Færslur

Selsvellir

Hér verður lýst þróun í atvinnu- og byggðamálum á Reykjanesskaga og reynt að rýna svolítið í framtíðina í þeim efnum.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum í Krýsuvík.

Byggðin á Reykjanesi (Suðurnesjum) var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Einstaka bæir voru bundir litlum gróðurblettum þar sem þá var að finna eða hægt var að rækta upp með sæmilegu móti. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegnum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja margt fjár og höfðu fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. Það var aðallega tvennt er einkenndi atvinnuhætti á Reykjanesi í u.þ.b. eitt þúsund ár, allt frá byrjun og langt fram á 19. öldina; annars vegar seljabúskapurinn á sumrin og hins vegar vermennskan yfir veturinn.

Strýthólahraun.

Minjar í Strýthólahrauni við Grindavík.

Hvergi voru fleiri verstöðvar við strendur landsins en á Reykjanesskaganum. Bændur stunduðu þaðan veiðar sem og aðkomumenn víða af landinu. Efldi það samskipti og fjölbreytni mannlífsins, auk nýrra menningarstrauma á hverjum tíma. Verin voru eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls um tíma og undirstaða útflutningsverslunar landsmanna.
Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beita úthagann. Lífið á Reykjanesskaganum snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.

Öskjuholtsskjól

Öskjuholtsskjól – fjárskjól.

Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis en annars staðar á landinu. Þau voru tímabundnar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Selin eða selstöðurnar í heiðunum hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum. Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað.

Nessel

Nessel í Seljadal.

Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru t.d. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum, en alls má líta þar minjar 34-40 selja, sum frá fyrstu tíð. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina. Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914. Seljabúskapurinn á Reykjanesskagnum gefur góða mynd af umfangi fjárbúskaparins á svæðinu og þróun byggðar og atvinnuhátta – þar sem allt líf fólks snérist meira og minna um sauðkinda, a.m.k. um allnokkurn tíma.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.

Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem nauðsynlegt er að bera virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.

Á árunum 1940-70 tók íslenskt atvinnulíf stakkaskiptum, auk þess sem tilkoma hersins breytti verulega atvinnuháttum á Suðurnesjum. Ekki var t.d. hægt að manna róðrabáta á útgerðarstöðunum fyrstu tvö árin eftir tilkomu hans þar sem flestir atvinnufærir menn fóru til starfa fyrir herinn.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – Patterson.

Það var í fyrsta skipti sem sumir þeirra fengu greitt í peningum fyrir vinnu sína. Þéttbýliskjarnar tóku að myndast. Grindavík er ágætt dæmi um breytingar og þróun þéttbýlis og atvinnuhátta á Reykjanesi. Bærinn er. einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna landsins sem mestum afla skila á land á hverju ári. Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – kolagröf.

Frá miðri 19. öldinni og fram yfir 1930 var mannfjöldinn á Suðurnesjum milli 2000 og 3000, en á 18. öld og fram á þá 19. var íbúafjöldinn á bilinu 1000-1500. Eftir miðja 20. öld og fram til dagsins í dag hefur íbúafjöldinn vaxið hröðum skrefum og byggist það mikið til á sjávarútvegi og þjónustugreinum. Á síðustu öld fækkaði jafnt og þétt í dreifbýli á svæðinu, á sama tíma og þéttbýlisstaðir uxu að sama skapi. Meginþættir atvinnulífs á Suðurnesjum hafa verið öflugur sjávarútvegur og starfsemi á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum. Iðnaður og byggingastarfsemi í sveitarfélögunum á Suðurnesjum er hlutfallslega minni en annars staðar og á höfuðborgarsvæðinu, en munurinn jafnast þegar varnarframkvæmdir eru teknar með.

Duushús

Duushús í Keflavík.

Verslun og þjónusta er miklu minni í sveitarfélögunum á Suðurnesjum en annars staðar. Á síðustu árum hefur sjávarútvegur minnkað nokkuð, einkum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði, en annars staðar á Suðurnesjum hefur þessi atvinnugrein að mestu haldið í horfinu sé miðað við fjölda starfa og unnið aflaverðmæti. Segja má þó að í heildina sé atvinnulíf nokkuð einhæft á smærri stöðunum, en benda má á í því sambandi að Suðurnes er eitt atvinnusvæði og samgöngur eru yfirleitt góðar.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – Meeks.

Árið 1984 voru 7850 ársstörf á svæðinu, þar af rúmlega 20% á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum, en um fjórðungur starfsfólks þar kemur af höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma voru ársverk fólks með lögheimili á Suðurnesjum um 6900 samtals. Fólksfjölgunin hefur verið 50-100% á síðustu áratugum, en gert er ráð fyrir að mannafli á Suðurnesjum aukist um 2500 manns á næstu 20 árum.

Mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum, t.d. með aukinni þjónustu og með því að nýta þá kosti sem svæðið býður upp á. Þá er aðstaða mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi. Reiknað er með aukningu í fiskeldi, iðnaði og þjónustu í sveitarfélögunum. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn í Garðabæ.

Ný íbúðarvæði hafa verið tekin í notkun í öllum sveitarfélögunum. Vilji til uppbyggingar og nýbreytni er fyrir hendi. Fólki fjölgar og fjarlægðin við höfðuborgarsvæðin er frekar af jákvæðum toga en neikvæðum. Vegalengdir frá og til vinnu skiptir fólk ekki eins miklu máli og áður var. Mikilvægt er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, aðstaða til fiskeldis, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu og jarðfræðilegu möguleika til stóreflingar ferðaþjónustu, vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.ósá

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði.

