Gengið var um Arnarseturshraun frá megingígnum og stærstu hrauntröðinni fylgt til vesturs. Við hana eru m.a. nokkur hús vegarvinnumanna frá því að Grindarvíkurvegurinn var gerður á árunum 1914-1918.
Arnarseturshraun, sem er apalhraun að mestu, er á leiðinni til Grindavíkur. Efsta bungan á veginum nefnist Gíghæð og er Arnarsetrið, gígurinn, austan við hana. Hraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík eru ca. 2400 ára, en Arnarseturshraun er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum árið 1226. Það er því eitt þeirra 12-15 hrauna á Reykjanesskaganum, sem runnu á sögulegum tíma.
Hraunið hefur komið upp á sprungurein og bráðin bergkvika runnið frá eldstöðinni eftir yfirborði jarðar og storknað. Það hefur hlaðist upp á eldra hrauni, líklega frá Skógfelli. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður.
Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.
Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Afstapahraun, sem einnig rann á sögulegum tíma, líklega á 12. öld. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum. Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. í Arnarseturshrauni, í Gígnum sunnan Þórðarfell, frá Rauðhól undir Vatnsskarði og Búrfelli ofan Hafnarfjarðar.
Helluhraun eru hins vegar slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Nokkrir slíkir hellar eru í Arnarseturshrauni. Þegar hafa fundist um 15 þeirra, misstórir.
Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem vænlegustu leið okkar til nýsköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að „gera út á“ íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.
Fjölbreytileiki íslenskra eldvarpa er eitt af einkennum landsins. Eldfjallaeyjan Ísland á engan sinn líka hvað varðar landslag, gosmyndanir og bergfræði. Þrátt fyrir ungan jarðfræðilegan aldur og tíða eldvirkni eru margar jarðmyndanir hérlendis mjög fágætar, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Og þótt Íslendingar telji sig vera ríka af þeim eldvörpum sem skópu landið í aldanna rás þá ber að minnast þess að margar þessar jarðmyndanir eru afar sjaldgæfar og jafnvel einstakar, svo sem hinar mörgu eldborgir á Reykjanesskaganum. Samkæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á Reykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200–300 ár. Síðasta goshrinan gekk yfir á árunum 950–1240 en síðast runnu hraun á Reykjanesskaga árið 1226, þar má nefna Arnarseturshraun, Leitahraun og Eldvarpahraun.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/