Færslur

Þingvellir

Á Þingvöllum eru margar gamlar götur og stígar. Má þar nefna Tæpastíg, Langastíg, Leynistíg, Kárastaðastíg, Skógarkotsveg, Vatnskotsgötu, Veiðigötu, Sandhólastíg, Hrauntúnsveg, Leiragötu, Prestastíg, Kluggustíg o.fl.
SilfraÆtlunin er að feta nokkra þeirra og kíkja í leiðinni á nokkrar gjár, s.s. Silfru, Háugjá, Litlugjá, Hrafnagjá, Kolsgjá, Leiragjá, Brennugjá, Flosagjá, Snókagjá, Hvannagjá, Stekkjargjá, Almannagjá, Hestagjá, Lambagjá, Hrútagjá, Fjósagjá, Túngjá, Skötugjá, Kattargjá, Seiglugjá, Peningagjá, Nikulásargjá, Hellugjá, Sandhólagjá, Sleðagjá, Vallagjá, Söðulhólagjá, Hlíðargjá, Gildruholtsgjá, Bæjargjá og Gaphæðagjá.
Sprunguþyrpingar, þ. e. belti af opnum gjám og misgengjum, eru algengar í gosbeltum hér á landi, en finnast einnig á eldvirkum svæðum erlendis.
Almenn lýsing á öllum sprunguþyrpingum á íslandi er í grein Kristjáns Sæmundssonar (1978), en ítarleg lýsing á einstöku sprungusvæði er í grein Ágústs Guðmundssonar (1980) um sprungurnar við Voga á Vatnsleysuströnd. Jón Jónsson (1978) hefur einnig lýst sprungunum á Reykjanesskaga. Sprunguþyrpingar hér á landi eru allt að 20 km breiðar og 100 km langar. Flestar eru þó talsvert minni að flatarmáli, og almennt eru sprunguþyrpingarnar álíka að flatarmáli og rofnar gangaþyrpingar (Walker 1974).
FjosagjáÁ síðustu árum hafa umfangsmiklar rannsóknir farið fram á sprunguþyrpingunni við Kröflu (Axel Björnsson o. fl. 1979, Oddur Sigurðsson 1980, Torge 1981, Eysteinn Tryggvason 1980). Kröfluþyrpingin gliðnaði um nokkra metra á tímabilinu 1975-1983.
Gliðnunin er talin orsakast af göngum sem troðast lárétt inn undir þyrpinguna á nokkurra kílómetra dýpi (Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir 1980, Pollard o. fl. 1983). Stundum ná þó gangarnir til yfirborðs og verða þá sprungugos. Utan íslands hafa sprunguþyrpingarnar á Hawaii einkum verið kannaðar og virðast að flestu leyti mjög áþekkar hinum íslensku (Duffield 1975, Pollard o. fl. 1983).
Thingvellir-123Sprunguaflfræði er vísindagrein sem hefur þróast ört á síðustu áratugum (Broek 1978). Beiting hennar í jarðfræði er þó nýtilkomin, en hefur þegar varpað ljósi á ýmsa þætti í myndun og þróun jarðsprungna sem áður voru óljósir (Rudnicki 1980). Enn er þó margt óskýrt, en aukin áhersla er nú
lögð á nákvæmar mælingar og tilraunir úti í náttúrunni ásamt athugunum á tilraunastofum (Logan 1979). Slíkar nákvæmar athuganir hafa meðal annars leitt til þess að menn gera sér nú betur grein fyrir því en áður, að allar jarðsprungur eru sundurslitnar eða ósamfelldar og því ber að fjalla um þær sem slíkar (Segall og Pollard 1980).

