Tag Archive for: Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi

Jörðin Þórkötlustaðir er kjarninn í austasta hverfi Grindavíkur. Hin tvö eru Járngerðarstaðahverfi og Staðarhverfi vestast.
ÞórkötlustaðahverfiðJörð þessi er eins og aðrar jarðir Grindavíkinga við sjó. Mikið af landi hennar er eldbrunnið, einkum óskipta landið ofan gróninga. Bæirnir standa austast og syðst í landareigninni við sjóinn. Þótt byggð hafi verið að mestu óslitin á svæðinu frá því á 13. öld hefur mikið breyst, bæði í sinni íbúanna og ekki síst afkomenda þeirra. Sumir töldu þá fyrrnefndu einkennilega í hugsun, en þeir höfðu þá ekki kynnst hinum síðarnefndu.
Fyrir utan Þórkötlustaðanesið, sem er að hálfu í Þórkötlustaðalandi, eru fjölmargar minjar á svæðinu er minna á fyrrum búsetu og búskaparhætti íbúanna um aldir. Á einum stað var t.a.m. komið niður á fornaldarskála er grafið var fyrir hlöðu um aldamótin 1900.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrst skal huga að örnefnunum. Samkv. örnefnaskrá er „austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, bás inn í klettana, og heitir hann Markabás. Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun. Upp af Markabás er hóll milli bæjanna, Markhóll. Er hann upphlaðinn þar á hryggnum, sem nefndur er Leiti. Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Ofar eru tóftir bæjarins Klappar. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi. Sunnan þessara boða og víkin öll er nefnd Þorkötlustaðabót [Loftur Jónsson segir Þórkötlustaðabótina vera fjöruborðið en ekki sjóinn eða víkin], en Þorkötlustaðasund er sunnan boðanna.
Tóftir KlapparTúnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni. Þá er Svalbarði, sem er þar á túni. Vestar er það, sem kallað er Vötnin, en þar kemur ósalt vatn undan sjávarkambinum um fjöru hjá Þorkötlustöðum.

Hér vestur af gengur allmikið nes suður í sjó. Nes þetta heitir Þorkötlustaðanes. Mikill hluti af nesinu er í Þorkötlustaðalandi, en nokkuð í Hópslandi. Merkin eru um 60 metrum vestan við vitann, sem nú stendur. Þar var klöpp með áletrun, en hefur skolast undir brimgrjótið. Nes þetta er allt hrauni þakið. Sumt bendir á, að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47).

Hópsnesviti

Hópsnesviti (Þórkötlustaðanesviti).

Í nesinu er vitinn, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti. Austur af vitanum er hóll, sem heitir Leiftrunarhóll. Vestur af honum og austur af vitanum eru tveir hólar, sem heita Strýthólar. Milli þeirra og vitans er Tófuflatarhóll. Alllangt norður af vitanum er hár hraunhóll, sem heitir Gjáhóll. Suðaustur af vitanum er Stóra-Látraflöt, en Litla-Látraflöt er austar og liggur að Strýthólum. Þar austar er Leiftrunarhóllinn, og fram af honum er Stekkjarfjara. Við Leiftrunarhól er tangi, sem heitir Nestá. Upp af Stekkjarfjörunni er grasblettur nefndur Stekkjartún. Þá er komið að vík, sem heitir Drift, aðrir segja Dríli. Inn frá henni heita Þorkötlustaðavarir. Sunnan við varirnar upp frá víkinni eru Drílaklettar, háir klettar norður af Nestá, er verða sem sker um flóð.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Vestan við Drift er bryggja, og þar suðvestur af, beint upp af kampinum, er Flæðitjörn. Fyrir norðan varirnar er vík, sem heitir Herdísarvík, og upp af henni við sjó eru klettar, sem heita Kóngar. Þetta eru klettahólar, sem eru austur af Gjáhól, sem fyrr getur. Upp frá hólum þessum heitir hraunspildan Kóngahraun. Rétt norðan Kónga er flöt í hrauninu sem heitir Miðmundaflöt. Austur frá henni er Syðribót og Heimribót. Upp af þeim eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Þá eru Miðmundaklettar, og milli þeirra og túns er Sandfjara. Niður af Brunnflötum var vatnsstæði, sem notað var til að vatna í skepnum.“
Hlaðinn garður í ÞórkötlustaðahverfiÞá hefur fjaran verið gengin. Ofar er óskipt land sex lögbýla, annars vegar Þórkötlustaðabæjanna þriggja og hins vegar Klappar, Buðlunga og Einlands. Sumir segja jarðarpartana hafa verið fjóra, en byggja þar einungis á þeirra hagstæðustu munnmælum. Í raun liggja ekki fyrir skriflegar og staðfestar upplýsingar um hlutdeild einstakra jarða og verður því að leggja þær að jöfnu uns annað kemur í ljós. „Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt. Nær það til fjalls. Það svæði, sem næst tekur við fyrir ofan túnin er nefnt Hópsheiði, jafnt sá hluti þess, sem tilheyrir Þorkötlustöðum og Hópi. Þetta er hraunfláki allstór, sem nær upp á móts við Húsafjall. En í vesturenda hans eru merkin móti Hrauni og í Melhól, sem er þar vestur af. En aftur á móti er niðri í nesinu, á merkjum móti Hópi, svonefnt Markalón.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Rétt vestur af Húsfjalli er smáhraunhóll, sem heitir Grenhóll. Þegar kemur upp fyrir Húsfjall, hækkar landið nokkuð og hraunið [mjókkar mikið], og nú tekur við landssvæði, sem heitir Vatnsheiði. [Harunið tengist síðan Beinvörðuhrauni og Skógfellshrauni og síðan Dalahrauni enn norðar (LJ)]. Dregur hún nafn af vatni, sem var þar vestur undir Sundhnúk [á hátoppi Innstuhæðar og eru þar landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða (LJ], og þornar oft. Þar er lágur rimi, Lyngrimi, sem er vestan undir Vatnsheiði innst. Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima. Þá tekur við sama hraunið og nefnt var hjá Hrauni, og heitir það Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur. Norðan þess er línan um Skógfellshraun, norður í Litla-Skógfell, sem er mikið lægra en hitt. Þá er komið þar á merki. Þar austar er svo annað lágt fell á merkjum, Kálffell. Þá segjum við, að lokið sé örnefnum í Þorkötlustaðahverfi. Þó er einhvers staðar til um meira land, sem ef til vill kemur síðar í leitirnar.“

Byrgi í StrýthólahrauniLoftur Jónsson gerði athugasemdir við framangreinda lýsingu. Hann taldi örnefnið Svalbarði „ekki rétt“. Þetta örnefni er einnig að finna hjá honum og á þá við hringmyndaða klöpp með lóni í miðju. Einnig kemur fram hjá Lofti að klofi út í Svalbarða skipti reka milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Ofan við nöfnin Drift og Dríli sem eru tvö nöfn á vík hefur Loftur einnig ritað „ekki rétt“. Þessi nöfn er ekki að finna hjá Lofti en hann hefur nafnið Driti um klett í fjöruborðinu.
Loftur telur Sandfjöru ekki vera til sem nafn í landi Þórkötlustaða.
Í setningunni: „Það svæði sem næst tekur við fyrir ofan túnin er nefnt Hópsheiði, jafnt sá hluti þess, sem tilheyrir Þorkötlustöðum og Hópi“ hefur Loftur ritað fyrir ofan orðið Þorkötlustöðum „ekki rétt“. Hann segir að allt það sem kallað er Hópsheiði sé í landi Hóps. Líklega er það ekki rétt að sá hluti Hópsheiðar sem er í Þórkötlustaðalandi heiti svo þar. Í sömu málsgrein, næstu setningu, stendur: „Þetta er hraunfláki allstór, sem nær upp á móts við Húsafjall. En í vesturenda hans eru merkin móti Hrauni og í Melhól, sem er þar vestur af.“ Að sögn Lofts var Melhóll gamall eldgígur í hrauninu austan við Þorbjörn og núverandi Grindarvíkurveg. Þarna hefur hlaðist upp strýra úr hraungjalli en er nú alveg horfin. Hraungjallið var notað í Grindavíkurveginn og vegi og götur í Grindavík og víðar. Örnefnið Melhól er því ekki að finna í örnefnalýsingu Lofts. Þá segir hann að hann telji að Melhóll hafi verið landmark á milli Hóps og Járngerðarstaða.

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Að lokum skrifar Loftur að ekki hafi verið til vatn þar sem segir að það hafi verið vestur undir Sundhnúk og að Vatnsheiði dragi nafn sitt af því. Það er hins vegar rétt hjá Lofti því gott vatnsstæði er í Vatnsheiðnni austur undir Sundhnúk, en vestan Fiskidalsfjalls.
Á miða sem fylgir örnefnaskránni og spurt er um réttan rithátt nokkurra örnefna hefur Loftur strikað undir Buðlunga, Markhól og Miðmundakletta og strikað yfir hina valkostina sem eru Buðlungi, Markahóll og Miðmundaklettur.
Í annarri örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaðaland segir: „Suður úr Reykjanesskaganum gengur allmikið nes. Að vestanverðu við nes þetta er Járngerðarstaðavík en að austan er Hraunsvík. Nes þetta er allt þakið hrauni og sumt bendir til að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornlfél. 1903, 47). Að austanverðu heitir nesið Þórkötlustaðanes og er það í landi Þórkötlustaða en að vestan heitir það Hópsnes og er sá hluti í landi Hóps. Í daglegu tali er það eingöngu nefnt Nesið.
Vatnsstæðið á VatnsheiðiÁframhald af landi Þórkötlustaða nær inn á Reykjanesskagann og er fremur mjótt en langt. Mest allt landið er þakið hrauni. Bæirnir standa austast í landareigninni innan við nesið og niður við sjóinn.
Örnefni og kennileiti í landi Þórkötlustaða eru sem hér segir: Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum. Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka [hér er kveðið á um jafnan hlut jarðanna]. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur. Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá. Norður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.

