Færslur

Þorbjarnastaðarauðamelur

“Ekki alllangt sunnan við Straum í Garðahreppi [svæðið tilheyrði ekki Hafnarfirði fyrr en 1967] og skammt vestan við Kapelluhraun eru forn eldvörp. Þar hefur Vegagerð ríkisins tekið rauðamöl til ofaníburðar í vegi, og það er mest þeirri starfsemi að þakka, að hægt er nú að fullyrða að hér er um eldvörp að ræða.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-21Ekki er mér kunnugt um, hvernig þarna leit út áður en byrjað var að taka þar efni, en svo lítið ber á þeim hluta gíganna, sem enn er eftir óhreyfður, að líklegt má teljast, að þeim hefði alls ekki verið veitt eftirtekt, hefði þarna ekki verið grafið með stórvirkum tækjum. Nú er þarna umrót mikið og ýmislegt fróðlegt að sjá. Gígir þeir, sem hér er um að ræða, eru á línu með stefnu NA—SV, eins og gígaraðir á Reykjanesi yfirleitt eru.

Yngri hraun hylja nú þetta svæði nær alveg, og hafa þau fært hina fornu gígaröð að mestu í kaf. Þau hraun eru komin sunnan að af svæðinu milli Sveifluháls og Vesturháls [Núpshlíðarháls]. Af því að yngri hraun hafa runnið yfir umhverfi gíganna, verður ekki með vissu sagt, hversu mikið hraun hefur frá þeim komið. Það er þó ljóst að eitthvað hraun hefur runnið í þessu gosi, og er það auðþekkt frá hraununum í kring.
Mikill fjöldi hnyðlinga er í þessu hrauni og sumir þeirra nokkuð stórir, eða um 5—7 cm í þvermál. Þeir virðast líkir þeim, sem áður hefur verið getið í þessu riti (Jónsson 1963). Slíkir hnyðlingar hafa nú fundizt víða um land, m. a. í Skaftáreldahrauni frá 1783, Fonti á Tungnáröræfum (heimild Elsa Vilmundardóttir), í Þórsmörk, við Grindavík og nú alveg nýlega fann Jens Tómasson, jarðfræðingur, hnyðlinga í Surtsey.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-22Í gígnum í Selhrauni fannst ennfremur um fimm cm stór feltspatkristall, sem reyndist vera ólígóklas (An 30). Hann var mjög illa farinn, sennilega mest vegna hita, og liggja jafnvel hárfínar basaltæðar í gegnum hann. Oligóklas á ekki heima í basalthrauni eins og þessu og verður því að telja líklegast, að um sé að ræða kristall, sem brotnað hefur úr eldra bergi nokkuð ólíku þessu að samsetningu og borizt með hrauninu á leið þess upp á yfirborð. Þess má geta að Jens Tómasson fann líka einn ólígóklaskristall í Surtsey.

