin og eru veggir alveg yfirgrónir að utanverðu. Hún skiptist í tvö hólf og er það vestara stærra. Það er 6×3 m að innanmálin austur-vestur og virðist hafa verið opið til vesturs þótt þar megi greina lága hleðslu ofan í tóftinni. Aðrir veggir eru stæðilegir og stendur norðurveggur best, í allt að 1,8 m hæð og sjást þar 14-15 umför af börðu sjávargrjóti. Austan við er lítið hólf 3,4×1,7 m að innanmáli sem snýr norður-suður og er opið til suðurs. Ekki er op á milli hólfa en veggurinn sem er á milli hólfanna er mjög mikið hruninn (0,6 m á hæð).

Klöpp

Klöpp – hlaðan.

Tæpum 1 m frá suðvesturhorni tóftarinnar er lítill ferningur um 1 m á kant, líkt og þar hafi grjót verið hlaðið undir e.k. mannvirki. Til austurs frá tóftinni er um 4 m löng hæð sem er 0,5 m hærra en umhverfið og nær hún að túngarði. Þar sem hæðinni sleppir virðist mögulega hafa verið götutroðningur meðfram sunnanverðri tóftinni, samkvæmt túnakorti frá 1918. Ekki hefur þó verið op á túngarðinum á þessum stað og ekki sjást greinileg merki götunnar og hún er því aðeins skráð undir þessu númeri en ekki á sérstöku númeri eins og flestar verulegri götur sem þekktar eru á svæðinu.

Gata

Klöpp

Klöpp – Slokahraun og Hraun. Klapparbændur notuðu Slokahraunið til fiskverkunar.

Götur lágu áður þvert yfir tún Klappar og eru hlið eða op á túngarð Klappar að austan og vestan þar sem göturnar lágu í gegnum hann. Göturnar eru merktar inn á túnakort frá 1918. Götunum er viðhaldið að hestum en svæðið er nú beitarhólf hrossa. Göturnar lágu fyrir sunnan eldra bæjarstæðið en fyrir norðan það yngsta á þessu svæði. Ógreinilegar götur sjást á þessum stað í gegnum túnið, um 20 m langar. Ekki er hægt að merkja framhald þeirra til vesturs (þar sem margvíslegt rask hefur átt sér stað) en hægt er að rekja þær í um 50-60 m um túnið til austurs, þar til komið er að lítilli tjörn sem þar er.

Hrútakofi

Klöpp

Klöpp – fjárhústóft.

Samkvæmt Lofti Jónssyni var hrútakofi neðst eða syðst í túninu hjá Buðlungu/Klöpp. Árni Guðmundsson hafði greint honum frá þessu og Loftur taldi að það hefði verið umræddur kofi sem hefði horfið í flóðið 1925 og Árni greindi frá í viðtali 1986. Á þessum stað er grastó í sjávarkampinum beint niður af Klapparbænum. Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað.
Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað. Samkvæmt frásögn Árna Guðmundssonar (1891-1991) fóru mörg hús við Klöpp/Buðlungu mjög illa í Stórflóðinu 1925. Árni hafði þar hrút í kofa sem var járnklæddur. Þegar Stórflóðið varð þá tók þakið ofan af húsinu og hrútinn og allt. Þegar Árni kom daginn eftir var allt á kafi í sjó. Það varð bið á því að Árni kæmist en um kaffileytið daginn eftir þá sér er byrjað að fjara af túninu og þá fer hann að sjá ofan á kofann. Árni var viss um að hrúturinn væri dauður. Þegar hann loksins kemst að húsunum heyrir hann jarm og þá hafði hrútinum orðið til lífs að smá loftrými virðist hafa verið efst í húsinu. Þótti þetta talsvert merkilegt. Í sama flóði bjargaðist hestur Guðmundar bróður hans sem var í kofa á sömu slóðum.

Upphaf og þróun byggðar í Þórkötlustaðahverfi

Túnakort

Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.

Náttúrufar í Grindavíkurhreppi einkennist af miklum eldshræringum sem hafa mótað svæðið allt frá því á forsögulegum tíma. Landbrot hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið enda er landsig hér á landi hvergi meira en einmitt á þessum slóðum. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál í hreppnum og hafa áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum. Sökum alls þessa er stór hluti hreppsins óbyggilegur. Meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna leynast þó víða grænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. Í mörgum þessara vinja hefur líklega snemma myndast þéttbýli á íslenskan mælikvarða og íbúar reitt sig á sjósókn samhliða skepnuhaldi. Þórkötlustaðahverfið er dæmi um slíkt svæði. Í þessum kafla verður gerð tilraun til að rýna í tiltækar vísbendingar um upphaf og þróun búsetu í Þórkötlustaðahverfi, allt fram á þennan dag.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðatorfan.

Þegar reynt er að ráða í byggðarþróun á tilteknu svæði má nota ýmsar vísbendingar sem finnast við fornleifaskráningu, úr fornum ritheimildum, stærð og dýrleika jarðar, jarðarheiti og landgæði til að setja fram tilgátur um upphaf og þróun byggðar. Kuml eru sjálfstæð vísbending um búsetu fyrir árið 1000 og kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku og vitna því um hið sama. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og
dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

Samkvæmt Landnámubók var landnámsmaður í Grindavík Molda-Gnúpur Hrólfsson. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðmæri í Noregi, en bróðir hans var Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann samkvæmt Landnámu þar til landið spilltist af jarðeldum og flúði hann þá vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn. Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar.

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir. Um tímasetningu landnáms í Grindavík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér
stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík.
Hvergi er hins vegar talað um hversu margir fylgdu Molda-Gnúpi. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má geta þess til að þeir hafi byggt fjóra stærstu bæina í Grindavík: Stað, Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og þá mögulega Hraun.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)

Haldbetri fornleifafræðileg vísbending um forna búsetu í Þórkötlustaðahverfi er hins vegar að finna í þeim minjum sem komið var ofan í þegar hlaða var byggð á bæjarhól Þórkötlustaða, um aldamótin 1900. Þar komu í ljós leifar skálabyggingar sem líklega er frá fyrstu öldum byggðar og bendir það eindregið til að byggð hafi verið komin á snemma í hverfinu og að sjálft bæjarstæðið hafi verið á svipuðum slóðum allt frá fyrstu öldum.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Á móti vegur sú staðreynd að byggð í Grindavík skiptist snemma í þrjú hverfi sem ætla mætti að hverfðust um elstu og bestu jarðirnar en þau eru kennd við jarðirnar Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Samanlagt verður að teljast líklegt að Þórkötlustaðir sé á meðal elstu jarða í Grindavíkurhreppi og líklegast að hún hafi komist í byggð á 9.-10. öld þótt frekari rannsókna sé þörf til að fullyrða nokkuð um það.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – varða.

Þótt ekki séu ítarlega heimildir tiltækar um Þórkötlustöðum á miðöldum er jarðarinnar getið á nokkrum stöðum í Fornbréfasafni. Athygli vekur að Krýsuvíkurkirkja átti þar landskika a.m.k. frá 13. öld en í máldögum frá þeim tíma og síðar kemur fram að kirkjan eigi „ix mæla land aa Þorkotlustodum“. Mælieiningin „mælir“ lands var notaður um stærðir kornakra og heimildin er því vísbending um akurrækt á svæðinu á fyrstu öldum.
Árið 1534 kemur fram á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi og í heimild frá 1562 er getið um Þórkötlustaði í tengslum við mannsdráp sem þar átti sér stað. Bréf frá árinu 1563 sýnir að jörðin var þá orðin eign Skálholtsstaðar.

Heródes

Heródes – álagasteinn við Þórkötlustaði.

Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.

Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi.

Þórkötlustaðir

Vestari Vesturbær Þórkötlustaða – flugmynd.

Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.
Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum. Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýsluog sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880. Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.

Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.

Í “Fornleifaskráningu í Grindavík, 2. áfanga, 2002” segir m.a. um Klöpp:

Klöpp

Klöpp – tóftir.

1703: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Í sóknarlýsingu 1840 segir: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.” Um 60 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á Buðlungu stendur bárujárnsklædd skemma og suðaustan í henni eru tóftir Klappar. Þar var síðasti Klapparbærinn. Austan skemmunnar er hrossagirðing og lenda tóftirnar að mestu leyti innan hennar. Annars er umhverfis hana sléttað malarplan.

Klöpp

Klöpp – fjárhús.

Svæðið allt er um 50×40 m. Tóftirnar eru tvær, sú syðri minni og væntanlega útihús. Hún er um 9×5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Vestara hólfið er opið til vesturs en hið eystra til suðurs. Fast norðvestan í tóftinni er steypustokkur, e.t.v. einhverskonar þró. Um 10 m norðan við tóftina eru tóftir Klapparbæjarins en skemman hefur rofið norðvesturhluta þeirra. Þær eru mjög greinilegar en ekki er um neinn bæjarhól að ræða. Tóftirnar eru um 22×14 m að stærð og skiptast í sex hólf og gang. Vestasta hólfið er enn undir þaki en mjög sigið. Op eru þrjú, til suðurs, norðurs og vesturs. Báðar tóftirnar eru mjög heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1,3 m en umför allt að átta. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Umhverfis tóftirnar eru grjóthlaðnir túngarðar um 1 m háir. Suðurhluti þeirra liggur alveg í stórgrýttum sjávarkampinum en þó er vel hægt að greina hleðsluna. Norðan í henni miðri er tóftarbrot, mjög ógreinilegt en talsvert er af grjóti í því. Um 20 m sunnan við nyrðri tóftina eru grjóthleðslurnar tvöfaldar og mynda einskonar traðir, um 10 m langar, suður á kampinn.

Klöpp

Árni Guðmundsson í viðtali við ón Daníelsson.

Í myndbandi Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar þar sem Jón Daníelsson í Buðlungu ræðir við Árna Guðmundsson kemur m.a. eftirfarandi fram: Árni: “Hér bjuggu afi minni og amma, Árni Einarsson og Guðrún Árnadóttir, ættuð austan úr Flóa. Hún var frá Gafli í Flóa.”
Í Sögu Járngerðarstaðarættarinnar segir að Árni Einarsson hafi verið fæddur 3. des. 1828 á Þórkötlustöðum, dáinn 14. ágúst 1882 í Klöpp, bóndi í Klöpp og Buðlungu. Kona hans hafi verið Guðrún Gamalíelsdóttir frá Hamri í Gaulverjabæ.
Foreldrar Árna voru Margrét Árnadóttir, f. 29. des 1861 í Hraunkoti í Grindavík, d. 26. ágúst 1947, húsfreyja í Klöpp, og maður hennar Guðmundur Jónsson, f: 19. okt. 1858 á Þórkötlustöðum, d. 3. des. 1936, bóndi og sjómaður. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi á Þórkötlustöðum og Valgerður Guðmundsdóttir frá Hrauni. Þau eignuðust sjö börn; Einar Guðjón, Guðrúnu, Valgerði, Jón, Árna, Guðmund Ágúst og Guðmann Marel.”

Klapparbletturinn er, skv. framangreindu, merkilegur fyrir margra hluta sakir. Slíkar minjar ber að varðveitta, þótt ekki sé fyrir annað en að minnast sögu fólksins, sem þar bjó…

Heimildir:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Myndband Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar – https://vimeo.com/113794968
-Fornleifaskráning í Grindavík, 2. áfangi, Reykjavík 2002.

Klöpp

Klöpp – skemma í Austurtúninu.

Teigur

Í skýrslu um “Húsakönnun í Þorkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð” frá árinu 2018 eru teknar saman upplýsingar um hús í hverfinu.

Teigur

Teigur 1988.

Um sambyggðu húsin Klöpp og Teig segir: “Teigur var byggt 1934. Fyrstu eigendur voru Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir. Um er að ræða metnaðarfullt steinsteypuhús frá fyrri hluta 20. aldar. Það er lítið breytt og er hluti af svipmóti hverfisins. Húsið var byggt 1934, sambyggt Klöpp sem byggð var fjórum árum áður. Steinsteypt hús, ein hæð með einhalla bárujárnsþaki. Útveggir suðvesturhliðar og beggja gafla ná upp fyrir þakið. Þeir eru láréttir að ofan með tökkum. Um tvö sambyggð hús er að ræða en þau eru svo keimlík að nær er að fjalla um þau sem eitt hús með tveimur íbúðum.

Klöpp

Klöpp 2008.

Útidyr eru á göflunum. Við suðurgaflinn er lítil viðbygging úr steinsteyptum hleðslusteinum en sambærileg bygging er ekki á Klöpp. Suðausturhluti hússins hefur verið með skeljasandsmúrhúð á suðurhlið sem að mestu leyti hefur máðst af. Lítilsháttar munur er á frágangi við þakbrún húshlutanna tveggja.

Að Teigi er upphleypt, lárétt brík neðan við takkana en á Klöpp er lítilsháttar láréttur stallur í sömu hæð og efri brún bríkur á Teigi. Á norðvesturhliðinni slútir þakskeggið fram yfir útvegginn.

Teigur

Teigur og Klöpp 2023 – Þorbjarnarfell í bakgrunni.

Gluggaskipan er líklega óbreytt frá upphafi en gluggar hafa allir verið endurnýjaðir og póstaskipan líklega breytt. Búið er í Klöpp en ekki á Teigi.
Stíleinkenni sem þessi hafa gjarna verið kennd til gotnesk áhrif. Einar Erlendsson húsameistari teiknaði nokkur hús í Reykjavík með þessum einkennum, meðal annarra hús Sturlubræðra við Laufásveg. Nokkuð sérstætt hús.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

“Húsin byggðu hjónin Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir árið 1934. Þau bjuggu áður í Gamla-Teigi sem var fyrir Austan Buðlungu.” Teigur var með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur. Ekkert hús er við Teig en fjárhúskofi var áður um 20 m ASA við en er horfinn.”

Teigur

Teigur og Klöpp 2022.

Um Klöpp eða Vestur‐Klöpp segir: ” Byggingarárið er 1930. Fyrsti eigandi var Guðmundur Guðmundsson og Margrét Andreasdóttir. Um er að ræða metnaðarfull steinsteypuhús frá fyrri hluta 20. aldar, hluti af svipmóti hverfisins. Önnur lýsing er sú sama og um Teig.
Húsið var byggt 1930 en fjórum árum síðar var byggð spegluð bygging við það sem nefndist Teigur. “Húsið byggðu hjónin Guðmundur Guðmundsson og Margrét Andreasdóttir árið 1930. Þau bjuggu áður í Gömlu-Klöpp og síðar í Bjarmalandi”. Um 15 m norðaustan við húsið er geymsluskúr, hús 19. Klöpp áttu einnig annað fjárhús sem stóð nálægt þeim stað sem dreifistöðin er nú við Hraðfrystihúsið en það er horfið.”

Klöpp

Gamla-Klöpp.

Klöpp var myndarbýli austan Buðlungu, en nú sjást einungis rústir gamla torfbæjarins, nokkuð heillegar, sem og skemma og útihús. Á túnakorti 1918 er hluti Klappar sagt vera Gerði, sem engar heimildir eru til um. Líklega er þar um að ræða bæinn Vestur-Klöpp. Timburhús, sem byggt var á jörðinni, svolítið austar, flaut upp í stórviðri árið 1925. Eftir það var húsið fært ofar í landið, þar sem það er nú, samfast samnefndu húsi.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson frá Teigi.

Í viðtali við Árna kom fram að “bærinn Teigur var upphaflega kot sem ég fékk að reisa á jörðinni hans pabba. Þar reisti ég timburhús a hólnum Harðhaus, sem stóð í átta ár. Þegar ég byggði þetta hús áttaði ég mig ekki á því að sjórinn var alltaf að brjóta landið og einu sinni í miklu brimi komu sjóarnir alveg upp að bæjardyrunum hjá mér. Þá varð konan hrædd, sem vonlegt var – ég réðst þá í að rífa húsið og notaði timbrið úr því til að byggja steinhús ofar í þorpinu [þ.e. Teig]. Þar átti ég svo heima alla tíð með fjölskyldu minni og síðast einn þar til í sumar sl. að ég fluttist hingað á Hrafnistu í Hafnarfirði”.

Klöpp

Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Við framangreint má bæta að Ármann Árnason keypti Teig af föður sínum árið 1969. Árni Guðmundsson hafði áður, 1947, keypt hálfa jörðina Klöpp af móður sinni, Margréti Árnadóttur. Sýslumaður setti húsið á uppboð árið 1988 vegna kr. 25.000- bankaskuldar, auk hálfrar jarðarinnar Klappar. Landsbankinn keypti húsið og jarðarhlutann. Ómar Smári, sonur Ármanns taldi gjörning sýslumannsins ólöglegan hvað varðaði hálfa jörðina Klöpp. Eftir áralangan málarekstur samþykkti sýslumaður að afhenta afkomendum Ármanns jarðarhlutann og þar með hlutdeildina í óskiptu landi Þórkölustaðahverfis.

