Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; “Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur”.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

“Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: “Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.” Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.”

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.