Grindavík

Eftirfarandi er úr frásögn Bjarna Sæmundssonar um hrakningarveðrið mikla 24. marz 1916. Hún er byggð á viðtölum við sjómennina sem og skipstjórann á kútter Esther frá Reykjavík, sem bjargaði áhöfnum fjögurra Grindavíkurskipa þennan dag.
“Hann mun verða mörgum Grindvíkingum minnisstæður föstudagurinn fyrsti í einmánuði (24. marz) 1916.Í Járngerðarstaðahverfi
Að morgni þess dags var logn og blíða og nærri frostlaust um allt Suðurland og sjórinn ládauður. Var þá almennt róið til fiskjar. Grindvíkingar voru alskipa um miðmorgunsleytið, 24 skip, flest áttæringar með ellefu mönnum á, og lögðu lóðir sínar í dýpstu fiskileitum, því að útlitið var hið bezta um veður. Ýmsir áttu net úti og vitjuðu þegar um þau, er þeir höfðu lagt lóðir sínar. Að því búnu fóru þeir að vitja um þær. En þegar menn höfðu tekið (dregið) fjórða hluta til helminga lóðanna, klukkan um hálf ellefu, brast á afar snögglega, “eins og byssuskot”, og eiginlega á nokkurs verulegs fyrirboða, ofsaveður af norðri, svo að ekki var við neitt ráðið.
Dokuðu sumir nokkuð við til að sjá, hvort ekki mundi bráðlega draga úr mesta ofsanum, en svo vildi ekki verða og sáu menn þá, að ekki var til setunnar boðið og skáru því frá sér lóðir sínar og bjuggu sig til að leita lands, ef kostur væri. Að “berja” með árum var ekki viðlits, og reyndu menn því að setja upp segl og sigla þangað sem tæki. En það gekk ekki greitt. Þó að djúpmið Grindvíkinga séu ekki langt undan landi, fjórar til sex sjómílur eða lítið eitt meira, og veðrið stæði hér um bil beint af landi, þá gerðist sjór brátt stórvirkur. Þar við bættist hörkufrost og barlestarleysi hjá flestum, því að afli var mjög lítill, nema hjá þeim, er vitjað höfðu um net sín, svo að skipin þoldu ekki nema hið allra minnsta af seglum, þríhyrnur og fokkubleðla…
ÞKútter Estherað var gefið frá byrjun, að fæstir mundu ná réttri lendingu, og tókst það aðeins fjórum skipum frá Þórkötlustöðum, sem höfðu róið austur á bóginn og leituðu fyrst lands. Eitt skip þaðan náði með herkjum Járngerðarstöðum. Fyrir öllum hinum var um að gera að ná Staðarhverfi eða Víkunum. Hinum Þórkötlustaðaskipunum og einu úr Járngerðarstaðahverfi tókst að ná Staðarhverfi; enginn hinna náðu landi fyrir austan Staðarberg og urðu því að leita lendingar á Víkunum og lánaðist það flestum. Þrjú, sem náðu bezt, lentu þar sem heitir Jögunarklettur (“Kletturinn”), og fimm þau næstu nokkru utar (vestar, þar sem heitir á Háleyjum (gömul verstöð?), og farnaðist þeim öllum vel, því að mönnum tókst að bjarga þeim með heilu og höldnu undan sjó, enda var þar mannafli nógur, þegar fyrstu skipin voru lent. Þetta gerðist á fjórða tímanum.
Tvö skip, sem ætluðu að ná Háleyjum, en höfðu fatlazt, urðu að lenda upp á von og óvon, sem heitir á Krosssvíkum og undir Hrafnkelsstaðabergi, austan á Reykjanestá, og brotnuðu í spón, af því að þar er stórgrýtt mjög og súgur var nokkur orðinn þar við land, en enginn maður meiddist.
Eitt skip enn af þeim, sem ætluðu að ná Háleyjum, en braut eina ár, náði ekki lendingu austan við Skarfasetur (Reykjanestána eystri), en hleypti upp á líf og dauða upp í urðarás einn vestan við Skarfasetur. Í sama bili og skipið steytti, skall yfir ólag, sem kastaði því flötu og skolaði átta mönnum útbyrðis, en formaðurinn og annar til gátu haldið sér föstum og gengið þurrum fótum á land, þegar út sogaði, en hinum öllum hafði sjórinn skolað upp ómeiddum, og mátti það heita furðulegt, en skipið brotnaði í spón.