Klöpp

Klapparbærinn vestan Buðlungu.

Eigandi Klappar, Jón Ársæll Gíslason, keypti húseignina Teig af Landsbankanum árið 1992 og nýtti það að hluta til íbúðar uns Sverrir Sverrisson keypti Teig árið 2021 og hefur hann síðan verið að gera húsið upp til heiðurs sæmdarhjónunum er byggðu það upphaflega. Sverrir verður með opið hús fyrir afkomendur hjónanna á afmælisdegi Árna, 4. júní n.k. (2023).

Árni Guðmundsson frá Teigi ­ minning 1991

Þórkötlustaðir

Vestari-Vesturbær (lengst til vinstri), Miðbær (nú horfinn) og Austurbærinn. Árni Guðmundsson segir frá.

Árni fæddist 4. júní 1891 og lést 29. apríl 1991. Lífshlaupi hans spannaði nánast eina öld; rúman mánuð vantaði hann í 100 árin.
Þau voru falleg hjónin Árni og Ingveldur í Teigi, svo sallafín og strokin með höfðingjafasi, ástfangin eins og unglingar frá því ég sá þau fyrst, allt þar til leiðir skildust, þegar hún var komin þétt að áttræðu. Nú hefir hann aftur hitt fallegu stúlkuna sína eftir rúmlega 20 ára aðskilnað, sem oft hefir verið honum erfiður, en því mótlæti mætti hann einsog öðru, sem á hann var lagt, æðrulaus eins og formanni sæmir. Framan af ævinni var hann einmitt formaður og útvegsbóndi í Klöpp og síðan í Teigi í Grindavík. Það fórst honum vel úr hendi eins og annað, sem hann tók að sér.

Teigur

Teigur – minningarskjöldur.

Ég hefi bæði séð í rituðu máli og eins hefir sagt mér gamall háseti hans, að hann hafi verið frábær stjórnandi til sjós, aldrei tapað stillingu á þeim vettvangi, jafnvel á örlagastundum, sem verða svo margar hjá sjómönnum, ekki síst meðan opnu trillurnar voru aðalfarkosturinn, en einmitt slíkum báti stjórnaði Árni.

Klöpp

Gamla Klöpp – flugmynd ÓSÁ.

Þau hjónin, Árni og Ingveldur Þorkelsdóttir, f. 14. des. 1891, eignuðust 11 börn. Úr þeim hópi misstu þau tvo drengi í bernsku.
Árni var maður gleðinnar, naut sín vel þar sem fagnað var, söng bæði mikið og vel og var lengi í kór í Grindavík. Hann var kátur og hlýr í dagfari og mjög spaugsamur. Það væri efni í væna bókað lýsa persónuleika Árna og fer ég ekki út í þá sálma, en það segir dálitla sögu, að hans hefir oftverið getið í rituðu máli og vitnað bæði til hans og heimilis hans. Hinn þekkti þáttagerðarmaður Jónas Jónasson átti við hann ítarlegt viðtal í útvarpinu fyrir nokkrum árum og fór Árni þar á kostum. Höfð hafa verið við hann blaðaviðtöl og síðast eftir að hann var kominn á tíunda áratuginn. Það var opnuviðtal í Morgunblaðinu.

Árni Guðmundsson

Fyrsta skólfustungan fyrir heimili aldraðra í Grindavík.

Hann kom fram í tveimur kvikmyndum, sem sýndar hafa verið í Sjónvarpinu, og hefir þá eflaust þar ráðið vali kvikmyndastjórans, hvað Árni var mikill persónuleiki í sjón, enda sómdi hann sér vel á hvíta tjaldinu. Hann var með hlutverk í auglýsingu frá DAS, sem lengi birtist á sjónvarpsskjánum.
Árni var fljótur að ná sambandi við fólk, sem hann hitti á förnum vegi. Hann hafði mjög gaman af að spila. Hann var sérstaklega barngóður, enda dýrkaður af afkomendum sínum og því meira, sem þeir voru yngri.

Ingveldur Þorkelsdóttir og Árni Guðmundsson – aldarminning 1991

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – tilgáta

Ingveldur var fædd 14. desember 1891 og lést 21. janúar 1970. Árni var fæddur 4. júní 1891 og lést 29. apríl 1991. Í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu Ingveldar, og 4. júní sl. voru liðin 100 ár frá fæðingu Árna, en hann vantaði rúman mánuð til að lifa það afmæli. Ingveldur var fædd í Lambhaga í Hraunum, dóttir hjónanna Ingveldar Jónsdóttur frá Helludal í Biskupstungum [Jóns Guðmundssonar frá Tortu, Bryggju, Álfsstöðum, Hvaleyri og Setbergi) og Þorkels Árnasonar [frá Guðnabæ í Selvogi] bónda í Lambhaga, síðar á Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Árni var fæddur í Klöpp í Grindavík, sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar frá Þorkötlustöðum á sama stað og Margrétar Árnadóttur, Klöpp, Grindavík.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir ásamt börnum sínum.

Eftir þeim heimildum sem fyrir liggja eru ættir þeirra beggja samansettar af duglegu og umfram allt þrautseigu fólki sem barðist harðri baráttu fyrir tilveru sinni.
Árni og Ingveldur giftust árið 1914 og hófu búskap í Klöpp í Grindavík, síðar í Teigi á sama stað. Þau eignuðust 11 börn á 19 árum. Þau eru í aldursröð: Margrét, fædd 18. febrúar 1915, dáin 9. apríl 1986; Jónína Vilborg, fædd 16. júlí 1917, dáin 24. mars 1968; Dagmar María, fædd 4. apríl 1918; Guðmundur, fæddur 16. janúar 1920; Laufey, fædd 18. júlí 1921; Þorkell, fæddur 3. janúar 1923; Jón, fæddur 25. desember 1925, dáinn 5. janúar 1989; Ingi Ármann, fæddur 18. október 1927, dáinn 4. mars 1934; Unnur, fædd 28. apríl 1929; Vilberg Magnús, fæddur 29. desember 1930, dáinn 27. apríl 1931; Ingi Ármann, fæddur 4. júlí 1934, dáinn 5. desember 1990.

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir.

Ingveldur Þorkelsdóttir og Árni Guðmundsson.

Af framangreindri upptalningu er ljóst að einhvern tímann hefir þurft að taka til hendi, hvíld hefir verið knöpp, frístundir engar, allir framkrókar hafðir til að afla daglegs brauðs. Árni stundaði sjóinn frá barnsaldri, var mjög ungur formaður á opnum árabáti, seinna á stærri vélbáti. Er rómuð stjórnun hans af fyrrverandi hásetum sem voru hjá honum margar vertíðir. Einn tók þannig til orða að Árni hefði verið snillingur í brimlendingu. Segir þetta töluvert um skaphöfn hans.
Ekki fær Ingveldur síðri umsögn síns samferðafólks. Hún var tiltekin fyrir dugnað og myndarskap og hagsýni hennar var óumdeild. Var stundum eins og hún skæfi brauð af steinum. Var tiltekið hvað hópurinn hennar var alltaf vel klæddur og að sjálfsögðu saumaði hún og prjónaði á þau hverja flík.

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir.

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir.

Eins og að framan segir var sjórinn uppistaða afkomunnar. Árni var útvegsbóndi. Með sjónum stundaði hann smávegis búskap, átti nokkrar kindur, eina til tvær kýr og hest. Heyföng voru lítil og erfið, túnið í Klöpp þætti nytjarýrt á nútíðar máta, og til að ná endum saman var hver grænn blettur nytjaður nær og fjær, t.d. heyjuðu þau hjónin nokkur sumur inn á Vigdísarvöllum sem eru milli Hálsa vestur af Krýsuvík. Þangað er löng leið og ekki auðveld frá Grindavík. Þarna sló Árni og Ingveldur rakaði og þurrkaði. Dagsverkið var baggar upp á einn hest. Ef að líkum lætur hefir Ingveldur stundum verið barnshafandi þegar hún var í þessum heyskaparleiðöngrum og geta má nærri hversu örþreytt hún hefir verið að loknu dagsverki. Þetta dæmi er tekið til að gefa okkur allsnægta kynslóðinni smávegis innsýn í lífsbaráttu foreldra okkar.

Árni og Ingveldur

Teigur endurgerður…

Sem betur fer breyttust kjör Árna og Ingveldar til betri tíðar þegar lengra leið á ævina og þau kunnu manna best að njóta þess jákvæða sem hver dagur bar í skauti. Börnin flugu úr hreiðrinu og efnahagurinn batnaði. Þau voru einstaklega samhent og mikið ástríki var á milli þeirra svo til var tekið. Þau nutu þess að taka á móti gestum enda gestkvæmt mjög í Teigi. Mikið og innilegt samband var við börnin og þeirra fjölskyldur, allur frændgarðurinn var aufúsugestir hvenær sem var, svo og tengdafólkið. Teigur var í hugum alls þessa fólks, sannur sælureitur þó húsið væri hvorki hátt til lofts né vítt til veggja rúmaði það óendanlega kærleika húsbændanna, sem allir fundu fyrir sem umgengust þessi elskulegu hjón.

Þessi fátæklegu orð eru sett á blað frá okkur sem nutum ástar þeirra og kærleika og við munum finna fyrir alla okkar daga. Við teljum það mikið lán að hafa átt þessa góðu foreldra sem miðluðu okkur ást sinni og lífsvisku sem hvorki mölur né ryð fær grandað.

Blessuð sé minning okkar elskuðu foreldra.”
Sverrir hefur, auk þess að endurbyggja Teig, komið fyrir í húsinu ættartré þeirra Árna Guðmundssonar og Ingveldar Þorkelsdóttur.  Tréð sýnir 380 afkomendur þeirra hjóna. Þeir eru boðnir velkomnir að Teigi eftir hádegi n.k. Sjómannsdag, 4. júní, þ.e. á fæðingardegi Árna.

Teigur

Teigur – ættartré.

Foreldrar Ingveldar og Árna, sem og systkini voru eftirfarandi:

Lambhagi

Lambhagi.

Ingveldur Jónsdóttir frá Setbergi við Hafnarfjörð, f: 22. okt. 1862. Þorkell Árnason, f. í Guðnabæ 12. des. 1853, bóndi í Lambhaga, á Þorbjarnarstöðum og í Straumi í Garðahreppi, d. 18. nóv. 1943.

Börn: Oddgeir, f. á Ásólfsstöðum 27. maí 1881, bóndi á Ási við Hafnarfjörð. Ingólfur, f. í Reykjavík 18. okt. 1884, Jón, f. í Lambhaga 1. nóv. 1886, Árni Steindór, f. í Lambhaga 24. júní 1888, Vilborg, f. í Lambhaga 17. júlí 1890, Ingveldur, f. í Lambhaga 14. des. 1891, Guðbjörg, f. í Lambhaga 23. jan. 1894, Steinunn, f. í Lambhaga 17. júlí 1895, Katrín, f. á Þorbjarnarstöðum 3. mars 1898, Guðmundur, f. á Þorbjarnarstöðum 21. ágúst 1900, Ástvaldur, f. í Straumi 11. febr. 1902.

Guðnabær

Guðnabær.

Guðmundur Jónsson, f. á Þórkötlustöðum 19. okt. 1858, d. 3. des. 1936. Margrét Árnadóttir, f. 1861, d. 1947.

Börn: Einar Guðjón, f. 1882, d. 1968, Guðrún, f. 1883, d. 1885, Valgerður, f. 1886, d. 1967, Jón, f. 1887, d. 1908, Árni, f. 18891, d. 1991, Guðmundur Ágúst, f. 1894, d. 1963, Guðmann Marel, f. 1900, d. 1936.

Foreldrar Guðmundar voru: Jón Jónsson, f. í Garðhúsum 14. nóv. 1825, d. 13. des. 1882, og Valgerður Guðmundsdóttir, f. á Hrauni 7. feb. 1829, d. í Akurhúsum 25. júní 1895.

Heimild:
-Húsakönnun í Þorkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Minningagreinar um Árna Guðmundsson og Ingveldi Þorkelsdóttur.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – Klöpp og Teigur t.h.

Teigur

Eftirfarandi er úr viðtali sem Bragi Óskarsson tók við Árna Guðmundsson frá Teigi, fyrrverandi formann í Grindavík. Árni lést árið 1991, mánuð fyrir 100 afmælið. Árni bjó fyrst í Klöpp, torfbæ austan við Buðlungu, og síðar í Teigi.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Frá honum og konu hans, Ingveldi Þorkelsdóttur frá Þorbjarnarstöðum í Hraunum, eru Teigaranir komnir (eða það segir a.m.k. Dagbjartur Einarsson – og ekki lýgur hann). Afi hennar var Jón Guðmundsson, hreppstjóri, á Setbergi við Hafnarfjörð. Faðir Ingveldar var Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi og Igveldur Jónsdóttir frá Setbergi. Foreldrar Árna voru Guðmundur Jónsson (1858-1936) frá Þórkötlustöðum og Margrét Árnadóttir (1861-1947) frá Klöpp. Afi hans var Jón Jónsson frá Garðhúsum. Systir Árna var Valgerður, eiginkona Dagbjarts Einarssonar, afa Dagbjarts Grindvíkings. Svona var nándin mikil fyrrum í Grindavík – þegar húsin voru nafngreind og útidyrahurðir stóðu jafnan opnar.
Klöpp var myndarbýli, en nú sjást einungis rústir gamla torfbæjarins, nokkuð heillegar. Timburhús, sem byggt var á jörðinni, svolítið austar, flaut upp í stórviðri árið 1925. Eftir það var húsið fært ofar í landið, þar sem það er nú, samfast samnefndu húsi. Hér lýsir Árni útfræði, formennsku og öðru því sem þurfti að sinna í hinu daglega amstri Grindavíkurdaganna fyrrum – sem þó eru einungis handan við hornið…

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

“Þeir eru nú orðnir fáir sem muna áraskipin gömlu og þá sjómennsku sem á þeim var stunduð. Allt frá landnámstíð og fram á þessa öld sóttu Íslendingar sjóinn á árabátum og urðu að notast við þær hafnir sem náttúran hafði sjálf smíðað. Sennilega hafa breytingar orðið næsta litlar í sjósókn landsmanna í sumum verstöðvum allar þessar aldir, því þó þilskipin kæmu til sögunnar héldu árabátarnir sínum hlut. Viðmælandi minn, Árni Guðmundsson frá Teigi í Grindavík, stundaði sjá á áraskipum þaðan í upphafi þessarar aldar í meira en áratug. Hann er 95 ára gamall (árið 1986), fæddur árið 1891. Ég fékk Árna til að rifja ýmislegt upp frá þessum árum.

Vermenn
– Faðir minn, Guðmundur Jónsson, var lengst af formaður á róðrarbátum frá Grindavík, sagði Árni. Hann varð ungur formaður – sextán ára og stundaði það starf allt þar til heilsan bilaði og ég tók við formennskunni af honum. Hann bjó á jörðinni Klöpp í Þórkötlustaðahverfi. Búið hjá honum var töluvert stórt á mælikvarða þess tíma. Hann var með eina kú, tvo hesta og þetta 60-70 ær.

Á veturna réru að jafnaði 7 – 9 aðkomumenn með föður mínum. Þeir bjuggu í verbúð og gerðu sig að öllu leyti út sjálfir. Sumir þessara manna komu langt að – einn þeirra man ég að var austan af Síðu og hefur það verið erfitt ferðalag hjá honum að komast í verið, sérstaklega ef maður hefur það í huga að þá voru allar ár óbrúaðar.

Klöpp

Tóft Klappar.

Mötuna sendu vermennirnir á undan sér í þartilgerðum skrínum, og varð faðir minn að sækja þær þeim að kostnaðarlausu inn í Keflavík. Skrínur þessar voru trékassar sem oftast voru hólfaðir í tvennt. Var kæfa í öðru hólfinu en smjör í hinu. Matan varð að endast alla vertíðina. Fisk urðu þeir að skaffa sér sjálfir en alla vökvun, hvort sem var grautur, kaffi eða sýra fengu þeir hjá útgerðinni, sem tók einn hlut upp í þann kostnað.

Jú, það vildi nú vera misjafnt hvernig þeim hélst á mötunni karlagreyjunum – en það var þá reynt að hjálpa eitthvað uppá þá sem verst voru staddir.

Hversu margir bátar réru þá frá Grindavík?

Ég á nú ekki gott með að áætla hversu margir árabátar voru gerðir út þaðan þegar ég man fyrst eftir. Róið var úr öllum hverfunum þrem, flestir voru bátarnir frá Járngerðarstaðahverfinu, en miklu færri frá Þórkötlustaðahverfi og Staðarhverfi. En ég gæti trúað að það hafi verið svo sem 20 bátar sem réru frá öllum hverfunum að jafnaði. Margir aðkomumenn réru jafnan í Grindavík og komu þeir víða að – allt austan frá Skaftafelli og norðan af Vestfjörðum. Margar vertíðir réru hjá mér tveir harðduglegir menn frá Patreksfirði, þeir gengu alla leið að vestan með pokana sína – og létu sér ekki muna um það. Það eina sem þeir fóru ekki gangandi á þessari löngu leið var að þeir fengu sig yfirleitt flutta með flóabátnum frá Akranesi til Reykjavíkur.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir ásamt börnum sínum.

