Tag Archive for: Þorlákshöfn

Þorlákshöfn

Í Sveitarstjórnarmálum 1976 fjallar Gunnar Markússon um „Ágrip af sögu Þorlákshafnar„:

Þorlákshöfn

Gunnar Markússon.

„Sögu Þorlákshafnar má skipta í tvo höfuðkafla — sögu sveitabýlisins og sögu sjávarþorpsins.
Upphafið að sögu sveitabýlisins er svo algjörlega hulið í móðu fjarskans, að ekki er einu sinni á hreinu með nafn staðarins. Munnmæli herma, að bær hér hafi í upphafi heitið Elliðahöfn og verið kenndur við skip það, er Ketilbjörn gamli kom á frá Noregi — það sama og Elliðaárnar eru við kenndar. Hvort svo hefir verið eða ekki, verður víst seint upplýst. Þó má benda á, að Þórdís, systir Skafta lögsögumanns á Hjalla, varð þriðja kona Gissurar hvíta. Þeirra son var Ísleifur biskup. Hafi hinn kristni goði á Hjalla verið að gera lögbýli úr verbúðum þeim og hrófum, sem hann hlýtur að hafa átt hér niðri á ströndinni, um svipað leyti og hann var að gefa dóttur sína sonarsyni Ketilbjarnar — þeim manni, er fáum árum áður átti sinn stóra þátt í kristnitökunni á Þingvöllum, — er varla hægt að segja, að seilzt hafi verið um hurð til lokunnar, þótt nýbýlið væri kennt við frægasta farkost í ætt brúðguma. Þau sömu munnmæli, sem herma, að bær hér hafi heitið Elliðahöfn, geta þess og, að bóndi hér hafi í hafsnauð heitið á heilagan Þorlák sér og félögum sínum til fulltingis og heimkominn hafi hann breytt nafni á bæ sínum og kallað Þorlákshöfn. Sitthvað gæti verið missagt í fræðum þessum, en varla er hægt að gera ráð fyrir, að bær hafi verið kenndur við heilagan Þorlák fyrr en 20. júlí 1198. Þann dag var helgur dómur hans upp tekinn og prestar samþykktu áheit á hann.

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Þess skal að lokum getið, að í lögmannsannál er sagt, að árið 1360 hafi Gyrður Skálholtsbiskup ætlað til Noregs fjölmennur á skipi litlu. Skipið var ekki komið úr landsýn, er það sökk. Fyrir áheit á heilagan Þorlák björguðust menn allir, og silfurkistu dómkirkjunnar rak á land á Eyrum. Vel má vera, að hér sé að finna kveikjuna að munnmælasögunni og nafnaskiptunum — ef verið hafa. En hvað sem bærinn hét, þá fer það ekki á milli mála, að hér var búið og oftast stórt. Tún voru tödd og slegin, búsmala gætt og hann nytjaður. Konur komu ull í fat og mjólk í mat, og karlar gættu útiverka til lands og sjávar. Börn fæddust og eldra fólk safnaðist til feðra sinna.
Kynslóðir komu og kynslóðir fóru, þar til komið var fram um 1950, þá hvarf síðasta bændafólkið héðan með amboð sín og áhöld — fénað og föggur.
Þá lauk sögu sveitabýlisins.

Mannskaðar og mannbjörg

Þorlákshöfn

Þorlákhöfn – kort frá 1908.

Auður in djúpúðga lét gera knörr einn mikinn. Hún hafði með sér frændlið sitt allt, það er á lífi var, þar á meðal 20 karla. Hún hafði og auð fjár á skipinu.
Hún kom skipi sínu á Vikraskeið. Þar braut skipið, en menn héldust og fé. Vikraskeið heitir nú Hafnarskeið. Þannig er elzta frásögn, sem til er úr nágrenni Þorlákshafnar, tengd sjónum, og fer vel á því. Þetta er þó ekki í eina sinnið, sem getið er um gifturíka björgun mannslífa hér um slóðir.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – lending fyrrum.

Laugardaginn 5. nóvember 1718 strandaði danska herskipið Gautaborg á Hafnarskeiði. Þá björguðu bændur hér úr grenndinni rúmlega 170 manns á land.
Hinn 16. marz árið 1895 réru öll skip, sem þá voru gerð út frá Þorlákshöfn, en þau voru rúmlega 20. Þann sama dag réru einnig um 60 skip frá öðrum verstöðvum í Árnessýslu. Um miðjan dag brimaði svo snögglega, að einungis tugur skipa náði lendingu í heimavör austan Ölfusár. — öll hin skipin, rúmir sjö tugir, urðu að lenda inn á milli Skarfs og Flataskers. Þann dag áttu nær 1000 karlmenn á bezta aldri Norðurvörinni hér líf að launa. Ekki þarf að ræða, hvert afhroð sunnlenzkar sveitir hefðu goldið, ef hennar — og þeirra manna, er þá stjórnuðu hér — hefði ekki notið við.
En því miður geymir saga Þorlákshafnar ekki aðeins frásögur um sigra í baráttunni við Ægi. Þar er líka getið um ósigra og mannskaða. Á árunum 1840—90 fórust tvö skip héðan með um 30 manns innanborðs, og á sama tíma fórst um tugur manna í lendingu hér.

Verstöð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Þess er áður getið, að fyrstu mannabústaðirnir hér hafi verið verbúðir. Þannig mun starf hinna fyrstu manna hér hafa verið það sama og enn er sá burðarás, er afkoman hvílir á, að afla fiskjar og verka hann.
En veiðiskapur þessi og verkun hefir aldrei verið neitt einkamál þeirra, er hér hafa búið. Höfuðkirkjur og stórbýli sýslunnar áttu hér sína aðstöðu.
Þess er t. d. getið, að árið 1543 hafi Skálholtsstóll átt hér um 40 hestburði af fiski. Stóllinn átti um aldir ítök hér á staðnum — hvort þau hafi verið hluti af heimanmundi Þórdísar á Hjalla, veit ég ekki — en gömul eru þau. Og þegar jarðir Skálholtsstóls voru seldar um árið 1800, var Þorlákshöfn ein af þeim.
S

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

tórbóndinn sendi nokkra af vinnumönnum sínum hingað, og einyrkinn skildi búsmala sinn eftir í umsjá konu og barna og fór í verið. Þannig varð Höfnin einn af hornsteinum undir afkomu manna í héraðinu öllu. Ekki mun kunnugt um tölu vermanna hér, fyrr en komið er fram um miðja síðustu öld, en þá var ekkert óalgengt, að þeir væru 300—400 að tölu.
Framan af öldum var handfærið eina tækið, sem notað var til að ná fiski úr sjó. Árið 1800 gerði Lambertsen, kaupmaður á Eyrarbakka, tilraun með netaveiði hér útifyrir. Sú tilraun gaf góða raun, en þetta nýmæli mætti svo mikilli andspyrnu, að rúm öld leið, þangað til aftur var róið með net hér um slóðir.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – skipshöfn um 1900.

