Tag Archive for: þjóðsögur

Álfar

Í Eimreiðinni 1895 fjallar Finnur Jónsson um „Álfatrúna á Íslandi„.

Orðið þjóðtrú er notað um trúarviðhorf af ýmsu tagi sem falla að jafnaði utan viðurkenndra trúarbragða en eru þó bundin menningu, siðum og venjum fólks. Oft er þetta trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í sambandi við ýmislega reynslu sem fólk skýrir fyrir sér með tilvísun til trúarinnar.

Óttarsstaðir

Álfakirkja við Óttarsstaði.

Orðið “þjóð” í þjóðtrú vísar til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna. Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu.

Hin síðari ár hefur nokkuð verið deilt um einlægni fólks í sambandi við þjóðtrú. Árni Björnsson hefur sett fram þá hugmynd að fólk hafi alla tíð fyrst og fremst sagt þjóðtrúarsögur sér til skemmtunar á meðan tiltölulega fáir hafi lagt raunverulegan trúnað á þær. Á móti því hefur Valdimar Hafstein skrifað að margt bendi einmitt til að að þjóðtrúin sé einlæg og hafi beinlínis áhrif á gjörðir fólks.

Álfatrúin á Íslandi
Álfar
„Fornfræði — það er margt, sem felst í þessum tveimur orðum. Þau geta náð yfir forna sögu, fornt mál, fornan kveðskap o. fl., ekki sízt þó allt það, sem heyrir undir fornan átrúnað eða trú, eða það sem vjer nefnum nú heiðni og hjátrú.

Álftanes

Álftanes – Akrasteinn; álfasteinn.

Þau eru forn, afargömul, þessi fræði; en þau eru líka opt ekki eingöngu forn, þ. e. þau hafa lifað sínu lífi um margar aldir og enda stundum allt fram undir eða jafnvel fram á vora daga, og eimir eptir af mörgu enn í dag sumstaðar, þótt blöðin, skólarnir, í stuttu máli »sú meiri upplýsing« — eins og Fjölnir komst forðum að orði — hafi gert sitt til að svæfa og kyrkja þau. Það sem hefur haldizt lengst við á Íslandi af heiðnum átrúnaði, er álfatrúin, og munum vjer hjer skýra frá sögu hennar í mjög stuttu máli; en vísum annars til Ísl. þjóðsagna og ævintýra um allar sjerstakar álfasögur. Það er í rauninni ekki minna vert en að kunna sögurnar sjálfar, að draga út úr þeim mynd af efni þeirra, sem sje ein og heilleg.
ÁlfarTrúin á álfa er afargömul og ekki til orðin á Norðurlöndum; sjálft orðið álf- er álitið að vera sama og orð eitt í sanskrít (rbhú), er merkir »íþróttarmann, völund«; það er dverga-hugmyndin, er þar kemur fram, en hún kemur ekki þessu máli við. En hvað eru álfar þá í raun rjettri?
Mörg rök má færa til þess, að álfar sjeu upphaflega ekkert annað en sálir andaðra manna, og trúin á þá er trúin á líf sálnanna eptir líkamlegan dauða hvers manns. Því var t. d. Óláfr á Geirstöðum kallaður Geirstaðaálfur eptir dauða sinn.

Kaðlakriki

Kaplakriki – álfaborg.

Snorri Sturluson talar um tvær aldir í Heimskringlu formála sínum og nefnir þær brunaöld og haugaöld. Þetta er rjett að því leyti sem brunaöld (líkabrennuöldin) var eldri og gekk á undan hinni, er haugar voru gerðir og lík mann lögð í þá óbrennd. En lengra aftur í tímann var ekki von til, að minni manna næði.

Haugaöldin er mjög gömul. Um leið og haugurinn varð bústaður líksins, varð hann og bústaður sálarinnar, er var ódauðleg. Þess vegna höfðu haugbúarnir (draugarnir) nokkurs konar líf eftir dauðann. Haugarnir vóru opt ættahaugar, og gátu margir verið lagðir í einn haug. Af trúnni á líf sálnanna spratt svo trúin á mátt þeirra til að vernda lifandi menn og styrkja þá til velmegunar og hamingju. Synirnir trúðu þvi eðlilega, að feður þeirra (afar og forfeður) ljeti sjer annt um þá eins eptir líkamlegan dauða sinn sem áður, og þeir fóru að tilbiðja feður sína þ. e. sálirnar, andirnar, og skoða þær sem góða anda og verndarverur; andirnar (haugbúarnir) voru því upprunalega sjerstök ættagoð; en trúin breiddist út og varð almenn og menn fóru almennt að dýrka þessar verur, sem höfðu fengið nafnið álfar.
ÁlfarÍ hinni fornu goðafræði eru álfar stundum nefndir og þá alloptast svo, að þeir eru settir í náið samband við æsi eða goðin sjálf; »æsir og álfar« eru eins og ein heild. Álfheim gáfu æsir Frey að tannfje í árdaga; hafa menn því snemma hugsað sjer sjerstakan heim, er þeir byggðu, enda segir Snorri í sinni bók (Eddu), að »einn sé staðr á himni, er heitir Álfheimr; þar byggja Ljósálfar — þeir eru fegri en sól«; »ljósálfar« eru kallaðir hjer til greiningar frá »dökkálfum« það eru dvergarnir, og þeir eru svartari en bik. Það sem hjer kemur fram, er yngsta stigið í heiðinni trú á álfa. Þeir voru hugsaðir sem ljósar og ljúfar verur (loptandar), sem vildu ekki annað en gott og unnu öllu því, sem var gott og fagurt.

Álfasteinn

Álfasteinn við Laugarás.

Í Alvíssmálum er kafli úr máli þeirra, eða taldir nokkurir hlutir og sagt, hvað álfar nefni þá; öll þessi nöfn eru yndisleg, ljúf og blíð og sýna tilfinningu fyrir fegurð náttúrunnar; jörðin heitir »gróandi«, himininn »fagraræfr«, sólin »fagrahvel«, skógurinn »fagrlimi«, lognið »dagsevi«, nóttin »svefngaman«, vindurinn »dynfari« o. s. frv. Þeir eru auðvitað fagrir ásýndum, og þegar menn hugsuðu sjer þá klædda, vóru þeir í fegurstu og dýrustu guðvefjarklæðum, bláklæddir, en einkum þó rauðklæddir; því sagði Skarphjeðinn: »sjáið þjer rauðálfinn, sveinar«. Þeir eru auðugir af gulli og gersemum, eins og Freyr og Njörður, og gátu því gefið mönnum fullsælu fjár. Þeir hata allt óhreint; því segir um Helgafell — en á því var sá átrúnaður, að þangað færi menn í fellið eptir dauðann, einkum niðjar Þórólfs Mostrarskeggs —, að enginn mátti þangað óþveginn líta og eigi skyldi þar »álfrek ganga« (forn og dýrmæt altansklæði (frá kaþólskum tímum), sem enginn veit neitt um upprunann, verða í þjóðtrúnni að álfagjöfum).

