Tag Archive for: Þingvallahellir

Sigurðarsel

Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Örnefni í Þingvallahrauni
Fyrsti kafli
„Það, sem venjulega er nefnt Þingvallahraun, takmarkast að austan af Hrafnagjá, að norðaustan af Mjóafellshraunum og Ármannsfelli, að norðvestan af Almannagjá og að suðvestan
af Þingvallavatni.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Hallstígur er syðst á Hrafnagjá, skammt fyrir norðan Arnarfellsenda. Þaðan og inn í Hallvík nær vatnið alveg að hallanum á vestari gjárbarminum, og er sá kafli nefndur Hallur, og eiginlega alla leið inn að Klukkustíg, meðan gjábarmarnir eru hærri en hraunið.
Frá Gjábakkastíg sunnan vegarins að Vellankötlu (eða Vatnsviki), er að mestu flatt hraun, sem heitir Gjáendar; það er allt sundur tætt af gjám, fullum af vatni.
Frá Gjábakkastíg vestur að Tjörnum hækkar hraunið norður eftir, norður fyrir Þingvallahelli; er svo að mestu leyti flatt norður af Sigurðarseli og Hellishæð og vestur að Hábrún, en hallar þaðan vestur að Mosalág og Lágbrún. Þetta heitir einu nafni Brún. Þetta var þrautastaður, að því er sauðbeit snerti á vetrum, bæði fyrir hraunbúa og aðra; jafnvel var fje rekið þangað til beitar austan úr Laugardal.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Hallviki er Veiðistígur á Hrafnagjá. Veiðin undir Halli frá Fornaseli (sem er grashvammur stór við vatnið, norðan við Arnarfellsenda) tilheyrði Þingvöllum, og heitir pláss það Ólafsdráttur. Það var að mestu ljeð Gjábakkabónda, og galt hann fyrir það veturgamla gimbur á vori hverju, og voru það víst góð skifti fyrir hann.

Hrafnagjá

Hrafnagjá – reiðgatan um Gjábakkastíg.

Eftir Gjábakkastíg liggur alfaravegur frá Biskupstungum og Laugardal, og hann var einnig mikið notaður af Grímsnesingum, áður en brú var sett á Sogið. Vegurinn lá þjett við Vellankötlu, þaðan (Kenndur við Ólaf konung helga; kirkjan á Þingvöllum var helguð honum. M.Þ.) norður hraunið að túngarði í Skógarkoti og þaðan vestur eða út á Þingvelli. Skammt austur frá Vellankötlu er stór grjóthóll, sem heitir Böðvarshóll. Þar hjá er fjárhústóft, sem Þorleifur Ólafsson í Vatnskoti hlóð, en varð aldrei notuð. Norðaustur af honum er Þingvallahellir. Var hann um langt skeið notaður til fjárgeymslu á vetrum frá Þingvöllum; var hann þó að öllu leyti illur til þeirrar notkunar, eins og f lestir hraunhellar eru, einkum ef þeir eru lágir, því að fjeð reitir ullina af hryggnum í berginu, og blautir verða þeir, þegar gólfið er orðið þjett af áburðinum; og alltaf er í þeim bergleki. Sunnan í hallanum upp af Vellankötlu heita Fjárhúsbrekkur, en þar sem brúnin er fullhækkuð við Litlugjá, er hóll einn, sem heitir Litlugjáarhóll.

Nýi-Þingvallahellir

Nýi-Þingvallahellir.

Skammt fyrir vestan Vellankötlu, vestan-við gamla veginn, en norðan við hinn nýja, eru Tjarnir. Norðaustan við þær eru Ámundahólar, að mestu grasi og skógi vaxnir. Austur af þeim er Nýi-stekkur; hvaðan hann hefir verið notaður, er mjer ókunnugt um, en líklega hefir það verið frá Skógarkoti. Þar norðaustur af er Nýi-Þingvallahellir; fann Pjetur Jónsson, smali á Þingvöllum, hann skömmu fyrir aldamót 1900; var hlaðinn fram af honum forskáli, eins og venja var til, og hann var tekinn í notkun í stað hins gamla, sem áður var getið, en hann var síðan lítið eitt notaður frá Arnarfelli.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Suður frá honum er brekka með vörðubroti; heitir Skúti. Þar norður frá, vestan í hallanum, eru Klukkuhólar; þeir eru tveir stórir grjóthólar með lautum og skógi; standa þeir andspænis hvor öðrum, með slakka á milli. Norður frá þeim, einnig vestan í hallanum, er Viðarklettsskógur, með kletti þeim, er skógurinn ber nafn af, norðast og austast sunnan undir svonefndum Höfðum; nær skógur þessi austur á fulla hæð Brúnar og niður að Eyðum, sem eru skógarlausar mosaflesjur. Austur frá Klukkuhólum, uppi á Brúninni, þar sem hún er hæst, er Hábrúnarklettur; er það einnig grjóthóll og ekki stór. Sunnan og vestan í Brún er skógur þjettur og hraunið grösugt, svo að þar sjest valla á stein eða flag, nema þar, sem einstakir stórir grjóthólar eru, þrátt fyrir, að þar var allt af mest áníðslan með fjárbeit og skógarhöggi. Frá Hábrúnarkletti liggur gjá, sem víða er að eins smáholur, suður hjá Litlugjáarhól og niður að Vellankötlu; heitir hún Litlagjá og var hinn mesti háski fjenaði á vetrum, er snjóar voru, og unglömbum á vorin.