Bærinn Teigur var upphaflega kot sem ég fékk að reisa á jörðinni hans pabba. Þar reisti ég timburhús sem stóð í átta ár. Þegar ég byggði þetta hús áttaði ég mig ekki á því að sjórinn var alltaf að brjóta landið og einu sinni í miklu brimi komu sjóarnir alveg upp að bæjardyrunum hjá mér. Þá varð konan hrædd, sem vonlegt var – ég réðst þá í að rífa húsið og notaði timbrið úr því til að byggja steinhús ofar í þorpinu. Þar átti ég svo heima alla tíð með fjölskyldu minni og síðast einn þar til í sumar sl. að ég fluttist hingað á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Búið hjá mér varð aldrei stórt. Ég var með eina kú, einn hest og svona 30 –40 ær. Það var margt í heimili hjá mér – börnin voru nú ekki nema ellefu en svo voru tengdaforeldrar mínir lengi hjá okkur og voru þá sextán manns í heimili.

Þú byrjaðir ungur þína sjómennsku?

Sjö ára gamall fór ég fyrst á sjó, fékk að fljóta með hjá einum formanninum. Það var aum byrjun, því ég var miður mín af sjóveiki en tókst þó að reita upp eina 29 titti. Það var minn fyrsti afli.

Lífróður
árabáturFjórtán ára fór ég fyrst að róa í alvöru og fór þá á vetrarvertíð í fyrsta sinn.

Eiginlega átti ég að vera í snúningum heima því þar var nóg að starfa. Pab

Eitt sinn um sumarið munaði þó mjóu að illa færi. Þá hafði gert óverður svo ekki varð farið á sjó í viku tíma. Formaðurinn var orðinn óþolinmóður því við vorum með net í sjó sem ekki hafði tekist að vitja um og svo áttum við tilbúna línu sem beitt hafði verið með gotu. Veðrið fór að lægja á sunnudegi en formaðurinn kallaði þó ekki á okkur fyrr en komið var fram á dag. Einn hásetanna, og annar eigandi bátsins, vildi þó ekki hlýða kallinu því bæði var hann fullur og svo þóttist hann vera svo guðhræddur að hann réri ekki á sunnudegi, sem var nú ekki annað en fyrirsláttur hjá honum.bi hafði alltaf nóg af sjómönnum enda var sóst eftir að komast í skiprúm hjá honum. Mín fyrsta vertíð var ekki með pabba, heldur fór ég á áttæring hjá formanni sem vantaði menn. Hann hafði ekki nema þrjá vana menn sem allir voru reyndar komnir yfir sextugt, svo vorum við tveir fjórtán ára strákar og einn fimmtán ára. Ekki þótti þetta merkileg skipshöfn en þetta slampaðist þó furðanlega hjá okkur.

Bátarnir í ÞórkötlustaðanesiNú, við fórum út og lögðum línuna. Það tafði okkur að við þurftum að taka upp grásleppunet sem formaðurinn átti, netin voru öll orðin full af þara og illt við þau að eiga. Þegar við höfðum loks lokið við að draga línuna reif hann sig upp með suðaustan rok og urðum við að róa lífróður allan daginn og fram á nótt að við komumst loks í höfn. Það var á versta tíma – um háfjöruna, og vorum við strákarnir hreinlega að gefast upp. Það vildi okkur til að feður okkar komu og tóku við af okkur, því við gátum þá rétt með herkjum staðið á löppunum. Þá var maður þreyttur og gott að hvíla sig.

Árabátarnir
Formaður varð ég tuttugu og tveggja ára þegar ég tók við af föður mínum sem þá hafði misst sjónina og var orðinn heilsuveill. Þá tók ég við formennsku á teinæringnum Lukku –Reyni. Síðar fékk ég Guðjón Einarsson skipasmið í Reykjavík til að smíða fyrir mig nýjan bát, Farsæl, og lét setja í hann vél.

Þetta var óneitanlega erfið sjómennska og ekki hættulaus. Róðurinn gat verið nokkuð langur á miðin, sérstaklega þegar netaveiðin stóð yfir. Mest vorum við með línu því ekki þýddi að byrja með netin fyrr en í apríl. Oft lenti maður í miklum barningi þegar róið var móti vindi og þá gat róðurinn orðið þungur og reynt á þolrifin í mannskapnum. Yfirleitt var róið á mið frá Staðarbergi og allt fram á Sýrfell. Mið þessi hétu ýmsum nöfnum s.s. Grunnaskarð, Síling, Djúpaskarð, Hallinn, Slakkinn, Melurinn o. fl. Aflinn var nú misjafn en oft sigldum við þó heim með hlaðinn bát.

Grindavík fyrrumRóið var allt árið um kring. Við feðgarnir áttum sinn bátinn hvor og rérum þannig allar árstíðir. Vor og sumar var róið á fjögurra manna fari, en reyndar voru venjulega fimm á, sex manna fari rérum við á haustin en á vetrarvertíðinni voru við á teinæringnum.

Vetrarvertíð
Á vetrarvertíð var farið út fyrir klukkan fimm á morgnana. Byrjað var á því að setja bátinn niður því allt var gert með handafli á þessum tíma. Skipin voru sett upp fjöruna á höndum líka, alveg þar til við fengum spil, sem var stór munur – þá gengu 4 – 6 á spilið og spiluðu bátinn upp en tveir studdu við hann.

Venjulega var um klukkustundar róður á miðin og þá var farið að leggja línuna. Oft var enn niðamyrkur þegar við komum á miðin og voru þá hafðar luktir til að lýsa mönnum við að leggja. Á teinæringnum vorum við venjulega með fimm bjóð – vorum yfirleitt átta undir árum meðan lagt var og hver krókur tíndur út, einn í einu. Ef eitthvað flæktist var bátnum róið afturábak og greitt úr því. Um klukkustund tók að leggja lóðina ef allt gekk vel. Að því loknu gátu menn fyrst gefið sér tíma til hvíldar, því væri ekki byr úr landi, var hamast í einni skorpu frá því lagt var af stað og þar til línan var öll komin í sjó.

Í NorðurvörÞegar búið var að leggja voru menn venjulega uppgefnir og sveittir. Sló þá oft illa að mönnum og varð mörgum hrollkalt meðan beðið var í rúmlega klukkustund yfir lóðinni, oft í frosti og snjókomu, en hvergi var skjól að hafa. Það gat gengið misjafnlega að ná línunni eftir því hversu mikið var á henni eða hvort hún festist. Ef hún varð föst var allra bragða neytt til að losa hana en þegar allt þraut var róið á línuna þar til hún slitnaði og síðan róið í næsta ból.

Þegar dregið var voru venjulega átta undir árum og andæfðu, tveir skiptust á um að draga og gogga af, en formaðurinn stóð afturí við stýrið. Það var erfitt verk og lýjandi að draga línuna og venjulega var það ekki falið öðrum en hraustmennum. Um 3 til 4 tíma tók að draga þegar allt gekk vel. Þá var haldið til lands. Ef byr var hagstæður var segl dregið að húni en annars varð auðvitað að róa.

Hvenær var svo komið að?

Fiskur í seilumJa, það gat nú verið ansi breytilegt, lagsmaður – það gat verið alveg frá hádegi eða fram í svartamyrkur eftir því hversu vel eða illa gekk á sjónum.

Náðuð þið alltaf í höfn í Grindavík?

Oft munaði það mjóu en hafðist þó alltaf hjá okkur. Einu sinni urðum við t.d. að liggja daglangt úti á lóninu fyrir utan brimgarðinn við innsiglinguna í veltubrimi og stormi. Þar urðum við að róa lífróður í sex klukkustundir samfleytt svo okk

ur ræki ekki upp í brimgarðinn. Vorum við allir orðnir allþrekaðir þegar formaðurinn ákvað að reyna lendingu. Þá voru allir karlmenn úr Járngerðarstaðarhverfinu komnir í fjöruna til að taka á móti okkur og það auðveldaði okkur lendinguna mikið. Þeir voru að reyna að hella lýsi og olíu í sjóinn til að draga úr briminu, en stormurinn hreytti því öllu upp í fjöru jafn óðum, svo það kom að litlu gagni. Þessi lending gekk þó að óskum og máttum við þakka það því hversu hraustlega var tekið á móti bátnum þegar hann bar upp.

Fiskur á seilum

Í Grindavík var engin bryggja á þessum árum og því varð ávallt að seila fiskinn. Væri brim var seilað út á lóninu fyrir utan brimgarðinn til að létta bátinn – fiskurinn var allur bundinn í kippur sem í var bundin fimm punda lína um 60 faðma löng. Einn maður gætti hnykilsins þegar róið var gegn um brimgarðinn og gaf út af færinu eftir því sem þurfti. Þegar í land var komið var svo aflinn dreginn að landi gegnum brimgarðinn og reynt að stilla þannig til að fiskurinn kæmi upp í fjöruna fyrir neðan skiptivöllinn.

Væri sæmilega gott í sjóinn var fiskurinn ekki seilaður fyrr en komið var í vörina. Þá voru tveir menn settir til að halda bátnum meðan aflinn var seilaður og gat það verið erfitt verk að styðja ef eitthvað hreyfði sjó. Aflinn var alltaf seilaður, – nógu erfitt var að setja bátinn upp þó ekki væri aflinn um borð í honum.

Þegar búið var að setja bátinn var tekið til við að bera fiskinn upp á skiptivöllinn. Þar var aflanum skipt í 14 staði eða 7 köst en við vorum 11 á. Voru tveir um hvert kast og voru kallaðir lagsmenn. Eitt kast, eða tveir hlutir, komu í hlut útgerðarinnar en einn hlutur var dauður og fór í kostnað við áhöfnina eins og ég kom að áðan.

Svo þurfti auðvitað að beita línuna fyrir næsta róður. Hraða þurfti öllum

þessum verkum svo menn fengju sæmilega langan svefn fyrir róður næsta dags.

Var ekki erfitt að eiga eftir alla aðgerðina þegar komið var af sjónum?

Nei, maður fann ekkert fyrir því. Það var bara að ná landi, þá var maður ánægður. Þegar það hafði tekist hafði maður bara gaman af aðgerðinni og að beita línuna.

Sjóslys voru tíð á þessum tíma er það ekki?

SpilJú, það kom fyrir að bátar fórust á miðunum í vondum veðrum. Einn teinæringur fórst í innsiglingunni við Grindavík nokkru eftir að ég hóf sjómennsku og gerðist það skömmu áður en við komum að. Það voru geysiháir sjóar og mikið brim í innsiglingunni þann dag. Þeim hlekkist eitthvað á og brimið náði bátnum. Það komust ekki nema tveir af – formaðurinn sem hét Guðmundur og einn háseti. Það merkilega var að Guðmundur þessi fór svo á skútu um sumarið og fórst með henni. Það virðist svo að ekki verði feigum forðað.

Samgöngurnar
Við Árni snúum nú talinu að samgöngum á landi í aldarbyrjun.

Þegar ég man fyrst eftir mér var hér enginn vegur, sagði Árni. Aðeins götuslóði var til Keflavíkur en þangað þurftu Grindvíkingar margt að sækja. Þar var læknirinn og þangað varð að sækja allt sem ekki fékkst hjá kaupmanninum í Grindavík. Menn fóru þetta ýmist gangandi eða ríðandi.

Já, ég gekk þetta oft og stundum með allmiklar byrðar. Einu sinni kom það fyrir þegar hann rauk upp með verður að faðir minn missti öll sín net. Það var mikill skaði því netin voru dýr og svo féllu auðvitað niður róðrar hjá okkur út af þessu. Ekki var um annað að ræða en setja upp ný net og sendi hann mig þá inn í Keflavík ásamt fjórum hásetum öðrum að ná í netakúlur. Það var von byrði – ekki vegna þess að hún væri svo þung, heldur fór þessi baggi illa á manni. Við höfðum borið sem svaraði 50 kg hver og höfðum af því mikið erfiði.

FarsællÞá var öll síld til beitu borin frá Keflavík til Grindavíkur. Hún var borin í fatla sem kallað var. Síldin var sett í poka sem við bundum á okkur með reipum og hertum að þannig að pokarnir hvíldu á öxlunum. Var mikill munur að hafa hendurnar lausar, þar sem leiðin var löng en byrðin oft um 50 kg. Illt var að nema staðar og hvíla sig með þessar byrðar eins og frá þeim var gengið. Reyndu menn venjulega að komast þetta í tveimur áföngum því aðeins einn góður hvíldarstaður var á miðri leið og var hann kallaður Lágar. Þar er bergsylla sem auðvelt var að styðja pokanum á og losa hann af sér án þess að eiga í vandræðum með að binda hann á sig aftur.

Saltflutningar

Þessi burður var þó auðveldur miðað við saltflutningana en við þá slapp ég sem betur fer. Þegar ég man fyrst til var öllu salti skipað upp í Vogunum og báru Grindvíkingar saltið á sjálfum sér þaðan í hálftunnupokum. Það voru því rúmlega 50 kg sem hver maður bar og var þetta mjög erfið byrði. Saltið var blautt og leiðin löng, og á göngunni nuddaðist það inn í bakið á burðarmönnunum. Aumingja karlarnir sem þannig urðu að þrælast með þessar drápsklyfjar dag eftir dag fengu oft mikil sár, sem lengi voru að gróa, undan pokunum.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson.

Sjálfur lenti ég stundum í því að rogast með svona byrðar í uppskipun, bæði með helvítis kolin og svo saltið.

Þegar saltskip og kolaskip komu varð uppskipun að ganga eins hratt fyrir sig og hægt var, enda venjulega nægur mannskapur á lausu. Við bárum þetta á bakinu í sekkjum en í þá var saltið mælt með hálftunnustömpum úti í skipinu. Þetta þrömmuðum við með frá uppskipunarbátnum og drjúgan spöl upp að geymsluhúsunum þar sem við urðum að staulast upp brattan stiga en svo var saltinu steypt úr pokunum fram yfir hausinn á okkur niður í binginn. Þannig man ég að við þræluðum einu sinni hvíldarlaust heilan dag og fram á nótt. Fengum rétt að fleygja okkur útaf í saltbinginn um lágnættið yfir lágfjöruna. Þá var maður hvíldinni feginn. Þetta voru ekki allt sældar dagar hjá manni.

Fiskurinn

Þá voru mörg handtökin í sambandi við fiskinn eftir að hann var komin á land. Allur þorskur og ufsi var flattur og saltaður á Portúgalsmarkað. Það var mikil vinna að breiða fiskinn til þurrkunar þegar vel veiddist. Oft man ég til þess að allur kamburinn fyrir neðan túnið hjá mér var hvítur af fiski. Þegar skipin komu var fiskurinn fluttur úr í þau í bátum og stúfað í lestarnar. Var vandaverk að stúfa því raða varð hverjum fiski rétt svo þessi dýrmæti útflutningur skemmdist ekki.

Leiddist þér aldrei þetta puð og basl á sjónum – fannst þér þetta ekki stundum þýðingarlítið strit?

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – Teigur t.h.

Nei, sú hugsun kom aldrei að mér. Það var ávallt mitt yndið mesta að vera á sjónum og ég man ekki til þess að mér leiddist sjómennskan nokkurn tíma. Enda var ég á sjónum árið um kring öll mín bestu ár – ég fékk aldrei leið á því. Meira að segja þegar ég var kominn yfir sextugt og hættur á vertíðum gátum við ekki stillt okkur um það þrír karlar að stunda sjóinn á fjögurra manna fari með búskapnum. Þetta var auðvitað ekki mikið sem við öfluðum því róðrarnir hjá okkur voru stopulir en við höfðum þó í soðið og vel það.”

Sjá viðtal – http://www.ismus.is/i/person/id-1007820

Heimild m.a.:
-http://www.simnet.is/isrit/greinar/arabat.htm

Þórkötlustaðabótin - Ísólfsskáli fjær

Brim utan Þórkötlustaða.

 

Hafnir

Gengið var um Ósa, Kirkjuvog og Kotvog, yfir að Merkinesi og Junkaragerði.

Hunangshella

Hunangshella.

Gangan byrjaði á Þrívörðuhæð ofan við Ósa, eða Kirkjuvog en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Gömlu leiðinni til Hafna var fylgt að þorpinu. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs. Næst veginum er vík sem nefnist Ósabotn. Hún liggur á milli Þjófhellistanga að vestanverðu og Steinboga sem er lítill klettatangi að austanverðu. Spölkorni lengra er Hunangshella, klöpp norðvestan vegarins. Á henni er vörðubrot.