Álfar

Grásteinn í Grafarvogi – heimili álfa.

Nöfn með orðinu álf- í þóttu fögur og farsælleg (Álfgeir, Álfhildur o. fl.) og »vel þykir kent til álfa« (t. d. að kalla mann »brynjálf« í skáldskap) segir Snorri.

Ófeigskirkja

Ófeigskirkja, meint álfakirkja í Garðahrauni, var flutt um set vegna vegagerðar.

Álfadýrkun og álfablót hafa verið almenn um öll Norðurlönd; það er um þau talað í fornum sögum bæði í Norvegi og Svíþjóð, og sýnist svo, sem það hafi verið helzt konur, er stóðu fyrir þeim. Líkt hefur verið haft á Íslandi, enda segir í Kormákssögu frá veizlu, er ger hafi verið álfum til heilbrigðis manni, og hafi blóði fórnardýrsins verið roðið á álfahólinn. Ætíð þótti það hollara að hafa vináttu þeirra en styggja þá; það gat orðið til óleiks og óláns. Það er auðvitað, að úr því að álfar eru taldir með ásum, hafa menn hugsað sjer, að þeim hafi ekki verið mikið gefið um siðaskiptin forðum daga, og kemur í ljós á einum stað fögur, en angurblíðu-blandin hugmynd um það; svo segir, að maður einn hafi vaknað snemma og allt í einu hlegið; hafi hann þá verið spurður, hvað honum væri hlátursefni, og segist hann sjá mart skoplegt — maðurinn á að hafa haft ófreskisgáfu—: »margur hóll opnast og hvert kvikindi býr sinn bagga og gerír fardaga«; þetta vóru álfar og er auðsjeð, að þeir vildu flýja kristnina. En þeir flýðu ekki landið og það fór ekki fyrir þeim sem fjelögum þeirra, Óðni og þeim ásum, aðalgoðunum; þau hurfu, dóu smámsaman; Hvítakristr sigraði. Vilji maður halda landsvist, verður hann að hlýða landssið og hlíta landslögum — og það kjöru álfar, eins og síðar skal verða á drepið.

Álfar

Álfar ku búa í klettum.

Í ýmsum fornsögnum, sem þó eru ekki eldri en frá síðustu tímum fornaldarinnar, fer að brydda á þvi, að enn nánara samband getur komizt á milli manna og álfa, en áður hafa menn hugsað sjer, og er það mjög þýðingarmikið stig í islenzku álfatrúnni. »Ganga nauðsynja sinna«; dlfrek = það sem rekur álfa í burtu. Það einasta þýðing orðsins, sem getur komið til greina.
Það er ástarfar milli álfkonu t. d. og mennsks manns, sem jeg á við hjer, og eins hitt, að álfkona leitar hjálpar hjá mennskri konu í barnsnauð. Í álfasögunum í ísl. þjóðsögum og ævintýrum kemur hvorttveggja mjög opt fyrir, og það sem vjer hjer eptir höfum af álfum að segja, er tekið eptir og úr þessum álfasögum.

Álfakirkja

Álfakirkja í Selhrauni.

Eptir því sem tímar liðu fram, hlutu hinar upprunalegu hugmyndir um álfana að gleymast, að sama skapi sem heiðnar trúarskoðanir týndust, og breytast á margvíslegan hátt; og hefur þegar erið eitt dæmi að minnsta kosti sýnt í þá stefnu.
Um uppruna álfa fer nú tveim sögnum. Önnur er sú, að þeir sjeu systkin mannanna, börn Adams og Evu; segir sagan, að Eva hafi falið suma krakkana, þegar guð heimsótti þau Adam einu sinni, af því að þeir hafi verið óþvegnir og óhreinir; þá hafi guð sagt: »Það. sem skal hulið fyrir guði, skal hulið fyrir mönnum«; þessir krakkar hafi svo orðið forfeður huldufólksins. Hin sagan er sú, að þeir sjeu englar, sem engu ljetu sig varða aðferð Lucífers —, »vóru með hvorugum« —; þeir vóru því reknir niður á jörð og urðu álfar.

Álfasteinn

Álfasteinn við Hjarðarhaga.

Annars er trúin sú, að álfar fæðist og deyi sem menn, en verði allt að jafna langlífari; eru þeir að því leyti, sem mörgu öðru reyndar, á æðra stigi.
Að útliti til er það allt fallegt fólk og föngulegt, svipmikið, en opt nokkuð stórskorið. Það er optast nær bláklætt (þ.e. í svörtum vaðmálsklæðum, sem er aðalbúningur Íslendinga sjálfra); þó er einstöku sinnum talað um rauð klæði; kirkjufólk er í litklæðum, og við hátíðleg tækifæri er það prýtt gulli og gersemum, kvenfólkið hefur skautafald, hempur og að öðru leyti búning sem
mennskar konur. Að búningur álfmeyja hafi yfir höfuð verið álitlegur og ekki af lakara tagi sýna t. d. þessar vísur:

Á bláu var pilsi en beltið var vænt,
bundið um enni silkiband grænt,
skautafald háan, hvítan sem ull,
á hendinni bar hún þríbrotið gull.
Blátt var pils á baugalín,
blóðrauð líka svuntan fín,
lifrauð treyja, lindi grænn,
líka skautafaldur vænn.

Stakkavík

Álfakirkjan í Stakkavík.

Það er valla efamál, að sá búningur, sem hjer er bent til, hafi verið hátíðabúnaður fyrirkvenna á fyrri öldum. Nöfn koma nokkur fyrir: Arnljótur, Finnnr, Grímur, Kári og jafnvel Davíð; Alvör, Björg, Borghildur (drottning í borg, Álfaborg), Hildur, Íma, Snotra, Úlfhildur, Una, Vandráð eða Valbjörg. Kallmannanöfnin eru lítt einkennileg; betri og fallegri eru kvennanöfnin og sýna annaðhvort lundernisfar (Alvör, Snotra, Una) eða hjálpsemi (Björg).
Helztu líkamlegu einkenni eru, að alt er það ósýnilegt fólk, en hefur þá yfirburði, að geta gert sig sýnilegt við tækifæri. Það sjer allt á jörðu og í. Allt er þetta fólk alvarlegt og hógvært, góðgjarnt og hjálpsamt, hvort sem leitað er til þess beinlinis eða ekki, og ærið er það gestrisið, vinfast og trúlynt, en um fram alt ráðvant og ærlegt; svik eru ekki fundin i þess munni.

Kópavogur

Álfhóll í Kópavogi.