SkógfellavegurSíðan tekur við Vörin stundum kölluð Nesvör til aðgreiningar frá Buðlunguvör. Vararsker er sunnan við vörina, það fer í kaf á flóði. Tveir boðar eru framundan Vararskeri á Þórkötlustaðasundi; Fjósi á bakborða og utar er Lambhúsi á stjórnborða. Sundvarða við Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfnin dregin.
Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll, þar stendur sundvarða. Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar; Hraunsgarðar. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör. Skotti er nokkuð stór pollur ofan kampsins, norðan Vararinnar og þar norður af er hóll, flatur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Fram undan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík; Herdísarvík. Upp af henni við norðurenda eru klettahólar sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun, sandorpið hraun, og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð en mjó frá norðri til suðsuðvesturs sem heitir Gjáhólsgjá. Rétt norðan við Kónga er grasflöt fram við kampinn; Miðmundaflöt og þar framan við eru Miðmundaklettar.
Gígur á SundhnúkaröðinniSíðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en litið markar fyrir henni nú. Önnur gata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi. Norður frá Heimribót er fremsti og vestasti hluti túnsins kallaður Sigla og þar í er Siglulaut.
Austur af Heimribót taka við Vötnin. Þar rennur fram ósalt vatn um fjöru og var þar þveginn og skolaður þvottur áður fyrr. Austur af Vötnunum, á klöppunum, er Stóralón og suður af því Kollóttasker. Upp af Stóralóni er Bakkinn; hár grasivaxinn bakki. Nokkuð austan Stóralóns er Buðlunguvör. [Að sögn Árna Guðmundssonar í Teigi (f:1891) var Buðlunguvör notuð á sumrin fram til 1929. Við hana má sjá för eftir kili bátanna.] Vestan hennar er hringmynduð klöpp með lóni í miðju. Hún heitir Svalbarði. Klofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

Dalssel í FagradalAustur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt. Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.
Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.
Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.

Skógfellavegur

Vegur af Skógfellavegia að Þórkötlustöðum.

Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.
Vatnsheiði eru þrjár gróðurlitlar, samvaxnar hæðir norður af Húsafelli og nær sú fremsta vestur fyrir og fram fyrir það. Þær heita Fremstahæð, Miðhæð og Innstahæð. Nafnið er dregið af vatnskötlum í Innstuhæð og þornar þar ekki nema í mestu þurrkum. Þar eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða.
Í norðvestur frá Innstuhæðinni, í Vatnsheiði, er hæð eða smáhnúkur; Sundhnúkur og er hann á landamerkjum milli Þórkötlustaða og Járngerðarstaða. Þaðan í norður eru hraunhólar úr brunnu hraungjalli. Heita þeir Lyngrimi. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Skógfellshraun tekur við þar fyrir norðan og er það all úfið í hraunbrúninni að sunnan.
Siguður Gíslason hjá ÞórkötlustaðadysUpp úr Skógfellshrauni rís allhátt fell sem heitir Stóra-Skógfell. Litla-Skógfell er þar nokkru norðar en er allmikið lægra og skiptir það löndum á milli Voga og Járngerðarstaða. Stóra-Skógfell skiptir löndum á milli Járngerðarstaða og Þórkötlustaða og eru merkin í næsta hnúk. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi. Mitt á milli Skógfella er svonefndur Hálfnunarhóll (í Járngerðarstaðalandi) og er þar talið hálfnað til Voga frá Þórkötlustöðum. Hraunið á milli Skógfella og Fagradalsfjalls heitir Dalahraun og nær það fram á móts við Kast. Það er lágt og víða sléttar klappir og mosaþembur.

Skógfell

Stóra-Skógfell – Sandhóll nær.

Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll sem er vestur af Kasti og Fagridalur sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. [Hér gleymist að Þórkötlustaðir (sumir segja Járngerðarstaðir) höfðu selstöðu í Dalseli í Fagradal, norðan Nauthólaflata]. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða. Slokahraun er á milli túnanna á Hrauni og Þórkötlustöðum.“

Fagridalur

Nauthólar Í Fagridal.

Aðrar heimildir kveða á um að Járngerðarstaðamenn hafi haft selstöðu í Fagradal. Bæði þeir og Hraunsmenn hafa viljað eigna sér svæðið milli Vatnskatla, Kálffells og Litla-Skógfells. Það hafa einnig Vogamenn viljað gera.

Tóftir Dalsels í Fagradal voru skoðaðar árið 2003. Þær eru á sunnanverðum uppþornuðum lækjarbakka norðan við Nauthóla og Nautaflatir. Sjá má móta fyrir húsum og stekk eða kví ofar. Veggir sjást grónir, en ekki er að sjá hleðslur í þeim. Erfitt er að greina nákvæma rýmisskipan.
Óskipt land Þórkötlustaðabúa er allt að því um 300 hektarar skv. framangreindu.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing – Loftur Jónsson, Grindavík 22. nóv. 1976.
-Guðmundur Benediktsson.
-Sigurður Gíslason.
-Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.
-Árni Guðmundsson.
-Guðmundur Jónsson.
-Áslaug Theodórsdóttir.
-Kristborg Þórsdóttir.
-Guðbjörg Eyjólfsdóttir.
-Jón Eyjólfsson.
-Jón Daníelsson.

Við Þórkötlustaðarétt

Við Þórkötlustaðarétt.

Þórkötlustaðarétt

 Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923).

Sigurður Gíslason

Sigurður Gíslason við hrossabyrgi við Húsfell.

Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímanna tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu. (Rétt er að geta þess að Þórkötlustaðahverfið í Grindavík er eitt hið fegursta með því nafni á gjörvöllu landinu).

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin 1. ágúst 2022.

Grjótið var að að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum. Fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson hefur upplýst um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir (2007) og er þá allt meðtalið.

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.“

Rétt

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda „efnaðist hann mjög af fé“ eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.

Þórkötlustaðaréttin

Þórkötlustaðarétt.

Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – skálasvæðið er á milli húsanna.

Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Neðripartur þessar umfjöllunar tengist ekki umfjöllunni um Þórkötlustaðarétt, nema fyrir það að einungis örkotslengd er á milli hennar og hans.

Fé

Við Þórkötlustaðarétt.

 

Grindavík
Fyrirlestur Jón Þ. Þórs, fluttur í tilefni af 20 ára afmæli Grindavíkurkaupstaðar 10. apríl 1994.
(Birtist í Árbók Suðurnesja 1994, VII. árangi).

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Í almennum ritum um sögu Íslands á fyrri öldum eru þrír staðir nefndir öðrum oftar: Skálholt, Hólar og Þingvellir. Í sömu ritum er okkur tjáð, að biskupsstólarnir hafi verið mestu menningarsetur landsins og jafnframt auðugustu og valdamestu stofnanir á landi hér. Allt er það satt og rétt. Öll vitum við að völd fylgja auði, en jafnframt að auður verður ekki til af engu. Hann skapast því aðeins að menn, fyrirtæki eða stofnanir hafi tekjur, helst miklar og tryggjar tekjur umfram útgjöld í langan tíma. En hér er, að minni hyggju, brotalöm í frásögnum almennra rita um íslenska sögu. Í þeim er þess sjaldan getið hvaðan auður íslensku biskupsstólanna kom, hvernig hann varð til, hver voru tengsl stólanna við byggðir landsins, hver var þýðing einstakra staða og plássa fyrir valda- og menntasetrin. Í þessu stutta erindi verður rætt lítillega um tengsl Grindavíkur og Skálholts á öldum áður, ef það mætti verða til þess að varpa nokkru ljósi á þetta forvitnilega viðfangsefni.
Þegar Jarðabókin, sem tíðast er kennd við Árna Magnússon og Pál Vídalín, var saman tekin árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóttir, í eigu Skálholtsstóls. Húsatóttir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti. Þegar hér var komið tilsögu, hafði biskupsstóll staðið Skálholti í hálfa sjöundu öld og mikinn hluta þess tíma höfðu ítök og eignir stólsins í Grindavík verið að eflast og aukast. Í því viðfangi er athyglisvert, að elsta skjalfesta heimild, sem greinir frá ítökum og fjárhagslegum réttindum í Grindavík er rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270. Þar er kveðið á um skiptingu reka í Víkinni og er ljóst af skránni að Skálhyltingar hafa fengið umtalsverðan reka úr Grindavík – jafnt matreka sem viðreka – allt frá því snemma á 13. öld.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Þegar kom fram á 14. öld efldust og jukust ítök og eignir stólsins í Víkinni jafnt og þétt og á 15. öld bendir flest til þess að Grindavíkurjarðir hafi allar með tölu orðið kirkjueign. Að vísu er ekki vitað nákvæmlega hvenær þetta gerðist eða hvernig, og varla von, því á ofanverðri 17. öld vissu Skálhyltingar það ekki sjálfir. Eldsvoðar léku skjalasöfn Skálholtsbiskupa grátt fyrr á öldum og eyddust þá margar jarðabækur og skjöl, sem nú myndu veita ómetanlegar upplýsingar. En fleira kom til. Árið 1684 risu deilur vegna rekamála á Ísólfsskálafjörum. Af því tilefni ritaði Þórður biskup Þorláksson bréf, þar sem hann kvartaði undan því, að fátt væri um skjöl er greindu frá eignarhaldi Skálholtsdókmirkju á jörðum í Grindavík. Þar kenndi hann um eldsvoðunum og því að staðarskipið hefði farist á leið til Grindavíkur og með því jarða- og skjalabók, sú besta, er hann jafði heyrt getið um. Þarna átti biskup vafalaust við farmaskip Skálholtsstaðar, sem fórst við Þórkötlustaðanes árið 1602 og með því liðlega tuttugu manns.
Flest rök hníga að því að Skálholtsstóll hafi eignast Grindavíkurjarðir á 15. öld, nánar tiltekið á tímabilinu frá því Vilkinsmáldagi var settur árið 1397 og þar til Magnús biskup Eyjólfsson setti Staðarkirkju í Grindavík nýjan máldaga 1477. Á þessu skeiði voru mikil umbrot og átök í íslensku samfélagi. Á 14. öld varð bylting í atvinnuháttum og utanríkisverlsun landsmanna, er sjávarafurðir urðu verðmætasta útflutningaafurðin og sjávarútvegur arðsamasta atvinnugreinin. Á sama tíma hófu Englendingar stórfelldar fiskveiðar hér við land og á öndverðri 15. öld olli Plágan mikla stórfelldri röskun á mannfjölda og búsetu í landinu. Þessum atburðum verða ekki gerð nánari skil hér, en afleiðing þeirra varð sú, að byggðin færðist nær sjávarsíðunni en áður hafði verið, eftirspurn eftir sjávarjörðum jókst og þær hækkuðu í verði. Sama máli gegndi um sjávarafurðir, einkum skreið. Hefur dr. Þorkell Jóhannesson reiknað út, að skreiðarverð hafi hækkað um samtals 141 prósent á tímabilinu frá 1350 og fram til 1550. Tilkostnaður við útveginn fór vitaskuld hækkandi á sama tíma, en þó hvergi nærri jafn mikið. Við þessar aðstæður var eðlilegt að fjársterkir og valdamiklir aðilar í samfélaginu renndu hýru auga til góðra sjávarjarða, eins og þeirra í Grindavík, og svo mikið er víst, að um miðja 16. öld voru allar jarðir í Víkinni komnar í kirkjueign og hélst svo framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