Heimildir:
-Annálar 1400-1800.
-Ferðasögur (Eggert og Bjarni, Olavius 1777, SvPá, Þorv. Th, Jón Th….).
-Frá Suðurnesjum : frásagnir frá liðinni tíð. – Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960
-Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson, III. útg. 1961
-Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár – Daniel Bruun – Steindór Steindórsson þýddi – 1987
-Jarðabækur (1686 – 1695 – 1703 – 1874 ).
-Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu – Skúli Magnússon
-Selatangar – verstöð og verkun.
-Sigrún Guðmundsdóttir í Grindavík – viðtal 2003.
-Svæðisskipulag Suðurnesja 1987-2007 – 1989.
-Tómas Þorvaldsson í Grindavík – viðtal 2003.
-Um sel og selstöðu í Grindavíkurhreppi 1979 – Guðrún Ólafsdóttir.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.
-www.ferlir.is
-www.grindavik.is

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Svava Agnarsdóttir fjallar hér um þróun byggðar í Grindavík. Nær hún frá landnámi og að nokkru leyti til okkar daga. Í ritgerðinni, sem birtist hér að hluta, tekur hún fyrir það helsta sem varð til þess að gera Grindavík að þeim bæ sem hann er í dag. Einnig hvernig byggðin þróaðist og skiptist í hverfin þrjú.

Landshættir

Grindavík

Járngerðarstaðir.

Fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn í Grindavík og Krýsuvíkursókn. Staðarsókn sem nefnd var Grindavíkursókn, náði frá Valahnúk að vestan og austur að Selatöngum. Valahnúkur er landfastur klettur sem skilur að land og reka Grindavíkur og Hafna. Að austan, á, voru landamerki Grindavíkur- og Krýsuvíkursóknar miðuð við klett í fjörunni, sem Dágon nefnist. Skildi hann að land og reka Grindavíkur og Krýsuvíkur. Í norðri eiga Grindvíkingar hreppamörk með Njarðvíkingum, Vogamönnum og Strandarmönnum.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Í lýsingum Geirs Bachmann frá 1835-1882 segir: „Skammt frá Valahnúk í landnorður er aðrísanda fell, Vatnsfell kallað og enn lengra í sömu átt, litla bæjarleið (sem er 3/4 úr mílu), liggur nokkuð hærra og ummálsmeira eins lagað fell, Sílfell, og eru landamerkin sjónhending milli þessarra þriggja punkta. Af Sílfelli sést lengra til norðurs dalverpi, kallað Haugsvörðugjá, er hún bæði löng og breið, þó eigi sé fjarska djúp, með lágum klettum á sumum stöðum, en aftur upplíðanda sandflesjum á öðrum. Teygist hún með afleiðingum sínum fullkomna hálfa aðra mílu til landnorðurs, milli Sílfells og Súlna, og aðskilur land hreppanna og sóknanna, þ.e. Hafna og Grindavíkur.

Súlur

Súlur.

Súlur er bratt, einstakt fell, í kollinum aðskilið sem tvö fell færu, að austnorðanverðu með sléttri, lágri og stuttri hæð eður hálsi áfast við Stapafell, og eru Súlur, sem enn aðskilja nefndra hreppa land, eins og Stapafell, Njarðvíkurland og Grindavíkur. Stapafell er ekki eins hátt og Súlur, en ummálsmeira, og að ofanverðu í það dæld að endilöngu, svo lítur til austurs frá Stapafelli yfir hraun og ógöngur, sjónhending á lágt og lítið, einstakt fell, Litla-Skógfell, sem stendur í hrauni þessu.

Kálffell

Kálffell.

Aftur eru mörkin enn í austur í annað enn lægra fell eður stóra hæð, kallað Kálffell, og þaðan enn þá í austur beina stefnu í nyrðri rætur Fagradals-Hagafells. Er vegalengdin frá Stapafelli til síðst nefnds fells ef beint yrði farið, á að giska hér um þrjár mílur.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Fagradals-Hagafell er að vísu ekki hátt fell, en getur þó vegna ummáls og hæðar talist sem eitt af fjöllum þeim, er liggur fyrir sunnan Keili, og afleiðinga af Lönguhlíðarfjöllumnum fyrir ofan Hafnarfjörð, og þaðan sést í suðurátt. Að norðanverðu við nefnd markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradals-Hagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradals-Hagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunssels-Vatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að giska 2 mílur, ef beint yrði farið.”(Geir,1835-82)

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Í austri eiga Grindvíkingar land á móts við Krýsvíkinga. Grindavíkurhreppur átti landamörk með Strandahreppi í austri og voru þau við sjó í Seljubótarnefi en voru dregin þaðan í svonefndan Sýslustein sem stendur við þjóðveginn í Selvog. Við Sýslustein beygði landamarkalínan aðeins til austurs og þaðan bein lína í Litla-Kóngsfell og þaðan til fjalla sem nú heita Bláfjöll.
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga takmarkast víða af fjöllum sem flest eru í landi Grindvíkur. Þau eru frekar lág en setja mikin svip á umhverfið. Þau eru öll talin vera gosmyndanir og eru frá því seint á síðustu öld.
Ströndin meðfram Grindavík liggur fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.

Gróðurfar og ræktun

Geldingadalir

Geldingadalir – Gos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2021.

