Þerneyjarselið. Enn ofar eru beitarhúsatóftir frá Stardal.
Enn eitt selið er suðaustur undir Þríhnúkum, austan Esjubergslækjar, en svo nefnist lækurinn er rennur niður frá Esjubergsseli í Rauðhólsgil. Um er að ræða mjög óljósar tættur. Ofar er Rauðhóll eða Stórhóll, eins hann stundum er nefndur. Mótar fyrir rauðum lit í honum, en hóllinn er að mestu úr móbergi. Um Jónsselið sagði Magnús telja að það geti verið í “hvamminum” efst við Jónselslæk, við enda skurðar, sem grafinn hefur verið til suðurs austast í túnum Seljabrekku.
Magnús tók fram landakort og benti á staðina, sem selin eiga að leynast, en FERLIR hafði áður gert tvær tilraunir til að finna Þerneyjarselið. Varmárselið.
hafði verið uppgötvað sem og Esjubergsselið undir Skopru.
Móskarðshnúkar skörtuðu sínu fegursta í fjallakyrrðinni við undirleik niðarlags Leirvogsár. Mófuglarnir sungu hver sitt stefið.
Rústir beitarhússins frá Stardal komu fljótlega í ljós skammt ofan við bakkann að norðanverðu, suðvestan undir yfirgefnu sumarhúsi vestan við Ríp undir Stardalshnúk. Um hefur verið að ræða þrjú stór samhliða fjárhús. Mikið grjót er í veggjum og vel sést móta fyrir hleðslum
undir garða. Í viðtali við Magnús bónda hafði komið fram að deilur stóðu þá um landamerki, annars vegar Stardals og hins vegar Mosfells. Bóndinn í Stardal taldi að landamerkin væru um Rauðhólsgil, en Mosfellingar töldu þau vera við læk einn vestan undir Stardalshnúk. Stardalsbóndinn, sem endurbyggði eyðibýlið í Stardal um 1830, vildi láta á þetta reyna og reisti beitarhúsin á þessum stað, enda hvergi að finna gott efni til húsagerðar fyrr en þar. Með því vildi hann láta á þau mál reyna, en síðar munu aðlar hafa sæst á landamerkin við læk miðja vegu og voru beitarhúsin þá í landi Stardals.
Oftlega hefur heyrst á gömlu fólki að það hafði jafnan áhyggjur af landamerkjum, því það taldi aðra jafnan ásælast þau. Ljóst er að áhuginn hefur jafnan verið fyrir hendi. Í fyrstu voru landnámsmenn heygðir á landamerkjum, bæði til að senda öðrum skýr skilaboð um mörkin (Adolf Friðriksson) og til að fæla aðra frá að komast yfir þau (vernd hinna látnu). Síðar voru ábúendur heygðir á mörkum gróinna túna, jafnan með yfirsýn yfir ástsæla bletti. Með kristnini breyttist þetta og flattist út.
Einnig, og kannski miklu fremur, má telja víst að selin hafi ákvarðast af nytsemi landsins, nálægt við vatn og handhægt
byggingarefni. En eflaust hafa bændur fikrað sig eins langt til þeirra kosta í landinu og nokkurs var völ, m.a. með framangreint að leiðarljósi.
Skammt vestar eru tóftir Þerneyjarsels. Þær eru uppi á grónum bakka, vestan lítils lækjar, sem einhvern tímann hefur verið stærri. Tóftirnar, sem eru samhangandi, tví- eða þrískiptar, kúra undir lágum, en grónum, melbakka. Dyr snúa mót suðri. Ekki er að sjá móta fyrir stekk, en skammt er úr selinu niður í ána. Þessar tóftir eru u.þ.b. 100 metrum austan við Varmársel, eða miðja vegu milli þess og beitarhúsatóftanna, skammt innan girðingar, sem þarna er.
Þá var stefnan tekin upp undir sunnanverða Þríhnúka. Gengið var beint inn á svæðið, sem Magnús hafði lýst. Það er mjög gróið, en hefur verið mun grónara og samfelldara fyrrum. Grastorfur er nú beggja vegna Esjubergslækjar. Mun grasgefnara er sunnan lækjarins, en hann beygir þarna til vesturs, rétt eins og Magnús hafði lýst. Þúfnakargi er þarna svo að segja um allt og mjög erfitt að segja til ákveðið selstæði. Líklegt má telja að það hafi verið staðsett undir bakka eða hlíð, en austan kargans er stór og langur hóll er gefur gott skjól fyrir austanáttinni. Ekki var að sjá nein ummerki eftir tættur þar heldur. Staðurinn er hins vegar hinn fallegasti og einstaklega skjólgóður, með lækinn sírennandi. Selstaðan þarna gæti hafa verið frá Lágfelli eða Helgafelli.
Loks var reynt að skyggnast enn og aftur eftir öruggum ummerkjum eftir Jónsseli. Gengið var til suðurs með skurðinum fyrrnefnda, alla leið upp í gróinn hvamm er liggur milli Bringna og Geldingatjarnar. Sést niður að tjörninni þar sem hann rís hæst. Gengið var til baka eftir gamalli götu nokkru vestar, en allt kom fyrir ekki. Þó kom einn staður, ofan og austan girðingar til greina umfram aðra. Hann er á grónu svæði svo til beint ofan við upphaf Jónsselslækjar. Þar mótar fyrir gróinni, nokkuð stórri, tóft.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.