Það eru leifar af gömlu álfatrúnni, og er ekki að undra, þótt álfar sje nefndir einu nafni Ljúflingar, og þykir þeim það gott nafn; þar á mót líkar þeim ekki vel við álfanafnið, af því að það er svo opt haft í illri merkingu, og þykir sjer með því misboðið. Hefnigjarnir eru álfar stundum, ef til þeirra er illa gert eða ef þeir eru rnjög áreittir, en fáar fara sögur af því; hinar eru fleiri og langflestar, er fara af greiðvikni þeirra, þakklátsemi og rausnargjöfum, ef vel er til þeirra gert. Gjafir þeirra eru t. d. rauðleit hálfskák dýrmæt, undurofinn ljereptsklútur, svuntudúkur, skrúðklæði í kistli, prestsskrúð og línsloppur, ábreiða úr ókennilegum vefnaði, silfurbelti, gullofinn guðvefjardúkur1, gyltur silfurhnappur (lagður í barnslófa) o.fl. Bústaðir álfa eru ekki aðeins í hólum (haugum), heldur og í steinum (klettum, björgum); stór (kletta)borg verður þá höfuðstaður (Álfaborg). Híbýli þeirra eru í raun rjettri bæir, en líta út eins og steinar og hólar; inni er líkt umhorfs og í bæjum manna.

Bæjarsker

Bæjarskersleið – álfasteinn.

Lifnaðarhættir og atvinnuvegir eru sömu sem manna (Íslendinga sjálfra). Álfar hafa hunda, kýr og kindur, naut og hesta, fjöruga og fallega, og allt er það föngulegra og gerðarlegra en hjá mönnum. Af þessu leiðir, að þeir þurfa alla heyvinnu, þeir slá og raka, hirða og binda og safna í hlöður. Mjólkurtilbúningur fer þar fram, og opt heyrist strokkhljóð úr klettum. Þeir hafa ullarvinnu, kemba, spinna og prjóna. Þeir sem búa nálægt sjó, fara í verið og róa til fiskjar og eru að hvalskurði;- þeim hepnast ætíð vel og þeim hlekkist aldrei á. Þeir sem búa upp til sveita þar sem silungsvötn eru, róa og veiða silung. Þegar talað er um mat í hólum hjá álfum — en það er sjaldan —, er nefndur steiktur silungur (og má af því nokkuð marka, að sú saga sje til orðin í sveit) og þess utan brauð og grjónagrautur; brauðsog grautarefnið má ráða í hvaðan komið sje, sem síðar skal á minnzt. Þó er ekki laust við, að mönnum sýnist ekki maturinn í hólum girnilegur (stundum maðkaður eða allur rauður). Þess skal enn fremur getið, að álfar fara á berjamó og tína ber.

Álfakirkja

Álfakirkja – fjárskjól neðan bekkja.

Yfir höfuð er það allt velmegandi og auðugt fólk, sem áður segir. Þó er til fátækt fólk meðal álfa, og er stundum hart í búi hjá því; ber þá við, að krakkarnir þeirra koma til manna og sníkja mat eða mjólk í nóann sinn; askarnir eru hvítir með rauðum gjörðum (það hafa þótt laglegir askar, er svo vóru gerðir).

Álfasteinn

Álfasteinn við Hótel Natura.

Álfar halda fardaga og flytjast búferlúm, og er það kunnugra en frá þurfi að segja; þeir flytjast þá stundum á kerrum — sem sýnast steinar eða eru. Almennasta fardagatíðin er nýjársnótt. Um jólin og nýjársleytið hafa þeir gaman af gleði, söng og dansi, og kemur það ekki í bága við, að álfar annars sje mjög alvarlegt fólk.
Menntaðir eru álfar mjög vel, enda hafa þeir sálarhæfilegleika á æðra stigi en menn; þeir kunna á sjerstök grös til lækninga; geta látið hvali hlaupa á land með kyngi sinni, og er þá ekki furða, þótt huldumaður eigi krapta- og kyngisbók (galdrakver); álög þeirra verða að áhrinsorðum (»vertu þá aldrei óstelandi«). — Alfar kunna að skrifa; að minsta kosti er látinn skrifaður miði með barni i vöggu. Þeir hafa jafnvel prentsmiðju og prenta bækur, og er talað um sálmakver með mjög fínum stíl, er fundizt hafi við bæ einn; það var svo ólíkt öllu öðru, að það hlaut að vera komið frá álfum; og til eru brot af álfasálmum.

Álfar

Álfakirkja í Esju.

Að álfar myndi eina þjóðríkisheild, er víst, og eiga þeir sjer álfaþing, og hafa lög — Huldumannalög—, en aðeins eitt lagaákvæði þekkist úr þeim, og er það ekki óskynsamlegt (að rík álfamær, sem láti tælast af auðvirðilegum manni, skuli giptast honum og missa arfs síns).

Hamarinn

Hamarinn – álfasteinn.

Álfar eiga tvo kónga; það hefur þótt hefðarlegra og æðra, að þeir hjetu svo, en lögmenn, eins og þeir íslenzku. Kóngarnir áttu að fara sitt árið hvor til Norvegs og gera þar grein fyrir hag ríkis og þjóðar fyrir yfirkóngi allra álfa, er þar var. Það er auðsjeð, að þessi hugmynd er ekki yngri en 1400. Annars fara litlar sögur af þingum og málaþrasi álfa, eða öllu heldur engar, svo að vjer vitum.
Það er sögn um álfa, að þeir sje sumir heiðnir og illir; en þessu er víst ekki svo varið; illir eru þeir að minsta kosti ekki, enda koma þeir aldrei svo fram, nema þegar þeir eru reittir til reiði og þykkju.
En hitt er satt, að heiðin trú hefur haldizt um margar aldir hjá þeim og ef til vill aldrei dáið út með öllu. Því er þeim illa við kristilegt atferli; »ekki þurftirðu að krossa þetta ólukkukindin« sagði álfkona við konu, er krossaði mjólkina. Mennsk kona nefnir Jesús í álfhól; þá skreiðist gömul kelling fram og sópar allt húsið innan, og ekki þolir huldufólk ætíð að heyra guðsnafn; heldur ekki vildi huldumaður, sem var unnusti mennskrar stúlku, kyssa hana, eptir að hún hafði verið til altaris; það var kominn svartur, blettur á tunguna á henni. En það má það eiga, huldufólkið, að trúarofstæki er ekki til hjá því; það á viðskipti við kristna menn, kemur enda í kirkju með þeim, en þolir ekki blessunina; og ekki þótti álfameyjunni neitt að því að elska Ólaf liljurós:

Þar stóð úti ein álfamær,
sú var ekki Kristi kær.
Ekki vil jeg með álfum búa — segir Ólafur —
heldur vil jeg á Krist minn trúa.
Þótt þú viljir með álfum búa — svarar hún —
þó mátt þú á Krist þinn trúa.

Álfar

Álfur á Reykjanesi.

Þetta umburðarlyndi er fagur vottur um lund álfa, og mættum við mennirnir þakka fyrir, ef við værum ætíð svo sjálfir. Hins vegar er mart af álfum kristið ; hafa þeir líklega snúizt til siðbótar nokkuru eptir 1000, og efalaust hafa þeir og tekið þátt á siðabót Lúters. Þeir hafa kirkjur — og snúa dyrna r ætíð í austur— og presta; guðsþjónustan fer fram eins og hjá mönnum, en allajafna með meiri viðhöfn, öll kirkjan er ljósum lýst og prýdd, presturinn hefur hreimsætustu rödd o. s. frv. Biskup eiga þeir einn og býr hann í Blábjörgum; biblía þeirra er sú sama sem manna og sálma hafa þeir líka eða eins. Prestar eru stundum ekki ánægðir með brauð sín og geta þá haft brauðaskipti. Þess var áður getið, að álfar dæju sem menn, og er því ekki furða, þótt þeir eigi sjer kirkjugarða.

