Tag Archive for: þjóðleiðir

Elliðakot

Í Alþýðublaðinu 1. nóv. 1963 fjallar Hannes á horninu m.a. um „Elliðakot„.

Elliðakot

Elliðakot.

„Um daginn vakti ég máls á því, að nýju elliheimili yrði valinn staður við Rauðavatn, og ræddi ég um þetta af tilefni þeirrar hugmyndar Gísla Sigurbjörnssonar að reisa smáhýsi við stærri elliheimili, sem aldrað fólk gæti fengið leigt eða að einhverju leyti til eignar en notið aðstoðar og fyrirgreiðslu starfseminnar í aðalbyggingunni.

Rauðavatn

Rauðavatn.

Hugmynd Gísla hefur nokkrum sinnum verið rædd opinberlega og ég minnist þess, að fyrir um tveimur áratugum minntist ég á svipað og þetta eftir að hafa kynnzt starfsemi fyrir aldrað fólk erlendis. Nú hefur mér verið bent á annan stað, sem gæti reynzt alveg eins heppilegur og við Rauðavatn, en það er jörðin Elliðakot, sem nú hefur verið í eyði í nokkur ár. Það var ræktað land og þar er fallegt vatn, skjólsamt og mátulega langt frá Reykjavík. Gott væri ef ráðamenn vildu athuga þessi mál. Elliheimili eiga ekki að vera inni í miðbiki borga. Þau mega heldur ekki vera langt í burtu. Rauðavatn og Elliðakot, virðast uppfylla flest skilyrði.“

Elliðakot

Elliðakot.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1914 fjallar Björn Bjarnason um örnefnin ofan Grafar, einkum þó hinar fornu þjóðleiðir.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason.

„Eg hefi gert skrá yfir örnefni sem nú eru kunn á jörð þeirri, er eg hefi búið á nú síðastliðin 16 ár. Hún er sýnishorn af örnefnafjölda á einni jörð. Alt landið er nöfnum stráð. Verða mætti þetta öðrum til hvatningar er rita vildu slíka skrá fyrir jörð sína og þannig geyma örnefni hennar frá röskun og ef til vill glötun. Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.

Austurleið

Austurleið.

Alla tíð síðan landið var bygt hlýtur umferð að hafa verið mikil milli austurhéraðanna annars vegar og sveita og hafna við sunnanverðan Faxaflóa hins vegar. Uppsigling kaupmanna hefir verið þar tíðari og sjávarafli vissari en á brimströndunum ofanfjalls, en aftur á móti betri landbúnaður eystra, og vöruskifti þvi mikil milli þessara staða. Hestar voru einu flutningatækin.

Ferja

Ferja á Þjórsá um 1900.

Þó ferjur væru við stórárnar hafa menn heldur kosið að fara þær á vöðum, er þess var kostur. Flóann hafa menn forðast vegna foræðanna og hraunin vegna ógreiðfærni og járnafrekju. Aðalvegurinn austan að, úr Rangárvallasýslu, hefir verið fyrir ofan Flóann, Þjórsá farin á Nautavaði eða Kallaðarholtsferju. (Sá bær er nú nefndur Kaldárholt, sbr. Árbók Fornl.fl. 1907, bls. 36. Norðan við túnið þar er Naustanes og Skipaklettur við Þjórsá og bærinn er í stefnu við veginn norðan Flóans. Engin Kaldá er þar til, en hverir í Þjórsá við túnið). Síðan hefir vegurinn legið yfir Skeið, sunnan undir Vörðufelli, og þá ofan með Hvítá. Vegarskoran í Árhrauni og gatnafjöldinn á Brúnastaðaflötum ber vott um, að sá vegur hefir verið fjölfarinn, en nú er þar að eins bæjaslangurs-umferð. Hvítá hefur verið farin á ferjum eða vaðinu, sem Vaðnes dregur nafn af. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstliðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum. Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum.

Sporið

Sporhellan ofan Dyradals.

Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjöllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum.

Sporhella

Sporhellan.

Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð i bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yflr Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefur verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð. En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot (sögn er sú, að Gizur biskup hafi átt samleið með þeim „upp undir Hellisheiði“ hendir til, að þangað hafi Dyra- og Ólafsskarðsvegir legið saman, eins og hefi hér bent á. Vegaskiftin eru vestast á heiðinni niður frá Lyklafelli; Viðeyjarsel hefir líklega verið litlu neðar, og þar gátu þeir hafa skilið) (Helliskot=Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins.

Austurleið

Austurleið.

Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi(?) og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t. d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur – Lyklafell.

5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t. d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o. s. frv. Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu.

Seljadalur

Vegur um Seljadal.

En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
Grafirnar, sem margt af bæjum á landi hér dregur nafn af, eru oft grónar, djúpar geilar eftir læki; svo er hér.

Bullaugu

Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.

Það er allvítt svæði sem hér er kent við Hádegi, enda voru 4—5 bæir i »Grafarhverfinu« og hafa allir haldið hádegi þar, en lítið eitt mismunandi, sumir á hæðinni, aðrir á vörðunni, o. s. frv. Hér var bygt ból snemma á næstl, öld, og síðar fjárhús frá Gröf. Nú er þar greiðasöluhúsið »Baldurshagi«, er dálítill landblettur fylgir.
Hefir á síðari tímum verið nefnd Margróf (latmæli) og var ágreiningur um merki milli Grafar og Árbæjar. Nú er þetta lagfært og merkin ákveðin.
Norðlingaholt. Um uppruna þessa órnefnis er ókunnugt,  en mér þykir líklegt að það stafi af umferð Norðlinga þar. Þegar þeir fóru til Suðurnesja, lá leið þeirra um Mosfellsheiði og yfir Mosfellssveit. Á fyrri öldum var lítið að erinda til Reykjavíkur, sem þá var að eins eitt býli. Lá þá beinast við að slá sér á austanveginn hjá Rauðavatni; er örstutt úr Grafarvogi suður á hann, enda er enn sýnileg skýr fornvegarskora yfir Hádegismóa hjá Hádegisvörðu í þá stefnu, ótrúlega djúp til að geta verið heimilisgata frá Gröf, og að öllu leyti lítil ástæða til slíkrar umferðar þar þaðan.

Austurleið

Varða við Austurleið.

En hafi Norðlingar farið þá leið, lá vegur þeirra meðfram Norðlingaholti að austan og sunnan. Á suðurleið sást þar fyrst til ferða þeirra frá næstu bæjunum þar, Elliðavatni og Vatnsenda, Oddagerði (Oddgeirsnes ?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á. M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á life … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes.
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skygnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skygninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Um Grafarkot segir í A. M.: »bygð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina að forn eyðijörd verið hafi, og hún fyrir svo löngum tíma í audn komin að fæstir vita hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa að þessi jörd hafl heitið Holtastadir«. Forn-rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefir verið mikið stærra fyrrum og girt. Eru utan (á því „byggði Bened. heit. Sveinsson í fyrstu flóðstíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk, og hraut um leið af nesinu) við það afar-fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi. _ ;.  Garður mikill hefir verið bygður út í Grafarvog frá báðum löndum, en líklega hafðir kláfar í miðju; þar er grjótið í  hrúgum, með skörðum í milli. Nú hefir safnast eyri að syðri garðinum svo að þar er nú sandtangi, en garðurinn sokkinn. Brekkan er upp frá honum. Í stórstraum fjarar út fyrir hann.
Eins og venjulegt er um fjölda örnefna, eru þau flest hér leidd af staðháttum og auðskilin. En þau, sem kend eru við menn (mannanöfn), veit nú enginn hvernig til eru komin, nema fáein er nýlega hafa myndast. – Grafarholti, 9. des. 1914.“

Í Tímanum í maí 1948 segir um Elliðakot:

Elliðakot

Elliðakot.

„Bær brennur Á föstudagskvöldið brann bærinn Elliðakot í Mosfellssveit til kaldra kola. Nær því engu af húsmunum og fatnaði var bjargað úr eldinum. Útihúsin tókst að verja vegna fádæma snarræðis með því að bera á þau vatn, sem sótt var úr mýri, þaðan skammt frá.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1914, Um örnefni eftir Björn Bjarnarson, bls. 9-16.
-Alþýðublaðið, 1. nóv. 1963, Hannes á horninu, bls. 2
-Tíminn, 103. tbl. 11.05.1948, bls. 8.

Elliðakot

Elliðakot.

Reykjavík

Á uppdrætti, sem fylgir örnefnalýsingu fyrir Grafarholt og Korpúlfsstaði má sjá gamlar þjóðleiðir frá og til Reykjavíkur að norðan og austan, þ.e. „Norður- og Vesturlandsveg fyrir aldamótin 1900“, „Þingvallaveg hinn forna“ og „Austurveg hinn forna„.

Vesturlandsvegur

Þjóðleið sem lá fyrir norðan Bústaði yfir vaðið í Árhólmana sunnan við Búrfoss, sunnan við Innréttingarhúsin í Árhólmanum yfir Ártúnsvað og áfram sunnan við túngarðinn og upp Reiðskarðið. Leiðin er teiknuð á kort Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831.

Í „Byggðakönnun 7 fyrir Árbæ“ frá árinu 2017 m.a lesa eftirfarandi um „fornar leiðir og greiðasölu„:
„Elsta þjóðleiðin til og frá Reykjavík lá frá Skólavörðuholti um Öskjuhlíð og áfram austur Bústaðaholt á þeim slóðum þar sem Bústaðavegur er nú. Frá Bústöðum lá leiðin austur yfir vaðið á vestari kvísl Elliðaánna, um Árhólmann sunnan við Drekkjarhyl og rústirnar af húsum Innréttinganna og yfir eystri kvísl Elliðaánna á Ártúnsvaði, rétt austan við þar sem Toppstöðin er í dag og framundan bæjarhól Ártúns. Á meðan Ártún var í þjóðleið var rekin þar greiðasala. Þaðan lá leiðin að Árbæ um Reiðskarð en þar var skarð í gömlu ísaldaráreyrina og því greiðast að fara þar upp.
VesturlandsvegurLeið þessi var aðalvegurinn austur úr bænum þar til byggðar voru tvær brýr yfir Elliðaárnar árið 1883 og nýr vegur var lagður í framhaldi af Laugavegi norður fyrir Grensás og í gegnum Sogamýri, sem ýmist var nefndur Suðurlandsvegur eða Suðurlandsbraut (núverandi Suðurlandsbraut). Fyrir austan brýrnar færðist vegstæðið norðar og eftir það var Ártún ekki í sömu alfaraleið og áður og greiðasala lagðist af þar. Um svipað leyti hófu ábúendur í Árbæ rekstur greiðasölu, eins og áður er nefnt, sem var rekin þar fram undir 1940.