En hvaða arð hafði biskupsstóllinn af þessum jörðum, hvern þátt áttu þær í viðhaldi stólsins og stofnana hans? Þessum spurningum verður að sönnu ekki svarað af þeirri nákvæmni að við getum áttað okkur á arði stólsins af jörðunum frá einu ári til annars, en tiltækar heimildir gefa þó nokkra mynd af gangi mála.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Bygging stóljarðanna fór þannig fram að biskup byggði þær bændum, sem þar með urðu landsetar dómkirkjunnar. Þeir greiddu ákveðið afgjald af jörðunum á ári hverju. Það var nefnt landskuld og fór eftir mati jarðarainnar. Við vitum ekki með fullri vissu hver landskuldin var á 15. og 16. öld, er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var saman tekin árið 1703 var landskuld af jörðum í Grindavík samtals 17 hundruð og 40 álnir. Þessar upplýsingar segja nútímamönnum kannski ekki mikið, en greiðsla landskuldar fór fram í verkuðum fiski, harðfiski, og voru 240 fiskar, svonefndir gildingar, í hverju hundraði. Gildingur vó að jafnaði fjórar merkur, þ.e. eitt kíló, og voru þannig 240 kíló í hverju hundraði, en í hverri alin voru tvö kíló. Landskuld af jörðum Skálholtsstóls í Grindavík árið 1703 nam þannig 4.140 kílóum af fullþurrkuðum harðfiski og vilji fólk reikna það magn til peningaverðs á okkar dögum nægir að skreppa út í búð og athuga hvað harðfiskurinn kostar. Á þessum tíma, þ.e. um aldamótin 1700, var almennt reiknað með því að fullverkaður fiskur vægi um fjórðung af þyngd fisks upp úr sjó. Það þýðir að bændur í Grindavík hafi þurft að afla um það bil hálfa sautjándu smálest af fiski til þess eins að hafa upp í landskuldina.
En landskuldin var aðeins hluti af tekjum Skálholtsstóls af jörðunum í Grindavík. Stóllinn hafði umtalsverða útgerð á eigin vegum í Víkinni. Sú útgerð var vitaskuld mismikil frá einu ári til annars og arður af henni réðst af aflabrögum og árferði. Mest var stólsútgerðin í biskupstíð Brynjólfs Sveinssonar á 17. öld og má nefna sem dæmi um afraksturinn að árið 1674 fluttu faramenn biskups alls 15.357 fiska, þ.e. gildinga, af afla stólsskipanna frá Grindavík, auk lýsis og landskuldafisks. Þetta ár var afraksturinn af stólsútgerðinni þannig um 15 smálestir af fulþurrkuðum fiski, sem samsvarar 60 smálestum upp úr sjó. Gefur það nokkra hugmynd um umsvifin og við þetta bættist lýsi, reki og fleiri sjávar- og fjörunytjar.

Strýthólahraun

Fiskibyrgi í Strýthólahrauni.

Tekjurnar vor þannig miklar og tilkostnaðurinn við að afla þeirra fremur lítill. Biskupsstóllinn átti að sönnu vergögn í Grindavík, báta, verbúðir o.fl., en landsetar, þ.e. bændurnir, urðu að lána menn til skipsáróðurs á stólsskipunum, auk þess sem þeim bar að annast verkun á fiski stólsins.
En nú kynni einhver að spyrja: Hvaða þýðingu hafði sjávaraflinn úr Grindavík fyrir biskupsstólinn? Þessari spurningu verður best svarað með því að líta á fiskþörf Skálhyltinga og er þá einvörðngu miðað við neyslu þar heima á staðnum.
Af varðveittum heimildum er svo að sjá sem árleg fiskþörf í Skálholti hafi verið 10-11 smálestir. Á árunum 1547-1563 fluttust þangað liðlega 10 smálestir af skerið á ári að meðaltali, minnst 8 en mest 13 smálestir á einu ári. Á fyrri helmingi 18. aldar virðist fiskneyslan hafa verið lítið eitt minni, en á árabilinu 1730-1743 var flutt heim til staðarins hálf níunda smálest á ári að meðaltali. Er athyglisvert, að á þessum árum hefur landskuldarfiskurinn úr Grindavík numið nálægt helmingi af árlegri harðfiskþörf Skálhyltinga og segir það nokkra sögu um þýðingu jarðanna í Víkinni fyrir rekstur biskupsstólsins.
Í Skálholti var jafan fjölmenni, um og yfir eitt hundrað manns þegar allt er talið, og fiskur var meginuppistaðan í fæði vinnufólks og skólapilta. Má í því viðfangi minna á, að á fáfiskisárunum 1685-1704 gerðist það oftar en einu sinni, að illa horfði um skólahald í Skálholti sökum fiskileysis, og eitt árið, 1698, varð að fella niður skóla í marsmánuði og senda pilta heim vegna þess að ekki var til nægur fiskur. Sést mikilvægi harðfisksins í mataræði heima í biskupssterinu ef til vill best af því að á síðari hluta 18. aldar fékk hver skólapiltur harðfisk í tvö mál á rúmhelgum dögum, eða einn gilding yfir daginn. Piltarnir voru að vísu mismargir frá einu ári til annars, en yfirleitt um 30 þegar skóli var fullskipaður.

Slokahraun

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Árið 1770 voru skólapiltar 33, og voru þá skammtaðir 33 fiskar alla rúmhelga daga í þær 35 vikur, sem skóli stóð. Það voru 5-6 smálestir yfir skólatímann og lætur nærri að landskuldarfiskurinn úr Grindavík hafi dugað skólapiltum yfir veturinn. Um þetta leyti fengur skólapiltar 1/5 hluta úr fiski í morgunverð á sunnudögum og öðrum bæna- og helgidögum, og urðu það 363 fiskar á 35 vikum. Í Skálholti var jafnan að störfum sérstakur barsmíðamaður og hafði hann það hlutverk að berja harðfisk. Hann barði 32-360 fiska á viku hverri, og á tímabilinu 29. janúar til 26. febrúar 1723 barði hann t.d. 1670 fiska.
Auk alls þess fisks, sem fluttist frá Grindavík til Skálholts var vitaskuld mikið af afla stólsins í Víkinni flutt í kaupstað og selt utan. Fyrir andvirði þess fisks keyptu biskupar ýmsar nauðsynjar, en þótt fiskurinn hafi verið verðmætasta afurðin sem biskupsstóllinn fékk af jarðeignum sínum í Grindavík má ekki gleyma öðru, t.d. viðrekanum, sem notaður var í húsagerð og viðhald heima í Skálholti.
Jarðirnar í Grindavík voru vitaskuld aðeins brot af öllum jarðeignum Skálholtsstóls. Hér verður þess ekki freistað að meta hve mikill hluti af tekjum stólsins á ári hverju kom úr Grindavík, enda skortir nauðsynleg gögn til að það megi gera af skynsamlegu viti. Engum getur þó dulist, að Grindavík var um aldir ein af styrkustu stoðunum undir auðlegð Skálholtsstóls og þeirri menningariðju, sem þar var stunduð.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól á Ísólfsskála.

Þórkötlustaðahverfi

Gengið var um Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Heródes

Heródes.

Árið 1703 voru Þórkötlustaðir eign Skálholtsstaðar. Bærinn hafði selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. Hjáleigur voru; Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Buðlunga og tómthúsið Borgarkot. Ekki er vitað hvar Ormshús eða Borgarkot voru. Áður var hjáleigan kölluð Lundun. Árið 1847 hafði hjáleigan Lambúskot bæst við, en 8. ágúst 1787 og síðan 26. janúar 1791 voru Þórkötlustaðir komnir í þrjá hluta (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). Þríbýli var á Þórkötlustöðum lengst af á 19. öldinni. Heimræði var árið um kring (1703), en enga engjar. Sjórinn gekk á túnið og braut land að framan. Árið 1840 eru túnin stór og slétt, en hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. Þar var og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst á nesinu var fyrrum selalátur frá Þórkötlustöðum. Mikið af landinu er eldbrunnið og bæirnir stóðu austast í landareigninni við sjóinn. Land jarðarinna var frekar mjótt, en nokkuð langt. Lending var dágóð á Þórkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi voru í Nesinu.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Nú eru Þórkötlustaðabæirnir tveir, Miðbær og Vestari-Vesturbær. Áður voru þarna einnig Vesturbær, sem stóð á milli Miðbæjar og Vestri-Vesturbæjar, og síðan Austurbær og Eystri-Austurbær, sem báðir stóðu austan við Miðbæinn.
Áður en Sigmundur Jónasson tók við búi á Þórkötlustöðum á 17. öld voru öll hús á jörðinni skoðuð og metin… „níu vistarverur innabæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornhús“, „hús innar af skála“ og eldhús. Útíhús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn fram á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skrár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlausar og virðast hvorki halda vatni né vindi.“

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Í rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 segir Brynjúlfur Jónsson að „á Þórkötlustöðum í Grindavík var byggð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Eldfjallaska ofan á gólfskálinni bendir til þess, að bærinn hafi lagst í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má vera að hraunið, sem myndar Þórkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“ Samkvæmt hugmynd Brynjúlfs virðist þarna hafa verið um fornaldaskála að ræða. Nú hefur hlaðan verið rifin og svæðið stendur tilbúið til uppgraftar, þ.e.a.s. ef einhver hefur þá yfirleitt einhvern áhuga á að skoða undirlag svæðisins.

Klöpp

Klöpp – tóftir.

