Sel ofan Selvogs. Byggt á Fornleifaskráningu Hildar Gestsdóttur og Orra Vésteinssonar um sel í Selvogi.
Um Herdísarvíkursel segir: “Á Seljabót er landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringu- og Árnessýslu. Seljabótanef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…” [Tóftirnar eru undir sunnanverðum hraunkantinum ofan Seljabótar, skammt austan sýslugirðingarinnar. Vatnsstæðið er skammt vestar, í krika svo til alveg við girðinguna. Í Seljabótinni má sjá hlaðið gerði og skammt ofan hennar var selshellir, sem nú er að mestu fylltur af sandi].
Fyrir norðan Vörðufell er Eimuból, alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum. [Eimuból er greinilega mjög gömul selstöð. Bæði er tóft á bakka gróins jarðfalls sem og í jarðfallinu sjálfu. Inn úr því er fjárskjól með allnokkrum hleðslum í].
Austan við Strandarhæð eru miklar lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða –sel. Við Þorkelsgerðissel er Skyrhóll, hellisskúti, þar sem skyrið átti að hafa verið geymt. [Margar tóftir eru í Þorkelsgerðisseli].
Ekki er getið heimilda um Sel frá Vogsósum, en Þórarinn Snorrason sýndi ritgerðarhöfundi það árið 2000. Það sem skammt austan við þjóðveginn, sunnan fjárgirðingarinnar upp frá réttinni, ofan við svonefnda Grænudali. Þar er tóft á hæðinni. Á hæðinni er varða. Seldalur heitir gróin lægð norðan selsins. Vestan hæðarinnar, handan þjóðvegarins, á hól eru þrjár fjárborgir (Borgirnar þrjár). Borgirnar gætu að hluta verið leifar nýrra heimasels frá Vogsósum, enda bærinn aldagamall – þjónaði m.a. sem prestssetur Selvogsbúa um tíma. Verður því að telja líklegt að þá hafi verið vel búið að Vogsósum.
Í örnefnalýsingu fyrir Selvog, er m.a. fjallað um Ólafarsel. Þar segir m.a.: “ Í örnefnalýsingu fyrir Ölfuss má m.a. sjá eftirfarandi: Ólafarsel er austan og sunnan við Vörðufell í Vörðufellshrauni. Í því er hiti og rýkur úr hólnum. Framan í hrauninu er Ólafarsel, er enn sér fyrir. Það tilheyrði um tíma Eimu.
Ekki er getið um heimildir fyrir sel frá Strönd, þeirri stóru jörð. Selsins undir suðausturhorni Svörtubjarga er heldur hvergi getið og gæti það verið ástæðan. Þar er nokkuð stórt sel með lambastekk, fjárskjóli í helli og vatnsbóli í skúta.
Í heimildum um Nessel segir: “Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhóla eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu”.
[Nessel er nú vel gróið. Tóftir eru í selinu og gróið jarðfall. Líklegt er að reft hafi verið yfir það því það er hálffullt].
Litlalandssel er “uppi á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg. [Selið er utan í grónum hraunhól í hrauninu. Hóllinn er holur innan og á honum dyr. Annars er vel gróið í kringum selið].
Um Bjarnstaðasel segir: “Norður eða norðvestur af Klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða –sel. Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum”. [Þrjár hjáleigur voru frá Bjarnastöðum og ber selið þess merki. Margar tóftir eru þar og greinilega verið haft í seli frá fleiri en einum bæ. Þar er og að finna a.m.k. tvo stekki].
Ekki er getið heimilda um sel frá Breiðabólstað, en það er í Krossfjöllum. Ekki heldur er getið heimilda um sel frá Götu, en ekki er ólíklegt að Gata og Eima hafi annað hvort haft saman í seli eða í nálægð.
Hlíðarendasel er “á miðri leið fá Búrfelli inn að Geitafelli, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil. [Selið er ofarlega í grónu hrauninu og gengur Ólafsskarðsvegur um það mitt. Þrjár tóftir eru í því auk stekkjar á hraunhól].
Skammt austar er Litlalandssel; þrjár tóftir og stekkur í kringum hraunsskúta.
Ekki er getið heimilda um sel frá Vindheimum (Vindási), en grónar tóftir selsins má sjá vestan við Eimuból [Kristófer Bjarnason]. Vindásselið er gróinn upphækkaður hóll svo telja má að þarf hafi verið selsstaða um alllangt skeið; endurgerð ítrekað.