Færslur

Hópsnes

Gengið var austur Hópsnesið frá Nesi og yfir á Þórkötlustaðanes, að þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni vestan við Þórshamar. Í þessari ferð var m.a. ætlunin að rifja upp sjóskaðana, sem orðið hafa á Nesinu sem og fiskverkun fyrri alda, en í Strýthólahrauni má enn sjá minjar hennar.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

En þar sem lágsjávað var og tært vatnið streymdi undan hrauninu í Hópið þar sem fyrrum var vatnslind ábúenda á Hópi og þvotturinn og ullin voru þvegin, var staldrað við og fyrirbærið skoðað nánar. Það heitir Vatnstanginn. Straumurinn var stríður og líklegt má telja að hann hafi áður verið ein helsta ástæða búsetu á Hópi. Hugmyndir manna hafa verið þær að þar hafi einn sona landnámsmannsins Molda-Gnúps Hrólfssonar sest að, eða jafnvel hann sjálfur, við komu sína í Víkina eftir að hafa áður dvalið austar með landinu.
Ofan við Hópið eru gamlar búsetuminjar. Sjá má jarðlægar tóftir og garða í túninu. Þar eru og sundvörður eða innsiglingavörður, vel við haldið. Sú neðri heitir Svíravarða og hin Stamphólsvarða, sem lengra var uppi í landi. Stamphólsgjá er skammt vestan við hana, en sú gjá gekk niður í gegnum Járngerðarstaðahverfið, en hefur nú að mestu verið fyllt upp, nema efsti hluti hennar. Nú er hins vegar búið að skipuleggja nýtt hverfi á gjáarsvæðinu og ekki er ólíklegt, ef byggt verður yfir gjána, að þar kunni eitthvað að gliðna síðar.

Strýthólhraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Síra Geir Backman lýsir þessum tveimur vörðum sem og Heiðarvörðunni á Hópsheiði er var mið í Járngerðarstaðasundið ásamt Sundvörðunni er komið var austan að. Sundvarðan var á sjávarkambinum austan við sundið. Allar þessar vörður eru til enn þann dag í dag, en Sundvarðan, sú sem hefur verið næst sjónum, hefur látið mest á sjá.
Hópsnes er nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Vitinn, Hópsnesviti, er fremst á Nesinu, en er á Þórkötlustaðanesi. Landamerkin eru u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann, í landamerkjastein, sem þar er. Klappað er í hann stafirnir LM og eiga þeir að sýna landamerkin. Hópsnesviti var reistur 1928. Áður en haldið var inn eftir Hópsnesinu til að huga að og rifja upp skipsskaðana var komið við í sjóbúðinni skammt austan við Nes. Hún er á grónum hraunhól við Síkin. Utan við Síkin voru áður sjóbúðir frá Hópi, en þeir fóru forgörðum þegar varnargarðarnir voru reistir. Enn sést þó móta fyrir Hópsvörinni utan við þá, einkum á fjöru.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. Þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.

Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld.

Hópsnes

Skipsbrak í Hópsnesi.

Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.

Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbátuirnn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á starndsstað.

Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Blásíðubás

Blásíðubás.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.

Hópið

Hópið – Vatnstangi nær.

Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan.

Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi. Þá er ferð um Nesið lýst í FERLIR-473.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.
Menningararfurinn er afar áhugaverður. Uppruninn og ræturnar eru við fæturna, hvert sem farið er – ekki síst í og við Grindavík.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór 1994.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Þórkötlustaðir

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2006 er m.a. frásögn Benónýs Benediktssonar, fyrrverandi formanns Verkalýðsfélags Grindavíkur, um “Sjóferð úr Þórkötlustaðanesi í nóvember 1938”. Þar segir m.a.: “Haustið 1936 höfðu bræðurnir á Þórkötlustöðum, þeir Benedikt og Guðmundur, látið byggja fyrir sig bát. Báturinn var smíðaður í Staðarhverfi af Kristjáni frá Reynistað. Hann var skírður Svanur og bar einkennistafina GK428.

Benóný Benediktsson

Ógæftir höfðu verið miklar þetta haust. Ég vaknaði stundum á nóttunni þegar Guðmundur var að ganga stigann á Þórkötlustöðum. Þá var hann að líta á veðurútlit. Svo var það nótt eina undir lok nóvembermánaðar að Guðmundur ákvað að róa og það þrátt fyrir að veðurútlit væri tvísýnt. Hann kallaði saman mannskapinn með því að ganga á milli húsa og banka á glugga, bankað var á móti til að gefa til kynna að viðkomandi væri vaknaður.
Fundinn var til biti til að hafa með á sjóinn og að því loknu hófst skipsgangan sem var kortersgangur frá Þórkötlustöðum í Þórkötlustaðanes. Gangan gat verið torfær í svarta myrkri því það var bara fjósluktin til að lýsa sér með. Þegar komið var í Nesið fór Guðmundur í ískofann og rétti mönnum bjóðin.
Ískofinn var hlaðinn úr torfi og grjóti og reft yfir með timbri og járni og torf látið á þakið. Að innan var búinn til kassi sem var klæddur að utan með timbri en með sléttu járni að innan og timburlok yfir. Haft var ca, 15-320 sm millibil milli trés og járns. Reynt var að fá snjó í kofana í fyrstu snjóum á haustin og var oft mikið kapphlaup að vera fyrstur til að ná sér í bíl því bílar voru ekki á hverju strái á þessum tíma. Til að fá frost í kassann var blandað saman salti og snjó og var það sett í rýmið sem myndaðist milli trés og járns. Þetta þurfti að endurtaka með 2-3 daga bili svo að frost héldist í kælinum.

Þórkötlustaðir

Þegar bjóðin höfðu verið handlöguð upp úr ískofunum var þeim lyft upp á herðar á mönnum og þau borin niður á bryggju. Næsta verk var að setja niður bátinn, sem var í nausti. Oft var þetta erfitt verk. Þegar báturinn var kominn niður í vör þurfti að sæta lagi til að ýta á flot og þurftu þá menn að vera fljótir að koma sér um borð. Því næst var frið að bryggjunni og bjóðin tekin um borð.
Ekki var róið langt enda veðurútlit ekki gott og því var línan lögð um hálftíma siglingu frá Þórkötlustaðanesi. Heldur hafði vindur aukist á lagningunni og var orðið allhvasst þegar búið var að leggja línuna og var því ekki látið liggja lengi. Byrjað var að draga þó að enn væri svarta myrkur.

Bryggjan

Þegar heimsiglingin hófst var komið suðaustan rok og aðgæsluveður og var því siglt til lands á hægustu ferð [vél var í bátnum]. Í þessum bátum voru yfirleitt fornvélar og þurfti að passa vel að ekki kæmist raki að þeim.
Heimsiglingin gekk vel og var Svanurinn kominn að landi um hádegisbil. Afli í þessum róðri var aðeins nokkrir fiskar enda var mjög stutt lega á línunni.
Þegar að landi var komið þurfti fyrst að fara að bryggjunni til að losa fisk og bjóð. Oft var mikil lá við bryggjuna og þurfti þá að hafa mann til að halda í afturhaldið svo hægt væri að slaka á því þegar að álög komu. Þegar löndun var lokið þurfti að fara út á lónið og taka lag í vörina. Ekki voru þ
á fastir hlunnar og vélspilið kom síðar til sögunnar.”
Benóný er fæddur 1928. Hann var því tíu ára þegar umrædd sjóferð átti sér stað. Er frásögnin ágætt dæmi um minni og frásagnalist Þórkötlustaðabúa, sem of oft hefur verið vanmetin í gegnum tíðina.

Heimild:
-Benóný Benediktsson – Sjómannadagsblað Grindavíkur – 50 ára afmælisrit –  2006.

Bátar í nausti

Þórshamar

Jóhann Pétursson bjó um tíma í Þórshamri á Þórkötlustaðanesi. Að sögn heimamanna, sem muna þá tíma, virtist hann rammur að afli, en undarlegur í háttum. Orðrómur gekk m.a. um að hann hafi sést standa ofan sjávarkambsins mót strekkingsvindi og hvitfyssandi ölduróti, baðandi formælandi út öllum öngum. Í bók Pjeturs Hafsteins Lárussonar “Frá liðnum tímum og líðandi” er áhugavert viðtal við Jóhann þar sem hann minnist m.a. veru sinnar á Nesinu.