Thingvellir-124

Sprungumar á Þingvöllum eru hluti af mikilli sprunguþyrpingu sem kallast Hengilsþyrpingin (Kristján Sæmundsson 1978, Eysteinn Tryggvason 1982) og nær frá Langjökli í norðri til Reykjanesskaga í suðri. Þær sprungur sem hér verður rætt um liggja norðan við Þingvallavatn í um 9000 ára gömlu helluhrauni (Guðmundur Kjartansson 1964). Oft hefur verið talið að Þingvallahraunið sé frá Skjaldbreið. Svo mun þó ekki vera, heldur er það komið úr 15 km langri gossprungu á Tindfjallaheiði, vestan við Kálfstinda, og liggur það ofan á Skjaldbreiðshrauninu (Kristján Sæmundsson 1965). Þótt Þingvallahraunið sé úr gossprungu er það dæmigert helluhraun (dyngjuhraun), beltað og tuga metra þykkt, eins og best sést í veggjum Almannagjár.
Á undanförnum árum hafa margvíslegar jarðfræðilegar og jarðeðlisfræðilegar athuganir verið gerðar á Þingvallasprungunum, og verður helstu niðurstöðum lýst hér á eftir. Meginefni greinarinnar eru þó mælingar sem höfundur gerði á nokkrum af stærri sprungunum sumarið 1981 og tilgátur
um myndun og þróun þeirra.

Flosagja

Flosagjá er ein af megingjám Þingvalla með tæru vatni allt að 25 m djúpu. Á móts við þingið klofnar gjáin á löngum kafla og nefnist eystri kvíslin Nikulásargjá. Yfir hana var lögð brú 1907. Eftir það tóku ferðamenn að kasta 

smápeningum í vatnið fyrir neðan og smám saman var farið að kalla þann gjárhluta Peningagjá. Ekki er nein þjóðsaga tengd við Peningagjá en líta má á myntina í helköldu vatninu sem tákn um þá miklu auðlind sem vatnið er. Skötutjörn og Skötugjá eru framhald Flosagjár en Seiglugjá, Túngjá og Fjósagjá eru suður af Nikulásargjá. Silfra er litlu austar, að mestu sokkin í vatn. Um þessar gjár og víðar undan hrauninu rennur mesti hluti vatnsins sem myndar Þingvallavatn.
Jón Guðmundsson, Valhöll, sendi Bergmáli (Vísir 1954) eftirfarandi pistil: „Eg vil taka undir þau ummæli eftir Þingvelling, að leitt sé að hin fornu réttu nöfn haldist ekki á þessum stað. — Vil ég
leitast við að leiðrétta aðeins leiðan misskilning um Flosagjá. Nú er það svo að farið er að nefna Flosagjá Nikulásargjá og jafnvel „Peningagjá”. Í uppdrætti af Þingvelli er Nikulásargjá eða „Peningagjá” nefnd gjáin, sem peningunum er kastað í.”

Almannagjá markar plötuskil Evrópuflekans og Ameríkuflekans að vestanverðu. Almannagjá er eitt þekktasta kennileiti Þingvalla og steypist Öxará niður í hana sem Öxarárfoss. Áður lá bílvegurinn frá Reykjavík til Þingvalla um Almannagjá en 1. nóvember 1967 var hún friðuð fyrir bílaumferð.

Songhellir“Bergskúti sá var í gjárbarminum eystri (Almannagjá), sem kallaður er (eða var) Sönghellir, sbr. uppdrátt B. G. og útgáfu hans í ísl. beskr. (við bls. 92—93). S. G. hefir ekki markað hann á sinn uppdrátt, en hann getur um hann (á bls. 56) í ritgerð sinni þannig: »Sönghellir í Almanaagjá hefir nafn sitt af því, að þegar stúdentar frá Hólum og Skálholti hittust á Þingvelli, þá reyndu þeir sig í söng í Sönghelli, en glímdu í Almannagjá (eftir sögn doctors Schevings 1861).« — Hleðslan er að sumu leyti vestur-hliðveggur, 3,80 m. að 1., að sumu leyti suðurgaflhlað, 2. m. Mátti vel tjalda hjer inn yfir bergið og gera allgott skýli.”