Af lýsingum að dæma virðist oft ekki hafa verið mjög búsældarlegt í hreppnum. Gróðurfar var frekar lélegt og ræktunarskilyrði slæm Að öllum líkindum hefur verið mun búsældarlegra á landnámsöld, heldur en t.d. um 1700.
Um það bil þrem öldum eftir landnám hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þeir virðast hafa hafist með neðansjávargosi á árunum 1210-1211 og reis þá Eldey úr sjó. Um árið 1266 varð mikið öskugos við Reykjanestá. Lagði öskulagið yfir allan Reykjanesskaga, upp í Borgarfjörð og austur í Flóa. Í kjölfar öskugossins, eða samtímis því hófust mikil hraungos. Runnu þá ein sex hraun á Reykjanesskaga, þar af fjögur í Grindavíkurhreppi. Eins og vænta má ollu þessi umbrot miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróðurinn og valdið bændum miklum búsifjum.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Á þessum tíma hefur jarðvegurinn víðast verið grunnur og sendinn og lítið þurft til að uppblástur yrði. En þó hreppurinn hafi verið mjög gróðursnauður var hægt að finna gróðursæla dali og kvosir sem vaxnar voru grasi og hrísi. Það voru Selsvellir, Baðsvellir og Vigdísarvellir sem reyndust eitt besta gróðurland Grindvíkinga. Á slíkum stöðum höfðu Grindvíkingar sel fyrr á öldum og reyttu hrís til eldiviðar og til fóðurs handa skepnum. Á Vigdísarvöllum var reist bú upp úr seli en það stóð frekar stutt.
Illa gekk bændum að rækta tún og til viðbótar við slæman jarðveg var mikið vatnsleysi. Hraunið var mjög gljúpt og vatnið seytlaði niður á mikið dýpi. Víðast var afar djúpt niður á grunnvatn, og gekk sjór inn í sprungur og gjótur og blandaðist vatninu, gerði það slæmt og jafnvel óhæft til drykkjar. Svo slæmt varð það að reiknað var með að byggð legðist af á Ísólfsskála, austan Grindavíkur, sökum vatnsleysir en það fór þó ekki svo.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Um 1830 fóru bændur verulega að bæta tún sín, og um svipað leyti varð garðrækt almenn. Þar var þó einkum um að ræða kálrækt og ræktunarskilyrðum lýsir Geir Bachmann þannig:

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

„Jarðarrækt er hér stunduð rétt í meðallagi, á sumum bæjum þó betur, t.d. á Hrauni, Járngerðarstöðum, Húsatóttum. Hinar jarðirnar ganga fremur úr sér árlega, bæði fyrir ákomna margra ára níðslu, sem og líka af sandfoki og sjávarágangi. Á tveimur fyrst nefndu bæjum hafa tún í seinni tíð verið mikið sléttuð en túngörðum ætíð vel við haldið á þeim öllum. Greftir til vatnsafleiðinga og skriðugarðahleðsla á hér ekki heima. Hver sá maður, er býli hefir hér í sókn, hefir og 1 eða 2 kálgarðsholur, eftir því ræktaðar sem hver er hneigður til atorku og pössunarsemi. Ei eru hér almennt ræktaðar kartöflur, Hefir mér þó allvel lukkast það 2 undanfarin ár, og mætti þó betur takast.”(Geir,1835-82)

Svartengi

Svartsengi.

Á þremur stöðum í hreppnum er jarðhiti: á Baðsvöllum, í Svartsengi og í Krýsuvík. Litlar heimildir eru um nýtingu jarðhitans á Baðsvöllum og í Svartsengi fyrr á öldum. Örnefnið Baðsvellir bendir þó til að þar hafi einhver nýting verið.
Í dag er nokkuð öðruvísi um að litast í Grindavík. Mikið hefur verið gert af því að rækta upp svæði sem áður hafa verið eingöngu hraun.

Hverfin þrjú

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Landnámsmenn í Grindavík voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, sem nam Grindavík, og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson, sem nam Selvog og Krýsuvík. Erfitt er að ársetja landnám í Grindavík af nákvæmni.Líklegt þykir að það hafi verið á fjórða tug 10. aldar. Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans.
Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Það má jafnvel ímynda sér að þetta hafi verið höfuðból og bæjarkjarni myndast utanum þó sem síðar urðu hverfin þrjú. Þessi hverfi er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi 59 manns en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann ekki mjög fögur: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.”(Geir,1835-82)
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2200 manns og þar af búa aðeins u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.

Íbúafjöldi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.

Engar áreiðanlegar heimildir eru tiltækar um mannfjölda í Grindavík fyrir 1703. sbr. Saga Grindavíkur bls. 87. Ekki virðist vitneskjan vera meiri um mannfjöldaþróun á 16. og 17. öld Byggð á þeim lögbýlum sem í hreppnum voru virðist vera stöðug. Ein breytingarnar voru þegar vel fiskaðist, þá þurftu útvegsbændur á vinnufólki að halda.
Samanburður á íbúum í hverfunum þremur á árunum 1703 og 1762.