Elliðaár

Hluti úr korti eftir Sigurð málara 1869. Vaðið á Elliðaánum er merkt inn á kort eftir Sigurð málara frá árinu 1869 og hefur verið þekkt þá. Í örnefnaskrá segir „Almenningsvöð eru neðstu vöðin á ánum [Elliðaánum].“  

Um 1900 var búið að gera vagnveg frá Elliðaárbrúm að Árbæ og áfram austur. Þessi vegur (gamli Suðurlandsvegur) er þar sem gatan Rofabær er nú. Vegurinn hélt síðan áfram til austurs framhjá Rauðavatni og að Geithálsi.
Áður lá vegurinn hjá Rauðavatni aðeins sunnar, samanber kort sem til er af svæðinu frá 1902 en þar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er sennilega elsti slóðinn sem lá á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og er líklega elsti forveri Suðurlandsvegar. Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Norðlingabraut. Annar slóði lá suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina og inn að Norðlingaholti.
Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nyrsti hluti hans nú notaður sem reiðvegur. Þá lá slóði yfir Klapparholtsmóa og Klapparholtsvað vestan við býlið Klapparholt yfir að Elliðavatni. Inn á kortið er einnig teiknaður vagnavegurinn meðfram Rauðavatni eða fyrsti Suðurlandsvegurinn“.
Norður- og Vesturlandsvegur lá fyrrum yfir Elliðaár frá Bústöðum að Ártúni. Þar beygði vegurinn upp á brúninar og niður að botni Grafarvogs, upp með vestanverðum Keldum að Korpúlfsstöðum að vaði ofan ósa Blikdalsár.

Vesturlandsvegur

Vegirnir gömlu ofan Reykjavíkur er fjallað er um – færðir inn á nútíma loftmynd.

Þingvallavegur hinn forni og Austurvegur lágu yfir vaðið á Elliðaánum, upp ásinn að Árbæ að Selási. Þar skyldu leiðir. Fyrri vegurinn lá áfram um holtið að Bullaugum, áfram hvylftina ofan Grafarholt (þar sem nú er golfvöllur), upp að Reynisvatni, upp með því til austurs að norðanverðu með Langavatni, niður að austanverðu Hafravatni, upp með Búrfellskoti að Selvatni og áfram inn Seljadal. Síðari vegurinn fór suður fyrir Selásinn og áfram i gegnum Rauðhólanna. Þar skyldiu leiðir; önnur lá upp að Elliðakoti og áfram til austurs að norðanverðu Lyklafelli, hin upp Lækjarbotna um Bolöldur og upp með norðanverðu Svínahrauni. Þar mættust vegirnir til áframhalds upp Hellisskarð og yfir Hellisheiði.

Heimildir:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 7 – Árbær; Reykjavík 2017, bls. 17-19.
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá; Reykjavík 2021.

Bullaugu

Uppdráttur með örnefnum (1963)
Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.

Hellugata

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall á Reykjanesi blasir við vegfarendum sem um Reykjanesbrautina fara ef horft er til suðurs og er þá vestan við Keili að sjá. Ef ekið er til Fagradalsfjalls frá Grindavík er beygt til vinstri af aðalveginum inn í bæinn við vegvísi sem á stendur Krýsuvík. Síðan er beygt aftur til vinstri og ekið eftir Ísólfsskálavegi í átt að Festarfjalli.

Grindavík

Festarfjall.

Vestan við Festarfjall er gaman að staldra við og horfa á fjallið. Festin er ljós berggangur sem liggur upp klettavegginn. Undir fjallinu er falleg fjara og þar hafa verið tekin atriði í kvikmyndum. Héðan ökum við inn fyrir Festarfjall yfir Siglubergsháls. Þegar yfir hann er komið sjáum við tún og haga sem tilheyra bænum Ísólfsskála, þar sem búskapur er nú aflagður, en bærinn notaður sem sumarhús.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall.

Fagradalsfjall að vestanverðu: Inn með hálsinum til vinstri liggur slóð (GPS N63 51 065 W22 19 507) til norðurs, fyrst yfir gróið land og síðan í hrauni (Beinavörðuhraun) að suð-vesturhorni Fagradalsfjalls sem heitir Kast. Í vesturbrún Kastsins fórst bandarísk herflugvél að gerðini B-24D í maí 1943 og með henni fjórtán menn. Þeirra á meðal var Andrews, yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu í síðari heimstyrjöldinni. Einn maður komst af lítt slasaður. Þegar komið er að fjallinu er komið á slóðamótum (GPS N63 52 852 W22 19 434).

Sé ekið til hægri liggur leiðin með fjallinu til suðurs að Selskál. Úr Selskál er ágæt gönguleið í Görn, dal austan við Kastið.
Við ökum til vinstri því við ætlum norður fyrir Fagradalsfjall. Ökum fyrst fyrir háls sem kemur suð-vestur úr fjallinu og svo á milli hrauns og hlíðar með fjallið á hægri hönd og Skógarfellshraunið á þá vinstri. Síðan höfum við Sandhól á vinstri hönd og Stóra Skógarfell sjáum við lengra út í hrauninu. Hér og þar nær hraunið alveg upp að fjallinu en yfirleitt er dálítið vik á milli hrauns og hlíðar. Hér er dálítill gróður, aðallega þó lyng og mosi. Þegar komið er undir norðurenda fjallsins er komið í grösugan slakka og heitir þar Fagridalur. Er líklegt að héðan dragi fjallið nafn sitt.
Fagridalur er slakki milli tveggja hrauna. Skógarfellshraun er að vestanverðu en Þráinsskjaldarhraun (Kálfellsheiði) að norðan og austan. Hefur það hraun næstum kaffært Fagradals-Vatnsfell og Fagradals-Hagafell norðaustan við Fagradalsfjall. Hér eru slóðamót. Annar liggur þvert yfir gróðurlendið með fjallinu, en hinn stefnir niður Fagradal eftir grastorfunni og er þá komið á leirsléttur. Hér er gömul göngu- og reiðleið til Voga og heitir hún

Sandakravegur.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Lengra úti í hrauninu var skotæfingasvæði stórskotaliðs Varnarliðsins. Slóð liggur áleiðis norður eftir Sandakravegi. Ef haldið er áfram slóðina með fjallinu eru slóðamót strax og komið er yfir fyrstu grastorfuna. Í stað þess að aka slóðina áfram yfir mosa og síðan grastorfuna með fjallinu er beygt niður melinn og síðan neðan við hóla (Nauthóla ?) að austurhlíð Fagradals, og síðan upp í átt að skarðinu sem er á milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Hér er mikið úrrennsli og jarðvegsrof. Þegar slóðin sveigir upp með Nauthólunum að austaverðu sjást ummerki Dalsels á hægri hönd í grastorfunni. Þar rétt fyrir ofan liggja leifar Short-Sunderland flugbáts sem fórst í fjallinu á stríðsárunum. (Í Langhól sem er hæsti tindur Fagradalsfjalls). Einn maður lést í slysinu, tveir á sjúkrahúsi og tíu slösuðust. Leið í Fagradal er um sex kílómetrar.
Fagradalsfjall að austanverðu. Á móts við bæinn á Ísólfsskála er beygt (GPS N63 51 175 W22 18 313) af Ísólfsskálavegi til vinstri, í norður upp með vesturhlíðum fjallsins Slaga. Þegar innfyrir Slaga er komið opnast útsýni til norðurs að fjöllum sem ganga suður úr Fagradalsfjalli, Borgarfjalli og Langahrygg austar. Á milli þeirra er dalur sem heitir Nátthagi, en þar er varla nokkur hagi lengur vegna gróðureyðingar. Nú komum við að slóðamótum. Leiðin til vinstri liggur í Nátthaga eða norður með Borgarfjalli. Sú slóð verður mjög ógreinileg þegar komið er norður fyrir Borgarfjall í Nátthagakrika, og þaðan að slóðinni yfir Beinavörðuhraunið.
Við höldum áfram í austur um Stóra og Litla Leirdal. Vörðubrot eru við veginn því hér er um gamla þjóðleið að ræða, alfaraleið þar til að bílvegurinn var lagður í hraununum. Síðar komum við að Drykkjarsteini sunnan við veginn, sem vestan frá séður er eins og móbergsklöpp. Austanmegin er hann tæp mannhæð, með holum sem í safnast regnvatn.
Síðan er ekið yfir lágan háls og er þá tún framundan í dalverpi. Skála-Mælifell er á hægri hönd en Langihryggur á þá vinstri. Þar fórst bandarískur flugbátur af Marinergerð á stríðsárunum og með honum ellefu menn. Leifar bátsins er þar enn að finna, svo sem hreyfill í gili austan við Langahrygg (var fjarlægður árið 2021).

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Nú liggur vegurinn skáhalt upp klif. Þegar upp er komið opnast útsýni um hraun sem þekur svæðið milli Fagradalsfjalls og Núpshlíðarháls (Vesturháls) í austri. Lág fjöll standa upp úr hrauninu í dalnum milli Fagradalsfjalls og Núpshlíðarháls. Syðst er Höfði en norðar Sandfell og Hraunsels-Vatnsfell. Hér skilja leiðir. Gamli vegurinn stefnir í austur í Méltunnuklif en slóðin sem við fylgjum stefnir meira í norðurátt. Þegar ekinn hefur verið skammur spölur sjáum við hvar ljósleiðaralögn liggur þvert yfir okkar leið og skömmu síðar (GPS N63 51 624 W22 15 453) komum við að ógreinilegri slóð sem liggur upp á fjallið á vinstri hönd.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur.