Hamarinn

Hamarinn – þjóðsagnakenndur staður álfa og huldufólks.

Að álfar geti ekki fremur en mennskir menn látið sjer nægja með afurðir landsins sjálfs, er svo sem auðvitað; enda var áður nefnt brauð og grjón hjá þeim; þeir verða því að hafa skip í förum, kaupmenn og verzlunarstaði. Um einn huldukaupmann er að minnsta kosti talað á Hofsós. Einu sinni viltist bóndi, sem ætlaði í kaupstaðinn, í hríð og kom að bæ, sem hann átti ekki von á; en þegar til kom, var þetta kaupmannssetur og búð; kaupmaðurinn var frakkaklæddur og tók bónda vel og bauð honum kaup við sig; reyndist þá svo, að þar vóru betri vörur og þar að auk miklu ódýrari en hjá Hofsóskaupmanninum. Kaupmaður hresti bónda með ágætu víni úr flösku og gaf í kaupbæti sjal handa konunni og brauðkökur handa krökkunum. Ekki er talað um kaffi, sykur og tóbak hjá álfum; en ef til vill hafa þeir getað drukkið te; að minsta kosti er talað um tekönnu, sem álfar hafi gefið.
Að lyktum skal þess getið, að álfar eiga mikil mök við menn og hænast jafnvel eptir því; sýnist það fara sífellt í vöxt, eptir því sem stundir líða. Margar fara sögur af ástum milli álfa og manna og eru þær með mörgu móti; hjónabönd og barneignir koma opt fyrir. Ástir álfa eru heitar og sterkar, tryggðin óbilandi; þeir deyja heldur og springa af harmi, ef þeir fá ekki að lifa með þeirri mennskri konu, sem þeir hafa fengið ást á. Og ætíð er það auðnuvegur að halda vinfengi við þá.

Álftanes

Álfasteinarnir á Álftanesi – Grásteinn fjær.

Á annan hátt kemur sambandið milli álfa og manna í ljós, og er það allmerkilegt atriði. Álfkonur leita opt til mennskra kvenna í barnsnauð, og eru þær þá sóttar í hólinn; þurfa þær ekki annað en fara höndum (trúin á læknishendur) um álfkonuna og verður hún þegar ljettari; hið síðasta stig í þessari trú er, að álf kona jóðsjúk þurfi ekki annað en leggjast í rúm mennskrar konu„ og á slíkt að hafa við borið árið 1770.

Grindavík

Álfhóll við Þorbjörn h/f í Grindavík.

Allur þess konar greiði og hjálp er launuð með ríkmannlegum gjöfum og þakklátsemi. Að síðustu skal þess getið, að álfar hænast mjög eptir börnum manna og leitast opt við að heilla þau eða lokka þau með sjer burt frá bænum, þegar enginn gætir þeirra (hvernig stendur á þeirri trú er mér með öllu óljóst). Ef börnin sýna mótþróa, svo að álfurinn nær þeim ekki, sinnist honum opt og slær þá barnið á kinnina, og fær það þá bláan blett á hana. Svona skýrðu menn þessa óskiljanlegu meðfæddu bletti, sem einstöku menn höfðu og hafa. Stundum vilja álfar ná í börnin með því að hafa skipti á þeim og álfabörnum (sem reyndar optast eru gamlir álfar — »átján barna faðir í Álfbeimum); skiptir þá svo um, að börn, sem áður vóru spök og gæf, verða nú óspök og láta öllum illum látum; það eru umskiptingarnir, sem allir þekkja.

Hamarinn

Hamarinn.

Svona var álfatrúin á Íslandi til skamms tíma og saga hennar í stuttu máli. Nú er hún að mestu eða öllu dauð á Íslandi; menntunin, skólarnir og framfarirnar hafa orðið henni að fjörlesti, og álfarnir hvílast nú í kirkjugörðum sínum og rísa aldrei upp aptur. »Allrar veraldar vegur víkur að sama púnkt«. »Íslenzkar þjóðsögur« er grafskriptin.
Þessi álfatrú er í mörgu lærdómsrík. Hún er nokkurs konar skáldskapur þjóðarinnar, en með öllu ósjálfráður; sveigist hún stöðugt meir og meir að því að verða mynd af íslenzku mann- og þjóðfjelagslífi; álfarnir verða æ mennskari og mennskari í öllu sína eðli og athæfi; því er það svo mikils vert, að geta fylgt henni, þrætt hana svo að segja fet fyrir fet. Og hún truflast ekki eða blandast af neinum utan að komandi eða útlendum áhrifum; frá því á 14. öld að minnsta kosti er hún alíslenzk og heldur áfram að vera það til endaloka. Heiðin trú fór — að vorri hyggju — sama veginn síðustu aldirnar, sem hún lifði; en þar eru nú margar skoðanir um, hvernig henni hafi verið varið, og er það mikið mein, að svo skuli vera. En um álfatrúna á Íslandi er enginn efi eða óvissa. Af allri hjátrú liðinna tíma er hún fegursti og ljúfasti þátturinn, og hún er sá sanni spegill, er þjóð vor getur sjeð sig sjálfa í, sitt líf og sinn hugsunarhátt.“ – Finnur Jónsson.

Heimild:
-Eimreiðin, 2. tbl. 01.07.1895, Álfatrúin á Íslandi, Finnur Jónsson, bls. 93-103.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2342
Álfar

Álftanes

Í þjóðsögunni um „Steinarnir á Álftanesi“ er getið um tvo staka steina sunnan og neðan við Grástein á Álftanesi. Grásteinn er þekktur af sögnum, en fáir hafa veitt framangreindum steinum sérstaka athygli. Sagan segir:

„Það vita allir að flestir hólar eða steinar sem nokkuð kveður að eru byggðir af fólki því sem álfar heita. Nú eru álfar misjafnir, sumir góðir, en sumir illir. Þeir góðu gjöra engum mein nema þeir sé áreittir af mönnum að fyrra bragði; hinir þar á móti vinna mörgum manni tjón.

Álftanes

Steinarnir tveir á Álftanesi – Grásteinn fjær.

Góðu álfarnir eru margir ef ei allir kristnir og halda vel trú sína. Mega þeir sín mikils og er það heill mikil að hjálpa álfum og koma sér vel við þá því þeir eru nokkurs konar andar eða verur. Flestir álfar eru alvarlegir og hafa óbeit á öllum gáska og gapaskap. Skyldi maður því forðast allt ósiðsamlegt nálægt bústöðum þeirra því annars getur hlotizt illt af því, því álfar reiðast illa. Þetta hefur og Álfa-Árni tekið fram. Hann varar menn við að ganga í steininn mikla sem stendur fyrir utan Hvamm í Hvítársíðu; þar búa illir álfar og alheiðnir.

