Færslur

Þerneyjarsel
Að sögn Magnúsar Jónassonar, bónda í Stardal, munu tóftir tveggja selja vera undir bakka skammt ofan við Tröllafoss í Leirvogsá, norðan árinnar. “Gengið er yfir hæð og við taka móaflákar. Þar eru selin”. Fyrst er Varmárselið og ofar er BeitarhúsÞerneyjarselið. Enn ofar eru beitarhúsatóftir frá Stardal.
Enn eitt selið er suðaustur undir Þríhnúkum, austan Esjubergslækjar, en svo nefnist lækurinn er rennur niður frá Esjubergsseli í Rauðhólsgil. Um er að ræða mjög óljósar tættur. Ofar er Rauðhóll eða Stórhóll, eins hann stundum er nefndur. Mótar fyrir rauðum lit í honum, en hóllinn er að mestu úr móbergi. Um Jónsselið sagði Magnús telja að það geti verið í “hvamminum” efst við Jónselslæk, við enda skurðar, sem grafinn hefur verið til suðurs austast í túnum Seljabrekku.
Magnús tók fram landakort og benti á staðina, sem selin eiga að leynast, en FERLIR hafði áður gert tvær tilraunir til að finna Þerneyjarselið. Varmárselið.
hafði verið uppgötvað sem og Esjubergsselið undir Skopru.
Móskarðshnúkar skörtuðu sínu fegursta í fjallakyrrðinni við undirleik niðarlags Leirvogsár. Mófuglarnir sungu hver sitt stefið.
Rústir beitarhússins frá Stardal komu fljótlega í ljós skammt ofan við bakkann að norðanverðu, suðvestan undir yfirgefnu sumarhúsi vestan við Ríp undir Stardalshnúk. Um hefur verið að ræða þrjú stór samhliða fjárhús. Mikið grjót er í veggjum og vel sést móta fyrir hleðslum Þerneyjarselundir garða. Í viðtali við Magnús bónda hafði komið fram að deilur stóðu þá um landamerki, annars vegar Stardals og hins vegar Mosfells. Bóndinn í Stardal taldi að landamerkin væru um Rauðhólsgil, en Mosfellingar töldu þau vera við læk einn vestan undir Stardalshnúk. Stardalsbóndinn, sem endurbyggði eyðibýlið í Stardal um 1830, vildi láta á þetta reyna og reisti beitarhúsin á þessum stað, enda hvergi að finna gott efni til húsagerðar fyrr en þar. Með því vildi hann láta á þau mál reyna, en síðar munu aðlar hafa sæst á landamerkin við læk miðja vegu og voru beitarhúsin þá í landi Stardals.
Oftlega hefur heyrst á gömlu fólki að það hafði jafnan áhyggjur af landamerkjum, því það taldi aðra jafnan ásælast þau. Ljóst er að áhuginn hefur jafnan verið fyrir hendi. Í fyrstu voru landnámsmenn heygðir á landamerkjum, bæði til að senda öðrum skýr skilaboð um mörkin (Adolf Friðriksson) og til að fæla aðra frá að komast yfir þau (vernd hinna látnu). Síðar voru ábúendur heygðir á mörkum gróinna túna, jafnan með yfirsýn yfir ástsæla bletti. Með kristnini breyttist þetta og flattist út.
Einnig, og kannski miklu fremur, má telja víst að selin hafi ákvarðast af nytsemi landsins, nálægt við vatn og handhægt

byggingarefni. En eflaust hafa bændur fikrað sig eins langt til þeirra kosta í landinu og nokkurs var völ, m.a. með framangreint að leiðarljósi.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Skammt vestar eru tóftir Þerneyjarsels. Þær eru uppi á grónum bakka, vestan lítils lækjar, sem einhvern tímann hefur verið stærri. Tóftirnar, sem eru samhangandi, tví- eða þrískiptar, kúra undir lágum, en grónum, melbakka. Dyr snúa mót suðri. Ekki er að sjá móta fyrir stekk, en skammt er úr selinu niður í ána. Þessar tóftir eru u.þ.b. 100 metrum austan við Varmársel, eða miðja vegu milli þess og beitarhúsatóftanna, skammt innan girðingar, sem þarna er.
Þá var stefnan tekin upp undir sunnanverða Þríhnúka. Gengið var beint inn á svæðið, sem Magnús hafði lýst. Það er mjög gróið, en hefur verið mun grónara og samfelldara fyrrum. Grastorfur er nú beggja vegna Esjubergslækjar. Mun grasgefnara er sunnan lækjarins, en hann beygir þarna til vesturs, rétt eins og Magnús hafði lýst. Þúfnakargi er þarna svo að segja um allt og mjög erfitt að segja til ákveðið selstæði. Líklegt má telja að það hafi verið staðsett undir bakka eða hlíð, en austan kargans er stór og langur hóll er gefur gott skjól fyrir austanáttinni. Ekki var að sjá nein ummerki eftir tættur þar heldur. Staðurinn er hins vegar hinn fallegasti og einstaklega skjólgóður, með lækinn sírennandi. Selstaðan þarna gæti hafa verið frá Lágfelli eða Helgafelli.
Loks var reynt að skyggnast enn og aftur eftir öruggum ummerkjum eftir Jónsseli. Gengið var til suðurs með skurðinum fyrrnefnda, alla leið upp í gróinn hvamm er liggur milli Bringna og Geldingatjarnar. Sést niður að tjörninni þar sem hann rís hæst. Gengið var til baka eftir gamalli götu nokkru vestar, en allt kom fyrir ekki. Þó kom einn staður, ofan og austan girðingar til greina umfram aðra. Hann er á grónu svæði svo til beint ofan við upphaf Jónsselslækjar. Þar mótar fyrir gróinni, nokkuð stórri, tóft.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Þerneyjarsel