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á
háflóði eru 25-30 metrar á milli Hunangshellu og sjávarborðs. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina. Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis rennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.

Hafnir

Teigur.

Komið var að gamalli heimreið. Á hægri hönd er eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu landsins en fóðrið var matarúrgangar frá mötuneytum í herstöðinni á Vellinum (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi.

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Komið var í Kirkjuvogshverfi, sem nú nefnast Hafnir í daglegu tali, en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar.

Hafnir

Í Kotvogi.

Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Við Kotvog.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við fyrrum Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Kirkjuvogur

Kirkjuvogshreppur – herforningaráðskort 1903.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Merkines

Gengið að Merkinesi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri” (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð.

Merkines

Merkinesburnnur.

Eftir nokkra göngu vestur með ströndinni var komið að Merkinesi. Í Merkinesi bjó síðast (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson ásamt eiginkonu sinni Hólmfríði Oddsdóttur. Hinrik í Merkinesi var fyrrverandi hreppstjóri Hafnahrepps, þekktur sjósóknari, refaskytta, báta- og húsasmiður og hagyrðingur (faðir m.a. Ellýar Vilhjálms söngkonu og Vilhjálms Vilhjálmssonar flugmanns og söngvara en þau eru öll látin). Hlaðinn hringlaga steingarður sem er hægra megin vegarins spölkorn norðan Merkiness nefnist Skipagarður. Þetta var kálgarður en hér áður fyrr voru vertíðarskipin dregin upp og höfð í skjóli við garðinn. Skammt sunnan Merkiness er grasi vaxinn hóll vinstra megin vegarins. Hóllinn nefnist Syðri Grænhóll. Sunnan hans mun ekki hafa fundist stingandi strá, sem heitið gat, fyrr en melgresi fór að taka við sér en því var fyrst sáð til að hefta sandfok utar á skaganum fyrir rúmum 60 árum. Í túninu suðaustan við Merkines er forn brunnur, sem gengið er niður í, líkt og Ískrabrunnur á Snæfellsnesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Spölkorn sunnan Grænhóls sér á þak Junkaragerðis en það er fornt býli og verstöð sem nú er notað sem íbúð. Upphlaðinn túngarður á hægri hönd eru einu minjarnar sem eftir eru af býlinu og verstöðinni Kalmanstjörn (þaðan var Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi og alþingismaður) en íbúðarhúsið var rifið 1990. Á Kalmanstjörn var búið fram á miðjan 8. áratug 20. aldar.
Gamli vegurinn út á Hafnaberg og áfram út á Reykjanes lá á milli Kalmanstjarnar og Junkaragerðis. Í lýsingu skráðri af Hinriki í Merkinesi fyrir Örnefnastofnun segir m.a: ,,Fyrr á öldum, er sagt, að ,,þýzkir” hafi haft mikinn útveg á opnum skipum í Höfnum. Meðal annarra staða höfðu þeir búðir, þar sem nú heitir Junkaragerði, en svo voru þeir nefndir. Þessir menn voru ribbaldar miklir og ,,óeirðamenn um kvennafar”, þeir voru illa séðir af landsmönnum, sem vildu fyrir alla muni koma þeim af höndum sér.” Til er þjóðsaga um hvernig Hafnamenn fóru að því að losa sig við Junkarana. Vestan vegarins, neðan við brekku, er Hundadalur. Þar er fiskeldisstöð.

Gömlu hafnir

Gömlu Hafnir.

Á vinstri hönd má sjá nokkrar vörður en við þær liggur Prestastígur – vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, um 5-6 tíma gangur.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Hann liggur fjær sjó en sá gamli sem reyndar var ekkert annað en slóð og skurður á víxl. Eins og áður sagði tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar, Gömlu Hafnir. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-leoemm.com

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogskirkja.

Þórkötlustaðahverfi

Árið 2018 var gerð skýrsla um “fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð”. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Þorkötlustaðir

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðatorfan.

Um 1270 er Þórkötlustaða getið í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Um 1275 kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík að kirkjan á „ix. mæla land aa Þorkotlustodum“ DI III, 3.
1307 kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík að kirkjan á „ix. mæla land aa Þorkotlustodum“ DI II, 361.
1367 sama eignarhald (ix mæla land) kemur fram í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum. DI III, 222.
1477 sama eignarhald (ix mæla land) kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík. DI VI, 124.

Þórkötlustaðir

Miðbær Þórkötlustaða 1948.

Um 1500 er jarðarinnar geti í lýsingu á landamerkjum milli Voga og Grindavíkur en þar segir að Vogar eigi ekki land lengra neðan frá en að Kálfsfelli og upp að vatnskötlum fyrir innan Fagradal upp að klettum þeim sem standa við Skógafell hið neðra við götuna „enn Þorkötlustader og Jarngerdarstader ættu ofan ad þessum takmorkum“ og er þessi lýsing í samræmi við elstu lýsingu
marka á þessum slóðum frá 1270. DI VII, 457-458.
1534: fram kemur á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi. DI IX, 721.
24. júní 1552 kemur fram í afgjaldareikningi Eggerts fógeta Hannessonar af Íslandi frá alþingi 1551 til Jónsmessu 1552 um Þórkötlustaði: „Jtem aff Kettell aff Tórkottelestedom ij skatt viij alne vadmall.“ DI XII, 420.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

1553 [1554] kemur fram í máldögum og reikningum kirkna í Skálholtsbiskupsumdæmi (við yfirreið Marteins biskups Einarssonar) að Krýsuvíkurkirkja á enn sömu eignarítök á Þórkötlustöðum (9 mæla lands). DI XII, 662.
1562 kemur fram að atvistarmenn að vígi Guðmundar Sigurðssonar séu skyldaðir til að koma fyrir dóm vegna vígis Guðmundar en hann hafði látist eftir slagsmál við fjóra menn á
Þórkötlustöðum. DI XIII, 744.
1563 kemur fram í bréfi Gísla biskups Jónssonar um byggingar stólsjarða í Grindavík að ábúendur lúti eftirfarandi skilmálum: „Ad i fyrstu wil eg ad stadurinn i Skalholltti eigi halftt skip vid þann sem byr a Jarngerdarstodum. Þorkotlustodumm og Hraune. Skal stadurinn þessumm skipumm uppkoma ad halfu leyte af þeim stadar Rekum sem liggia fyrir Grijndavijk. Jtem þau Bænhuskugildi se ad eru a Hraune. Þorkotlustaudumm og Höpe þa skipa eg ad þau snueast i leigukugilldi. Jtem byd eg mijnumm fyrrgrendumm Radsmanne ad hann tilskile i sinne jardabyggingu ad huer leigulide vaktti þann Reka sem fyrir sierhuers lande liggur epter þui sem laug seigia og hafe ecke mejra af enn so sem leigulida ber eptter logmale. Jtem byd eg
Radzmannernum ad fyrirbioda Leigulidunumm ad skamptta sier nockur trie sialfer af af rekunumm til stadarjardanna utann þad sem til verdur lagtt af sialfumm Radzmannenumm og naudsyn krefur“ DI XIV, 200-202.
1570 og síðar: kemur fram í Gíslamáldaga að Krýsuvíkurkirkja á enn sömu eignarítök á Þórkötlustöðum (9 mæla lands). DI XV, 641.
1703: dýrleiki óviss. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. “Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.”JÁM III, 11-12, 14.
Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

1840: 60 hdr. “Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.” SSGG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…”Eptir þremur afsals bréfum 19. öld: Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir. “Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.”Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. “…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.”

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.

Þórkötlustaðir eru elsti bærinn í Þórkötlustaðahverfi. Rétt eftir aldamótin 1900 var byggð hlaða við Miðbæinn og var þá komið niður á langhús með jarðeldi (sjá nánar fornleif 203) sem bendir til að bærinn hafi alltaf verið á svipuðum slóðum. Allt bendir til þess að snemma hafi orðið þéttbýlt á þessum slóðum en elsta heimildin um margbýli á Þórkötlustöðum sjálfum er frá seinni hluta 18. aldar (1785) en var orðið þríbýlt á heimajörðinni. Þríbýli hélst á Þórkötlustöðum lengst af eftir 19. öldinni og voru býlin samkvæmt Jóni Þ.Þór ýmis nefnd 1.,2. og 3. býli eða austurvestur- og miðpartur (Saga Grindavíkur II, 74, 272). Undir lok 19. aldar bætast svo tveir bæir við og snemma á 20. öld voru því fimm bæjarstæði á Þórkötlustaðatorfunni (Austari eða EystriAusturbær, Vestari Austurbær, Austar eða Eystri Vesturbær og Vestari Vesturbær). Ekki er ljóst hvor austur og vesturbæjanna var eldri en líklegra virðist þó að af austurbæjunum sé Austari/Eystri Austurbærinn og Austari/Eystri Vesturbær. Þórkötlustaðatorfan er á svolítilli hæð um 70 m norðan við sjó. Þórkötlustaðavegur liggur norðan við torfuna, vegarslóði í átt að sjó og fram hjá Sólbakka vestan við og annar vegarslóði að Buðlungu að austan. Að sunnanverðu er greinilegt að húsin standa á smá bungu en að norðanverðu er sléttað malarplan sem Þórkötlustaðavegurinn liggur í suðaustur-norðvestur. Sunnan við þar sem bæirnir fimm hafa staðið í röð er aflíðandi halli að sjó og á því svæði voru samfelldir garðar og kofar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

Sem fyrr segir var komið niður á skálabyggingu þegar hlaða var reist á bæjartorfunni á Þórkötlustöðum. Til er lýsing af bænum frá seinni hluta 17. aldar, nánar tiltekið frá 1670: “Áður en Sigmundur [Jónasson] tók við búi á Þorkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála,
“hornshús”, “hús innar af skála”, eldhús, klefa og anddyri. Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir “trosnaðir” og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.”
Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Hjálmar Guðmundsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 6,46. Landamerki sjá býli 12. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingum.
Matjurtagarðar 400 faðmar, gefa 16 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í góðu standi. Tún talið 7 dagsláttur, gefur af sér 90 hesta í meðalári, helmingur þýft. Útengi ekkert, mætti græða meira tún. Útengi ekkert. Útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Rekapláss í félagi við vesturbæi. Uppsátur í sambandi við hinar jarðirnar. Ágangur enginn. Hús á jörðinni, sem öll eru eign landeiganda.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

Bæjarhóll Þórkötlustaða er lágur og ávalur og aðeins er hægt að greina litla uppsöfnun. Gróflega áætlað er hann um 90-100 x 70 m stór og snýr austur-vestur. Gríðarlegur fjöldi húsa og kofa ásamt kálgörðum er sýndur á bæjartorfunni á túnakorti frá 1918 og er gerð grein fyrir þeim undir sérstökum númerum í fornleifaskránni (en þó skráðar saman sambyggðar fornleifar). Árni Guðmundsson (1891-1991) mundi vel eftir torfbæ á sömu slóðum og Miðbærinn frá því hann var ungur. Af ljósmynd sem tekin var af Þórkötlustaðaþyrpingunni á tímabilinu 1902-1927 má sjá að þá hafa staðið tvö hús þar sem Miðbær er nú og telur Loftur Jónsson heimildamaður að þau hafi bæði verið hluti af Miðbænum. Húsið sem nú stendur var byggt á sama stað og vestara húsið (sem var minna) en austara húsið hefur staðið einhver ár eftir að núverandi íbúðarhús var byggt (stendur þegar ljósmynd er tekin af svæðinu eftir 1932). Engin ummerki sjást nú um eldri hús á þessum slóðum. Undir þetta númer er skráður bæjarhóll Þórkötlustaða, hús Miðbæjarins (bæði húsin sem stóðu í upphafi 20. aldar og svæðið norðan við þar sem stóðu 3-4 kofar).

Bænhús var áður á Þórkötlustöðum skv. máldaga frá 16. öld.
1563: “Jtem þau Bænhuskugilldi sem ad eru a Hraune. Þorkotlustaudumm og Höpe þa skipa eg ad þau snuest i leigukugilldi,” DI XIV, 201.
Ekki er vitað hvar bænhúsið stóð en án efa var það á bæjarstæði Þórkötlustaða, nærri Miðbænum. Ekki eru þekktar frásagnir um að menn hafi komið niður á bein eða annað sem gæti gefið vísbendingu um staðsetningu bænhússins. Staðsetningarhnit var tekið á bæjarhólnum miðjum. Að sunnanverðu er greinilegt að húsin standa á smá bungu en að norðanverðu er sléttað malarplan sem Þórkötlustaðavegurinn liggur í suðaustur-norðvestur. Sunnan við þar sem bæirnir fimm hafa staðið í röð er aflíðandi halli að sjó og á því svæði voru samfelldir garðar og kofar.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

“Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna 027,” segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. Ekki er nákvæmlega vitað hvar Randeyðarstígur var en hann lá niður á Eyrargötu sem lá syðst í Þórkötlustaðahverfi. Á minjakorti Ómars Smára virðist sem Randeyðarstígur hafi verið sami stígur og Eyrargata en Randeyðarstígsnafnið notað í landi Hrauns. Í öllu falli virðist ljóst að ummerki um Randeyðarstíg er ekki að finna innan verndarsvæðis í Þórkötlustaðahverfi. Frá Hraunkoti vestur að Þórkötlustöðum eru sléttuð tún en austan við Hraunkot er hraunlendi að túninu í Hrauni.

Þjóðsaga – Þórkötluleiði (legstaður)

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Í örnefnaskrá NN segir: “Í túninu austur af bæ er sagt að sé leiði Þórkötlu.” Fjallað er um staðinn á heimasíðu Ferlis en þar segir: “Fram að þessu hefur jafnan verið horft á dys Þórkötlu í óslegnum hól í túninu austan við Hof. Þar hafa hinir elstu menn, sem vel þekkja til, talið hana hafa legið fram að þessu. Staðsetningin passar og við lýsinguna í sögunni þar sem segir að sú gamla hafi viljað láta grafa sig þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðabótina. Frá þeim stað sést vel yfir Bótina. (…) Sigurður, sem nú er nær blindur, var ekki í neinum vafa, sagðist alltaf hafa heyrt af Þórkötlu undir stórri þúfu í túninu neðan við gamla Lambhúskotið. Hann lýsti staðsetningu Þórkötludysjar þannig: “Hún er upp af Sólbakka, vestan við girðingu sem liggur í norður frá húsinu, austan og ofan við Hof. Þetta er stór þúfa í túninu, neðan við gamla Lambhúskotið í suðaustur í neðra túninu.” […] Þúfurnar eru tvær í túninu. Sigurður gekk að þeirri eystri. Áður hafði Ferli verið bent á hina þúfuna (Ól. Gamalíasson) sem hina meintu dys. Skýringin á henni er sögð vera sú að undir austari þúfunni hafi hundur Þórkötlu verið grafinn. Stutt er á milli þúfnanna.” Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: “Í túninu sunnan Lambhúskots eru þrír hólar. Sagan segir að í þeim lengsta sé leiði Þórkötlu, sem Þórkötlustaðahverfi er kennt við, aðeins Uppmæling hinum meintu dysjum sunnar er leiði smala hennar og þar vestur af er leiði hundsins hennar.” Líkt og kemur fram hér ofar er á reiki hver af þúfunum er Þórkötludys. Hún er í túninu, rúmum 20 m sunnan við Lambhús og rúmum 150 m norðvestan við bæ. Þar eru fjórar þúfur sem allar voru mældar upp. Ómar Smári Ármannsson merkir Þórkötludys inn á uppdrátt af Þórkötlustaðahverfi en að auki dys hunds og dys smala. Slétt, ræktað tún er allt umhverfis þúfurnar. Þær eru allar sléttar og grasivaxnar og ekki ólíklegt að mannvist sér hér undir sverði.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

“Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar
hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú,” segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. Eyrargata var á milli Þórkötlustaða (og mögulega líka Hrauns) og Járngerðarstaðahverfis. Innan verndarsvæðis í Þórkötlustaðahverfi var hún alveg við sjávarkampinn og er nú horfin í ágang sjávar og sand. Hún sést hins vegar vestar, utan verndarsvæðis. Brunnflatir 026 eru grónar sandflatir nyrst og austan í Nesinu. Vestan við þær, í hrauninu er Gjáhóll gróinn í toppinn með tveimur hundaþúfum. Hún kom upp úr fjörunni við Skarð en lág þar til austurs neðan við Þórkötlustaðabæina.
Göturnar hafa að hluta legið yfir úfið mosagróið hraun en í Þórkötlustaðahverfi lágu þær nærri sjávarkambinum og yfir Brunnflatir þar sem mikið af sandi hefur safnast. Svæðið er vaxið melgresi og sjór hefur einnig borið á land talsvert af stórgrýti og varpað því yfir svæðið. Gatan hefur líklega legið í austur-vestur yfir Nesið að Rifinu sem nú hefur verið opnað og gert að höfn Grindavíkur. Hún er gróflega staðsett innan verndarsvæðis.