Þingvallahellir

Í Þingvallahelli.

Eins og áður er sagt, heitir Klukkustígur þar, sem hverfur hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. Alla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel.

Sigurðarsel

Í Sigurðarseli.

Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður frá eru fornar tóftir, sem má ske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan hríðum. Við norðvesturhorn Sigurðarsels er Hellishæð. Það er há hæð, sem snýr h. u. b. í austur og vestur, með skógivaxna grasbrekku að sunnanverðu. Uppi á henni er hellir, ei all-lítill, sem notaður var frá Skógarkoti til fjárgeymslu. Hann var mörgum hellum betri að því leyti, að hann var talsvert hár, en blautur var hann þar, sem gólfið var lægst. Lægð lítil er við vesturenda Hellishæðar; fyrir vestan hana er Litla-Hellishæð, dálítill hóll með vörðubroti; sunnan undir henni, niður á Brún, er klettahóll, sem heitir Þorkelsklettur. Norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Frá Litlu-Hellishæð hallar suðvestur að Viðarklettsskógi og vestur að Höfðum, sem eru skógi og grasi vaxnar hæðir og lautir, og ná þær norður að Mosalág, norður að Ketilhöfða.
Vestan í hallanum, niður að Mosalág, heita Sláttubrekkur. Mosalág er laut stór eða dalur norðan-undir Höfðum, vestan undir Sláttubrekkum.

Hellishæð

Hellishæðarhellir.

Norðan við hana heitir Magnúsarklettsskógur. Vestan við hana er Mosalágarhæð, stór grjótbali, sem snýr h.u.b. í norður og suður.
Austan-frá Sláttubrekkum, norður af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smáhólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðingi á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þraut-beittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Norðaustur-af Bruna eru Selhólar tveir, annar með vörðubroti. Þeir eru rjett norður frá Flekkhól. Norðaustur af þeim er Syðri-Gapahæð; snýr hún í suðaustur og norðvestur; er hún skógi vaxin að suðaustan, en skógarlítill að norðaustan. Vestan í henni er sjerstakur klapparhóll; hann heitir Grenhóll.
Austur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sjerstakir hólar með litlu millibili. Þeir heita Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sje hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.

Þingvellir

Skógarkot – örnefni.

Nokkurn spöl suðaustur af Svínhólum eru Gildruholt. Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls. Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum.
ÞingvellirÞau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár, sem byrjar í Gjábakkahrauni, skammt austur af Hallstíg, og heitir Bæjargjá þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður fyrir Gildruholt. Þar hverfur hún á dálitlum kafla, og heita þar Hlíðarflár. Bilið milli Hrafnagjár og Gildruholtsgjár heitir einu nafni Torfa. Gildruholtsgjá er að því leyti frábrugðin Hrafnagjá og Almannagjá, að vestri barmur hennar hefur sigið rjett niður með þeim eystri án þess að gjáin opnaðist nokkuð að ráði, svo að þar getur fremur kallazt berg en gjá. Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan í Hrafnabjargahálsi. Norður af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá, sjest fyrir henni alla leið inn í Skjaldbreið, og heitir Söðulhólagjá fyrir norðan Prestastíg. Vesturbarmur hennar er að mestu eins og áðurnefndur Hallur, hann er hærri en hraunið að vestanverðu, og heitir Raftahlíð allt að Prestastíg.

Skógarkot

Skógarkot – heimtröðin.

Norður af Svínhólum hallar hrauninu talsvert til norðurs og norðvesturs. Þar eru Gapahæðir, syðri og innri; á milli þeirra er skógarlítið svæði. Þar er hóll einn sjerstakur, holur að innan, sem hæðirnar bera nafn af; ofan-í hann er op stórt og heitir því Gapi. Rjett hjá honum er annar hellir í flötum bala, sem hafður var til fjárgeymslu frá Hrauntúni, þó illur væri. Innri-Gapahæð snýr meira til norðurs og suðurs en sú syðri og er skógarlítil. Að vestan og norðan við Gapahæðir eru flatir hellubalar, mosavaxnir, með lautum og slökkum, og skógarrunnum og hríslum í brúnunum, nema á litlu svæði norður-með Raftahlíð eða Hlíðargjá, sem getur fremur heitið heiði eða móar allt norður að Prestahrauni. Það er nokkuð stór brunahraunsblettur með skörpum brúnum.

Prestastígur

Varða við Prestastíg sunnan Hrafnabjarga.