Um 1880 var farið að nota hér línu síðari hluta vetrar. Árið 1903 reyndi Gísli Gíslason, þá bóndi í Óseyrarnesi að veiða fisk í net og tókst vel. Sú mótmælaalda, sem þá reis, var brotin á bak aftur á nokkrum árum, og árið 1909 voru netin orðin aðal veiðarfærið.
Það lætur að líkum, að ekki var fremur hægt að róa alla daga vertíðarinnar um aldamót en nú er. Vermenn urðu því að sjá sér fyrir einhverju að gera í tómstundum, sem því miður urðu stundum helzt til margar. Gat jafnvel komið fyrir, að einungis væri hægt að róa 30 af þessum 90—100 dögum, sem vertíðin stóð.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – áhöfn um 1920.

Sumir notuðu tómstundirnar til þess að gera ýmsa smáhluti, sem heimilum þeirra mátti að gagni koma. Aðrir spiluðu eða glímdu og fyrirkom, að leikfimi var iðkuð. Þá starfaði hér lestrarfélag og söngfélag. Einnig var málfundafélag hér um og eftir aldamótin. Það hóf m.a. undirbúning að byggingu sjúkraskýlis hér á staðnum. Nokkru var safnað af peningum, og á vertíðinni árið 1916 var grunnurinn gerður og grindin reist.
Það vor veitti sýslusjóður 200 kr. til þessara framkvæmda. En því miður fauk grindin og þar með vonin um sjúkraskýli hér, en fé það, er til var, var lagt í sjúkrahússbygginguna að Litlahrauni, en, eins og kunnugt er, voru konur þær, er að þeirri byggingu stóðu, of stórhuga fyrir sína samtíð, og byggingin endaði sem fangelsi, en ekki sjúkrahús.

Verzlunarstaður

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Í Íslendingasögunum er hvergi getið um skipakomur til Þorlákshafnar. Fyrsta örugga heimildin um kaupskip hér er frá árinu 1533, þá segist landfógeti hafa tekið við 30 lýbskum mörkum frá tilteknum kaupmanni liggjandi í „Thorlacershaffen“.
Ekki er ljóst, hvort skip þetta var statt hérna fyrir einhverja tilviljun eða algengt var, að kaupskapur færi fram hér á víkinni. Okkur, sem átt höfum heima hér í Þorlákshöfn fleiri eða færri undanfarinna ára og sótt svo til allar okkar daglegu nauðþurftir í þessa einu búð, sem hér hefir verið, gæti virzt, að ekki þyrfti mörg orð til þess að rekja verzlunarsögu staðarins. En það er öðru nær.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – bærinn 1911.

Hér er um að ræða nær tveggja alda sögu — sögu um baráttu hins veika við hinn sterka — sögu um uppreisn hins kúgaða gegn kúgara sínum —, en fæst af því verður rakið hér.
Hinn 13. júní árið 1787 var gefin út í Kaupmannahöfn konungleg tilskipun um, að verzlun á Íslandi skuli frjáls öllum þegnum Danakonungs. Þá hófst verzlunarsaga Þorlákshafnar. „Spekulantar“ lögðust hér inn á víkina, en voru illa séðir af Bakkakaupmanni — var jafnvel dæmi til, að þeir héldu sig heldur vestur á Keflavík, þar sem þeir blöstu ekki eins við Bakkanum. Sumrin 1789 og 1790 fengu þrír Árnesingar skip hingað, en Petersen Bakkakaupmanni tókst að fá verzlunarleyfin dæmd af þeim félögum.
Árið 1845 var lögð fram á Alþingi bænaskrá undirrituð af 142 sunnlenzkum bændum, þar sem óskað var eftir, að Þorlákshöfn verði löggilt sem verzlunarstaður.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1918.

Vorið 1875 samþykkti fjölmennur bændafundur, haldinn í Hraungerði, að óska hins sama, og þá um sumarið flutti Þorlákur Guðmundsson frumvarp til laga um verzlunarstað í Þorlákshöfn. Frumvarpið var samþykkt í neðri deild. Þegar það svo kom til efri deildar, gekk þáverandi landlæknir svo hreinlega af því dauðu, að það var fellt við fyrstu umræðu.

Landlæknir sagðist hafa verið læknir á Eyrarbakka um eins árs skeið og gæti því borið um, að Þorlákshöfn væri einn mesti brimrass á öllu landinu, nema ef vera skyldi, að Svörtuloft væru lakari. Það mætti alveg eins setja lög um verzlunarstað á tunglinu eins og í Þorlákshöfn.
Hins gat læknirinn ekki, að hann hafði þetta ár sitt á Bakkanum verið meiri gistivinur í húsi kaupmannsins en í kotum karlanna, sem áttu lendingunum í Þorlákshöfn líf að launa. Þorlákur tók málið upp aftur á þinginu 1877 og daginn eftir Þorláksmessu á sumri það ár var samþykkt, að Þorlákshöfn í Árnessýslu skuli vera löggiltur verzlunarstaður frá 20. júní 1878. Verzlun hér hefir þó aldrei verið mikil. Þó hafði Jón Árnason hér sölubúð um skeið, og eftir að þorpið myndaðist, hefir Kaupfélag Árnesinga rekið einu verzlunina, þar til nú, að komin er önnur matvöruverzlun, brauðgerð og tvær sérverzlanir.

Lendingaraðstaða — hafnargerð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – loftmynd 1958.

Tvær voru lendingar í Þorlákshöfn, Norður- og Suðurvör, og voru þær um mitt Hafnarnes austanvert. Varir þessar höfðu tvo stóra kosti. Þann fyrstan, að siglingaleiðin að þeim var hrein og skerjalaus. Og hin, sem oftar skipti sköpum um gildi þeirra, að þar var sjór ekki ófær, nema rok væri af suðaustri eða um 30 gráður hvoru megin við þá átt. Nokkru áður en vindur nær hásuðri, verður hann nesfastur og Flóinn tekur við mestu látunum, áður en áttin verður þver austan. En auðvitað getur lagt kviku hér inn á víkina í öðrum áttum.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – bátar í nausti.

Á fyrstu árum þessarar aldar samþykkti sýslunefnd Árnessýslu að láta fara fram athugun á hafnarstæði beggja vegna Ölfusár. Thorvald Krabbe, þáverandi landsverkfræðingur, gerði þessa athugun á árunum 1907—1909. Honum fannst ekki gerlegt að leggja í framkvæmdir austan ár, en gerði tillögur um hafnargerð í Þorlákshöfn.
Árið 1913 veitti Alþingi Fiskveiðifélagi Íslands1000 kr. styrk til þess að rannsaka og gera áætlun um vélabátahöfn í Þorlákshöfn. Jón Þorláksson, sem þá var orðinn landsverkfræðingur, gerði þessa áætlun.
Árið eftir flutti Matthías Ólafsson, þingmaður Vestur-Ísfirðinga og starfsmaður fiskifélagsins, tillögu þess efnis, að landssjóður veitti 20.000 króna styrk til hafnargerðar hér og auk þess yrðu lánaðar 40.000 krónur úr viðlagasjóði til sömu framkvæmda.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – santfiskbreiður.

Tillaga þessi fór til sjávarútvegsnefndar, sem lagði til, að landssjóður keypti jörðina og léti gera þar landshöfn, og er það fyrsta sinni, sem það orð er notað um höfnina hér, svo mér sé kunnugt.
Þegar þessi tillaga var komin fram, dró Matthías tillögu sína til baka. Tillaga nefndarinnar var mikið rædd og var loks ákveðið að vísa málinu til landsstjórnarinnar.
En þingsalirnir voru ekki eini vettvangurinn fyrir umræður um hafnarmál Þorlákshafnar.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – sjóbúðir.