Við höldum áfram í norður milli hrauns og hlíðar með Höfða á hægri hönd en Einihlíðar á þá vinstri. Svo sjáum við keilulagað fjall á vinstri hönd og er þar Stóri-Hrútur. Á þá hægri er Sandfell. Stóri-Hrútur sést frá höfuðborgarsvæðinu og ber hann þá við himin austan við Keili. Þegar komið er norður fyrir Stóra-Hrút komum við að slóð á vinstri hönd og liggur hún í Meradali, nokkuð djúpan hringlaga dal með gróðurtorfum og leirsléttum í botni. Nokkru norðar er önnur slóð, sem einnig liggur í sömu átt og nær hann til útsýnisstaðar á brún dalsins. Þaðan sést í norðurátt annað af tveimum Hraunsels-Vatnsfellum (hitt er í hvarfi norðan við það). Vestan við það eru Meradalahlíðar, þar næst Kistufell og loks sjálft Fagradaldalsfjallið og þar ber hæst Langhól sem er toppur fjallsins, 391 metra hár gígur. Í suðurátt er Stóri-Hrútur og í austri Sandfell. Við höldum áfram í norður, förum á milli Hraunsels-Vatnsfells og Sandfells. Við norðurenda Sandfells eru slóðamót (GPS N63 53 386 W22 12 944) á hraunkambi.

Litli-Hrútur

Litli-Hrútur og nágrenni.

Slóðin til hægri liggur yfir hraunið að Núpshlíðarhálsi. Við ökum til vinstri yfir hraun að hlíðum Hraunsels-Vatnsfells, með hlíðum þess og höfum nyrðra Hraunsels -Vatnsfellið á hægri hönd. Vegur verður hér góður um stund þar til við komum innundir Meradalahlíðarnar. Þá er farið upp á háls og eftir honum og hverfur slóðin þá nánast. Næst er farið niður brekku, ofan í dalkvos með vatnsstæði í botni, áfram upp ógreinilega slóð að norðanverðu, með strítulagað fjall á vinstri hönd sem heitir Litli-Hrútur. Slóðin endar austan við Litla-Hrút á kambi milli tveggja jarðfalla. Framundan í hraunbreiðunni sést til Keilis, austan við hann er Driffell og svo Núpshlíðarháls. Hér verðum við að snúa við og aka til baka eftir um 12 kílómetra akstur frá Ísólfskálavegi.

Norður fyrir Fagradalsfjall (aðeins fyrir breytta jeppa).

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fyrir sunnan Litla Hrút er skarð milli hans og Merahlíða. Hægt er að aka upp í skarðið úr dalkvosinni sem áður er getið, en engin slóð er sjáanleg vegna úrrennslis úr Litla-Hrúti. Þegar í skarðið er komið blasir hraunslétta við. Lág brekka er niður úr skarðinu að vestanverðu. Slóð liggur út á sléttuna (hjólför eru í stefnu beint yfir sléttuna en enda fljótt í hrauni) en sveigist svo suður með hlíðunum í átt að Kistufelli (GPS N63 54 958 W22 13 308), ýmist milli hrauns og hlíðar eða í hrauni. Síðan er stefnan tekin í vestur í átt að Langhóli, upp lága öldu og verður slóðin þá mjög ógreinileg. Undir Langhóli verður slóðin greinilegri og er hlíðunum fylgt norður fyrir hann í skarðið milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Varast skal að fara slóðina í átt að Fagradals-Vatnsfelli því hún endar þar. Mikið úrrennsli er í skarðinu og er mikilvægt að athuga slóðina vel þar sem leiðin liggur niður stutta brekku. Þegar niður hana er komið (GPS N63 55 025 W22 17 129) er ekið á rauðamöl og sandi niður á leirslétturnar í Fagradal og komið þar á slóðina sem liggur vestur og suður með fjallinu. Hringurinn er um 25 kílómetrar.

Fagradals-Vatnsfell

Fagradals-Vatnsfell.

Fagradalsfjall frá Bratthálsi á Langhóli: Ekið er af slóðinni fyrir austan Fagradalsfjall, sem áður er lýst (GPS N63 51 624 W22 15 453). Ekið er upp brekkur um ógreinilegan og grýtta slóð austan Langahryggs og farið milli hans og Stóra-Hrúts. Þrætt er um skorninga og dalskvompur, skemmtilega og fjölbreytta leið. Þegar komið er norður fyrir Stóra-Hrút sést dalur á vinstri hönd sem heitir sá Geldingadalur með stefnu sunnan frá Borgarfjalli og norður í átt að Langhóli. Í botni hans eru gróðurtorfur og leirsléttur. Þegar kemur inn undir Langhól er komið að slóðamótum. Slóð liggur til hægri fram á brúnir Meradala. Slóðin sem við erum á stefnir upp grýtta brekku og er líklega ekki rétt að reyna við þá leið nema á breyttum jeppum. Síðan liggur slóðin vestur fyrir Langhól og endar þar. Þá tekur skamma stund að ganga upp að útsýnisskífunni á toppnum og er vel þess virði að skoða sig um þar . Langhóll er gígur og er grágrýtisþekja fjallsins þaðan komin. Frá Ísólfsskálavegi að Langhóli eru um tíu kílómetrar.

Langhóll – Meradalir.

Langhóll

Á slysstað á Langhól.

Frá Langhóli er ekið til baka sömu leið nema áhugi sé á að fara í Meradali. Þegar komið er að slóðamótunum sem fyrr var getið er ekin slóð fram á brúnirnar og borgar sig að ganga fram á þær og skoða leiðina áður því hún er ógreinileg í brúninni og ekki til fyrirmyndar að búa til margar slóðir. Næst er ekið yfir lítinn stall fram á næstu brún og blasa þá Meradalir við og fjöllin sem að liggja. Niður í dalina er mjög löng og brött brekka. Síðan liggur slóðin þvert yfir dalbotninn á sandi og leirsléttum upp og yfir hálsinn fyrir austan og komum við þá fljótlega á slóð sem liggur austan Fagradalsfjalls. Þaðan er greið leið niður á Ísólfsskálaveg eða að Núpshlíðarhálsi.
Sandfell – Núpshlíðarháls – Reykjanesbraut: (Breyttir bílar) Frá slóðamótum norðan við Sandfell (GPS N63 53 386 W22 12 944) liggur slóð þvert yfir hraunið að Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi) um talsvert seinekinn veg í mosavöxnu hrauni. Því miður hafa ekki allir vegfarendur farið eftir þeirri reglu að aka ekki utan slóðar og eru þarna því víða hjólför utan eiginlegrar slóðar. Þegar komið er austur að Núpshlíðarhálsinum sést að hraunið liggur sums staðar alveg að hálsinum er þar kallað Þrengsli. Slóð liggur með hálsinum, ýmist milli hrauns og hlíðar eða úti í hrauninu, og er hægt að aka í suðurátt með hálsinum (og skoða rústir Hraunsels sem er skammt fyrir sunnar hálsinn), mjög stirðan veg, niður á gamla veginn austan við Méltunnuklif. Þegar þar er komið er hægt að aka hvort heldur sem er í vestur yfir Leggjabrjótshraun að Méltunnuklifi og þaðan niður á Ísólfsskálaveg (GPS N63 51 424 W22 14 840) eða beygja til vinstri og aka eftir gamla veginum yfir suðurenda Núpshlíðarháls og á Djúpavatnsleið, skammt fyrir sunnan Stóra Hamradal (GPS N63 51 581 W22 12 184).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Frá slóðamótum Sandfells – Núpshlíðarháls er einnig hægt að aka stirðan veg, norður um Selsvelli. Selsvellir er líklega stærsta samfellda graslendi Reykjanesskaga. Á hól vestur á völlunum eru töluvert margar rústir selja. Þar norðan við í átt að Oddafelli er Hverinn eini, sem nú er kulnaður. Því miður er hér skemmdur grassvörður eftir bíla sem ekið hefur verið um svæðið í bleytutíð. Þegar komið er norður fyrir Selsvelli er komið að slóðamótum. Til vinstri liggur slóð þvert yfir hraunið að suðurenda Oddafells. Ekið er upp á fellið og eftir því endilöngu. Brekkan sunnan í fellinu er erfið og má lítið útaf bera svo að bílar komist þar upp. Er því betra að aka Oddafellið frá norðri og er þá ekið á fellið af veginum við Höskuldarvelli, þar sem hann beygir þvert yfir vellina. Eknar eru aflíðandi brekkur upp á fellið. Þar er sums staðar ummerki eftir jarðhita. Gaman er að virða Keili fyrir sér vestan við Oddafellið og er stutt að ganga þangað á götu sem sést vel í hrauninu. Oddafell hækkar og rís upp í kamb og liggur slóðin eftir kambinum suður um fellið og er þar ekki mögulegt fyrir bíla að mætast á löngum kafla. Víðsýnt er af Oddafelli þó ekki sé það nema 220 metrar yfir sjávarmáli enda ekki margt sem skyggir á útsýnið.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

En snúum aftur að slóðamótunum. Slóðin liggur áfram um litla hálsa undir Grænavatnseggjum. Brátt komum við að slóðamótum þar sem slóð liggur til hægri upp brekkur að Spákonuvatni og Grænavatni. Aka verður þaðan sömu leið til baka.
Við höldum áfram slóðina sem stefnir norður og sjáum þá Sogselsgíginn framundan á hægri hönd. Þar eru ummerki eftir þrjú sel. Í austurátt eru Sogin, einstök fyrir litadýrð sína. Þaðan er skemtileg gönguleið yfir að Djúpavatni. Nú ökum við niður að Höskuldarvöllum og norður með hlíðum Trölladyngju þar til að við komum að vegamótum.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Til hægri er vegur að Eldborg. Þar eru miklar efnisnámur og sést þar vel þversnið gígsins. Slóð liggur norður fyrir Eldborg og sést þaðan lágt fell sem heitir Lambafell. Þangað er stutt að ganga. Sé gengið með því er komið að náttúrufyrirbæri sem kallað er Lamafellsklof (Lambafellsgjá) sem er þröng gjá þvert í gegnum fellið.
Aka verður til baka að vegamótunum, síðan þvert yfir Höskuldarvellina að norðurenda Oddafells. Þaðan liggur rudd leið meðfram Sóleyjakrika sem er nyrsti hluti gróðurlendisins. Þaðan er ekið norður Afstapahraunið, í gegnum miklar malarnámur og síðan út á Reykjanesbrautina rétt vestan við Kúagerði (Vegvísir Höskuldarvellir). Raflína liggur þvert á leiðina í námunum og er línuvegur með henni, sem oft er lokað. Vegalengd Sandfell – Reykjanesbraut er 25-26 kílómetrar.

