Í Fjarðarpóstinum 1989 er fjallað um „Þorbjarnarstaði í Hraunum“ og spurninguna um hvort þeir skyldu friðaðir:
Þorbjarnarstaðir – uppdráttur.
„Skipulagsnefnd hefur rætt um friðunarmál í nágrenni Hafnarfjarðar. Að sögn Jóhannesar Kjarval skipulagsstjóra hefur hann lagt til, að Þorbjarnarstaðir og næsta nágrenni verði sett á fornleifaskrá.
Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti, kannaði og skráði rústirnar að Þorbjarnarstöðum á árunum 1976 til 1980. Hann lagði til að réttast væri að friðlýsa þær minjar í einu lagi, eða áskilja sér rétt til að hafa hönd í bagga, ef eitthvað ætti að gera þar. Kristján sagði að þarna væri heilleg mynd, upplögð til að nota í eins konar sýnikennslu. Þó ekki sé langt síðan þarna var búið eru minjarnar ekki síður dæmigerðar fyrir byggðina hér um slóðir.
Þorbjarnarstaða er getið í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1548.
Þorbjarnarstaðir – flugmynd.
Um býlið hefur Kristján Eldjárn skrifað: „Þorbjarnarstaðir, nú í landi Hafnarfjarðar. Rétt fyrir ofan Straum eru rústir eyðibæjarins Þorbjarnarstaða, sem fór í eyði. Þetta hefur verið dæmigert Hraunbýli, tún ræktað á hraununum, allt með holum skvompum og túngarður umhverfis, allur hlaðinn úr hraungrjóti. Hann stendur að miklu leyti enn, en utan um hann er svo einfaldur og lágur garður úr steinum, sem teknir hafa verið úr gamla garðinum og haft sem undirlag undir gaddavírsgirðingu. Þetta er merkilegt að sjá. Á eina hlið er ágætlega hlaðin og skrítin rétt.
Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.
Bæjarrústir eru snyrtilegar og grónar, en svolítill kofi stendur enn uppi. Heim að bænum er ágætar traðir, þótt þær standi ekki í fullri hæð nú. Eitthvað kann að vera af rústum útihúsa á túninu, en a.m.k. eitt fjárhús hefur verið sambyggt bænum; það er með jötum eins og öll gömul fjárhús hér á Reykjanesi.“
Ekki er að sjá í gögnunum að framangreindum vilja hafi verið fylgt eftir skv. orðanna hljóðan.
Sögulegar heimildir um Þorbjarnarstaði
Þorbjarnastaðarétt.
1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls VídalínsIII, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignumViðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.Hjáleiga 1703: Lambhagi (sjá GK-167).
Landkostir 1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.
Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.
1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefur hún so bjarglegamikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einiberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavonnæsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundumað gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leið til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kring. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertíð. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið í næstu þrjú ár. Inntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi í næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III,166.
Þorbjarnarstaðir – brunnur.
Þess má geta að Ísal sóttist eftir því á áratugi síðustu aldar við Hafnarfjarðabæ að fá að kaupa jörðina Þorbjarnarstaði. Þá stóð fyrir dyrum möguleg stækkun álversins til suðurs og þar með tilheyrandi færslu Reykjanesbrautarinnar. Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, lagði tilboðið fram á bæjarstjórnarfundi, án nokkurs fyrirvara.
Þorbjarnnarstaðir – flugmynd.
Þegar fulltrúi FERLIRs, sem þá var jafnframt fulltrúi Alþýðuflokksins, óskaði eftir nánari skilgreiningu á mörkum þess, sem um ræddi, varð fátt um svör. Hann óskaði þá eftir að málinu yrði frestað til næsta fundar. Það var samþykkt.
Á þeim næsta fundi lagi Magnús fram uppdrátt að mörkum þess lands, sem bærinn ætlaði að selja. Fulltrúi FERLIRs lagði þá til að bærinn myndi, ef sölunni yrði, halda eftir heimatúni Þorbjarnarstaða innan garða, enda væru innan þeirra ómetanlegar mannvistarleifar til framtíðar litið. Auk þess lagði hann til að Byggðasafni Hafnarfjarðar yrði falin forsjá svæðisins með í huga mögulega endurbyggingu þessa síðasta torfbæjar innan núverandi lögsagnarumdæmis. Bæjarstjórnin féllst á tillöguna. Af framangreindri ástæðu á Hafnarfjarðarbær í dag Þorbjarnarstaði í Hraunum – innan túngarða. Eignin er þó ekki talin til bæjarins í gildandi aðalskipulagi, einhverra hluta vegna!?
Þorbjarnarstaðir – heimastekkurinn (síðar rétt).
Í umsögn Umhverfisstofnunar við aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 þann 11. ágúst 2020 segir m.a.:
„Umhverfisstofnun bendir á að hraunin, sem tillagan nær til, kallast Hrútargjárdyngja og Kapelluhraun falla undir lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Í 61, gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrfyrirbæra sem undir greinina falla, ema brýna nauðsyn ber til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi…
Umhverfisstofnun bendir á að innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá og nefnist Straumsvík og er númer 12 sem aðrar náttúrminjar. Svæðinu er lýst á eftirfarandi hátt: „Fjörur, strendr svo og tjarnir með fersku og ísöltu vatni við innanverða Straumsvík, frá urtartjörn vestan Straums suður fyrir Þorbjarnarstaði að athafnasvæði Ísal.“ Náttúruverndargildi svæðisins eru tjarnir með einstæði, lífsskilyrðum og allmiklu fuglalífi.“
Engan sérstakan fróðleik er að finna á vef Umhverfisstofnunar um Þorbjarnarstaði og nágrenni sbr. framangreinda friðlýsingu á fornleifaskrá. Byggðasafn Hafnarfjarðar virðist ekki, hingað til a.m.k., hafa sýnt tilþrif í þá átt…
Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 27. tbl. 21.09.1989, Þorbjarnarstaðir friðaðir, bls. 3.
-Fornleifaskráning vegna tvöfuldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.
-https://www.researchgate.net/publication/347489182_Fornleifaskraning_vegna_tvofoldunar_Reykjanesbrautar_41_fra_Hvassahrauni_ad_Krysuvikurvegi_II
-https://fornleif.is/wp-content/uploads/2020/10/FS803-20151_Fornleifaskr%C3%A1ning-vegna-tv%C3%B6f%C3%B6ldunar-Reykjanesbrautar-41-fr%C3%A1-Hvassahrauni-a%C3%B0-Kr%C3%BDsuv%C3%ADkurvegi.pdf
Þorbjarnarstaðir – tilgáta ÓSÁ.