Vestur af Prestastíg, sem er á h.u.b. miðri Hlíðargjá, er Hlíðarstígur. Norður af Gapahæðum, fyrir norðan áðurnefnda mosabala, eru lítið áberandi hæðir, sem snúa h. u. b. í austur og vestur. Þær heita Einiberjahæðir. Þar fyrir norðan, og vestan Prestahraun, heitir Höfðaskógur; hallar honum lítið eitt mót suðri. Takmarkast hann að norðan af stórum grjótbala, sem snýr austur og vestur; hann heitir Brúnkolluhöfði, og eru þar takmörk þess virkilega Þingvallahrauns. Þaðan heita Mjóafellshraun alla leið að Skjaldbreið, frá Söðulhólagjá að Mjóufjöllum (-fellum).
Sunnan-á Mjóafellshrauni eru auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur. Það heitir Litla-Hrauntún, og hefur þar líklega bær verið. Vestur frá Brúnkolluhöfða og vestur að Hrauntúnsbæ heita einu nafni Skygnirnar, eru það hæðir, lautir og hólar, grasi og skógi vaxið. Þar, sem hæst er, heita Háskygnirahólar. Góðan kipp þar norður frá er Mjóafellsvarða á grjóthól einum. Þar norður frá er skógi vaxið hraun allt að Ármannsfelli og upp að Syðra-Mjóafelli. Austur úr Ármannsfelli gengur lág öxl með grasbrekku sunnan í, sem heitir Sláttubrekka og er þjett við veginn inn á Hofmannaflöt. Litlu fyrir sunnan Sláttubrekku eru sandflatir, sem ganga niður í hraunið, dálítið vaxnar skógi og eru auðsjáanlega myndaðar af vatnsrensli úr fjallinu. Þær heita Víðivellir. Þar er fyrst getið um, að Glámur sálugi hafi sjest; var þar að reiða hrís á einum hesti, eftir því sem Grettissaga segir.“

Annar kafli

Þingvellir

Þingvellir – Vellankatla.

„Vestan Vellankötlu ganga tangar nokkrir út í vatnið; lengst skaga þar fram Grunnhólar. Fyrir austan þá eru Nautatangar. Grunnhólar eru talsvert hærri en hraunið þar í kring, sem er að mestu lágt og flatt.

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

Upp undan Nautatöngum er Jórunnarvarða; þar varð úti 1884 kona frá Skálabrekku, er Jórunn hjet. Nokkru þar fyrir vestan gengur langur og krókóttur tangi út í vatnið; heitir hann Öfugsnáði, og veit jeg ekkert hvernig á nafninu stendur. Var hann oft notaður til aðrekstrar á vorin frá Skógarkoti. Vestan við hann er löng og hringbogin vík, sem oft er notuð til lendingarstaðar, þegar veiðin er bezt þar framundan. Hún heitir Öfugsnáðavík. Þar úti í vatninu er hólmi, sem heitir Langitangi; verpa þar bæði andir og kríur. Litlu vestar er Vatnskot. Þar voru víst fyrst hús fyrir ær og lömb frá Þingvöllum og síðar var þar það, sem kallað er þurabúðar- eða húsfólk. Það er, að það hafði ekki kýr eða bjó ekki við málnytu; þó mun það hafa haft einhvern sauðfjenað. Þess voru dæmi, að þar bjuggu tvær fjölskyldur.
Vestan við öfugsnáða er Vörðuvík, og vestan við hana Dagmálavík; er hún austan við Vatnskotstún. Þá er sker, sem heitir Murtutangi. Stutt fyrir ofan Vatnskot heita Hryggir; er það hólaröð, sem snýr austur og vestur. Austan-við þá er Þuríðarvarða; stendur hún á smáhól upp af Vörðuvík. Skammt austar og norðar er Fuglstapaþúfa. Þar austur frá, allt að Mel, eru mosaflesjur skóglausar, sem heita Eyður, upp að svonefndum Sauðasteinum, sem eru háir hellubalar með grasbrekkum að sunnan; snúa þeir austur og vestur. Austan við þá og Hellisvörðu var götuslóði frá Skógarkoti að Öfugsnáða, kallaður Veiðigata.

Þórhallsstaðir

Fjárhústóft í Ölkofra – Þórhallsstöðum.

Upp af Grunnhólum, vestan-við Tjarnir, eru stórir hólar með djúpum lautum á milli, sem heita Klifhólar. Skammt norður frá Tjörnum liggur vegurinn yfir bratta klapparhæð; heitir hún Melur. Þaðan gengur lægð til norðausturs, vestan undir Brúnarhallanum. Það heitir Lágbrún; nær hún allt að stórum grjóthól, sem lokar fyrir norðurenda hennar.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Á hól þessum er varða, sem heitir Stórastekkjarvarða, og er hún beint niður frá áðurnefndum Nyrðri-Klukkuhól. Þaðan eru óreglulegir hólar og balar til norðvesturs heim undir Gamla-stekk; heita þeir Stekkjarvörðubalar.
Að norðvestan við Lágbrún er ávalur jafn halli að henni, sljettur að ofan, sem heitir Leiti; nær það frá Stekkjarvörðubölum með Lágbrún að Hrútabrekkum, sem eru vestan í löngum grjóthól frá norðri til suðurs, austan vegarins. Leiti nær einnig alla leið heim að Gamla-stekk; hann er norðvestast á Leitinu og var notaður frá Skógarkoti. Stekkurinn er þar, sem líkur eru fyrir, að ölkofrastaðir hafi verið. Þar bjó Ölkofri eða Þórhallur sá, er ölið bruggaði fyrir alþingisgesti og brenndi Goðaskóg. Þar var haldið við litlum túnbletti fram undir 1900, og þar var brunnur fram yfr þann tíma, sem var þrauta-vatnsból frá Skógarkoti; hann þraut ekki, nema þegar þurkar og frost hjeldust vikum samam Ölkofrastaðir eða Gamli-Stekkur eru suðaustan undir hárri hæð, sem heitir nú Stekkjarhæð, og er þar skjól talsvert í norðanveðrum. Vestan í hæðinni er mjög djúpur dalur með bröttum brekkum og klapparbrúnum, sem einnig er kenndur við ölkofra, og vestan við dalinn er Ölkofrahóll.