Jóhann Pétursson

Jóhann var bókasafnari og lengi vitavörður í Hornbjargsvita. Hann hafði óslökkvandi ást á bókum, enda ber viðtalið yfirskriftina “Ég vil að góðar bækur séu vel klæddar, eins og konur, sem ég elska”. Jóhann fæddist í Stykkishólmi árið sem Katla gaus, frostaveturinn mikla árið 1918, og ólst upp í Öxney á Breiðafirði. Hann hélt suður 1946 eða 1947, að eigin sögn, til að höndla með bækur. Þá skrifaði hann og bækur, auk þess sem hann keypti fornbókaverslun og hafði það fyrir atvinnu fram til 1960. Þá hélt hann sem vitavörður norður á Hornbjarg, þó með viðkomu í Grindavík, þar sem hann var næstu 25 árin. Hér verður gripið niður í viðtalið þar sem segir frá sögufrægu viðstaldri hans í Grindavík.
“En áður en leið þín lá vestur, varstu um tíma í Grindavík. Varð þá ekki skipsskaði á Reykjanesi, sá hinn sami og Hannes Sigfússon skrifaði síðar um skáldsöguna “Strandið”. Og varst þú ekki þar?
-Jú, það er rétt, þá var ég í Grindavík. Strandið varð á Reykjanestá, mig minnir að þetta hafi gest árið 1949. Ég fór þangað ásamt fleirum, til að taka þátt í björguninni. Skipið sem strandaði, var u.þ.b. 10.000 olíuskip. Það hét Clam. Vélin í því hafði bilað og dráttarbátur sótti það til Reyjavíkur, því ætlunin var, að sögn, að draga það til útlanda. En þegar skipið og dráttarbáturinn voru út af Reykjanei, þá slitnaði dráttartaugin. Það var ekki hvassviðri, þannig að hugsanlega hafa menn verið ákveðnir í því að láta skipið stranda. Hvað um það, skipið rak upp að klettum, þar sem var svo aðdjúpt, að maður gat gengið út á skipið á planka. Ég var fyrstur til að fara út í skipið.
Það var merkileg reynsla á margan hátt. Ég man eftir því, að fjandi margir hásetar fórust þarna. Það var ekki veðrinu að kenna. Skipstjórinn lét Clam á strandsstað utan við Reykjanessetja út bátana, en þeir brotnuðu meira og minna, ýmist uppi við skipssíðuna eða í brimgarðinum. Við vorum að reyna að draga mennina upp, einn og einn, sem komst lifandi að klettunum. Hannes vinur minn skáld, Sigfússon, náði í hárið á einum, en var svo hræddu um, að hann drægi sig niður í sjóinn, að hann sleppti honum. Þar með var sá dauður, en Hannes hljóp burt. Ég man ekki hverrar þjóðar yfirmennirnir á þessu skipi voru, en Evrópumenn voru þeir alla vega ekki, sennilega Bretar. Hásetarnir voru hins vegar Kínverjar.
Það rak mikil verðmæti úr skipsflakinu. Júlli Dan. í Grindavík var fenginn frá tryggingarfélaginu, til að hirða allt og keyra það suður. Meðal annars rak frystiklefa, fullan af dýrmætum matvælum fyrir sextíu manna áhöfn. Þessu var öllu stolið og flestu öðru, sem bjargað varð. Þetta atvik var sambland af harmleik og skepnuskap.
ÞórshamarSumir vilja meina, að þú hafir bjargað líkamsleifum drukknaðra sjómanna og að eitthvað hafi dregist að koma þeim til greftrunar. Hvað er hæft í því?
-Já, það er nokkuð til í þessu. Það rak þó nokkuð af líkum Kínverja fyrir höfðann, þar sem þau höfnuðu í vík, að sunnanverðu við nesið. Víkin er svolítið klettótt og því var erfitt að draga líkin á land. Ég man eftir því, að Hannes hafði náð taki á einu líki en missti það. Þegar það skall í sjóinn, snerist það við og andlitið blasti við mér. Þetta var dálítið óhugnanlegt, allt saman. Ég fór með líkin niður í Grindavík og vildi láta grafa þau. En því var eiginlega neitað að koma þessum dýrum í gröfina. Þó var nú endanleg útkoma sú, að þarna voru mennirnir grafnir.
Varðst þú þá að geyma líkin, meðan stóð í stappi að fá þá grafna?
-Nei, ég fór með þau í frystihúsið og þar voru þau látin vera á borðum í ákveðnu herbergi. Nú, en þarna í frystihúsinu var frystiklefi, þar sem mikið var fryst af matvælum fyrir þorpsbúa.
Sú saga komst á kreik, að ég hefði geymt líkin í Þórshamar í dagþessum klefa, innan um matvælin. Og þær voru fleiri, sögurnar, sem gengu af þessu tilefni. Ein var sú, að draugagangur hefði verið í húsinu hjá mér. Samkvæmt þessari kjaftasögu átti ég að trúa því, að draugar fældust lík. Þess vegna hefði ég tekið hauslausan Kinverja og komið honum fyrir heima hjá mér, sem draugafælu. Nei, það vatnar ekki skáldagáfuna í fólk, þegar Gróa á Leiti gengur lausum hala.
En hvað varst þú að gera í Grindavík, þegar þessir atburðir urðu?
-Það var þannig, að ég hafði keypt hús þarna í Grindavík, Þórshamar hét það. Sannleikurinn er sá, að ég fór þangað til að gera upp áhrif móður minnar á mig, en þau voru mikil. Hún var mikil trúkona, en ég efaðist í þeim efnum. Að minnsta kosti var mín trú ekki jafnstaðföst og hennar. Þettavar því ekki aðeins uppgjör við móður mína, heldur einnig við sjálft almættið. Og það gekk svo mikið á í þessu uppgjöri, að stundum æddi ég um gólf, steytti hnefa til himins og bókstaflega öskraði á Guð.
Svona haga sér nú varla aðrir en trúmenn, eða hvað?
Þórkötlustaðahverfi og Bótinn og Þórkötlustaðanes fjær-Þetta er fjandi lúmsk spurning, segir Jóhann og verður nokkuð hugsi, áður en hann heldur áfram. – Trúmaður og trúmaður. Trúa á hvern andskotann? Já, eins og ég sagði, móðir mín var ákaflega mikil trúmanneskja og hafði eflaust mikil áhrif á mig sem barn. Og einhvern veginn mótaði þetta mig. En svo mikið er víst, að þegar ég keypti húsið þarna í Grindavík og bjó þar um tíma, þá háði ég baráttu um þetta upp á líf og dauða. Eiginlega kom ég mikið heilli maður út úr þessu. En þetta var mikil tilfinningaleg og sálræn barátta.
Lendir nokkur maður í slíkri baráttu, nema trú hans sé nokkuð sterk?
-Nei, nei, svarar Jóhann. – Það er einfalt mál. Samt er þetta, að trúa sterkt, nokkuð tvírætt. Móðir mín mótaði mína trú og þessi trú varð dálítið mögnuð fyrir áhrif frá henni. En hvort trú mín var sterk út frá þeirri forsendu einni eða hinu, að hún væri algjörlega meðfædd sannfæring, það er ég ekki viss um.
Varð ekki nokkuð sögulegur endir á búsetu þinni í Grindavík?Innsiglingamerki við Þórshamar - skammt frá reykhúsinu (mynd af því mun birtast hér innan skamms)
-Jú, það er víst alveg óhætt að segja það. Þetta hús, sem ég keypti þarna, Þórshamar, var steinhús. Það var þannig, að eitt haustið ætlaði ég að breyta því. Það var veggur á milli stofunnar og eldhússins. Og á miðjum þessum vegg var skorsteinn. Ég ætlaði að stækka stofuna, með því að brjóta niður þennan vegg. En þegar ég hafði brotið hann öðrum megin við skorsteininn og var rétt byrjaður hinum megin, þá sá ég, að veggurinn féll. Í einhverju ofboði gat ég kastað mér áfram, í átt að útvegg. Í stökkinu skall veggurinn á mér, en það sem bjargaði mér, var það, að á miðju gólfinu var stór steinhrúga. Veggurinn brotnaði á þessari hlrúgu, og það mildaði höggið á mig. Engu að síður hryggbrotnaði ég og fótbrotnaði.
Þarna lá ég eins og djöfulsins aumingi. Þó gat ég skriðið út að holu, sem var uppi við reykhús, sem fylgdi húsinu. Það er nú svona útúrdúr, en ég var stundum að reykja fyrir kerlingar þarna, bæði kjöt og fisk. En ég kunni ekkert með þetta að fara og eyðilagði allan mat fyrir þeim. Nú, nú, en hvað með það, þarna í holunni lá ég í hálfan annan sólarhring í snjókomu og frosti. Ástandið var meira að segja svo bölvað, að í holunni var pollur með ófrosinni vatnsdrullu. Og ofan í þessum polli lá ég með mölbrotna ristina, sem fossblæddi úr.
Sá, sem fann mig, var hundur. Ég var næstum meðvitundarlaus, þegar ég raknaði úr rotinu við það, að hann sleikti á mér andlitið. Ég heyrði, að karl einn var að kalla í hundinn. Mér tókst að gefa frá mér hljóð, þannig að karlinn kom. Ég man bara, að hann ákallaði Guð. Síðan man ég ekki annað en það, að ég var borinn inn á spítala. Ég átti lengi í þessu og enn þann dag í dag er hryggurinn á mér eins og hálfgert S í laginu. Já, það er margt, sem maður hefur orðið að skríða upp úr um dagana, segir Jóhann Pétursson.
Nú er Grindavík ekki ýkja langt frá Reykjavík, vildi það ekki brenna við, að ungskáld þess tíma litu við hjá þér?
-Jú, heldur betur. En það er ástæðulaust að fjalla sérstaklega um það. Þó sakar ekki að geta þess, að Stefán Hörður, sá öðlingsmaður, dvaldi hjá mér. Og fyrstu nútímaljóðabók sína, “Svartálfadans”, skrifaði hann nær alveg þarna suður frá hjá mér.” Þórkötlustaðanesviti
Síðar, þar sem sagt er frá samveru þeirra við að gæta fornbókaverslunarinnar Bókavörðunnar fyrir Braga Kristjónsson við Vesturgötu, berst samtalið aftur að dvölinni í Grindavík: “Ég hafði orð á því við Jóhann, að mér hafi þótt lýsingar hans á uppgjörinu við Guð almáttugan, suður í Grindavík, heldur í stórbrotnara lagi. Hann skilur það.
-En svona er nú lífið, segir hann. – Ég veit svei mér þá ekki, hvort mér var alveg sjálfrátt, þarna suður í Grindavík.
Það er þá ef til vill eitthvað til í því, sem sumir segja, að þú sér ekki með öllu mjalla? spyr ég hreint út, enda þætti víst sumum tilefni til, vegna soddan lýsingar á samskiptum við æðri máttarvöld.
-Ég hef aldrei verið það, svarar Jóhann að bragði. – Það er ósköp einfalt mál. Og ég er orðinn svo gamall, að það breytist ekkert úr því sem komið er. Ég lifi og starfa við sama fábjánaháttinn og ég hef alltaf gert.
Heldurðu að þetta sé þér áskapað, eða hefurðu stuðlað að þessu sjálfur?
-Það er hvort tveggja í senn. Mér er að vissu leyti áskapað þetta, en svo hef ég stuðlað að því sjálfur, að svo miklu leyti, sem mér hefur verið það kleift. Enda vill svo til, að þetta mannlega líf er bjánaskapur frá upphafi til enda, 98% er vitleysa og afgangurinn bull.
Þú ert sem sagt ekki hrifinn af því, sem fínt þykir í dag og sumir kalla “normalitet”?
-Svarið lætur ekki á sér standa. – Nei, en ég hef svo sem hvergi rekist á það. Ég rekst aðallega á menn, sem virðast yfirmáta gáfaðir en reynast svo algjörir fábjánar. Og mér líkar það vel, enda er ég hvort tveggja sjálfur.”
Í minni fólks hefur Jóhann jafnan verið tengdur Þórkötlustaðanesvitanum (Hópsnesvitanum) þar sem hann á að hafa verið vitavörður. Ekki er ólíklegt að ætla að svo hafi verið um skeið því sá v
iti var byggður árið 1928 og þarfnaðist umsjónar. Í framangreindu viðtali við Jóhann er ekki að sjá að hann hafi þjónustað vitann, en einmitt af þeirri sjálfsögu ástæðu gæti hafa gleymst að geta þess!