Grásteinn

Grásteinn á Álftanesi.

Svo er t. a. m. um steina tvo á grandanum milli Brekku og Lambhúsa á Álftanesi. Þeir standa sunnanvert við götuna skammt fyrir neðan Grástein. Þessir steinar eru sjálfsagt álfabæir því ef maður hleypur af ásetningi á milli þeirra með gáska og hlátri eða ósiðsemi þá hlekkist þeim eitthvað] á sem það gjörði eða hann deyr jafnvel áður en langt um líður. Viti maður ei af þessum álögum á steinunum þá sakar ei þó milli þeirra sé gengið. Ei sakar heldur þó milli þeirra sé gengið með siðsemi og hæversku. Þegar Steindór Stefánsson heyrði sögu þessa þókti honum hún ótrúleg og gjörði hlátur að henni. Bar þá svo vel við að hann gekk frá kirkju þegar hann heyrði hana og hljóp hann þá milli steinanna með öllum illum látum. En álfar láta ei að sér hæða, Steindór drukknaði á SkerjafirÖi stuttu eftir. Við þetta minnkaði nú ekki trúin á steinunum því hefði Steindór ekki hlaupið á milli þeirra, þá hefði hann ekki drukknað. Veturinn 1844 tóku tveir piltar sig saman og ætluðu að reyna steinana; það vóru þeir Magnús Grímsson og Páll Jónsson. Þeir hlupu nú milli þeirra og gjörðu allt sitt til, en ekki hefur það á þeim séð; þeir lifa enn góðu lífi.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, Jón Árnason, bókaútgáfan Þjóðsaga, bls. 8-9.

Grásteinn

Grásteinn

Esjuberg

Inga Katrín D. Magnúsdóttir skrifaði um „Álagabletti og álfabyggðir – Bönn og boðskap“ í Smárit Byggðasafns Skagfirðinga XIX árið 2016:

Álagablettir

„Ætlunin var að taka saman upplýsingar um þekkta álagabletti, sem hafa gengið undir því heiti. Fljótlega kom í ljós að erfitt er að fjalla um álagabletti án þess að fjalla um huldufólksbyggðir, þar sem slíkir staðir eru oft nátengdir. Vandaðist þó málið, því svo virðist að ekki sé alltaf gerður greinarmunur á álagablettum, huldufólksbyggðum, dysjum/kumlum, haugum og féþúfum í frásögnum. Ekki er að því hlaupið að skilgreina og aðgreina sagnastaði á borð við þessa, því svo virðist sem munnleg hefð og skilningur fólks á stöðum, sem hafa yfir sér ákveðnar umgengnisreglur og varúð, sé ákaflega flæðandi og opin. Svo virðist sem heitið álagablettur hafi verið notað sem regnhlífarhugtak yfir hina ýmsu staði þar sem þurfti að hafa varann á. Helsta niðurstaðan er sú að [landsmenn] eru ríkir af þessum athyglisverða menningararfi og þurfa að gæta að umgengni sinni, því víða leynast faldir fjarsjóðir, álfar og álög.

Álfakirkja

Álfakirkja (fjárskjól) í Hraunum.

Örnefni fylgja einnig þessum lögmálum og vísa ekki einungis til nafns staðar, heldur þeirra hugmynda sem fólk hafði og hefur jafnvel enn um þann tiltekna stað. Örnefni geta verið heimild um skynjun fólks á tilteknu rými, þó svo að fyrirbærið sjálft sé e.t.v. horfið. Þetta gildir t.a.m. um tóftir og húsaleifar sem hafa horfið inn í landslagið en staðurinn dregur enn nafn af húsinu og hlutverki þess.
Örnefni og sögur lita landslagið og blása í það lífi með því að tengja það viðburðum. Sagnatengd örnefni geta þannig varðveitt minningar á milli kynslóða. Helgi Sigurðsson, einn upphafsmaður örnefnasöfnunar hér á landi, segir að örnefni séu: „nokkurskonar fornmenjar; því þau eru, flest öll, óhræranlegir, varanlegir fornir hlutir […], víðsvegar um landið, og tengdir við sögurnar, sumir með mannaverkum, sumir án þeirra, og flestir upphaflega verk náttúrunnar.“ Með því að veita landslaginu líf á þennan hátt geymast upplýsingar og fróðleikur um byggðina, átrúnað, þjóðhætti og ýmislegt fleira.
Örnefni geta verið stöðug og óbreytt í langan tíma, en þau geta einnig breyst hratt.

Þjóðsögur

Álfahöll

Álfahöll.

Íslendingar hafa löngum verið taldir mikil sagnaþjóð og stafar það af miklum og ríkulegum bókmenntaarfi. Fleiri eru þó fjársjóðirnir því oft gleymist í menningararfsumræðunni að til eru fjölmargar þjóðsögur, sagnir og ævintýri sem varðveittust í munnlegri geymd í gegnum aldirnar þar til þær voru skráðar.
Jón Árnason, þjóðsagnasafnari, sagði um þjóðsögurnar: „þessari sagnagrein hafa fáir gefið gaum til forna sem vera bar, og þeir sem lögðu nokkra rækt við hana hafa orðið fyrir aðkasti og þó eru slíkar sagnir jafnskilgetnar dætur þjóðarandans sem bóksögurnar sjálfar sem enginn hefur enn getað oflofað.“
Þjóðsögur eru margbrotnar og runnar af mörgum rótum „upp úr hversdagslífi manna og hugarburði, hugsun og hjátrú, gömlu og nýju.“ Þjóðsögur sem varðveittust í munnlegri geymd lutu öðrum lögmálum en bóksögur, þær slípuðust til og breyttust með tímanum og því samfélagi sem þær þrifust í.

Álfabyggð

Þjóðsögur.

Enginn veit nákvæmlega hversu gamlar þjóðsögur eru, sumar virðast eiga rætur í heiðni á meðan aðrar eru yngri. Þrátt fyrir að þjóðsögur væru vinsælt afþreyingarform meðal almennings voru þær ekki hátt skrifaðar meðal embættismanna og taldar til bábilja. Snemma bar á óbeit yfirvaldsins á því sem tengdist hinni svokölluðu hjátrú eða alþýðutrú. Prestar og aðrir embættismenn höfðu megnustu andúð á hvers kyns hindurvitnum og „kerlingabókum“ og var beinlínis embættisskylda þeirra að útrýma slíkum frásögnum. Andúð yfirvaldsins á þjóðsögum kom bersýnilega í ljós þegar söfnun og ritun munnmælasagna hófst á 19. öld, því margir sagnamenn og -konur vildu ekki láta nafn síns getið eða láta hafa slíkt efni eftir sér.

Álfaborgir

Álfaborgir.

