Á vefsíðu VSÓ má m.a. sjá eftirfarandi upplýsingar um Þríhnúkagíg, aðgengi, varðveislu og athugunum á að gera hann aðgengilegan almenningi.
Árni B. Stefánsson augnlæknir, Björn Ólafsson og Einar K. Stefánsson stofnuðu árið 2004 félagið ”Þríhnúka ehf.” með það að markmiði að vinna að frumathugun á raunhæfi þess að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan almenningi – en jafnframt og ekki síður að tryggja að gígurinn og umhverfi hans verði varðveitt.
Félagið fól VSÓ Ráðgjöf að stýra vinnu við frumathugun á raunhæfi og fýsileika verkefnisins. Markmiðið með vinnunni er að gefa út skýrslu sem svarar flestum þeim spurningum sem upp munu koma hjá væntanlegum framkvæmdaraðila eða fjárfestum s.s. varðandi skipulagsmál, leyfisveitingar, kostnað o.s.frv. Einnig er sérstök áhersla lögð á öryggismál s.s. hrunhættu, jarðskjálfta o.fl. að ógleymdum ýmsum álitaefnum varðandi umhverfismál og náttúruvernd.
Þríhnúkagígur er stærsta og merkilegasta náttúrufyrirbrigði sinnar tegundar á jörðinni. Tröllaukið holrými, falið undir norðaustasta Þríhnúknum, á hálendisbrúninni 4-5 km vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum og 20 km suðaustur af Reykjavík. Allmikil umfjöllun var um gíginn í fjölmiðlum vorið 1991, en þá hafði risavaxin gíghvelfingin og tengdar rásir verið kannaðar og mældar eins og kostur var. Ítarleg grein um niðurstöður birtust í Náttúrufræðingnum 1992. Gígurinn hefur verið kynntur á alþjóðlegum ráðstefnum um hraunhellafræði og alþjóðlegum ritum um hellafræði.
Enginn aðgengilegur sýningarhellir er hér á landi með göngustígum og raflýsingu. Slíkan sýningarhelli skortir sárlega. Íslenskir hraunhellar bjóða sumir uppá slíkt. Þeir eru margir hverjir stórmerkilegir, en iðulega óaðgengilegir fyrir almenning.
Tveir fegurstu hellar hérlendis Jörundur og Árnahellir hafa verið friðlýstir sérstaklega og hefur þeim verið lokað fyrir nánast allri umferð. Aðgengi hefur verið takmarkað að Víðgelmi. Almenningur hefur sýnt þessu mikinn skilning og nauðsyn lokunar og leyndar almennt viðurkennd, þegar viðkvæmir hellar eiga í hlut. Til eru þau augljós dæmi um að “lokunarsinnar” hafi gengið of langt í að loka hellum, einkum á Reykjanesskaganum.
Þríhnúkagígur er ein merkilegasta náttúrumyndunum landsins. Hvorki meira né minna. Gígurinn er með afbrigðum óaðgengilegur og hrollvekjandi og þannig ekki beint aðlaðandi. Fátt er um myndir úr gíghvelfingunni og engar góðar myndir eru til úr gíghálsinum vegna tæknilegra örðugleika við myndatöku. Fjárhagslegt bolmagn er til staðar í samfélaginu fyrir framkvæmd, sem aðgengi Þríhnúkagígs er.
Í gegnum tíðina hefur oft verið leitt að því hugann hvernig gera má hann aðgengilegan. Að almenningur og ferðamenn geti notið þessarar einstæðu myndunar án skaða á sjálfum sér, eða gígnum sjálfum. Þær hugmyndir sem komið hafa fram til þessa eru ekki fýsilegar. Í þeim skrifuðu orðum; að “hanga þar eins og dordingull” fæddist sú hugmynd sem sett var fram í Mbl. 04.01. s.l. Að setja þar, nákvæmlega þar, á 56-60 m dýpi, stálgrind. Horfa niður í gegnum grindina og af grindinni niður og upp. Á þessum stað, í miðju eldgígsins, er upplifun þessa tröllaukna gímalds svo sterk, að með ólíkindum er. Hæðin niður á urðarsöðulinn er svipuð og séð niður úr Hallgrímskirkjuturni, eða af þaki 20 hæða háhýsis. Er hæðin meiri til hliðanna. Gígrásirnar beint upp eru álíka. Eða eins og að horfa af Skólavörðuholti upp á útsýnissvalir kirkjunnar.
