Færslur

Þjóðmenningarhúsið

Þjóðmenningarhúsið var byggt fyrir Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands á árunum 1906 til 1908 og opnað almenningi vorið 1909. Þjóðminjasafn Íslands og Náttúrugripasafn Íslands voru einnig í húsinu um langt árabil. Í Safnahúsinu, eins og það var fljótlega kallað, voru því lengi vel undir einu þaki allir helstu dýrgripir íslensku þjóðarinnar.
thjodmenningarhus-1Helsti frumkvöðull að byggingu Safnahússins var Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslands. Hannes Hafstein valdi danskan arkitekt, Johannes Magdahl Nielsen, til að teikna húsið. Hann leysti verkið af mikilli kostgæfni eins og húsið ber vott um. Sjálfur kom hann aldrei til Íslands en umsjónarmaður byggingarinnar fyrir hans hönd var starfsbróðir hans Frederick Kiörboe. Kringlan við Alþingishúsið er einnig verk hans.
Húsið reisti Trésmíðafélagið Völundur undir forystu Guðmundar Jakobssonar. Fyrir steinsmíðinni stóð Guðjón Gamalíelsson, fyrir trésmíðinni Helgi Tordersen og járnsmíðinni Páll Magnússon.
Landsbókasafnið og Þjóðskjalasafnið fengu upphaflega um það bil þriðjung hússins hvort til afnota. Að auki fékk Landsbókasafnið lestrarsalinn í miðrými hússins. Þjóðminjasafnið fékk rishæðina og var þar frá 1908 og fram til ársloka 1950 er flutt var í núverandi hús á Suðurgötu. Var bókum og skjölum þá komið fyrir á hæðinni.
Náttúrugripasafnið var á 1. hæð hússins. Þegar safnið flutti út haustið 1960 var húsnæðið fengið handritadeild Landsbókasafns og Handritastofnun Íslands (fyrirrennara Stofnunar Árna Magnússonar) til notkunar. Landsbókasafnið flutti í Þjóðarbókhlöðuna í árslok 1994 en geymdi bækur á Hverfisgötunni fram til ársloka 1998. Um sama leyti flutti Þjóðskjalasafnið endanlega í framtíðarhúsnæði sitt að Laugavegi 162.
thjodmenningarhus-2Gamla Safnahúsið fékk nýtt og breytt hlutverk, þegar Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra opnaði Þjóðmenningar-húsið á skírdag 20. apríl árið 2000. Veglegar sýningar voru opnaðar sama dag.  Þjóðmenningarhúsið heyrði undir forsætisráðuneytið frá stofnun til 1. október 2009 en þá færðist starfsemin undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Með tilliti til fyrirhugaðra breytinga á starfsemi hússins voru gerðar gagngerar endurbætur á húsinu á árunum 1997-2000. Endurbæturnar fólust í fyrsta lagi í utanhússviðgerðum, þ.e. múr- og sprunguviðgerðum, endurnýjun glugga, málun og koparklæðningu þaks. Í öðru lagi fólust endurbæturnar í lóðarframkvæmdum, þar sem yfirborð lóðarinnar var endurnýjað, og í þriðja lagi í endurbótum innanhúss, þar sem húsið var endurnýjað að innan með tilliti til friðunar þess og breyttrar starfsemi.

Þjóðmenningarhúsið

Þjóðmenningarhúsið.