Gata – kirkjugata (leið)

Kirkjugata

Kirkjugatan.

“Önnur gata en Eyrargata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi,” segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. “Þarna þvert yfir og framhjá Hópi var gangan á milli Þórkötlustaðahverfis og Járngerðarstaðahverfis áður fyrr og áfram framhjá Miðaftanshól. Austan við Moldarlág í hraunbrúninni eru hraunhólar sem heita Kirkjuhólar. Þar var áður mikil huldufólksbyggð og huldufólkskirkja. Álfar á svæðinu áttu sína kirkju rétt sunnan við núverandi smábátahöfn og heitir þar Álfakirkja,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar í Þórkötlustaðahverfi.
Kirkjuhólar eru um 600 m vestnorðvestan við Þórkötlustaði fast sunnan við Austurveg (þ.e. núverandi þjóðveg) en umræddur vegur var á svipuðum slóðum innan Þórkötlustaðahverfis þjóðvegurinn var áður, neðan við  fstaland/Heimaland/Þórsmörk. Á þeim slóðum er enn malarvegur. Uppgrónir hraunhólar eru að hluta þar sem vegurinn lá en yngri malarvegur er á sömu slóðum hluta leiðar. Gatan lá austur-vestur á milli Hóps og Þórkötlustaða og áfram austur.
Í Kirkjuhólum er gatan horfin en sést austar, sunnan undir Austurvegi um 400 m norðvestur af bæjarhól, beint norður af íbúðarhúsinu Klöpp/Teigi. Þar hefur grjót verið fjarlægt úr henni og raðað meðfram henni, í framhaldi liggur gamli malarvegurinn. Í hrauninu milli Þórkötlustaða og Hrauns sést að auki fyrir götunni.

Eyvindarstaðir/Eyvindarhús

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – yfirlit.

Í Jarðabók Árna og Páls 1703 er getið hjáleigu: “Eivindar hús.” Eyvindarstaðir hét kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns 1918 og er líklega sami staður. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: þriðja þurrabúð frá býli 15 [miðbær Þórkötlustaða]. Ábúandi Guðmann J. Jónsson. Eftirgjald 10 kr. greitt landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem öll eru eign ábúanda eru þessi: Íbúðarhús 8 x 6 ál., vegghæð 4 ál. ris ekkert, bygt úr timbri járnklætt, vel bygt eldhús 4 x 5 ál, grjótveggir, þakið úr timbri og járni Húsið er í ábúð 1909 á þessum stað. Guðmann Jónsson, kona hans Guðríður Þórðardóttir og sonur Haraldur Haraldsson endurbyggðu á sama stað 1928. Hjónin Einar Símonarson og Sólrún Guðmundsdóttir flytja síðan húsið 1948 að Ránargötu 2 í Járngerðarstaðahverfi. 1956 var útliti hússins breytt í núverandi mynd.” Eyvindarstaðir voru með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur samkvæmt Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfis. Þar stóð síðast timburhús en það ásamt Miðhúsum (sjá túnakort 1918) var flutt í Járngerðarstaðahverfi 1948 og var þar Ránargata 2. Um 350 m norðvestur af bæjarhól 001 og um 100 m vestan við Búðir er steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Þar voru Eyvindarstaðir. Þau hafa verið byggð upp við innanverðan túngarð sem hér ber númerið 046. Umhverfis eru sléttuð tún en óslétt grýtt svæði til norðurs.
Steyptur grunnur er vestan til, tæplega 7 x 7 m að stærð. Vesturhlið hans er nánast horfin en mótar þó fyrir henni. Leifar af steyptum skorsteini liggja yfir norðurhlið. Tvö op sjást á suðurhlið eftir glugga eða dyr. Austan við húsgrunninn eru lágar hleðslur, áfastar, sem afmarka svæði, eins konar uppgróinn stall, sem er rúmlega 7 x 7 m stór. Á honum um miðbikið er steinn sem gæti verið fiskasteinn (óstaðfest) og gróinn hnúður, um 2 m í þvermál, norðan við hann. Hæst rís steypan líklega 40-50 cm og er gróf möl og steinar í steypunni. Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni var steinsteypt fjós/hænsnahús byggt heima við bæinn eftir 1940 og tóku þau við af fjós/fjárhúsi og hænsnakofa. Veggir húsanna við bæinn hafa hins vegar verið brotnir niður.

Borgarkot
Í Sýslu og sóknarlýsingum frá 1840 segir: “Tómthúsið er kallað Borgarkot og stendur fyrir norðan bæinn vestasta,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er lengur vitað nákvæmlega hvar býlið Borgarkot var. Það var þá líklega norðan við Vesturbæina. Bærinn var gróflega staðsettur í túninu norðan við Þórkötlustaðaveg en allt eins má vera að hann hafi verið nær Vesturbæjunum í sjálfri bæjartorfunni en nokkur fjöldi húsa er t.d. sýndur á túnakortinu norðan við Austar og Vestari Vesturbæ 1918.
Norðan við Þórkötlustaðaveg er grasflöt, vestan við þar sem íbúðarhúsið Valhöll stóð fram til 2010. Svæðið er fast sunnan við vesturenda garðlags. Þar er grasi gróið flöt og örlítil hæð þar sem garðlagið endar. Engin ummerki sjást um Borgarkot og nákvæm staðsetning þess ekki kunn. Loftur Jónsson heimildamaður hafði aldrei heyrt á Borgarkot minnst.

Hvammur

Þórkötlustaðir

Hvammur.

Hvammur var um 350 m norður af bæ og um 100 m austan við Efraland, fast norðaustan við Þórsmörk. Þar er 3 m hár steyptur skorsteinn og við hann eru tóftir bæjarins. Túngarður liggur uppi á hraunbrúninni norðan og austan tóftanna en sunnan þeirra er þýft tún. Hvammur er utan túnakortsins sem gert var af túninu í Þórkötlustöðum 1918 en býlisins er þó getið á kortinu, þar stendur: “Þórkötlustaðahverfi. Þórkötlustaðir, 5 býli […] Buðlunga og Einland (jarðir). Eyvindarstaðir, Búðir, Miðbær, Garðbær, Móar og Klöpp (með túnbletti).” Þar kemur einnig fram að kálgarðar hafi verið 950 m2 í Hvammi. Í Húsakönnun Þórkötlustaðahverfis eftir Loft Jónsson segir: “Það var byggt um aldamótin 1900.
Þar bjuggu Guðmundur Þorláksson og kona hans Valgerður Einarsdóttir.” Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: eigandi og ábúandi Guðmundur Þorláksson. Býlið er þurrabúð á Þórkötlustaðalandi: tilheyrir landið engum sérstaklega og ekkert borgað fyrir lóðina, en lóðargjald álíst hæfilegt kr. 15.00. Á lóðinni eru miklir matjurtagarðar en mál óþekkt og eins hvað þeir gefa af sér. Hús sem á lóðinni eru og öll eru eign ábúenda.
Svæðið allt er um 20×13 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar eru tvær tóftir. Að sögn Guðbjargar Jónsdóttur, frá Efstalandi var lítið timburhús á bænum í Hvammi. Ekkert er eftir af íbúðarhúsinu nema hlaðnar og steinsteyptar undirstöður (kjallari) og brot af skorsteini þar vestan við. Undirstöður hússins eru grjóthlaðnar, um 5×5 m að stærð. Veggirnir er mest um 1,5 m á hæð og um tíu umför tilhöggvins grjóts sjást þar. Steypt hefur verið í hleðsluna í austurvegg. Dyr eru í norðausturshorni, steyptur dyrakampurinn stendur enn.
Grunnurinn er opin til suðurs og þar er fullt af braki og rusli.

Hraunkot

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Austast í túni við túngarð, um 350 m austnorðaustur af bæjarhól eru tóftir býlisins Hraunkots, sem sýnt er á túnakorti 1918. “Í austur frá Brekku, í brúninni á Slokahrauni, var húsið Hraunkot. Það var rifið þegar Ólafur og Helga, sem þar bjuggu, byggðu Bræðratungu. Björn R. Einarsson landskunnur hljómlistamaður og Guðmundur R. Einarsson einnig hljómlistarmaður voru ættaðir frá Hraunkoti synir Einars Jórmanns Jónssonar rakara í Reykjavík,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Í myndbandi sem tekið var upp í
Þórkötlustaðahverfi árið 1986 og rætt við þá Árna Guðmundsson (1891-1991) og Jón Daníelsson (1904-1987) kemur fram að Árni mundi vel eftir torfbænum í Hraunkoti en hann virðist hafa verið horfinn þegar Jón fór að muna eftir sér. Árni hafði komið inn í torfbæinn árið 1902 og segir bæjargöngin hafi þá verið svo þröng að hann hafi þurft að smokra sér inn um þau og þó hafi hann verið nettur, aðeins 11 ára gamall. Samkvæmt heimasíðu Ferlis var Hraunkot þurrabúð frá Klöpp. Á túnakortinu sést að um þetta leyti hefur Hraunkot staðið stakt austan túns en hefur nú verið innlimað í túnið, sem hefur því verið fært út til austurs. Tóftir í Hraunkoti Uppmæling af fjárhúsum og ljósmynd af sömu tóft, horft til vesturs samanstanda af tveimur megintóftum, grunni sem hér er lýst ásamt tóft þar norðan við, tveimur kálgörðum vestar og upphlöðnum vegi milli þeirra úr vestri. Hraunkot er einstök minjaheild sem ekkert hefur verið raskað. Alls er svæðið um 50 x 50 m stórt. Sléttuð tún vestur að bæjarhúsum en mosavaxið úfið hraun er austan túngarðsins.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóftirnar eru á litlum hól austast í túninu upp austasta hluta túngarðs. Hóllinn markast af hleðslu að vestan- og sunnanverðu. Það sem hér er lýst er annars grunnur sem er að mestu steinsteyptur og húsaleifar í framhaldi af honum til norðurs, svæði sem alls er um 30 x 12 m stórt frá norðri til suðurs. Grunnurinn er syðst á svæðinu, beint austur af upphlaðna veginum. Alls er grunnurinn um 6 x 6 m stór. Hlaðið hefur verið undir hann og er það hraungrýti, mest sýnilegt á suður- og vesturhlið. Ofan á liggur talsvert af steypubrotum. Af túnakorti að dæma hefur bæjaröðin verið aflöng frá norðri til suðurs og snúið göflum mót vestri. Húsið á grunninum eða forveri þess hefur staðið syðst í röðinni en ekki er augljóst í dag að það hafi verið samfast tóftum norðar, enda eyða á milli. Tóftum sem þar eru er þó lýst hér í beinu framhaldi, enda hluti sama bæjar af túnakorti að dæma. Þetta eru tóftaleifar sem alls eru 15 x 7 m að stærð og samanstanda af 3-4 hólfum. Tvö eru samföst nyrst, það vestara með op í vestur en hitt opnast til suðurs. Líkast til hefur ekki verið innangengt á milli hólfa. Þar sunnan við markar fyrir tveimur hólfum sem ekki eru með vesturgafli. Sunnan þeirra er svo grunnur eða tóft sem er rúmlega 5 m í þvermál en ekkert sýnilegt op. Vestan í bæjarhól Hraunkots 051 er hólbrúnin hlaðin á um 20 m löngum kafla sem nær frá tröðum 136 og til NNA. Hleðslan er 4-5 umför og vönduð og hlaðin úr flötu grjóti. Austurbrúnin hverfur inn í hólinn en vesturbrúnin er allt að 1,5 m há.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðarétt.

Réttin var byggð í kringum aldamótin 1900 og grjótið að mestu sótt upp í Vatnsheiði,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaði. Umhverfis eru sléttuð tún til norðurs og vesturs en vegur liggur fast sunnan og austan réttarinnar.
Réttin er um 41 x 37 m stór og er grjóthlaðin. Hleðsluhæð er um 1,5 m og umför allt að tíu en veggir eru um 0,5 m þykkir. Veggir eru 1,2 m á breidd og flatir í toppinn. Grjót er vel valið og tilhöggvið að verulegu leyti og virðist möl hafa verið notuð til að þétta hleðslurnar.
Almenningur í miðið er um 32×18 m að stærð og nokkurn veginn ferhyrndur (snýr norðursuður). Sex dilkar eru að vestanverðu við hann, sjö að austanverðu og tveir að sunnanverðu, allir með op á þeim vegg sem snýr að almenningnum og annað á andstæðum vegg. Hólfin eru misstór en snúa öll austur-vestur ef frá er talið vestasta hólfið sunnan við almenning sem snýr öfugt. Hlið eru öll úr timbri. Réttinni er viðhaldið. Þegar réttin var skráð í júlí 2017 var mikill grasvöxtur inni í henni. Réttin stendur mjög vel og er greinilega vel við haldið. Aðeins mátti greina hrun í veggjum á einum stað, nálægt norðausturhorni. Hlið eða grindur eru fyrir öllum opum. Norðan við réttina er girðing. Í suðvesturhorni tóftar er nú útsýnispallur, utan hennar.

Gamla-rétt

Þórkötlustaðir

Gamla-rétt.

Um 350 m norður af bæ, í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land, er grasbali inn í kálgarður. Í hvamminum, við túngarð, er hlaðin kró sem nefnd er Gamla-rétt. Réttin er í kvos eða hvilft inn í hraunbrúnina og myndar að hluta náttúrulegt aðhald. Í húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaði kemur fram að þetta sé gömul fjárrétt og að grjótið úr henni hafi verið notað til að hlaða túngarð. Sunnan við hvamminn er sléttað tún en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins liggur Austurvegur í austur-vestur.
Balinn hækkar nokkuð upp í hraunið til norðurs og myndar grjóthlaðinn túngarðurinn umgjörð um hann norðan- og vestanverðan en hleðsla gengur til suðurs úr túngarðinum og myndar austurvegg réttarinnar. Suðurvegg vantar og er réttin því hálfopin til suðurs. Allar eru hleðslurnar úr grjóti mest um 2 m háar og umför grjóts allt að tólf. Innst, þ.e. nyrst, í balanum liggur hleðsla þvert á réttina og myndar lítið hólf við túngarðinn. Réttin er um 30×12 m að stærð.
Til norðausturs eru birkitré og víðirunnar sem hafa raskað hleðslum þar nokkuð en að er ljóst að réttin hefur látið á sjá og þar voru líklega fleiri hólf enda þetta gömul skilarétt. Það eru 2-3 hólf varðveitt.

Móar

Þórkötlustaðir

Móar og nágrenni.

Býlið Móar eru merktir inn á túnakort frá 1918 um 200 m norðan við bæjarhól. Býlið var um 170 m sunnan við Hvamm 047, á milli kálgarðaþyrpinga. Samkvæmt túnakortinu
voru þrjú hús (þá líklega útihús) sambyggð kálgarði 037 en stök tóft í suðurhorni kálgarðanna og var það líklega sjálf bæjarhúsin. Á þeim stað er nú greinileg upphækkun eða þúst. Um býlið er getið í fasteignamati 1916-1918 en þar segir: þurrabúð liggur undir býli [austurbæina tvo]. Eftirgjald 10 kr., greitt til landeiganda.
Móar voru sunnarlega í því túni sem tilheyrði jörðinni, á milli kálgarða. Ljóst er að a.m.k. þrír kofar sem tilheyrðu Móum voru sambyggðir kálgörðum en eru þeir nú allir horfnir. Óljós ummerki sjást hins vegar um mannvistarleifar undir sverði þar sem líklegast er að sjálft íbúðarhúsið hafi staðið. Á þeim stað sem húsið stóð um 1918 er greinileg þúst, fast norðan við túngarðinn sem gengur á milli kálgarðsþyrpingar. Þúst er byggð upp við suðurvegginn túngarðs Móa. Svæðið er um 6 m á breidd en allt að 20 m langt og snýr austurvestur. Þústin sker sig frá umhverfinu og er allra skýrust brún að austan en fjarar svolítið út þegar vestar dregur.

Garðlag (túngarður)

Þórkötlustaðir

Móar og nágrenni.

Garðlag afmarkar austasta hluta Þórkötlustaðatúns og virðist þessi hluti túnsins hafa verið færður út og ræktaður einhvern tíma eftir 1918 en þá voru mörk túnsins við garðlög umhverfis Móa og hefur túnið því verið stækkað um 50-150 m til austurs. Hér verða garðlög á þessu svæði, sem marka af austurhlið túna eins og hún er nú öll skráð saman en gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Garðlögin liggja gróflega NNV-SSA og marka samtals af um 500 m svæði en þau liggja í Gerði í nokkrum hlykkjum við hraunbrún Slokahrauns, alla leið til sjávar. Garðurinn liggur á mörkum túns og hrauns.
Garðurinn liggur í beinu framhaldi af NA-horni túngarðs en þó eftir um 30-40 m breiða eyðu. Eins og áður segir hefur honum örugglega hafa verið bætt við túnið eftir 1918 og það þannig fært út til austurs, á svæði sem er á túnakortinu merkt “kúahagi”. Þannig hefur t.d. býlið Hraunkot verið stakstætt utan túngarðs þegar túnakortið var dregið upp en er innan þess garðs sem hér er skráður.