Við framangreinda frásögn vildi Loftur Lónsson í Grindavík bæta eftirfarandi: “Í bókinni  er ekki farið alveg rétt með staðreyndir, Þarna er sagt, að olíuskipið Clam hafi strandað 1949. Hið rétta er að það strandaði 28. febr. 1950 samkv. Morgunblaðinu 1. mars sama ár.  Ennfremur er rétt að geta þess að Jóhann Pétursson var aldrei vitavörður við Hópsnesvita. Á þeim tíma, sem hann var í Þórshamri, er líklegt að vitavörður hafi verið Guðmundur Benónýsson, Þórkötlustöðum.  Allavega var hann fyrsti vitavörður við vitann og Árni Magnússon, Túni (Víkurbraut 32) tók við af honum. Ég efast um að rétt sé, að lík þeirra sem drukknuðu hafi verið geymd í Hraðfr.húsi Grindavíkur. Þau voru örugglega flutt beint inn í Fossvogskapellu. Jón Guðlaugsson frá Skálholti var þá vörubílsstjóri hjá Verslun Einars í Garðhúsum. Hann hefur sagt mér, að eitt sinn þegar hann fór með lík á pallinum inn í Fossvog, að þá stoppaði hann við bensínsölu, sem var efst á Kópavogshálsinum til að taka bensín. Þá kom þar að fullorðinn Kópavogsbúi. Hann ávarpaði Jón og spurði hvaða ferðalag væri á honum. Jón sagðist koma frá Grindavík. “Jæja, eru þeir ekki að fiska vel í Grindavík eins og venjulega”. Hann steig því næst upp á dekk bílsins og kíkti undir seglið, sem var kyrfilega bundið yfir pallinn. Aumingja manninum varð svo mikið um, þegar hann sá hvað var undir seglinu að hann hröklaðist öfugur frá bílnum, spurði einskis frekar og fór þegjandi í burtu.
Þess má geta í lokin, að talið er að flestir þeirra sem dóu við strandið hafi kafnað við það, að svartolía, sem dráttarbáturinn dældi í sjóinn, hafi fyllt vit þeirra sem lentu í sjónum. Það var þykkur, stór flekkur af svartolíu við skipið.”

Heimild:
-Pjetur Hafstein Lárusson – Frá liðnum tímum og líðandi – 2002, bls. 55-82.

Öldurót utar á Bótinni utan við Þórshamar - Ísólfsskáli fjær

Þórkötlustaðanes

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1992 ritar Hinrik Bergsson viðtal við Júlíus Danílesson um “Útgerðarsögu í Þórkötlustaðanesi”.

Hinrik Bergsson“Óljóst tengjast bernskuminningar mínar, ferðum suður í Þórkötlustaðarnes með bræðrum mínum og frænku, til að færa föður okkar mat eftir róður eða beitningu, og kannski var rennt fyrir smáufsa af bryggjusporðinum í leiðinni. Seinna, þegar ég fór að vinna í tímavinnu hjá Hraðfrystihúsi Þórkötlustaða, minntist ég sögusagna mér eldri manna sem tóku þátt í sjósókn og uppbyggingarstarfsemi og síðan endalokum útgerðar í Nesinu.
Það teygðist því stundum úr kaffitímunum við frásagnir af sjóróðrum, vinnu, fólki og spaugilegum atburðum. Þarna voru menn að minnast sinna mestu manndómsára, þegar þeir voru flestir í útgerð og sjósókn og voru sínir eigin herrar.
Þeim fækkar nú óðum sem róið hafa ur Nesinu og á síðasta ári lést Magnús Þórðarson frá Búðum, en hann lifði lengst þeirra formanna sem reru úr Nesinu. Til að koma á blað þessu tímabili í útgerðarsögu Grindavíkur átti ég tal við Júlíus Bjargþór Daníelsson. Hann er fæddur 27. ágúst 1910 og er sonur hjónanna Daníels Daníelssonar og Þóru Jónsdóttur frá Garðbæ.