Öxará hefur mótað umgjörð þingsins frá upphafi. Í Haukdælaþætti Sturlungu segir að ánni hafi verið veitt í Almannagjá til þess að þingheimur hefði greiðan aðgang að vatni.

Thingvellir-125Reiðgötur á Þingvöllum  Prestagata eða Prestastígur lá um Lyngdalsheiði norður um Hrafnabjargarháls að Ármannsfelli. Skálholtsbiskupar fóru þessa leið er þeir héldu til sveita norðan Bláskógaheiðar eða til Maríuhafnar í Hvalfirði, sem var aðal höfnin á 14. öld. Götur þessar voru líka nefndar Biskupavegur eða Hrafnabjargarvegur. Til Maríuhafnar hafa menn farið fyrir norðan Stíflisdalsvatn og síðan Þrengslaleið niður með Laxá í Kjós en Maríuhöfn var nokkuð fyrir vestan þar sem Laxá rennur til sjávar.

Norðaustan í Hrafnabjörgum var eyðibýlið Hrafnabjörg. Það á fyrir svartadauða að hafa verið í miðri sveit en þá voru að sögn 50 býli í Þingvallasveit. Seinna taldi einhver ferðalangur leggja þar reyk upp frá 18 bæjum þarna. Um Þingvallasveit hefur verið sagt að þar sé afdalabyggð í alfaraleið.

Leið liggur hjá eyðibýlinu Hrauntúni á Þingvöllum og þaðan yfir akveginn skammt frá Þjónustumiðstöðinni og eftir fornum götum í Skógarkot. Úr Skógarkoti niður að Þingvallavatni þar sem heitir Öfugsnáði lá svonefnd Veiðigata. Við Ögugsnáða er í dag vinsæll veiðistaður, veiðist þar bæði murta og bleikja. Gamla þjóðleiðin um Langastíg inn af Stekkjargjá er einnig notuð af hestamönnum.

Thingvellir-126Á barmi Almannagjár austan Öxarár er lítil grjótvarða, sem er til merkis um merkan stað, því í ljós kemur, að þarna er skarð í gjárvegginn, og um hann liggur stígur niður í gjána. Stígurinn er lagður grjóti því um hann lá aðal leiðin að vestan og sunnan niður á Vellina. Frá fornu fari lá aðalleiðin meðfram vatninu að vestanverðu, en árið 1789 urðu jarðskjálftar á Þingvöllum, svo miklir, að vatnsbakkinn seig um alin (rúml. 60 cm) samkvæmt frásögn Sveins Pálssonar læknis. Þá fór þessi gata undir vatn og var ófær. Var þá reynt að komast með hesta niður Kárastaðarstaðastíginn, en hann var svo þröngur, að baggahestar komust ekki þar niður. Urðu menn þá að ríða hingað að skarðinu sem við erum stödd i. Þá var skarðið lagað og gert hestfært. Stígurinn heitir Langistígur.
Við göngum nú niður Langastíg og höldum suður gjána, sem heitir Stekkjargjá á þessum kafla. Brátt Thingvellir-127komum við að háum, klofnum kletti á hægri hönd. Þetta eru Gálgaklettar, en fyrrum var tré skorðað á milli þeirra, og þeir þjófar hengdir, sem dæmdir höfðu verið til lífláts á Alþingi. Nokkru sunnar við Gálgaklettar eru rústir af stekknum, sem gjáin er við kennd.