Tóftir eru skammt vestan við Sólbakka. Þær eru nýlegar fjárhúsleifar frá Hofi. Fjárhúsin suðvestan við Vestari-Vesturbæ voru áður fjárhús og fiskverkunarhús frá Vesturbænum. Þar áður voru þarna fiskhús frá Duus-versluninni í Keflavík og Lafollie-versluninni á Eyrabakka skammt vestar. Annars eru þarna gamlir kálgarðar allt um kring. Sunnan við Miðbæinn voru áður fjárhús og saltverkunarhús frá Miðbænum. Austan við þau voru fiskverkunar- og salthús frá Vestari-Austurbæ. Traðirnar liggja þarna niður að sjó milli bæjanna. Vestan í austasta kálgarðinum var fiskverkunar- og salthús frá Eystri-Austurbænum.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Samkvæmt túnkorti frá 1918 var brunnur skammt (40 m) norðan við Miðbæ. Að honum lá gata frá Einlandi. Brunnurinn var notaður af öllum bæjunum. Nú sést móta fyrir brunninum í malbikuðum veginum framan við hliðið að Valhöll (áður en malbikið var endunýjað).
Á milli Valhallar og Miðbæjarins eru tvær bárujárnsklæddar skemmur. Sunnan í syðri skemmunni er hesthústóft. Nyrðri skemman er flór, skv. uppl. Margrétar á Hofi, en sú syðri var ýmist notuð sem fjós eða hesthús.
Kálgarðar eru víða í Þórkötlustaðahverfi, sem fyrr segir. Skv. túnakorti frá 1918 var t.d. kálgarður 50 m vestan við Lambúskot. Garðurinn var frá Eystri-Vesturbæ. Veggirnir hafa verið grjóthlaðnir, þ.e. uppkastið úr túnsléttunni notað til vegghleðslu. Oftast var grjóti, sem týnt var úr móanum, hlaðið í hrauka eða í garða ef því var við komið. Flestar túnbæturnar ofar í hverfinu eru tiltölulega nýlegar því ræktunarmörkin voru til skamms tíma rétt ofan við veginn í gegnum hverfið. Þá var t.a.m. Þórkötludys við mörkin.

Buðlunga

Buðlunguvör.

Klöpp var hjáleiga frá Þórkötlustöðum skv. Jarðabók JÁM 1703. Tóftirnar eru enn greinilegar. Þær eru tvær, báðar vel heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Sunnan bæjartóftanna er tröð, um 10 metra langar, suður á kampinn, sbr. síðargreint (austasta sjávargatan).
Móar voru norðan við Einland. Þar eru nú mikar hleðslur um afmarkaða kálgarða. Bærinn var syðst í görðunum. FERLIR mun fljótlega fara með heimamanni um tóftir Móa. Þá verður rústunum þar lýst bæði vel og skilmerkilega. Þegar Móastæðið er skoðað vakti hleðsla, lík sléttum hól, athygli. Hún er um 10 metrum sunnan við eystri kálgarðaþyrpinguna að Móum, í sléttuðu túni. Þar voru fjárhús.

Klöpp

Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftir eru í túninu austan við Buðlungu. Umhverfis tóftirnar er óslétt tún, en fast sunnan þeirra er stórgrýttur sjávarkambur. Um 6 m austan við tóftirnar er gjóthlaðinn túngarður í norður-suður. Sjávarkamburinn er kominn alveg upp að tóftunum að sunnanverðu.
Í örnefnaskrá AG segir: „Austast á merkjum mót Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndir Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallending, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi“.

Guðsteinn Einarsson segir í lýsingu sinni að „austan við Bótina í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlunguvör.

Þórkötlustaðanesi

Fiskigarðar ofan Kónga.

Meðan árabátaranir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært vera, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.“ Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestaði-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austar, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austan við klöppina er lygnara en þar er lendingi í Buðlunguvör.“ Engin mannvirki eru þarna við sjóinn önnur en ryðgaðir festarboltar.

Þórkötlustaðahverfi

Sundvarða ofan Þórkötlustaða.

Sundvarðan ofan við Buðlunguvör var neðst í túninu, suðvestur frá húsinu. Sjórinn lagði vörðuna reglulega útaf, en hún var alltaf endurhlaðin á meðan lent var í Buðlunguvör [eða fram til 1929. Buðlunguvör var einkum notuð af Þórkötlustaðabæjunum að sumarlagi]. Nú hefur sjórinn hins vegar tekið vörðuna. Sundvarða í Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfn boðanna dregin.
Fast norðan við bárujárnsskúr austan við Buðlungu er fjárhústóft, sem nú er orðin jarðlæg.
Randeiðarstígur var gata milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hún farin áður fyrr, en aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna“, segir í örnefnaskrá LJ.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Tóftir Hraunkots eru austast í túninu, við túngarðinn. Götur milli Hrauns og Þórkötlustaða lágu í austur-vestur í gegnum hraunið með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir Hraunkotsgötu (sunnar) og Þórkötlustaðagötu (norðar) í hrauninu austan Hraunkots og best í landi Hrauns. Hins vegar eru þær horfnar í túninu vestan kotsins.
Austast á merkjum móti Hrauni er bás inn í klettna er heitir Markbás. Þar utar er tangi er gengur fram í sjó og heitir Slok og upp af honum er Slokahraun. Nafnið er tilkomið af slokrhljóðinu er báran skall undir hraunhelluna á tanganum. Þar ofar er Markhóll, smáhóll upphlaðinn á Leiti milli bæjanna. Þarna eru tveir hólar, grónir í toppinn, alveg á kampinum og er Markhól sá syðri af þeim. Girðing liggur þarna í suður frá Austurvegi með stefnu á hólinn. Umhverfis hólinn er úfið mosagróið hraun. Hann er um 7 m hár og sker sig greinilega frá umhverfinu.
Eyvindarhús voru um 100 m vestan við Búðir. Þar er nú steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Árið 1703 er getið um Eyvindarhús sem hjáleigu. Árið 1918 er einnig etið um Eyvindarstaði sem kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns. Þar stóð síðast timburhús, en það ásamt Miðhúsum var flutt í Járngerðarstaðahverfi um 1950.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen stendur þar sem brunnurinn var.

Tómthúsið Borgarkot stóð fyrir norðan bæinn vestasta. Ekki er vitað hvar býlið var, sem fyrr segir, en líklegt er að það hafi staðið vestan við Valhöll, vestan við Brunnskákina svonefndu. Hún var ofan við Þórkötlustaðbrunninn, sem nú er undir malbikinu framan við hliðið að Valhöll. Hann var fallega hlaðinn, en var fylltur möl til að forðast slysum líkt og títt var um slíka brunna.
Tl fróðleiks má geta þess að þurrabúðir eða tómthús voru reist úr jörðum bæjanna, s.s. Hraunkot úr landi Klappar. Vermönnum var gjarnan leift að byggja sér hús í jarðri bæjanna ef það kom ekki niður á landkostum. Þeir ræktuðu skika umhvergis, endurgerðu húsakostinn og smám saman urðu húsin að kotum. Í rauninni eignaðist þurrabúðarfólkið aldrei skikana, en vegna afskiptaleysis afkomendanna má segja að þegjandi samþykki hafi fengist fyrir eignarhaldinu.
Slokahraun er á merkum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns. Þar eru leifar fiskigarða og það mikið af þeim. Slokahraun er austan við sjávarkampinn frá Þórkötlustöðum. Það er mosagróið apalhraun.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir, en misvel standandi. Hleðsluhæðin er milli 0,5-1,0 m. Garðarnir teygja sig allt austur að Markhól, en eru þá í Hraunslandi.
Á milli Vestari-Vesturbæjar og Miðbæjar eru traðir suður að sjávarkampi. Hlaðnir kálgarðar eru beggja vegna traðanna. Traðrinar eru 30 m langar og um 3 m breiðar, Hleðslurnar eru grjóthlaðnar, en allgrónar á köflum. Traðirnar, eða sjávargöturnar, í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Sú austasta er beint neðan við elsta Klapparbæinn (flóruð), önnur er neðan við Miðbæ og sú vestasta er framangreind. Gamli Klapparbærinn stóð skammt sunnar og austan sjávargötunnar. Tóftir sjást enn.

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar. Sagnir eru um steininn þann að hann megi hvorki færa né raska á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.
Nokkrir kálgarðar eru sunnan Þórkötlustaðabæjanna, flestir hlaðnir. Sunnan þeirra eru fjárhúsin.
Ef við færum okkur svolítið ofar í hverfið verður fyrir Gamla-rétt. Um 350 m norður af bæjarhól í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land er grasbali inn í hraunið. Í honum, við túngarðinn, er hlaðin kró, sem nefnd er Gamla-rétt. Sunnan við balann er sléttað tún, en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins, liggur Austurvegur í austur-vestur. Vel má sjá hann liggja út frá gamla garðhliðinu vestan við Hraun.
Hvammur er um 100 m austan við Efra-Land, fast norðaustan við Þórsmörk.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – ískofi.

Hraunkot er austast við túngarðinn á Þórkötlustaðabæjunum, fast við fyrrnefndar hleðslur í Slokahrauni. Tóftirnar eru á litlum hól austast á túninu upp við túngarðinn. Efst og austast eru tvær tóftir. Grjóthlaðnar tröppur eru niður í garðinn. Vestan við garðinn miðjan er dálítil dæld í túninu. Hraunkot er ágætt dæmi um þurrabúð eða tómhús í Grindavík. Venjulega gekk það þannig fyrir sig að vermaður fékk leyfi til að byggja sér hús í jaðri jarðar, sem hann grjóthreinsaði í kringum, komst yfir hænu, kind eða kú, eignaðist konu, krakka og kött og allt óx þetta upp í kot. Í rauninni áttu hann aldrei blettinn undir húsinu eða í kringum það, en fékk að vera þar ef það truflaði ekki jarðeigandann. Afkomendurnir urðu hins vera ráðríkir á skikann, endurbætu híbýli og bættu við fé.

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Þórkötlustaðahverfi væri lítils virði án Þórkötlu. Þjóðsagan segir að „Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.“
Í örnefnalýsingum segir að „í túninu austur af bæ er sagt sé leiði Þórkötlu.“ Samkvæmt lýsingum elstu heimamanna, s.s. Sigurðar Gíslasonar á Hrauni, er það í öðrum (eystri) að tveimur grashólum í túninu austan við Hof. Staðsetningin passar vel við þá sögn að sú gamla hafi viljað láta dysja sig í túninu þar sem sæi yfir sundið (Bótina).

Eyrargata

Eyrargata.