Trúarlíf alþýðunnar hefur áður verið afar líflegt og fjölbreytt. Ekki aðeins viðhafðist hér ríkistrúin, kristni, heldur virðist fólk hafa trúað á ýmsar aðrar verur í sínu nánasta umhverfi, þar á meðal huldufólk. Álfatrúin hefur að öllum líkindum verið bæði sterk og útbreidd hér á landi, miðað við þann aragrúa af sögnum sem til eru af huldufólki. Sú trú hefur haldist lengi, e.t.v. ekki í sömu mynd en að einhverju leyti þó. Landslagið ber víða enn menjar þjóðtrúarinnar í örnefnum, þótt álfatrúin sé e.t.v. liðin undir lok að mestu.
Umgengnis- og siðareglur tengdar álagablettum Þjóðsögur mótuðust með þjóðinni sem ól þær og ýmislegt má lesa úr þeim um hugsunarhátt og venjur fólksins. Þær geta virkað sem einskonar vegvísir til þess samfélags sem þá var.

Kvöldvaka

Kvöldvaka.

Frásagnir voru í hávegum hafðar á kvöldvökum þegar fólk sat við vinnu í baðstofunni og virðast jafnvel hafa þjónað einhverskonar uppfræðsluhlutverki. Sögur geta verið svo miklu meira en dægradvöl og skemmtun, því þær bera með sér lærdóm og visku, fordóma, trú og hjátrú. Fólk segir iðulega þær sögur sem því finnst tilgangur með. Í mörgum sögum má finna siðaboðskap um það hvernig fólk á að haga sér í samfélagi við aðra menn og jafnvel aðrar verur, hvaða gildi og dygðir hafa átti í heiðri og ekki síður hvað taldist til synda sem mönnum var refsað fyrir.

Garðabær

Þorgarðsdys á Arnarnesi í Garðabæ.

Ákveðnar umgengnisreglur giltu um ýmsa staði í landslaginu. Sumum stöðum mátti ekki raska, suma mátti ekki slá og við aðra mátti ekki ærslast og stundum allt í senn. Vissum stöðum mátti ekki fara framhjá án þess að viðhafa sérstakt afhæfi og brytu menn gegn umgengnisreglum var voðinn vís.
Sumstaðar þurftu menn að fara með bæn eða vers eða leggja stein við staðinn og það átti sérstaklega við þegar menn áttu leið hjá í fyrsta sinn. Þetta átti t.d. við um dysjar.

Álagablettir

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkssteinn á mörkum Urriðakots.

Víða um land eru blettir þar sem sagt er að álög hvíli á. Þessa bletti var talið að ekki mætti slá eða raska og ef svo var gert var hætt við að menn yrðu fyrir tilfinnanlegum óhöppum.
Margar sagnir segja frá því að menn hafi brotið gegn bönnum og uppskorið ýmis óhöpp, skepnumissi eða veikindi í kjölfarið.
Jónas Jónasson segir frá álagablettum í Íslenskum þjóðháttum: „Álög á menn eru ekki mér vitanlega til í trú manna og hafa ekki verið til langs tíma önnur en þau, sem heitingar eða bölbænir kunna að hafa verkað. Að vísu hafa menn haft framundir þetta trú á því að ummæli álfa eða huldufólks bæði til góðs eða ills gegni mikils, og sama gildir um ummæli trölla. Einkum hvíla víða álög á ýmsum blettum, túnblettum eða engjateigum, sem ekki má slá, því ef það er gert koma einhver tilfinnanleg óhöpp fyrir þann, er það gerir. Blettir þessir (bannblettir) eru víða til á landi hér, og er enn víða varazt að slá þá. Slík álög liggja og á fleiru en slægjublettum, en minna ber á því.“

Álfaklettur

Við Merkurgötu stendur stór álfasteinn sem virðist standa úti á miðri götu. Sagan segir að til hafi staðið að brjóta hann niður árið 1937 en það hafi ekki tekist vegna hulduveru sem býr inni í steininum. Járnkarl sem átti að nota til að brjóta hann niður stendur enn upp úr steininum. Álfasteinninn í Merkurgötu er friðaður af Hafnarfjarðarbæ. Merkurgata er á milli Vesturgötu og Vesturbrautar, skammt frá bæjartorginu við verslunarmiðstöðina Fjörð.

Jónas virðist ekki endilega gera greinarmun á álögum álfa og annars konar álögum, því fá ummælin að fljóta með sem heimild um bæði.
Hugmyndir eru um að möguleg tengsl séu á milli álagabletta og miltisbrandsgrafa. Fornleifafræðingar hafa m.a. velt upp þeirri spurningu hvort álagablettir séu staðir þar sem miltisbrandssýktar skepnur hafi verið huslaðar. Að hrófla við sýktri jörð fylgir áhætta, bæði fyrir menn og skepnur. „Þetta hefur meðal annars verið rætt í sambandi við þessa svokölluðu álagabletti sem eru út um allt og við erum oft að grafa í. Það er talið að þetta séu í mörgum tilfellum staðir sem leifar af miltisbrandi geti leynst.
Þessar hugmyndir um álagablettina eru oft fólgnar í því að skepnur drepist af að bíta gras á þeim. Margir vilja halda því fram að það hafi gerst í raun og veru og hafi þá tengst miltisbrandi.“ Mjög athyglisvert væri ef þetta reynist vera satt, en enn eiga eftir að fara fram rannsóknir á sannleiksgildi þessara vangaveltna. Komi í ljós að hugmyndin eigi við rök að styðjast hafa sagnir um álagabletti hagnýtt gildi ekki síður en menningarlegt, þar sem fælingarmáttur álagablettasagna hefur hindrað að fólk hróflaði við stöðum þar sem miltisbrandur kann að leynast.

Veðurtengd álög
Munnmæli eru um að sláttur eða rask á sumum álagablettum geti valdið veðrabrigðum eða óveðri.

Híbýli huldufólks

Álfabyggð

Það er ástæða fyrir því að svæðið við Kópavogskirkju er látið í friði en þar er talið að sé blómleg álfabyggð. Sagan segir að þegar Borgarholtsbrautin var lögð hafi Kópavogsbúinn Sveinn Gamalíelsson varað álfana við áður en steinar voru sprengdir í burtu, álfarnir hafi þá fært sig. Álfarnir í Borgarholtinu virðast hrifnari af börnum en fullorðum og er sagt að þeir hafi átt á samskiptum við leikskólabörn.