Hjarðarholt

Þórkötlustaðir

Hjarðarholt.

Húsið Hjarðarholt var áður um 400 m vestan við Miðbæ Þórkötlustaða 001 fast vestan við veginn suður í Þórkötlustaðanes og um 30 m vestan við Hraðfrystihúsið. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir um húsið: “Bergur Bjarnason og Jóhanna Vilhjálmsdóttir byggðu húsið árið 1935. Það var síðan flutt árið 1962 að Hvassahrauni 6 í Járngerðarstaðahverfi. Þarna ólst upp rithöfundurinn Guðbergur Bergsson og bræður hans”. Greinilega má sjá hvar lóðarmörk Hjarðarholts hafa verið og eins sjást steypuleifar sunnarlega á svæðinu. Þær eru um 7-8 m til SSA frá steypuleifum 207 þar sem vindmylla frá Hjarðarholti stóð samkvæmt Lofti Jónssyni.
Ummerkin eru á grasi gróin svæði en þó er stutt í möl og svæðið ekki ræktarlegt. Hæðir eru hér og þar á sléttunni í kring. Austan við er vegur í átt að Hópsnesi og svo gamla hraðfrystihúsið að Uppmæld ummerki þar sem húsið Hjarðarholt stóð áður Hjarðarholt. Norðan er vegur heim að Auðsholti og réttin 055 að vestan garðurinn sem markar af lóðina við Auðsholt og að sunnan bithagi fyrir hesta, afgirtur rafmagnsgirðingu. Samtals má greina rót á svæði sem er um 30 x 26 m stórt og snýr h.u.b. norður-suður.
Sunnarlega á svæðinu sjást talsverðar steypuleifar. Norðurhliðin er óljósari, líkt og úr henni hafi verið rutt. Steypt plata sést í gólfinu. Steyptar leifar um 23 x 8,5 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Suðurhliðin er mjög skýr og liggur rafmagnsgirðing um bithólf eftir henni að hluta. Vesturhlið hússins er einnig fremur skýr en reyndar er stallur fram af henni líka, líkt og þar hafi verið stétt eða afmörkun um 1 m vestan við hús (1 m lægra)Um miðbik hússins er hrúga af grjóti sem virðist hafa verið rutt saman. Í veggjum má sum staðar sjá grjót í sverði, þó aldrei hærra en 0,3 m hærra en umhverfi. Ummerkin eru grasi gróin. Við suðurvegg, vestarlega er byggt lítið hólf, ferhyrnt. Hún er 2 x 2 m að stærð en þó aðeins um 1 m að innanmáli. Talsvert af grjóti er inni í hólfinu og það er mun lægra heldur en stóra byggingin eða 0,1 m. Mögulegt er að skúr hafi verið á þessum stað.

Heródes (álagablettur)

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Heródes “álagasteinn eða letursteinn, er í garðinum framan við vestari Vesturbæ. Þann stein varð að umgangast með varúð og ekki hreifa við honum annars mundi illa fara,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Á heimasíðu Ferlis segir: “Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.” Steinninn er tæpum 6 m sunnan við íbúðarhús Vestari Vesturbæjar, í bakgarði hússins sem hallar til suðurs. Allt umhverfis hann eru grjóthleðslur og er hann fast vestan við austurhlið kálgarðs. Steinninn er stöpull um 0,9 m á hæð en um 0,4 x 0,25 m að stærð. Toppur steinsins er flatur en hallar til austurs. Steinninn er mosagróinn en stendur vel þótt hann halli örlítið til suðurs.

Eystri Austurbær

Þórkötlustaðir

Eystri-Austurbær (rammi).

Á 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum og í kringum aldamótin 1900 voru bæirnir orðnir fimm. Ekki er vitað með vissu hvor austurbærinn er sá hin upprunalegi/sá eldri. Líklega er það þó sá bær sem hér er skráður, Eystri Austurbær, hann er a.m.k. er einfaldlega nefndur Austurbær í Fasteignabók 1932 en hinn bærinn Vestari Austurbær. Árið 1932 stóð þar samkvæmt Fasteignabókinni timburhús. Í Fasteignabók 1938 er sagt að þá búi íbúar í Austurbænum í sérmerktu húsi í annarri fasteign og þá ekki talin upp á umræddum stað og er þar líklega átt við húsið Valhöll 159 en samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni byggðu síðustu ábúendur í Eystri Austurbænum húsið Valhöll 1932 og fluttu þangað og rifu eldra húsið í kjölfarið. Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1918. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Pétur Helgason. Dýrleiki eftir síðasta mati 3.23. […] Tún og matjurtagarðar eru sérstakt, en heiðaland og hagabeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar.
Svæðið er markað af margvíslegum yngri mannvirkjum auk þess sem þar vex talsverð sina sem gerir eldri ummerki ógreinilegri en ella hefði verið.
Samkvæmt Lofti Jónssyni stóðu Austurbæirnir tveir nokkuð þétt saman. “Í hinum Austurbænum bjó Pétur Helgason og Sigríður Hermannsdóttir,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Óljós ummerki sjást nú á því svæði sem Eystri Austurbær Þórkötlustaða stóð. Skýrustu ummerkin eru líklega tröppur sem lágu upp að íbúðarhúsinu sem eru fast suðvestan við malarveg að Buðlungu, 10 m norðvestan við standandi útihús frá Bjarmalandi (hús 13 á húsaskrá) en 25 m austan við Miðbæ Þórkötlustaða (íbúðarhús sem stendur
001). Tröppurnar eru steinsteyptar og sjást 3 þrep en þær eru reyndar að hverfa í sinu og gróður en þó er enn hægt að greina þær á óræktarblett sem þar er. Að tröppunum að dæma hefur húsið að hluta til verið þar sem vegurinn heim að Buðlungu liggur nú. Á þessum slóðum eru nokkur ummerki á svæði sem er 9,5 x 8,5 m stórt, þríhyrnt og liggur undir veg að norðaustan. Á svæðinu sést nokkuð greinileg suðurbrún og sér þar í grjóthleðslu á kafla, 2-3 umför. Á einu stað má sjá móta fyrir hólfi sem er alveg óskýrt til austurs en gæti hafa verið 4 x 3 m að innanmáli og snúið norður-suður. Ekki er ólíklegt að tóftin hafi verið opin til suðurs. Í aðalskráningu 2002 var hólfið skráð undir númerinu 001 B. Af ljósmynd í eigu Lofts Jónssonar sem tekin er af hverfinu eftir 1932 má sjá glitta í húsið. Það virðist hafa verið einfalt og lágreist timburhús. Samkvæmt túnakorti frá 1918 virðast hafa staðið nokkrir kofar á þessum slóðum og voru einhverjir þeirra sambyggðir. Líklega hafa lítil hús verið fast norðan við íbúðarhúsið.

Vestari Austurbær

Þórkötlustaðir

Vestari-Austurbær.- (rammi).

Á 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum og um 1900 voru bæirnir á bæjartorfunni orðnir fimm. Ekki er vitað nákvæmlega hvor austurbærinn er sá hin upprunalegi. Líklega er það þó sá bær og sá bær sem hér er skráðir því einungis byggður um eða eftir aldamótin 1900. Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1918. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Ólafur Þórleifsson. Dýrleiki 3.23 eftir síðasta mati. […] Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingar.
Matjurtagarðar 250 faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 4 dagsláttur, gefur af sér 40 hesta í meðalári, helmingur þýft, snögglent. Útengi ekkert, mætti græða meira tún. Útengi ekkert. Útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við hina býlin. Uppsátursréttur í sambandi við allar jarðirnar. Ágangur enginn.
Í Fasteignabók 1932 er sagt standa timburhús í Vestari-Austurbænum og 1938 eru útveggir sagðir úr timbri, járnvarðir. Austurbær Þórkötlustaða var austan við Miðbæ 001 og sunnan við hlöðu sem enn stendur við Miðbæ (sjá Hús 09 í húsakönnun). Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni stóðu Austurbæirnir tveir (sjá líka 138) mjög þétt saman. Ólafur Sigurðsson heimildamaður (f. 1941) dvaldi talsvert í Vestari Austurbænum sem barn en amma hans og afi áttu heima þar og hann var mikið hjá þeim. Húsið var samkvæmt honum rifið 1950 en ekki flutt. Samkvæmt Ólafi var hrútakofi sem var sambyggður húsinu að vestan og þegar hann svaf heyrði hann alltaf í hrútunum hinum megin við veginn. Ofan við bæinn og sambyggt honum var eldhús með torfþaki þar sem var geymdur eldiviður (hrossatað) samkvæmt Ólafi. Fiskisteinn var fyrir framan bæinn samkvæmt honum.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

Svæðið er grasi gróið, bæjarstæði Þórkötlustaða. Þar sem húsið stóð er greinileg hæð. Austurhlið hæðarinnar er upphlaðin og 1,2-1,3 m á hæð og um 10 umför en ekki sést önnur hleðsla. Svæðið hallar aflíðandi til suðurs en til vesturs og norðurs er það fremur flatt og því er það í raun e.k. upphlaðinn stallur. Bærinn hefur líklega staðið þarna en á milli austurhliðar íbúðarhúss Miðbæjar Þórkötlustaða og austurhliðar hleðslunnar eru innan við 10 m. Engin eiginleg merki sjást um byggingu á þessum stað. Tóft 191 sem er fast austan við gæti hafa tengst Austurbænum. Svæðið er grasi gróið. Samkvæmt myndbandsviðtali við þá Árna Guðmundsson (1891-1991) og Jón Daníelsson (1904-1987) voru mjög mörg hús flutt vestur til Grindavíkur (í Járngerðarstaðahverfi) um miðja öld og var annað húsið í Austurbænum eitt þeirra. Þeir nefna ekki hvort húsið var flutt en Loftur Jónsson heimildamaður segir útilokað að það hafi verið Eystri Austurbærinn þar sem síðustu ábúendur þar byggðu Valhöll og rifu svo þann Austurbæ. Samkvæmt því mætti ætla að sá af Austurbæjunum sem hér er skráður hafi verið fluttur.
Loftur Jónsson mundi þó ekki eftir því og var reyndar efins um að annar hvor Austurbæjanna hefði verið fluttur. Engu að síður geta þeir Ari Guðmundsson og Jón Daníelsson þess í myndbandi og virðist það því líklegt.

Austari Vesturbær

Þórkötlustaðir

Austari-Vesturbær (rammi). Í miðið á hægri myndinni.

Fram eftir 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum en ekki er vitað hvort Vestari Vesturbærinn eða Austari Vesturbær er nær því að standa þar sem hinn upphaflegi Vesturbær stóð.
Hvort sem var raunin voru bæirnir orðnir fimm í upphafi 20. aldar og teljast því allir til fornleifa í laganna skilningi. Austari Vesturbær Þórkötlustaða er merktur inn á túnakort frá 1918. Hann var á milli Miðbæjar (nánar tiltekið milli hlöðu við Miðbæ) og Vestari Vesturbæjarins 146. Svæðið sem er á milli núverandi íbúðarhúsa er aðeins um 17 m langt og því ljóst að þröngt var búið. Af ljósmyndum af Austari Vesturbæ að dæma stóð hann nokkuð þétt upp við Vestari Vesturbæinn 146 og var aðeins örlítið bil á milli húsanna.
Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Benóný Benidiktsson. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við allar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingum.
Á þessum slóðum er grasi gróin flöt nú og malarplan norðan við. Engin ummerki sjást nú um hús á þessum slóðum.
Í Austari Vesturbænum var tvíbýlt fram eftir 20. öld. Húsið sem þarna stóð var tveggja hæða timburhús sem rifið var eftir 1986 (en húsið sést á myndbandi sem tekið var upp í
Þórkötlustaðahverfi árið 1986). Af því að dæma var húsið með nokkuð stórum kvisti á suðurhlið en ekki var kvistur á norðurhliðinni. Á jarðhæð voru a.m.k. 2 gluggar á suðurhlið og dyr á milli
þeirra og miðjugluggi á kvisti beint ofan við hurð. Tveir gluggar voru á jarðhæð á báðum göflum hússins á efri hæð og einnig lítill gluggi í risi. “Í eystri-Vesturbæ var tvíbýli (tveggja hæða hús). Þar
bjuggu bræðurnir Benedikt Benónýsson og kona hans Magnúsar Ólafsdóttir á neðri hæð og Guðmundur Benónýsson og kona hans Sigríður Ólafsdóttir á efri hæð,” segir í Húsakönnun
Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Lítil sem engin ummerki sjást nú um Austari Vesturbæ Þórkötlustaða en þar sem húsið stóð er grasflöt milli húsa.

Vestari Vesturbær

Þórkötlustaðir

Vestari-Vesturbær (lengst til vinstri). Árni Guðmundsson segir frá.

Fram eftir 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum en ekki er vitað hvort Vestari Vesturbærinn eða Austari Vesturbær er nær því að standa þar sem hinn upphaflegi Vesturbær stóð.
Hvort sem var raunin voru bæirnir orðnir fimm í upphafi 20. aldar og teljast því allir til fornleifa í laganna skilningi. Vestari Vesturbær er merktur inn á túnakort frá 1918. Vesturbæirnir voru tveir en nú stendur aðeins íbúðarhús þar sem Vestari Vesturbærinn stóð og er það hús byggt á 4. tug 20. aldar. Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Jón Þórðarson. Dýrleiki eftir síðasta mati. 3,44. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við allar jarðirnar.
“Í vestari-Vesturbænum bjó Einar Guðmundsson [bróðir Árna] og fyrri kona hans Ingibjörg Jónsdóttir og síðar seinni kona hans Málfríður Einarsdóttir,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir
Þórkötlustaðahverfi. Á túnakort frá 1918 eru merktur talsverður fjöldi húsa í þyrpingu á þessum slóðum og hafa nokkur hús staðið norðan við íbúðarhúsið og eru þau skráð undir þessu númeri
en ekki sérstaklega ef frá er talið hesthús/fjós sem stóð norðvestan við íbúðarhúsið fram eftir 20. öld. Í Fasteignabók 1932 er sagt að þar standi timburhús og ólíkt öðrum húsum á
Þórkötlustaðabæjarstæðinu sé það enn óvarið 1938. Af ljósmynd sem tekin er eftir að Valhöll er byggð (1932) má sjá að þá er núverandi hús ekki risið en á sama stað stóðu þá tvö lítil timburhús.
Húsið sem nú stendur var líklega byggt skömmu síðar, a.m.k. var stóð það hús þegar Loftur Jónsson (f. 1938) fór að muna eftir sér. Engin ummerki sjást nú um eldri hús á þessum slóðum en
Árni Guðmundsson í Teigi (1891-1991) mundi eftir torfbæ þar sem Vestari Vesturbærinn stendur nú og kom Árni oft í hann sem barn enda Ingibjörg Jónsdóttir sem þar bjó frænka Árna.
Öll Þórkötlustaðaþyrpingin stendur á lágri hæð sem fellur inn í landið til norðurs og af henni hallar aflíðandi til suðurs (að sjó).
Einlyft timburhús á steinsteyptum kjallara er nú þar sem Vestari Vesturbærinn stóð en engin ummerki sjást um eldri hús.

Miðhús

Þórkötlustaðir

Eldri Miðhús.