Allur fiskur seilaður upp

Þórkötlustaðanes
Frá því ég man fyrst eftir mér réru Þórkötlungar úr Buðlungavör (buðlungur=fiskhlaði), og voru að jafnaði gerðir út 5 tíæringar á vetrarvertíðum en í vertíðarlok sem ávallt var 11. maí, var þeim hvolft í naust fyrir ofan vörina en minni skip sexróin, voru notuð á sumrin og haustin, segir Júlíus er hann rifjar upp liðan tíma.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðsla.

Árið 1929 komu fyrstu vélarnar í skipin í Þórkötlustaðahverfi. Þá var Þórkatlan keypt af Jóni bróður mínum og fleirum og með þeim byrjaði ég að róa ári síðar suður í Nesi. Í fyrstu var engin bryggja, lent var í Nesvörinni og allt seilað upp. Þá var eitt færið bundið upp í hnykil og alar seilar bundnar saman og tvær laggarbaugjur settar við og rakið ofan af hnyklunum þar til komið var inn í vörina, þá var vaðið í land og skipið strax dregið á land með spili sem knúið var af líkamskraftinum. Síðar kom vélspilið sem létti mikil setninguna.
Upp úr vörinni fóru fljótlega að rísa fiskverkunarhús, beitningarskúrar, ískofar sem beitugeymsla og lifrarbræðsla. Þá voru þrjú íbúðarhús byggð í Nesinu; Höfn, Arnarhvoll og Þórshamar.

Byrjað á bryggjusmíði

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Nesi.

Vorið 1932 var fyrst farið að huga að bryggjusmíði og var hún staðsett um 35 metra sunnan gömlu bátavararinnar og unnið við hana í tvö sumur. Bryggjan var þannig að byggð, að í henni voru steyptir veggir, grjótfylling og steypt þekja og hallaði hún fram í sjó. lengdin var 70 m. og breiddin 8 m.
Kostnaður við bryggjugerðina var 37 þús. kr. Ríkið greiddi þriðjung kostnaðar en heimamenn 2/3, sem tíðkaðist á þessum tíma. Bryggjusmíðin tókst vel í alla staði og hún gjörbreytti allri aðstöðunni til hins betra. Erfiður uppburður á fiski var nú úr sögunni, því nú fóru bílarnir fram á bryggjuna og fluttu fiskinn beint úr bátunum. Þá voru steyptir stokkar með eikarhlutum norðan við bryggjuna ári síðar, til að setja bátana á. Fljótlega kom í ljós að bryggjan náði oaf stutt fram, bátarnir flutu ekki upp með ehnni þegar lágsjávað var og eins var sker fyrir framendanum sem var til mikilla óþæginda.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Því var farið að huga að lengingu bryggjunnar, en það var ekki fyrr en árið 1945 sem hún var lengd með 20 m löngu keri sem steypt var af heimamönnum á stokkum norðan vuð bryggjuna. Þessi síðasta framkvæmd í nesinu kom ekki að miklum notum því margir voru þá komnir í bretavinnuna og ári síðar var Hraðfrystihús Þórkötlustaða stofnað. Það voru því aðeins Guðmundur Ben. á Svani, magmús í Búðum á Sæbjörgu og Haraldur á Eyvindarstöðum á Vini sem gerðu þarna út eina vetrarvertíð, en örlög útgerðar í Nesinu voru brátt ráðin, því öll skipin voru selnd og enginn þeirra sem gerði þar út flutti sína útgerð út í Hópið í Járngerðarstaðahverfið, nema óbeint sem hluthafar í Hraðfrystihúsinu. Þegar mest var hins vegar í útgerð í nesinu voru 11 skip gerða þaðan út og þá voru umsvifin ekki minni en í Járngerðarstaðarhverfinu.
Byggðin drógst saman, fiskhúsin voru rifin og sjö íbúðarhús voru flutt úr Nesinu og Hverfinu og nú líktist Nesið stóru byggðarsafni frá fjórða áratugnum. Þannig fylgir búsetan örlögum atvinnuháttanna. En í Nesinu hefur ávallt verið mikil happalending, eins og þessi gamla þjóðsaga um sundin á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum vitnar um.

Þjóðsagan um sundin
Þórkötlustaðanes
“Í fyrndinni voru aðalhöfuðbólin í Grindavík, hvort við sitt sund, Járngerðarstaðir við samnefnt sund og Þórkötlustaðir við sitt sund. Ekki er getið nafna bændanna á höfuðbólum þessum, en konurnar hétu, Járngerður á Járngerðasrtöðum og Þórkatla á Þórkötlustöðum.
Engir aukvisar munu bændurnir þó hafa verið, þótt nafna þeirra sé ekki getið, því þeir höfðu mannaforráð, svo sem betri menn höfðu, og stjórnaði hvor sínum bát, af kappi miklu, þannig, að þeir fóru lengra og sóttu meira en fjöldinn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðslan.

Einhverju sinni, þegar flestir Grindvíkingar voru á sjó, bar það til, að sjó tók að brima, sem kallað var, þ.e., þegar aldan vex svo að hún fer að brotna yfir leiðina (sundin). Bátarnir höfðu fljótlega farið að leita lands og allir verið komnir í land, þegar þeir heimabændurnir komu hvor í sínu sundi. Þá gerðist það, að bóndi Járngerðar fórst með allri áhöfn á Járngerðarstaðasundi, en bóndi Þórkötlu hafði komist klakklaust inn Þórkötlustaðasund.
Hitnað mun þeim frúnum hafa í hamsi við að bíða eftir afdrifum bænda sinna, því eftir að séð var, að maður Járngerðar hafði farist á Járngerðarstaðasundi, lagði hún það á, að á því sundi skyldu farast 20 bátar. Aftur á móti lagði Þórkatla það á, að á Þórkötlustaðasundi, réttförnu, skyldi enginn bátur farast.
Þetta þykir allt hafa orðið að áhrínsorðum, þannig að enginn bátur hefur farist á Þórkötlustaðasundi.”

250-400 fyrir vertíðina

Þórkötlustaðanes

Vélspilið á Nesinu.

Margi vermenn komu í Nesið oft ára eftir ár. Þetta voru mest aðkomumenn autan úr sveitum, úr Hreppunum, Tungunum og all aleið autan úr Skaftafelli. Þeir reru á vetrarvertíðinni fra því seinnipartinn í janúar og fram til 11. maí. Það fiskaðist oft mjög vel á þessum árum og oft var tvíróið sama daginn.
Ég man eftir því, segir Júlíus, að eina vertíðina fengum við 500 skipspund af þurrfiski, þ.e. 160 kg. í hverju pundi. Eitthvað nálægt 80 tonnum. Menn voru yfirleitt ráðnir uppá kauo frá 250 upp í 400 kr. fyrir vertíðina, sem hélst fram undir stríð.
Tíðarfarið var ákaflega misjafnt þá eins og nú. Þetta var brimverstöð og sundið varasamt en með gætni og varkárni fór allt vel og ekki veit ég til að skip farist á Þórkötlsutaðasundi og það gengið eftir sem segir í þjóðsögunni.
Ég kveð Júlíus Daníelsson á heimili hans á Hrafnistu í hafnarfirði. Hans minni er enn gott og hann hefur frá mörgu að segja frá liðnum tíma. M.a. sína eigin útgerðarsögu eða þátttöku hans við hin ýmsu skipsströnd en Júlíus var einn af þeim sem björgðu skipverjunum af Cap Fagnet þann 24. mars 1931 og er annar núlifandi þeirra bj0örgunarsveitarmanna. Þá var fluglínutæki í fyrsta sinn notað við björgunarstörf hérlendis.” – Hingrik Bergsson

Heimild:
-Sjómanndagsblað Grindavíkur 1992, Hinrik Bergsson, Útgerðarsaga í Þórkötlustaðanesi, bls. 35-36.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.

Grindavík

Loftur Jónsson skrifaði um örnefni í landi Þórkötlustaða í Sjómanndagsblað Grindavíkur árið 1992.

