Færslur

Þórukot

Þórukot var bær á holtinu ofan Litla-Hamars skammt frá Mýrarhúsum og Holti, norðan Ófriðarstaða (Jófríðarstaða). Norðan Þórukots var myndarlegur grjótgarður er afmarkaði umdæmið. Bærinn stóð skammt vestar þar sem [fyrrverandi] leikskóli austan St. Jósepsspítala var [áður en hann var rifinn].

Þórukot

Þórukot (Klapparholt) 1926 og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.

Þjóðsaga var skráð á landi Þórukots. Tengist hún svonefndri “Þóruklöpp”, sem var innan nefnds túngarðs og var nefnd eftir síðasta ábúanda kotsins.
Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni.

Önnur þjóðsaga tengist Jófríðarstaðahól, þar skammt sunnar, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.

Þórukot

Þórukot – uppdráttur settur ofan á loftmynd frá 2022.

Enn sést hluti grjótgarðs Þórukots, sem hlaðinn var á öðrum áratug síðustu aldar. Sumir hafa talið garðinn þann vera a.m.k. frá tímum siðaskipta og þar af leiðandi elstan slíkra í Hafnarfirði.

Garður þessi gæti vel verið sá elsti í Hafnarfirði, þótt ungur sé (gæti ekki verið heillegri), enda hafa bæjarbúar verið iðnir við að endurnýta allt tilfallandi grjót í gegnum tíðina og bæjaryfirvöld hafa á sama tíma verið sérstaklega dugleg við að horfa framhjá öllu því sem gamalt getur talist. Skv. fornleifaskráningu Byggðasafnsins 2020 er garðurinn þessi frá Þórukoti er stóð þarna skammt frá; sagður í fornleifaskráningu vera frá 1900-1950. Gamli túngarður Ófriðarstaða (Jófríðarstaða) skv. túnakorti náði langleiðina þangað niður eftir. Hamarskot var skammt norðaustar. Bærinn Holt var í millum. Holtsgata dregur nafn sitt af bænum. Þarna var landamerkjagarður fyrrum. Sá garður er horfinn undir nýja byggð fyrir löngu.

Þórukot

Þórukot – garður.

Ekki er með öllu hægt að útiloka að einhverjir steinar úr görðum á þessum slóðum, hvort sem þeir hafi verið hlaðnir í veggi um siðaskiptin eða jafnvel umhverfis einstaka kot í upphafi byggðarinnar millum Akurgerðis að austanverðu og Hvaleyrar að vestanverðu, hafi ratað í garðinn þann arna. Þó verður að telja ólíklegt að grjótið hafi verið borið í þá um langan veg. Steinarnir í garðinum eru margir allstórir. Ýtir það undir þau rök að hann hafi verið hlaðinn eftir að viðhlítandi tækjabúnaður hafi verið orðinn til.

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Hafa ber í huga að Jófríðarstaðir voru fyrrum jörð út frá Hvaleyri. Ófriðarstaðir (Jófríðastaðir) eru því mun yngri sbr. https://ferlir.is/sitthvad-um-fjordinn-magnus-mar-larusson/. Ef leita ætti að elstu garðleifunum í „Hafnarfirði“ (hafa ber í huga að bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1908) væri nær að leita að eldri minjum á Hvaleyri og nágrenni. Þar hafa golfarar því miður farið offari við að afmá einstakar minjar frá fyrri tíð, líkt og bæjaryfirvöld hafa reyndar gert í gegnum tíðina.
Jón og ÞóraMikilvægt er að gefa fólki kost á að deila um „hluti“ sem þessa, sem í raun skipta engu máli í samhengi hlutanna. Merkilegustu fornleifar byggðalagsins hafa, því miður, síðustu árin, legið óbættar hjá garði.

Í bók Magnúsar Jónssonar, “Bær í byrjun aldar” segir m.a.: “Hér verður einnig minnst á á önnur hjón sem voru á þessum stað? [Holti] stuttan tíma og máttu þá þröngt sáttir sitja. Það voru hjónin Jón Ólafsson og Þóra Elísabet Þorsteinsdóttir. Þau höfðu gifst 1892 og voru nýflutt til Hafnarfjarðar frá Svalbarða á Álftanesi. Bæði voru þau fædd í því byggðarlagi, hann á Gamla-Hliði 1864 og hún í Haugshúsum 1863?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kynning í Fréttablaðinu 31. mars 2023, bls. 4 (kynningarblað).

Þau voru með einkabarn sitt Sigríði, en hana misstu þau 1908. Þessi hjón komu sér upp bæ sem þau vildu nefna Klapparholt, en aðrir létu Holts-nafnið nægja. Sá bær er nú bílgeymsla st. Jósepssystra í Hafnarfirði. Jón Ólafsson dó 1916, en Þóra 1954.”

Vonir standa til að Hafnarfjarðarbær muni leggja sig fram um að varðveita eitthvað af framangreindum minjum er enn sjást, enda hafa bæjaryfirvöld gefið sig sérstaklega út fyrir að vilja “varðveita menningarminjar” í bænum, sbr. Fréttablaðið 31, mars 2023, bls 4 (kynningarblað).