Járngerðardysin mun vera undir veginum við Hlið og Þórkötludys mun vera á framangreindum stað. Sá, sem vildi raska þeirri sögu með einhverjum hætti, þætti hugaður í meira lagi, ef tekið er mið af þeim brögðum er slíkir menn hafa beitt í gegnum aldir.
Þegar litið er á upplandið er fróðlegt að huga að inum gömlu þjóðleiðum. Þar segir m.a. um Skógfellastig eða Vogaveg: „Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima… Dalahraun. Það hraun eru fremur mishæðalítið, nema þar rís norður allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellavegur, stundum nefndur Vogavegur. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi“, segir í örnefnaskrá LJ, „en afleggjari er af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.
Eyrargötunni var fylgt út á Þórkötlustaðanesið. Hún sést sumstaðar enn. Gömul gata, sem enn sést, liggur og áfram vestur af nesinu um norðanvert Strýthólahraun.

Austur af vitanum á Nesinu er Leiftrunarhóll. Framan af honum er Stekkjarfjara. Upp af Stekkjarfjörunni, á milli Leifrunarhóls og Þórshamars, er Stekkjartún… Það er gróið, en grýtt graslendi, mjög óslétt. Það nær að Flæðitjörn. Í Stekkjartúni eru nokkrar tóftir, einhverjar þeirra eru þó ungar frá því búið var Í Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Fiskigarðar á Nesinu.

Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar, Hraungarðar. Þeir eru í úfu hrauni, uppgrónu að hluta. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör, segir í örnefnalýsingu. Garðarnir liggja þarna um allt og virðast ekki fylgja neinu ákveðnu mynstri. Þeir voru hlaðnir úr hraungrýti, fallnir að miklu leyti.
Skotti er nokkur stór pollur ofan kampsins, norðan Nesvarar, og þar noðrur af er hóll, flattur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Krabbagerði er um 70 m austan við rústir Hafnar, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Hóllinn sjálfur er gróinn og allt umhverfis hann, nema til austurs þar sem stórgrýttur kampurinn skríður inn í landið. Hleðslur eru alveg fallnar og virðist sem grjót hafi verið fjarlægt úr þeim. Af þeim má hins vegar sjá hvernig mynstrið var, þ.e. líklega sex aðskildir garðar í austur-vestur.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Nesvör var niður og norðan við Leiftrunarhól, norðan Stekkjarfjöru. Nesvörin var svo nefnd til aðgreiningar frá Buðlungavör. Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll. Þar stendur Sundvarða. Nesvör er u.þ.b. í miðju Þórkötlustaðanesi austanverðu, um 100 m sunnan rústanna af Höfn, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Guðsteinn Einarsson segir m.a. um Nesið: „Meðan árabátarnir voru, var Buðlungavör notuð, alltaf þegar fært var, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var. Þegar vélar komu í bátana var eingöngu lent í Nesinu. Þarna eru steyptar leifar bryggjunnar (reist 1932-3), nú uppfullar af grjóti, sem sjórinn hefur rutt upp í þær.
Látrargötur voru slóðar úr vesturenda Stekkjartúns í Látur. Slóðirnir liggja í grónu túni, en einnig móta fyrir þeim í hrauninu sunnan við túnið. Göturnar eru ekki sérlega djúpar, en afar greinilegar, allt að fjórir paldrar saman.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Framundan Krabbagerði í flæðamálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir, nefndar Draugar. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun og inn undir miðju nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er lægð, sem heitir Gjáhólslægð. Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót. Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Eftir þeim liggur vegurinn um Nesið. Austur af Heimri-bót taka við Vötnin, svartar klappir. Þar rennur ósalt vatn um fjöru.

Látrargötur

Látrargötur.

Brunnflatir voru áður söndugar, en eru nú uppgrónar allt vestur í hraunið. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Í norðurnenda Brunnflata, um 100 m sunnan hraðfrystihússins og um 50 m vestan kampsins, er gróin hringlaga gróp, um 1 m í þvermál. Umhverfis hana er talsvert af grjóti, gróið í svörðin. Óvíst er hvort þetta eru leifar brunnsins því skv. örnefnaskrá var hann við kampinn og má vera að hann sé löngu kominn undir hann. Eftir lýsingum elstu núlifandi manna virðist brunnurinn þó enn vera sjáanlegur ofan við kampinn.
Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata, en lítið markar fyrir henni nú.
Norðarlega í Þórkötlustaðanesi er pípuhlið á veginum sem liggur suður í Nesið. Kálgarðar eru í grónum grýttum tanga, sem gengur þar til austurs.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu, en sósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars, sem er sysða húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við leindinguna í Vörina norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkambinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestur.
Sunnan við Nesvör er gróið en grýtt tún, Stekkjatún. Sunnan og suðaustan við úfið mosagróið hraun. Í hrauninu eru ótal rústir hleðslubyrgja og hleðslugarða. Byrgin virðast vera um 2×2 m að stærð og er skammt á milli þeirra.
Pétur Guðjónsson, skipstjóri, lýsir vel mannvirkjum ofan við Nesvörð í Sjómannablaði Grindavíkur árið 2004. Þar er sérhver ískofi og beitningaskúr tíundaður, lifrabræðslan sem og saltkofar á svæðinu.

Þórkötludys

Þórkötludys.

Kálgarður er sunnan við Þórshamar. Þar er og skrúðgarður. Tóftir eru austan við húsið. Útishúsið stendur þar enn, nokkuð heillegt. Merkasta tóftin er gerði utan um manngerðan hól, sem óvíst er hvað hefur að geyma. Líklegt má telja að þessar minjar sem og þurrkbyrgin í Strýthólahrauni skammt vestar séu með elstu mannvirkjum á Nesinu.
Austnorðaustan við Þórshamar er Flæðitjörn. Meðfram henni sunnanverðir liggur heimreiðin, upphlaðin að hluta, á um 50 metra löngum kafla. Hleðslan er um 2 metra breið.
Minjarnar í Þórkötlustaðahverfi eru „óður um fátækt og óupplýst fólk, sem bjó yfir miklu viti og djúpum tilfinningum.“

Sjá meira undir Þórkötlustaðarhverfi II.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Jarðabók ÁM 1703.
-Fornleifaskráning í Grindavík.
-Jón Árnason IV 231.
-Örnefnalýsing.

Við Þórkötlustaðarétt

Fé við Þórkötlustaðarétt.

Þórkötlustaðir

Ætlunin var að afhjúpa örnefna- og söguskilti í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Skilti í Þórkötlustaðahverfi

Á árinu 2006 var afhjúpað sambærilegt skilti í Járngerðarstaðahverfi með sérstaka áherslu á sögusvið „Tyrkjaránsins“ 1627. Austustu einingu þeirra þriggja stoða er Grindavík hefur byggt afkomu sína á í gegnum aldir verður nú gerð skil í máli og myndum. Markmiðið er að áhugasömum bæjarbúum og gestum verði gert auðveldara um vik að rata skýrðar sagnaslóðir hverfisins og njóta þess sem íbúarnir hafa skapað frá upphafi landnáms. Ef vel er að gáð má vel greina landnámsskála, minjar um forna vætti, dysjar, dæmi um átrúnað, þjósagnakennda staði, gamlar markaðar götur, garða, útræði og búskap jafnt sem aðra landnotkun á þessu annars afmarkaða svæði í þjóðleið atvinnusköpunnar um aldir – allt til þessa dags.
Skiltið verið afhjúpuð kl. 11:01 að staðartíma við Þórkötlustaðaréttina. Í kjölfar þess mun verða gengið um hluta svæðins og staðhættir skoðaðir og kynntir af staðkunnugum.
Kort af ÞórkötlustaðahverfiSpáð hafði verið vonskuveðri, en því hafði verið breytt í blíðskaparveður í tilefni dagsins.
Byrjað var á upphafsstað, við örnefna- og söguskiltið, sem héðan í frá mun standa á Klapparhólnum austan við Þórkötlustaðaréttina. Á standinum má berja augum kort af svæðinu sem og stutt yfirlit um sögu þess. Í textanum stendur m.a.: „Þú stendur við réttina í Þórkötlustaðahverfi. Réttin var hlaðin um aldamótin 1900. Hún hefur síðan verið endurbætt. Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli. Hætt var að nota hana um 1950. Rétt suðaustan við Bæjarfellið í Krýsuvík var vorrétt. Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu bændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efralands. Þar var Gamla-réttin.
Hér á eftir er að finna nánari upplýsingar um hús, örnefni og örlítið um þróun byggðar á svæðinu. Uppdrátturinn byggir á örnefnalýsingu Lofts Jónssonar, Garðbæ, frá árinu 1976, frásögnum hans sem og Ingeyjar Arnkelsdóttur, Buðlungu, Margrétar Sigðardóttur, Hofi, Ólafs Guðbjartssonar, Bjarmalandi, Sigurðar Gíslasonar, Hrauni, og fleirri er þekkja til staðhátta. Heimildir eru m.a. fengnar úr Sögu Grindavíkur, Jarðabók ÁM 1703, Fornleifaskráningu í Grindavík, Þjóðsögum JÁ og Landnámu. Hafa ber í huga að heiti túnbletta og einstakra húsa hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars.
Þórkötlustaðahverfið

Gengið um söguslóðir Þórkötlustaðahverfis

Í Grindavík hefur verið hverfabyggð frá ómunatíð. Hverfin voru þrjú; Staðarhverfið er vestast og Járngerðarstaðahverfi í miðið. Það austasta er hér, Þórkötlusstaðahverfið. Í byrjun 19. aldar voru íbúar allra hverfanna 185 talsins.

Þjóðsagan segir að Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. „Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi.” Segja fróðir menn að það hafi gengið eftir. Leiði kvennanna má sjá í hvoru hverfi. Þorkötluleiði mun vera á túninu austan Þórkötlustaðavegar nr. 11 sem og dysjar hunds og smala.

Þorkötludys

Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið Grindavík, líklega um 934. Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Líklegt má telja að byggðin hafi horfið um tíma. Um 1150 var mikið gos austan (Ögmundarhraun) við Grindavík og aftur um 1188. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að vestanverðu. Um 1211 færðist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Arnarseturshraun ógnuðu byggðinni.
Þórkötlustaða er fyrst getið í heimildum í rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270. Staðsetningin freistaði stólsins einkum vegna nálægðar við góð fiskimið. Hér þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum. Minjar fiskverkunar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. í Slokahrauni hér austan Þórkötlustaðahverfis og í Strýthólahrauni hér úti á Þórkötlustaðanesi. Landamerki Þórkötlustaða og Hrauns liggja um Slokahraun. Þar eru leifar margra fiskigarða (Hraungarðar). Garðarnir liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið mynstur. Hleðsluhæðin er milli 0,5-1,0 m.
 