Hinn 18. júlí 1914 var mest öll forsíða blaðsins Suðurland helguð þessum málum og þá komizt að þeirri niðurstöðu, að vélbátaútgerð á Eyrum nyti sín ekki til fulls, nema til kæmi í Þorlákshöfn hafnaraðstaða, sem þeir gætu leitað til í viðlögum eins og verið hafði með áraskipin.
Hinn 11. marz árið 1916 ritar Gestur á Hæli langa grein í Suðurlandið. Þessi grein er um samgöngumál Sunnlendinga. Þar kemst Gestur að þeirri niðurstöðu, að það fyrsta, sem gera þurfi í þeim málum, sé að byggja höfn í Þorlákshöfn.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911.

Það ár var sýslufundur Árnessýslu haldinn um mánaðamótin marz—apríl. Þar lagði Gestur fram tillögu um hafnargerð í Þorlákshöfn og samgöngur út frá henni.
Og á aukafundi sýslunefndar hinn 17. júní um sumarið var samþykkt að kaupa jörðina Þorlákshöfn og gera þar höfn, sem tæki 175 fiskibáta og a. m. k. 2 hafskip. Samþykkt þessi var bundin því skilyrði, að verð jarðar og hafnar færi ekki fram úr einni milljón króna, og á því mun málið hafa strandað. Þetta sumar var mikið skrifað um hafnarmálin hér, og er ekki tækifæri til að tíunda það nú. Þó vil ég ekki láta ógetið greinar, sem danski faktorinn á Eyrarbakka skrifaði í Suðurlandið hinn 24. apríl um vorið. Greinin hefst á orðunum „vel lýst mér á hugmyndir Gests um höfn í Þorlákshöfn“. Síðan er gerður samanburður á aðstöðu til hafnargerðar hér og á Eyrarbakka. Það fer ekki á milli mála, að þar heldur náttúrufræðingurinn Pétur Nielsen á pennanum, en arftaki dönsku einokunarkaupmannanna hefir verið rekinn út í horn, meðan greinin var skrifuð.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1911 – sjóbúðir.

Árið 1917 var samþykkt þingályktunartillaga um, að gerð verði áætlun um fulltrausta hafnargerð í Þorlákshöfn og hvað slíkt verk muni kosta. N.P. Kirk, verkfræðingi, var falið að vinna þetta verk, og skilaði hann áætlun árið 1919. Hann lagði til, að gerður yrði 635 m langur suðurgarður og 860 m norðurgarður. Inni í höfninni kæmi svo „T“ laga bryggja, og væri landleggurinn 183 m, en þverbryggjan 60 m. Kostnað áætlaði hann 3.830.177 kr. Sumarið 1929 var 20 m löng og 4 m breið bryggja gerð norðan við Norðurvörina. Sumarið eftir var hún lengd um 10 m.
Sumarið 1935 var Flataskersgarðurinn gerður. Hann var 90 m langur, teiknaður af Jóni Þorlákssyni til þess að taka skakkafallið af Norðurvörinni. Árið 1938 var hafin gerð Suðurvararbryggju. Var unnið við hana öðru hverju næsta hálfan annan áratuginn, og var hún þá orðin 175 m löng með tveggja metra háum skjólvegg á ytri brún.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – hafnaraðstaðan fyrrum.

Vorið 1962 var enn hafizt handa um hafnargerð hér. Þeim áfanga lauk árið 1969. Þá var Suðurvararbryggja orðin 240 metrar. Norðurvararbryggjan var þá orðin „L“ laga. Frá landi var hún 195 m, en þverleggurinn 100 m. Fljótlega eftir að Heimaeyjargosið hófst, var farið að huga að bættri hafnaraðstöðu á suðurströndinni. Árangur þeirra bollalegginga var, að Alþjóðabankinn lánaði fé til þriggja hafna, en lang mest til Þorlákshafnar.
Hinn 1. september árið 1974 hóf verktakafyrirtækið Ístak framkvæmdir við þann áfanga hafnargerðar hér, sem nú er unnið að, og áætlað er, að verði lokið á þessu ári, en það er stærsta átak, sem gert hefir verið í einu við hafnarbyggingu hér á landi.

Jörðin Þorlákshöfn

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Sjálfsagt hefir oltið á ýmsu um eignarhald á jörðinni Þorlákshöfn, eins og á öðrum góðjörðum landsins. Kirkja og klaustur — biskupar og braskarar hafa áreiðanlega átt hana öldum saman. En stundum hafa setið hér sjálfseignarbændur.
Árið 1818 keypti Magnús Beinteinsson, þá bóndi hér, jörðina, og í Suðurlandi 8. des. árið 1910 er þess getið, að Jón Árnason, sonarsonur Magnúsar, hafi þá fyrir fáum dögum selt Þorleifi Guðmundssyni frá Háeyri höfuðból sitt. Jón sat hér þó til dauðadags, 4. nóvember 1912.

Þorlákshöfn

Jón Árnason og frú.

Um það leyti, er Þorleifur keypti jörðina, hafði franskt útgerðarfyrirtæki mikinn áhuga á að koma sér upp útgerðarstöð hér. Það sendi hingað verkfræðinga árið 1911, og sögur voru á lofti um, að Þorleifur hafi selt Frökkunum hluta jarðarinnar.
Upp úr 1920 kemst Þorlákshöfn svo í eigu Reykvíkinga og er það, þangað til árið 1934, að Kaupfélag Árnesinga, undir stjórn Egils Thorarensen, kaupir hana. Tólf árum síðar kaupa svo Árnes- og Rangárvallasýslur staðinn, og á þeirra vegum var ráðizt í hafnarframkvæmdirnar á árunum 1946 og 1962.
Árið 1966 var höfnin gerð að landshöfn, og eignaðist ríkið þá 80 m breiða spildu meðfram ströndinni. Árið 1971 keypti svo Ölfushreppur jörðina að undanskildum nokkrum hekturum, sem sýslurnar eiga enn.

Dýrasta jörð á Íslandi
ÞorlákshöfnÁ árunum kringum 1920 var unnið að nýju fasteignamati fyrir landið í heild. Mat þetta tók gildi 1. apríl 1922 og var Þorlákshöfn þá dýrasta jörð á Íslandi, metan á 118.000 kr. auk bygginga.
Hve hátt land hér var virt, sést bezt á því, að allt land Árnessýslu var þá metið á tæplega tvær og einn fjórða úr milljón, og að 6 af hreppum sýslunnar voru hver um sig lægra virtir en landið hér. Skálholtsland var þá virt á 9.700 kr. og Oddi á Rangárvöllum á 8.400, og allt land Skarðshrepps í Dalasýslu var talið 400 kr. minna virði en sandurinn hér og trúlegt, að Birni á Skarði og Ólöfu ríku hefði þótt það þunnur þrettándi. Var þá hægt að moka hér upp gulli á þessum árum? Ekki úr sandinum, en þeir, sem að matinu unnu, gerðu sér ljóst, að mikið gull var geymt í Selvogsbanka, og hér höfðu verið hönnuð þau mannvirki, er þurfti til að taka á móti því.