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær 2020, bls. 16 og 27.
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson, 1967, bls. 14.
-https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/230331.pdf

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Álftanes

Gengið var um vestanvert Álftanes, norðan Skógtjarnar. M.a. var komið við í tóftum Litlabæjar, gengið út á Litlabæjartanga og síðan gengið með ströndinni innan við Sandskarð. Þar fyrir innan er t.d. Bakkakot og Bakkakotstjörn. Fyrir innan röðuðu kotin (Hákot, Gesthús, Sveinskot, Kekkjakot, Mýrarkot, Garðskot, Þóroddarkot, Grashús, Þórukot, Bjarnastaðir og Friðrikskot) sér í þétta þyrpingu fyrr á öldum.

Eldhús

Hlóðareldhús – Gaimard.

Sá hluti Álftaness, sem tilheyrir landi Garðabæjar, afmarkast af vestanverðu af Skógtjörn. Í tjörninni gætir mikils munar flóðs og fjöru. Í Skógtjörn er fjölbreyttur gróður og dýralíf. Skógtjörn er mikilvægur viðkomustaður farfugla. Yfir vetrarmánuðina halda þar til endur og álftir. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir Árni Helgason að sögur hermi að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.
Þegar staðið er á Litlabæjartanga í svo “stórri sveit”, sem Álftanesið hefur verið í gegnum aldirnar með stjórnsýslusetrið Bessastaði innanborðs, með hafið á mót ströndinni og lífsblett smælingjans landmegin, verður ekki hjá því komist að velta lífi hins venjulega fólks fyrir sér hér fyrr á öldum. Nákvæm lýsing á búskapnum í Litlabæ er til frá því á ofanverðri nítjándu öld. Gísli Jónsson, alþingismaður, skrifaði þær og studdist við minnisblöð föðurs síns, Jóns Hallgrímssonar. Foreldrar Gísla fengu jörðina til ábúðar árið 1884 og bjuggu þar í tólf ár.

Álftanes

Stíflisgarður við Skógtjörn.

Í Litlabæ bjuggu 11 manns samkvæmt manntalinu 1890; hjón ásamt fimm börnum sínum, tveimur vinnumönnum og tveimur vinnukonum. “Þar hefur fjölskyldan verið í hörðum skóla. Þar hefur hún liðið sult, klæðleysi, sjúkdóma og fátækt. Þar hefur faðir minn margoft teflt á tæpasta vaðið í baráttu við æðisgengnar öldur, stórviðri, myrkur og byl.”
Lýsing Gísla gæti átt við svo til sérhverja fjölskyldu á Íslandi á þessum tíma.
Jörðinni og híbýlum þeirra lýsir Gísli svo: “Suðvestast á Nesinu, alveg fast að klettóttri ströndinni, er lítið kot. Litlibær heitir það, og ber nafn með rentu. Húsakynnin eru lítill torfbær, byggður í gömlum íslenskum bæjarstíl, með göflum og dyrum gegnt hafinu.

Bær

Í bæjargöngum.

Þegar gengið er inn moldargöngin, er til vinstri handar þiljuð örlítil stofa með timburgólfi. Til hægri handar er moldareldhús, með hlóðum,… en óþiljað. Fyrir enda gangsins er stigi upp í baðstofu. Hún er tvö stafgólf, með súð og torfþaki. Þar er engin upphitun. Einn fjögurra rúðu gluggi er á stofugafli, en á hvorum enda baðstofu er einnig gluggi, en nokkru minni. Á eldhúsi er enginn gluggi, en birta fæst niður um víðan stromp, sme er beint yfir hlóðunum og tekur frá þeim allan reyk. Við norðurvegg eldhússins er gripahús. Er þar bás fyrir eina kú, stalldur fyrir einn hest, og stía fyrir sex kindur. Inn af því er heygarður til geymslu á fóðri, og op á milli svo að taka má heyið, án þess að fara út. Beint fram af gripahúsinu er safnþró, opin og óvarin. Við suðurvegg er hjallur, sem notaður er til geymslu og til að þurrka föt og fisk…

Álftanes

Álftanes fyrrum.

Túnið er lítið og þýft. Sjávarmegin er hár kambur af möl, sem brimið hefur sópað upp.

Bær

Bæjargöng.

Þegar úfinn er sjór og brim er mikið í stórstaumum, gengur möl, sandur og sjávargróðurinn yfir kambinn og alla leið inn á túnið. Verður því að hreinsa það á hverju vori. Í sæmilegu ári gefur túnið af sér kýrfóður. Fyrir aðrar skepnur verður að afla heyja á annarra landi.”

Svo mörg voru þau orð – lýsing á dæmigerðum íslenskum bæ á nítjánu öld. Síðan eru liðin mörg ár – eða hvað?
Stundum er hollt að staldra við, setjast niður og rifja upp við hvaða kost forfeður okkar bjuggu við fyrir tiltölulega stuttu síðan. Árið 1910 -´20 voru helmingur allra húsa á Íslandi úr torfi og grjóti. Nú, 85 árum síðar, eru torfbæir ekki til (nema sem söfn). Hugsaðu um það – lesandi góður!
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín – en hugurinn reikaði á þeim tíma allt að 101 ár aftur í tímann, eða hér um bil.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanesssaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson – 1996.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.