Hermann gefur á garðann í Buðlungu

Í gömlum heimildum er getið um „gömlu Hraunsvör“. Á hún að hafa horfið er bænhús á Hrauni var lagt af skömmu eftir 1600. Kirkja mun hafa verið þar jafnvel frá því um 1200. Á 19. öld reru Hraunsmenn frá Nesi, en um 1840 hóf Jón Jónsson hreppsstjóri að láta gera vör sunnan undan túninu við bæinn. Enn má sjá hluta að gömlum hlöðnum túngörðum á Hrauni, en fyrir þá fékk Jón m.a. Dannebrogsorðuna.
Norðan vegarins ofan við Hraun er hóll og á honum hleðsla; Hraunsdysin. Þar segja kunnugir að hafi verið dysjaðir „Tyrkir” er drápust eftir að þeir gengu á land ásamt félögum sínum utan við Hraun 1627. Segir sagan að strákur frá Ísólfsskála hafi reynt að komast undan þeim á rauðri meri, þeir náð í taglið á henni en sú rauða þá sett hófana í þá með þeim afleiðingum að báðir drápust.

Árið 1703 voru Þórkötlustaðir enn eign Skálholtsstaðar. Bærinn hafði selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. Hjáleigur voru; Eyvindarhús, Ormshús, Eingland (Einland), Klöpp, Buðlunga og tómthúsið Borgarkot. Ekki er vitað hvar Ormshús eða Borgarkot voru. Áður var hjáleigan kölluð Lundun. Árið 1847 hafði hjáleigan Lambúskot bæst við, en 1787 voru Þórkötlustaðir komnir í þrjá hluta (austurpart, vesturpart og miðpart). Þríbýli var á Þórkötlustöðum lengst af á 19. öldinni. Heimræði var árið um kring. Sjávargötunar þrjár (Traðirnar) liggja niður að sjó milli bæjanna. Lending var dágóð á Þórkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi voru í Nesinu, m.a. selalátur. Sjórinn gekk á túnin og braut land að framan. Árið 1840 náðu þau rétt upp fyrir Þórkötlustaðaveginn, sem nú er. Þorkötludysin var þá utan garðs. Flestar túnbæturnar ofar í hverfinu eru tiltölulega nýlegar.

Þórkötlustaðagata í Slokahrauni

Nú eru Þórkötlustaðabæirnir tveir, Miðbær og Vestari-Vesturbær. Áður voru þarna einnig Vesturbær, sem stóð á milli Miðbæjar og Vestri-Vesturbæjar, og síðan Austurbær og Eystri-Austurbær, sem báðir stóðu austan við Miðbæinn.
Þórkötlustaðbrunninn sést á túnakorti frá 1918, norðan Miðbæjar. Hann var fallega hlaðinn, en síðar fylltur möl.
Álagasteinninn Heródes er innan garðs Vesturbæjar. Sagnir eru um að steininn megi hvorki færa né raska á nokkurn hátt. Fornar rúnir eða tákn er markað á hlið steinsins.
Þórkötlustaðir - hinn forni bæjarhóllÍ rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 segir Brynjúlfur Jónsson að á Þórkötlustöðum átti að byggja heyhlöðu í bæjarhúsaröðinni. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Eldfjallaska ofan á gólfskálinni benti til þess að bærinn hafi lagst í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Samkvæmt hugmynd Brynjúlfs virðist þarna hafa verið um fornaldaskála að ræða. Nú er hlaðan horfin.
Tóftir bæja og gamlir kálgarðar eru allt um kring. Tóftir elstu Klappar og gömlu Klappar eru t.a.m. enn greinilegar.
Hleðslur úr torfi og grjóti sýna torfbæ eins og hann var allt fram á 20. öld. Tóftir Hraunkots eru austast í túninu, við túngarðinn. Mikið flóð 1925 tók af nokkur hús á svæðinu austast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar.
RanCap Fagnetdeiðarstígur (Eyrargata) var gata milli Hrauns og Þórkötlustaða með ströndinni. Ofar í Slokahrauni sést enn móta fyrir Hraunkotsgötu og Þórkötlustaðagötu. Hraunkot byggðist frá Hrauni og reri ábúandinn þaðan.

Við Skarfatanga hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði þar aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki hér á landi. Þrjátíu og átta mönnum var bjargað í land.
Ofan hverfisins má sjá mikla steingarða til austurs. Þá hlóð að miklu leiti Þorsteinn Þorsteinsson frá Einlandi um 1930. Þeir hafa haldist nokkuð vel og verið haldið við.
Aðrar áhugaverðir minjastaðir eru og við hverfið, s.s. „Tyrkjahellir” utan í Vatnsheiði, hlaðnar refagildur ofan við Hraun, hlaðnir brunnar og kapella frá miðöldum á Þórkötlustaðabæirnir fyrr á 20. öldinniHraunssandi.“
Í ferðinni miðluðu nokkrir innfæddir Þórkötlustaðabúar af þekkingu sinni og reynslu. Ólafur Rúnar Sigurðsson sagði t.a.m. frá uppvaxtarminningum sínum í Austurbænum, þær stöllur Anna og Sólveig að Þórkötlustöðum 3 (vestari Vesturbænum) buðu gestum orkusnakk og leyfðu þeim að skoða álagasteininn Heródes sem stendur í garði þeirra. Fram kom í samtali stuttu síðar eftirfarandi fróðleikskorn. „Kunnugur á svæðinu kom einhverju sinni að Vesturbæ með tvo ferðamenn. Hann langaði til að sýna þeim Heródes. Áður
 hafði hann átt samræður við steininn, sem jafnan hafi sýnt honum inn í óorðna atburði. Þessu sinni þagði steinninn. Aðkomumaður vék frá, en kom aftur að steininum skömmu síðar. Þegar hann beygði sig niður að steininum og snart hann sá hann hvar hann hafði litla biblíu í brjótsvasanum. Tók hann bókina úr vasanum og náði þá þegar sambandi við steininn. Sagði sá að þá þegar hafi Hekla gosið. Þau undur og stórmerki áttu og að hafa gerst að gosið færði vatn það er átti að hafa verið á fjallinu upp með gosstróknum í heilu lagi svo sá undir botninn. Slíkur væri kraftur steinsins.

Heródes

Gamla ljósmyndin af Þórkötlustaðatorfunni er tekin á bilinu 1943-8. Fremst má sjá Austurbæinn, en austari Austurbærinn er til hægri og utan myndarinnar. Sjá má hrútakofann við enda bæjarins, gamla Miðbæinn og þá Miðbæinn, sem enn stendur. Þá tekur við Vesturbærinn, sem nú er horfinn og vestari Vesturbærinn. Að handan sést í Sólbakka. Milli hans og vestari Vesturbæjar (t.v.) er fjárhús frá Austurbæ. Þá bjuggu í Austurbænum þau Ólafur Þorleifsson og Ragnheiður Jónsdóttir. Fyrri kona Ólafs, Þórlaug, ljósmóðir, var þá látin. Þau áttu saman Láru, en börn Ólafs og Ragnheiðar voru Þórlaug, Kristinn og Jón. Ólafur, sonur Þórlaugar, kom einmitt þessari ljósmynd á framfæri við FERLIR, en hún er einstök fyrir margra hluta sakir; í fyrsta lagi sýnir hún gömlu Þórkötlustaðatorfuna utan austari Austurbæ og í örðu lagi sýnir hún aftakendur torfhúsa landans frá fyrstu tíð. Þau voru óeinöngruð, með einfalt gler í gluggum og segja má að baðstofumenningin fyrrum hafi verið flutt svo til óbreytt inn í þau nýju híbýli. Í húsunum var eldhús með kamínu þar sem fyrir var viður og hrossatað (og besta falli kol) til upphitunar, búr innan af (yfirleitt úr torfi og grjót) og síðan baðstofa sem sameinaði borðstofu, setustofu og svefnaðstöðu. Fólk sat áfram á fletum sínum og mataðist uns birtu þraut. Skepnukofar voru samfastir húsunum, svo sem heyra mátti dag og nótt.
Líklegt má telja að steinninn með tákninu tengist fyrrnefndum fornmannatóftum á bæjarhólnum að Þórkötlustöðum sem og Þórkötludysinni ofan garðs (fyrrum).
Loftur Jónsson lýsti örnefnum eins og hann væri að lýsa einföldum mataruppkriftum – svo vel þekkir hann til staðhátta á svæðinu, kvótakóngurinn og fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson upplýsti viðstadda um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir og er þá allt meðtalið. Erling Einarsson sagði frá fyrstu minningum sínum í kjallarnum á Eyvindarstöðum, sem nú hafa verið flutt í heilu lagi út í Járngerðarstaðarhverfi líkt og nokkur önnur hús á torfunni. Þá mátti litlu muna að hann missti ekki verri handlegginn í þvottavélavindunni, en ekki er langt um liðið að hann missti næstum betri handlegginn í kollbyltu á Selfjalli ofan við Brúsastaði í Þingvallasveit.
Hinir miklu túngarðar í ÞórkötlustaðahverfiLoftur sagði frá verslun Þórkötlustaðahverfinga; Kron og Kötlu sem og Pöntunarfélagi Hraðfrystihúss Þórkötlustaðahverfis og hversu áræðnir hverfingar voru að brjótast undan verslunaráhrifum Járngerðishverfinga. Á leiðinni bauð Hermann Ólafsson í Stakkavík þátttakendum í fjárhús sín við Buðlungu og fengu allir þeir er enn teldu sig vera börn að gefa uppáhöldunum brauð á garðann. Margir voru til kallaðir, enda fjárhúslyktin flestum hverfisbúum ómeðvitað í blóð borin. Þess má geta til gamans að talið er að fjárhirslan við Buðlungu sem og það, sem Stakkavíkurbændur eiga í Staðarhverfi, geti vel verið útibú frá Seðlabankanum. Lengi hefur verið leitað að fjárgeninu í bændum landsins, en líklega væri fljótvirkasta og vænlegasta leiðin að leita þess hjá Grindavíkurbændum.
Loftur, helsti ráðgjafi og þekkjari staðhátta á svæðinu, gat þess að lokum að jafnan hafi Grindavíkurbændur verið handgengnir útvegnum; sótt sjóinn, átt nokkrar kindur og 2-3 kýr. Þeir hafi jafnan unað glaðir við sitt og því væri varla frá miklu meira að segja, en hér hefur komið fram.
Að endalokum bauð Báruverslunar-Björn (afkomandi Hafur-Björns) og Didda til mikillar kjötsúpuveislu að Auðsholti, að gömlum réttardagslegum sið. Fyrir það ber að þakka.