Meitillinn hf. stofnaður
ÞorlákshöfnÁrið 1949 var Meitillinn h.f. stofnaður að frumkvæði Egils Thorarensen. Í september það ár kom fyrsta skip þess fyrirtækis hingað. Var það 22 tonna eikarbátur, er Brynjólfur hét. Félagið hóf svo útgerð á vertíðinni 1950. Þann vetur voru bátar þess 5 og hétu allir nöfnum Skálholtsbiskupa. Flaggskip þess flota var Þorlákur, er var 27 tonn. Samtals voru þessir 5 bátar 104 tonn. Fyrstu starfsmenn Meitilsins settust að í bæjarhúsum bóndans. Þannig sátu gamli og nýi tíminn hér í tvíbýli um skeið og skildu í bróðerni.
Á manntalinu árið 1950 voru skráðir hér í Þorlákshöfn 4 karlmenn, en engin kona. Árið eftir, þegar fyrstu húsinu voru reist, voru komnar hingað tvær fjölskyldur og 7 einhleypingar, alls 14 manns. Nú eru hér 834 íbúar með lögheimili, þar af 406 innan við tvítugt, en aðeins 5, sem náð hafa áttræðisaldri. Meðalaldur manna hér er nú 24 ár, og má segja, að sá hafi verið meðalaldur íbúanna öll árin, sem þorp hefir staðið hér.

Barnafræðsla

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamla skólahúsið.

Ölfushreppur byggði á sínum tíma heimavistarskóla fyrir börn í Hveragerði. Þar áttu bændabörnin héðan að stunda sitt skyldunám, eins og önnur börn sveitarinnar.
Fyrstu ár þorpsins hér voru engin skólaskyld börn á staðnum. Það var ekki fyrr en á árunum 1954—1955, sem þurfti að fara að hugsa um barnafræðslu í Þorlákshöfn. Þá varð hver að bjarga sér, eins og bezt hann gat. Einu barni var komið fyrir á Selfossi, og með öðru var lesið heima.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn fyrrum.

Sumarið 1956 voru hér 9 skólaskyld börn. Þá um haustið var sett hér á stofn útibú frá skólanum í Hveragerði og Kristján frá Djúpalæk ráðinn til kennslunnar.
Fram að jólum var kennt í sjóbúð, í janúar var verið í skúr, sem reyndist óhæfur. Þá var flutt í íbúð, sem útibússtjóra K.Á. hafði verið ætluð. Svona gekk þetta næstu árin. Kennt var, þar sem hægt var að fá inni fyrir nemendur og kennara.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – Gamli bærinn 1961.

Í upphafi ársins 1962 var flutt í skólahús staðarins. Byggingu þess var þó ekki lengra komið en svo, að mótatimbur klætt tjörupappa þénaði sem útihurð og rúðugler. Útbúnaður þessi hélt vindi og vatni að mestu utan veggja, en rafmagn og olía gáfu húsinu birtu og yl.
Þetta vor luku 37 börn prófi hér. Þá var Þorlákshöfn gerð að sérstöku skólahverfi. Aukning nemenda hefir verið stöðug og nú, þegar hér hefir verið kennt í rétt 20 ár, er tala nemenda 170. Vantar aðeins tug til að tvítugur standi skólinn með 20 sinnum fleiri nemendum en hann byrjaði með. Kennarar voru 9 í vetur eða jafnmargir og nemendurnir fyrsta árið.

Gamall kirkjustaður

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – gamli bærinn.

Á fyrri öldum, þegar hestar postulanna máttu heita eina farartæki alþýðu hér á landi, voru kirkjur miklu víðar en nú er. Þorlákshöfn er einn þessara gömlu kirkjustaða.
Hvenær eða hve lengi hér stóð kirkja, er mér ekki kunnugt, en víst er, að hér var hálfkirkja fram yfir miðja 18. öldina.
Kirkjugarður var fyrir norðan bæjarhúsin, og voru flutt þaðan að Hjalla bein, er upp komu í jarðraski, er þar var gert í sambandi við hafnargerðina árið 1962. Hökull úr Þorlákshafnarkirkju er á minjasafninu á Selfossi.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn-gamli bærinn.

Mér er fullljóst, að mikið vantar á að sögu Þorlákshafnar hafi verið gerð tæmandi skil. Til þess að ég geti gert það, vantar mig tvennt, sem ekki verður án verið, en það er þekking og tími til að raða saman þeim sprekum, sem rekið hafa á fjörur mínar. En enginn Sunnlendingur lætur hug fallast, þótt ekki sé alhirt um höfuðdag, og það, sem við ekki komum í verk í dag, munu afkomendur okkar gera á morgun.
Þegar Þorlákur Guðmundsson, 2. þingmaður Árnesinga, mælti fyrir þeirri tillögu sinni á Alþingi árið 1875, að hér mætti verða verzlunarstaður, sagði hann m.a.: „Það mun fara með þetta mál sem hvert annað, að væri það á skynsamlegum ástæðum byggt, mundi það hafa framgang, en væri það af heimsku stofnað, mundi það með henni fyrirfarast.“
Það er von mín, að sú verði gifta Þorlákshafnar, að hvert það mál, sem er á skynsamlegum ástæðum byggt, nái fram að ganga, en það, sem er af heimsku til stofnað, muni með heimskunni fyrirfarast.“

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál, 3. hefti, 01.06.1976, Ágrip af sögu Þorlákshafnar – Gunnar Markússon, bls. 109-115.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.

Þorlákshöfn

Í Sjómannadagsblaðinu 1982 er fjallað um „Sögu Þorlákshafnar„:

Höfundur Þorlákshafnar, höfðingjarnir tveir

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

„Þorlákshöfn mun draga nafn sitt af Þorláki helga, er biskup var í Skálholti (1139—1193) en þar mun hann hann hafa stigið á land, eftir að hafa tekið biskupsvígslu, árið 1178. Hann þótti hinn skörulegasti biskup og reyndi mjög að efla kirkjuvaldið, sem kunnugt er. Önnur sögn segir á hinn bóginn að bóndi í Þorlákshöfn, er þá hét Elliðahöfn, hefði heitið á Þorlák biskup í sjávarháska, að breyta nafni jarðarinnar, ef hann næði landi, heilu og höldnu.
Miklar sögur eru um útgerð og siglingu í Þorlákshöfn og talið að Ögmundur Pálsson, biskup, sem var í Skálholti 1521—1540 (d. 1541) hafi siglt skipi sínu, Súðinni í Þorlákshöfn, en hann var nafntogaður skipstjórnarmaður og réði yfir Súðinni, haffæru skipi, en hann sigldi sjálfur, meðal annars margsinnis til Noregs.
ÞorlákshöfnEkki er unnt að rekja hér langa útgerðarsögu Þorlákshafnar, en einkennileg tilviljun er það, að tveir frægðarmenn koma þar seinast við sögu, Þorleifur ríki á Háeyri, útvegsbóndi, kaupmaður og alþingismaður, er segja má að væri seinasti ábúandi í gamla stíl, meðan róið var á áraskipum, og Egill Gr. Thorarensen í Sigtúnum, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga, er menn nefndu oft Jarlinn í Sigtúnum. Hann fékk kaupfélagið til að kaupa Þorlákshöfn og er réttur faðir Þorlákshafnar eins og hún er í dag.
Svo skemmtilega vildi til, að við hér á blaðinu hittum að máli syni þessara tveggja höfðingja, þá Benedikt Thorarensen, framkvæmdastjóra hjá Meitlinum hf. og Sigurð Þorleifsson, Guðmundssonar á Háeyri, en báðir eiga þeir heimili í Þorlákshöfn, og ennfremur Gunnar Markússon, bókavörð, en hann er einnig fróður mjög um sögu staðarins.
Og á frásögnum þeirra og öðrum upplýsingum, rituðum, skal hér reynt að gjöra nokkra grein fyrir Þorlákshöfn að fornu og nýju, það er Þorlákshöfn Þorvaldar á Háeyri og Þorlákshöfn Egils í Sigtúnum.