Sprungan í Kleifarvatni.

Hellan

Hellan.

Þegar komið er að Kleifarvatni frá höfuðborgarsvæðinu er ekið af Krýsuvíkurvegi til austurs að norðurenda vatnsins við skilti sem á stendur Kleifarvatn. Ekið er með vatninu eftir eiði milli vatns og Lambhagatjarnar og síðan í fjörunni með hlíðum Lambhaga. Til að komast hjá hliðarhalla meðfram vatninu (GPS N63 56 432 W21 57 500) er ekið yfir nes, sem skagar suður í vatnið og síðan áfram í fjörunni að austanverðu og fram á enda tangans. Þar sést sprunga sem liggur frá vatninu upp á tangann og fossar vatnið ofan í sprunguna (GPS N63 56 237 W21 57 229).
Á leið til baka væri hægt að aka austur fyrir Lambhaga og síðan norðan við Lambhagatjörn, með Vatnshlíðinni út á Krýsuvíkurveg. Eftir að minnka tók í Kleifarvatni varð í fyrsta sinn unnt að aka hringinn í kringum vatnið. Við suðurenda þess hafa tvö hverasvæði komið í ljós. Þessar leiðir eru einungis færar jeppum. JSv.

Krýsuvíkurberg.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg.

Ekið er af Ísólfsskálavegi rétt vestan við kirkjuna í Krýsuvík við vegvísi sem á stendur Krísuvíkurberg. Ágætur vegur liggur hér niður með Vestari læk, framhjá tóftum af eyðbýlinu Fitjum vestan við Selöldu, og þaðan fram á bergið við Hælisvík. Frá Hælisvík er ekið upp brekku upp á malarkamb sem gengur niður frá Krísuvíkurheiði og fram á bjargbrún. Staður þessi heitir Skriða. Hér í bjarginu er Ræningjastígur, eini staðurinn í bjarginu þaðan sem hægt er að ganga niður í fjöru. Slóðin liggur austur bjargbrúnina framhjá vita og er bjargið hér hæst um 36 metrar. Slóðin versnar eftir því sem austar dregur. Bjargbrúnin er allvel gróin en mikil jarvegseyðing er ofar í Krýsuvíkurheiðinni. Þegar komið er austur í Keflavík er Krýsuvíkurhraun framundan. Hægt er að aka ógreinilegan slóða og torfarinn, upp með hrauninu og í gegnum hlið hjá fjárrétt og þaðan uppá Krýsuvíkurveg neðan við Stóru Eldborg, sem blasir hér við undir fjallinu Geitahlíð.

Slóð austan Eldborgar.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ekið er frá Krísuvík í austur er farið Stóru Eldborg heitir Geitahlíð. Ekið er fram á brekkubrún á Deildarhálsi. Skammt fyrir ofan veginn, undir hlíðinni, eru dysjar Krýsu og Herdísar og er gulur hæll sem merkir ljósleiðaralögn framhjá Litlu Eldborg á hægri hönd og Stóru Eldborg á þá vinstri. Fjallið fyrir ofan í hlíðinni fyrir ofan dysjarnar (Þjóðsaga segir frá landamerkjadeilu og bardaga þeirra). Ekið er um sex til sjöhundruð metra austur veginn frá brekkubrúninni er komið að slóð sem liggur hjá Bálkahelli. Ekið er af Krýsuvíkurvegi til suðurs (GPS N63 51 327 W21 58 196). Slóðin er ógreinileg og frekar erfið yfirferðar og því varla nema fyrir breytta bíla. Þegar ekinn hefur verið um 1,1 kílómetri (GPS N63 50 919 W21 57 479) er Bálkahellir á hægri hönd. Gengið er að hrauntotu sem teygir sig í suður og er hægt að ganga þvert yfir hraunið um lægð sem í því er og koma þá að efsta opi hellisins (GPS N63 50 841 W21 58 133) um fjögur hundruð metra frá slóðinni. Einnig er hægt að ganga niður fyrir hraunið og koma þar að hellinum. Bálkahellir, sem er falleg hraunrás, fannst fyrir tilviljun í júní 2001.
Annar hellir, Ásgrímshellir er aðeins vestar. Það þarf að hafa mjög góð ljós sé áhugi á að skoða hellinn. Hann skiptist í nokkra hluta. Sums staðar hefur hrunið úr lofti en annars staðar er gengið á nokkuð sléttu gólfi. Hraunstrá hanga úr lofti og er afar mikilvægt að brjóta þau ekki né annað sem í hellinum kann að vera. Það tekur náttúruna óratíma að forma stutt hraunstrá. Slóðin liggur fram að sjó og eru þar fallegar hraunmyndanir. Slóðin endar í GPS N 63 50 350 W21 57 240. Leiðin frá vegi að þeim punkti er um 2,2 kílómetrar.

Suðurstrandarvegur – Herdísarvíkurhraun – Háberg.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg.

Ekið er af Suðurstrandarvegi í suður (GPS N63 51 943 W21 52 795) til móts við Lyngskjöld. Fáum metrum austar er vegur í átt að Lyngskyldi. Vegalengd frá Suðurstrandarvegivegi að Háabergi er um það bil tveir kílómetrar.

Suðurstrandarvegur –  Selvogsrétt – Slysavarnarskýli.

Hnúkar

Hnúkar.

Ekið er af Suðurstrandarvegi á Selvogsheiði í norður (GPS N63 52 202 W21 33 874) í átt að Hnjúkum. Þegar komið er að Hjúkunum er sveigt vestur fyrir þá og ekið niður brekkur að norðanverðu og komið að Selvogsrétt (GPS N63 53 021 W21 36 253), sem nú er aflögð. Eldri rétt er í suðvestur uppi á Vörðufelli. Skammt hér vestan við eru nokkuð fjölbreyttar mannvistarleifar, seljarústir, fjárhellar, réttir, kvíar, gerði og vörður sem áttu að villa sjóræningjum sýn. Það átti að líta svo út að her manna væri á Vörðufelli. Frá réttinni liggur slóðin stuttan spöl að girðingu og hliði, sem mikilvægt er að loka á eftir sér.
Önnur slóð liggur í austur með girðingunni að fjárhúsum frá Hlíðarenda. Sé farið um hliðið liggur slóðin að og yfir Strandagjá og síðan að slysavarnarskýli undir Heiðinni Há (GPS N63 53950 W21 36 327). Skammt vestan við skýlið er Kjallarahellir. Fara verður sömu leið til baka. Vegalengd frá vegi að skýli er um 4,5 km.

Ísólfsskáli.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Ef ekið er með túngirðingu í átt til sjávar, austan við Ísólfsskála, er komið að slóð sem ýtt hefur verið í gegnum hraunið í austurátt. Við enda slóðarinnar eru mjög sérkennilegar hraunmyndanir. Hér heitir Veiðibjöllunef. Slóðin er um 1,1 kílómetri að lengd.

Vegur frá Svartsengi að Reykjanesi.
Ekið er um hlað á milli bygginga Hitaveitu Suðurnesja og áfram vestur með hitaveitupípu sem kemur úr vestri. Hlið er á veginum og skilti hjá sem á stendur, Eldvörp 5,5 kílómetrar. Hliðið er stundum lokað en hægt mun vera að fá lykil lánaðan á skrifstofu Hitaveitunnar. Skömmu eftir að ekið er í gegnum hliðið er komið að vegi sem verið er að leggja frá Bláa lóninu vestur fyrir Þorbjarnarfell, og niður á Reykjanesveg við Grindavík (GPS N63 51 034 W22 26 404). Þarf þá ekki að fara um hjá Hitaveitunni frekar en maður vill.
Við ökum nú um Skipastígshraun og komum fljótlega að vörðum sem marka Skipastíg, eina af mörgum fornum leiðum yfir Reykjanesskaga. Nú komum við að þar sem heitavatnspípan þverbeygir í suður að borholu (GPS N63 52 172 W22 28 688). Áfram liggur leiðin um Bræðrahraun þar til komið er að róti í hrauninu þvert á veginn (GPS N63 52 051 W22 29 249), líklega ljósleiðaralögn. Næst komum við að margföldum vegamótum.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Fyrst er gömul slóð þvert yfir veginn (eftir Varnarliðið), sem liggur frá Stapafelli að fjarskiptastöð Varnarliðsins fyrir ofan Grindavík. Þessi slóð liggur samsíða gömlum vörðuðum vegi, Árnastíg, frá Stapafelli suður að veginum sem við erum á, en þar skiljast þeir að. Árnastígur stefnir meira í suður, niður með Sundvörðuhrauni og endar við eyðibýlið að Húsatóftum (Golfvöllur). Nálægt Sundvörðu eru minjar um verustaði manna. Enn ein gatnamót eru hér (GPS N63 51 996 W22 30 804), vegur liggur í suðvestur frá veginum um 1,2 km í Eldvörp þar sem Hitaveitan er búin að bora sína öflugustu holu. Eldvörp er gígaröð, sem stefnir frá Rauðhóli, frá suðvestri í norðaustur.

Sandfellshæð

Sandfellshæð, sandfell, Lágafell og Þórðafell.

Við höldum áfram veginn, förum í gegnum gígaröðina og tökum stefnu á fjall framundan sem heitir Sandfell. Norðan við það er Lágafell og enn norðar Þórðarfell en þar norðvestan við eru Súlur og Stapafell. Þar eru miklar malarnámur.
Þegar gegnum Eldvörpin er komið er sveigt úr vestlægri stefnu í suðvestlæga og ekið niður með hrauninu sem hefur runnið úr Eldvörpum (Eldvarpahraun). Þegar við höfum ekið 2-3 km frá beygjunni höfum við Rauðhól á vinstri hönd og hæð á þá hægri sem heitir Sandfellshæð og er þar mikill gígur sem heitir Sandfellsgígur. Svo þverum við eina af hinum fornu leiðum.

