Tag Archive for: Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg

 Tilkomumikil heilleg hringlaga fjárborg stendur á hrauntungu sunnan til í vesturjarðri Brunans (Nýjahrauns/Kapelluhrauns), fast neðan við svonefndar Brundtorfur. Borgin er orðin mosavaxin og fellur því nokkuð vel inn í landslagið umhverfis. Kunnugt minjaleitarfólk á þó auðvelt með að koma auga á leifarnar. Ekki eru allmörg ár síðan hleðslurnar voru alveg heilar, en vegna seinni tíðar ágangs hefur norðvesturhluti veggjarins hrunið inn að hluta. Hraukar nálægt FjárborginniEinhverjum hefur þótt við hæfi að ganga á veggnum með fyrrgreindum afleiðingum – og er það miður því þarna er bæði um einstaklega fallegt mannvirki að ræða frá fyrri tíð og auk þess heillegt og áþreifanlegt minnismerki um fyrri tíma búskaparhætti.
Undirlag Fjárborgarinnar er blandhraun, sem rann úr alllangri gígaröð árið 1151, þeirri sömu og gaf af sér Ögmundarhraun og hluta Afstapahrauns. Uppruni þessa hluta hraunsins er úr Rauðhól undir Vatnsskarði (sjá meira undir.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Fjárborgin mun vera hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal í Biskupstungum (ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Augljóst má telja að til hafi staðið að topphlaða borgina, ef marka má voldugan miðjugarðinn, lögun vegghleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana sem og umhverfis.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesskaganum, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan og hefur verið kunnugur hraunhelluhleðslulaginu er einkennir þá fjárborg. Hún stendur enn nokkuð heilleg, enda enn sem komið er orðið fyrir litlum ágangi manna.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Í Örnefnaskrá fyrir Þorbjarnastaði má sjá eftirfarandi um mannvistarleifar og örnefni í Brundtorfum: „Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Í Efrigóm Hrauntungukjafts er Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m.
Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.“

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól (Hellisskjól).

Þá má nefna Brundtorfuskjólið. Við skoðun á vettvangi mátti m.a. sjá ýmislegt og skynja annað. Fyrst og fremst er Fjárborgin fulltrúi u.þ.b 80 slíkra, sem enn sjást, í fyrrum landnámi Ingólfs.
Í öðru lagi er hún dæmigerð fyrir skýli þau er bændur reistu fé sínu allt frá landnámsöld fram í byrjun 20. aldar. Fé var ekki tekið í hús, enda engin slík til, en skjól gert fyrir það í hellum og skútum. Jafnan var gólfið sléttað og hlaðið fyrir til skjóls. Á annað hundrað slík mannvirki má enn sjá á svæðinu. Eitt þeirra er fyrrnefnt Hellishólsskjól skammt frá Fjárborginni.
Fjárborgin framanverðStaðurinn er tilvalinn til að hlaða mannvirki á; gnægð hraunhellna. Norðan við Fjárborgina má sjá hvar hellunum hefur verið staflað í hrauka með það fyrir augum að bera þær að borginni. Hraukarnir, sem og hraunhellurnar norðan í borginni, benda til þess að hætt hafi verið við verkið í miðju kafi. Staðsetningin er hins vegar ekki góð með hliðsjón að því að fé leiti þangað inn af sjálfsdáðum. Til að mæta því hafa verið hlaðnir tveir langir leiðigarðar út frá opi borgarinnar til suðurs, að gróningunum framanverðum.

Í stuttu innskoti má geta þess að örnefnið „Brundtorfur“ virðist hafa verið afleitt af „Brunatorfur“, enda var hraunið löngum nefnt „Bruninn“ og í þeim eru nokkrar grónar „torfur“; óbrinnishólmar. Einnig hefur svæðið verið nefnt „Brunntorfur“, en á því má í rigningartíð finna vatn í lægðum.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Mannvirkið sjálft er reglulega og vandlega hlaðið. Útveggurinn hallar inn á við eftir því sem vegghleðslan hækkar. Hætt hefur verið við hana í u,þ.b. tveggja metra hæð. Inni í miðjum hringnum er hlaðinn garður, þó ekki samfastur útveggnum. Hlutverk hans hefur verið að halda undir þakið er að því kæmi. Ef mannvirkið hefði verið fullklárað hefði líklega verið um að ræða stærsta sjálfbæra helluhraunshúsið á þessu landssvæði.

Hellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Helluhúsið (sæluhúsið) á Hellisheiði er byggt með svipuðu lagi, en minna. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt við alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns. Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.
DyrnarEkki er að sjá að annað og eldra mannvirki hafi staðið þar sem Fjárborgin stendur nú. Hvatinn að Hellukofanum var að byggja sæluhús fyrir fólk upp úr fyrrum krosslaga fjárskjóli. Slík fjárskjól þekkjast vel á Reykjanesskaganum, s.s. sunnan við Reykjanesbrautina ofan Innri-Njarðvíkur og við Borgarkot á Vatnsleysuströnd.
En hver var hvatinn að byggingu Fjárborgarinnar – þessa mikla mannvirkis? Sennilega hefur hann verið af tvennum toga; annars vegar frekari mannvirkjagerð og úrbætur á svæði, sem þegar hafði að geyma fjárskjól, bæði Hellishólsskjólið norðvestar og Brunntorfuskjólið suðaustar, og auk þess hefur, ef að ættarlíkum lætur, í verkefninu falist ákveðin útrás fyrir atorkusamt fólk er hefur við yfirsetuna viljað hafa eitthvað meira fyrir stafni.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Þá má af líkum telja, sbr. framangreint, að heimilisfaðirinn hafi haft einhver áhrif þar á með frásögnum sínum af uppeldisstöðvum hans í Selvogi þar sem Djúpudalaborgin hefur verið böðuð mannvirkjaljóma, enda fá sambærileg og jafn stórkostleg mannvirki þá til á þessu landssvæði. Hafa ber þó í huga að Djúpudalaborgin er hálfu minni að ummáli og því auðveldari til topphleðslu. Umfang Þorbjarnastaðaborgarinnar hefur gert það að verkum fá upphafi að verkefnið var dæmt til að mistakast. Aðrar fjárborgir voru hálfhlaðnar og ekki að sjá að ætlunin hafi verið að hlaða þær hærra. Þó er þar ein undantekning á.
Fjárborgin innanverðFjárborgin á Strandarheiði ofan við Kálfatjörn er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m., þ.e.a.s. nokkurn veginn jafnstór Þorbjarnarstaðaborginni. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt. Ekki er vitað hvenær borgin var upphaflega hlaðin en menn telja hana nokkurra alda gamla. Munnmæli herma, að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest.

Staðarborg

Staðarborg.

Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat þannig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu, kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.
Innviðir StaðarborgarÞessi frásögn af Staðarborginni gæti einnig hafa haft áhrif á hleðslufólkið frá Þorbjarnarstöðum. Hraunhellum hefur verið raðað, sem enn má sjá, undir vegg borgarinnar að utanverðu svo auðveldara væri að velja úr hentugt grjót hverju sinni. Á svipaðan hátt og við gerð Staðarborgarinnar hefur eitthvað komið upp á er varð til þess að hætt var við verkið í miðjum klíðum. Ólíklegt er að þar hafi prestur gefið fyrirmæli um, en öllu líklegra að annað hvort hafi hjáseta yfir fé í Brundtorfum verið hætt um þetta leyti eða breytingar hafa orðið á mannaskipan að Þorbjarnarstöðum. Hafa ber í huga að til er frásögn af dugmiklum vinnumanni á Þorbjarnarstöðum á fyrri hluta 19. aldar (sjá meira undir. Ef hann hefur átt þarna einhvern hlut að máli er Fjárborgin u.þ.b. hálfri öld eldri en áætlað hefur verið hingað til.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hvað sem öllum vangaveltum líður um tilurð og tilefni Þorbjarnarstaðafjárborgarinnar er hún enn mikilsumvert mannvirki; bæði áþreifanlegur minnisvarði um áræði forfeðranna er byggðu sína tilveru og framtíð afkomenda sinna á því sem til féll á hverjum stað hverju sinni og jafnframt vitnisburður um merkar búsetuminjar fyrri tíma.
Rétt er þó að geta þess svona í lokin að ekki er vitað til að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins hafi skoðað og metið mannvirkið til verðleika.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnastaði.