Staðarhverfi 1703 = 72 1762 = 44
Þórk.st.hverfi 1703 = 47 1762 = 90
Járng.st.hverfi 1703 = 47 1762 = 56

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Á þessari töflu má sjá að fólki fækkaði nokkuð mikið í Staðarhverfi eftir árið 1703. Ástæður þess eru sjálfsagt margar en líklegt má telja að Stóra-Bóla eigi mikinn þátt í því. Annálar frá 1400 – 1800 herma að úr henni hafi 49 manns látist í Staðarsókn í Grindavík. En auk farsóttar voru sjóslys mjög tíð á þessum árum. Við upphaf 19. aldar voru Grindvíkingar um þriðjungi færri en í upphafi 18. aldar og virðist sem 18. öldin hafi verið mönnum mjög erfið. En úr þessu var jöfn þróun í hreppnum og þegar Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974 voru íbúar 1600.

Á árunum 1890 -1920 voru tvær gerðir heimila algengastar í Grindavík. Það voru mjög fjölmenn heimili sem líkjast mjög gömlu sveitaheimilunum. Þessi heimili voru flest á gömlum lögbýlum og jörðum sem á bjuggu útvegsmenn. Á þessum heimilum bjuggu oft 15 – 18 manns. En á ýmsum hjáleigum og nýjum býlum var fátt í heimili jafnvel ekki nema 2 – 4.

Landbúnaður

Kind

Kind virðir fyrir sér kvöldsólina frá Víkurfjárhúsunum í Grindavík

Eins og mörgum stöðum sem lágu að sjó umhverfis landið, voru búskapur og sjómennska aðal atvinnugreinar Grindvíkinga. Eins og með margt annað í Grindavík eru frekar litlar heimildir um búskap í hreppnum fyrst eftir landnám. Það má þó telja öruggt að ekki hefur verið auðvelt að stunda búskap á þessum tíma því mikil jarðvegseyðing var og fylgdi henni mikið sandfok. Einnig hrjáði mikill vatnsskortur bændur. Sumstaðar voru tún svo nálægt sjó að þegar flóð var flæddi yfir túnin.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

„Tún voru hvarvetna lítil, mörg illa farin og lítt grasgefin sökum þurrka og ágangs sands og sjávar. Til að fóðra búpening sinn urðu bændur því að grípa til fleiri ráða en heyskaparins eins og var þá einkum um tvennt að ræða: seljabúskap á sumrum og fjörubeit.Þó hafa bændur væntanlega reynt að rækta einhver tún og verið svo með sauðfé í seli yfir sumarið og sett það í fjöru”(S.G, II,163).
Fjörubeitin reyndist góð en þó var oft hætta á flóði. Flestir bændur voru bæði með kýr og kindur. Bændur gáfu kúnum líka söl og gátu með þessu bætt sér að einhverju leyti upp grasleysi og skort á góðum bithögum . Kindur og hestar voru á útigangi allt árið, en reist voru fjós undir kýrnar. Margir Grindvíkingar voru með kýr allt fram á þessa öld og fór ekki að draga verulega úr kúabúskapnum fyrr en um 1940. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli. Og er það þá eingöngu það sem við köllum hobbýbændur.

Sjávarútvegur og fiskvinnsla

Þorbjörn

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).

Í Landnámu er sagt frá því að landvættir allar hefðu fylgt þeim Þorsteini hrugni og Þórði leggjalda, Molda-Gnúpssonum, þá þeir reru til fiskjar. (S.G.I,185) Á þessu má sjá að hinir fyrstu Grindvíkingar hafi aflað sér matar með sjósókn. Ekki kemur þó neins staðar fram að þeir hafi komið sjóleiðina til Grindavíkur. Má ætla að þeir hafi þá smíðað sér bát eftir að þeir komu á staðinn og þá að öllum líkindum úr rekavið, en það hefur örugglega verið nóg að honum í fjörunum við Grindavík.

Grindavík

Grindavíkurbrim.

„Fiskislóðir Grindvíkinga hafa flestar verið í Grindavíkursjó. Miðin voru flest miðuð við kennileiti í landi og voru öll nálægt ströndinni. Í miðaskrá Gísla og Magnúsar á Hrauni voru miðin talin frá vestri til austurs. Fyrsta og vestasta, djúpmiðið, sem þeir nefndu, hét Sílfell(liggur í svo nefndu Sílfellshrauni, norðaustur af Reykjanesvita).Sílfell um Staðarberg (milli Reykjaness og prestsetursins Staður í Grindavík)”. (S.G.I,188).

Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15 öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Þar voru þá settar upp einhverskonar verbúðir. Í verbúðum í Grindavík voru þekkt embætti ljósameistara og kjásarhaldara. Ljósameistara bar að sjá um lampann, sem yfirleitt var aðeins einn í hverri verbúð. Kjásarhaldari sá um að tæma og þrífa kjásarhaldið, en svo nefndist kerald, sem yfirleitt tók um 20 potta og var næturgagn.

Grindavík

Brim utan við Sloka.

Margs konar hjátrú var tengd sjóferðum. Það þótti t.d. ekki boða gott ef menn mættu kvenmanni á leið til sjávar. Þegar skipshöfn gekk saman sjávargötuna átti formaður að vera fremstur og ef hann stoppaði af einhverjum ástæðum áttu allir hinir að stoppa líka. Það var talið merki um óhapp ef það var ekki gert.
Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og var þá fiskinum staflað á ákveðinn hátt.
Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62. Eftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.
Vélbátaútgerð hófst í Grindavík árið 1924 og er það langt á eftir öðrum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm.

Grindavíkurhöfn

Grindavíkurhöfn – loftmynd/ÓSÁ.

Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við allann róðurinn.
Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið. Oft var rætt um að byggja þyrfti höfn. Það var þó ekki fyrr en 1929 sem gerð var teikning af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi. Var teikningin send Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Á fjárlögum ársins 1931 var veitt 6 þúsund krónum til bryggjusmíði í Járngerðarstaðavör og var það einn þriðji af kostnaðaráætlun. Tvo þriðju áttu heimamenn að greiða.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Byrjað var á bryggjunni sumarið 1931. Einnig voru gerðar bryggjur í hinum hverfunum. En þetta dugði skammt, því bryggjurnar voru aðeins löndunarbryggjur og áfram þurfti að setja bátana í naust að kvöldi. Greinilegt var að ef ný bryggja yrði byggð yrði hún að vera í Hópinu. Sumarið 1939 var svo hafist handa við að grafa í sundur Rifið í ósnum. Það er með ólíkindum að þetta hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Framkvæmdin gekk svo vel að um haustið gátu bátar flotið inn á hálfföllnu. Árið 1945 var byrjað á dýpkun óssins og eins var stækkuð bryggjan.
Með öllum þessum framkvæmdum gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús Grindavíkur og var fyrsta verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.

Grindavík

Grindavík 1963.

Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka. Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun. Einnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975 – 1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands.
En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ.

Skólamál

Grindavík

Grindavík – gamli skólinn.

Allt fram undir lok 18. aldar fór almenn fræðsla í lestri, skrift og kristindómi að mestu fram á heimilunum. Var það undir foreldrum og öðrum komið, hvernig uppfræðing barnanna tókst, en prestum bar þó að fylgjast með kristindómskunnáttu þeirra.
„Um miðja 18. öld fóru þeir Jón Þorkelsson og Ludvig Harboe að ferðast um landið, m.a. til að kanna þekkingu fólks. Komust þeir að raun um, að kunnáttu í lestri og skrift í Grindavík var töluverð ábótavant og kunnátta í reikningi enn minni. Í ljósi þessarar niðurstöðu, lögðu þeir félagar fram ýmsar umbótatillögur, sem m.a. leiddu til þess, að ákveðið var, að prestar skyldu hafa eftirlit með heimakennslunni. Komu þeir árlega á hvert heimili í sóknum sínum til að prófa börnin. Niðurstöður voru svo færðar inn í húsvitjunarbækur.”(S.G.I,330).

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Rúmum áttatíu árum síðar segir síra Geir Bachmann í sóknarlýsingu sinni: „Eigi fæ ég sagt, hvað margir eru hér skrifandi; þykir máske ég herma mikið, ef ég þó segi hér vera 20 og þar af einasta 2 kvenmenn. Þó eru fleiri, sem lesa skrif, og unglingar leggja sig nú margir hér eftir þessarri fögru list, hverja ég ei reikna í hópi þeirra skrifandi.. Þeir, sem ekki eru skrifandi eru á öllum aldri og af báðum kynferðum.” (G.B.1835-82)
Það var ekki fyrr en árið 1883 að ástæða þótti til að fá mann til að kenna börnum lestur, skrift og reikning, þó svo löngu væri búið að stofna skóla annars staðar á Suðurnesjum. Því fylgdi líka að byggja þyrfti hæfilegt hús fyrir kennsluna. Ekki er talið að kennt hafi verið nema einn vetur til að byrja með. Helsti talsmaður barnaskóla í hreppnum var án nokkurs vafa síra Oddur V. Gíslason. Honum þótti menntun og menning yfir höfuð vera mjög á eftir í Grindavík. Síra Oddur lagði mikið á sig til að koma á barnaskóla, og fékk bændur og sjómenn til að leggja sitt af mörkum. Það hafðist og kennsla hófst 2.október 1888 og fór fram á þremur stöðum: Stað, Garðhúsum(í Járngerðarstaðahverfi) og á Hrauni. Kennt var eina viku í senn á hverjum stað og fengu 25 börn kennslu.
Svona gekk þetta í nokkuð mörg ár, en ekki gekk alltaf vel að fá kennara.

Guðbergur Bergsson

Guðbergur Bergsson.

„Haustið 1893 var ákveðið að hafa skólann á einum stað. Leitað var til stiftyfirvalda um styrk til að koma á fastaskóla í hreppnum, en ekki urðu stiftyfirvöld við þeirri bón. Engu að síður var ákveðið að leigja húsnæði til kennslu. Eitt af síðustu verkum síra Odds áður en hann fluttist til vesturheims árið 1894 var að ítreka beiðnina við stiftyfirvöld. Í þetta sinn urðu stiftyfirvöld við beiðni síra Odds og nú var í fyrsta sinn veitt úr landssjóði til barnaskóla í Grindavík.”(S.G.II,335)
Á þennan hátt var börnum í Grindavík kennt þar til árið 1904, en þá var farið að kenna í samkomuhúsinu. Áramótin 1912-1913 hófst kennsla í nýbyggðu skólahúsi var kostnaðurinn við húsið 3700,56 krónum. Árið 1929 var skólaskylda færð niður í sjö ár og þegar barnaskólinn var settur í september árið 1929 voru alls 68 nemendur og nú þurfti að bæta við kennara. Skólastjóri þá var Einar Kr. Einarsson. Samhliða því var fengið kennsluhúsnæði í Þórkötlustaðahverfi því ekki var hægt að láta sjö ára börn ganga á milli hverfa, en það er u.þ.b. 2 kílómetrar. Árið 1937 þurfti enn að bæta við kennara og var þá Sigrún Guðmundsdóttir ráðin, en hún hafði nýlega lokið námi við Kennaraskólann. Einn af nemendum Sigrúnar var Guðbergur Bergsson rithöfundur og lýsir hann kennlukonunni svona:

Þórkötlustaðahverfi

Frá Þórkötlustaðahverfi.