Gera þarf um 200 m löng jarðgöng frá norðri, eða norðaustri með 4-6° halla. Göngin opnist í einum eða tveimur munnum, á um 64 m dýpi, eða í um 56m hæð frá botni. Þversnið gígrásarinnar er sporöskjulaga á þessum stað og NA endinn undir lokuðum gígstrompi í vari fyrir hugsanlegu hruni. Líklega er æskilegast að koma jarðgangaopum fyrir í NA og SV enda gígrásarinnar vegna meiri styrks jarðlaga þar. H laga stálbitar eru boltaðir í gangagólfið og standa út í rýmið. Á bitunum er komið fyrir stálgrindasvölum í hvorum enda með stíg á milli, með austurlangvegg gíghálsins.
Frágangur grindanna er þannig, að sem best sjáist í gegn. Hengihringstigi, eða tveir, er festur í NA svalirnar við vegginn og um þá gengt niður á botn. Vídd gígrásarinnar er á þessum stað nægileg til að rúma töluverðan fjölda fólks. Lykilatriði er að aðeins sé gengið í eina átt (hring). Upprunalegar hraunmyndanir eru á þessum stað hvað sérstæðastar. Engin hætta er að fólk skaði þarna viðkvæmar myndanir, þar sem ekki næst til þeirra. Jarðgöngin, eitt eða tvö pínulítil 3 ½ x3m op, skaða gíginn ekki á þeim skala sem hann er (1/1000 veggflatar), svalirnar ekki heldur. Frá þessu sjónarhorni nýtur lokaði strompurinn upp af NA hluta hvelfingarinnar sín afar vel. Hann er skreyttur rauðleitu hraunfrussi, sem hangir fagurlega niður í stuttum dropsteinsdrönglum á stóru svæði. Hvergi í veröldinni er hægt að horfa upp um gosrásir af þessari stærðargráðu. Frá sjónarhorni þess í neðra, eða þar fyrir að horfa ofan í aðra eins gíghvelfingu. Þó stærri hvelfingar finnist í kalksteinshellum er þetta aldeilis engu líkt. Nákvæmlega á þessum stað er gígurinn svo magnaður að ekki verður með orðum lýst.
Jarðgöngin verða að vera 3-4 m víð og hallinn ekki meiri en svo að hjólastólum sér fært. Rafmagnslína liggur um jarðgöngin í kapli og niður með hringstiganum. Útfærslu á lýsingu þarf að hugsa vel. Hún er þó ekki ýkja flókin. Ljósgjafar mega ekki sjást nema afar takmarkað, ef á annað borð. Lýsingin verður að vera óbein og um leið dulúðug. Möguleikar verða að vera á breytilegri lýsingu. A.m.k. 15-20 þús. watta lýsingu þarf, ef vel á að vera. Lyfta kemur til greina en varla í fyrstu atrennu. Hugsanlega má setja 12000W Krypton kastara með 0.3° geisla á botn með lýsingu beint upp um gosrásirnar og uppúr gígnum. Einnig mætti setja hann á svalir með lýsingu beint upp eða niður eftir því sem við á.