Hallshellir

Í Hallshelli.

Vestur að Hrútabrekkum, að Sauðasteinum, heitir Hrútabrekkuskógur. Skammt fyrir ofan Sauðasteina, vestan-við Veiðigötu, þar sem fyrst sjezt heim að Skógarkoti, þegar gatan er farin, er lítill hóll með smá vörðubroti; hún heitir Hellisvarða. Þar undir er hinn frægi Hallshellir, sem um nokkur ár dró að sjer athygli fjölda fólks, og skal nú skýrt frá, hvernig hann fjekk frægð sína.
Sumarið 1902 var sá, er þetta ritar, vinnumaður í Skógarkoti hjá Hannesi bónda Guðmundssyni. Þá var þar einnig drengur, sem heitir Kristján Schram og nú hefur í mörg ár verið starfsmaður hjá Gasstöðinni í Reykjavík. Eitt sinn, er við komum úr veiðiför neðan af vatni, hvíldum við okkur í laut þeirri, sem er norðan við hólinn; fundum við þar litla holu, sem var að mestu lokuð af jarðvegi og lyngi. Þegar við rifum þar til, komum við niður í helli, auðvitað „fullan af myrkri“. Síðar fórum við þangað með ljós og sáum, að hellirinn var talsvert stór, og garður hlaðinn um hann þveran; fyrir innan garðinn er hann svo lágur, að skríða verður á fjórum fótum.

Þingvellir

Þingvellir – Hallshellir.

Næsta sumar, 1903, var á ferð á Þingvöllum enski rithöfundurinn Hall Caine. Hann hafði heyrt talað um helli þennan, skoðar hann og þykist finna eitthvað merkilegt við hann, sem hvorki hann sjálfur eða aðrir vissu hvað var. (Dr. Björn M. Ólsen og dr. Jón Stefánsson rannsökuðu hellinn með
Hall Caine í september 1903, og dr. B.M.Ó. skírði hann. Sjá grein eftir dr. J. St. í Ísafold, XXX., bls. 239. M.Þ.). Svo var hellinum gefið nafn hans, og hann kallaður Hallshellir, og verður nú frægur mjög. Þyrpist þangað múgur og margmenni, sem allt verður vonsvikið á merkilegheitunum, sem von var, en gaf bóndanum í Skógarkoti góðan skilding, því að allir þurftu á fylgd að halda, og kostaði hún krónu í hvert skipti. Dýrð þessi mun hafa staðið eitt eða tvö sumur; svo fjaraði þessi heimska út, eins og fleiri, og er Hallshellir nú fyrir löngu fallinn í þá fyrri gleymsku.
Rjett fyrir ofan Hrútabrekkur er brött klöpp í veginum, sem heitir Pelahella. Vestur af henni, austan Veiðigötu, eru smáhólar, sem heita Gráuklettar. Traðirnar í túninu liggja til suðvesturs; fram af þeim er stór, sljettur hellubali, sem heitir Vaðmálsbali; munu þar hafa verið breidd vaðmál til þerris; þar var einnig þurkuð ull, meðan það var í tízku. Yfir Vaðmálsbala liggur vegurinn við túngarðinn og frá honum, einnig Vatnskotsgata og Veiðigata.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Jón Kristjánsson, er bjó í Skógarkoti 1840—84, stækkaði þar túnið talsvert til suðurs; sú stækkun er kölluð Gerði; þar voru kvíaær bældar á nóttum, þegar búið var að hirða af því heyið. Þangað voru einnig kvíarnar fluttar; var ánum hleypt út eftir kvöldmjaltir, og lágu þær hreyf ingarlausar, þar til birta tók.

Þingvellir

Þingvellir – Skógarkot.

Í túninu suðaustur af bænum er djúp laut, er Möngudalur heitir. Beint austur af bænum er bali dálítill, sem heitir Harðhaus. Þar var ætíð hafður hrísköstur, sem notaður var til eldsneytis á vetrum. Bærinn stendur sunnan í hæð, sem nefndur var Balinn; uppi á honum voru fjárhús og heyhlöður. Þar, sem hann er hæstur, er sundurklofinn hóll, sem heitir Rjettarhóll. Austan við hann, norðan-við túngarðinn, var fjárrjett, og austanvið túnið tvö lambhús; nú er allt þetta óþarft orðið. Austast í túninu var brunnhola, sem fljótt þraut vatn í; var þá eins og í gamla daga leitað til gamla Ölkofra með drykk, og ef hann þraut, sem sjaldan var, meðan brunnurinn var hirtur og haldið við, varð að sækja vatn á hestum niður í Tjarnir, h.u.b. hálfrar stundar ferð.
Milli túnsins í Skógarkoti, norðan við götu, sem liggur að Ölkofra, er dálítill klapparbali, sem heitir Þverhóll. Austan við túngarðinn eru litlir klapparhólar; þeir heita Brunnklettar. Austur af lambhúsum, fyrir austan túnið, er stór hóll sundurklofinn; sem heitir Skygnir; er þaðan gott til yfirsýnar austur í Brúnarhallann og yfir hraunið þar á milli. Hjeðan hallar hrauninu lítið eitt austur að Höfðum og Mosalágarhæð; er á þessu svæði skógarlítið, og þar eru Eyður þær, sem áður voru nefndar.