Miðhús voru um 260 m NNV við Miðbæ Þórkötlustaða. Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: Þurrabúð frá býli [Miðbæ Þórkötlustaða]. Ábúandi Vilhjálmur Jónsson. Eftirgjald 5 kr. greitt landeiganda.
Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem öll eru eign ábúanda eru þessi: Íbúðarhús 9 x 6 al, vegghæð 2 4/4 al bygt af timbri, þak pappaklætt, hitt áklæth. fornlegt.
Skúr áfastur 7 x 3 ál, úr timbri og járni. “Þar var búið um 1900. Árið 1932 er byggt nýtt hús sem er síðan 1961 flutt í Járngerðarstaðahverfi og er nú Túngata 2,” segir í húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Vilhjálmur Jónsson (afi Bjarna Kristins Garðarssonar heimildamanns) byggði bæinn sem reis í Miðhúsum 1932. Miðhús stóðu tæpum 30 m suðaustan við
suðausturhorn íbúðarhússins Búða. Húsið var um 260 m norðvestan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 25 m suðaustan við íbúðarhúsið Búðir. Á þessum slóðum hefur safnast upp talsvert af rusli. Gömul bílhræ eru þar, hrúgur af hellusteinum og ýmislegt annað rusl auk þess sem hlut af svæðinu er að hverfa í órækt. Gámur er fast norðaustan við svæðið.
Miðhús eru sýnd á túnakorti frá 1918, nyrst í heimatúninu milli Búða til vesturs og Garðbæjar til suðausturs. Húsið er ranglega merkt “Miðbær” en ekki “Miðhús” á túnakortið. Á túnakortinu eru tvö hús á bænum og kálgarðar til norðurs og er svæðið allt skráð saman undir þessu númeri. Allar þessar minjar eru horfnar, þarna er nú m.a. skúr frá Búðum, gámur og mikið drasl og vélabrak. Ekki er hægt að sjá ummerki um mannvistarlög, né bæjarhól á svæðinu en leifar sjást af steyptum grunni eru greinilegar á því syðst, þar sem Miðhús stóð áður en íbúðarhúsið var flutt til Grindavíkur. Á grunninum er mikið af ýmiss konar braki og timbri. Það sem nú vottar best fyrir eru austur- og suðurhlið grunnsins og ná alls yfir svæði sem er um 8 x 8 m stórt. Grunnurinn er mest 0,8 m á hæð til suðurs en hverfur í hæðina og ýmiskonar rusl til norðurs. Samkvæmt Bjarna Kristni Garðarssyni var eldra hús Miðbæjar örlítið norðar en yngri húsin. Samkvæmt Lofti Jónssyni var Miðhús var með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur. Um 4 m vestan við Miðhús stendur illa farið hús sem þjónað hefur hlutverki skemmu og hjalls eins lengi og menn muna. Þetta hús tilheyrði Miðhúsum en eigandi eftir að íbúðarhúsið í Miðhúsum var flutt til Grindavíkur lagði eigandi Búða húsið undir sig. Hjörleifur Stefánsson arkitekt telur að umrætt hús hafi á einhverju tímabili þjónað sem íbúðarhús en staðkunnugir telja það ólíklegt. Umrætt hús er skráð í Húsakönnun vegna verndarsvæðis.

Búðir

Þórkötlustaðir

Búðir 1985.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: önnur þurrabúð frá býli miðbæ Þórkötlustaða. Ábúandi Þórður Magnússon. Eftirgjald 5 kr. greitt landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar að mestu matjurtagarðar. Hús á lóðinni eru eign ábúanda.
Bærinn Búðir er sýndur á tínakorti frá 1918, skammt norðvestan við Miðbæ. Hann var norðarlega í heimatúninu og kálgarður við hann til vesturs og norðvesturs. Bærinn Búðir er sýndur á túnakorti frá 1918, skammt norðvestan við Miðbæ 142. Hann var norðarlega í heimatúninu og kálgarður við hann til vesturs og norðvesturs. Nýtt íbúðarhús var byggt á svipuðum stað árið 1928 og stendur það enn (sjá nánar í húsakönnun Þórkötlustaða) en garðhleðsla sem sléttuð hefur verið í tún.
Engin ummerki eldri húsa sjást nú á Búðum en yngsta íbúðarhúsið á bænum stendur samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni er mögulegt að eldra hús hafi verið aðeins norðar en það sem nú stendur.
Íbúðarhúsið Búðir stendur enn þótt það sé í talsverðri niðurníðslu og umhverfis það hefur safnast upp talsvert af rusli, gömul bílhræ og fleira. Þrjú hús sem snéru stöfnum til austurs eða vesturs eru sýnd á túnakorti frá 1918. Ummerki um eldri bæ eru horfin og ekki er hægt að greina mannvistarlög né bæjarhól á svæðinu. Í húsakönnun Lofts Jónssonar segir: “Búðir: Hjónin Magnús Þórðarson og Ingibjörg Þórarinsdóttir byggðu núverandi hús 1932. Þar stóð annað hús áður.”

Garðbær

Þórkötlustaðir

Garðbær 1985.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: þurrabúð undir býli  [Vesturbær Þórkötlustaða]. Eftirgjald er ekki greitt, en er talið hæfilegt 10 kr. á ári. Ábúandi Daníel Daníelsson og Þóra Jónsdóttir. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í tún og matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem er eign ábúenda er: Íveruhús 10 x 6 ál. vegghæð 4 ál, bygt af timbri og járni varið að mestu.
Garðbær er sýndur á túnakorti frá 1918 nyrst í heimatúninu, skammt suðaustan við Miðbæ.
Það eru sýnd fjögur hús á bænum á túnakortinu og stafnar snéru til suðurs. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: “Garðbæ byggðu hjónin Daníel Daníelsson og Þóra Jónsdóttir. Núverandi hús
byggðu þrjú af börnum þeirra 1933 en því hefur verið breytt nokkuð síðan.” Kálgarðar voru bæði til norðurs og suðurs frá bænum en þeir eru mikið raskaðir. Kálgarður 039 er fyrir sunnan bæinn
en kálgarðarnir til norðurs eru horfnir, einungis hluti af kálgarði er þar eftir. Núverandi íbúðarhús er byggt í vesturhluta bæjarhólsins og mikið jarðrask er af þeim sökum. Fyrir austan og
vestan íbúðarhúsið eru haugar með mannvistarleifum sem komu upp við jarðrask.
Gróin, ræktuð tún eru sunnan, vestan og austan við bæinn. Til norðurs er núverandi íbúðarhús og jarðrask. Gamli bærinn er horfinn og ekki sér móta fyrir bæjarhól, íbúðarhúsið er
byggt í vesturhluta hans. Í austurhluta er m.a. búið að grafa niður rotþró með tilheyrandi raski. Það sést glitta í hlaðinn vegg suðaustan við húsið, það er hluti af húsi sem sést á ljósmynd frá
1978. Húsið er ekki sýnt á túnakorti frá 1918, það er innan kálgarðs. Veggurinn er 2 m á breidd, 0,5 m á hæð og grjóthlaðinn. Það mótar fyrir hólfi sem liggur austur-vestur, norðan við
vegginn en eins og fyrr segir er mikið jarðrask til norðurs, m.a. búið að grafa rotþró í austurhluta bæjarhólsins og erfitt að áætla frekar um minjar á bæjarhólnum og umfang hans.

Brekka

Þórkötlustaðahverfi

Bjarmaland og Buðlunga.

Húsið Brekka var á milli Bjarmalands og Buðlungu. “Það hús byggðu Kristinn Jónsson og Guðríður Pétursdóttur. Þau fluttu húsið í Járngerðarstaðahverfi árið 1949. Það er nú Arnarhraun
4,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Íbúðarhúsið var byggt eftir 1920 og telst því ekki til fornleifa í skilningi laganna en staðsetning þess var þó skráð og höfð með á fornleifalista samkvæmt ráðleggingum frá Minjastofnun Íslands um skráningu á minjum innan verndarsvæðis byggð. Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundsyni (1891-1991 á myndbandsupptöku sem er varðveitt á ÍSMUS) stóð Brekka nálægt vegi að Buðlungu, austan hans og aðeins norðar en að vera til móts við norðurenda fjárhúsa frá Bjarmalandi sem enn standa. Húsið var staðsett með aðstoð frá Lofti Jónssyni. Þar sem húsið stóð er nú malarplan þar sem geymdar eru heyrúllur. Engin ummerki sést um húsgrunninn. Sjálft húsið er nú Arnarhraun 4.

Kron (verslunarstaður)

Þórkötlustaðir

Katla.

Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: “Austan við túnið í Teigi, rétt norðan við beygjuna á veginum, var hús þar sem Kron (Kaupfélag Reykjavíkur og nágr.) hafði verslun í nokkur ár.
Síðast var verslunin opin þar í árslok 1949. Afgreiðslumaður var Árni Helgason. Hann afgreiddi líka í verslun Kron í Múla. […] Vestan við veginn var byggt hús sem hýsti pöntunarfélag og var það starfrækt þartil Versl. Katla tók til starfa ca. 1952. Það hús var selt Kron sem flutti það í Járngerðarstaðahverfi og var það sett niður næst neðan við Bræðraborg á horni Víkurbrautar og Sunnubrautar. Þangað flutti verslun KRON frá Múla.” Verslunin Kron er horfin en húsið sést á loftmynd sem tekið er um 1978. Hún var um 160 m norðan við Hraðfrystihúsið en skammt norðvestan við veginn sem liggur frá veginum að Þórkötlustöðum og að gamla þjóðveginum sem enn er notaður. Þarna er nú sléttur melur og gróið svæði þar sem húsið var.

Valhöll

Þórkötlustaðir

Valhöll. Helgi Andersen stendur á brunninum framan við húsið.

“Valhöll: Feðgarnir Pétur Helgason og Þórarin Pétursson byggðu húsið Valhöll 1932. Það var rifið 2010,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Húsið var byggt árið 1932 og telst því ekki til fornleifa í laganna skilningi en staðsetning höfð með á lista yfir fornleifar í Þórkötlustaðahverfi vegna verndarsvæðisskráningar 2017 að ráðleggingu Minjastofnunar Íslands.
Valhöll stóð þar sem nú er sléttuð grasflöt ofan við Þórkötlustaðaveg en vestan við malarplanið sem er sunnan Einlands 014:001 og vestan íbúðarhússins í Bjarmalandi. Engin ummerki sjást um húsið sem var rifið 2010 en steinstöpull hefur verið settur sunnarlega á svæðið. Af eldri loftmynd af svæðinu má sjá að húsið hefur verið 9 x 8,5 m að grunnfleti en sambyggt því að vestan var hús eða inngangsskúr sem var um 5,5 x 5,5 m stórt. Lóðin var um 28 x 26 m stór og var að hluta mörkuð af með steinsteyptum vegg. Af ljósmynd að dæma var húsið kassalaga og tvær hæðir með flötu þaki. Gengið var inn í húsið að sunnanverðu inn í viðbyggingu, á 2. hæð. Á neðri hæð/kjallara voru fjórir gluggar á suðurhlið en tveir stærri gluggar á 2. hæð. Húsið var afhent slökkviliðinu til æfingar og rifið í kjölfarið.

Pöntunarfélag
“Vestan við veginn var byggt hús sem hýsti pöntunarfélag og var það starfrækt þar til Versl. Katla tók til starfa ca. 1952. Það hús var selt Kron sem flutti það í Járngerðarstaðahverfi og var það sett niður næst neðan við Bræðraborg á horni Víkurbrautar og Sunnubrautar. Þangað flutti verslun KRON frá Múla. Sumarbústaður í Siglu [á Vondavelli] var fluttur þangað árið 2009,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Pöntunarfélagshúsið var áður innan við 20 m norðaustan við gamla Hraðfrystihúsið, fast neðan við Þórkötlustaðaveg og ofan við gamalt fjárhús sem enn stendur. Þar er grasflöt í órækt en ekki eru greinileg merki um húsið.

Laufás
“Laufás: Skammt sunnan við Sólbakka, við grjótgarð umhverfis kartöflugarðana frá Þórkötlustöðum stóð húsið Laufás,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Laufás var vestan við vesturhlið kálgarðs við Vestari Vesturbæ Þórkötlustaða. Samkvæmt túnakorti frá 1918 voru tvö útihús sambyggð vesturhlið kálgarðsins að vestanverðu og það þriðja sem stóð nyrst, var stakstætt. Líklega hefur Laufás verið byggt á svipuðum slóðum og það hús eða mögulega á leifum þess.
Engin ummerki sjást um íbúðarhúsið en þar sem það stóð er malarvegur til suðurs, í átt að sjó, vestan við vestanverðan kálgarðsvegg 004. Skemma eða geymsla úr timbri og bárujárni er rétt sunnan við þar sem Laufás hefur staðið.
Á þessum stað byggði Einar Guðmundsson fyrst verbúð sem var síðar breytt í íbúðarhús samkvæmt Árna Guðmundssyni og Jóni Daníelssyni (á myndbandsupptöku frá 1986) þá segja þeir að langt sé orðið síðan húsið hafi verið rifið. Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni stóðu tvö hús á þessum stað, mögulega sambyggð. Það austara var skemma og oftast nefnt “Rauða húsið” en sjálft íbúðarhúsið var vestar. Laufás stóð þegar Loftur (f. 1938) man fyrst eftir sér en hann man þó ekki vel eftir útliti þess.

Klöpp (eldra bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Klappartúnið. Klöpp og Buðlunga t.h.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84.
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,” segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930. Steinsteypt tvíbýlishús Teigur/Klöpp var byggt um og upp úr 1930 um 600 m norðvestar í hverfinu. Ekki er
nákvæmlega vitað hvar elsta bæjarstæði Klappar var en það er líklega horfið í sjó. Líklegast er að það hafi verið beint suður af því bæjarstæði sem byggt var þegar það var flutt um aldamótin 1800, sjá 002. Staðsetning er því aðeins gróflega ágiskuð. Bærinn er án efa horfinn í sjó.
Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.

Klöpp (yngra bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Klöpp. Tóftir bæjarins.

1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,” segir í sóknarlýsingu. “Austast
var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp [sjá 013:004],” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig. Í fasteignamati 1916-1918 segir:
“Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó. Hús á jörðinni, sem öll eru eign landeiganda og ábúanda.

Klöpp

Buðlunga og Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5 x 21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Að sögn Árna var um að ræða eldhús, baðstofu austar, ískofa norðar, hlöðu sunnar, auk skemmu vestar.

Þórkötlustaðir

Buðlunga og Klöpp.

Norðurveggur er talsvert hruninn inn. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) bjó hann fyrstu árin í Gömlu-Klöpp. Traðk eftir skepnur er sérstaklega áberandi í suðurhlið tóftarinnar. Fast sunnan við austurhluta tóftarinnar er raskað svæði. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin á þessum stað, beint fyrir utan baðstofugluggann. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og
á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.
Samkvæmt myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi 1986 stóð þá uppi framhús Buðlungu úr timbri og báru járni. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var húsið líklega byggt 1913-1914.

Klöpp (þriðja bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Tóftir Klappar og Buðlungu.

“Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra
bæjarstæðið og er það bæjarstæði skráð undir þessu númeri. Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: “”Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]” Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir
eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má
að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.

Teigur (eldri)

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson í tóftum gamla Teigs.

“Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.
Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus. Húsið og aðrar minjar utan við túnblett Klappar/Buðlungu eru skráðar undir jarðanúmeri Þórkötlustaða, en rétt að ítreka að svæðið hefur tilheyrt hjáleigunum, a.m.k. frá því í upphafi 20. aldar.
Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35 x 12 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði 011:164 en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5 x 5 m að stærð og snýr norðursuður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást. Um 22 m austar, við austurenda hólsins er hnúta sem hér fær númerið 154_02. Um greinilegan hól er að ræða og er dæld inn í hann að austan en ekki er hægt að tala um eiginlega tóft. Hóllinn er 6 x 6 m að stærð. Umhverfis er grasi gróið og fremur sléttlent en svæðið er nú nýtt sem beitihólf fyrir hross. Sjórinn hefur kastað töluverðu af grjóti inn á svæðið allra syðst.

Vestur-Buðlunga

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

“Rétt vestan við Buðlungu voru tvö hús sem nefndust Vegamót og Vestur-Buðlunga,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Vestur-Buðlunga var líklega stutt vestan við Buðlungu 012:001 en austan við Vegamót 156. Ekki er vitað hvenær húsið er byggt, eða hvenær það var rifið/tekið niður en líklega var hvort tveggja á fyrri hluta 20. aldar. Á þeim stað er malarplan sunnan við skemmu og fjárhús og þar sunnan við tekur við túnskiki niður að sjó. Ekki sjást skýr merki um hússtæði á þessum slóðum. Loftur Jónsson heimildamaður telur að bæði Vegamót og Vestur-Buðlunga hafi verið þar sem nú er malarplan sunnan við útihúsasamstæðu hjá Buðlungu.

Vegamót
“Rétt vestan við Buðlungu voru tvö hús sem nefndust Vegamót og Vestur-Buðlunga,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Loftur merkir húsið hins vegar ekki inn á uppdrátt af svæðinu sem hann teiknar og fylgir með húsakönnun. Húsið er hins vegar merkt inn á húsa og minjauppdrátt Ferlis/Ómars Smára af Þórkötluhverfi og samkvæmt því var um 30 m sunnan við austurhluta íbúðarhússins í Buðlungu og 10-15 m vestan við skemmu/fjárhús sem stendur á bænum (2017). Ekki er vitað hvenær húsið er byggt, eða hvenær það er tekið niður en líklega var hvort tveggja á fyrri hluta 20. aldar.
Húsið hefur samkvæmt tiltækum upplýsingum staðið þar sem nú er sléttað tún sunnan við Buðlungu og líklega náð inn á malarplan sem eru vestan við skemmu og fjárhús.
Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundssyni (1891-1991) sem fram koma í myndbandi sem aðgengilegt er á Ísmus var húsið alveg þokkalega stórt. Engin ummerki sjást um húsið nú. Loftur Jónsson heimildamaður telur að bæði Vegamót og Vestur-Buðlunga hafi verið þar sem nú er malarplan sunnan við útihúsasamstæðu hjá Buðlungu.

Þórkötlustaðagata (leið)

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðagata.