Ekki má raska NA Þríhnúknum, eða upprunalegum hraunmyndunum í gígrásunum á nokkurn hátt, ef undan eru skilin jarðgangaopin og svalirnar í gíghálsinum, ásamt handriði við gígopið og stígagerð. Satt að segja þarf að lagfæra nokkuð. Hreinsa þarf til á yfirborði. Gera þarf stíg á hnúkinn að norðan og merkja vandlega með stikum, eða sem betra er, afmarka hann með línum eða keðjum. Sjá þarf til þess að viðkvæmur gróður í hlíðum hnúksins jafni sig. Setja þarf upp skilti með helstu upplýsingum um gíginn á viðeigandi stað. Útsýn frá Þríhnúkum til Reykjavíkur og Snæfellsness er hreint frábær. Rétt er að geta þess að þarna er á takmörkuðu svæði mikið af skoðunarverðum náttúruminjum, eldgígum, hrauntröðum og fleiru. Gosminjarnar eru margar hverjar um 1000 ára gamlar, eða frá því eftir landnám.
Full ástæða er að gera svæðið aðgengilegt göngu- og öðru útivistarfólki. Stutt frá bílastæði við gangamunna má gera 3-400 fermetra aðkomubyggingu, sem tengist göngunum og fellur inní landið. Útgröftur úr göngunum gæti nýst í vegagerð. Kostnaður af aðkomubyggingu gæti deilst á þá aðila sem nýta hana eða náðst í formi langtímaleigu á aðstöðu. Þar gæti verið móttaka, kynning á hraunmyndunum og gosminjum, minjagripasala og hugsanlega veitingar. Vel má hugsa sér sérstök sýningar, eða kynningarsvæði, t.d. fyrir Norrænu Eldfjallastöðina, Náttúrufræðistofnun, ferðaþjónustuaðila o.fl. Jafnvel gosminjasafn.
Mikla sérþekkingu og reynslu þarf af hellum, sérþekkingu í sigtækni, verkfræðikunnáttu, fjármagn og áræðni til að af þessu verkefni verði. Ekki er endilega heppilegast opinberir aðilar, ferðaþjónustuaðilar, eða Bláfjallanefnd komi að verkefni sem þessu, nema óbeint, með velvilja, stuðningi og nýtingu. Ef leitað er að sérþekkingu erlendis frá og hún keypt fullu verði sem og verkleg sérkunnátta mun kostnaður líklega fara verulega úr böndum. Þekking og geta er til staðar hérlendis. Þó lögð hafi verið drög, þ.m.t. með þessari grein, hafa þeir kraftar enn ekki verið samhæfðir.
Framkvæmd sem þessi er auðvitað ekki möguleg nema í samvinnu við ráðandi aðila og fjölda annarra aðila. Óbein eða bein þátttaka velviljaðra stuðningsaðila er nauðsynleg til að þetta gangi upp. Gæti hún goldist í þeirri beinu og óbeinu auglýsingu sem gígurinn er og framkvæmdin hefur. Auglýsingagildið er feiknalegt. Bein fjárframlög má hugsa sér.
Hugmyndin er að takast á við þetta á sama hátt og í ferðirnar 1974 og 1991. Það er ekki svo, að þær ferðir og rannsóknarniðurstöðurnar ´91 hafi ekkert kostað. Reiknað á núvirði, í vinnustundum og öðru framlagi hleypur það á milljónum og meir sé vel reiknað. Þær upplýsingar sem fyrir liggja byggjast á áhuga og frjálsu framlagi fjölda einstaklinga og nokkurra fyrirtækja. Þannig er líklega rétt að halda áfram. Nú er auðvitað ekki verið að tala um að gera þetta ókeypis. Það er ekki hægt. Til þess er framkvæmdin of dýr. Hugsunin er, að framkvæmdin verði sjálfbær. Kostnaður í fyrstu greiddur með frjálsum framlögum og styrkjum opinberra aðila og fyrirtækja meðan verið er að kanna hvort þetta er gerlegt. Á síðari stigum, sé framkvæmdin fýsileg, með lánum og að lokum verði kostnaður greiddur með aðgangseyri. Líklega er hentugast að sjálfeignarstofnun, eða sérstakt fyrirtæki taki að sér framkvæmdina. Spölur gæti t.d. verið viss fyrirmynd, eða verið til hliðsjónar. Höf. er tilbúinn að koma að, eða jafnvel leiða það starf.