Skógarkot

Skógarkot – rétt.

Góðan kipp austur frá Skygni er hæð lítil, sem snýr frá norðri til suðurs, með brekku vestan í, sem heitir Sand-„Gíslahæð“. Í brekkunni er lítið gildrag með sandflagi, og gæti hugsazt, að hæðin hefði nafn af gilinu og rjetta nafnið væri Sandgilshæð; stutt fyrir austan hana eru strýtumyndaðir smáhólar, sem heita Strýtuhólar. Þar fyrir austan tekur við áðurnefndur Magnúsarklettsskógur með Mangúsarkletti h.u.b. í miðju; er það nokkuð hár, sjerstakur hraunklettur; nær skógur þessi í austur að smáhólum, sem heita Músarhólar; eru þeir rjett fyrir norðan .áður-nefndan neðri eða vesturenda á Bruna; norður frá þeim ganga lágir og sljettir mosabalar með gras- og skógarlautum, allt austur að Syðri-Gapahæð.

Þingvellir

Þingvellir – Gaphæðaskjól.

Rjett fyrir norðvestan túnið í Skógarkoti er brekkumynd vestan í hæð, sem heitir Rjettarhæð; skammt norðvestur þaðan eru vörðubrot á þremur smáhólum; þær heita Jafningjar. Austan við þær liggur hin nýja gata upp að Hrauntúni, sem rudd var um 1910 til 1912; áður var gatan upp svonefndar Brúnir.
Austur frá Jafningjum, skammt norðaustur frá túninu, heita Djúpudalir; eru þeir tveir. Þar austan við er hin gamla Hrauntúnsgata; á milli Djúpudala og Skygnis er hóll með vörðubroti, sem heitir Gráa-varða. Þaðan frá Djúpudölum, hækkar hraunið norður eftir, og er það kallað einu nafni Brúnir. Er fyrst Neðsta-brún; austast á henni er Smalavarða; er það dálítil grjóthrúga, norður og upp frá Strýtuhólum; brúnin er einnig kölluð Smalavörðubrún. Vestur frá henni, norður frá Djúpudölum, eru hólar nokkrir, er heita Hrútaklettar. Dálítið ofar en Neðsta-brún er Mið-brún, þá Efsta-brún.

Þingvellir

Hrauntún – örnefni.

Þar sjezt fyrst heim að Hrauntúni, þegar þessi gamla gata er farin. Austur af Miðbrún eru Stórhólar tveir, þar sem hækkar hraunið til norðausturs frá Mosalág, þar til nokkuð fyrir norðan Músarhóla og upp undir Tvívörður. Þær eru í stórum bala, bar sem hraunið hættir að hækka, og heita þær nú Þorsteinsvarða. Því að rjett fyrir 1900 var vinnumaður í Skógarkoti, sem Þorsteinn hjet Þorbergsson, og hlóð hann eina vörðu úr tveimur. Frá Efstu brún er mishæðalítið, gras- og skógarlautir með smáhólum, heim að Hrauntúni. Stutt vestur af Efstubrún er vörðubrot lítið, sem heitir Markavarða. Í Þingvallalandi var engum afnotum skipt milli hjáleignanna, nema skógarhöggi.
Norður af Jafningjum er stór hæð, og norður af henni Miðhólar, smáhólar nokkrir; á milli þeirra og Markavörðu er alleinkennilegur hóll, klofinn mjög og grasi gróinn að neðan; hann heitir Eyvindarhóll. Hjá honum liggur hin nýja gata milli Hrauntúns og Skógarkots.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Frá Markavörðu, fyrir norðan Eyvindarhól, gengur lægð talsverð til vesturs; sunnan við lægðina er óglögg skógarrönd niður að Miðhólum, en norðan-við hana eru hæðir, vaxnar þjettum skógi og grasi, svo að varla sjezt á stein; þær heita Kolgrafarhólshæðir; hæst á þeim er vörðubrot, sem heitir Litla-Grímsvarða (Manni kemur til hugar hvort hún kunni að vera kennd við Grím litla eða hlaðin í öndverðu af honum. Hann mun hafa búið á Grím(s)stöðum (nú Grímastöðum); sbr. Árb. 1905, bls. 44—46. M.Þ.), sem nú hefir lengi verið kölluð í daglegu tali Grímsvarða.

Þingvellir

Kolgrafarhóll.

