Færslur

HPD-steinninn

Í umfjöllun um Duus-verslunina í Keflavík hafa vaknað ýmsar spurningar, ekki síst í tengslum við tilteknar „eftirlifandi“ minjar á svæðinu.

Duus-hús„Peter Duus kaupir verslunina í Keflavík 3. júní 1848 af Martin Smith sem hafði rekið þar verslun um árabil. Peter Duus var kvæntur Ástu Tómasdóttur Bech. Þau voru ung þegar þau kynntust í Reykjavík. Foreldrar Ástu bjuggu á Kjalarnesi. Ásta hafði búið lengi í Kaupmannahöfn þegar þau Peter Duus hittast. Þau giftu sig fljótlega og fóru til Kaupmannahafnar en stoppuðu ekki lengi þar því Peter bauðst verslunarstjórastaða í Reykjavík. Þaðan fara þau til Skagastrandar og síðan til Eyrarbakka þar sem þau efnuðust vel. Þegar þau frétta að verslunin í Keflavík var til sölu hafa þau trúlega verið fljót að grípa tækifærið, því þá var Keflavík stærsti verslunarstaðurinn á suð-vesturlandi. Þegar þau kaupa verslunina eru fyrir í Keflavík tvær verslanir, K-nudtzons verslun og Verslun Sveinbörns Ólafssonar (Miðverslun). Seinna kom Ziemsen, sem við þekkjum sem Ziemsen í Rvík. Kaupverð eignanna var 3.700 ríkisdalir. Ef miðað er við verkamannalaun í þá daga og í dag, myndi eignin reiknast á kr.19.824.000.

Duus-hús

Duus-hús fyrrum.

Peter Duus og Ásta innleiddu ýmsar nýjungar í Keflavík t.d létu þau gera stóran matjurtagarð við íbúðarhús sitt og ræktuðu þar ýmsar káltegundir. Deilur hlutust af við Leirubændur og dómsmál vegna landamerkja, en kartöflugarður hjónanna utan í Hólmsbjargi reyndist vera innan Leirulands.
Peter Duus og Ásta eignuðust 4 börn sem hétu, Hans Pétur, Lovísa Henrietta Florentina, Anna Guðrún og Lúðvík Tómas Henrik.
Áfram reka þau verslunina með miklum myndarbrag til ársins 1868 eða í 20 ár. Þóttu þau hin mestu sómahjón og segir Sr. Sigurður Sívertsen á Útskálum svo um Ástu: „Hún var mikill kvenskörungur. Mesta reglukona, stjórnssöm, utanhúss sem innan.“ Um Peter Duus sagði Sigurður: „Hann var reglu- og atorkumaður, áreiðanlegur, stjórnsamur, vandaður húsfaðir og tápmikill.“

Hans Pétur Duus tók við Duusverzlun eftir föður sinn Pétur Duus. Hafði faðir hans selt honum verzlunina í hendur 1864 og var verzlunin þá metin á 15000 ríkisdali. Hann rak verslunina í 4 ár.

Árið 1868 taka við versluninni sonur þeirra Hans Peter, og tengdasonur Daníel Johnsen. Þeir ráku verslunina saman í 6 ár en þá kaupir Hans Peter Daníel mág sinn útúr fyrirtækinu.

Duus-verslun

Peter Duus.

Hans Peter Duus kvæntist Kristjönu Sveinbjarnardóttur. Hún var dóttir Sveinbjarnar Ólafssonar sem var kaupmaður í Keflavík þegar Peter og Ásta koma hér fyrst. 15 ára aldursmunur var á Kristjönu og Hans Peter. Þegar þau taka við versluninni þá er Kristjana 24 ára en Hans Peter 39 ára.
Kristjana var mikil kjarnorkukona. Jón biskup Helgason frændi Hans Peters sagði að hún hafi verið „einstök mannkosta- og merkiskona“. Hann segir um frænda sinn Hans Peter að hann hafi verið „einstakt valmenni sem öllum var hlýtt til sem hann þekktu.“

Árið 1896 keypti H. P. Duus verzlun verzlunarfasteign N. H. Knudtzons í Keflavík ásamt íbúðarhúsi fyrir 8 þús. krónur, einnig saltgeymsluhús í Kotvogi í Höfnum og annað á Járngerðarstöðum í Grindavík fyrir 2 þús. krónur.
H ú s Knudtzonsverzlunar voru: Íbúðar- og verzlunarhús, er snéri gafli að götu, var sölubúð í norðurenda, en íbúð í suðurenda. Það hús er nú Ungmennafélagshúsið við Hafnargötu, en í þá daga æfinlega nefnt Norðfjörðshús, eftir síðasta verzlunarstjóra Knudtzonsverzlunar. Skammt frá austurhlið hússins voru 3 vörugeymsluhús, neðsta hýsið snéri gafli að götu, hin þar upp af og mynduðu þau til samans vegg upp með íbúðarhúsinu og byrgðu mjög fyrir birtu og sól. Fjórða húsið var austast og byggt við götuna, það snéri hlið að götu. Mun það ennþá standa. Þá voru stakkstæði nokkur fyrir austan húsin. Eftir að Duusverzlun varð eigandi að eigninni, lét Ólafur Ölavsen stækka þau og umbæta.