Aðdráttaraflið verður meira en menn geta almennt ímyndað sér. Líklegt er að mikill fjöldi Íslendinga og stór hluti erlendra ferðamanna muni heimsækja gíghvelfinguna. Líklegt er að þessi tröllaukna gíghvelfing muni jafnvel hafa meira aðdráttarafl en nokkuð annað náttúrufyrirbrigði á landinu. Með nálægð sinni við Reykjavík er gígurinn innan seilingar. Fjölmargir munu vilja heimsækja þetta einstæða náttúrundur. Að standa inni í miðjum eldgíg af þeirri stærðargráðu sem Þríhnúkagígur er, er einfaldlega með ólíkindum. Líklegt er að bæði gíghvelfingin sjálf og það afrek sem framkvæmdin í raun er, muni hafa ófyrirséð áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Varðveisla myndunarinnar verður að sitja í fyrirrúmi og mannvirki að standast ítrustu kröfur um öryggi og útlit.
Tilfinning sú sem hver upplifir við gígopið og í gígnum mun gera þann sama næmari fyrir eigin smæð og forgengileik. Hún mun um leið auka virðingu hans fyrir þeirri jörð sem hann byggir. Náttúruvernd er ekki alltaf fólgin í því að gera ekkert, þó slíkt geti vissulega átt við, í völdum tilvikum. Náttúruvernd er að sýna náttúrunni fulla virðingu og skilja ætíð svo við, að hún og þeir sem landið erfa, njóti. Megaborgir spretta nú upp víða um veröld, eins og gorkúlur að áliðnu sumri. Þrátt hið nýja borgarlíf, peningahyggju og vissa firringu, þá erum við mennirnir og verðum, hluti af náttúru þeirrar jarðar sem við byggjum. Af jörðu ertu kominn, að jörðu muntu aftur verða! Við sem nú lifum erum aðeins litlir hlekkir í endalausri keðju kynslóða. Tími er afstæður, hamingja og gleði einnig. Þó mörg okkar láti annað njóta vafans, dveljum við, eftir því sem best er vitað aðeins einu sinni á þessari jörð.
Hugmyndin sem sett var fram í Mbl 04.01. s.l. byggir á persónulegri reynslu við könnun gígsins, mikilli vinnu og er í raun ávöxtur áratugaíhugana. Tilgangur hugmyndarinnar er upplifun eigin smæðar ásamt mikilfengleik þessa merka náttúrufyrirbrigðis. Til að fá raunhæft mat á möguleikum til jarðgangagerðar er talið afar æskilegt að herða upp á vel unninni jarðfræðikortlagningu Kristjáns Sæmundssonar með því að ná borkjörnum úr hraunlagastaflanum á nærsvæði gígsins. Ekki kemur til greina að raska landi og hraunum vegna slíkra rannsókna og því hefur ávallt verið gert ráð fyrir því að koma tækjum á staðinn á harðfenni. Slíkar aðstæður hafa ekki verið fyrir hendi undanfarin ár en afar mikill snjór er nú á svæðinu og miklar líkur til þess að góðar aðstæður muni gefast innan tíðar.
Gert er ráð fyrir að niðurstöður verkefnis um opnun og aðgengi að Þríhnúkagíg verði kynnt á opnum fundi fyrir haustið 2008. Á undanförnum mánuðum hefur félagið aflað fjölmargra gagna, upplýsinga og álits sérfræðinga á málefnum sem snúa að aðgengi gígsins.