Sýrfell

Sýrfell.

Þessi stígur er úr Junkaragerði og stefnir héðan norður fyrir Rauðhól og þaðan niður að Húsatóftum. Nú erum við farin að sjá stikur, bláar í toppinn en þær marka gönguleið frá Reykjanesi að Þingvallavatni. Næst komum við að þar sem hlið hefur verið sett á veginn (GPS N6350 767 W22 38 303), annað af tveimur í suðurenda vegarins. Alla leiðina hefur vegurinn legið á mosagrónum hraunum, oftast á helluhrauni, en nú hverfur mosinn og við tekur sandur og hraungarðar og erum við nú í Sýrfellshrauni, en sunnar förum við um Stampahraun. Fellið Sýrfell blasir við framundan og við norðurendan þess er hlið. Slóð liggur norður fyrir Sýrfell og suður með því að vestanverðu, en við förum að austanverðu. Komum við þá að dæluskúr og vegamótum (GPS N63 50 200 W22 39 329). Önnur slóðin liggur áfram austan við Rauðhóla inn á veginn til Grindavíkur (GPS N63 49 575 W22 40 431), en hin fer suðurfyrir Sýrfell og niður með Rauðhólum að vestan og endar hún á veginum til Grindavíkur, skammt austan við afleggjarann að Reykjanesvita og Saltverksmiðjunni, sem blasir hér við (GPS N63 49 659 W22 40 487).
Rétt er að ítreka að aka ekki utan slóða og ganga vel um gróður og mannvirki.. Vegalengd: 16-17 km.

Kaldársel – Helgafell – Valahnjúkar – Bláfjallavegur.

Kaldársel

Gengið um Kaldárselssvæðið.

Við kirkjugarðinn í Hafnarfirði er beygt af Reykjanesbraut inn á Kaldárselsveg. Ekið er framhjá húsinu í Kaldárseli í átt að girðingu sem umlykur vatnsból Hafnfirðinga. Við girðinguna er beygt til hægri út á hraunklöpp og ekið yfir Kaldá. Þaðan liggur seinfarinn vegur í hrauni. Farið er um grindarhlið á girðingu (GPS N64 01 257 W 21 52 074) uns komið er að slóð á hægri hönd (GPS N64 01 142 W21 51 691) sem liggur uppá Undirhlíðar.
Undirhlíðar: Slóðin er nokkuð niðurgrafin í brekkunni upp á Undirhlíðarnar og kann að reynast erfið. Betra og skemmtilegra er að koma að eftir línuveginum sem liggur sunnan við Helgafellið (GPS N64 00 240 W21 52 648) og aka þar niður því úsýnið er skemmtilegra þegar ekið er frá suðri til norðurs. En víkjum aftur á slóðina frá Kaldárseli. Þegar ekinn hefur verið skammur spölur er komið að slóð til hægri (GPS N64 01 110 W 21 51 385) sem liggur suður með Helgafelli og í kringum það.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell að handan.

Í kringum Helgafell: Ekin er greiðfær slóð í suður með vesturhlíð Helgafells. Sunnan við Helgafell er komið í hraun og verður leiðin seinfarin um sinn. Síðan liggur slóðin alveg að hlíðinni og verður betri yfirferðar. Komið er að línuvegi (GPS N64 00 231 W 21 51 140) eftir um 2,8 km akstur frá slóðamótum. Með línuveginum til suðurs liggur leið meðal annars vestur á Undirhlíðar (GPS N64 00 240 W21 52 648), en einnig suður á Bláfjallaveg (GPS N63 59 649 W21 53 427). Þangað er um 2,6 km. Sé línuvegurinn á hinn bóginn ekinn til norðurs er komið að keðju (GPS N64 00 812 W21 49 394) sem lokar veginum inn á vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar.
Við ökum ágætan jeppaslóða með fjallinu. Sums staðar þarf að þræða milli stórra steina sem hrunið hafa úr fjallinu. Á móts við skarðið milli Helgafells og Valahnjúka eru slóðamót. Hægt er að loka hringnum í kringum Helgafell með því að fara slóðina upp í skarðið og þaðan vestur á slóðamótin sunnan við fellið. Einnig er hægt að beygja til hægri inn á slóð sem liggur norður fyrir Valahnjúka.

Norður fyrir Valahnjúka.

Valaból

Valaból.

(GPS N64 00 937 W21 50 115). Ekin er slóð til hægri norður fyrir Valahnjúka, þar til komið er að slóðamótum (GPS N64 01 272 W21 49 694). Til hægri liggur leið að grindarhliði (GPS N64 01 351 W21 49 404) á girðingu, sem umlykur höfuðborgarsvæðið, og áfram upp á hæðir í átt að Húsfelli. Komið er að vörðu innundir Húsfelli (GPS N64 01 745 W21 48 391) og er þar staðar numið. Þaðan er ágætt útsýni yfir nánasta umhverfi. Slóð sést liggja norður af hnjúknum að norðrenda Húsfells. Sé hún ekin er fljótlega komið að lyngbrekku. Þar verður slóðin ófær vegna vatnsrofs.
Nú snúum við til baka að slóðamótunum og í leiðinni skoðum við ummerki eftir gömlu þjóðleiðina frá Hafnarfirði í Selvog. Leið þessi var einnig farin í Brennisteinsfjöll, en þangað var sóttur brennisteinn til útflutnings. Fóru þá langar lestir burðarhesta hér um. Frá slóðamótunum höldum við niður með Valahnjúkum uns komið er að afgirtum trjáreit. Valabóli. Í honum er Músahellir. Bandalag íslenskra Farfugla settu á hann hurð og glugga og innréttuðu að einhverju leyti,og notuðu til gistingar. Þeir ræktuðu einnig trjáreitinn Nú er Músahellir því miður í niðurnýðslu. Frá Valabóli er ekið yfir lágan háls vestan í Valahnjúkum og er þá komið á slóð frá Kaldárseli (GPS N64 01 112 2151 360). Vegalengdir eru hér ekki miklar.

Bláfjallavegur – Undirlíðar – Slysadalir – Breiðdalur – Vatnsskarð.

Breiðdalur

Breiðdalur.

Ekið er af Reykjanesbraut við Hafnarfjörð inná Strandgötu og síðan framhjá íþróttamannvirkjunum við Ásvelli og suður Krísuvíkurveg, sem ekinn er þar til komið er að gatnamótum og er þá beygt til vinstri. Á vegvísi stendur Bláfjöll. Ekið er að Undirhlíðum og uppá þær. Hér er mikið malarnám, en utan við það kjarr og jafnvel skógrækt með hlíðunum. Þegar upp er komið liggur slóð af Bláfjallavegi til hægri (suðurs), fyrir ofan Undirhlíðar (GPS N63 59 641 W21 53 434) og liggur hún í Slysadali. Síðan liggur leiðin yfir lágan háls og ofan í Breiðdal sem er svipaður Slysadölum; flatbotna, með grastorfum og leirsléttum og án frárennslis. Ekið er með hlíðum dalanna en ekki á grastorfunum.

Slysadalur

Slysadalur.

Úr Breiðdal er ekið upp hjá Breiðdalshnjúki og er þá komið að slóðamótum og grindarhliði við girðingu höfuðborgarsvæðisins. Leiðin yfir grindarhliðið liggur m.a. í Fagradal, sem skerst inn í Lönguhlíð, sem hér er skammt austan við okkur. Slóð liggur af Fagradalsleiðinni til vinstri norður með girðingunni og síðan með hlíðum Lönguhlíðar. Endar hún á Bláfjallavegi (GPS N63 58 923 W21 50 140). Stuttur spölur er frá girðingarhliðinu að Krísuvíkurvegi innan við Vatnsskarð (GPS N63 57 829 W21 56 425). Vegvísir er á gatnamótunum sem vísar á Breiðdal.
Héðan er hægt að aka hvort sem vill til vinstri til Kleifarvatns eða hægri yfir Vatnsskarð, til baka í átt að Hafnarfirði. Gróðureyðing er hér nokkur, en nú er verið að græða svæðið upp (Gróður í landnámi Ingólfs). Vegalengd frá Bláfjallavegi að Krýsuvíkurvegi er rúmir 4 kílómetrar.

Vesturlandsvegur – Úlfarsfell.

Esja

Esja.

Ef ekið er frá Reykjavík er beygt af Vesturlandsvegi til hægri þegar komið er yfir brúna á Úlfarsá, (Korpu) og ekinn vegur upp hjá Lambhaga (Úlfarfellsvegur). Eftir að ekinn hefur verið dálítill spölur, liggur vegurinn undir raflínu og er þá slóð á vinstri hönd (GPS N64 08201 W21 43 756), sem liggur hjá Leirtjörn og uppundir eggjar Úlfarsfells. Við höldum áfram Úlfarfellsveginn þar til að við höfum trjáreit á hægri hönd, og er þá slóðinn upp á Úlfarsfellið vinstra meginn vegar (GPS N64 08 217 W21 43 299), og stefnir skáhallt frá vegi upp lágan háls. Fljótlega versnar slóðinn, og verður grýttur. Leiðin liggur inn dal og sveigir svo upp brekkur í mörgum sveigum, þar til komið er efst í dalinn.

Úlfarsfell

Úlfarsfell.

Hér eru slóðamót, til vinstri er farið upp nokkuð bratta brekku, fram á vesturbrún fellsins í 291 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er mjög skemmtilegt útsýni yfir Reykjavíkursvæðið, og sundin. Hér er varða með vindpoka, og smá grastorfa, sem tyrfð hefur verið. Á grasinu setja flugdrekamenn saman flugdreka sína, og hlaupa síðan fram af fellinu til að svífa niður. Við skulum því ekki aka út á torfuna. Við förum aftur á slóðamótin, og ökum beint áfram upp aflíðandi brekku og komum svo á önnur slóðamót. Til hægri er farið upp á hæsta tind Úlfarfells, 295 metra yfir sjávarmáli Hér uppi er grjótbyrgi síðan hermenn stóðu hér vörð á stríðsárunum (einnig eru slík ummerki í vesturbrún fellsins). Héðan er mikið útsýni og sést héðan betur í austur, og norður, en af vesturbrúninni. Síðan er farið aftur á slóðamótin og nú geta þeir sem eru á breyttum bílum farið slóða austur fyrir hákollinn og niður fellið að austanverðu grýtta og erfiða slóð, sem getur verið blaut neðst, og komið niður hjá Skyggni (Stóra disknum), fjarskiptastöð Símans,og síðan út á Úlfarsfellsveg. Munið að loka hliðum.

