Ekki er langt síðan FERLIR fylgdi Gamla Þingvallaveginum frá Krókatjörn og upp á Háamel á Mosfellsheiði þar sem tóftir gamals greiðahúss voru skoðaðar. Nú var ætlunin að leita uppi tóftir sæluhúss ofan við Moldbrekkur skammt norðaustan við Háamel og í leiðinni skoða Þrívörður ofan við Heiðartjörn, Berserkjavörðuna og tóftir af hlöðnu sæluhúsi við gamla veginn.
Samkvæmt kortum liggja gamlar götur þvers og kurs um heiðina, en mestur er Gamli Þingvallavegurinn, sem lagður var um 1880. Á honum eru fallega hlaðin ræsi á allnokkrum stöðum, fallega hlaðin steinbrú, sennilega ein sú elsta á landinu og heillagar vörður og fyrrnefnt sæluhús við sýslumörkin efst á heiðinni. Vegurinn var lagfærður við konungskomuna árið 1907 og viðhaldið allt til ársins 1930.
Tóftir sæluhússins eru á klapparhrygg nokkru norðan við Þrívörður. Þær eru ranglega merktar inn á landakort. Tóftirnar eru ca. 5×8 m. Hurðaropið snýr mót suðvestri. Stór varða er vestan við húsið. Sýsluvörðurnar tvær eru enn vestar. Frá húsinu sér í vörður norður heiðina, áleiðis suður fyrir Leirvogsvatn.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga. Það var laugardagur, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Veður var blítt um morguninn, frostlaust, en þung færð vegna snjóa.
Þegar þeir fóru frá Kárastöðum var slíkt þíðviðri að vatn draup af upsum, en þegar komið var vestur í Vilborgarkeldu brast skyndilega á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt.
Vermennirnir kusu samt að freista þess að halda áfram í þeirri von að finna sæluhúsið vestan við Þrívörður eða ná til bæja í Mosfellsdal. Sæluhúsið fundu þeir ekki og héldu áfram meðan þróttur vannst, þó klæði þeirra, blaut eftir þíðviðrið og ösl í ófærðinni, frysi í stokk.
Mennirnir voru flestir orðnir örmagna alllöngu fyrir dagsetur og grófu sig því fönn undir Illaklifi ofan við Leirvogsvatn, nema tveir sem gátu haldið sér uppréttum og vakandi alla næstu nótt. Hinir sofnuðu og féllu í ómegin, fennti í kaf og frusu fastir við snjóinn.
Er leið að morgni tókst hinum vakandi að vekja félaga sína, sem enn voru lífs, og rífa þá upp úr snjónum. Voru 12 á lífi er dagaði. Þá herti veðrið enn og létust nú þrír í viðbót í höndum félags inna. Hinir brutust af stað og náðu fimm þeirra til bæjar í Bringum um miðjan morgun. Voru þeir svo þrekaðir að þeir gáðu ekki í fyrst að segja til þeirra sem ókomnir voru eða lágu dauðir uppi á heiðinni.
En jafnskjótt og húsráðanda á Bringum varð ljóst hvað hafði gerst, sendi hann eftir hjálp á næstu bæi, en fór sjálfur að leita þeirra sem enn kynnu að vera á lífi. Fann hann tvo þeirra villta er drógu eða hálfbáru tvo örmagna félaga sína með sér. Annar þeirra dó þó í höndum þeirra. Fórust þannig sex af þeim fjórtán, sem lagt höfðu upp í byrjun og þeir sem af komust voru flestir kalnir til stórskemmda og urðu örkulma lengi, sumir ævilangt. Hinir látnu fundust daginn eftir og voru jarðsettir að Mosfelli.
Mennirnir fimm urðu úti við hól við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að vatninu, sem sjaldan frýs. Fylgdi frásögn eftirlifanda að óneining hefði komið upp í hópnum hvert halda skyldi.
Sá sem hraustastur var, þekkti vel til og best slapp úr hrakningunum iðraðist þess jafnan að hafa ekki yfirgefið hópinn strax up kvöldið og reynt að brjóast til bæja eftir hjálp. Þessi atburður sýnir vel hversu alvarlegar afleiðingar vondur útbúnaður og fáfræði á ferðalögum gat haft í för með sér þegar í harðbakkan slær. En hann getur líka verið þörf áminning um um að ferðalög, um ekki lengri veg, geta verið varasöm ef ekki er allrar varúðar gætt og ferðabúnaður í góðu lagi. Auk þess má vel læra af honum þá lexíu að þegar allir vilja ráða för getur villan orðið þess meiri. Nauðsynlegt er að að láta þann ráða, sem mesta reynslu og besta þekkingu hefur á staðháttum.
Mennirnir, sem létust, eru grafnir í einni röð í ómerktum gröfum undir kirkjuveggnum í Mosfellskirkju.
Þrívörður eru vestan við Þórðargil, ofan við svonefndar Þrívörðulautir við Þrívörðuhrygg. Hjá vörðunum lá hin gamla leið til Þingvalla. Vörðurnar þrjár mynda þríhyrning á klapparholti. Þaðan er gott útsýni niður heiðina til austurs. Þessar vörður sjást vel þegar komið er að austan með stefnu á hábrún heiðarinnar. Austasta varðan er mest um sig, en sú vestasta stendur hæst. Þær eru allar úr lagi gengnar. Fallega hlaðin leiðarvarða er suðaustan við Þrívörður.