„Í hverfinu (Þórkötlustaðahverfi) var enginn kennari. Þess vegna kom hann á hverjum morgni þrammandi, í rauðhærðri kvenmannsmynd, í hvaða veðri sem var utan úr Járngerðarstaðahverfi. Á veturna var að líkum stöðug rigning eða snjókoma á víxl og þess vegna kom kennslukonan ýmist rennblaut eða helfrosin í skólann… Þegar frost var úti og kennslukonan kom í skólann, var fyrsta verk hennar að þíða á sér andlitið með lófunum og frosið blekið í byttunum, en fötin sín þurrkaði hún við ofninn. Á þessum tíma þekktist ekki upphitun í húsum og við krakkarnir gengum í ullarfötum jafnt yst sem innst: fyrst í utanyfirpeysu, svo millifatapeysu, síðan í koti, en næst líkamanum vourm við í ullarnærbrók, og því gerði ekki svo mikið til að við værum blaut. Við lyktuðum ymist af frosinni eða blautri ull, og lyktin hefur eflaust verið megn, því að kennslukonan hélt okkur í hæfilegri fjarlægð frá sér, en við slógum um hana hálfhring á meðan hún sat við ofninn.

Þórkötlustaðahverfi

Frá Þórkötlustaðahverfi.

Starfs síns vegna gekk hún í „búðarfötum” í veðurgarranum. Hún var í kápu og með slæðu um hálsinn, hatt með slöri og fæturnir voru í ljós-eða músarbrúnum bómullarsokkum. Samt breyttu þeir auðvitað um lit eftir veðurfarinu. Kennslukonan fékk sér alltaf sæti til hliðar við ofninn á meðan hún var að þorna eða þíða fötin og blekið. Til þess að vera ekki aðgerðarlaus á meðan ofn krílið gerði kraftaverk á henni, brá hún á loft löngum spjöldum með mislöngum orðum sem við áttum að vera fljót að lesa… Hvað sem því líður þá hættu föt kennslukonunnar smám saman að vera dökkleit þannig að eðlilegur mjúkur litur tók jafnt og þétt yfirhöndina í ljósum, þurrum blettum sem færðust upp eftir líkamanum uns hún varð skjöldótt, heit og rjóð. Þá reis hún á fætur og gekk að púltinu í gufustrók sem lagði af henni og stóð til allra hliða. Hin raunverulega kennsla byrjaði aldrei fyrr en hún hafði breyst í gufustrók.”(Guðb.B,26-29)

Járngerðarstaðahverfi

Frá Járngerðarstaðahverfi.

Á þessum tíma var orðið ljóst að byggja þyrfti nýjan skóla. En ekki var hafist handa við að byggja hann fyrr en árið 1945, vegna erfiðra aðstæðna í byggðarlaginu. Var skólinn reistur rétt vestan við aðalgötuna í Járngerðarstaðahverfinu. Formleg vígsla á skólanum fór fram haustið 1947, þó svo kennsla hafi byrjað þar ári fyrr. Þá voru liðin 60 ár frá því síra Oddur V. Gíslason réð fyrsta kennarann til starfa. Á sama tíma var stofnaður unglingaskóli og kennt þar í einni deild.

Menning og félagsmál
Þar sem lífsbaráttan var hörð gerði fólk ekki margt annað en að afla sér matar og halda sér á lífi og afar lítið var um skemmtanir. Einu mannamótin voru í raun kirkjuferðir á sunnudögum og öðrum hátíðisdögum.

Þórkötlustaðir

Klöpp. Tóftir bæjarins.

Fyrstu heimildir um aðra skemmtun en kirkjuferðir eru frá aldamótum 1900. Var þá talað um að dansað hafi verið í pakkhúsi og spilað á harmonikku og dansað linnulaust alla nóttina. Fyrsta góðtemplarastúkan var stofnuð í Grindavík 1891 og var það Oddur V. Gíslason sem gekkst fyrir stofnun þessarar stúku. Bindindismál vour aðal viðfangsefni stúkunnar, en ýmislegt annað var gert þar t.d. var komið á fót lestrarfélagi. En ekki var þessi stúka lengi við líði, því þegar síra Oddur flutti til Vesturheims með fjölskyldu sína hvarf mesti krafturinn úr henni. En á næstu árum voru nokkuð margar stúkur stofnaðar í Grindavík en þær voru mislengi virkar.
Lestrarfélagið Mímir var stofnað 1904. Félagið var mjög virkt fyrstu árin og mikið af bókum keypt. Til að fjármagna bókakaup voru haldnar tombólur og skemmtanir og þá aðallega dansskemmtanir.
Haustið 1923 var stofnað kvenfélag í Grindavík og var það Guðrún Þorvarðardóttir sem var aðal hvatamaður þess. Hún taldi, að í hreppnum mætti áorka miklu ef konur tækju sig saman og mynduðu félag. Kvenfélag Grindavíkur stóð meðal annars fyrir Svartsengishátíð í mörg ár.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á strandsstað.