Hafravatnsvegur-Hafrahlíð.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Ekið er af Hafravatnsvegi við Hafravatn, ómerktan veg skamt austan við Hafravatnsrétt (GPS N64 07 680 W21 38 871). Ekið er upp stutta brekku framhjá sumarbústöðum. Þegar uppá brekkubrúnina er komið er beygt til vinstri inn á slóða sem liggur upp í fellinn (GPS N64 07 692 W21 38 871). Eftir stuttan spöl er komið að slóðamótum (GPS N64 08 028 W21 38 295). Slóðinn sem á vinstri hönd liggur niður í dalkvos, og síða upp brekkur að endurvarpa á brún Hafrahlíðar. Er þar skemmtilegt úsýni. Hinn slóðinn liggur upp að Borgarvatni, sunnan við Reykjaborg. Hjólför liggja útí blauta mýri og hafa hjólin skorið sig niður og myndað ljót sár. Óþarft er að aka þarna, og er stutt að ganga að vatninu. Aka verður sömu leið til baka.

Vesturlandsvegur-Blikdalur.
Slóðar liggja beggja vegna Árskarðsár upp í Blikdal, sem er í vesturenda Esjunnar. Slóðin sunnan ár er þurrari, og er ekið á hann af Vesturlandsvegi af melunum skammt sunnan ár. (GPS N64 15 029 W21 50 045). Fljótlega komum við á slóðamót. Við förum slóðann sem liggur til hægri og komum fljótlega að girðingu, og förum þar í gegnum hlið (GPS N64 16 032 W21 49 776). Við lokum hliðinu á eftir okkur. Slóðinn liggur að hlíðum Esjunnar og sveigist síðan upp brekku og inn yfir Sneiðingakletta og inn á háls, sem gengur norður í dalinn og þar rennur Árskarðsá í gljúfrum og fossum fram úr dalnum. Ekið er inn dalinn eftir grónum skriðum, nálægt árgljúfrunum, og sumstaðar liggur slóðinn nokkuð tæpt fyrir enda gilja sem ganga upp frá gljúfrum Blikdalsár, eins og áin heitir hér inni í dalnum. Svo fer að sjást inn í dalbotninn og er hér líklega besti útsýnisstaðurinn (GPS N64 16 074 W021 48 380).

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Blikdalur er fallegur fjallasalur, hömrum girtur. Að norðanverðu er Lokufjall vestast, með Hestabrekkur niður að á. Svo kemur Selfjall og Leynidalur. Fyrir botni dalsins eru Fossurðir. Þar vestan við að sunnanverðu, eru Skollabrekkur sem eru bakhliðin á Þverfellinu sem við sjáum úr Reykjavík. Síðan er Hrútadalur sem nær upp að Kerhólakambi sem einnig blasir við frá höfuðborgarsvæðinu. Þar vesturaf er fjallið kallað Lág-Esja og lækkar það svo í aflíðandi kambi niður í dalsmynnið. Slóðinn er í grónu landi og er blautur og staksteinóttur. Slóðir geta batnað, ef ferðalangar kasta steinum úr götu sinni, sérstaklega þeim sem geta verið dekkjum og undirvagni bílanna hættulegir. Aka verður sömu leið til baka.

Vesturlandsvegur – Svínaskarð.

Svínaskarð

Svínaskarðsvegur.


Ekið er af vesturlandsvegi (GPS N64 11 690 W21 41 845) af Esjumelum í austur, veg sem liggur hjá skemmum sem meðal annars eru notaðar af Fornbílaklúbbnum, og áfram austur melana, þar til komið er að gatnamótum. Annar vegurinn liggur nánast beint áfram, en hinn beygir til vinstri, og eru vegstikur með honum. Við ökum þann veg framhjá afleggjara að Völlum, og síðan framhjá afleggjara að Norður-Gröf. Næst höfum við veiðihús við Leirvogsá á hægri hönd. Við erum nú í nafnlausum dal á milli Esjunnar og Mosfells og ökum upp með Leirvogsá. að norðanverðu. Svo er ekið yfir Grafará á vaði, og svo liggur leiðinn hjá Þverárkotshálsi. Þegar fyrir hann er komið sést Þverárkot á vinstri hönd.Við ökum þvert yfir eyrar Þverár, yfir hana og komum svo að hliði á girðingu á vinstri hönd. Við förum í gegnum hliðið (GPS N64 12 623 W21 34 819) og ökum slóða sem liggur að nokkrum sumarbústöðum, sem eru dreifðir upp dalinn að austanverðu. Svo komum við að Skarðsá sem kemur úr Svínaskarði, förum yfir hana og framhjá efsta bústaðnum. Versnar nú vegurinn til muna. Leiðin um Svínaskarð var mikið farin áður en bílar komu til sögunar, enda mun styttra að fara Svínaskarð og Reynivallaháls en að fara út fyrir Esju.
Nú á tímum eru það aðallega hestamenn sem fara skarðið á hestum sínum, sér til skemmtunar. Hér er mjög fallegt. Þverárdalurinn hömrum girtur, en austan við hann eru Móskörð, og Móskarðshnjúkar, sem sjást vel frá höfuðborgarsvæðinu, og virðast alltaf vera baðaðir sól. Austan við þá er Svínaskarðið og þar fyrir austan gnæfir Skálafell. Sunnan við það er Stardalshnjúkur. Okkur á hægri hönd eru síðan Haukafjöll. Ekið er yfir nokkur lækjargil, og getur þurft að fara úr bílnum til að laga veg og leggja grjót í verstu skvompurnar.

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði.

Þegar upp í skarðið er komið, í 481 metra hæð yfir sjávarmáli, blasir við mikið útsýni til suðurs, og vesturs. Þegar komið er norður á brún skarðsins, sést yfir Svínadalinn, norður um Kjós og Hvalfjörð. Þegar horft er niður í Svínadalinn, sést hvernig slóðinn fer í mörgum hlykkjum niður með giljunum, í snarbratta. Þetta er ekki fýsilegur slóði til að aka bílum eftir, en þó hefur það verið gert, en ekki er mælt með því. Ef menn reyna, og sleppa óskaddaðir niður í Svínadal, er þrautin ekki unnin, því þar taka við mýrar með tilheyrandi bleytum. Betra er að aka sömu leið til baka niður Þverárdal. Hægt er að aka til baka hjá hlaði á Hrafnhólum, yfir brú á Leirvogsá, og síðan hjá Skeggjastöðum í átt að Þingvallavegi. Vegur merktur Tröllafoss liggur til vinstri, og er hægt að aka hann í átt að Tröllafossi og ganga síðan síðasta spölinn að fossinum. Vegalengd um 6 kílómetrar frá hliði og upp í skarð.

Suðurlandsvegur – Selfjall.
Ekið er af Suðurlandsvegi til suðurs við Lækjarbotna við vegvísi sem á stendur Sumarhús (GPS N64 04 847 W21 40 069). Síðan er ekið áfram veginn um Lækjarbotna, þar til komið er að efnisnámum. Þar er beygt til vinstri, og farið á grindahliði í gegnum girðingu (GPS N64 04385 W21 40 771). Síðan er ekið upp með girðingunni að hlíð Selfjalls, og beygt þar til hægri eftir slóða á Selfjall. Þegar upp er komið, taka við dalskvompur með litlum gróðurtorfum og rofabörðum. Slóðir liggja upp á alla toppa fjallsins, og austur í skarð á milli Selfjalls og Sandafells. Úr því skarði má aka eftir línuvegi, til norðurs, á Suðurlandsveg. Ekki er hægt að aka suður á Bláfjallaveg ofan við Undirhlíðar. Er vegurinn lokaður með læstri slá.

Suðurlandsvegur-Bláfjallavegur við Undirhlíðar.

Lækjarbotnar

Vegur ofan Lækjarbotna.

Ekið er af Suðurlandsvegi fyrir ofan Lækjarbotnabrekkuna (Fossvallaklif), afleggjara til suðurs merkur Waldorfskólinn (GPS N64 04 534 W21 38 779) og er þá komið á gamla Suðurlandsveginn. Hann er síðan ekinn í austur Fossvellina, framhjá Fossvallaréttinni, uns komið er að raflínu sem kemur úr norðri og stefnir í skarð á milli Selfjalls og Sandafells. Línuvegur er með raflínunni, og er hann ekinn í suð-vestur í skarðið. Þegar í skarðið er komið, sést slóði sem kemur frá hægri niður brekku í Selfjallinu. Hér er búið að loka línuveginum með slá. Áfram er hægt að ganga línuveginn um hrikalega úfið Hólmshraun. Fjall er á hægri hönd sem heitir Húsfell. Hér hefur veginum verið lokað með slá yfir veginn. Síðan förum við yfir gamla, varðaða leið sem lá úr Hafnarfirði til Selvogs, og er kölluð Selvogsgata. Næst höfum við Valahnjúka á hægri hönd, og síðan Helgafell. Á vinstri hönd eru Strandatorfur og Kaplatóur. Þegar komið er suður fyrir Helgafell, er komið fram á Undirhlíðar. Hér eru slóðamót. Annar slóðinn liggur til suðurs á veg sem liggur af Krísuvíkurvegi til Bláfjalla (GPS N63 59 641 W21 53 434), en hinn slóðinn liggur til norðurs um brúnir Undirhlíða, stirðan veg, og niður að Kaldárseli. Skemmtilegt útsýni er af leiðinni þó ekki liggi hún hátt.

Suðurlandsvegur – Lyklafell – Línuvegur.

Lyklafell

Vegur við Lyklafell.