Margar þjóðsögur lýsa því að fólki hafi orðið á þau mistök að gerast nærgöngult huldufólkshíbýlum. Huldufólki fannst að sér vegið ef mannfólkið var með ærslagang eða stundaði grjótkast við bústaði sína og að sjálfsögðu hefndist fólki fyrir hvers kyns jarðrask á eða við bústaði þeirra. Það sama gilti um heyslátt nærri híbýlum þeirra, því eins og mennirnir þurfti huldufólk að stunda heyskap. Ef menn ásældust bletti sem þóttu teljast til túna huldufólks, gat þeim hefnst illilega fyrir. Þessir blettir voru oft kallaðir álagablettir eða huldufólkstún og forðaðist fólk að slá eða raska þeim á nokkurn hátt. Slíkar reglur eru þó ekki alltaf nefndar í tengslum við híbýli huldufólks, sem vekur spurningar um hvort slíkar umgengnisreglur hafi ekki gilt allstaðar eða hvort þær hafi þótt svo sjálfsagðar að ekki hafi verið talið naðsynlegt að nefna þær.
Á sumum stöðum má sjá að menn hafa sett álfabyggðir og álagabletti í einhverskonar samhengi. Oft er fjallað um tengsl álagabletta og álfabyggða sem sjálfsagðan hlut. Fólk hefurnotað hugtakið álagablett sem einhverskonar yfirheiti fyrir álfabyggðir, hauga, dysjar, féþúfur og aðra álagatengda staði.

Grásteinar

Álfasteinn

Grásteinn á Áltanesi. Dæmi um stein, sem vegagerðamenn reyndu að kljúfa, en urðu frá að hverfa.

Svonefndir „Grásteinar“ eru oft nefndir í samhengi við huldufólksbyggðir en einnig án þeirra. Spurningar vakna um hvort þeir hafi verið taldir huldufólksbyggðir eða hvort lýsingin á steininum standi ein og sér. Í þjóðsagnasöfnum má finna sögur sem segja frá huldufólkshíbýlum í steinum.

Haugar og dysjar
Ekki var talið ráðlegt að raska haugum og dysjum og víða máttu menn ekki fara framhjá þeim án þess s.s. að leggja grjót við staðinn. Ef menn vanræktu það var voðinn vís. Haugum og dysjum fylgir oft sú sögn að þar hafi verið heygðir fornmenn eða -konur og þá vakna spurningar um hvort grjótkastið geti hafa stafað af jákvæðum hvötum, s.s. af virðingu við staðinn eða til þess að sporna gegn niðurbroti náttúruaflanna. Nokkrir staðir eru þó þekktir, þar sem grjótkast var form refsingar en ekki virðingar. Sem dæmi má nefna að sá sem fyrstur fór framhjá Steinkudys í Reykjavíkurlandi átti að kasta í dysina grjóti til vanvirðingar við konuna sem þar var dysjuð. Erfitt er að meta hvort slíkir varúðarstaðir teljist til álagabletta þar sem oft er óljóst hvað eigi að gerast, sé gengið gegn boðunum, en víða er gefið í skyn að brot gegn umgengnisreglum hafi í för með sér óhöpp.

Féþúfur

Féþúfur

Féþúfur eru víða.

Margir liðu skort hér á landi vegna fátæktar og erfiðra aðstæðna á öldum áður. Peningar voru fremur sjaldséðir meðal alþýðunnar. Sumir, sem voru svo heppnir að hafa fé á milli handanna, fengu á sig nirfilsorðspor. Níska var, ásamt græðgi, talin til höfuðsyndar og það endurspeglast í þjóðsögum. Til eru sagnir um að sumir hafi falið fé í jörðu til að koma því undan þeim sem ásældust það og þóttu þeir oft einstakir nískupúkar. Slíkar sagnir má bæði finna í tengslum við hauga og féþúfur.
Græðgi endurspeglast í sögnum sem segja frá því hvernig fólk reyndi að auðgast snarlega og afla fjár með öðrum leiðum en að vinna fyrir því. Þar á meðal eru aðgerðir sem fela í sér finnabrækur og flæðarmýs.

Sauðhóll

Samkvæmt fornleifaskrá Reykjavíkur er álfabyggð í hóli við blokkina Vesturberg 2–6 í Breiðholti. Hóllinn er rúmum tíu metrum frá blokkinni og er kallaður Sauðhóll. Blokkin átti að standa þar sem hóllinn er en það var talið óráðlegt vegna álfanna. Skammt frá er grunnskólinn Fellaskóli, hóllinn er mjög grýttur og segir sagan að kennarar við skólann hafi sagt börnunum að hann væri bannhelgur til að koma í veg fyrir að börn meiddu sig við leik.

Aðrir fóru, ef svo má segja, hefðbundnari leiðir og sóttust eftir því að grafa í hauga og féþúfur til að freista þess að hirða góssið. Þá var trú manna að heiðnir fornmenn hefðu látið heygja fjársjóði sína með sér og bera sumir haugar þess merki að reynt hafi verið að grafa í þá. Við slíka iðju hefur ætíð eitthvað komið uppá og þá helst það að fólki sýnist kirkjur eða bæjir brenna eða það sér stórflóð fyrir augum sér.
Féþúfum mátti ekki raska, ekki frekar en landamerkjavörðum, og þær geta í ákveðnum skilningi fallið undir álagabletti. Yfir þeim liggur meira en aðeins varúð.
Mönnum hefnist fyrir að raska álagablettum og urðu fyrir beinum skaða, oft skepnumissi eða óhöppum. Röskuðu menn féþúfum voru viðurlögin oft óraunveruleg þ.e. þeim sýndist bær eða kirkja brenna en bruni átti sér yfirleitt ekki stað. Slíkur „sýndarskaði“ er þó ekki algildur og víða var talað um raunverulegan skaða í kjölfar féþúfurasks. Raunverulegur bruni heyrir til undantekninga í kjölfar röskunar á féþúfu, nema ef fjallað er um staðinn sem álagablett, því allskyns óhöpp gátu komið upp ef þeim var raskað.

Ágirnd, níska og álög

Álffakirkja

Álfakirkja við Stakkavík í Selvogi.

Sögur þar sem menn grafa í féþúfur og hauga til að freista þess að ná í grafargóssið hafa yfirbragð varúðarsagna sem menn hafa nýtt til varúðar. Þær minna á að skjótfenginn gróði borgar sig sjaldnast og mönnum hefnist fyrir ágirnd, græðgi og nísku.
Fjölmargar sagnir eru til um að nágrannar hafa rifist yfir veiði í vötnum og hvað gerist ef menn aðstoða ekki nágranna sinn. Yfirleitt enda slíkar sögur með ósköpum.

Álfar

Hamarinn

Hafnarfjörður er sannkallaður álfabær. Fram kom í úttekt sjáandans Erlu Stefánsdóttur, sem hún gerði fyrir Hafnarfjarðarbæ á tíunda áratug síðustu aldar, að þar sé merkilegasta og stærsta álfabyggðin í bænum. Ein elsta frásögnin af staðnum er um Gunnar Bjarnason, bónda í Hamarskoti, sem heyrði söng frá Hamrinum að kvöldi til um jól. Gunnar gekk á hljóðið og fann dyr. Fór hann inn í híbýli álfanna en lét sig fljótt hverfa þegar söngnum lauk. Hamarinn er fyrir ofan Lækinn í Hafnarfirði, við hliðina á Flensborgarskólanum.