Við vesturenda hæða þessara er Kolgrafarhóll. Þaðan gengur lægð til norðausturs alla leið að Stóruvörðu. Hallinn austan við lægðina heitir Þrívarðnaskógur, sem hefur nafn af þremur vörðum á austurbarmi Þrívarðnagjár, norðan við götu þá, sem er frá Hrauntúni út á Leira. Gjáin er að mestu gjárholur á hraunbrúninni, þar sem lægðin byrjar að myndast frá Kolgrafarhæðum norður-fyrir Þrívörður. Vestanvið slakkann hækkar hraunið á dálitlum kafla vestur að Leiragjá (Hún mun vera Kolsgjá sú, er Ari fróði getur um í Íslendingabók; sjá Árb. Fornlf. 1880—81, bls. 38, nrn, M.Þ.),.. Í miðjum slakkanum er Birkihóll, talsvert stór um sig, klofinn mjög og skógi vaxinn.
Frá Þrívörðum austur að Hrauntúni er hraunið fremur sljett, grösugt og skógi vaxið. Ejett fyrir vestan túnið er Litlavarða og þjett við túngarðinn að vestan Hellishóll. Hrauntún var fyrst sel frá Þingvöllum, en 1830 byggði Halldór Jónsson þar, og bjó þar í mörg ár. Árið 1935 var það lagt algjört í eyði, eins og aðrar jarðir í Þingvallahrauni. Stutt fyrir austan túnið er Skygnisvarða; þar byrja Skygnirnar þeir, er fyr voru nefndir. Að sunnan við þá gengur slakki austur að Klofhól, sem er suður af Háskygnirahólum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Stutt austur af Skygnisvörðu er Hálfavarða, og er hún sízt meira en hálf. Á móti henni, sunnan við slakkann, eru litlir grjóthólar, sem heita Gráuklettar, norðan við Gaphæðaslóða, sem að mestu voru fjárslóðar og lágu austur að Gapa; góðan kipp þar suður af er áðurnefnd Þorsteinsvarða. Dálítið austur af Hálfuvörðu er Gamli-stekkur; í djúpum hólkrók sjest þar glöggt til tófta. Nokkuð í hásuður þaðan er Þorsteinshóll og suður af honum Kolgerðir, mishæðótt svæði í skóginum.

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar.

Norðaustur frá Hrauntúnsbæ gengur annar slakki norðan Skygnira, norðaustur að Brúnavörðu. Eftir slakka þessum liggur Víðivallagata, sem notuð var til heyflutninga af Hofmannaflöt í mörg ár. Norður af Gamla-stekk, sunnan götunnar, eru Stórhólar tveir; vestan hennar er Lamabgjárhraun alla leið frá Hrauntúni að Ármannsfelli, austur að Víðivöllum og vestur að Sandskeiðum. Austast í því, norður af Stórhólum, er Jarpmerarhóll. Þaðan norð-aústur frá eru Brúnir með samnefndri vörðu á hæsta hólnum austan götu; er hún góðan kipp suður frá Víðivöllum og suðvestur frá Mjóafellsvörðu, sem áður hefur verið getið. Norðausturaf Brúnavörðu er laut, sem oft stendur í vatn; þar heitir Grýlupollur.

Sleðaás

Réttin undir Sleðaási.

Frá Sláttubrekku eru ekki örnefni í sjálfu Ármannsfelli á þessu svæði, en Stóragil er upp af Lambagjárhrauni og Litlagil upp af Sandskeiðum, og Kriki þar, sem Sleðaás gengur fram úr fjallinu.
Rjett fyrir norðan túnið í Hrauntúni er hóll, stór og djúpt klofinn, og hefur verið notaður til að geyma í kindur yfir stuttan tíma, með því að hlaða fyrir sprunguna, og er hún grasi vaxin í botninn. Hóllinn heitir Lambagjá. Stutt þar norður frá ber hæst á litlum, skörpum hól, sem heitir Nibba). Norður þaðan er Kerjavarða; ber hún nafn af kerjum nokkrum, sem þar eru. En ker eru hellar, sem þakið hefur fallið niður í og engin útgangur er úr, nema beint upp. Þau voru oft hættuleg fje, sem hljóp þar niður, en komst ekki upp aftur. Þau eru venjulegast í sljettum bölum. Efst í Lambagjárhrauní, niðurundan Stóragili, er stekkur, sem notaður var frá Hrauntúni, þar til, að ekki þurfti meir á að halda.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabás-/Sleðaásrétt.

Í norðvestur frá Hrauntúni gengur smáhólaröð með skógar og graslautum. Þar er Gráavarða stutt frá túninu; lengra þaðan vestur er Stóra-varða; hún stendur á stórum bala, sem lokar áðurnefndum slakka að norðaustan. Stutt austur frá Stóruvörðu er djúp laut, sem snýr frá austri til vesturs og heitir Langalág. Þar norður af byrja Sandskeið, sem eru sandflög, runnin niður úr Ármannsfelli í leysingum.
Vestan Krika gengur Sleðaás suðvestur úr fjallinu. Kriki er allur þjettum skógi vaxinn og er einn með fegurstu blettum í Ármannsfelli. Við suðurenda Sleðaáss eru gamlar fjárrjettir, hlaðnar úr hraungrjóti 1876. Þær var hætt að nota 1910. Frá þeim liggur Rjettargata heim að Hrauntúni, og kemur vegurinn frá Ármannsfelli saman við hana neðst á Sandskeiðum, liggur þaðan austan Löngu-lágar og vestan Lambagjár heim í traðir í Hrauntúni.“

Þriðji kafli – (Þessi kafli er að miklu leyti saminn eftir upplýsingum frá Símoni Pjeturssyni í Vatnskoti.)