Frá Sleðaási, en hann er sunnanundir Ármannsfellinu, eru tröppur yfir þjóðgarðsgirðinguna stutt frá hinni gömlu skilarétt sveitarinnar, sem lauk hlutverki sínu fyrir alllöngu. Lagt er af stað eftir gömlu götunni að Hrauntúni, sem liggur skammt úti í hrauninu. Hlaðin varða vísar okkur rétta leið að götuslóðanum. Við röltum eftir henni í rólegheitum.
Innan stundar erum komið að túninu og bæjarrústunum. Fyrrum var hér allt fullt af lífi, búið myndarbúi og margt að sýsla. En nú er þetta allt horfið og túnið og rústirnar einar tala sínu máli. Túngarðarnir eru allir hlaðnir úr hraungrýti og sama er að segja um rústir íbúðar- og gripahúsa. Gaman er að skoða vatnsbólið, sem er í djúpri holu suðvestanvert við bæjarrústirnar.

Thingvellir-128

Eftir hæfilega dvöl í Hrauntúni leggjum við aftur af stað og nú göngum við suður hraunið í áttina að Skógarkoti eftir gömlu götunni milli bæjanna. Sunnarlega í túninu er skarð í túngarðinn. Við förum þar um og hittum um leið á götuna sem er skýr og greiðfær alla leið að Skógarkoti. Til gamans má geta þess, að í upphafi bílaaldarinnar skömmu fyrir 1930 var eina akfæra leiðin milli Suðurlands og Borgarfjarðar um Kaldadal að Húsafelli. Þá fóru bílarnir þennan veg, þótt ótrúlegt sé.
Nokkru áður en við komum að Skógarkoti förum við yfir veginn, sem lagður var þvert yfir hraunið frá Hrafnagjá að Völlunum í tilefni 11 alda afmælis byggðar á Íslandi. Þessi nútíma hraðbraut ætti að vekja okkur til nokkurrar umhugsunar um þær gífurlegu breytingar á samgöngum, sem hafa orðið á landinu á 20. öldinni, og ekki sér enn fyrir endann á.
Thingvellir-130Héðan frá þjóðveginum er stutt heim að Skógarkoti. Þar eru ummerkin mjög áþekk og í Hrauntúni, en þó hefur steinsteypan verið notuð hér við byggingu íbúðarhússins. Frá þessum stað blasir við hinn fagri fjallahringur sem umlykur Þingvallasveitina, og er sjálfsagt að gefa sér góðan tíma til að virða hann fyrir sér og rifja upp helstu örnefnin.
Thingvellir-129

Fyrrum lá þjóðleiðin að sunnan frá Vatnsviki (Vellankötlu) til Þingvalla fyrir neðan túnið í Skógarkoti. Um þessa fornu götu hefur margt stórmenni lagt leið sína í aldanna rás, en þekktastir og voldugastir voru feðgarnir og konungarnir Kristján 9. og Friðrik 8. Kristján kom sumarið 1874 og Friðrik sumarið 1907. Þeir fóru ríðandi austur að Gullfossi og Geysi og komu við á Þingvöllum í leiðinni. Gaman er að rifja upp frásögnina af komu Kristjáns. Það var mikið um að vera við Almannagjá 6. ágúst það ár. Um 1000 manns höfðu safnast þar saman til að halda þjóðhátíð. Bjuggu þeir í tjöldum.
Síðdegis þennan dag var von á konungi að austan og fylgdi honum hópur tiginna manna. Þegar konungsfylgdin nálgaðist var hraðboði sendur á undan til að flygja fundarmönnum fréttirnar. Stigu þá 12 mektarbændur á bak hestum sínum og riðu til móts við konung undir forystu Tryggva Gunnarssonar, síðar bankastjóra. Þeir mættu konungi fyrir neðan túnið í Skógarkoti og fluttu honum hollustukveðjur frá hátíðargestunum. Síðan riðu þeir fyrir konungsfylkingunni til baka á Þingvöll. Þá var ekkert gistihús til staðar, svo konungur var búinn næturstaður í Þingvallakirkju, sem þá var veglegasta húsið á staðnum.