Þrjú sel eru innan og ofan við Tröllafoss í Leirvogsá. Varmársel er efst. Skammt þar frá er Þerneyjarsel. Esjubergssel er ofan við Rauhólsgil, innan við Esjubergsflóa. Þar er hæðin Skopra. Tóftir eru greinilegar.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Gengið var upp með norðanverðri Leirvogsá áleiðis að framangreindum seljum. Einnig var ætlunin að skoða tóftir Sámsstaða og jafnvel leifar bæjar Halls goðlausa Helgasonar er nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla.
Esjubergsflói er dalverpi sem skilur að Haukafjöll og Stardalshnúka. Vestan við flóann eru þrír stakir grágrýtishnúkar í Haukafjöllum og nefnast Þríhnúkar. Esjubergsflói hefur nafn sitt af því að forðum var þangað selför frá Esjubergi á Kjalarnesi; má enn líta tóftir selsins austast í honum undir strýtumynduðum hnúk sem heitir Skopra. Úr flóanum fellur lækur suður til Leirvogsáar um svonefnt Rauðhólsgil.
Stefnan var tekin upp Rauðhólsgil. Gilið er djúpt neðst, en lagast vel að landinu ofar. Haldið var upp í Esjubergsflóa og þaðan í Svartaflóa. Mikið gras er þarna og mýrlendi. Útsýnið er fallegt yfir hæðir og hnúka. Esjubergssel kúrir þarna undir nefndri klettahæð norðan við Esjubergsflóa. Sér í vesturöxl Skálafells til austurs.
Haldið var yfir að Stiftamti neðan við Amtið (eða Ömtin), sem er áberandi stuðlabergshæð, einkum mót suðri. Undir hæðinni hefur verið gerð tilraun til ræktunar og þar er gamalt sumarhús, eyðilegt. Þetta er örskammt norðan við vegslóða og vað á Leirvogsá. Þarna rís lág klettarhæð eins og hús að líta frá götunni. Hún heitir Rípur. Neðan (suðvestan) við Ríp, rétt ofan við Leirvogsá, eru miklar tóftir.
Norðan við Ríp gnæfir Stiftamtið fyrrnefnda með lóðréttum hamraveggjum eins og gríðarstór bergkastali. Vestan við það er hnúkaþyrping sem nefnist Amtið. Í því má vel sjá ummerki eftir jökulinn, sem hefur skafið svo duglega ofan af stuðlabergsendunum þarna í hæðunum. Í giljum má sjá fallega bólsta og aðrar kvikustorknunarmyndir jarðsögunnar.

Varmársel

Varmársel.

Þarna fyrir austan er skarð inn í hnjúkaþyrpinguna, sem heitir Sámsstaðaklauf, en neðan hennar sér enn þá tún og rústir gamals eyðibýlis, sem heitir Sámsstaðir.
Tóftin er vestast í túnbleðli við lítinn sumarbústað. Í tóftunum er staur með málmplötu á. Líklega hefur einhvern tímann staðið þar: “Friðlýstar fornleifar”. Fyrir áhugasamt fólk segir áletrunin ekki neitt, ekki einu sinni að þarna séu friðlýstar minjar. Munnmæli eru um að þarna hafi fyrrum verið kirkjustaður en legið í auðn síðan drepsótt var hér á landi, þ.e. Plágan mikla 1402, eða svo er hermt eftir elstu mönnum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Um eigendur þeirrar kirkjujarðar vissi enginn neitt að segja enda vart von á því þeirrar kirkju getur hvergi í skjölum. Nafnið bendir til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og skjól fyrir flestum áttum.
Ef “bæjarstæðið” er skoðað mætti ætla að þarna hafi verið sel, a.m.k. eru tóftirnar “seljalegar”; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð og sjá má í seljum á þessu svæði. Vitað er að margir bæir í Kjósinni áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp gætu hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum, sem þarna áttu að hafa verið.

Stardalsmúli

Stardalhnúkur.