Loftur Jónsson“Nú þegar akfær hringvegur er kominn um “nesið”, fjölgar því fólki sem leggur leið sína þar um á bílum eða fótgangandi. Þá er bærði fróðlegt og skemmtilegt að vita nánari deili á landinu og ýmsum kennileitum.
Loftur Jónsson frá Garðbæ hefur á undanförnum árum safnað saman miklum fróðleik um örnefni hér á svæðinu og skráð skipulega neiður. Hann hefu rátt viðtöl við fjölmarga eldri Grindvíkinga og þannig náð að halda til haga ýmsum fróðleik sem annars hefði fallið í gleymskunnar dá.
Því fólki fækkar óðum sem stundar störf úti í náttúrunni, s.s. við smalamennsku, göngu á reka o.fl. Við þessi störf voru örnefni nauðsynleg til aðhægt væri að staðsetja með vissu, hvar kind hefði sést, hvar fundist hafði reki sem bjarga mátti undan sjá og eins hvar rekafjörur og lönd skiptust. Sjómannadagsblað Grindavíkur birtir með leyfi Lofts Jónssonar eftirfarandi grein um örnefni í Nesinu og Þórkötlustaðahverfi.

“Suður úr Reykjanesskaganum gengur allmikið nes. Að vestanverðu við nes þetta er Járngerðarstaðavík en að austan er Hraunsvík. Nes þetta er allt þakið hrauni og sumt bendir til að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornlfél. 1903, 47). Að austanverðu heitir nesið Þórkötlustaðanes og er það í landi Þórkötlustaða en að vestan heitir það Hópsnes og er sá hluti í landi Hóps. Í daglegu tali er það eingöngu nefnt Nesið.

Áframhald af landi Þórkötlustaða nær inn á Reykjanesskagann og er fremur mjótt en langt. Mest allt landið er þakið hrauni. Bæirnir standa austast í landareigninni innan við nesið og niður við sjóinn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni og kennileiti í landi Þórkötlustaða eru sem hér segir: Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum. Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur. Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá. Norður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan tekur við Vörin stundum kölluð Nesvör til aðgreiningar frá Buðlunguvör. Vararsker er sunnan við vörina, það fer í kaf á flóði. Tveir boðar eru framundan Vararskeri á Þórkötlustaðasundi; Fjósi á bakborða og utar er Lambhúsi á stjórnborða. Sundvarða við Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfnin dregin.

Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll, þar stendur sundvarða. Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar; Hraunsgarðar. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör. Skotti er nokkuð stór pollur ofan kampsins, norðan Vararinnar og þar norður af er hóll, flatur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Fram undan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík; Herdísarvík. Upp af henni við norðurenda eru klettahólar sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun, sandorpið hraun, og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð en mjó frá norðri til suð-suðvesturs sem heitir Gjáhólsgjá. Rétt norðan við Kónga er grasflöt fram við kampinn; Miðmundaflöt og þar framan við eru Miðmundaklettar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en litið markar fyrir henni nú. Önnur gata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi. Norður frá Heimribót er fremsti og vestasti hluti túnsins kallaður Sigla og þar í er Siglulaut.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

Austur af Heimribót taka við Vötnin. Þar rennur fram ósalt vatn um fjöru og var þar þveginn og skolaður þvottur áður fyrr. Austur af Vötnunum, á klöppunum, er Stóralón og suður af því Kollóttasker. Upp af Stóralóni er Bakkinn; hár grasivaxinn bakki. Nokkuð austan Stóralóns er Buðlunguvör. Vestan hennar er hringmynduð klöpp með lóni í miðju. Hún heitir Svalbarði. Klofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

Austur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt. Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.

Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.

Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.

BuðlunguvörOfan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.

Vatnsheiði eru þrjár gróðurlitlar, samvaxnar hæðir norður af Húsafelli og nær sú fremsta vestur fyrir og fram fyrir það. Þær heita Fremstahæð, Miðhæð og Innstahæð. Nafnið er dregið af vatnskötlum í Innstuhæð og þornar þar ekki nema í mestu þurrkum. Þar eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða.

ÞórkötlustaðirÍ norðvestur frá Innstuhæðinni, í Vatnsheiði, er hæð eða smáhnúkur; Sundhnúkur og er hann á landamerkjum milli Þórkötlustaða og Járngerðarstaða. Þaðan í norður eru hraunhólar úr brunnu hraungjalli. Heita þeir Lyngrimi. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Skógfellshraun tekur við þar fyrir norðan og er það all úfið í hraunbrúninni að sunnan. Upp úr Skógfellshrauni rís allhátt fell sem heitir Stóra-Skógfell. Litla-Skógfell er þar nokkru norðar en er allmikið lægra og skiptir það löndum á milli Voga og Járngerðarstaða. Stóra-Skógfell skiptir löndum á milli Járngerðarstaða og Þórkötlustaða og eru merkin í næsta hnúk. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi. Mitt á milli Skógfella er svonefndur Hálfnunarhóll (í Járngerðarstaðalandi) og er þar talið hálfnað til Voga frá Þórkötlustöðum.

Kastið

Kastið.

Hraunið á milli Skógfella og Fagradalsfjalls heitir Dalahraun og nær það fram á móts við Kast. Það er lágt og víða sléttar klappir og mosaþembur. Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll sem er vestur af kasti og Fagridalur sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell, sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls, er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða.”

Framangreint var skráð samkv. viðtali við systkinin í Buðlungu Guðbjörgu Eyjólfsdóttur og Jón Eyjólfsson. Þau eru fædd þar og uppalin. Yfirfarið af Árna Guðmundssyni, Teigi, og Jóni Daníelssyni, Garðbæ.- Grindavík 22. nóv. 1976, Loftur Jónsson [sign.].”

Heimild:
-Sjómanndagsblað Grindavíkur, Örnefni í Nesinu og landi Þórkötlustaða, Loftur Jónsson frá Garðbæ, bls. 34-40.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðir

Eftirfarandi frásögn um Grindavík birtist í Alþýðublaðiðinu 22. mars árið 1964:
“Sunnan á Grindavik-502Reykjanesskaganum er nestota, tvínefnd, heitir Hópsnes vestan megin og Þórkötlunes austan megin. Grindavíkin er slitin sundur af þessu nesi. Á því sjálfu er engin byggð, hins vegar eru hverfin beggja vegna við og sést ekki á milli. Í krikanum austan nessins er Þórkötlustaðahverfi, sem nú hefur séð sitt fegursta, en byggð er þar óðum að leggjast af. Vestan megin þar sem heitir Hópsnes er aðalbyggðin og nefnist Járngerðarstaðahverfi. Lengra vesturfrá er enn vogur í víkina, þar sem heitir á Stað. Þar var áður fyrr eitt hverfið enn og nefnist það Staðarhverfi. Útræði var frá öllum hverfunum, en hefur aðeins haldizt frá Járngerðarstaða-hverfinu þar sem hafnarskilyrði eru illskást.
Þegar maður kemur í gegnum skarðið [Selháls], sem er á milli Þorbjarnarfells og Hagafells, er sú hugsun einhvernvegin fjarri, að blómskilja legt þorp með peningareyk og véla skellum blasi allt í einu við augum. Úfið apalhraunið hefur heltekið svo skilningarvitin, að maður er blátt áfram hættur að trúa á tilvist heiðarlegs gróðurs og hvítra snoturra einbýlishúsa. Grindavíkin er því bæði óvænt og skemmtileg tilbreyting fyrir augað.

Grindavik-503

Landnáma segir að synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík. Reyndar er helzt á henni að skilja að karlinn hafi verið með þeim og hafi þeir feðgar hrakizt í Kúvík alla þessa leið austan úr Álftaveri efiir að hraun eyddi fyrir þeim byggð og þeir lentu í slagsmálum og manndrápum austur í sýslum. Þarna hafa þeir svo að líkindum setzt á friðarstól, enda komnir úr kallfæri við náungann og bergþursar urðu ekki vopnbitnir. Hins vegar er sagt að Björn Molda-Gnúpsson hafi samið við þurs einn um kynbætur á geitafé sínu og orðið ríkur af. Grindavík er þannig vagga búfjárkynbóta á Íslandi. Mönnum þykir einsætt að víkin dragi nafn af hvalfiski þeim, sem Færeyingar kalla grind en Íslendingar uppnefnt og kallað marsvín.