Þingvellir

Þingvellir – Vatnskot.

„Við Vatnskotsbæ er vík ein, sem heitir Grýla; er í henni uppsprettuvatn og er hún notuð sem vatnsból frá Vatnskoti. Þá er Naustavík. Þá Vatnsvík, og þar suður af Vatnskotshólmar. Skammt vestur af Vatnsvík er Breiðitangi, og samnefnd vík er inn með honum að vestan. Þá er Grjótnes, með Grjótnesvík að vestan. Þá Garðsendavík, og er þá komið að Lambhaga, en svo heitir tangi, sem skagar langt fram í vatnið suðaustur frá Þingvöllum. Fyrir sunnan Garðsendavík er Olnbogi; Litlu sunnar er Tvítóla eystri; þar suður af er Prestshólmi og vestur af honum er Tvítóla vestri. Þar skammt suður af er Lambhagatá. Nokkru norðar að vestan er allstór vík, sem heitir Óhemja. Tanginn, sem skagar lengst í vestur, heitir Leirutá. Vatnið þar fyrir innan til Þingvalla er kallað Leira. Örnefni eru engin í Lambhaga, nema hólabelti, sem liggur þvert yfir hann þar, sem tanginn byrjar, og heita þeir Lambhagahólar, og á þeim er grjótgarður gamall.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Vestur frá Vatnskoti liggur götuslóði til Þingvalla, sem kallaður var Vatnskotsvegur; lagðist hann af að mestu 1907, er hinn nýi vegur var lagður litlu ofar. Með gamla veginum vestur frá Vatnskoti eru óreglulegir balar, sem nefnast Hrossbeinar. Litlu vestar er Katthóll, einstakur hóll með hundaþúfu. Þá nokkru vestar er Kolgrafarhóll.

Þingvellir

Í Gaphelli.

Þar upp af er Kolgrafarhólshæð, og ber hana hæst milli Vatnskots og Þingvalla. Þar liggja gjásprungur til norðausturs og heita Kolgrafarhólsgjár. Þaðan skammt vestur er Hellugjá. Þá er Háagjá. Þar suðvesturaf er Silfruhæð, allstór bali frammi við vatnið; vestan undir henni er Silfra, gjá, sem svo heitir, sennilega vegna hins silfurtæra vants, sem í henni er, og liggur hún að Fjósaklifi þar, sem gamli vegurinn liggur heim að Þingvöllum. Vestan við Silfru er allstór klapparhóll, mjög sundurrifinn, sem heitir Silfruhóll. Rjett fyrir norðan hann er annar hóll, allmikið sundurtættur, sem heitir Dagmálahóll, og norðan undir honum dalur samnefndur. Norðaustur af hól þessum heitir Stöðull; er það hvammur, nokkuð sljettur; þar var fjárrjett og kvíastæði frá Þingvöllum. Vestan við Dagmálahól er Fjósagjá, full af vatni; er nú komin brú á hana á nýja veginum. Vestan við hana er hóll í Þingvallatúni, sem heitir Svelghóll. Suður af honum er Fjóshóll. Norðvestur af honum er dæld, sem Skeggi heitir; hana fyllti sjera Guðmundur Einarsson upp með grjóti. Þar vestur af er Miðmundatún. Norðast á því er Danski-dalur. Þá eru Biskupshólar, norðan við Þingvallabæ, vestan traðanna; austan þeirra er Klukkuhóll (247). Þar austur af er Kirkjutún að Kattargjá, sem liggur um Skötutjörn. Þar fyrir austan eru Seiglur; um þær liggja Seiglugjár. Norðan við Þingvallatún rennur lind ein úr gjáarsprungu, sem klakhús var byggt yfir um 1880 af sjera Jens Pálssyni; var það eitthvað notað stuttan tíma frá Þingvöllum.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Skammt fyrir austan Þingvallastöðul er Háagjá; yfir hana liggur Gönguvegurinn frá Skógarkoti á svonefndum Steinboga. Litlu suðvestar er stígur, sem heitir Brúnstígur. Þar fyrir austan Háugjá er Hellugjá og Hellugjárbalar, fyrir sunnan Gönguveg. Skammt austur af þeim liggur Gönguvegur um allstóran, lágan bala; hann heitir Svuntubali.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Nokkuð austur-af honum heitir Nónhæð. Suðaustur af henni eru þrír hólar, sera heita Nónhólar, og mun það vera nónsmerki frá Skógarkoti. Nokkru sunnar er varða á hól, sem Digravarða heitir, rjett vestan-við götu, er liggur frá Skógarkoti að Vatnskoti. Suður af Svuntubala er hóll einn með þúfu upp á, sem heitir Nautaþúfa. Suður af henni er allstór bali; þar, sem byrjar að halla suður af honum, er vörðubrot, er Biskupsvarða, heitir, og svæðið umhverfis hana Biskupsvörðuskógur; takmarkast hann að vestan af Kolgrafarhólsgjá, en að austan af Fjárhúshólshrygg; er það klapparbali, sem snýr norður og suður rjett niður að hinum nýja vegi. Suður af honum er allstór hóll, nokkuð sprunginn, sem heitir Fjárhúshóll, og er hann aðalsjónarhæð frá Vatnskoti.
Frá áðurnefndum hryggjum fyrir ofan Vatnskot er örnefnalaust að Vatnsdalshæð. Hjá henni er Vatnsdalur, austan Vatnskotsgötu. Þar norður frá er lítill, klofinn hóll, sem heitir Gjáhóll. Í suðvestur af túninu í Skógarkoti, stutt sunnan við veginn, gengur sljettur klapparbali, og djúp laut í kring að sunnan og vestan. Hann heitir Helluhholt. Þar skammt vestur af er Lýtingsvarða; stendur hún á bala með alldjúpum lautum; heita þeir Lýtingsvörðubalar. Suður af Helluholti er áðurnefndur Gjáhóll. Gönguvegur liggur yfir Helluholt hjá Lýtingsvörðu.