Þorlákshöfn í byrjun aldar

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – kort.

Þorlákshöfn liggur í vesturjaðri Árnessýslu og svonefnt Hafnarnes skýlir höfninni í suðlægum og suðvestlægum áttum og síðan er landvar frá hendi náttúrunnar allt að ASA. Landsynningur eða suðaustanáttin var erfiðasta áttin, því þá stóð upp í víkina. Að norðan og austanverðu markar Skötubótin og síðan Hafnarskeið Þorlákshöfn, eða „Höfninni“ bás, en fyrrgreint svæði, þótt opið sé, er einstakt í óvogskorinni og skjóllausri strönd Suðurláglendisins. Þorlákshöfn varð því snemma lífhöfn manna á þessum slóðum.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Þorleifur á Háeyri bjó í Þorlákshöfn á árunum 1914—1927 og gerði þar út. Í hans tíð munu skipin (áraskipin) flest hafa orðið 30 talsins. Þetta voru teinæringar, er sumir nefna 12 róin skip. Til eru góðar heimildir um skip í Þorlákshöfn á þessari öld og munu þau um aldamótin hafa verið um 20 talsins og árið 1901 voru þau 27. En flest urðu þau árið 1916, eða 30, en úr því fer skipum að fækka í Þorlákshöfn.
Nýir tímar fóru í hönd í útgerð, og menn leituðu á aðra staði, þar sem náttúruhafnir voru fyrir skútur og togara. Árið 1923 voru aðeins 5 skip eftir, sem réru frá Þorlákshöfn. Vélbátaútgerð var ekki stunduð í tíð Þorleifs á Háeyri. Bryggja var engin og allt varð að bera. Róið var út í saltiskip og saltið borið í sekkjum í hús og fiskinum var skipað út með sama hætti, róið var í skip. Út og uppskipun fór fram við Hellurnar, Norðurhellu og Suðurhellu. Aðallega var þó skipað út við Suðurhelluna, því þar var fiskinum pakkað í húsi, er þar stóð, og nefnt var Bakkapakkhús, en Einarshafnarverslun átti það hús. Saltinu var skipað upp í báðar varirnar, Norðurvör og Suðurvör, en á báðum stöðunum voru salthús.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

Mjög fjölmennt var í Þorlákshöfn á vertíðum og að meðtöldu heimilisfólkinu hjá Þorleifi, mun hafa verið á fimmta hundrað manns í Þorlákshöfn á vetrarvertíð.
Sjómennirnir, eða skipshafnirnar bjuggu í sjóbúðum, sem voru grjótbyrgi með bárujárnsþaki. Veggir voru úr torfi og grjóti, áður en bárujárnið kom til sögunnar, voru sjóbúðirnar með torfþaki, eins og flest önnur hús á Íslandi. Upphitun var engin, en prímus var notaður við eldamennsku, sem aðallega mun hafa verið sú að laga kaffi. Sjóbúðin var eitt herbergi og flet meðfram veggjum og sváfu tveir í hverju fleti. Aðkomumennirnir voru flestir úr Ölfusinu og austan úr Árnessýslu. Margir komu frá Eyrarbakka, og ennfremur réru þarna Rangæingar.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – sjóbúð.

Þorleifur á Háeyri gerði út nokkra báta og verkaði fisk af sínum bátum og einnig tók hann að sér fiskverkun fyrir Einarshafnarverslun á Eyrarbakka. Fyrstu árin að minnsta kosti.
Í tíð Þorleifs voru tvö íbúðarhús í Þorlákshöfn. Gamli bærinn, sem svo var nefndur og svo tvílyft timburhús, eða íbúðarhús, bárujárnsklætt, sem stóð framar.
Umsvif Þorleifs á Háeyri í Þorlákshöfn voru mikil en fóru minnkandi. Hann þraukaði þó þarna til ársins 1927, en þá voru skipin aðeins orðin fjögur. Þorleifur fluttist síðan til Reykjavíkur og varð þar fisksölustjóri. Hann andaðist árið 1942.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – róðraskip um 1890.

Áraskipin voru á netaveiðum, einvörðungu, í tíð Þorleifs. Þá var hætt að verka í skreið á Íslandi, nema harðfisk til heimabrúks.
Allur fiskur var saltaður, og það sem ekki var saltað til útflutnings, var svokallaður matfiskur, morkinn fiskur og fiskur með lýti. Hann var hafður til manneldis og seldur í sveitirnar. Þorskhausar voru þurrkaðir og seldir innanlands.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúð um 1917.

Þess má þó geta, að þorskanet voru fyrst notuð í Þorlákshöfn árið 1907. Sjómennskan var erfið og aldrei höfðu menn með sér bita á sjóinn, ekki einu sinni þótt tvíróið væri sama daginn, eða þríhlaðið, sem oft kom fyrir, ef verið var á leirnum, sem svo var nefnt. Fengust þá of 12000 fiskar á skip sama daginn, og þegar róið var hrærðu menn í þorski með árunum og oft gogguðu menn fiska upp úr sjónum á leiðinni í land.
Þorlákshöfn
Merkileg tilraun var gerð í Þorlákshöfn árið 1922, en þá reyndi frægur aflamaður Nes-Gísli (Gísli Jónsson) að veiða þorsk í hringnót. Gísli hafði þríhlaðið skip sitt þennan dag. Þegar lokið var við að landa, héldu þeir út með hringnót, sem gjörð var úr trolltvinna. Nóttina höfðu þeir á einu skipi, en kunnu ekki með að fara, enda sveitamenn, eins og flestir þeir sem réru á áraskipum á þessum stað. Þeir köstuðu nótinni og fengu 60 fiska. Ekki hugkvæmdist þeim að nota tvö skip til að kasta nótinni, en það er önnur saga. Er þetta líklega í fyrsta skipti, sem gerð er tilraun til þorskveiða með nót hér á landi. Ekki mun nótinni þó hafa verið kastað nema einu sinni.
Þess má einnig geta, að Gísli í Nesi, varð fyrstur manna til að nota þorskanet í Þorlákshöfn, en áður fóru skipin með lóðir.
Síðasti bóndinn í Þorlákshöfn var Guðmundur Jónsson, en hann flutti að Eyði-Sandvík í Flóa árið 1940. Þá lagðist sveitabúskapur af í Þorlákshöfn. Skúli Þorleifsson var ráðsmaður í Þorlákshöfn 1942—1943 og viðloðandi þar um skeið.
Lítil útgerð mun hafa verið í Þorlákshöfn í tíð Guðmundar Jónssonar.