Þorbjarnarstaðafjárborg

 

Þorbjarnarstaðir

Gengið var áleiðis inn í Brunntorfur, að Þorbjarnastaðaborginni, stórri fjárborg er börn hjónanna frá Þorbjarnastöðum í Hraunum hlóðu um aldarmótin 1900.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Borgin er fallega innhlaðinn að ofan, hringlaga með leiðigörðum út frá dyrum til suðausturs. Inni í borginni er hár beinhlaðinn veggur. Líklegt má telja að topphlaða hafi átt borgina og að veggurinn inni í henni hafi átt að halda undir þakið þegar það lokaðist. Svipuð fjárborg, topphlaðin, er í Djúpadal í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum, Þorkell Árnason, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi og því verið kunnugur þeirri borgargerð.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Ofar, suðaustar, í Brunntorfum er hlaðinn inngangur að tvískiptu fjárskjóli. Þrjú önnur fjárskjól eru í Brunntorfum. Sunnar er Fornasel og Gjásel vestar; hvorutveggja gömul sel frá Þorbjarnarstöðum. Í Önefnalýsingum um Straum er einungis getið um Fornasel og því þá ruglað saman við ónefnt Gjásel.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Gengið var að Fornaseli. Við selstöðuna er fallegt vatnsstæði, stekkur í lægð og tóftir. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í Fornasel fyrir skömmu. Taldi hann minjarnar vera frá því á 14. eða 15. öld. Gjáselið er einnig á hæð líkt og Fornasel. Þar við er einnig vatnsstæði, en það var þurrt að þessu sinni. Norðvestan undir hraunholtinu er stekkur í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Gránuskúti er sunnan selsins. Svæði þetta tilheyrir allt svonefndum Almenningi. Samkvæmt gömlum bókum á það að vera ein fermíla að stærð, en ein dönsk míla er nú 7.5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Náði Almenningur niður að alfaraveginum. Stiftamtmaður heimilaði Hraunabæjunum einum afnot af Almenningi árið 1848, en það segir í raun lítið um eignarréttinn á svæðinu.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var norðvestur eftir Gjáselsstíg þangað til hann sameinast Straumsselsstíg skammt þar frá er sá síðarnefndi beygir inn í hraunið, áleiðis að Straumseli. Þar skammt sunnar eru tvö fjárskjól, Kápuskjól og Kápuhellir.
Þaðan var haldið til norðurs um austanverðar Flár með stefnu á Kolbeinshæð. Í því er fjárskjól, Kolbeinshæðaskjól, hlaðið fyrir slútandi hraunskúta mót austri. Vel gróið er í kringum skjólið og óvíða eru stærri krækibær að finna á Reykjanesinu.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Frá Kolbeinshæðaskjóli eru vörður til norðurs, að Gerðastíg undir vesturkanti Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Þar undir háum kletti eru Efri-hellar (hellrar), fjárskjól undir hraunþaki. Hlaðið er fyrir munnann og einnig skammt austan hans. Skjólið er fremur lágt, enda hefur safnast talsverð mold í gólfið. Nýjahraun er talið hafa runnið um 1151 (um svipað leyti og Ögmundarhraun). Síðar var það nefnt kapelluhraun eftir kapellunni í hrauninu, en hún kemur við sögu eftirleiks dráps Jóns Arasonar, biskups (1550). Kristján Eldjárn gróf í kapelluna ásamt fleirum um 1952 og fann þar marga gripi. Þegar álverið var byggð í upphafi sjöunda áratugs 20. aldar var kapellan eyðilögð, en ný hlaðin í hennar stað á hraunhól við leifar Alfaraleiðarinnar. Vel færi því á því að nefna hraunið aftur Nýjahraun.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Skammt norðvestan Efri-Hella, sem sumir telja að hafi verið nefnda Efri-Hellrar eftir hellunni ofan við fjárskjólið, er Vorréttin (Rauðamelsréttin), heilleg og fallega hlaðin utan í hraunkantinum. Ofan við hana er nú æfingasvæði Skotfélags Hafnarfjarðar. Þegar stígnum er fylgt áleiðis að Gerði ofan Fagurgerðis er m.a. komið að Neðri-Hellum (skammt sunnan við stíginn). Þar er einnig fjárskjól í skúta og hlaðið fyrir. Norðan hans er hlaðið ferkantað gerði utan í hraunkantinum. Vestan við Neðri-Hella er talsvert af fornum, nú jarðlægum, minjum. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur merkt hluta þeirra. Flestar þeirra eru norðan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel, sem nú hefur verið grafinn í sundur með stórvirkum vinnuvélum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Haldið var áfram og stígnum fylgt í gegnum Selhraunið að Þorbjarnarstaðaréttinni eða -stekknum, norðan undir háum hraunhól. Réttin er enn heilleg og hefur verið fallega hlaðinn. Inni í henni er heilleg lambakróg. Hún ber því merki fyrrum heimastekks sem þróast hefur í fjárrétt. Vestar er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða (eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum). Skammt norðar er bæjarstæðið. Hægra megin við suður frá bænum er há varða á hraunhrygg; Hádegisvarðan.