Gangan tók 1 klst og 41 mín.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi

Kirkjan í Grindavík var á Stað í Staðarhverfi fram til 1909. Þá var hún flutt yfir í Járngerðarstaðar-hverfi þar sem hún hefur verið síðan – að vísu á tveimur stöðum.
KirkjugatanKirkjugatan frá Hrauni og Þórkötlustaða-hverfi lá yfir norðanvert Þórkötlustaða-nesið, um Gjána og framhjá Vatnsstæðinu að Rifsósi, eiðinu er lokaði Hópið af að utanverðu. Síðar, á fjórða áratug 20. aldar og síðar, var opnað inn í Hópið, rásin breikkuð og dýpkuð og eiðið þar með fjarlægt að mestu. Jafnan var gengið um ósinn væri hann fær. Sú leið var styttri. Kirkjuhóll (Kirkjuhólar) voru á norðaustanverðri Gjárbrúninni á leiðinni frá Þórkötlustöðum framhjá Hópi að Járngerðarstaðarhverfi. Nokkru sunnar er Gjáhóll, sunnan götunnar, og sést hann enn – gróinn í kollinn. Á fyrstu árum 20. aldar byrjuðu Hópsmenn að opna ósinn inn í Hópið, bæði til að koma bátum sínum í betra skjól og einnig til að stytta sjávargötuna. Hópsvörin var áður utan við rifið og sést hún að hluta til þrátt fyrir miklar framkvæmdir við varnargarða á umliðnum árum. Í lok fjórða áratugarins var hafist handa við að grafa ósinn enn frekar og opna öðrum bátum leið inn á leguna í Hópinu – þar sem núverandi höfn er nú. Kirkjugatan yfir Nesið, eins og sýnt er á meðfylgjandi mynd, lagðist því af í byrjun síðustu aldar. Ummerkin um hana sáust þó lengi á eftir, m.a. á meðfylgjandi ljósmynd frá 1942. Garðarnir á myndinni eru seinni tíma matjurtargarðar Þórkötlustaðarbúa.
Þórkötlustaðanesið 1942Gjáin er hrauntröð frá því að hraunið, sem myndaði Þórkötlustaða-nesið-/Hópsnesið, rann fyrir nálægt 2400 árum. Hún er að mestu heil að sunnanverðu, en á norðanverðu Nesinu hefur hún verið fyllt. Loftmynd, sem tekin var árið 1942 sýnir braggabyggð í þeim hluta rásarinnar, en hann var síðar notaður fyrir ruslahaug og þá fylltur. Segja má að þar hafi Grindvíkingar sagt amen eftir efninu. Kirkjugatan hafði þá verið aflögð, en ruslahaugar komnir í götustæðið. Eldsneytisgeymar (Esso) eru skammt norðvestar. Sunnan þeirra lá gatan yfir hæðina.
Gatan sést enn á stuttum kafla sunnan undir hraunbakka á norðaustanverðu Nesinu þar sem hún liggur vestur yfir það. Hlaðið er um kálgarða utan í kantinum. Innan hans eru tveir aðrir minni garðar. Austari garðurinn hefur verið settur ofan í götuna. Vestan hans lá gatan upp geil í hæð og sést hún enn þar sem hún lá upp lága hæðarbrún. Handan þess hefur svæðinu verið raskað, bæði með sorphaugunum, mannvirkjunum og sáningum. Þegar komið er upp á brúnina sést gatan enn þar sem hún lá niður mosahraunið í átt að Vatnsstæðinu og framhjá því, með stefnu að ósnum fyrrverandi. Handan þess taka við hlaðnir garðar, malarvegur og meira rask við Síkin. Sunnan þeirra voru sjóbúðir Hópsmanna. Enn má sjá kofatóftir við Síkin.
Eftir að kirkjan var endurreist í Járngerðarstaðahverfi styttist kirkjugata Hrauns- og Þórkötlustaðahverfisbúa verulega.
Hópsnesið - gatanÁ fyrrnefnda staðnum var rekið myndarbýli á 19. öld. Um 30 manns voru þar í heimili. Til samanburðar voru 32 í heimili á Járngerðarstaðabæjunum tveimur árið 1901. Þórkötlustaðabæirnir þrír voru einnig mannmargir, en auk þeirra voru jafnan þrír aðrir bæir í hverfinu frá því í byrjun 19. aldar; Einland, Klöpp og Buðlunga. Íbúar voru að jafnaði um 30 talsins. Auk þessara bæja sótti fólkið á Ísólfsskála (Ýsuskála) kirkju á Stað og síðar Járn-gerðarstöðum. Allt hefur þetta fólk fetað kirkjugötuna meira og minna reglulega yfir Nesið, sem enn sést – að hluta. Prestarnir, Kristján Eldjárn Þórarinsson, Geir Bachmann og Oddur Gíslason, virðast hafa haft það aðdráttarafl í þá tíð er dugði til að draga þreytta fætur austlægra Grindvíkinga alla leið vestur yfir Nesbrúnina – og þurfti þá mikið til.
Grindvíkingar hafa ávallt verið trúrækið fólk, enda fylgir trúin sjómennskunni. Gamla gatan, sem hér hefur verið lýst, bar þess líka merki. Á loftmyndinni, sem tekin var árið 1942, sem fyrr sagði, sést kirkjugatan mjög vel þar sem hún liggur á ská þvert yfir hana. Myndin er því miklu mun merkilegri en ella. Leiðin lagðist af með tilkomu akvegarins skammt norðar og nú má berja augum. FERLIR gekk leiðina fyrir skömmu og skoðaði sérstaklega þá hluta hennar er enn sjást. Ljósmyndir voru teknar og það markverðasta skráð.
Brátt mun þessi gamla kirkjugata heyra sögunni til – eins og svo margt annað.

Heimildir m.a.:
-Loftur Jónsson.
-Ljósm./rétth.: Sævar Jóhannesson.

Þórkötlustaðahverfi

Kirkjugatan.

 

Sloki

Gengið var um Slokahraun eftir svonefndum Eyrarvegi er náði frá vesturtúngarðinum á Hrauni og með ströndinni út í Þórkötlustaðanes. Sigurður Gíslason á Hrauni, sem nú er orðinn blindur að mestu, lýsti leiðinni nákvæmlega áður en lagt var af stað. Með í för var sonur hans, Gísli Sigurðsson.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar lá Eyrarvegur austan við svonefndar Hrossbeinalágar. Ofan við þær er varða og hóll, Sögunarhóll. Þar undir lá gatan áfram inn á hraunið, yfir að Klöpp og síðan áfram suður í Nes. Bæirnir í Klöpp og Buðlunga stóðu framar í kampinum og var gatan skammt neðan við bæina sjávarmegin sem og Þorkötlustaði. Út frá ströndinni var um 500-600 m sandfjara, sem nú er horfin. Gatan fór síðan upp fyrir kampinn í Bótinni. Þar var nefnt Skarð, sem nú er fyrir neðan Sólbakka. Eftir flóðið 1925 flæddu bæirnir vestast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar á túnin. Fjörusandinum var síðar mokað í burtu (eftir 1930) og sjórinn hætti að fága steininn í Klapparfjörunni. Eftir það hafði hann einungis berar klappirnar til að leika sér að.
BuðlunguvörUndir kampinum neðan við Buðlungu eru Vötnin, en svo var sjá staður nefndur þar sem ferskt vatn flæðir undan klöppunum. Skiptivöllurinn var skammt austar, upp af Buðlunguvörinni. Næsta lón vestan við vörina hét Svalbarði. Hjálmar á Þórkötlustöðum lenti oft upp í Svalbarði á leið inn í vörina og braut þá skip sín þar meira og minna. Stórgrýti er undan klöppinni.

Byrgin og garðarnir vestan við Hraunstúnið eru minjar fiskverkunar frá Hrauni. Mannvirkin voru líka mikið notuð frá Skálholtsbiskupsstól. Garðarnir suður í Nesi voru einnig allir meira og minna byggðir frá Hrauni. Skálholt var jafnan með eitt eða tvö skip á Hrauni. Þau lentu einnig suður í Nesi eins og Hraunsskipin, en frá bænum voru einnig jafnan tvö skip úti Nesi.

Slok

Varða við Sögunarhól.

Sögunarhóll er þar sem varðan er. Rekaviðurinn úr fjörunni var sagaður þar úr rekanum. Voru menn stundum heilu dagana að saga og vinnan viðinn. Þeir geymdu sýru í vörðunni til að hafa eitthvað að drekka. Hún er hol á innan og þar var sýran geymd.
Þegar komið var að byrgjunum og görðunum austast í Slokahrauni mátti sjá að mannvirkin eru misheil. Hraunið er hins vegar mjög gróft og því hafa hleðslurnar haldið sér nokkuð vel. Þær eru á afmörkuðu svæði ofan við Markabás. Hann er landamerki Þórkötlustaða og Hrauns. Hádegisklettur er austan við Markabás og Hádegistangi fram af honum og út í sjóinn. Þá kemur Skarfaklettur, en hann er sennilega best sýnilega kennileitið í fjörunni. gengur talsvert langt út í sjó.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á strandsstað.

Við Skarfaklett hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust og komust inn í Blásíðubás um síðir. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði sunnan undir Skarfatanga aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki, og tókst notkun þeirra sem best varð á kosið. Þrjátíu og áta mönnu var bjargað í land. Nokkur eftirmáli urðu af strandinu, sum harla spaugileg.

Slok

Slokahraun – fiskbyrgi.