„Nú skal byggja borg“
ÞorlákshöfnSem áður sagði, þá eru það einkum tveir héraðshöfðingjar, er setja svip sinn á Þorlákshöfn á þessari öld. Annar þeirra Þorleifur á Háeyri sér hina eldfornu útgerð áraskipa liðast í sundur í straumi tímans, hinn Egill í Sigtúnum tekur að sér að leiða Þorlákshöfn til nýrrar tíðar. Báðir þessir menn voru orðnir að þjóðsögu, áður en þeir voru allir, sem er fremur sjaldgæft á Íslandi, og ekki hafa þeir heldur meiðst í endurminningunni. — Standa þar fyrir sínu. Sem áður sagði þraukaði Þorleifur á Háeyri til ársins 1927 í Þorlákshöfn, enda staðurinn búinn að vera í bili, sem viðunandi verstöð.
Þá verða tímamót í sögu Þorlákshafnar. Árið 1929 mun fyrst hafa verið reynt að gjöra bryggju í Þorlákshöfn, og var hún 20 metra löng. Ekki skal fullyrt um gagnsemi hennar, en árið 1934 kaupir Kaupfélag Árnesinga jörðina. Um þetta segir Guðmundur Daníelsson, rithöfundur í grein á þessa leið. (Stytt):
„Á stjórnarfundi Kaupfélags Árnesinga 2. apríl 1934 var samþykkt að festa kaup á jörðinni Þorlákshöfn með þeim mannvirkjum, sem þar voru. Kaup þessi voru í upphafi mest hugsuð til að hefja útgerð í atvinnubótaskyni, hef ég einhvers staðar lesið, en tel mjög hæpið. Aftur á móti mun hafa vakað fyrir Agli að bæta svo lendingarskilyrði, að þar yrði brátt hægt að skipa upp flestum vörum Sunnlendinga, það er að segja að byggja hafskipahöfn.
Árið 1935 lét Egill kaupfélagið hefja útgerð í Þorlákshöfn. Ólafur bóndi Þorláksson á Hrauni í Ölfusi er einn af örfáum Íslendingum, kannski sá eini, sem vitni varð að því, þegar Egill kom fyrsta sinni út í Þorlákshöfn til þess að ræða við eina formann staðarins um væntanleg kaup K.Á. á jörðinni, umsvif og atvinnurekstur þar. Ólafur segir frá þessu í minningargrein, sem hann skrifaði um Egil látinn:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – hafnaraðstaðan fyrrum.

„Það mun hafa verið síðari hluta vetrar 1933, að ég var við sjóróðra á vertíð í Þorlákshöfn, þá tvítugur unglingur. Staðurinn var þá kominn í slíka niðurníðslu, að aðeins einn bátur (opin trilla) reri þarna frá verstöðinni, þrátt fyrir það að þarna rétt upp við landsteina var sjórinn svo morandi af fiski, að einn daginn fengum við til dæmis á fjórða þúsund fiska, þrátt fyrir þær aðstæður sem þá voru fyrir hendi. Og þeir sem við þetta unnu voru aðeins menn úr nágrenninu. Slík var nú trúin orðin á framtíð staðarins.
ÞorlákshöfnÞað var snemma morguns einn dag áður en farið var á sjó, að inn í verbúðina vatt sér maður einn gustmikill og mikilúðlegur, og af honum sindraði orka og fjör. Hér var þá kominn forstjóri hins unga kaupfélags, sem nýbúið var að stofna í héraðinu. Maður þessi tók sér sæti á rúmi formanns og fékk sér hressilega í nefið. Síðan tóku þeir tal saman, og fór ég að leggja við eyra. Egill sagðist nú vera kominn í þeim erindagjörðum að skoða Þorlákshöfn, því að hann hefði hugsað sér að láta kaupfélagið kaupa jörðina. Síðan hann að lýsa á sinn alkunna hátt öllum þeim möguleikum, sem þarna væru fyrir hendi og verkefnum sem biðu þess að verða leyst. Og ég, unglingurinn, hlustaði þarna sem bergnuminn og fannst sem ég hlýddi á ævintýri „Þúsund og einnar nætur.“
Og kaupfélagsstjórinn var ekki að tvínóna við hlutina fremur en endranær. Strax um sumarið var hafizt handa um lendingarbætur og síðan útgerð. Fyrst í smáum stíl en síðan vaxandi. Þannig hefur þróunin haldið áfram, að vísu með nokkru hléi á stríðsárunum (þá dró „Bretavinnan“ til sín allt fáanlegt vinnuafl). En að lokinni styrjöldinni komst nýr og aukinn skriður á uppbyggingu Þorlákshafnar, og ekki hefur orðið lát á því síðan.“
Um þennan þátt í frumlegu og stórtæku sköpunarstarfi Egils á vegum verklegra framkvæmda hefur Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu þetta að segja:
„Egill Thorarensen gleymdi ekki sjónum og gjöfum hans. Hann var líka vel minnugur hafnlausu strandarinnar, sem umlykur mesta samfellda búnaðarhérað landsins. Hann sá, að höfn yrði að byggja í hinni gömlu verstöð við Eyrarbakkabugt, sem helguð var hinum sæla Þorláki biskupi, og hann sá fyrir sér stóra hafnarborg rísa upp á hinni gróðurlausu örfoka sandströnd. Og hann lét ekki sitja við hugsanir og orðin tóm, það gerði hann aldrei. K.Á. keypti þessa niðurníddu verstöð, hóf hafnarbætur og útgerð, þar sem fiskurinn gengur upp í landsteina á vetrarvertíð, svo að þríróa má hvern dag, þegar gæftir eru.
Þorlákshöfn
Eftir stríðið, sem endaði 1945, endurreisti Egill í annað sinn útgerð í Þorlákshöfn, og þá stofnaði hann sjálfur, K.Á., SÍS og fleiri aðilar hlutafélagið Meitilinn í Þorlákshöfn. Áður, árið 1938, hafði Egill látið K.Á. hefja þar byggingu hafskipahafnar. Að heimsstyrjöldinni lokinni vaknaði almennur áhugi á lengingu þessa hafnargarðs, sem kominn var. Þar með taldi Egill, að málið væri í rauninni orðið ofviða einu kaupfélagi, því að vissulega stefndi hann að hafskipahöfn með öruggri legu fyrir 40 til 50 stóra fiskibáta. Þá vann Egill það þrekvirki, sem ég persónulega er viss um, að enginn lifandi maður á Íslandi hefði getað leikið eftir honum: að fá Árnes- og Rangárvallasýslur til að kaupa Þorlákshöfn, það er að segja jörðina og hafnarmannvirkin. Meitillinn hélt aftur á móti áfram að vera hlutafélag. Þetta gerðist árið 1946. Hafnarnefnd var sett á laggirnar og formaður hennar kosinn Páll Hallgrímsson sýslumaður. Helmingur nefndarinnar mun hafa verið búsettur austan Þjórsár, meðal annarra sýslumaðurinn, Björn Fr. Björnsson.
ÞorlákshöfnNú var settur kraftur á framkvæmdirnar, og sýslusjóðir urðu auðvitað að galopna pyngjur sínar — og dugði stundum ekki til. Þá tókst Agli jafnvel að fá stjórn Mjólkurbús Flóamanna til að hlaupa undir bagga, eitt sinn þegar mikið reið á að koma niður bryggjukerum, sem búið var að steypa í landi.. . .“ Samþykkti Mjólkurbúið að leggja til 5 milljónir króna, sem var mikið fé á þessum tíma.
Samkvæmt upplýsingum Benedikts Thorarensen, framkvæmdastjóra, þá hóf Kaupfélag Árnesinga hafnargerð þegar árið 1934 og stóð sú framkvæmd til ársins 1946. Gerður var varnargarður í Norðurvör og ennfremur var hafist handa um gerð Suðurvarargarðs árið 1938, sem árið 1940 var orðinn 75 metra langur. Á þessum árum var hafin útgerð trillubáta og dekkbáta og reist var fiskhús til að salta aflann.
Voru verslunarhús Vesturbúðarinnar á Eyrarbakka flutt til Þorlákshafnar og endurreist þar. Trillurnar lönduðu aflanum við Norðurvararbryggju.
Árið 1950 urðu enn þáttaskil í sögu Þorlákshafnar. Keyptir voru fimm þilfarsbátar og einn 100 tonna bátur. Annars skammtaði höfnin stærð bátanna, og voru þeir 20—30 tonn hver. Minni bátarnir lágu fyrir legufærum, en stærri bátar voru á útilegu.
Næsti áfangi er svo að árið 1960 en þá byggði Meitillinn hraðfrystihús. Annar þáttur hafnarsögunnar var sá, að Sambandið setti snemma upp fóðurblöndunarstöð og landaði fóðurvörum, og Olíufélagið hf. setti upp olíugeyma og sendi olíu með skipum til Þorlákshafnar, en mikið hagræði var að geta landað varningi og skipað út vörum í Þorlákshöfn. Var t.d. mestu af föngum Búrfellsvirkjunar skipað upp í Þorlákshöfn, svo dæmi séu nefnd um almennt gildi hafnarinnar á þessum árum. Þá var Þorlákshöfn notuð til mjólkurflutninga út í Vestmannaeyjar og er enn.