Slysavarnardeildin Þorbjörn var stofnuð formlega 1928 en áður hafði síra Oddur V. Gíslason unnið ötullega að slysavörnum. Hann gaf út einn árgang af blaðinu Sæbjörgu árið 1892 og var það rit helgað slysavörnum. Árið 1930 var ákveðið að koma upp fluglínustöð í Grindavík. Aðeins viku eftir að björgunarsveitarmönnum hafði verið kennt á fluglínutækin þurfti nota þau. Franski togarinn Cap Fagnet, með 38 manna áhöfn strandaði við Hraun. Björgunin tókst giftusamlega og voru þessi nýju tæki strax búin að sanna sig. Áður en langt um leið voru slík tæki komin til allra deilda Slysavarnarsélags Íslands. Árið 1949 var svo stofnuð björgunarsveit þar sem mönnum fannst að það þyrfti vel þjálfaða menn við björgunarstörf. Björgunarsveitin Þorbjörn starfar af krafti í dag og er tækjabúnaður og öll aðstaða orðin mun betri en áður. Árið 1977 var Slysavarnardeildin Þórkatla stofnuð og eignaðist þá björgunarsveitin sterkan bakhjarl.

Cap Fagnet

Björgun áhafnar Cap Fagnet.

Íþróttafélag Grindavíkur var stofnað árið 1935. Má rekja upphafið að stofnun félagsins til Jóns Guðmundssonar, sem var vitavörður á Reykjanesi í kringum 1930. Hann hafði mikinn áhuga á félagsmálum og hafði talsverða þekkingu á starfi ungmennafélaga. Haldin voru íþróttanámskeið og einnig stóð Íþróttafélagið fyrir danskemmtunum. Íþróttafélagið fékk aðstöðu til íþróttaiðkana í Kvenfélagshúsinu. Strax á fyrstu árum félagsins var farið að kenna sund. Fór þá Einar Kr. Einarson skólastjóri, sem var einn fárra í Grindavík sem kunnu að synda, með börn út á Reykjanes og kenndi sund í gjá, sem í rann volgt vatn. Fótboltinn heillaði snemma og auðvelt var að smala saman í fótboltalið. Það virðist sem Grindvíkingar hafi átt nokkuð efnilega fótboltamenn því þeir urðu Suðurnesjameistarar árið 1950. Íþróttafélagið ásamt Slysavarnardeildinni Þorbirni stóðu fyrir hátíðarhöldum á sjómannadaginn fyrst árið 1949 og gekk það í mörg ár. Árið 1963 fékk félagið nýtt nafn og var nú orðið Ungmennafélag Grindavíkur.

Lokaorð

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Í dag búa í Grindavík um 2200 íbúar (árið 2002). Atvinna er í nokkuð góðu lagi,en það er þó að mestu leyti fiskvinna. Þó eru farin að vaxa hér lítil fyrirtæki með léttan iðnað.
Á síðustu árum hefur orðið gífurleg viðhorfsbreyting hjá fólki varðandi garðrækt. Þar hjálpar mikið til að Grindavíkurbær hefur lagað mikið af sínum svæðum. Þar sem áður hefur verið hraun og sandur er orðið grasi gróið. Þetta hefur orðið til þess að bærinn er orðinn mjög snyrtilegur og fallegur. Vonandi verður framhald á því það er alltaf eitthvað meira sem má laga.
Mikið hefur verið gert af því að byggja upp ferðamannaiðnaðinn í Grindavík. Og er alveg ástæða til því bærinn hefur upp á margt að bjóða fyrir ferðamenn. Þá er ég ekki eingöngu að tala um Bláa Lónið sem er þekktasti staðurinn við Grindavík. Mikið er t.d. af fallegum gönguleiðum í kringum bæinn og hafa nokkrar þeirra verið merktar. Þá er mikið af hverum víða í landi Grindavíkur.

Heimildaskrá
1. Geir Bachmann. 1835-1882. Sóknarlýsingar og annar fróðleikur um Grindavík.
2. Jón Þ. Þór. 1994. Saga Grindavíkur frá landnámi til 1800.
3. Jón Þ. Þór og Guðfinna Hreiðarsdóttir. 1996. Saga Grindavíkur 1800-1974.
4. Þóra K. Ásgeirsdóttir. 1992. Guðbergur Bergsson metsölubók, 26-29.

Heimildir sem stuðst var við:
1. Gísli Brynjólfsson. 1975. Mannfólk milli sæva, Staðhverfingabók.
2. Jón Eyfjörð. Samantekt um Grindavík. (Upplýsingar af Internetinu).

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Keflavík

Í áfangaskýrslu fyrir Reykjanesbæ um byggða- og húsakönnun gamla hverfisins í Keflavík frá árinu 2012 má lesa eftirfarandi um sögu þess og byggðaþróun:

Sögubrot
Keflavík
“Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270 og þá í sambandi við reka og skipti á hval á Romshvalanesi. Þá er staðarins getið um 1420 þegar enskir fiskimenn fóru að venja komur sínar á Suðurnesin og sóttu þaðan á fiskimið.
Um 1450 voru Þjóðverjar komnir á þessar slóðir og hófu verslun. Skömmu eftir 1600 tóku Danir við og einokunarverslunin hófst formlega árið 1602.
Upphaflega mun jörðin Keflavík hafa verið í eigu Skálholtsstóls, en verður eign konungs við siðaskiptin. Keflavíkurjarðarinnar er fyrst getið í jarðamatsbókum árið 1597. Þá er hún konungsjörð og gjöld af henni greidd til Bessastaða. Hún tilheyrði Rosmhvalaneshreppi til ársins 1908 þegar Keflavík og Njarðvíkurhreppur hinn eldri voru sameinaðir í Keflavíkurhrepp. Búskapur lagðist niður á jörðinni árið 1780.