Við Gamla Þingvallaveginn, á hábrún þar sem útsýni er best til Þingvalla, stendur gamalt steinhlaðið sæluhús.
Steinarnir í veggina eru tilhöggnir líkt og eru í Alþingishúsinu. Sennilega hafa þeir verið fluttir þangað á sleðum að vetrarlagi. Fróðlegt væri að fá nánari upplýsingar um hús þetta. Líklegt þykir að það hafi verið byggt við konungskomuna og verið notað við för konungs þessa leið til Þingvalla árið 1907. Nú er það að mestu hrunið, einungis mótar fyrir neðstu steinaröðum. Konungur fór um veginn með fríðu föruneyti. Sjálfur reið hann langleiðina, en eftir fylgdu vagnar með kost og klósett. Sögðu templaranir í sveitinni að rekja hefði mátt slóðina eftir föruneyti kóngs þar sem eftir lágu tómar kampavínsflöskur í götunni.
Berserkjavarða er austarlega við Gamla Þingvallaveginn. Nafnið er hvorki fornt né kennt við hálftröll eða vígamenn. Vorið 1908 voru tveir unglingspiltar með viðlegu á heiðinni að hlaða vörður með fram veginum. Þessir piltar voru þeir Ólafur Magnússon frá Eyjum í Kjós og Jónas
Magnússon, bóndi í Stardal. Þeir voru rétt innan við tvítugt. Þetta var í kauptíð og margt ferðamann á leið suður og sunnan.
Áðu þeir gjarnan hjá vegamönnum, hvíldu hesta sína og þáðu kaffisopa. Þarna bar að ónefndan bónda austan úr Laugardal og fannst piltum hann vera með óþarflega herralæti og húsbóndahátt við þá, líkt og þeir væru hans þjónar en ekki gestgjafar. Kom þeim ásamt um, að rétt væri að gjöra honum einhvern grikk, ef hann kæmi við á leið úr kaupstaðnum. Tveim dögum síðar bar hann aftur að tjaldi þeirra, eitthvað við skál og ekki síður heimtufrekur og herralegur en í fyrra skiptið. En nú brá svo við að piltar voru stimamýktin holdtekin og til þjónustu reiðubúnir í hvívetna. Yfir kaffibollum dró ferðamaður upp axlarfulla flösku af brennivíni, fékk sér gúlsopa og bauð piltum að dá sér bragð. Þeir kváðust, sem satt var, vera slíkum drykk alls óvanir en dreyptu þó örlítið á pyttlunni.
Fylgdu þeir síðan komumanni til hests hans og gengu með honum á leið, skínandi af vinsemd. Að skilnaði var þeim aftur boðið bragð, en þegar þeir höfðu fengið flöskuna í hendur kviknaði eitthvað við nára hestins, sem tók viðbragð og hentist af stað. En þegar reiðmaður hafði n áð valdi á gæðingi sínum og náð flösku sinni, lá hún galtóm milli þúfna og piltar farnir sína leið. Var þá fátt um kveðjur. En sakir kátínu yfir vel heppnuðu bragði, að senda hinn heimtufreka kaupstaðafara þurrbrjósta sinn veg, og þó kannski öllu fremur vegna óþekktra kynna af áhrifum Bakkusar konungs, rann á pilta mesta kraftaæði og voru þó hraustir fyrir, ekki síst Ólafur, sem var afarmenni að kröftum. Veltu þeir með járnkörlum gríðarstóru bjargi úr holtinu þangað sem varða skyldi standa, færðu ofan á það annan klett og þar upp á lyftu þeir þeim þriðja. Var þá varðan hlaðin, rúmlega mannhæðahá. Verkstjóri þeirra hló þegar hann sá vegsummerkin og kvað þá mestu berserki. Fékk varðan þetta nafn síðan.
Um tíma voru einungis tveir steinar í vörðunni, en nú hefur hún verið lagfærð og efsta steininum aftur komið á sinn stað. Ljóst er að þeir, sem hlóðu vörðuna, hafa verið vel rammir af afli, enda engra aukvisa að gera slíkt. Þessi varða er öðruvísi en aðrar vörður við Gamla Þingvallaveginn. Hinar eru vel til myndaðar, svipaðar að hæð og með vegprestum.
Gamli Þingvallavegurinn er nú fornleif. Vegurinn, ræsin, brýrnar, sæluhúsin, vörðurnar og KM-steinarnir eru minjasafn hinnar gömlu vegagerðar milli höfuðbýlis og þingstaðar – Þingvalla – þar sem fléttast saman gamlar þjóðleiðir og minnismerki þeim tengdum.
Þegar staðið er efst á Mosfellsheiði er auðvelt að setja sig í spor vermannanna að austan forðum daga. Fárra kennileita er á að byggja þegar hríð og bylur hylur útsýn og varla er þar skjól að finna þegar á reynir.
Frábært veður. Betra gerist það ekki á heiðum uppi á þessum árstíma. Og þvílíkt útsýni…..
Heimild m.a.:
-Árbók F.Í. 1986.