Grindavik-504

Eins og allir vita fer grindin í stórum vöðum og á það til að ana á land og fjára þar uppi. Líka er hægt að reka vöðurnar eins og fjárhóp inn á víkur og loka fyrir þeim undankomuleiðinni. Undan Grindavík eru góð síldarmið og loðnugöngur stórar á vertíð. Trúlegt er að hvalurinn hafi sótt í hnossgætið og ýmist álpazt á land í víkinni, eða verið rekinn. Gaman væri að geta sér þess til, að Molda-Gnúpssynir hafi búið við, konuríki, eins og margir þeir, sem miklir eru fyrir sér útífrá. Þeir hafi þessvegna kallað bæi sína eftir eiginkonunum, Járngerði og Þórkötlu og viljað með því blíðka skap þeirra, enda er hljómur nafnanna ekki beinlínis blíðlegur.
Grindavik-505
Útræði hefur verið í Grindavík frá ómunatíð. Opin skip reru frá öllum hverfunum, líklega flest frá Þórkötlustöðum, því þar var þraut að lenda ef brimaði, en segja má að sjór deyi aldrei við ströndina enda er næsta fastaland í hásuðri sjálft Suðurheimskautið. Það hefur því verið harðsótt úr Grindavík og ef allt lokaðist þar af brimi er líka hætt við að Eyrarbakki, Stokkseyri og Þorlákshöfn hafi verið ófær, og allir vita hvernig innsiglingin til Vestmannaeyja er í stórviðrum. Þannig urðu formenn að horfast í augu við þann möguleika í hvert sinn sem þeir fóru í róður, að ná aldrei landi. En til mikils var að vinna, því undan lélegustu höfnum landsins eru einmitt beztu fiskimiðin á Selvogsbanka, í Grindavíkursjó og í kringum Vestmannaeyjar. Þessar aðstæður hljóta a
ð hafa skapað æðrulausa manngerð og bænheita. Enn eimir eftir af þessu hjá sjómönnum í aðalverstöðvum landsins, þeir eru flestir forlagatrúar. Og mannfólkið skrimti aldirnar af á skreið og þorskhausum, sem þessir menn sóttu út í tvísýnuna.
Grindavik-506Enn er sóttur sjór frá Grindavík og nú eingöngu frá Járngerðarstaða-hverfinu. Þar heftur verið gerð höfn með því að grafa rennu inn í Hópið, sem vesturhlið nessins ber nafn af. Inni í þyí hafa svo verið gerðar bryggjur, þ.e.a.s. einn megingarður og tvær bryggjur út úr honum. Þrengsli eru óskapleg við þennan eina garð. Bátarnir liggja í margfaldri tröð í innri krikanum, því þeim ytri er venjulega haldið fyrir landanir, nema þegar landlega er. Nú róa 50 bátar, stórir og smáir frá Grindavík og þangað sækir mikill fjöldi aðkomubáta til að landa á bíla, sem síðan aka með fiskinn til Keflavíkur eða Reykjavíkur. Sundið úti á víkinni er hreint af skerjum, en bátarnir verða að þræða álinn að rennunni í Hópið. Þreföld innsiglingarmerki auðvelda landtökuna.
Auðskilið er að helzta áhugamál Grindvíkinga sé bætt hafnaraðstaða. 

Grindavik-507

Bátarnir verða stærri og rúmfrekari, þeim, fjölgar og ásókn aðkomubáta til umlöndunar er mikil, einkum þegar mikið fæst af góðum fiski í hringnót eins og nú á sér stað. Þá munar miklu fyrir bátana að koma fiskinum af sér sem næst miðunum og þó á þeim stað sem vel liggur við flutningum til vinnsluhúsanna við Faxa flóa. Þessi ásókn hefur einkum bitnað á Þorlákshöfn og Grindavík nú í vetur.
Og máli málanna er sinnt í Grindavík. Þegar hefur verið hafinn undirbúningur að uppfyllingu út í Hópið. Markað hefur verið fyrir henni með garði, sem er landfastur í báða enda og er aðeins eftir að fylla upp í lónið, sem innan hans er. Því næst er ætlunin að dýpka Hópið, sem mun vera auðvelt vegna hagstæðs botnlags og svo stálþil rekið niður með uppfyllingunni og mikið viðlegu pláss myndast. Leikmanni virðist í fljótu bragði, að hafnarbætur í Grindavík séu tiltölulega auðveldar ef miðað er við það sem ráðizt hefur verið í sums staðar annars staðar. Grindvíkingar vona að þessu verki verði haldið áfram í sumar og lokið við það fyrir næstu vetrarvertíð.
Upp af bryggjunni stendur Hraðfrystihús Grindavíkur, beitingaskúrar og hjálla
r alls konar. Einnig fiskimjölsverksmiðja, aðgerðarhús og salthús. Vinna er mikil, enda er landað 350-600 tonnum af fiski á sólarhring. en íbúar þorpsins ekki nema 840. Þeim fer að vísu fjölgandi, en fjölgunin takmarkast af húsasmíðum því húsnæðisskortur er óskaplegur eins og í öllum uppgangsplássum. Mikill fjöldi Skagstrendinga hefur sótt til Grindavíkur hin seinni ár, ýmist til vertíðarstarfa, eða fastrar búsetu. Kunnugir segja að svipmót sé með þessum tveim stöðum, þótt þeir séu sitt í hvorum landsfjórðungi.
Grindavik-508Áður fyrr var lendingin vestan við Hópið og enn stendur þar niðri á bakkanum þyrping gamalla húsa, m. a. verzlunarhús frá danskri tíð. Á sjávarbakkanum standa nú uppi nótabátar, en mikill földi af þeim liggur í vanhirðu í flestum eða öllum útgerðarplássum landsins. Stokkaðar lóðir hanga til þerris utan á bátunum. Raunar hanga þær hvar sem hægt er að tylla þeim upp, því línuvertíð er nýlokið, en þar er sérkennilegt að sjá gamla nótabáta tjaldaða með snyrtilega stokkuðum lóðum. Niður af kambinum er gamla lendingin eins og fyrr segir. Talið er, að oþin áraskip hafi gengið frá Grindavík allt til ársins 1930. Varirnar eru tvær og heita Norðurvör og Suðurvör. Seinustu árin var komin þar steinsteypt renna með föstum hlunnum, til að draga bátana á upp á kamb. Áður en lent var, hafði fiskurinn verið dreginn upp á band og áður en báturinn kenndi grunns, urðu mennirnir að stökkva útbyrðis og halda honum fríum meðan fiskböndunum var kastað upp, eða þau borin á bakinu upp á kambinn. Þegar svo búið var að létta bálinn var hann settur með aðstoð handvindu í landi.

Grindavik-509

Allt til stríðsáranna var líka lending í Þórkötlustaða-hverfinu. Hún var svipuð hinni, sem að framan er lýst, nema hafði það fram yfir að bryggjustúfur hafði vorið gerður samhliða vörinni. Uppi á Kambinum má enn sjá handvinduna, sem notuð var við setningu bátanna og einnig er þar ryðguð vinda, sem knúin var af mótor. Hún kom ekki til sögunnar fyrr en allra síðustu árin. Þórkötlustaðalendingin er alllangt utan við aðalþorpið og ofan við hana hafa verið nokkur hús. Þau hafa nú ýmist verið brotin niður eða færð í burtu. Það eina sem minnir á forna frægð Þórkötlustaða-hverfisins eru gapandi tóttir, steinsteypt vörin og bryggju stúfurinn. Reyndar er enn starfrækt frystihús í hverfinu, en allan fisk til þess verður að flytja að vestan úr Járngerðarstaða-hverfinu. Það er mikið byggt í Grindavík. Hraunið er smám saman að láta undan mannanna verkum. Jarðýturnar slétta úfnasta yfirborðið og brunagjallið er hið ákjósanlegasta undirlag.

