Tag Archive for: Þorbjarnafell

Reykjanes

Jón Jónsson, jarðfræðingur okkar allra tíma, skrifaði í Náttúrufræðinginn 1974 um „Sundhnúkahraun við Grindavík„, hraunið norðaustan við Þorbjörn (Þorbjarnarfell):

Inngangur.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur.
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um. Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð. Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

Gígaröðin.
Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir (1. mynd), sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Ur ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn.

Hagafell

Gígur og hrauntröð sunnan Hagafells.

Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Sundhnúkur

Sundhnúkur, á miðri mynd, ofan Grindavíkur.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands.
Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Hraunssvæðið norðan Grindavíkur.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.
Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum (P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna.

Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk.
Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálfu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

Kálffell

Kálffell.

Fremur lítið hraun hefur runnið um gígaröðina eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð.
Hraunið er venjulegt feldspat-pyroxen basalthraun. Í því er mjög lítið um ólívín en allmikið um tiltölulega stóra feldspatkristalla (xenokrist.).
Samsetning hraunsins er þessi:
-Plagioklas 43,59%
-Pyroxen 44,98%
-Olívín 0,68%
-Málmur 10,75%
-Plagioklas-dílar eru innan við 1% og sömuleiðis pyroxen-dílar.

Þeir síðarnefndu eru oft með svonefndri „stundaglaslögun“, en það einkennir titanágit. Hnyðlingar koma fyrir í þessu hrauni, og hafa fundizt í vestasta gígnum sjálfum. Ekki hefur tekizt að ná sýni af þeim, en ljóst er, að þeir eru af svipaðri gerð og þeir, er finnast víða annars staðar á Reykjanesskaga. Hér virðast þeir vera úr olívíngabbrói. Aðeins einstaka olívín-dílar koma fyrir í hrauninu og þá allstórir.

Eldri gígaröð.
Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir. Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir.

Vatnsheiði

Í Vatnsheiði – gígur.

Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.

Hvenær rann hraunið?

Grindavíkurvegur

Gígar sunnan Moshóls sunnan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur.
Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti.

Þorbjörn

Þorbjörn og nágrenni

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.

Svartsengi

Orkustöðin við Svartsengi.

Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mikil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða.

Illahraun

Gígur í Illahrauni, vestan Bláa lónsins – Rauðhóll.

Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.

Sjá fleiri upplýsingar á http://eldgos.is/reykjanesskagi/

Einnig HÉR og HÉR.

Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn-3.-4. tölublað (01.02.1974), bls. 145-153.

Tilvísanir:
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 2002. Jarðfræði Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Þingvallavatn. Undraheimur í mótun. Mál og menning, Reykjavík, 40-63.
-Sinton og fleiri, 2005. Postglacial eruptive history of the Western Volcanic Zone, Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems, 6, Q12009; doi: 10.1029/2005GC001021.
-Jón Jónsson, 1986b. Hraunið við Lambagjá. Náttúrufræðingurinn, 56, 209-212.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988b. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull, 38, 71-87.
-Jón Jónsson, 1973. Sundhnúkahraun við Grindavík. Náttúrufræðingurinn, 43, 145-153.
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1997. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 2. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Jón Jónsson, 1983a. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga.Náttúrufræðingurinn, 52, 127-139.
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Sigmundur Einarsson, munnlegar upplýsingar.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988b. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull, 38, 71-87.
-Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson, 1989. Aldur Arnarseturshrauns á Reykjanesskaga. Fjölrit Nátturufræðistofnunar, 8. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Gálgaklettar

Gengið var um hraunin ofan Grindavíkur, þ.e. Illahraun, Arnarseturshraun, Skógfellshraun og Dalahraun. Síðastnefnda hraunið er um 3000 ára gamalt, en Arnarseturshraun er yngst, mun hafa runnið á sögulegum tíma, eða árið 1226.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Gangan hófst við vestanvert Þorbjarnarfell, við svonefndan Gyltustíg. Stígurinn er náttúruleg læna upp fellið vestast í því sunnanverðu. Annars er Þorbjarnarfell í daglegu tali nefnt Þorbjörn. Það er stakt móbergsfell (243 m.y.s). Af því er gott útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Sá misskilningur hefur komist á spjöld að á Þorbjarnarfelli hafi farist í flugslysi í síðari heimstyrjöldinni C. Andrews, yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafssvæðinu, ásamt fleiri háttsettum foringjum.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Brak úr vélinni er í Kastinu utan í Fagradalsfjalli. Aðeins einn maður komst lífs af úr þessu flugslysi og beið hann björgunar á annan sólarhring. Á fellinu hafði herinn hins vegar aðstöðu á styrjaldarárunum og má þar sjá leifar hennar, s.s. grunna, hleðslur, ofn og slóða.