Thingvellir-131

Þjóðvegurinn liggur niður á Leirurnar um svonefndan Tæpastíg Hvannagjár, sem er fyrir norðan veginn og Snjókagjár að sunnanverðu. Við göngum inn í norðurendann á Snókagjá. Þar eru lóðréttir hamraveggir til beggja handa en botn gjárinnar er víða vafirr gróðri. Hér er að finna rennisléttar flatir en þó þarf að klöngrast yfir stórgrýti á nokkrum stöðum, sem veldur töf. Þótt frá gjánni að veginum handan við gjárbarminn sé aðeins steinsnar, þar sem ys og þys umferðarinnar heyrist jafnt og stöðugt, erum við innilokuð í þessum klettasal í þögn og kyrrð.
Þessi mikla hraunsprunga liggur frá Þingvallavatni og allt norður að Ármannsfelli, misjafnlega breið og djúp. Hún heitir ýmsum nöfnum. Fyrir norðan veginn er Hvannagjá, sem fyrr er nefnd. Fyrir sunnan hana er Snókagjá, þá Stekkjargjá, Almannagjá, Hestagjá, Lambagjá og syðst er Hrútagjá, en hún er fyrir vestan og norðan Kárastaðanesið. Öll þessi nöfn minna á ákveðna starfsþætti þess fólks, sem fyrrum bjó og starfaði á Þingvöllum. Auk rústanna af stekknum í Stekkjargjá eru Gálgaklettar, aftökustaður þjófa, og vestur úr henni er Langistígur, sem við höfum skoðað áður. Í Almannagjá, fast við brúna, er Drekkingarhylur. Þar var sakakonum drekkt. Þannig minna næstum hvert spor sem við stigum, okkur á kafla Íslandssögunnar. Sumir þeirra vekja gleði og fögnuð, en aðrir þjáningar og tár.
Rétt áður en komið er að afleggjaranum heim að Þingvallabænum er grunn breið gjá á vinstri hönd. Heitir hún Brennugjá, því þar voru þeir menn brenndir á 17. öld, sem sakaðir voru um galdra. Eldsneytið var nærtækt, nokkrir hestburðir af hrísi úr Þingvallaskógi Gjárnar tvær eru hyldjúpar með kristalstæru vatni.
Brú er á Nikulásargjá og hafa Thingvellir-133margir haft þann sið að kasta smámynt af brúnni í vatnið. Hefur gjáin því oft verið nefnd Peningagjá. Þessi siður er ekki ýkja gamall. Nikulásargjá er kennd við Nikulás Magnússon sýslumann í Rangárvallasýslu sem drukknaði í gjánni á þingi árið 1742, en Flosagjá er kennd við höfðingjann Flosa Þórðarson frá Svínafelli í Öræfum, sem stjórnaði aðförinni að Njáli Þorgeirssyni og sonum hans á Bergþórshvoli og brenndi þá inni sumarið 1011. Árið eftir var þetta mál tekið fyrir, en þegar sættir tókust ekki með mönnum hófst bardagi. Hallaði á Flosa og menn hans. Segir sagan að Flosi hafi flúið undan óvinum sínum og á flóttanum hafi hann stokkið yfir gjána.
Frá Spönginni höldum við af stað áleiðis að bílnum og göngum eftir vestari barmi Flosagjár. Hún er víða hyldjúp og margra metra háir lóðréttir hamraveggir til beggja handa. Þetta minnir á, að hér þarf að fara að með gát því hrasi einhver og falli í vatnið er harla lítil von um skjóta björgun. Á móts við Stekkjargjá er haft á gjánni og þar var farið yfir gjána fyrrum þegar haldið var til Skógarhóla. Með þessum hætti röltum við áleiðis að bílnum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Ágúst Guðmundsson: Sprungurnar á Þingvöllum og myndun þeirra, Náttúrufræðingurinn 56. árg. 1986, bls. 1-3.
-Mbl. 2. ágúst 1979.
-Mbl. 9. ágúst 1979.
-Mbl.16. ágúst 1979.
-Vísir, 10. sept. 1954 – Bergmál, bls. 4.

Flosagjá

Þingvellir – Flosagjá.