Færslur

Staðarborg

Við Vatnsleysustrandarveg, ofan Kálfatjarnar er skilti. Á skiltinu er eftirfarandi fróðleikur:

Staðarborg

Staðarborg – upplýsingaskilti.

“Staðarborg er um 1.5 km frá Vatnsleysustrandarvegi, um miðja vegu milli Reykjanesbrautar og Vatnsleysutrandarvegar í stefnu á Trölladyngju (suðaustur). Borgin sést þó ekki fyrr en komið er nokkuð upp í heiðina vega hæða sem skyggja á hana. Varðan hér litlu austar heitir Pestsvarða. Frá henni má fylgja lágum vörðum sem vísa leiðina að borginni. Fyrst er komið á langan klapparhól er heitir Klifflatarhóll. Þar eru tvær vörður. Þaðan skal fylgja vörðum sem sjást þar til Staðarborg blasir við.

Fjárborgin mikla
Staðarborg er stór og listilega hlaðin fjárborg. Líklegt er að borgin hafi verið hlaðin sem skjól fyrir fé í illviðrum. Áður fyrr voru borgir hlaðnar til að spara húsbyggingar. Þá voru gripahús af skornum skammti heima við bæi og var sauðfé haft úti eins lengi og unnt var. Sauðamenn sem þá voru á flestum bæjum önnuðust sauðféð og fylgdust með því ef þurfa þótti.

Staðarborg

Staðarborg.

Engar heimildir eru til um aldur Staðarborgar. Þó er talið víst að borgin sé nokkur hundruð ára gömul og teljist því til fornminja. Borgin er mjög heilleg og hefur ekki verið hreyft við henni utan þess að ofan dyranna voru tveir stórir steinar sem notaðir höfðu verið sem árefti yfir dyrnar til varnar þess að stórgripir kæmust inní borgina. Snemma á 20. öld lenti hins vegar stórgripur þar inni. Til að ná gripnum út var áreftið fyrir ofan dyrnar tekið svo þær uðu heilar uppúr. Staðarborg var friðlýst árið 1951 samkvæmt lögum um verndun fornminja.

Þjóðsagan

Staðarborg

Staðarborg að innanverðu.

Í þjóðsögu einni er sagt frá því að presturinn á Kálfatjörn hafi fengið hleðslumann til að hlaða borgina. Helðslumaðurinn vandaði vel til verka og notaði grjót úr nágrenninu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp eins og aðrar smærri fjárborgir sem voru víða um land. Má því til stuðnings skoða hleðsluna að innan sem var farin að slúta nokkuð. Er prestur komst að þessu varð hann reiður og harðbannaði þetta þar sem einsýnt var að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfartjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Við þetta á hleðslumanni að hafa gramist svo að hann hljóp frá ókláruðu verkinu og fór frá presti.

Örnefnin í Strandarheiði

Staðarborg

Staðarborg – örnefnin í heiðinni (SG).

Örnefnin hafa að geyma ákveðna sögu og með þeim má oft átta sig á með hvaða hætti landið var nýtt á mismunandi tímum. Örnefnin í heiðinni eru mörg og gönguleiðirnar margar eins og gefur að skilja ef horft er til landnotkunar áður fyrr þegar lifað var af því sem landið gaf. Þá var landið að mestu notað til sauðfjárræktar. Í kjölfar aukinnar vélvæðingar og umbóta í landbúnaði, s..s aukinnar túntæktar, girðingu heimatúna og áburðarnotkunar, um og eftir aldamótin 1900, færðist sauðfjárræktin í aukum mæli frá selstöðum í heiðinni í heimatúnin. Í kjölfarið minnkaði notkun örnefna í heiðinni og er svo komið í dag að mörg þeirra hafa fallið í gleymsku.”

Framangreindur fróðleikur er ágætur – svo langt sem hann nær. Hafa ber í huga að sunnan við Staðarborgina er áberandi hóll. Á henni eru leifar óþekktrar fjárborgar. Austan hennar er annar áberandi hóll með fjárborgarleifum. Vestan Staðarborgar er svo mjög svo áhugaverð Þórustaðaborgin.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.