Gránuskúti

Í Gránuskúta við Gjásel.

Hraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi.

Straumur

Straumur 1935.

Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt Innnesjamenn.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Mosastígur, Brunnstígur, Jónsbúðarstígur, Lónakotsgata, Réttarstígur og Péturskotsstígur.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaði í kringum árið 1200. Þar er getið um hálfkirkju og grafreit.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.

Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.

Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk.

Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00).

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Heimildir m.a. af:
http://www.simnet.is/utivera/text/saga.htm

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Bekkjaskúti

Gengið var um Gerðisstíg, að Neðri-hellum, Vorréttinni og Efri-hellum og síðan yfir Seljahraun að klettasvæði sunnan línuvegarins. Hraunið á því svæði, þegar halla tekur til suðurs, er þarna mjög stórbrotið.

Rauðamelsrétt

Í Rauðamelsrétt.

Þá var vent til vesturs inn á Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) (Skógargötu) og stefnan tekin til suðurs. Suðvestan af götunni, áleiðis upp í Óttarsstaðasel, í litlu jarðfalli, er Sveinshellir. Hleðslur eru við innganginn, en fyrir honum eru þéttar birkihríslur, sem fylla jarðfallið og loka hellinum svo til alveg. Óttastaðaselsstígurinn var genginn spölkorn til baka en síðan var beygt út af honum til norðausturs og haldið skáhallt yfir hraunið að línuveginum og yfir hraunkantinn norðan hans þar sem það er þrengst (örfáir metrar). Þaðan var greiður gangur niður að Alfaraleið. Við Þorbjarnastaði var litið á Kápuhelli og Gránuskúta, en fyrir honum eru svolitlar hleðslur.

Rauðamelsrétt

Rauðamelsrétt.

Við Neðri-hella er hlaðið gerði í hraunkantinum (Kapelluhraun). Hleðsla er innan við hraunkantinn og hlaðið er fyrir breiða sprungu, gróna í botninn sunnan við hellana. Fyrir meginhellinum er hleðsla.

Efri-Hellar

Efri-Hellar.

Þessir hellar hafa verið notaðir sem fjárskjól. Sama á við um Efri-hella, sem eru þarna skammt ofar, einnig á grónu svæði næri því utan í hraunkantinum. Falleg hleðsla er fyrir munnanum og einnig í jarðfalli skammt austar. Ofan við hellana gnæfir andlitslaga hraunklettur. Sagan segir að við Efri-hella geti verið mikill draugagangur á köflum, líkt og í Hrauntungum, sem eru þarna skammt ofar. Í þeim er einnig hlaðið fyrir fjárskjól, auk fleiri minja.

Vorréttin er undir Kaplahrauni, fallega hlaðinn. Frá henni er greiður gangur út af Gerðisstígnum upp að Kolbeinshæðaskjóli, enn einu fjárskjólinu á svæðinu.
Að þessu sinni var strikið hins vegar tekið yfir Selhraunið, þvert á Straumsselsstíginn og yfir á Óttarstaðaselstíg (Rauðamelsstíg/Skógargötu) og að Bekkjaskúta. Hann er þar uppi í stóru jarðfalli, einnig fallega hlaðið fyrir.

Sveinsskúti

Sveinsskúti.

Austar er Sveinsskúti, en á milli skútanna er hlaðið lítið byrgi, skjól fyrir einn mann. Annars er hraunið þarna einstaklega fallegt, einkum að haustlagi. Ofar er Óttarstaðaselið með Norðurskúta, Tóhólaskúta, Rauðhólsskúta, Nátthaga, stekk, vatnsstæði og öðrum mannvirkjum er prýtt getur eitt sel. Þá er hægt að fylgja Skógargötunni áfram upp í Skógarnef og áfram upp Mosana áleiðis að Trölladyngjusvæðinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gengið var í rólegheitum í gegnum hraunið niður að Þorbjarnarstöðum og kíkt á nafngreinda skúta þar. Þorbjarnastöðum tilheyra mörg mannvirki í Hraununum, s.s. Þorbjarnastaðaborgin, líklega Fornasel í Almenningum og jafnvel Gjáselið, fjárhellir ofan við Brunntorfur, heimaréttin og Þorbjarnastaðréttinn suðaustan við bæinn, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta innan seilingar fyrir þá, sem vilja og nenna að hreyfa sig svollítið í sagnaríku og fallegu umhverfi.
Veður var bjart, stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Vorrétt

Vorréttin.

Tag Archive for: Þorbjarnarstaðaborg