Grindavik-510

Barnaskólinn var byggður árið 1947 og er nú orðinn of lítill. Eins og hægt er að skilja á framansögðu byggja Grindvíkingar allt sitt á sjónum og fiskinum, sem í honum er. Að vísu er þar enn nokkur sauðfjárbúskapur, sem stundaður er í hjáverkum, en geit fé það, sem Björn landnámsmaður kom sér upp og kynbætti með aðstoð trölla mun nú útdautt. Iðnaður er enginn, nema þær löggiltu iðngreinar, sem nauðsynlegar eru til útgerðarrekstursins og þjónustu við Grindavik-512almenning.
Undir kvöldið löbbum við niður að höfninni í fylgd með Svavari Árnasyni oddvita. Hann hefur verið hjálplegur með upplýsingar og sýnt okkur það markverðasta í þorpinu.
Allir eru að vinna. Eina fólkið sem er á ferli utan vinnustaða, eru húsmæður hlaðnar matvöru, og börn. Bátarnir eru farnir að koma að og við förum um borð í Hrafn Sveinbjarnarson III. nýjasta og fullkomnasta bát þeirra Grindvíkinga. Hann hefur fengið um 10 tonn í netin og löndun er í fuílum gangi. Björgvin Gunnarsson skipstjóri er á stjórnpalli og lítur eftir verkinu. Hann er ungur maður að sjá, en hann er líka a
flakóngurinn á vetrarsíldveiðunum hér við suðvesturlandið. Varð hæstur með rúmar 30.000 tunnur. Björgvin segir að auðvitað langi sig á þorskanótina í uppgripin, en útgerðin á bara enga slíka nót. Hann er mjög ánægður með bátinn enda er þetta stórglæsileg fleyta eins og allir nýju bátarnir. Það þarf ekki annað en að líta út úr höfninni, til að sjá bátana, þar sem þeiar eru að draga netin. Miðin eru uppi í landssteinum. Austur með landinu, inni á svolítilli vík má telja 10 hringnótabáta að veiðum. Þeir eru mjög grunnt. Það kom líka á daginn að einmitt þetta kvöld og nóttina eftir var óhemju magni af fiski landað í Grindavík.

Þegar við förum er háflæði og sjórinn í Hópinu spegilsléttur. Þorbjarnarfell vakir yfir borpinu og til austurs blasa við fjöllin sunnan í Sveifluhálsi. Festarfjall er næst, þverskorin hamraveggur ofan frá og niður i sjó. Vegurinn til Krýsuvíkur liggur yfir þetta fjall og ofan af hálsinum er hægt að sjá út allt Reykjanes og alla leið til Eldeyjar þegar skyggni er gott. Mann langar ósjálfrátt til að koma til Grindavíkur og skoða meira.”
Grindavik-514Árið 1975 skrifaði Jón Jónsson, jarðfræðingur, um hraunin ofan Grindavíkur, einkum Sundhnúkahraunin er urðu til á nánast sömu sprungureininni með u.þ.b. 3000 ára tímabili:
“Hraun við Grindavík – Norðaustur af Grindavík hefur gosið á sprungu og hefur hraun þaðan flætt í sjó fram og myndað Þórkötlustaðanes. Hluti af hrauni því hefur runnið út á gróna gjallhóla vestan undir Svartsengisfelli.
Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á. Sundhnúkahraun og Sundhnúkur.
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Frá Melhól er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð.
Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun.
Grindavik-515Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs
eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar.

Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegn um nyrzta hluta Grindavik-516þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).
Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum.
Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum Grindavik-517gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðar-dyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúka-sprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja t
il hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk.

Grindavik-518

Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.

Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.
Grindavik-519Fremur lítið hraun hefur runnið lir gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd.

Grindavik-520

Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð. Eldri gígaröð. Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Grindavik-522Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.

Grindavik-523

Hvenær rann hraunið?
Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suð
ur yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. 

Grindavik-524Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C14 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur.
Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. Í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti.
Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0°C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Grindavik-525

Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.
Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mi
kil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða. 

Grindavik-526Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.”
Í Náttúrufræðingnum 1973 skrifar Jón Jónsson um sama efni:
“Gígaröðin í Sundhnúkum gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.
Grindavik-527Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraun skildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.
Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður). Slaga.
Grindavik-528S
unnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið. Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.”
Margar frásagnir eru til um slysfarir utan við Hópsnes og Þórkötlustaðanes. Hér á eftir er t.d. sagt frá því er þilskipið Hákon strandaði:

Grindavik-530Þilskipið „Hákon” strandar í Grindavík –  Menn komust af.
Þann 10. þessa mán. var fiskiskipið Hákon” hjeðan úr Rvík á leið heim af veiðum sunnan fyrir land. Um nóttina gerði, eins og kunnugt er, grenjandi norðanbyl, mestu stórhríðina, sem hjer hefir komið sunnanlands um mörg ár.
Á sunnudagsmorguninn um kl. 9, kendi „Hákon” grunns. Var svartabylir, og vissu skipverjar ekki fyr en þeir voru strandaðir skamt frá Hrauni, insta bæ í Grindavfk, rjett fyrir austan Þórkötlustaðanes. Steytti skipið á skeri og kom strax sjór í það. Engin tiltök fanst skipverja að komast í land, því brim var mikið, en sást þó óglögt fyrir hríðarbylnum. Lögðu þeir því í skipsbátinn, 21 að tölu, og reyndu að komast vestur með landi. Tókst þeim það. Og eftir um klukkustunda ferð í stórhríð og brimi, lentu þeir upp á líf og dauða í bás einum hjá litla vitanum á Reykjanesi, og komust heilu og höldnu í land. Þaðan fóru þeir gangandi heim að Reykjanesi til vitavarðar. Var þar vel tekið á móti þeim. En þeir Grindavik-531voru allmjög þjakaðir, blautir og kaldir, því sumir höfðu verið verjulausir. Á mánudagsnóttina voru þeir hjá vitaverði, en fóru daginn eftir til Grindavíkur til þess að líta á skipið. Skipið var mölbrotið þegar á fyrsta degi, og hefir því ekki náðst út.”
Árið 1926 varð til önnur umfjöllun af öllu alvarlegra sjóslysi austan við innsiglinguna í Hópið: 
“Bátur úr Grindavík fórst við innsiglingunni í fyrrakvöld – 5 manna áhöfn hans drukknaði.
Í fyrrakvöld var þriðja sjóslysið í mánuðinum. Vélbáturinn Grindvíkingur frá Grindavík fórst og með honum áhöfn hans, fimm menn, allir á bezta aldursskeiði, Þrjú börn misstu föður sinn í þessu sviplega slysi, tveir voru fjölskyld
umenn og einn heitbundinn. Allir áttu þeir foreldra á lífi. Fjórir mannanna voru úr Grindavík, en sá fimmti af Vestfjörðum.
Grindavik-532Skipverjar á Grindvíking voru Jóhann Magnússon, skipstjóri, 24 ára. — Hann lætur eftir sig eitt barn og foreldra átti hann á lífi. Hermann Kristinsson, 1. vélstjóri, 23 ára. — Hann lætur eftir sig unnustu og foreldra. Þorvaldur Kristjánsson, stýrimaður, 25 ára. — Hann lætur eftir sig konu og tvö börn ung, Sigfús Bergmann Árnason, háseti. — Átti foreldra á lífi. Hann var 36 ára. Valgeir Jónsson, háseti. Ættaður af Vestfjörðum. Annað hvort úr Aðalvík eða af Ströndum.
Bátar úr Grindavík voru allir á sjó er veðrið skall á. Þeir, sem komu í höfn, komu að landi milli klukkan fjögur og 6,30. Um klukkan sjö, sást bátur við Þórkötlustaðarnes, en það er við innsiglinguna í Grindavíkurhöfn. Á þilfari höfðu skipverjar kynnt bál, er gaf til kynna að báturinn væri í nauðum staddur.

Grindavik-533

Í landi var brugðið skjótt við og þrátt fyrir hríð og mikla ófærð komst björgunarsveitin út í nesið. Þá var þar engan bát að sjá. Þá þegar um kvöldið var gengið á fjörur og um miðnætti tók ýmislegt brak að reka á land. Það reyndist vera úr Grindvíkingi. Í allan gærdag var að reka úr bátnum. Í gærkvöldi hafði eitt lík rekið.
Grindvíkingur var 65 rúmlesta skip. Var byggður á Akranesi árið 1945. Hlutafélagið Ingólfur átti bátinn. Voru þeir aðilar að) félaginu bæði skipstjóri og fyrsti vélstjóri.
Vegurinn til Grindavíkur var illfær í gær. Í hinu harmi lostna sjávarþorpi var ekkert rafmagn og þaðan símasambandslaust bæði við Reykjavík og ýmsar sveitir.”