Þórkötlustaðagötur lágu milli Þórkötlustaða og Hrauns og sjást talsverð merki þeirra ennþá innan túns og utan. Göturnar liggja frá Hrauni til vesturs um Slokahraun en voru aðeins skoðaðar innan verndarsvæðis, í túni Þórkötlustaða 2017. Á þeim kafla er gatan merkt inn á túnakort frá 1918, frá túnjaðri og að bæjarhlaðinu á Þórkötlustöðum (nær að Austari Austurbænum 138. Á þessu
svæði er gatan merkjanleg allra austast, skammt norðvestan við Hraunkot, nálægt túnjaðri en fjarar út í túnið eftir því sem vestar dregur í túnið. Gatan er merkt inn á Minjakort Ómars Smára Ármannssonar af Þórkötlustaðahverfi. Sléttuð tún eru allt í kring.
Allra efst við túnjaðar Þórkötlustaða er dældin um 1 m á breidd og 0,4 m á dýpt. en verður breiðari og greinilegri eftir því sem ofar (suðvestar) dregur. Gatan er mjög skýr á um 100 m kafla en verður þá óljós og er að mestu sléttuð í túnið þar ofan við þótt óljós merki hennar sem rák í túnið megi rekja á um 50 m kafla til viðbótar.

Hraunkotsgata (leið)

Hraunkotsgata

Hraunkotsgata.

Tóftir Hraunkots 051 eru austast í túninu, um 300 m austnorðaustur af Miðbæ Þórkötlustaða, við túngarð. Gatan milli Hrauns og Hraunkots lá í vestur í gegnum hraunið frá Hrauni og með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir götunni í hrauninu austan Hraunkots en best í landi Hrauns. Hins vegar er hún horfin í túninu vestan kotsins og sést því ekki innan þess svæði sem var skráð 2017 í tengslum við verndarsvæði. Gatan er merkt inn á Minjakort Ómars Smára Ármannssonar.
Hraunkot er í túnjaðri Þórkötlustaða en austar tekur við Slokahraun. Ekki eru greinileg merki um götuna innan túns við Hraunkot en op eða hlið er á túngarði 030 tæplega 40 m norðan við bæ þar sem gatan hefur legið í gegn. Fast norðaustan við túngarðinn má sjá dæld í framhaldi af hliðinu en gatan tekur á sig en hún verður fljótt mjög skýr í hrauninu og liggur í gegnum það til norðurs að Hrauni. Hún var ekki skráð utan túns þegar fornleifaskráning var gerð vegna verndarsvæðis 2017.

Skarð

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

Tvöfalt útihús var vestast í suðurjaðri túnsins, samkvæmt túnakorti frá 1918. Húsið var um 90 m VSV við bæ (Miðbæ). Á svipuðum slóðum var byggt íbúðarhúsið Skarð um 1922. Um Skarð segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar: “Skarð: Skammt vestan við Sólbakka var húsið Skarð. Það byggðu hjónin Magnús Guðmundsson og Sigríður Daníelsdóttir ca. árið 1922 og það var síðan rifið árið 1935 og Magnús byggði Sólvelli (Sunnubraut 8). Það voru afi og amma Más seðlabankastjóra og Magnúsar Tuma jarðeðlisfræðings. Húsið var um 40 m af íbúðarhúsinu Sólbakka í suðvesturhorni sléttaðs túns en þar er nú niðurgröftur og leifar torfkofa og var Skarð þar fast norðan við. Fast sunnan við er stórgrýttur sjávarkampur. Ofan við er sléttuð grasflöt sem tilheyrði líklega Sólbakka.
Af ljósmynd sem tekin er af Þórkötlustaðaþyrpingunni eftir 1902 en fyrir 1927 má sjá dökkleitt hús á þessum slóðum sem Loftur Jónsson heimildamaður telur líklegast að sé Skarð en
samkvæmt því væri myndin tekin á árabilinu 1922-1927). Af ljósmyndinni að dæma var húsið lítið, dökkleitt timburhús með mænisþaki. Húsið virðist hafa snúið nálega austur-vestur,
mögulega með skúrbyggingu að austan. Tveir gluggar hafa verið á suðurhlið en annars er lítið hægt að segja um útlit hússins af ljósmyndinni. Skarð er rétt á mörkum þess að teljast til fornleifa
en fær engu að síður að vera með á fornleifaskrá. Loftur Jónsson tekur að húsið hafi verið á svipuðum slóðum og útihús fast norðaustar. Er innan lóðamarka lóðarmarka Sólbakka, en neðan við tekur við fjörukambur. Á þessum stað eru tóftir húss, líklega þess húss sem síðast stóð á þessum stað sem hefur þá verið útihús. Kofinn er niðurgrafinn og stendur undir þaki. Hann er 6 x 3 m stór og snýr austur-vestur en dyr eru á vesturgafli. Aðeins þaktoppurinn rís upp úr lóðinni í um 0,5 m hæð en kofinn er mest um 2 m hár, en hleðslur í norður- og suðurvegg eru um 1 m háar. Þær eru úr torfi og grjóti auk þess sem eitthvað er steypt í þær. Laupurinn er úr timbri. Bæði í kampsbrúninni sunnan við kofann og norðvestan við hann eru lágar garðhleðslur sem loka af um 6 x 4 m stóru hólfi vestan við hann. Fyrir framan gaflinn er L-laga dæld og er hlaðið í barðið að hluta. Vestan og sunnan við er sjávarbakki og er þar bratt niður af svæðinu. Dældin er á kafi í sinu og drasli. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Ferlis voru tóftir “skammt vestan við Sólbakka nýlegar fjárhústóftir frá Hofi” og er líklega átt við umræddar tóftir.

Buðlúnga (eldra bæjarstæði)
1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847.
1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,” segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft 002 og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram
af þeim.

Buðlunga (yngra bæjarstæði)
Þórkötlustaðir1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.” segir í sóknarlýsingu. “Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,” segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir: “Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.
Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu.
Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er útihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Buðlungu. Tóftin er samtals 22,5 x 21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Verður hólfunum gefin númer til samræmis við þetta og svæðinu lýst til á sambærilegan hátt. Sá hluti tóftar sem gera má ráð fyrir að tilheyrt hafi Buðlungu er sá hluti sem verst er farinn. Hluti þess hefur greinilega lent undir skemmu og má áætla að hann hafi náð lengra til vesturs áður. Þessi hluti er samtals um 21,5 x 7-9 m að stærð og snýr norður-suður. Allra syðsti hlutinn markar af norðurhlið til móts við hlið á túngarði Klappar. Allra syðst er lítil hólf sem nú er alveg samanhrunið og ógreinilegt. Inngangur inn í hóflið er stæðilegur og grjóthlaðinn um 0,8 m á breidd og allt að 1 m inn í tóftina en er þá kominn á kaf í torfhrun þannig að ekki er hægt að áætla stærð hólfs. Í þeim vegg sem gengur til vesturs frá opinu er steyptur stampur inn í grjóthleðslunni, þ.e. eins konar upphlaðinn varða, um 1,2 m á hæð sem er samanlímd með steinlími og sker sig úr grjóthleðslunni umhverfis þótt hún sé hlaðinn inn í vegginn. Þar er opið vel greinilegt og liggja stutt göng, sem enn eru undir þaki inn í hólfið. Göngin eru um 1,7 m löng.
Samkvæmt myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi 1986 stóð þá uppi framhús Buðlungu úr timbri og báru járni. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var húsið líklega byggt 1913-1914.

England (Einland)

Þórkötlustaðir

Árni Guðmundsson við Einland.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84.
1840: “Einland, rétt fyrir norðan austasta heimabæinn,” segir í Sýslu- og sóknarlýsingum Gullbringu- og Kjósarsýslu. Húsið Einland stendur enn (2017) og nánar er gerð grein fyrir því í Húsakönnun Þórkötlustaðahverfis. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir að húsið sé byggt 1900 en árið 1896 hafi annað hús verið á sama stað. Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundssyni (1891-1991) af myndbandi sem tekið var af honum í Þórkötlustaðahverfi 1986 var Einlandshúsið flutt til Þórkötlustaða frá Járngerðarstöðum þar sem Árni taldi það hafa verið byggt fyrir aldamótin 1900. Á Járngerðarstöðum bjó Eiríkur Ketilsson í því (ættaður frá Kotvogi í Höfnum) og Jóhann Einarsdóttir. Árni hafði heyrt að það hefði verið flutt í einu lagi. Loftur Jónsson heimildamaður segist hins vegar hafa heyrt að Einland sé byggt úr timbri sem kom úr timburfarmi skipinu Jamestown sem strandaði við Hvalsnes við Hafnir 1881. Menn víðsvegar af Suðurnesjum keyptu mikið af timbri úr skipinu og notuðu til húsbygginga og Elías Guðmundsson hafði heyrt þá sögu sem strákur að afi hans, Jón Þórarinsson útvegsbóndi í Einlandi hefði keypt húsið í Höfnum, rifið það og flutt til Grindavíkur.
Norðan íbúðarhússins eru tóftir bæjarins en öll þessi mannvirki eru sýnd á túnakorti frá 1918. Einland er norðvestan við Bjarmaland og stutt er á milli húsanna. Í fasteignamati 1916-1918 segir: “Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Jón Þórarinsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3.44. Tún og matjurtargarðar sértakt en hagabeit og heiðaland óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingum. Matjurtagarðar 400 faðm. gefa 20 tn í meðalári, 2 safnþrær, allt í góðu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefur af sér 60 hesta, hefur verið grætt út stórkostlega og má græða meira. Útengi ekkert, útbeit er fjallendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Buðlungu í uppsátursréttar er í sambandi við aðrar jarðir. Ágangur á yrkta lóð enginn.
Ekki er um eiginlegan bæjarhól að ræða og erfitt að greina uppsöfnuð mannvistarlög á yfirborði, það eru mannvirki á öllum hólnum að því virðist. Fast norðan við timburhúsið (byggt 1900) eru
tóftir, fullar af bárujárns- og timburbraki. Bærinn, og um leið bæjarhóllinn, er 21 x 14 m að stærð og snýr norður-suður. Á hólnum er timburhús sem áður er minnst á og tóftir útihúsa fast norðan
þess. Árið 1986 þegar viðtal var tekið við Árna Guðmundsson (1891-1991) greindi hann frá því að ekki hefði verið búið í húsinu um nokkurra ára skeið.

Lambhúskot

Þórkötllustaðir

Lambhúskot.

1847: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JJ, 84, en ekki getið 1840 – Landnám Ingólfs III, 139.
Í Fasteignaskrá 1916-1918 segir: Þurrabúð liggjandi undir býli [Vesturbær Þórkötlustaða sem síðar var upp talinn, líklega vestari vesturbær]. Ábúandi Bjarni Bjarnason. Eftirgjald 6 kr, greitt til landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í tún og matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem er eign ábúenda.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Þar var þurrabúð og hét með réttu Lambhúskot. Bærinn snéri líklega stöfnum til austurs og þar eru sýnd a.m.k tvö hús og kálgarðar til norðurs og suðurs.
Bæjarhóllinn er varðveittur ásamt tóft ofan á honum. Nýtt hús, byggt eftir 2002 er fast vestan við bæjarhólinn en raskaði honum ekki. Ekki er vitað hvort að mannvistarleifar hafi komið upp við byggingu þess. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: “Þórkötlustaðavegur 9: Það hús byggðu Ásmundur Jónsson og Kolbrún Guðmundsdóttir árið 2008 en eldri bærinn, hinn upprunalegi var “í túninu rétt austan við þar sem Ásmundur Jónsson byggði sitt hús.” Þar segir einnig: “Lambhúskot. Það hús stóð austan við þar sem Þórkötlustaðavegur 9 stendur nú. Hjón sem bjuggu þar síðast voru Helgi og Guðfinna, sem byggðu Stafholt.” Á myndbandi sem tekið var í Þórkötlustaðahverfi 1986 og þeir Árni Guðmundsson og Jón Daníelsson ræða saman kemur fram að torfbærinn í Lambhúskoti stóð í minni þeirra beggja en þeir voru fæddir 1891 (Árni) og 1904 (Jón). Í sléttuðu túni.
Bæjarhóllinn er um 30×15 m að stærð, 0,4 m á hæð og sker sig úr umhverfinu vegna lits og lögunar þúfna. Hann snýr norður-suður og bærinn snéri stöfnum til vesturs. Um er að ræða þústir en ekki greinilegar tóftir nema á einum stað nokkurn veginn fyrir miðju svæðinu. Tóft er á miðju hans, lág eða veggjarbrot liggur til austurs frá henni. Mögulega var þarna komið að bænum eða voru traðir.

Hverfið
Þórkötlustaðahverfi
Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.
Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar.18 Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.

Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum.19 Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.
Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýslu- og sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880.23 Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – Miðhús, í dag.

Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.
Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.
Þrátt fyrir aukna atvinnumöguleika með tilkomu hraðfrystihússins fór fólki að fækka í Þórkötlustaðahverfi upp úr miðri 20. öld og varð vöxtur bæjarfélagsins einkum í Járngerðarstaðahverfinu enda var sú jörðin meira miðsvæðis í sveitarfélaginu og hafnaraðstaða þar betri.

Sjá myndband – viðtal við Árna Guðmundsson.

Heimild:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2018.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Hafnir

Bæjarsamfélagið Hafnir á Reykjanesi (Reykjanesskaga) gefur heilstæða mynd af búsetu- og atvinnuháttum íbúanna allt frá landnámi til þessa dags. Fjölmargar fornleifar á svæðinu endurspegla hvorutveggja, auk þess sem hús og önnur nútímamannvirki sýna þróun byggðarinnar á liðinni öld.

Hafnir-2

Nú er meginbyggðin umleikis Kirkjuvog og Kirkjuvogskirkju. Áður náði hún í vestri að Kalmannstjörn (Junkaragerði) og Merkinesi innar (og um tíma enn lengra vestur, að Skjótastöðum og gömlu Hafnabæjunum (Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyri (Eyrarhöfn)).
Í austri, handan Ósa, var Gamli Kirkjuvogur ásamt útstöðvum Hafnabæjanna, bæði við Djúpavog og Seljavog. Uppi í Hafnaheiðinni má enn sjá leifar Kirkjuvogssels, Merkinessels eldra og yngra, auk Möngusels. En þrátt fyrir að langmestu mannvistarleifarnar séu í og við Hafnir hefur sáralítið verið skrifað um mannlífið þar í gegnum aldirnar. Jón Thorarensen reyndi að bæta úr því og má sjá frásagnir hans í Rauðskinnu.

Hafnir-4

Í Höfnum má í dag sjá allnokkur gömul hús, s.s. Kirkjuból, Sjónarhól, Kotvog og Vesturhús. Vestar í byggðinni eru greinilegar tóftir annarra bæja, sem áhugasömu fólki um fyrri tíð er gert nánast ómögulegt að staðsetja með ákveðinni vissu. Ekki er vitað til þess að fornleifaskráning hafi farið fram í Höfnum, en sérstaklega miklilvægt er að það verði gerst sem og að svæðið í heild verði teiknað upp m.t.t. minja og örnefna. Slíkar upplýsingar þarf síðan að gera augljósar öllum þeim er heimsækja Hafnir.
Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni. Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Ekki liggur ljóst fyrir hvort af þessari skráningu hefur orðið eða hvort henni hafi verið lokið. Ef svo er myndi FERLIR fúslega fjárfesta í slíku eintaki því ætlunin er að teikna upp allt svæði svo fljótt sem auðið er.

Hafnir-5

Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í
lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi.
Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Hafnir-6Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli “Vágs ok Reykjaness”, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara
tengsla við orðið “vágr” og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir-7

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis.
Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í lj
ós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins.

Hafnir-10

Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil “hús” austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og
norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skála ns til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir-11

Í lýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar í Merkinesi um Hafnir (Hafnahrepp) kemur eftirfarandi fram um byggðakjarnan: “Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri.  Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri.  Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

Hafnir-12

Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar.  Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.

Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á.  Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).

Hafnir-13

Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu.  Verður næsta hús Höfn,  þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll.
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét  Búðabakki.  Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.
Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Hafnir-15Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.
Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.

Hafnir-15

Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús.  Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast  enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.
Nú eru þrjú hús ótalin á vin
stri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð.  Lítið eitt fjær veginum Nýlenda (246) og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu 

Hafnir-16Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.
Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson.  Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus.  Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.  Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir voru jafnaðar út.
HafnirÞar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið.  Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.”
Réttin í Höfnum var notuð fram til 1969. Þá gerði þar mikið óveður um veturinn og skemmdi sjórinn hana að hluta. Braut hann niður varnargarða og ýmsar minjar. Þrátt fyrir það má enn sjá móta greinilega fyrir réttinni – norðvestan við byggðakjarnan.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur) Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði.
-Landnámsbærinn Vogur í Höfnum, Byggðasafn Reykjanesbæjar.

Ketill

Í Höfnum.