Vegna þess hve erfitt er að aðgreina álagabletti og huldufólksbyggðir er rétt að skoða betur hvaða hugmyndir fólk hafði um huldufólk. Heitin álfar og huldufólk virðast hafa verið notuð sem samheiti yfir sömu verurnar. Þó lítur út fyrir að hugtakið álfar hafi fyrir sumum verið hálfgert níðyrði. Oft er sagt í neikvæðri merkingu að einhver sé álfur eða komi fyrir eins og álfur út úr hól, og átt við að viðkomandi viti ekki neitt eða sé verulega utanvið sig. Álfaheitið var því stundum tengt hjákátlegu fólki. Kona ein er sögð hafa atyrt dreng fyrir óæskilegt athæfi og kallaði hún hann álf. Þá á huldukona að hafa sagt: „Við huldufólkið erum ekki meiri álfar en þið mennirnir.“
Alla jafna þótti ekki ráðlegt að styggja huldufólk með uppnefningum og aðeins var það kallað álfar ef engin neikvæð merking var lögð í heitið. Þetta hefur þó sannarlega ekki verið algilt og víðast virðast heitin hafa verið notuð jöfnum höndum.

Ófeigskirkja

Ófeigskirkja, meint álfakirkja í Garðahrauni, var flutt um set vegna vegagerðar.

Ljóst er að þegar við tölum um álfa eða huldufólk í dag, leggjum við ekki sama skilning í fyrirbærið og gert var í fornnorrænni trú, og það eru ekki sömu verur og birtast t.a.m. í Eddukvæðunum. Álfar í norrænni trú virðast hafa verið guðlegar verur og virðast þeir hafa haft sömu stöðu og goð og jötnar. Á meðan Ísland var að byggjast virðast menn hafa notað fremur orðið náttúruvættir í stað álfa eða huldufólks. Álfatrúin hélst langt fram á 20. öld, en Jónas Jónasson frá Hrafnagili nefnir í bókinni Íslenskir þjóðhættir að „mennsk stúlka trúlofaðist huldumanni úti í Fljótum nú fyrir fám árum (nokkru eftir 1900)“.
Þá segjast margir núlifandi menn og konur hafa komist í tæri við huldufólk, dreymt það eða séð. Segja má að enn lifi í huldufólkstrúarglæðum.

Huldufólk í „lífi og leik“

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll stóð suður af gamla Arnarnesbænum en er nú inni á einkalóð. Sagt er að á honum hvíli álög og ef hann yrði sleginn þá myndu bestu mjólkurkýrnar í fjósinu falla niður dauðar. Þrátt fyrir að fjósið og kýrnar séu löngu farnar af Arnarnesinu þá er hann enn vaxinn háum stráum. Sagan segir að breskur sjáandi hafi skoðað hólinn að beiðni íbúa og hafi átt erfitt með svefn eftir að hafa fundið inngang álfanna inn í hólinn. Eins og áður segir er hóllinn á einkalóð og því líklegast best að skoða hann úr fjarlægð, þá einnig til að forðast álög og svefntruflanir.

Þjóðtrú er lifandi afl og hún breytist í tímans rás. Þannig má segja að þjóðtrú seinni alda beri ekki eins mikinn goðablæ og sagnir fyrri alda bera vitni um. Álfarnir í seinni tíð eru í flestu afar líkir mannfólkinu, en þó ósýnilegir mönnum öðrum en skyggnum og þeim sem þeir vilja birtast. Sumir sögðu eina sjáanlega mun á huldufólki og mönnum hafi verið sá að þá vantaði miðnesið á nefi. Aðrir sögðu þá hafa bungu í stað lautar neðan við miðnesið og niður að efri vör. Að gáfum þótti huldufólk bera af mönnum, sem og í andlegum málum.
„Álfar eru að sumu leyti fullkomnari en menn, en að sumu leyti ekki og jafnvel ófullkomnari og þrá því oft samband við mennina og samvistir við þá.“
Um híbýli álfa er sagt að þeir búi hvarvetna, ekki aðeins í klettum og hólum landsins, heldur einnig í lofti og sjó (og eru þá kallaðir marbendlar). Bústaðir þeirra þóttu oft mikilfenglegir og skrautlegir en einnig voru kotbændur í hulduheimi.
Af lýsingum að dæma þótti lítill munur á lifnaðarháttum huldufólks og manna. Huldufólk fæddist og dó, en taldist langlífara en menn. Dægradvöl þeirra var sú hin sama og í mannheimum, þeir stunduðu sinn búskap, borðuðu, drukku og skemmtu sér með hljóðfæraslætti og dansi. Eins og mannfólkið hélt huldufólkið fardaga, en þá höfðu þeir bústaðaskipti, venjulega um jóla- og nýársleitið. Búfénaður þeirra, kýr og kindur var talinn vænni en manna.

Miltisbrandur

Miltisbrandshörsl.

Margar sagnir eru til um að fólk sá kýr og kindur sem ekki tilheyrðu mannheimum og heyrði hljóð, bæði strokk- og rokkhljóð úr steinum og klettum, sem bendir til þess að vinna innan heimila huldufólks hafi verið eins háttað og í mannheimum. Almenn trú gerði ráð fyrir góðu og illu huldufólki. Góða huldufólkið var iðulega kristið, sótti kirkjur og stundaði helgisiði og vitna örnefni víða enn til þess. Þeir illu voru sagðir ókristnir og gerðu mönnum grikk og tjón.
Alla jafna var huldufólk alvarlegt og lítið fyrir glens og gáska í daglegu lífi, þrátt fyrir veglegar veislur á hátíðardögum. Margar sögur eru til af því að menn hafa gerst of nærgöngulir við híbýli álfa og hefnst fyrir. Þetta á bæði við börn og fullorðna en þó virðist huldufólk hafa fyrirgefið þeim er ekki vissu að um huldubústað væri að ræða. Til þess var ætlast að fólk sýndi huldufólksbústöðum virðingu og aðgát, eins og um mannabústað væri að ræða. Huldufólk reiddist ef menn sýndu græðgi og ásældust það sem huldufólkið taldi sig sjálft eiga. Oft lét huldufólkið þá vita af sér og varaði mannfólkið við, en sæi fólk ekki að sér var hefndin yfirvofandi.“

Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga XIX; Álagablettir og álfabyggðir – Bönn og boðskapur. Inga Katrín D. Magnúsdóttir 2016.
-https://www.glaumbaer.is/static/files/Gagnabanki/xix-alagablettir-netutgafa.pdf

Álfar

Íslenskir álfar eru ekki eins og þeir alþjóðlegu heldur eins konar huldufólk. En nú á dögum gera Íslendingar ekki mikinn greinamun á álfum og huldufólki. Álfar þessir búa mikið í þjóðsögum og þar er þeim lýst sem mannlegum verum sem iðka búskap sinn eins og mennirnir en kjósa að vera látnir í friði. Það mun þá vera illt verk að styggja álfa og það gert með því að skemma búskap þeirra eða slá svokallaða álagabletti. Alla jafnan segir frá því í þjóðsögum að álfar þessir lifi yfirleitt í klettum, grjóti eða steinum.