Stardalshnúkur er áberandi kennileiti til norðurausturs. Hann myndaðist við að hraunkvika tróðst upp í móberg inni í í Stardalsöskjunni. Móbergið er enn hægt að skoða í giljum upp af Sámsstöðum, sem koma niður úr fyrrnefndu skarði, Sámsstaðaklauf, austan við Stiftamt og Ríp.
Víða er fallegt stuðlaberg á þessu svæði og há lóðrétt bergþil. Basaltinnskotið var lengi að kólna þarna og náði því að mynda gilda stuðla.
Stuðlaberg er notað um storkuberg þar sem stuðlar blasa við; [columnar basalt]. Stuðlar í bergi myndast við storknun þegar bergið dregst saman við að kólna og myndar margstrenda stuðla hornrétt á kólnunarflötinn. Stuðlað storkuberg verður til þegar kvika storknar og kólnar minnkar rúmtak efnisins. Kraftarnir, sem myndast við þessar rúmmálsbreytingar, losna á auðveldastan hátt með því að mynda marghyrnt sprungumynstur, oftast sex- eða fimmhyrnt. Neðst í hraununum eru stuðlarnir sem myndast á þennan hátt reglulegir og ávallt hornréttir á kólnunarflötinn. Ofar og nær yfirborði hraunanna er lag smágerðra óreglulegra stuðla sem mynda kubbaberg.  Þetta óreglulega lag er víða horfið á gömlum hraunum vegna rofs, samanber Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri.

Sámsstaðir

Sámsstaðir.

Víða sjást mjög sérkennilegar myndanir stuðla eins og til dæmis í gömlum gígfyllingum þar sem gjallkápa gígsins hefur máðst burtu við rof eins og t.d. í Hljóðaklettum. Þekktar stuðlabergsmyndanir hérlendis eru t.d.: Gerðuberg í Hnappadal, Kirkjugólfið að Klaustri, Dverghamrar á Síðu, við Svartafoss í Skaftafelli og við Litlanefsfoss í Hengifossá í Fljótsdal.

Í landnámsbókum er greint frá manni sem hét Hallur goðlausi Helgason og sagður venslaður eða skyldur ýmsum kunnum landnámsmönnum, t.a.m. Þórði skeggja, sem nam Skeggjastaði, og Ketilbirni gamla að Mosfelli í Grímsnesi. Hallur nam land að ráði Ingólfs í Reykjavík allt millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla. Bæjarnafnið Múli er nú týnt og kann enginn að segja hvar sá bær hefur staðið. Í túni núverandi býlis Stardals undir Múlanum eru margar rústir eftir forna byggð, segja heimildir a.m.k.
Hús var tekið á Magnúsi bónda í Stardal. Hann tók vel á móti göngufólkinu, benti m.a. á hinn gamla bæjarhól Stardals norðan núverandi húss. Þar má enn sjá leifar hlaðinna túngarða. Magnús sagði að þar hafi jafnan verið snjóþungt og því hafi húsin verið færð svolítið lengra til suðurs. Ekki kannaðist hann við leifar fornra bæjarstæða undir Múlanum, en hann væri þó eina örnefnið með því nafni á þessum slóðum. Magnús sagði að Esjubergsselið væri enn greinilegt undir Skopru. Hann hefði sjálfur margoft komið í þessi sel við leitir. Þá væru hin tvö augljós, 30-40 metrum ofan við norðurbakka Leirvogsár, skammt ofan við Tröllafoss.
Haldið var niður með Leirvogsá, áleiðis niður að Tröllagljúfrum.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Á leiðinni var komið við í einni seltóftinni, Varmárseli. Hún er skammt ofan við bakka árinnar að norðanverðu, í fallegu gróðurverpi. Gömul reiðgata liggur svo til alveg við tóftirnar. Þær eru dæmigerðar fyrir sel á Reykjanesskagagnum; tvö rými saman og eitt til hliðar (eldhúsið).
Gerð var leit að annarri tóft, Þerneyjarseli, sem átti að vera þarna nálægt, en hún vildi ekki láta sjá sig í fyrstu atrennu. Hún mun örugglega koma í ljós síðar.
Í Tröllagljúfrum er sérkennilegt landslag berghóla með grösugum lægðum á milli og heita þær Tröllalágar. Þar segir sagan að enn megi sjá rústir fornra selja sem nefnast Varmársel og Þerneyjarsel. Segja nöfnin til um hvaða bæir áttu þangað selför. Líklegt er að selið, sem skoðað var hafi verið Varmársel.
Tröllafoss setur mikinn svip á gljúfrin. Skammt neðar er miklu mun minni foss, nafnlaus.
Tröllalágar bera nafn með réttu. Í gilinu neðan við Tröllafoss eru hrikaleg ummerki vatnsgraftar í 11000 ár.

Svæðið er vel fallið til gönguferða. Gömul reiðleið liggur norðan með ánni og er ákjósanlegast að fylgja henni. Af götunni er hið fegursta útsýni og alltaf tekur við ný sýn á landið umhverfis. Rétt er að njóta þess áður en áin verður virkjuð varanlega.
Móskarðshnúkar “brostu” sínu bjartasta, hnúkarnir lögðu sig fram við að sýna kolla sína og stuðlabergsdranga og Skálafell vildi alls ekki verða neinn eftirbátur þeirra. Lognið og blíðan í febrúar undirstrikuðu gildi svæðisins til útvistar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33. mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1985.
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/

Esjubergssel-401

Esjubergssel.

 

2006