Þorbjarnarfell

Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn merkilegt fyrirbæri. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði.

Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Eftir Atlantshafshryggnum ganga sprungureinar frá SV til NA. Á þeim eru nokkur stórbrotin misgengi og gjár. Eitt stórbrotnasta misgengið gengur þvert í gegnum Þorbjarnarfell ofan við Grindavík.
Í daglegu tali er Þorbjarnarfell nefnt Þorbjörn. Tvennum sögum fer af nafngiftinni. Fellið er stakt móbergsfell (243 m.y.s) og varð til að hluta á fyrra ísaldarskeiði og hinu síðasta. Það er því með eldri fjöllum, eða fellum, á Reykjanesskaganum. Af fellinu er mikið útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Norðvestan við fellið er mikil jarðhitamyndun (Bláa lónið og Svartsengi) og norður og norðaustur af því er einnig allvíðáttumikið jarðhitasvæði.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Þægilegt er að ganga upp á Þorbjörn eftir vegi, sem liggur upp á fellið að austanverðu eða ganga upp svonefndan Gyltustíg á suðvesturhorni þess, frá veginum um Lágafell.
Uppi á Þorbjarnarfelli er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Voru þeir síðast unnir með prettum að því er sagan segir.
Þjóðsagan segir frá 15 útilegumönnum, sem sagt er að hafi hafst við í Þjófagjá og stolið fé Grindvíkinga.
Þjófagjá er sigdalur eða sprungur sem kljúfa Þorbjarnarfell að endilöngu. Baðsvellir eru grasi grónir vellir norður af Þorbjarnarfelli þar sem gróðursett hafa verið tré á undanförnum árum. Skammt norður af Baðsvöllum er orkuver Hitaveitu Suðurnesja úti í Illahrauni, kennt við Svartsengi. Illahraun er frá sögulegum tíma, sennilega frá 13. öld. Varla er hægt að fara hjá Svartsengi án þess að fara í bað í Bláa lóninu.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Frá Baðsvöllum liggur leiðin upp að heitavatnsgeyminum í skarðinu á milli Þorbjarnarfells og Hagafells. Þegar þangað er komið, er beygt í austur, farið yfir Grindavíkurveginn og upp á Hagafell. Leiðin liggur austur með hamravegg, sem er misgengi sem klýfur fellið, en undir hamraveggnum eru Gálgaklettar.
Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.
Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.
Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.
Á stríðsárunum var lítill kampur uppi á Þorbirni. Hlaðinn arinn var í bragga offiséranna og sjást leifar hans. Nú stendur hann þarna sem tákn um hið liðna. Koks má enn finna við búðirnar.
Gott er að ganga norðan af Þorbirni og koma niður á Baðsvelli þar sem sel Járngerðinga voru. Enn má sjá þar selminjarnar. Þaðan er stutt yfir í Bláa lónið – til baða.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Gyltustígur

Gyltustígur.