Tillögur um opnun gígsins, aðkomu og skipulag munu byggja á niðurstöðum náttúrufarsrannsókna, samráði við helstu hagsmunaaðila og úttektum sem gerðar hafa verið í tengslum við verkefnið. Forsendur innan Bláfjallafólkvangs hafa verið skoðaðar með tilliti til samnýtingar þjónustu og lagna, auk þess sem ferðamannaleiðir í nágrenni hafa verið kortlagðar. Markmið verkefnisins er að skilgreina hvernig stýra megi framkvæmdum við opnun Þríhnúkagígs þannig að sem minnst röskun verði á aðliggjandi landi og á hvern hátt koma megi mannvirkjum fyrir þannig að sem best falli að landslagi. Til að skaða náttúrufyrirbærið sem minnst, upplifa stærð og mikilfengleik sýna rannsóknir að aðkoma og upplifun ferðamannsins verði best útfærð með aðkomugöngum inn í miðjan gíginn.
Staðsetning Þríhnúkagígs gerir það að verkum að engin ein leið virðist liggja í augum uppi sem besti og eini kostur í aðkomu og aðgengi að gígnum. Var þannig stillt upp mörgum kostum sem teknir voru til samanburðar.
Innkomuleiðir hafa verið skoðaðar og eftir greiningu áhættuþátta og lýsingu þeirra sem sigið hafa í hellinn er dregin sú niðurstaða að mest og best megi skoða gíginn ef komið er inn í hann miðjan í um 480 m hæð, eða um 50-60 m undir gígopinu (valkostur B). Sá kostur er jafnramt sá sem telst heppilegastur m.t.t. jarðgangagerðar. Gert er ráð fyrir að ferðamaðurinn geti gengið inn í fjall og sjái hvernig fjallið opnast í stórkostlega hvelfingu, upplifi náttúrulegan “stromp”- og geti í jarðgöngunum séð myndrænt fyrir sér mótun landsins.
Frumtillögur arkitekta liggja fyrir sem sýna hvernig koma megi fyrir aðkomuhúsi í hrauninu án þess að ásýnd landsins breytist verulega. Tillögur miða að því að aðkomuhús verði fellt inn í hraunstafn austan við gíginn í um 300 m fjarlægð frá gígopinu. Aðkomuleið frá Bláfjöllum lægi um hellasvæðið í Strompahrauni og eftir það að mestu á grágrýti að hraunstafninum. Í þessum valkosti felst hins vegar allumfangsmikil vegagerð á ósnortnu hrauni sem er viðkæmt mál m.t.t. náttúruverndar. Var því ákveðið að taka til samanburðar valkost D sem felur í sér stuttan veg frá veginum að Hafnarfirði og jarðgöng með lyftu inn á botn gíghvelfingarinnar. Auk ofangreinds hefur verið velt upp hugmyndum um að draga verulega úr umfangi aðkomuleiða, nýta bílastæði í Bláfjöllum og leggja áherslu á gönguleiðir og stíga þar sem gestir væru fluttir með vagni að aðkomuhúsi.
Það verður spennandi að fylgjast með frekari framþróun verkefnisins.
Helstu heimildir:
-Morgunblaðið. Þríhnúkagígur. Stórbrotið náttúrurundur. 07.07.1991, bls. c 15-16.
-Borges, X., Y. Silva and Z Pereira 1991. Caves and pits of the Azores etc. Angra Do Heroismo 1991. 6th. International Symposium on Vulcanospeleology Hilo-Hawai, USA.
-Árni B. Stefánsson 1991, Þríhnúkagígur ferðin. Surtur ársrit 1991, 10-15, 1991.
-Árni B. Stefánsson 1992, Þríhnúkagígur. Náttúrufræðingurinn 61. ár 3-4 hefti 229-242, 1992.
-Árni B. Stefánsson 1992, The Þríhnúkagígur Pit of southwest Iceland. NSS News vol 50, no 8, 202-208, August 1992.
-Árni B. Stefánsson 2004 , Leyndardómar Þríhnúka, Mbl. 04.01.’04, bls 20-23.
-Ljósmyndir og efni eru m.a. af vefsíðu VSÓ (sjá http://vso.is/Verkefni/valin-verkefni-Thrihnukagigur/1-Thrihnukagigur.html)