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.

Skammt fyrir vestan Skógarkot er dálítil hólaþyrping; eru hólarnir vaxnir þjettum skógi og grasi, og hallar bæði suður og vestur af þeim. Þeir heita Skógarhólar. Sunnan við þá er lægð, sem hækkar aftur suður að Nónhólum; er þar skógarlítið pláss, allt vestur að Þingvöllum. Góðan kipp norðaustur frá Skógarhólum eru Krókhólar; einn þeirra, sá norðasti, er alveg sjerstakur, en allir eru þeir stórir og með djúpum lautum. Mitt á milli þeirra og Eyvindarhóls eru Miðhólar norðan í skógarröndinni. Frá Krókhólum að Kolgrafarhól, og vestur að Sandhólum og Leiragjá, eru að mestu skógarlausir mosabalar.

Þingvellir

Þingvellir – Konungsvegurinn.

Sunnan í Skógarhólum liggur vegurinn út á Þingvelli; skammt vestur frá þeim er Háagjá; hún stefnir eins og allar aðrar gjár í nánd við Þingvelli í norðaustur og suðvestur; er á henni stígur, sem vegurinn liggur yfir. Næsta gjá þar stutt fyrir vestan er Vallagjá, sem vegurinn liggur einnig yfir. Vallagjá er framhald af Flosagjá og Nikulásargjá. Vallastígur heitir þar, sem vegurinn liggur yfir Vallagjá, og er þá komið á Þingvöll. Kippkorn norður frá Vallastíg eru tveir nokkuð stórir hraunhólar, sem Skyrklifshólar heita; þar norður frá eru Sandhólar, sunnan og suðaustan við Leira; þeir eru víst að mestu til orðnir úr foksandi af Leirum. Þeir eru nokkuð vaxnir skógi og víði. Í gegnum þá liggur Háagjá, sem þá heitir Sandhólagjá, að Sandhólastíg, sem er við suðausturhorn á Leirum. Þá heitir hún Leiragjá, að Jónsstíg, sem er stutt vestur frá Stóruvörðu. Leirustígur er á henni norðarlega, við Leira; um hann liggur Leiragata heim að Hrauntúni. Á milli Leirastígs og Jónsstígs hefur hún klofið stóra hæð vestur af Birkihól; hæð sú var nefnd Köst („á Köstunum“). Frá Jónsstíg heitir hún Sleðássgjá og hverfur loks undir Sleðaás.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Norður frá Þingvöllum heitir hallinn á eystra barmi Almannagjár Fagrarbekka allt að Leirum; þar kemur lækur í gegnum gjána, og hefur hann flutt efnið í Leira eins og Öxará í Þingvelli.
Norður frá Leirum, milli gjánna, upp að Bolabás, heitir Sleðáshraun. Það er talsvert stór blettur, dálítið skógi vaxinn, sunnan í móti, eins og með gjánum beggja vegna, en að mestu grjót og mosi. Bolabás er hvammur stór í Ármannsfelli, á milli Sleðaáss að austan og Fjárhússmúla að vestan.
Frá Langa-stíg, sem er upp frá norðurenda Vallanna efri, er dýpsti kafli Almannagjár, við Fögrubrekku, og heitir hún þar Snóka; þar verpir á vorin alls konar illþýði: hrafnar, smyrlar og jafnvel fálkar. 1 botni hennar var stundum heyjað frá Þingvöllum. Fyrir norðan Sóknu rennur Leiralækur; litlu norðar er Tæpistígur á Almannagjá; fyrir norðan hann heitir gjáin Hvannagjá; á henni er Leynistígur, þar, sem vegurinn liggur yfir hana; svo hverfur hún undir Ármannsfell vestast í Bolabás.“ – Ásgeir Jónasson.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Sigurðarsel - Þingvöllum

Sigurðarsel – uppdráttur ÓSÁ.