Færslur

Selsvellir

Gildandi Þjóðminjalög eru frá árinu 2001. Þau eru á stofnanamáli einkennd með nr. 107 frá 31. maí. Lögin tóku í meginatriðum gildi 17. júlí 2001. Lögin kveða m.a. á um verndun fornminja, en þau (sem slík) vernda ekki minjarnar. Ekki heldur þær stofnanir, sem þar eru tilgreindar. Þá hefur reglugerð studd af fyrrgreindum lögum ekki verið fyrir hendi þrátt fyrir að lögin geri ráð fyrir henni.

Tilbúningur

Mikilvægt er að endurskoða núverandi Þjóðminjalög og um leið allt fyrirkomulag fornminjamála hér á landi. Markmiðið á ekki að vera að ákveða hvaða stofnun á að gera hvað heldur hvernig vernduninni er best fyrir komið. Lögin þurfa að gera ráð fyrir eðlilegu samspili allra þeirra er að þeim málum koma, afmarka einstaka stjórnvaldsþætti, ákvarða ábyrgð á tilteknum framkvæmdum og gera ráð fyrir að lögreglan eða tilgreindir eftirlitsaðilar hafi eftirlit með að fornminjar, þjóðararfurinn, fari ekki forgörðum.
Tímarnir hafa breyst – og það mjög hratt upp á síðkastið. Mikilvægt er að taka mið að þeim breytingum sem og því sem vænta má í undirliggjandi framtíð.
Tilgangur núgildandi laga átti að vera að vernda menningarsögulegar minjar og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Lögin áttu að tryggja eftir föngum varðveislu menningarsögulegra minja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarsögulegum minjum landsins og greiða fyrir rannsóknum á þeim. Fornleifaskráningu, sem fram hefur farið víða, er að mörgu leyti ábótavant. Dæmi er um “tilfærslu” fornleifa, að þær hafi verið rangt staðsettar og jafnvel að þær hafi verið heimfærðar á ranga staði – með þeim skýringum að hvorki hafi verið nægum tíma né fjármunum til að dreifa. Líkur á að slíkt gerist þarf að laga með nýjum lögum.
Til menningarsögulegra minja teljast, skv. lögunum, ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornleifar og gömul mannvirki, kirkjugripir og minningarmörk, forngripir, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Til slíkra minja geta einnig talist staðir sem tengjast menningarsögu. Þjóðminjar teljast þær minjar er varða menningarsögu Íslendinga sem ákveðið hefur verið að varðveita í Þjóðminjasafni Íslands, í byggðasöfnum eða með friðlýsingu.

Bæli

Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir.”
Grafskriftin er göfug, en gengur hún eftir. Svarið er NEI. Framangreind ákvæði virka ekki gagnvart almenningi, en hugsanlega gagnvart tiltekum stofnunum þar sem stofnanahugsunin er ríkjandi (heimild til að ríkja og drottna).
Þá er og fjallað um yfirstjórn þessara mála:
“Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu. Þjóðminjasafn Íslands, Fornleifavernd ríkisins og fornleifanefnd annast framkvæmd þjóðminjavörslunnar svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.” Hér er ástæða til að skírskota sérstaklega til skynsemi menntamálaráðherra, sem æðstráðanda í minjavernd, sbr. það sem á eftir kemur.
Í millitíðinni er fjallað um skilgreiningu fornleifa, sbr. 9. gr.: “Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem:
a. búsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum, húsaleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum;
b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri;
c. gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita;
Hreindýrabeind. gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra;
e. virki og skansar og önnur varnarmannvirki;
f. gamlir þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð;
g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum;
h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið;
i. skipsflök eða hlutar úr þeim.
Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.”
Allt er þetta góðra gjalda vert, en hvað um minjar er tengjast sögulegum stöðum, án mannvistarleifa. Þeir eru fjölmargir hér á landi. Sumir þeirra eiga eftir að hafa afgerandi áhrif á söguskýringar og auk þess ómetanlegt varðveislugildi. Svo virðist sem framkvæmdaraðilar, og jafnvel sveitarfélög, leggi sig fram við að útrýma slíkum “fyrirhuguðum” fornminjum vegna væntanlegs gildis þeirra og takmarkanir, skv. núgildandi laganna hljóðan. Allianz-reiturinn við Hrafnistu er ágætt dæmi um slíka leif.

Brynjudalur

Loks er kveðið á um hlutverk Fornleifaverndar ríksins skv. 11. gr. laganna: “Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Fornleifavernd ríkisins lætur skrár þessar í té Þjóðminjasafni Íslands. Skylt er að fornleifaskráning fari fram áður en gengið er frá svæðisskipulagi, aðalskipulagi eða deiliskipulagi eða endurskoðun þess og skal sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög standa straum af kostnaði við skráninguna.”
Þá segir (skv. 12. gr.) að “hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Fornleifavernd ríkisins viðvart.” Í 13. gr. laganna segir að “nú finnast fornleifar sem áður voru ókunnar og skal finnandi þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn. Ef fornleifar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd uns fengin er ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins um hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum.” Ákvæðið er hið minnsta brandari síns tíma þegar umhverfi slíkra atvika er raunskoðað. Dæmi eru um að verktakar hafi fjarlægt fornleifar á “örskotsstund” til að koma í veg fyrir þann hugsanlega “kostnað” og þær tafir, sem af kynnu að hljótast. Með þeim viðbrögðum hvarf hugsanleg vitneskja um eitthvað sem aldrei verður vitað hver var.
TóftirEitt hið skondnasta í gildandi lögum er þar sem kveðið er um notkun málmleitartækja. Þar segir í 16. gr.: “Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.” Hér ætti fremur að skapa möguleika og leiðbeina fólki um hver viðbrögð þess ættu að vera ef eitthvað markvert fynndist við notkun slíkra tækja er skoða mætti í fornfræðilegu samhengi. Hver veit til hvers það myndi leiða? A.m.k. til frekari uppljóstrana og þar með sögulegra skýringa. Fólk á ekki að óttast hið óþekkta – það á að nýta sér það svo sem kostur er.
Viðurlagakafli laganna er einnig sérstaklega skemmtilegur (óskemmtilegur). Þar segir m.a. að ; “brot gegn sumum ákvæðunum varði sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við broti skv. 177. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.” Engin slík refsing liggur hin vegar við í þeim tilteknu lögum, sem mest um varðar.

Gapi

Jafnframt segir að “Fornleifavernd ríkisins skal a.m.k. árlega birta skrár þær sem stofnuninni ber að færa samkvæmt lögum þessum.” Þessar skrár hafa enn ekki séð dagsins ljós, a.m.k. eru þær ekki aðgengilegar hinum venjulega Íslendingi.
Loks segir að “ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra. Í reglugerðinni skal m.a. kveða nánar á um samstarf.”
Reglugerð þessi hefur enn ekki séð dagsins ljós, sem fyrr sagði, en FERLIR telur að hún sé löngu orðin tímabær – sem og endurgerð laganna. Í þeirri reglugerð þarf áherslan ekki síst að vera aðgengi fólks að upplýsingum sem og á samstarf við það fólk í landinu, sem bæði veit og getur vísað á fornleifarnar, en ljóst er að þær eru mýmargar – og miklu mun fleiri en nú er vitað um. Fornleifafræðingar og aðrir hafa hingað til einungis verið að fást við yfirborð hina fornfræðilegu möguleika hér á landi.
Framangreint er bæði gaman og alvara – en þó fyrst og fremst áskorun um úrbætur.

Þórunnarsel

Þórunnarsel í Brynjudal.