Duus-verslun

Hans Pétur Duus.

Árið 1900 keypti Duusverzlun eignir og hús Fichersverzlunar í Keflavík. Var sú verzlun í miðri Keflavík. Stendur aðalhúsið ennþá og er nú eign h.f. Keflavík. Mið bryggjan og nokkur gömul vörugeymsluhús fylgdu eign þessari, voru þau flest rifin, enda voru þau næsta hrörleg, en „pakk“-húsið, sem stóð fyrir enda bryggjunnar var látið standa og för þá þegar fram mikil viðgerð á því.
Næsta haust var hafist handa um byggingu sjóvarnargarða. Hafði sjór gengið mjög á landið, þar sem lægst var og flætt upp á Hafnargötuna í stórstreymi.
Var Símon Eiríksson steinsmiður fenginn til verksins og var byrjað við norðanverða miðbryggju. Á næstu árum voru byggðir varnargarðar með sjó fram alla leið út í gróf. Þá var byrjað á að byggja miðbryggjuna úr steini (var áður timburbryggja). Var unnið að þeirri smíð árum saman. Um líkt leyti var byrjað á byggingu steingarðsins mikla, er umlukti á tvo vegu hina stóru lóð fyrir ofan Duusverzlun, er þá var flutt í Fichersbúðina.“

Í Duushúsum, þessum gömlu verslunar- og fiskvinnlsluhúsum, er nú rekið fjölbreytt menningarstarf. Saga þeirra nær aftur á 19. öld en elsta húsið, Bryggjuhúsið, var reist árið 1877 af Duus-verslun. Byggingarsaga húsalengjunnar er því vel yfir aldarlöng. Byggt var við húsin eftir þörfum hverju sinni. Um miðja 20. öld hætti verslunin rekstri og voru húsin þá notuð í tengslum við útgerð. Undir lok síðustu aldar keypti bærinn húsin fyrir safna- og menningarstarf. Nú hefur öll lengjan verið endurbyggð en því verki lauk árið 2014.
Í Duus-húsum eru níu sýningarsalir af misjafnri stærð. Þar af eru tveir salir helgaðir sérstaklega Lista- og Byggðasafni Reykjanesbæjar. Byggðasafnið er með grunnsýningu sína um sögu svæðisins á Miðlofti Bryggjuhúss. Þar svífur sagan frá tímum dönsku verslunarinnar yfir vötnum.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duus-húsum.

Framangreint er skrifað vegna þess að þegar Duus-húsin voru endurbyggð um og eftir síðustu aldarmót fannst í grunni þeirra letursteinn. Letursteinninn er með áletruninni „HPD“, sem væntanlega má rekja til framangreinds Hans Péturs Duus. Líklega hefur hann á sínum tíma verið hornsteinninn í einni byggingu Hans Péturs.
Ekki virtist vera áhugi á að varðveita steininn þann við endurbygginguna svo safnari, sem þekkti gildi hans, tók hann til tímabundinnar varðveislu.
HPD-steinninn er nú varðveittur á góðum stað í nálægð Keflavíkur – í hæfilegri fjarlægð frá Þjóðminjasfaninu.
Sérstakt má telja að áletrunin „HPD“ gæti mögulega verið að einhverju leyti verið skyld þeirri og sjá má á „Hallgrímshellunni“ svonefndu, sem fulltrúar Þjóðminjasafnsins fjarlægðu á sínum tíma í óþökk heimamanna úr vörðu við gömlu kaupstaðagötuna milli Básenda og Þórshafnar. Ártalið 1628 á henni hefur hins vegar vakið verulegar vangaveltur, sem ekki hefur enn verið séð fyrir endann á.
Duus virðist koma fyrst við sögu Keflavíkur á ofanverðri 19 öld. Gæti verslunarsaga Duus á svæðinu hafa átt sér enn lengri rætur? Fyrrum voru þarna verslunarstaðir á Básendum og Þórshöfn norðan Ósa. Við báða staðina eru fjölmargar áletranir og letursteinar. Ein þeirra, óútskýrð; „HP“, á klöpp við Þórshöfn gæti mögulega verið svarið…

Sjá meira

Heimild:
-Faxi 01.06.1948, Marta V. Jónsdóttir, Duus kaupmaður, bls. 2.
-Faxi 17.06.1948, Marta V. Jónsdóttir, Duusverslun, bls. 3-4.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Duus_Safnah%C3%BAs
-https://sofn.reykjanesbaer.is/duushus/um-safnid/um-safnid

HP

HP á klöpp ofan Þórshafnar.

Þjóðminjasafnið

Samkvæmt fyrirliggjandi opinberum heimildum er Þjóðminjasafn Íslands miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum á Íslandi. Á vegum safnsins eru sýning í safnhúsinu við Suðurgötu á menningarsögu Íslendinga frá landnámi til vorra daga og þar eru sýndir allir merkustu gripir safnsins.

Þjóðminjasafn

Í Þjóðminjasafninu.