Heimildir:
-Alþýðublaðið, 22. mars 1964, bls. 8-10.
-Náttúrufræðingurinn, Jón Jónsson, Aldur hrauna, 45. árg. 1. tbl. 1975-1976, bls. 27.
-Náttúrufræðingurinn, 43. árg., 3.-4. tbl., 1973, Jón Jónsson, Sundhnúkahraun við Grindavík, bls. 145-153.
-Morgunblaðið 3. maí 1991, Jón Jónsson, bls. 25.
-Ísafold, 15. maí. 1926, bls. 3.
-Morgunblaðið, 20. janúar 1952, bls. 20.

Grindavik-501

Þórkötlustaðanes

Um var að ræða menningargöngu á vegum Saltfiskseturs Íslands, Grindavíkurbæjar og Björgunarsveitarinnar Þorbjörns.
Frá göngunniAf því tilefni var ætlunin að afhjúpa nýtt örnefna- og söguskilti á Þorkötlustaðanesi.
Genginn var hringur á Nesinu frá skiltinu að rústum Þórshamars og fleiri húsa sem voru á Nesinu, spölkorn með ströndinni og horft yfir Þórkötlustaðasund þar sem fornkonan Þórkatla mælti svo fyrir, að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast. Gengið verður að gömlu þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni og í áttina að vitanum. Ýmislegt var skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. M.a. var boðið upp á brim af bestu gerð.
Í lok göngu var boðið upp á afmæliskaffi hjá Björgunarsveitinni Þorbirni við Seljabót, en björgunarsveitin hefur bjargað 232 mannslífum frá stofnun. Þess má geta að jafnframt var um að ræða tólfhundruðustu gönguferð FERLIRs frá upphafi um fyrrum landnám Ingólfs – sem telja verður sögulega út frá þrautseigju á upprifjun gamalla heimilda og uppgötvun nýrra, áður óþekktra.
Örnefna- og sögukort á ÞórkötlustaðanesiÖrnefni á Þórkötlustaðanesi eru mörg og mannvistarleifar víða. Nesið varð til þegar hraun rann til sjávar undan Hagafelli. Heimildir segja að hraun þetta sé að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47), en aldursgreining á því hefur gefið til kynna að það hafi runnið fyrir um 8000 árum. Meginhraunstraumurinn var um Gjána, langa hrauntröð eftir miðju Nesinu. Upphafl ega hefur það verið mun stærra því sjórinn hefur brotið smám saman utan af því í árþúsundirnar. Vestasti hluti Nessins nefnist Hópsnes.
Eitt helsta auðkennið á svæðinu er Nesvitinn, sem reistur var árið 1928. Svæðið geymir fjölmargt annað, sem bæði má lesa um hér og sjá á meðfylgjandi uppdrætti.
Bryggjan úti í Járngerðarstaðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var steypt með veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn metra út fyrir stórstraumsfjöruborð. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd. Sama ár voru gerðar samskonar bryggjur í Þórkötlustaðahverfi og Staðahverfi.
Spil ofan við Nesvör
Sjósókn og útgerð
Minjarnar, sem eru ofan við Nesvörina (bryggjuna), eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Um er að ræða gamla þurrkgarða, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og gamlar tóftir, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, vara, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, gólf beitningaskúra og innsiglingamerki frá fyrri hluta síðustu aldar.

Höfn og bátar í nausti ofan við Nesvörina - fiskskúrar millum

Á Þórkötlustaðanesinu voru þrjú íbúðarhús, sem enn má sjá leifar af; Arnarhvoll (nyrst), Höfn og Þórshamar (syðst). Húsin voru byggð í kringum 1930. Vöxtur útgerðar í Nesinu byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. frá Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum.
Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí. Sumir réru líka svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi. Á sumrin var venjulega róið á minni bátum.
Útgerðarmennirnir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgnana þegar gaf á sjó og fóru síðan fótgangandi heim aftur á kvöldin. Fólk kom víðar að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Vermennirnir bjuggu á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var.
Uppdráttur af svæðinu ofan við NesvörinaÁður lentu bátarnir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum, sem voru í röðum ofan malarkambsins. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar eru beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.
Þegar steinbryggjan var byggð, um 70 metra löng og 10 metra breið, til að mæta vélvæðingu bátanna, var fiskinum kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Lifrarbræðsla var byggð hér á árunum 1934-1935. Útveggirnir standa enn.
Ískofi á ÞórkötlustaðanesiÞegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar. Þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.
Áður en bryggjan var byggð voru bátanir dregnir á land upp á kambinn norðan hennar. Þegar stokkarnir við bryggjuna voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, var notað til að draga bátana. Það var drifið með Ford-vél, sem var knúin bensíni. Vélarhúsið við spilið er nú horfið. Grunnurinn sést enn. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetningunni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.
Eftir að grafið hafði verið inn í Hópið í Járngerðarstaðahverfi árið 1939 og hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út frá Nesinu. Vegurinn náði fyrst að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan lengra til vesturs, að vörðunni Siggu.
Segja má að útgerðin hafi verið aflögð hér árið 1946. Íbúðarhúsið Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvoll var flutt þangað árið eftir. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.
Örnefnakort á ÞórkötlustaðanesiAustan við Strýthólahraun má sjá tóftir og minjar í kringum Þórshamar, en útveggir hússins standa enn við Flæðitjörnina. Jóhann vitavörður bjó þar síðastur manna. Suðaustan við húsið er manngerður hóll. Hann virðist hafa verið fjárborg eða tóft, miklu eldri en minjar umhverfis. Sunnan við húsið er heillegt fjárgerði og fjárhústóft. Suðvestan við það eru minjar eina skrautblómagarðsins er þá var til í Grindavík. Eflaust hefur hann vakið mikið umtal og margar vangaveltur á þeim tíma er lífið snerist aðallega um þurrfisk og síðan saltfisk.
Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu fyrir tíð búsetu á Nesinu. Þar má enn sjá u.þ.b. 40 hlaðin þurrkbyrgi, líkum þeim er sjá má á Selatöngum og í Slokahrauni.
Mikil vegghleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíla, líkt og margar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Nú er búið að hylja brunninn með möl.
Rekinn hefur löngum verið Þorkötlustaðabændum notadrjúgur. Örnefni á Nesinu gefa m.a. til kynna hvaða hluti strandarinnar tilheyrði hverjum þeirra.

Sjóslys og  björgun
Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Mörg dæmi eru um það. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gat breyst snögglega. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlað var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðabótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti.
Þann 24. mars 1916 fóru 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kútters Esterar frá Reykjavík. Þurrkbyrgi í Strýthólahrauni

Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.
Árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur suðvestur úr Nesinu. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur.
Vélbáturinn Grindvíkingur GK 39 fórst utan við Nesið 18. janúar 1952. Fimm menn fórust.
Sjá má enn járnbrak úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út aftur gerði vonskuveður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og sést brakið ofan  við kampinn.
Frá göngunniFlutningaskipið Mariane Danielsen fór upp á Hópsnesið í vonsku veðri eftir að hafa verið siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989. Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með björgunarstól daginn eftir.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.
Nokkrir bátar hafa strandað við Þórkötlustaðabótina, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn.
Austast í Bótinni varð enn eitt sjóslysið. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, rak upp í skerin. Ekki varð mannbjörg það sinnið.
Brak á HópsnesiGjafar VE 300 fórst fyrir utan Nesið 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfn var bjargað frá borði með aðstoð meðlima björgunarsveitarinnar Þorbjörns. Björgunarsveitin Þorbjörn var formlega stofnuð árið 1947. Saga sveitarinnar er samofin sjóbjörgunarsögu Grindavíkur, allt frá stofnun slysavarnardeildarinnar Þorbjörns árið 1930. Fáar björgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum. 
Frábært veður. “Þegar veðrið er gott er það hvergi jafn gott og hér”, sagði Guðbergur Bergsson, rithöfundur. Þátttakendur voru rúmlega 80 talsins. Sjá svolítið meira um 1200.

Framangreindur texti og uppdráttur er byggður á örnefnalýsingum, Sögu Grindavíkur, eftir Jón Þ. Þór, Árbók Sögufélags Suðurnesja 1996-1997, og frásögnum Péturs Guðjónssonar frá Höfn sem og Lofts Jónssonar og Tómasar Þorvaldssonar.
Þórkötlustaðabót - Ísólfsskáli og Skála-Mælifell fjær