Hraunið, sem runnið hefur umhverfis gígina og að nokkru leyti yfir þá, hefur ékki runnið fyrr en nokkru eftir, kannske löngu eftir að þeir gusu, því sums staðar má sjá að gjallið í þeim hefur verið farið að veðrast dálítið.
Telja má víst, að þeir hafi verið orðnir mosagrónir, og á einstaka stað vottar fyrir jarðvegsmyndun. Víða í hólunum má greinilega sjá að hraunið hefur orðið fyrir snöggri kælingu, t. d. finnur maður á nokkrum stöðum þunnar basaltæðar í gjallinu og eru þær með svartri glerhúð. Einnig vottar fyrir hólstramyndun á stöku stað. Þetta vekur grun um, að hér hafi gosið í vatni, og við nánari athugun kemur í ljós að svo hefur verið. Á a.m.k. tveim stöðum í stálinu má sjá að hraunið hefur brotist upp í gegnum leirlög, sem nú eru sem vænta má mjög umturnuð og brennd hið næsta hrauninu, er brotizt hefur í gegnum þau. Aragrúi af skeljum hefur verið í leirnum og tekur það af allan efa um að hér hefur gosið í sjó. Sjálfar eru skeljarnar farnar veg allrar veraldar, en mótin eftir þær eru afar greinileg. Það er augljóst, að um allmargar mismunandi tegundir hefur verið að ræða, en mjög erfitt er nú að greina þær með vissu, því allt er þarna í einum hrærigraut og svo laust í sér að það fellur sundur ef við er komið.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-245Örugglega má þó þarna greina leifar af hrúðurkörlum (Balanus). Smyrslingur (Mya truncata) er þarna líka og líklega rataskel (Saxicava arctica), og nokkrar fleiri tegundir. Diatomeur (kísilþörunga) má og finna í leirnum, en sama máli gegnir um þá, að skeljarnar eru mjög illa farnar og örðugt að ákvarða þær með vissu. Aðeins sárafáar heilar skeljar hefur tekizt að finna. Langmest ber á brotum úr Coscinodiscus og nokkrum öðrum sjávartegundum. Örugglega má ákvarða Biddulphia aurita og Navicula peregrina, en báðar lifa í söltu vatni. Af ferskvatnstegundum reyndist mögulegt að ákvarða Eunotia sp., Pinnularia
sp. og Tabellaria feneslrata.
Það virðist því líklegt, að þarna hafi gosið í sjó, en líklega hefur það verið nálægt strönd og hafa ferskvatnstegundirnar borizt út í sjó með lækjum.
Skammt vestan við Straum er Rauðimelur, en þar hefur rauðamöl verið tekin í mörg ár, og er nú búið að grafa þar niður fyrir grunnvatnsborð. Vafalaust er Rauðimelur leifar af eldvarpi, sem líka hefur myndazt í sjó á sama hátt og e. t. v. á svipuðum tíma og eldvörpin í Selhrauni.”
Raunar sleppir Jón hér tveimur mikilvægum, enn ósnertum sambærilegum gersemum; Litla-Rauðamel norðan hins raskaða Rauðamels og Litla-Þorbjarnarstaðarauðamel skammt sunnan þess aðalumnefnda.
Hafa ber í huga að ef verulega vel væri á málum haldið – og enn verulegri áhugi væri fyrir hendi – myndi umhverfisnefnd Hafnarfjarðar fyrir löngu síðan hafa látið hreinsa Þorbjarnarstaðarauðmelinn af rusli svo nýta mætti svæðið fyrir áhugasama ferðamenn um jarðfræði Íslands. Þarna má nú t.d. sjá fornar gígmyndanir, bergganga, gígtappa, hraun og gjóskumyndanir í sjó, skeljaleifar sem og landmótunina fyrir tugþúsundunum ára.

Heimildarrit – References Jónsson, Jón. Hnyðlingar íslenzku bergi. Náttúrufræðingurinn 88. árg. bls. 9-22.
Tröger IV. E. 1959. Tabellcn zur optischen Bestimmung der gesteinbildenden Mineralen, Stuttgart.

Heimild:
Náttúrufræðingurinn. 35. árg. 1965-1966, 1. tbl. bls. 1-4.

Rauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum ofan við Straum að Þorbjarnarstöðum. Gamall vegur liggur frá Keflavíkurveginum að þessum gamla bæ í Hraunum.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði.

Þar sem Keflavíkurvegurinn kemur niður og yfir tjarnirnar ofan við Straumsvík (gegnt Gerði) má enn sjá minjar hinnar fyrstu vegagerðar sjálfrennireiðarinnnar er tengdi saman byggðalög hér á landi. Einnig má sjá veglegar veghleðslur yfir gjár og jarðföll í gegnum hraunið vestan við Rauðamel, en eftir það má segja að hið gamla handbragð hinna gömlu vegargerðarmanna á Keflavíkurveginum hverfi. Þetta er því dýrmætur vegspotti þegar horft er til verndunar þessara tegunda minja.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eða þau okkar, sem fyrir alvöru spá og spegulera í gömlum minjum, spyrja sig iðurlega spurninga s.s.: a) hvað eru raunverulegar fornminjar?, b) fyrir hverja eru fornminjarnar? og c) hverjir eiga forminjarnar? Segja má að fornminjar séu áþreifnanleg mannanna verk er tengja okkur nútímafólkið við fortíðina, þ.e. forfeður okkar. Þess vegna eru fornminjarnar fyrir okkur, afkomendur þessa fólks. Og það erum við, sem eigum fornminjarnar. Þær eru okkar verðmætu tengsl við fortíðina. Sú staðreynd að framtíðin byggist á fortíðinni gera minjarnar ómetanlegar nútíðinni.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939). Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis meðal verðmæta vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og bjó. Tóftirnar eru einnig, því miður, ágætt dæmi um þörfina á auknum áhuga og dug fulltrúa fólksins í bænum um gildi og nýtingu fornminja. Nóg um það í bili.