Takmarkinu náð — Höfnin fullgerð

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1960 – Meitillinn.

Árið 1960 voru miklar framkvæmdir á vegum sýslufélaganna, sem nú áttu Þorlákshöfn. Fengið var lánsfé með ríkisábyrgð, en árið 1965 var Þorlákshöfn gjörð að landshöfn. Síðan er svo lokið við hafnargerðina með stórátaki í kjölfar Vestmannaeyjagossins.
Benedikt Thorarensen lýsir þessu svo í grein er hann ritaði í Sjómannablaðið Víking árið 1978:

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1965.

„Eftir eldgosið í Heimaey í janúar 1973, leit helzt út fyrir, að Þorlákshöfn yrði að taka við hluta Vestmannaeyjaflotans, og opnuðust þá möguleikar á lántöku hjá Alþjóðabankanum til uppbyggingar hafnarinnar í Þorlákshöfn. Höfnin var þá reyndar þegar alltof þröng orðin fyrir heimaflotann, en skipin stækkuðu og þurftu meira pláss.
Gifta hafnar heilags Þorláks var mikil morguninn eftir gosnóttina, þegar um 5000 eyjaskeggjar komust hér á fastalandið slysalaust með fiskibátum sínum og annarra, þ.á m. bátum héðan, sem legið höfðu í Eyjum daginn áður vegna óveðurs. Frá kl. 8 árdegis fram yfir hádegi munu hartnær 1 þús. manns á klukkustund hafa stokkið uppá bryggjurnar hér. Það var mikið lán.
Verksamningur um gerð nýrrar hafnar var undirritaður við Ístak h.f. 9/10 ’74, og þegar hafist handa. Á verðlagi þess árs átti verkið að kosta um 710 millj. Er óhætt að segja, að þetta vandasama verk hafi í öllum meginatriðum gengið samkvæmt áætlun.
Þorlákshöfn
1975, síðla hausts, var lokið hættulegasta áfanga hafnargerðarinnar, Suðurvarargarðs. Alls fóru í gerð beggja hafnargarðanna um 2900 steinakkeri (dolosar) sem vega hver um níu lestir eða alls 26.000 tonn. Um 380 þús. rúmmetrar af grjóti, af ýmsum ákveðnum stærðum fóru í garðana. Þá varbyggt ferjulægi fyrir ferjuskipið Herjólf, sem vígði svo höfnina hausið 1976 með því að slíta borða, sem strengdur hafði verið fyrir hafnarkjaftinn. Ferja þeirra eyjamanna hefur því verið starfrækt um tvö ár, og allt gengið vel.“ Síðan víkur Benedikt að vegamálum, nauðsyn á vegi með bundnu slitlagi til Reykjavíkur, en þeirri framkvæmd er nú lokið, þótt ýmsum hafi þótt miða heldur seint.
Nú því er við að bæta, að Þorlákshöfn hefur reynst vel. Þaðan eru gerðir út um 25 bátar og þrír togarar, en auk þess leggur fjöldi aðkomubáta þar upp afla, og á þessa vertíð munu um 50 skip landa afla í Þorlákshöfn.“ -JG

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1982, Þorlákshöfn, bls. 31-41.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.

Drepstokkur

Gengið var um ósasvæði Ölfusár vestanvert, um endimörk FERLIRssvæðisins í suðri austanmegin. Ætlunin var einnig að feta fætur lítt lengra til austurs og skoða hvort þar mætti enn sjá ummerki eftir bæina Drepstokk og Óseyranes. Eyrarbakki hefur jafnan viljað tengja sig Drepstokk (Refstokk) og Bjarna Herjólfssyni enda bæði Óseyrarnes og Drepstokkur austan árinnar. Óseyrartangi er hins vegar vestan ósa.

Eyrarbakki

Eyrarbakki.

Í Grænlendingasögu segir að “Herjúlfur var Bárðarson Herjúlfssonar. Hann var frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjúlfi gaf Ingólfur land á milli Vogs og Reykjaness. Herjúlfur bjó fyrst á Drepstokki. Þorgerður hét kona hans en Bjarni son þeirra og var hinn efnilegsti maður. Hann fýstist utan þegar á unga aldri. Varð honum gott bæði til fjár og mannvirðingar og var sinn vetur hvort, utan lands eða með föður sínum. Brátt átti Bjarni skip í förum. Og hinn síðasta vetur er hann var í Noregi þá brá Herjúlfur til Grænlandsferðar með Eiríki og brá búi sínu.” Líklegt er að með Vogi sé átt við Selvog, en ekki Kvíguvoga eins og sumir ætla.

Hafnarskeið

Hafnarskeið.

Hafnarskeið við vestanverða Ölfusárósa hét áður Vikrarskeið. Hraunskeið er utar og þá Stóraskarð næst ósnum. Utan við Hafnarskeið voru bæirnir Drepstokkur og Óseyranes. Þeir stóðu þar sem nú er ósasvæði árinnar. Þorlákshöfn er hins vegar vestan árinnar og það allnokkuð. Hún var fyrrum bær og síðan kauptún á Hafnarnesi.
Laxdælasaga segir frá komu Auðar djúpúðgu til landsins, þegar skip hennar brotnaði á Vikrarskeiði og fé og menn björguðust. Þar er nú Hafnarskeið og Hraunskeið vestan Ölfusárósa. Ströndin þar var styttri vegna þess, að Ölfusá féll vestar til sjávar og þar stóðu bæirnir Óseyarnes og Drepstokkur. Sagnir herma, að þar hafi staðið bærinn Elliðahöfn og bóndinn þar hafi eitt sinn heitið á Þorlák biskup að breyta nafni jarðarinnar, þegar hann og áhöfn hans lentu í sjávarháska. Eftir undraverða björgun breytti hann hafninu í Þorlákshöfn. Kirkja heilags Þorláks stóð þar í katólskum sið og þar var öldum saman kunn verstöð.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – Skötubót.