Ekið er af Suðurlandsvegi til norðurs (GPS N64 04 973 W21 37 785), ómerktan afleggjara austan við Gunnarshólma. Ekið er yfir brú á Hólmsá (Norðurá), framhjá sumarhúsum. Þegar innar dregur versnar vegurinn og verður að jeppaslóða sem leiðir okkur að eyðibýlinu Elliðakoti, sem er hér undir heiðarbrúninni. Áður var þessi bær í alfaraleið, því leiðir lágu hér niður af heiðunum, og sést enn varða á brúninni skammt austan bæjarins. Slóðinn liggur vestur fyrir bæjarrústirnar en sveigist þar upp á heiðarbrúnina. Þegar slóðinn hefur verið ekinn stuttan spöl, komum við að slóðamótum (GPS N64 05 434 W21 37 785). Liggur slóði til vinstri, norður að Selvatni, og á sumarbústaðaveg austan við vatnið. Þessi slóði er erfiður vegna úrrennslis. Við höldum áfram slóðann í austur sem er hér orðin að línuvegi. Slóðinn liggur um gróið land, og er hér blautt í rigningatíð. Síðan hækkar landið og verður slóðinn þá grýttari.

Elliðakot

Elliðakot.

Næst komum við að girðingu og er á henni grindarhlið (GPS N64 05 196 W21 36 380). Hér sjáum við vörður á hinum forna Dyravegi sem lá um Elliðakot til Dyrfjalla, og þaðan í Grafning. Við erum nú líklega á Fossvallaheiði, en Miðdalsheiði er norðan við okkur. Eftir að hafa ekið tæpa fjóra kílómetra frá Suðurlandsveginum, komum við að spennistöð (GPS N64 04 861 W21 34 471), og eru hér þrjár raflínur sem koma úr austri. Ein raflínan sveigir hér í suður,og er góður vegur með henni á Suðurlandsveg (GPS N64 04 241 W21 36 560). Héðan er líka góður línuvegur með raflínunum austur um öxl Lyklafells, og þaðan austur að Húsmúla. Þessi vegur væri fólksbílafær, ef ekki væru árfarvegir Fossvallakvíslar og Lyklafellsár (Engidalsár) á leiðinni. Einnig eru úrrennsli þvert á veginn á nokkrum stöðum. Svo liggur vegurinn inn í hraun, og um það þar til komið er austur undir Húsmúla. Hér er vegur til hægri út á gamla Suðurlandsveginn. (GPS N64 03 777 W21 27 963).

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Nokkrir afleggjarar eru af línuveginum á gamla Suðurlandsveginn austar. Svo liggur línuvegurinn framaf hrauninu og erum við þá komin á enda hans (GPS N64 02 957 W21 24 535). Á vinstri hönd er Húsmúlinn, en nær sést tóft sæluhússins sem Húsmúlinn á að draga nafn sitt af. Vestan við tætturnar er Draugatjörn. Grjótgarðar hafa verið hlaðnir í kring um tjörnina, en lítil rétt er í hraunjaðrinum. Þar vestur af eru vörður sem vísa veg um Bolavelli á Dyraveg, og á Mosfellsheiði. Í austur sést Hengillinn ofan við Húsmúlann. Þar austur af er Sleggjubeinsdalur, Skarðsmýrarfjall, og síðan Hellisskarð á milli Skarðsmýrarfjalls og Stóra Reykjafells. Vestanundir Hellisskarði stóð gistihúsið Kolviðarhóll. Gamla þjóðleiðin um Hellisheiði lá um skarðið, og þar upp sjáum við raflínurnar hverfa. Vegalengd um 16 kílómetrar frá Suðurlandsvegi.

Suðurlandsvegur – Jósefsdalur.

Ólafsskarð

Vegur um Ólafsskarð.

Ekið er af Suðurlandsvegi á móti Litlu Kaffistofunni (GPS N64 03 467 W 21 30 882), eftir gamla Suðurlandsveginum þar til komið er að afleggjara til vinstri (GPS N64 03 391 W21 30 886). Leiðin liggur nú í átt að Blákolli og Sauðadalahnjúkum, en sveigir síðan upp í skarð á milli Sauðadalahnjúka og Vífilsfells. Úr skarðin er oft gengið á Vífilsfell. Svo opnast útsýni inn í dalinn og fjöllin sem umliggja hann, Sauðdalahnjúkar til austurs, síðan Ólafsskarðshnjúkar, en Vífilsfell að vestan. Í Jósefsdal er oft mikill snjór að vetrum. Var þar byggður skíðaskáli árið 1936 af skíðadeild Ármanns. Skálinn var svo rifinn upp úr 1970 eftir að Ármenningar færðu sig í Bláfjöllin. Þjóðsaga er um nafn dalsins, og er hún um Jósef sem bjó í dalnum. Bær hans á að hafa sokið í jörð vegna þess hve hann blótaði óskaplega. Aka verður sömu leið til baka.

Suðurlandsvegur – Leiti.
Ekið er eftir Suðurlandsvegi framhjá Litlu Kaffistofunni, áfram upp Draugahlíðabrekkuna (sem er brekkan fyrir ofan Litlu Kaffistofuna), uns komið er á móts við nokkuð háan hnjúk á hægri hönd sem heitir Blákollur.. (GPS N64 02 655 W21 27 874) Ekið er frá þjóðveginum í suður að norðausturhorni Blákolls og austan með hlíðum hans í suður. Í austur sjáum við Lambafellshnjúk og Lambafell. Sunnar og nær í hrauninu er gígur, Nyrðri Eldborg.(GPS N64 01 468 W21 29 825) Þaðan er Kristnitökuhraun talið hafa runnið árið 1000. Það hefur verið tekið efni úr henni og er svöðusár eftir. Slóði liggur héðan að Eldborg (GPS N64 02 020 W21 29 100), en austan við hann er hrauntröð. Við höldum okkur við hlíðina og eftir að Blákoll sleppir, höfum við Sauðadalahnjúka okkur á hægri hönd.

Ólafsskarð

Ólafsskarð.

Þegar þeim sleppir erum við komin að Ólafsskarði, kennt við Ólaf bryta í Skálholti sem sögur eru til um. Hér liggur gömul þjóðleið upp úr Jósefsdal, nefnd Ólafsskarðsvegur og við fylgjum honum nokkurn veginn fyrst um sinn. Hér er skáli (kallaður Skæruliðaskálinn). Áfram höldum við og höfum nú Ólafsskarðshnjúka á hægri hönd. Þegar þeim sleppir, förum við með austurhlíðum Bláfjalla, og komum að þar sem er eins og svolítið horn út frá fjöllunum. Þetta er eldgígur sem heitir Leiti og er Leitahraun þaðan runnið. Það er talið hafa runnið niður í Elliðavog í Reykjavík. Skammt austar í hrauninu er annar gígur, Syðri Eldborg, óspjölluð og fögur. Í suðri er stakt fell nærri Bláfjöllum, sem heitir Fjallið Eina. Svolítið austar er Rauðhóll og þar suðuraf er stórt fjall sem heitir Geitafell en austar er Sandfell út við Þrengslaveg. Hér endar slóðinn og verður að fara sömu leið til baka.

Suðurlandsvegur – Milli Hrauns og Hlíða.

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni.

Ekið er af Suðurlandsvegi, veg til norðurs skammt fyrir ofan Skíðaskálann í Hveradölum (GPS N64 01 128 W21 22 866). Einnig er hægt að fara inn afleggjaran á Skíðaskálanum í Hveradölum og áfram inná gamla veginn upp með Stóra Reykjafelli í austur að fyrnefndum vegi. Síðan er ekið á gamla Hellisheiðarveginum austur með ás sem gengur austur frá Stóra Reykjafelli. Hér er svokölluð Flengingarbrekka. Þegar komið er austur fyrir ásinn er beygt inn á slóða í norður og farið upp brekkur. Þegar upp er komið er sveigt í vestur inn fyrir gíghóla sem mikið efni hefur verið tekið úr. Síðan er sveigt til norðurs og farið þvert fyrir Hellisskarð að Skarðsmýrarfjalli. Síðan er ekið með hlíðum Skarðsmýrarfjalls í austurátt. Ekið er framhjá nokkrum skíðaskálum. Leið þessi er kölluð vegurinn milli hrauns og hlíða. Brátt er komið að hálsi sem gengur austur úr hlíðinni og skiptast þar leiðir.
Innstidalur: Til vinstri er farið ef fara á í Innstadal. Er þá farið inn með hlíðinni fyrir ofan svokölluð Þrengsli í Miðdal. Tveir skálar eru hér, báðir læstir og í einkaeigu. Jarðhiti er í dalnum og fyrir ofan innri skálann er einn öflugasti gufuhver landsins. Við hann hafa menn baðað sig í volgum læk. Varasamt er að ferðast um hverasvæði þegar snjór er yfir, því hitinn hefur brætt stórar hvelfingar í snjóinn, þó ekki sjáist það á yfirborðinu og skænið ber jafnvel ekki gangandi mann. Dalurinn er alveg afluktur nema þar sem við ókum inn í hann, en þó er annað skarð suðvestur ur honum sem heitir Sleggjubeinsskarð. Hægt er að aka fram í skarðið og er þaðan mikið útsýni á björtum degi. Mjög bratt er niður úr skarðinu og ekki fært nema gangandi manni. Aka verður sömu leið úr dalnum til baka.
Að Hengladalsá: Ef haldið er áfram frá þeim stað sem leiðir skiptust er ekin slóði á milli Hengilsins og Litla Skarðsmýrarfjalls, um Fremstadal að Hengladalsá. Hægt er að fara niður með ánni að slóða sem hefur verið ruddur í gegnum hraun sem Orustuhólshraun nefnist. Áður en komið er að slóðanum í hrauninu er farið undir rafmagnslínu. Þegar út úr hrauninu er komið, er komið að Suðurlandsvegi skammt fyrir ofan Kamba.

Reykjadalur

Reykjadalur – Klambragil.