Gengið var frá heimaréttinni, framhjá bæjarstæðinu, hinum dæmigerða íslenska torfbæ með burstum mót suðvestri og matjurtargarði framan við, yfir heimatúnsgarðhleðslurnar og yfir Alfaraleiðina og að Þorbjarnastaðaréttinni, stundum nefnd stekkurinn, undir hraunhól nokkru sunnan við bæinn, austan Miðdegishóls, eyktarmarks frá bænum. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró, sem bendir til þess að hún hafi verið notuð sem stekkur.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Alfaraleiðinni var fylgt spölkorn til norðurs, að Gerði. Gengið var ofan við tjarnirnar. Þar sjást mannvistarleifar, s.s. hlaðin bryggja til ullar og fatalafraþvotta. Vatn leysir þar undan hrauninu. Frá tóftum bæjarins var sveigt til vinstri þar til komið er á Gerðisstíg, sem er merktur með lágum stikum. Stígurinn liggur um Hólaskarð milli Hólanna, sem eru á hægri hönd, og lágrar hraunhæðar á vinstri hönd með strýtumyndaðri vörðu. Leiðin liggur um Stekkjatúnið í áttina að Seljahrauni. Þar breytir stígurinn um nafn og nefnist Seljahraunsstígur þar sem hann liggur í gegnum þunna, illfæra hraunspýju sem hefur tafið för manna og búfjár áður en slóðin var rudd í gegnum hrauntunguna. Gengið er samsíða vestari brún Kapelluhrauns í áttina að línuveginum og farið yfir hann í áttina að Rauðamelsklettum.

Efri-Hellar

Efri-Hellar; hraunkarl.

Gengið er framhjá Neðri-Hellum, ágætum fjárskjólum með hleðslum fyrir. Handan þeirra er námasvæði þar sem Þorbjarnarstaðarauðamelur stóð áður fyrr. Nú er ekkert sem minnir á Rauðamelshóla eins og þetta kennileiti var stundum nefnt. Náman er sem flakandi sár í landinu og umgengnin engum til sóma.

Stígurinn liggur áfram til suðausturs í áttina að Rauðamelsrétt. Auðveldast er einfaldast að taka stefnuna á hús Skotveiðifélags Hafnarfjarðar sem stendur á brún Kapelluhrauns, sem kallast reyndar Bruninn þegar hingað er komið. Vestan hússins gengur lítill hraunrani fram úr Brunanum út á Flárnar. Í þröngum krika norðan ranans stendur lítil fallega hlaðin rétt úr hraungrjóti.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Brún Kapelluhrauns var fylgt til suðurs uns komið var að Efri-hellum, gamlir fjárhellar. Við hraunina gnæfir hraundrangur í mannsmynd. Hann minnir á að við hellana hefur löngum þótt reimt. Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Þar hefur einnig þótt reimt, einkum fyrrum. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast. Getur þá verið erfitt að finna það, auk þess sem hleðslurnar, sem eru allmiklar, falla vel að klettinum.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ef stígnum, sem komið hafði verið inn á og liggur inn í Hrauntungurnar, er fylgt áfram til norðausturs er komið inn á Hrauntungustíginn þar sem hann liggur út úr Tungunum og inn á hraunið. Stígurinn er nú orðinn stuttur þarna því búið er að ryðja svo til allt hraunið þarna fyrir austan og norðan. Þó má enn sjá móta fyrir Hrauntungustígnum beggja vegna Krýsuvíkurvegarins skammt norðvestan aðkeyrslu að námusvæðinu. Skammt vestan vegarins er varða og liggur Hrauntungustígurinn svo til við hana.
Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina. Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Með borginni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring. Hana hefur greinilega átt að hlaða hærra en þegar skilið var við hana fyrir rúmlega einni öld.

Vorrétt

Vorréttin.