Vestar í hrauninu eru aðrir garðar, sumir verulega háir. Þessir garðar voru notaðir af austurbæjunum í Þórkötlustaðahverfi, en auk Klappar, Buðlungu og Þórkötlustaðabæjanna þriggja má þarna telja Einland, Móa og nokkur kot, s.s. Hraunkot. Þessir garðar voru einnig notaðir til fiskverkunar.
Til er lýsing á flóðinu mikla árið 1925. Þá urðu bæirnir við ströndina umflotnir vatni, fiskur og þang flutu langt á land upp og hús brotnuðu í atganginum. Á einum bæjanna rifnaði fjósið frá og sjá mátti þarfanautið fljóta baulandi á brott út í iðuna á bás sínum. Eftir þetta voru bæjarhúsin færð lengra á land upp, sem fyrr segir í lýsingu Sigurðar.

Eyrargata

Eyrargata.

Út af Slokanum er talið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Þá fórst Þuríður formaður þar með allri áhöfn. Slokin draga nafn sitt af slokrhljóðinu er sjórinn skellur undir hraunhellunni, sem hann hefur safnað lábörðu grágrýtinu upp á í háan kamp.

Þegar Eyrarvegurinn var genginn til vesturs, í eins líkum farvegi og unt var, mátti vel gera sér í hugarlund hvernig sjómennirnir gengu þessa leið árla morguns fyrr á öldum, hljóðlega og án óþarfa skrafs, sem einkennir suman nútímanninn, í einfaldri röð og sá fremsti haldið á lukt með kolu í. Lagt hefur verið af stað um kl. 4 að morgni og gangan út í Þórkötlustaðanesið varaði í u.þ.b. klukkustund. Þegar staldrað var við á Slokatá, austast á Slokanum, og litið til baka mátti næstum því sjá sjómennina líða þar um veginn, hægt og hljóðlega.
Frábært veður. Birtan var ógleymanleg. Þetta var eitt af þeim augnablikum lífsins, sem aldrei gleymast.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesskagi

Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:

Sjávarhæð

Sjávarhæð – mismundur.

„Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.

Landnám Ingólfs

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.
Ós árinnar hefur hlaupið til og frá í tímans rás.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll.
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.

Selvogur

Selvogur

Selvogur.

Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir. Borgirnar eru nú nánast komnar undir kampinn.

Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).

Herdísarvík

Herdísarvík. Sjórinn hefur rofið grandann milli sjávar og Tjarnarinnar.

Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.

Grindavík

Grindavík

Grindavík.

Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir nýlega loftmynd. Gamli brunnurinn er kominn undir kampinn. ÓSÁ

Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.
Sjórinn hefur brotið framan af Nesinu.

Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin“. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,“ segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur.

Staðarhverfi

Staðarhverfi suðvestan við Grindavík. Litlagerði og Kvíadalur er nú nánast komnir í sjó fram.

Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,“ en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi“. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.“ Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.“ Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.

Staður

Staðarhverfi.

En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru.

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.

Hafnir

Hafnir

Hafnir.

Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.

Miðneshreppur

Stafnes

Stafnes.

Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það „af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.“

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.“ Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.“
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.“

Básendar

Básendar

Básendar.

Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðan, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint.

Básendar

Básendar. Land, sem áður var gróið, er nú nánast horfið.

Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.

Másbúðir

Másbúðir

Másbúðir.

Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“

Másbúðarhólmi.

Másbúðarhólmi var áður landfastur.

Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.“

Sandgerði

Sandgerði.

Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti“. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir“. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði. Sjórinn hefur verið að grafa sig inn í kirkjugarðinn.

Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.

Gerðahreppur

Gerðahreppur

Gerðahreppur.

Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.“ Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: „Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).“

Garður

Vatnagarður – loftmynd 2022. Sjórinn brítur ströndina.

Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið.

Garður

Garður – kort 1903.

Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina“. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni.

Leiran

Leiran – loftmynd.

Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.

Keflavík og Njarðvíkur

Keflavík

Keflavík.

Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.

Bergsendi

Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.

Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur.

Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
VogarJarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,“ og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.“ (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)

Garðahreppur

Garðahreppur

Garðahreppur.

Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina“ og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga“.

Bessastaðahreppur

Álftanes

Bessastaðahreppur.

Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, „og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn“. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.

Álftanes

Álftanes – kort frá 1796.

Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.

Álftanes

Álftanes 2021.

Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.“ Höfn þessi er nú ekki lengur til.

Sjávarvíkur, sem heita tjarnir

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.

Hlið

Hlið – Álftanesi.

Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.“ Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.

Melshöfði

Álftanes

Álftanes – Melshöfði. Gömlu verbúðirnar eru nú komnar út í sjó.

Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.

Laug í fjörunni

Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part af engjunum.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.“ Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.“

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.

Niðurlagsorð

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

Víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.

Selvogur

Selvogur – fjaran.

Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Árni Guðmundsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1993 skrifar Ólafur Rúnar Þorvarðarson frásögn Árna Guðmundssonar frá Teigi um komu hans í franska fiskiskútu á þriðja áratug síðustu aldar utan við Þórkötlustaðahverfi undir fyrirsögninni „Um borð hjá Frönsurum“.

Ólafur Rúnar

Árni hafði frá mörgu að segja eftir áratuga langa sjómennsku og fer frásögn hans hér á eftir.

„Það mun hafa verið nálægt sumarmálum, að við héldum út á Fasæli síðla dags að leggja línu. Línan var venjulega látin liggja yfir nóttina og dregin næsta dag, ef veður leyfði. Við vorum fjórir á bátnum, sem var opinn vélbátur. Veður var gott, og er við höfðum lagt, héldum við áleiðis til lands. Engir bátar eða skip voru á miðunum í nánd við okkur utan ein skúta sem var á færum og hélt sig nærri þeims lóðum, er við höfðum byrjað að leggja línuna.
Nálguðumst við nú skútuna og sáum að þar var mannskapur uppi. Voru uppi getgátur háseta minna um það hverrar þjóðar þeir menn kynnu að vera, uns við veittum því athygli að frakkaklæddur maður með hatt á höfði byrjaði að veifa og kalla til okkar. Ég hafði á orði að líklega vildi hann okkur eitthvað þessi og rétt væri að athuga það nánar. Ekki leist mínum mönnum meira en svo á það tiltæki, en ég bað þá að bíða rólega á meðan ég færi um borð og lögðum við svo að skútunni.

Árni Guðmundsson

Farsæll GK 56, sem Árni í teigi og bræður hans gerðu út frá Þórkötlustaðahverfi. Um borð er talið frá v: Vilmundur Daníelsson frá Garbæ, Þorkell Árnason frá Teigi og Guðmundur Guðmundsson bróðir Árna formanns.

Sá frakkaklæddi tók á móti mér þegar ég kom upp á þiðjur, tók undir hönd mér og leiddi mig niður í káetu. Þóttist ég vitað að það færi skipstjórinn. Býður hann mér að setjast, og hellir í tvö staup. Gerum við vegunum góð skil og af málfari hans og bendingum ræð ég að þeir séu franskir sjómenn. Ekki var frönskukunnáttu minni mikið fyrir að fara en eftir eitt eða tvö staup til viðbótar vorum við þó farnir að skilja hvor annan nóg til þess að ég þóttir vita erindi hans. Var það í því fólgið að biðja mig um að koma fyrir sig skeyti til franska konsúlatsins á Íslandi. Sem við sitjum í káetunni, kemur þar niður hávaxinn maður, sem ég áleit vera stýrimann skútunnar. Taka þeir skipstjóri tal saman og fer sá fyrrnefndi upp að því loknu. Settist skipstjóri nú við skriftir. Fékk hann mér síðan bréf í hendur og héldum við svo upp á þilfar.

Árni Guðmundsson

Frönsk skúta líkri þeirri er fram kemur í viðtalinu.

Skúta þessi var frekar lítil en tvímastra. Heldur fannst mér aðbúnaður bágborinn um borð. Ég tók eftir því að hásetarnir voru berhentir við færin. Höfðu þeir aðeins skinnpjötlur í lófunum og voru hendur þeirra bólgnar og kaunum hlaðanar eftir langa útivist. En þeir höfðu aldeilis ekki setið auðum höndum á meðan ég var niðri í káetu hjá skipstjóranum. Kom nú í ljós hvert erindi stýrimaður hafði átt niður því þegar ég var að stíga af skipsfjöl, sá ég að búið var að koma um borð í bátinn okkar tveim pokum af kartöflum ásamt talsverðu af kexi og rauðvíni.
Árni GuðmundssonMér þótti nú leitt að geta ekki launað þeim þetta með einhverjum hætti og eftir að hafa rætt málið við drengina mína var ákveðið að gefa þeim sjóvettlingana sem við höfðum meðferðis. Voru það fimm pör, sem þeir þáðu með þökkum. Ég vildi nú bæta þeim þetta upp enn frekar og varð því að samkomulagi með okkur að hittast aftur á svipuðum slóðum næsta dag. Yfirgáfum við síðan skútumenn og héldum til lands. Hafði ég í huga að færa þeim fleiri pör af vettlingum eða einhvern annan ullarfatanð. Færði ég þetta í tal við konu mína þegar heim kom og var það auðsótt mál.
Með birtingu morguninn eftir vaknaði ég við það, að farið var að hvessa af austri. Beið ég þá ekki boðanna, en kallaði á hásetana mína saman í hvelli. Þegar við komum út á miðin fórum við strax að darga. Vindur fór vaxandi og við höfðum ekki verið lengi við línudráttinn er við sáum skútuna koma siglandi austan að fyrir fullum seglum. Stefndi hún í átt til okkar, en sveigði af leið er nokkrar bátslengdir voru á milli og hélt til hafs. Veifuðu þeir frönsku í kveðjuskyni enda ekki tiltök að komast um borð vegna veðursins. Skildi þar með okkur og höfðum við ekki meira af þeim að segja. En skeytinu komum við áleiðis og vonandi hefur það ratað rétta boðleið.
Lýkur hér frásögn Árna Guðmundssonar.
Frösnku skúturnar, er stunduðu víðar á Íslandsmiðum fra á þessa öld, voru einkum frá bæjunum Paimpol og Dunkerque. Þyngst var sókn þeirra hingað á ofanverðri 19. öld og fram að árum fyrri heimstyrjaldar. Voru á því tímabili oftast 150-350 skútur árlega á Íslandsmiðum. Eftir það fór þeim ört fækkandi og samkvæmt heimildum er síðast getið franskrar fiskiskútu að veiðum hér á landi árið 1938.“ – ÓRÞ

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1993, Um borð hjá Frönsurum, Ólafur Rúnar Þorvarðarson, bls. 32-33.