Að Klömbrugili og Ölkelduhálsi: Ef farið er beint yfir Hengladalsá er ekinn ógreinilegur og grýttur slóði upp nokkkuð bratta en stutta brekku,sem heitir Svínahlíð. Er upp er komið erum við á lágri heiði sem heitir Bitra. Framundan er rafmagnslínan sem áður er getið. Ef farið er beint áfram undir línuna er komið að efstu drögum Reykjadals. Gil gengur þar í norðvesturátt sem heitir Klömbrugil. Greinileg gata er á einstigi niður í gilið. Mikill jarðhiti er í gilinu og Reykjadalnum. Reykjadalsá er hér volg og baðar fólk sig stundum í henni. Skáli er efst í Reykjadal ætlaður göngufólki, og eru hér merktar gönguleiðir um Grafningsfjöll. Ef farið er norður veg með rafmagnslínunni í átt að Ölkelduhálsi er komið að lokunum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur sett á veginn sem er með línunni. Mikill jarðhiti er í Ölkelduhálsi, og þar um kring er hættulegt svæði þegar snjór er á jörðu. Til baka er hægt að aka línuveginn og stefna síðan yfir Hengladalsá á móts við slóðann í hrauninu.

Suðurlandsvegur – Grafningsháls.

Grafningsháls

Grafningsháls.

Ekið er af Suðurlandsvegi við bæinn Gljúfurholt í Ölfusi í norður. Þegar komið er innundir fjöllin er Sogn á vinstri hönd, síðan er farið yfir Gljúfurá framhjá bænum Gljúfri. Svo liggur vegurinn uppá mel innundir krikanum við Ingólfsfjall. Hér er beygt til norðurs upp melinn í gegnum hlið á girðingu hjá raflínu sem kemur norðan af Grafningshálsi. Slóðin liggur upp melinn á milli tveggja áa Hvammsá austan við og Æðargil að vestan. Slóðin svegir síðan niður að Æðargilinu og eftir því um Djúpgrafning á Grafningsháls (Einnig er hægt að fara með raflínunni um Kallbak)og erum við þá á vatnaskilum. Síðan liggur leiðin niður að norðan verðu á veg við bæinn Stóra-Háls í Grafningi. Vegalengd 7-8 kílómetrar frá vegi við hliðið og á veg í Grafningi.

Þorlákshöfn – Nes í Selvogi.

Nessel

Nessel.

Ekið er í gegnum þorpið í Þorlákshöfn, eftir aðalgötunni Óseyrarbraut til enda. Síðan beygt til vinstri inn á Egilsbraut og til vinstri eftir Hafnarbergi, framhjá sundlauginni að fiskeldisstöð sem stendur niður við sjóinn. Ekið er þar um hlað inn á slóða sem liggur vestur með ströndinni. (Skammt ofan við fiskeldið er upphleyptur vegur sem ætla mætti að væri upphaf að slóðanum en svo er ekki). Slóðinn verður ógreinilegri eftir því sem vestar er haldið og sumstaðar er rétt að stoppa og skoða framhaldið til að gera ekki marga slóða. Slóðinn liggur mjög nálægt sjónum á nokkuð grónu landi. Örnefni eru nokkur. Keflavík austast, Háaleiti, Viðarhellir við Bjarnarvík, Strákahæðir. Slóðinn verður greinilegri eftir að vestar dregur að Nesvita. Síðan liggur leiðin um land Ness og þaðan upp á Krísuvíkurveg. Veglengd um 20 kílómetrar.

Þrengslavegur – inn með Litla-Meitli að Eldborg.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

Ekið er af Þrengslavegi í austur við suðurhorn Litla-Meitils (GPS N63 57 721 W21 27 046) í gegn um dálítitlar malarnámur, og síðan milli hrauns og hlíða. Eftir að hafa ekið dálítinn spotta komum við að trjáreit. Hér girti og plantaði Einar Ólafsson sem lengi vann í Rafgeymaþjónustunni Pólum, barrtrjám og Birki. Girðingaefni og plöntur bar hann á sjálfum sér frá þjóðveginum því engan bíl átti hann. Við ökum nú í norð-austur inn með hlíðinni og komum á töluvert víðáttumiklar grassléttur. Síðan liggur slóðinn austur fyrir Litla-Meitil og við blasir Eldborg og ástæða slóðans. Hér eru efnisnámur en langt virðist vera síðan þær voru í notkun. Menn hafa verið að aka á Eldborgina og er slóði þar upp. Æskilegra væri að menn gengju þar upp og virtu fyrir sér útsýnið. Í vestur sést Litli-Meitill þar norðanvið er Stóri-Meitill síðan er Lágskarð. Austan við Lágskarðið er Stóra-Sandfell. Sunnan við það er Sanddalur og Sanddalahlíðar og loks Langahlíð. Forn þjóðleið, Lágskarðsleið, var upp með Lönguhlíð norður um Lágskarð í átt að Kolviðarhól og fer Suðurlandsvegur yfir götuna neðst í Hveradalabrekkunni. Aka verður sömu leið til baka. Vegalengd 3-4 kílómetrar.

Gamli vegurinn yfir Hellisheiði – Núpafjall.

Þrengsli

Í Þrengslum.

Ekið er af veginum yfir Hellisheiði til suðurs skömmu eftir að komið er upp fyrir Hveradalabrekkuna (Skíðaskálabrekkuna) (GPS N64 01 113 W21 21 603) inná gamla veginn yfir Hellsheiði við Smiðjulaut. Síðan er ekið eftir honum rúma 5 kílómetra þar til komið er að vegamótum. Er þá tekinn vegurinn til hægri stuttan spöl. Það er líklega eldri vegur, yfir Hellisheiði sem lá suður fyrir Urðarás (Hurðarás?).Síðan er beygt inn á veg frá stríðsárunum. Sem liggur til hægri upp á lágt fjall sem heitir Núpafjall (GPS N64 00 385 W21 15 150). Núpafjall stendur á hálendisbrúninni fyrir ofan Ölfusið 313 metra yfir sjávarmáli, en rís einungis um 50 metra yfir heiðina og er því mun myndarlegra austan frá séð og mikill útsýnisstaður. Fljótlega er komið að vegamótum. Liggur vegur til hægri en rofnar fljótlega og er þar alveg ófært. Vegur þessi lá vestur af fjallinu, niður í dalkvos. Sjást þar leifar af mörgum byggingum. Þarna var herkampur á stríðsárunum. Hermennirnir höfðu eftirlit með veginum yfir Hellisheiði en á fjallinu voru loftvarnabyssur til að verja flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Ef haldið er áfram veginn suður fjallið, endar hann í grösugri kvos sunnan undir því, en hjólför liggja fram á brúnir í grónu hrauni. Aka verður sömu leið til baka af Núpafjalli, en síðan er hægt að aka gamla veginn um Kamba. Ef menn kæra sig ekki um það, er hægt að fara inn á veginn sem liggur um Urðarhálsinn og er þá afleggjari í norður (GPS N64 00 461 W21 15 304) sem endar hann á malbikaða veginum um Hellisheiði (GPS N64 00 774 W21 15 377).

Gamli Þingvallavegurinn á Mosfellsheiði 1890 – 1930.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Ekið er austur Suðurlandsveg frá Reykjavík og beygt til norðurs hjá Geithálsi og sem leið liggur áfram hjá vegvísi Hafravatnsvegar á vinstri hönd og upp brekkur með Krókatjörn á vinstri hönd. Þegar komið er uppá heiðarbrúnina er afleggjari á vinstri hönd og skilti þar sem á stendur Reiðvegur og annað skilti sem sýnir að vegurinn er botnlangi (GPS N64 06 460 W21 37 016). Svo er þó ekki því hér er um gamla Þingvallaveginn að ræða, skemmtilega leið en grýtta og torfarna.
Vegurinn var lagður á árunum 1890 – 1896, í upphafi sem reið- og hestvagnavegur en síðar sem bílvegur, eða allt frá 1913 til 1930. Þá var nýr Þingvallavegur lagður upp úr Mosfellsdal. Þá var hætt að halda gamla veginum við, sem er mikil synd, því þetta er mjög víðsýn og falleg leið. Þessi gamla leið til Þingvalla er greiðfær til að byrja með enda allnokkuð ekinn af sumarbústaðaeigendum og liggja afleggjarar því víða af honum.
Við ökum með brúnum Seljadals og sjáum hinum megin dalsins, þ.e. norðan við hann, fellabálk mikinn sem heitir ýmsum nöfnum Austasti hluti hans og sá hæsti heitir Grímannsfell. Svo komum við að hliði (GPS N64 06 976 W21 34 694) á girðingu. Þetta er girðing í kringum höfuðborgarsvæðið og verður að passa vel að loka því á eftir sér. Nú fer vegurinn að versna, verður grýttur og varla fær nema breyttum jeppum. Fallegar vörður hafa verið hlaðnar með veginum og vatnsræsi hlaðin úr hellugrjóti og þarf að krækja fyrir þau. Steinar með kílómetratölum standa við veginn með fimm kílómetra millibili. Við veginn stóð veitingahús í eina tíð og sæluhús nokkru norðar á heiðinni. Þegar norðar dregur komum við að raflínu. Nú batnar vegurinn á ný enda þjónar hann hér eftir sem línuvegur.

Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Svo komum við að árfarvegi og er brú (GPS N64 08 963 W21 34 694) á honum með steinstólpum á öllum hornum. Brúargólfið hefur verið endurnýjað því brúin er hluti línuvegarins.
Þar sem vegurinn liggur hæst um heiðina, um 300 metra hæð yfir sjávarmáli, er Grímannsfell vestan við okkur og Borgarhólar austan vegar og liggur þangað ógreinileg slóð frá veginum. Borgarhólar er leifar gíga, sem Mosfellsheiðin er upprunnin úr og eru þeir hæsti hluti heiðarinnar. Hæst er Borg, 410 metra yfir sjávarmáli. Sjálfsagt er að ganga á Borgarhóla og njóta útsýnisins og er gott að hafa landakort meðferðis. Við snúum til baka út á veginn og erum stödd á Háamel. Nú fer heiðinni að halla norður af og er hér gott úsýni. Athygli vekur hve vegurinn er beinn, varla hlykkur á nema þar sem nauðsyn ber til.

Þingvallavegurinn gamli

Sæluhúsatóft við gamla Þingvallaveginn.

Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.