Fyrrnefnd þjóðsaga segir að „skammt ofan við byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, oftast nefnt Þorbjörn.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Í toppi þess er hamragjá sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar sem lögðust á fé Grindvíkinga.
Eigi sáu byggðamenn færi á að vinna þá fyrr en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri sem er á Baðsvöllum, norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra meðan þeir voru í baðinu og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan sem fætur toguðu til bæja og sagði hvernig komið væri.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Það fór eins og hann ætlaðist til: þjófunum varð tafsamt að komast í fötin og ekki fóru þeir í önnur föt en nærklæðin og eltu hann síðan en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Nú þustu byggðamenn að þeim og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonur varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“ Um vettvang sögunnar, þ.e. Baðsvelli og minjarnar á þeim, laugina og Gálgakletta, er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Gengið var vestur með suðurkanti Skipsstígshrauns yfir á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Þarna vestan við Lágafellið hefur stígurinn verið lagaður á um 300 metra kafla. Þetta hefur sennilega verið á fyrstu árum 20. aldar er gera átti stíginn vagnfæran. Svo er að sjá að hætt hafi verið við framkvæmdina, en framkvæmdir við gerð gamla Grindavíkurvegarins frá Stapanum, að Seltjörn, um Skógfellshraun og Arnarseturshraun, um Selháls og niður í Grindavík hófust árið 1913.
Við Skipsstíginn er Dýrfinnuhellir, hraunskúti með hleðslum fyrir. Sagan segir að þangað hafi samnefnd kona úr Grindavík flúið með börn sín eftir komu Tyrkjanna og dvalið þar um sinn.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Skipsstíg var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan beygt af honum til austurs. Gengið var yfir Illahraun að Sýlingafelli (Svartsengisfelli). Hraunið er að vísu illt yfirferðar næst Þorbirni, en þegar komið er inn í það er auðvelt að komast í gegn. Vestan Grindavíkurvegarins var komið að hlöðnu hringlaga gerði, ein af mörgum minjum eftir vegagerðina forðum.

Tvö hlaðin hús eru í lægð handan vegarins. Inni í krika Svartsengis liggur stígur vegagerðarmanna inn á Arnarseturshraunið og áleiðis upp á Gíghæð, þar sem fyrir eru meginbúðir þeirra er enn sjást.  Svartsengi er talið hafa verið nefnt eftir hrútnum Svarti, sem þar mun hafa unað sér vel.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Þegar komið var að Arnarsetri var genginn stígur austur yfir hraunið, að Stóra-Skógfelli. Þar var beygt til suðurs og Skógfellastígnum fylgt í gegnum Dalahraun að Eldborgunum og Sundhnúkunum. Stígurinn, sem er gömul þjóðleið milli Voga og Grindavíkur, er vel klappaður í bergið þar sem hann liggur á milli Skógfellanna. Sundhnúkarnir eru falleg gígaröð utan í Vatnsheiði, en þaðan mun meginhraunið, sem Grindavík stendur á, vera komið, um 2400 ára gamalt. Eldborgirnar eru enn ósnertar og sýna vel hvernig gos á sprungureinum hefur myndast, en þau eru allnokkur á Reykjanesskaganum.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Gengið var upp með Hagafelli og að Gálgaklettum þeim, sem þjófarnir forðum eiga að hafa endað lífdaga sína. Haldið var niður eftir Selhálsi þar sem Hópsselið er undir hlíðinni og síðan gamla Grindavíkurveginum fylgt suður með austanverðu Þorbjarnarfelli um Klifhólahraun að upphafsstað. Suður hraunið liggur greinilega gömul gata áleiðis að Járngerðarstöðum, en bæirnir þar höfðu m.a. í seli á Baðsvöllum áður en selstaðan var færð upp á Selsvelli, auk þess sem aðrar nytjar hafa eflaust verið hafðar af völlunum fyrrum.

Heimild um Þorbjarnarfell:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_thorbjarnarfell.htm
mÞjóðsagan er af:
-http://www.hs.is/fyrirtaekid/addragandi.asp

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

Þorbjarnarfell

Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn merkilegt fyrirbæri. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði.

Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Eftir Atlantshafshryggnum ganga sprungureinar frá SV til NA. Á þeim eru nokkur stórbrotin misgengi og gjár. Eitt stórbrotnasta misgengið gengur þvert í gegnum Þorbjarnarfell ofan við Grindavík.
Í daglegu tali er Þorbjarnarfell nefnt Þorbjörn. Tvennum sögum fer af nafngiftinni. Fellið er stakt móbergsfell (243 m.y.s) og varð til að hluta á fyrra ísaldarskeiði og hinu síðasta. Það er því með eldri fjöllum, eða fellum, á Reykjanesskaganum. Af fellinu er mikið útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Norðvestan við fellið er mikil jarðhitamyndun (Bláa lónið og Svartsengi) og norður og norðaustur af því er einnig allvíðáttumikið jarðhitasvæði.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Þægilegt er að ganga upp á Þorbjörn eftir vegi, sem liggur upp á fellið að austanverðu eða ganga upp svonefndan Gyltustíg á suðvesturhorni þess, frá veginum um Lágafell.
Uppi á Þorbjarnarfelli er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Voru þeir síðast unnir með prettum að því er sagan segir.
Þjóðsagan segir frá 15 útilegumönnum, sem sagt er að hafi hafst við í Þjófagjá og stolið fé Grindvíkinga.
Þjófagjá er sigdalur eða sprungur sem kljúfa Þorbjarnarfell að endilöngu. Baðsvellir eru grasi grónir vellir norður af Þorbjarnarfelli þar sem gróðursett hafa verið tré á undanförnum árum. Skammt norður af Baðsvöllum er orkuver Hitaveitu Suðurnesja úti í Illahrauni, kennt við Svartsengi. Illahraun er frá sögulegum tíma, sennilega frá 13. öld. Varla er hægt að fara hjá Svartsengi án þess að fara í bað í Bláa lóninu.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Frá Baðsvöllum liggur leiðin upp að heitavatnsgeyminum í skarðinu á milli Þorbjarnarfells og Hagafells. Þegar þangað er komið, er beygt í austur, farið yfir Grindavíkurveginn og upp á Hagafell. Leiðin liggur austur með hamravegg, sem er misgengi sem klýfur fellið, en undir hamraveggnum eru Gálgaklettar.
Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.
Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.
Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.
Á stríðsárunum var lítill kampur uppi á Þorbirni. Hlaðinn arinn var í bragga offiséranna og sjást leifar hans. Nú stendur hann þarna sem tákn um hið liðna. Koks má enn finna við búðirnar.
Gott er að ganga norðan af Þorbirni og koma niður á Baðsvelli þar sem sel Járngerðinga voru. Enn má sjá þar selminjarnar. Þaðan er stutt yfir í Bláa lónið – til baða.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Gyltustígur

Gyltustígur.

Þorbjarnarfell

Jón Tómasson skrifar um Grindavík í Faxa árið 1945 undir fyrirsögninni „Hvað er að gerast þar?“. Í upphafi greinarinnar er m.a. fjallað um einkennisfjall Grindvíkinga; Þorbjörn (Þorbjarnarfell):
thorbjorn-991„Hvað bíður manns bak við þetta gráa og úfna apalhraun? hugsar sjálfsagt margur, sem rennur fyrsta sinni inn í hið háa og hrikalega Grindavíkurhraun fyrir sunnan Seltjörn. Og ef það væri ekki þessi mjói mjúki vegur, sem brotinn var gegnum torfærurnar fyrir um 30 árum, og sem telja má allgóðan, þá væri vegfarandi ekki miklu betur settur heldur en þótt hann stæði í Ódáðahrauni. Þess má geta, að á meðan umferð var hófleg um þennan veg, var hann talinn með allra beztu vegum landsins.
Þegar komið er suður á Selháls, er meirihluti hraunsins að baki, Svartsengi og Hagafell ávöl og mild að frádregnum Gálgaklettum til vinstri — þar sem útilegumenn voru hegndir áður fyrr — og Þorbjörn með björtum og djörfum línum til hægri. Þó að Þorbjörn sé hvorki stór né hrikalegur, er hann elskaður og virtur af Grindvíkingum. Hann er fagur og heillandi. Hann býr yfir einhverju duldu og hann hefur laðað til sín frá því að hann var fyrst augum litinn. Útsýni af honum er ágætt, enda hefur hann hjálpað mörgu Grindvísku ungmenni til að víkka sjóndeildarhring sinn, og sýnt þeim fyrsta sinni Eyjafjallajökul, Vestamannaeyjar, Eldey og allt Reykjanes, Esjuna og Reykjavík, Snæfellsjökul og svo allt þarna á milli.