Þorlákshafnar er ekki getið í Íslendinga sögum. Hins er getið að Auður djúpúðga kom „skipi sínu fyrir sunnan land á Vikrarskeið; þar brjóta þau skipið í spón; menn allir héldust og fé“, sem fyrr sagði.
Siglingar íslenskra sæfara til Norður-Ameríku um árið 1000 eru Íslendingum vel kunnar. Flestir hafa heyrt um Leif heppna en nafn Bjarna Herjólfssonar er síður þekkt. Ljóst er að leiðangurs Kristófers Kólumbusar árið 1492 var líklega farinn meðal annars vegna áhrifa frá siglingum Íslendinga.
Um allan heim er því trúað að Kristófer Kólumbus hafi fundið Ameríku árið 1492.

Bjarni Herjólfsson

Ferðir Íslendinga til Vesturheims.

Íslendingar telja sig vita betur, og vísa til tveggja fornsagna, Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða. Þar er sagt frá sæförum af íslensku bergi brotnu, sem sigldu austur fyrir Grænland og fundu Helluland, Markland og Vínland hið góða.
Fornleifafundur á L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi í Kanada hefur leitt í ljós þyrpingu húsa sem byggð voru af norrænum mönnum. Aldursgreining gefur ártalið um 1000, sem skýtur styrkum stoðum undir frásagnir íslenskra fornsagna.
En hver fann Ameríku? Meðal okkar Íslendinga hefur nafni Leifs heppna, Leifs Eiríkssonar, verið haldið mjög á lofti. Bjarni Herjólfsson hefur hingað til staðið fremur í skugganum. Það jafnvel svo, að margir sem spurðir eru muna ekki hvað hann gerði merkilegt, eða kannast ekki við að hafa heyrt á hann minnst. Eins er margt annað áhugavert sem gerðist á næstu öldum eftir fund Vínlands, sem mætti gjarnan njóta athygli ekki síður en sagan af Leifi Eiríkssyni.

Drepstokkur

Upplýsingaskilti við Drepstokk.

Í Grænlendinga sögu segir af Bjarna Herjólfssyni frá bænum Drepstokki. Talið er að Drepstokkur hafi staðið austan ósa Ölfusár, um tvo kílómetra vestan við Eyrarbakka. Það svæði hét áður Eyrar. Jörðina hafði Herjóflur, langafi Bjarna, fengið að gjöf skömmu eftir landnám frá Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni, en þeir voru frændur. Bjarni var farmaður, eða kaupmaður, og átti skip í förum milli Íslands og Noregs. Eitt sinn er hann kom frá Noregi á Eyrar fregnaði hann að faðir hans hefði það sama sumar siglt með Eiríki rauða til Grænlands. Talið er að þetta hafi verið kringum árið 985.

Drepstokkur

Drepstokkur.

Þótti Bjarna brottför föður síns mikil tíðindi og vildi fylgja honum eftir. Voru hásetar hans einnig viljugir að sigla. Mælti þá Bjarni: „Óviturlig mun þykkja vár ferð, þar sem engi vár hefir komit í Grænlandshaf“. Engu að síður sigldu þeir frá Eyrum. Eftir þrjá daga hrepptu þeir þoku og hafvillur, og sigldu dögum saman án þess að vita hvert leið lá. Loks kom að því að þeir litu Ameríku augum. Bjarni ákvað hins vegar að venda norður með austruströndinni og stefna til Grænlands.
Smám saman urðu þessar fregnir heyrinkunnar og viðurkenndar á æðstu stöðum. Með tilskipun Paschals II páfa árið 1112 varð Eiríkur Gnúpsson upsi biskup yfir “Grænlandi og Vínlandi in partibus infidelium”.

Bjarni Herjólfsson

Ferð Bjarna Herjólfssonar til Vesturheims.

Á öðrum stað í heimildum er talað um biskup yfir Grænlandi og svæðum í nágrenni, á latínu “Episcopus Groenlandiae regionumque finitarium”. Hér getur ekki verið um að ræða rugling við nafn Íslands, enda var Gissur Ísleifsson þar biskup fyrir. Þetta eru í raun mjög merkilegar upplýsingar. Að senda prest á staðinn er eitt, en allt annað að sjálfur páfinn samþykki nýja stöðu biskups sem er mjög há staða innan kirkjunnar, á svæði sem tilheyrir meginlandi Ameríku. Þetta er rækileg sönnun fyrir því að vissan um landafundi Íslendinga var traust í Evrópu þegar í byrjun 12. aldar. Hins vegar virðist sem að þeir hafi að miklu leiti gleymst á þeim öldum sem í hönd fóru.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.

Þjóðsagan um bauk séra Eiríks prests á Vogsósum gerist á Hafnarskeiði. Í henni segir að „einhvern tíma reið séra Eiríkur að heiman og piltur með honum. Þegar þeir voru komnir nokkuð áleiðis sagði prestur að hann hefði gleymt bauk sínum undir höfðalagi sínu og beiddi piltinn að ríða eftir honum ug flýta sér, en varaði hann við að taka tappann úr honum.
Pilturinn reið heim og fann baukinn þar sem honum var til vísað. En þegar hann reið eftir presti kom að honum forvitni mikil að vita hvað í bauknum var, svo hann tók tappann úr. Sá hann þá ekki í heiðan himininn fyrir mýflugum og heyrði þessa suðu fyrir eyrum sér:
„Hvað á að gjöra, hvað á að gjöra?“
Piltur varð ekki ráðalaus og sagði: „Flétta reipi úr sandinum.“

Bjarni Herjólfsson

Skip þess tíma.

Að lítilli stundu liðinni kom mýflugnahópurinn aftur og sögðu: „Búið er það; hvað á að gjöra?“
„Fara í baukinn aftur,“ sagði pilturinn.
Gjörðu mýflugurnar svo, en hann lét tappann í hið fljótasta.
Skömmu síðar náði hann presti. Spurði hann þá piltinn hvort hann hefði gjört eins og fyrir hann var lagt, en pilturinn gekkst hreinlega við öllu og sagði hvað sér hefði orðið að ráði. Prestur sagði honum hefði farið vel úr því sem komið var, og kvað hann þess maklegan að honum væri sagt til stafs.
Þar er nú Hafnarskeið er árarnir rótuðu sandinum.“
Þótt ekki hafi fengist óyggjandi staðfesta á hvar Drepstokkur var nákvæmlega var gangan, sem tók 1 klst og 11 mín, stórkostleg, enda frábært veður þarna niður við ströndina.

Heimildir m.a.:
-http://www.skolavefurinn.is/_opid/islenska/bokmenntir/
-http://www.bokasafn.is/ferdavefur/torlakshofn.htm
-http://www.sssig.com/landafundir-grein-mbl.htm
-http://www.snerpa.is/net/thjod/baukur.htm

Drepstokkur

Drepstokkur.