Þjóðminjasafnið var stofnað með með stofnun Forngripasafnsins árið 1863 en þá var stiftsyfirvöldum í umboði íslensku þjóðarinnar fært nokkurt safn forngripa að gjöf með því skilyrði að stofnað yrði íslenskt forngripasafn. Margir fornmunir höfðu þá verið fluttir frá Íslandi og voru í erlendum söfnum eða í eigu einstaklinga. Sigurður Guðmundsson málari var einn aðalhvatamaður að stofnun safnsins. Þjóðminjavörður er Margrét Hallgrímsdóttir, fornleifafræðingur.

Fyrstu árin var Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar, síðan var það í tukthúsinu við Skólavörðustíg, svo í Landsbankahúsinu við Austurstræti og síðan í Alþingishúsinu. Árið 1908 var safnið flutt í sérbyggt safnahús á efstu hæð Safnahússins við Hverfisgötu og var þar til 1950 en þá var Þjóðminjasafnið opnað í eigin húsakynnum við Suðurgötu.

Þjóðminjasafnið

Frá Þjóðminjasafninu.

Nú 70 árum síðar hefur margt gott verið gert, en því miður hefur einnig margt farið úrskeiðis í starfi Þjóðminjasafnsins. Frumkvöðlar safnsins voru áhugasamir um eflingu þess, en núverandi stjórnendur virðast næsta áhugalausir um starfsemina, einkum þjónustuna. Það er a.m.k. reynsla þeirra er til þess hafa þurft að leita. Beiðnum er jafnan svarað með vísan í útfyllingu rafrænna spurnarforma, síðan eru síðan ekki virtar viðlits. Ef eftir svarleysunum er leitað að ærnum tíma liðnum fær beiðandi alls kyns útúrsnúninga og óskiljanlegar afsakanir.

Að mati fulltrúa FERLIRs ætti ríkisvaldið með gildum rökum að skilgreina Þjóðminjasafnið upp á nýtt með áherslu þess sem safngrips í vörslu ríkisins fremur en nútíma þjónustustofnun – sem hún er bara alls ekki.

Dæmi: FERLIR leitaði til Þjóðminjavarðar fyrir nokkrum misserum að gefnu tilefni og óskaði eftir möguleika þess að fá „Hallgrímshelluna“, sem er í geymslum safnsins, aftur í vörðuna þaðan sem hún var fjarlægð á sínum tíma.  Eðlilegra væri að minjar, s.s. letursteinar, væru fremur varðveittir á upprunastað en í geymslum, sem nánasta engir hefðu aðgang að. Vörðurinn vísaði erindinu til starfsmanns. Hann upplýsti að það væri meginmarkmið stofnunarinnar að innkomnir hlutir færu þaðan aldrei aftur út.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Í  upphafi árs 2020 leitaði fulltrúi FERLIRs eftir því að fá að ljósmynda letursteininn í safninu með það fyrir augum að láta gera afsteypu af honum og koma henni síðan fyrir í framangreindri vörðu. Var bent á að fylla út formlega beiðini þessa efnis, sem og var gert. Fram kom að viðbrögð við slíkum beiðnum gæti tekið allt að þrjá mánuði, auk þess sem þrjá mánuði til viðbótar gæti tekið að afgreiða erindin. Þegar engin viðleytni til svara var að sjá eftir sex mánuði leitaði fulltrúinn viðbragða hjá stofnuninni. Svör starfsmannsins verða ekki birt hér, enda honum ekki til framdráttar. Ábending kom m.a. fram að ítreka þyrfti beiðnina því sú fyrri gæti hafa misfarist þar sem margir þyrftu að koma að afgreiðslunni.
Að tíu mánuðum liðum var enn og aftur spurðist fulltrúi FERLIRs fyrir um þann möguleika um að fá að koma í geymslurnar og taka myndirnar án aðkomu starfsfólks. Því var svarað að enginn mætti koma þangað inn vegna Covid-19. Spurði þá hvort starfsmaður safnsins gæti tekið myndirnar og sent beiðanda. Myndir bárust í framhaldinu með þeim orðum að „um svokallaðar vinnumyndir að ræða. Þær eru ekki ætlaðar til birtingar af nokkru tagi. Ef óskað er eftir einhvers konar birtingu af gripum í vörslu safnsins eru myndir teknar af ljósmyndara safnsins og kostnaður þá í samræmi við gjaldskrá myndasafnsins“. Þvílíkt rugl; áhugasamt fólk á sem sagt ekki, undantekningarlaust, möguleika á að fá myndir af gripum safnsins án milligöngu hirðljósmyndara þess með tilheyrandi kostnaði.
Fulltrúi FERLIRs sendi myndirnar til steinsmiðs í Keflavík með það fyrir augum að gera eftirmynd af hellunni og í framhaldinu verður henni komið fyrir í gömlu vörðunni við Kaupstaðagötuna milli Þórshafnar og Stafness norðan Ósa.

Sjá meira um „Hallgrímshelluna“ HÉR, HÉR og HÉR.

Hallgrímshella

„Hallgrímshellan“ skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins fyrir nokkrum árum. Mynd mbl.