thjofagja-loftmynd

Og saga Þorbjörns er án efa einhver sú merkilegasta, sem nokkurt fjall á. En því miður kann ég ekki mikið af henni. Jarðfræðingarnir eiga sjálfsagt eftir að segja okkur eitthvað af henni. Öllum eru þó kunnug tröllin, sem til voru í gamla daga. Eitthvert þeirra hefur orðið ógurlega reitt við Þorbjörn litla og ætlað að sökkva honum í sjó eða kljúfa bann í herðar niður, og hann ber þess menjar ennþá.
Þjófagjá er glöggt merki þess, en hún gengur frá toppi og langt inn í iður fjallsins. Þegar maður er þar niðri, finnst manni maður vera svo nærri þessu óþekkta og furðulega, sem inni fyrir býr, að maður stendur á öndinni og væntir þess að heyra búktal jarðarinnar eða einhverjar annarlegar raddir, sem fræði menn um undur jarðarinnar. Og þó að maður standi þar á snjófönn, — en snjór er þar stundum langt fram eftir sumri, jafnvel allt árið, — þá finnst manni allt í einu sem hiti eða jafnvel sterkur straumur þjóti um mann, er maður hugsar til þess að sennilega hafi skorpa jarðarinnar opnast þarna endur fyrir löngu ag út hafi runnið glóandi grjót, sem eytt hefur gróðurlöndum Reykjanesskagans og orðið síðan að þessu erfiða hrauni.
Útilegumenn og þjófar héldu til í Þjófagjá og gerðu bændUm í nágrenninu búsifjar miklar. Þetta var, — en nú er ÞorbjÖrn ekki lengur þjófabæli og í margar aldir hefur verið hljótt um tröllin, ísöld og Gos, sem á’tt hafa sinn þátt í því, að Þorþjörn er einmitt svona. Sennilega á Þorbjörn vinsældir sínar að einhverju leyti því að þakka, að hann skýlir Grindvíkingum fyrir norðangjóstinum og dregur til sín hitageisla sólarinnar, og veldur því að Grindavíkin er hlýjasta og vinalegasta byggðarlag Suðurnesja.“

Heimild:
-Faxi, 5. árg. 1945, 8. tbl., bls. 1.

Þorbjörn

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).

Þorbjörn

Gengið var frá Húsatóptum (-tóftum, -tóttum) yfir að Þorbjarnarfelli um hinn forna Árnastíg og hinn nýja Reykjaveg. Á leiðinni var staðnæmst við ýmislegt, sem fyrir augu bar, en það er reyndar fjölmargt á ekki lengri leið. Hlélaust tekur

Húsatóftir

Nónvörður.

gangan u.þ.b. 2 klst, en með því að staldra við og skoða það er markverðast getur talist, s.s. jarðfræðifyrirbæri, jurtir, þjóðsögukennda staði og sjáanlegar minjar, getur ferðin tekið nálægt 4 klst.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður, sem hverfið dregur nafn sitt af. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847). Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta. Alls má sjá leifar a.m.k. 18 býla í Staðarhverfi.

Húsatóftir

Húsatóftir – fikibyrgi.

Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“
„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Á ÁrnastígEinnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“. Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við nýja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.
„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.
Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.
Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.
Úr flugvélinniVerslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á. Skipin lágu milli hans og Barlestarskers.  Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð). Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur.
Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kau

Árnastígur

Árnastígur.

psigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í Grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim erumörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir srjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum. Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá.
Varða við ÁrnastígSyðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (.þe.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.
Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í

Árnastígur

Refagildra við Árnastíg.

Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Þegar lagt var af stað upp með golfvellinum á Húsatóptum mátti sjá Þorbjarnarfellið (243 m.y.s.) í norðaustri, en það var ágætt kennileiti alla gönguna.
Fyrsta varðan (nú sýnileg) á Árnastíg er skammt ofan við golfvöllinn. Hægra megin við hana liðast gamla gatan um móann áleiðis að lágri hraunbrekku á vinstri hönd. Lengra til hægri eru þrjár hlaðnar refagildrur. Búið er að rjúfa þakið á einni þeirra, en hinar tvær hafa fengið að halda sér eins og þær voru upphaflega byggðar.
Skriðdrekaslóði liggur víða ofan á hinni gömlu þjóðleið Árnastígs. Síðan hefur honum verið haldið við með akstri annarra ökutækja. Þó má sumsstaðar sjá gömlu götuna til hliðar við slóðann. Á a.m.k. tveimur stöðum eru hlaðnar brýr á henni.
Árnastígur liggur yfir mjóa apalhrauntungu úr Sundvörðuhrauni og inn á slétt helluhraun Eldvarpahrauns.Fallegar hraunæðar, hraunreipi, katlar og önnur fyrirbæri varða leiðina upp fyrir suðaustanverð Sundvörðuhraunið. Sundvörðuna, hár hraunstöpull í austanverðu hrauninu, var mið sjómanna fyrrum, en vestan við Stekkjartúnskamp við Arfadalsvík eru B17klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni. Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand [Sundvörðuna í Sundvöðruhrauni] í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þegar komið var að gatnamótum ofan við sauðfjárvarnargirðingu þótti ástæða til að staldra við. Þvergatan til vinstri nefndist Brauðstígur. Hann fór fólk frá Húsatóftum uppí Eldvörp til að baka brauð við hverahitann.

Eldvörp

Eldvörp – „Tyrkja“byrgin svonefndu; undanskot Grindavíkurbænda!?

Skammt frá stígnum eru nokkur hlaðin smáhús, svonefnd „Tyrkjabyrgi“. Þau eru í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, auk hlaðinnar refagildru, en tvær tóftanna eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstór en stærsta rústin er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Þar sem Árnastígur beygir til norðurs inn á hraunhelluna að Eldvörpum eru nokkrir hraunhólar, Vegamótahólar. Þar greinist leiðin, annars vegar að Húsatóptum um Árnastíg og hins vegar að Járngerðarstöðum um Járngerðarstaðastíg. Mosinn er horfinn af þessu svæði, en hann brann um ´56 þegar brottflognir Bandaríkjamenn voru þarna við heræfingar.
Skammt norðar má sjá veg í hrauninu, sem endar skammt norðar. Þar má sjá nokkurt brak. Hann var gerður til að bjarga leifum af flugvél, sem varð eldsneytislaus og lenti á hrauninu. Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið væntanlega brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943.
GönguleiðinÞá var snúið spölkorn til baka og vent til vinstri, inn á svonefndan Reykjaveg. Í fljótu bragði virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur og illur yfirferðar og því ekki vel fallinn til gönguferða. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngufólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl ekki síður en gróskumikið gróðurlendi þótt á annan hátt sé. Víða leynast fallegar gróðurvinjar og mosinn í hraununum er sérkennilegur. Þar eru líka einstök náttúrufyrirbrigði eins og hraunsprungur og misgengi, eldgígar, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hellar og fuglabjörg. Þótt fjölbreytt mannlíf hafi aldrei verið á þeim slóðum sem Reykjavegurinn liggur um eru samt til sögur og minjar um mannlíf á þeirri leið. Gamlar götur líkar Árnastíg liggja víða um Reykjanesskagann og skera eða tengjast Reykjaveginum á mörgum stöðum.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum mikla sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 13. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir tólf til fimmtán þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Gyltustígur

Gyltustígur.

Reykjavegurinn sem liggur um endilangan Reykjanesskagann var stikaður sumarið 1996. Hann liggur frá Reykjanesi að Nesjavöllum og er um 130 km langur eða meira en tvöföld vegalengd Laugavegarins margfræga á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víða hafa myndast gönguslóðar á leiðinni, sérstaklega þar sem hún liggur um mosavaxin hraun. Á öðrum stöðum liggur leiðin um gamlar götur sem öðlast hafa nýjan tilgang. Einn helsti kostur Reykjavegarins auk þess að vera mjög skemmtileg gönguleið, er hvað hann er nálægt byggð og aðkoma að honum þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hann liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks sem vill vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins.
Við þennan hluta Reykjavegar má t.d. sjá hraunæðar sem burnirótin hefur náð að nýta sér sem skjól, líkt og tófugrasið.
Þegar komið var inn á Skipsstíg, forna götu er lá milli Járngerðarstaða og Njarðvíkur, var haldið að Dýrfinnuhelli. Þar segir sagan að samnefnd kona hafi dvalið með börn sín eftir að hafa flúið undan Tyrkjunum er herjuðu á Grindavík að morgni 20. júní 1627 Tyrkjasagan.
Gengið var til austurs um grasgrundir milli Illahraunsbrúnarinnar og Lágafells un staðnæmst var neðan við Gyltustíg í Þorbjarnarfelli.
Frábært veður.

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.