-Ef til vill hafa menn sloppið svo vel hjá öllum meiðslum og slysum undir þessum erfiðu kringumstæðum, af því að Grindvíkingar eru alvanir að bjarga sér í brotalá og illum lendingum.
Nú voru eftir fjögur skip, öll úr Járngerðarstaðahverfi, sem dýpst höfðu róið, eða höfðu minnsta seglfestu; þau náðu ekki nær en undir Skarafsetur. Eitt þeirra ætlaði að freista þess að ná lendingu í Kerlingarbás, undir Reykjanesvita, en náði ekki svo langt og hrakti undan. Tveim hafði ef til vill tekist að hleypa upp í Skarfasetur og bjarga mönnunum; fjórða náði aldrei svo langt. Bar þá um sama leyti svo til, að það sást til skips, ekki mjög langt undan, út og suður af Skarfasetri. Það var kútterinn Esther úr Reykjavík, skipstjóri Guðbjartur Ólafsson. Hann hafði komið austan af Selvogsbanka um daginn fullur af fiski og ætlaði til Reykjavíkur, en er hann kom móts við Stafnes, var veðrið orðið svo mikið, að hann sneri við til að leita sér skjóls í Grindavíkursjó.
Dagbjartur Einarsson, skipsstjóri á kútter EstherKom hann þarna eins og kallaður, þar sem öll von virtist úti, og tóku nú öll skipin það ráð að leita út til hans og héldu undan sjó og veðri til hafs og gekk nú ferðin greitt, þótt hvorki væri siglt né róið, veðrið og straumurinn nægðu.
Þegar Esther varð vör við ferð skipanna, felldi hún þegar forseglin, sneri upp í og hafði þegar allan viðbúnað til þess að taka á móti hinum bágstöddu skipum. Varð það ekki vandalaust verk, þar sem hún var stödd langt úti á hafi, hér um bil  mitt á milli Eldeyjar og lands, á eystristreng Reykjanesrastar, í stórsjó, stórviðri og hörku frosti, svo að varla varð við neitt ráðið og kútterinn undir sífelldum áföllum.
Björguninni var hagað þannig, að skipunum var lagt, jafnharðan og þau komu, upp að miðri skipshliðinni á kulborða, en nokkrum af áhöfninni skipað þar við borðstokkinn, og sættu þeir lagi að kippa hinum hröktu mönnum inn fyrir hann í hvert skipti, sem sjórinn lyfti skipunum upp í hæð við broðstokk kúttersins, þannig að tekið var í hendur þeim og handleggi. Var þetta ekki vandalaust, eins og ástatt var, en svo snilldarlega tókst það, að allar skipshafnirnar, 38 manns, náðust með heilu og höldnu, án þess að hið minnsta slys vildi til, og voru þó á meðal þeirra menn um sjötugt. Furðu lítið varð og að sjálfum skipunum, meðan á þessu stóð…
Ekki lægði veðrið, heldur fór það þvert á móti versnandi með kvöldinu, herti bæði ofveðrið og frostið. Var því ekkert viðlit fyrir Esther að reyna að slaga inn á Grindavík, til þess að koma fólkinu til lands. Var því ekki annað að gera en að leggja henni til drifs og láta “hala” austur á bóginn og bíða betri tíma…
Að líðandi hádegi á mánudag var loks skipinu lagt til siglingar inn á Grindavík, og kom það á Járngerðarstaðavík um nónbil og skilaði þar af sér öllum mönnunum, eftir að hafa haft þá innanborðs í þrjá sólarhringa.
Það hafði verið ætlun skipstjóra, að reyna að bjarga skipunum sjálfum og voru þau því öll fest aftan í Esther, en þau töpuðust smám saman öll og  var ekki við öðru að búast, þegar svona var ástatt.”
Þá vel gera sér í hugarlund hve glaðnaði yfir mönnum, þegar Esther kom með alla mennina heila á húfi inn á Járngerðarstaðavíkina þennan mánudag.

Heimild:
-Bjarni Sæmundsson – Frá Grindvíkingum. Brim og boðar – Sig. Helgason 1949, bls. 215-223.Grindavíkursjór á góðum degi