Keflavík

Duushús og tóftir gamla Keflavíkurbæjarins neðst.

Með einokunarverslun Dana var mælt fyrir að siglt skyldi á tuttugu hafnir á landinu og var Keflavík ein þeirra. Verslun komst þá í hendur kaupmanna frá Kaupmannahöfn.
Efling fiskveiða varð að frumkvæði danskra kaupmanna og ráðamanna. Sem dæmi um hve Keflavík hefur verið eftirsóttur verslunarstaður er að árið 1624 er aðeins einn verslunarstaður með meiri ágóða, þ.e. Ísafjörður.
Fyrsti búfasti kaupmaðurinn í verslunarþorpinu Keflavík var Jacobæus sem þangað fluttist samkvæmt ákvörðun Almenna verslunarfélagsins árið 1787, í lok einokunarverslunarinnar, en Danir héldu uppi verslun í Keflavík allt fram til ársins 1919.
Keflavík
Segja má að Jacobæus hafi lagt grunn að framtíðarbyggð, en þrjú hús voru í Keflavík og komin forsenda varanlegs þéttbýlis.
Um 1800 kom breskur ferðamaður, Henry Holland, til Keflavíkur og segir þar vera 15-20 timburhús og nokkra torfbæi.
Á fyrstu áratugum 19. aldar byggðist upp þorp í Keflavík. Verslunarþorpið dró að sér handverksmenn og ýmsa þjónustu auk þess fólks sem stundaði sjómennsku og fiskverkun.

Keflavík

Keflavík 1890.

Jacobæus lét reisa sjóvarnargarð og uppskipunarbryggju. Þá lét hann stækka tún og gera matjurtargarða og girti af með grjóthleðslum.
Í tengslum við verslunina voru reist verslunar- og pakkhús og og á síðasta áratugi 19. aldar voru þar þrjár verslanir sem sjá má merki um í dag, þ.e. Knudzon, Duus og Fischers verslanir.
Útræði var ekki mikið í Keflavík fyrr en eftir 1800, þegar verslun hafði verið gefin frjáls. Fram að þeim tíma var róið út frá verstöðvum í kring, í Höfnum, Njarðvíkum, Miðnesi og Görðum. Í kjölfar aukinnar útgerðar fjölgaði íbúum ört og fór úr 35 manns um 1800 í 130 manns um 1830. Áramótin 1900 voru íbúar um 300 talsins. Um helmingur íbúa kom úr öðrum sýslum og nærsveitum.Keflavík
Skaftáreldar sköpuðu slíka neyð að fólk flúði heimahaga sína og flutti fjöldi fólks af Suðurlandi til Suðurnesja. Til Keflavíkur fluttist margt fólk utan að landi sem taldi hag sínum og fjölskyldu sinnar betur borgið í Keflavík þar sem uppgangur var, m.a. vegna útgerðar. Þá komu menn til útræðis annars staðar að s.s. frá Mýrum og Borgarfirði.
Keflavík
Mikil fátækt var í Keflavík á 19. öld. Íbúar voru annarsvegar fátækir daglaunamenn og hinsvegar verslunarstjórar og kaupmenn. Framan af bjó alþýðan í torfhúsum eða tómthúsum. Tómthúsmannabyggðirnar voru einkum sunnan og vestan Duushúsa. Ekki eru til neinar minjar um þá byggð nú, en elsta byggð Keflavíkur stendur á því svæði. Árið 1800 eru talin 30 kot í Keflavík, mest torfbæir með timburgafli og 6 hús eingöngu úr timbri Hans Duus keypti Keflavíkurverslun um 1850. Duus verslun starfaði fram til ársins 1919. Þá var verslunin búin að kaupa upp aðrar verslanir ásamt lóðum og lendum og átti því mest allt land undir húsum Keflvíkinga. Árið 1920 lýkur að fullu danskri verslun í Keflavík. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað árið 1928.

Keflavík

Vegna hafnleysis var útgerð þilskipa ekki vænleg og sjósókn eingöngu á opnum árabátum fram til 1907, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur til Keflavíkur. Hafnaraðstaðan var þó slæm og lágu bátarnir við bauju á Keflavík milli róðra.
Árið 1905 var kauptúnum sem töldu fleiri en 300 íbúa heimilað að verða sérstakt sveitarfélag og árið 1908 varð Keflavíkurhreppur til. Stærsti útgjaldaliður hins nýja sveitarfélags var fátækraframfærsla. Verkefnin voru ærin svo sem atvinnumál, brunavarnir, hafnargerð og umbætur í vatnsbólum svo eitthvað sé nefnt. Vegna aðstæðna í Keflavík var erfitt með vatnsöflun. Framan af var einungis einn brunnur í þorpinu sem staðsettur er inni í Bryggjuhúsi Duusverslunarinnar.

Keflavík

Keflavík – brunnurinn við Brunnstíg.

Árið 1907 lét Duusverslun grafa brunn við Brunnstíg og dregur gatan nafn sitt af honum.
Um 1930 voru byggðar steinbryggjur á Vatnsnesi og í Grófinni. Í kjölfar þessara hafnarbóta fjölgaði vélbátum. Á fjórða tug 20. aldar var fyrsta hraðfrystihúsið reist og fjölgaði þeim hratt og voru orðin fimm þegar mest varð. Hafskipabryggja var byggð í Keflavík árið 1932 og hófst þar með bygging núverandi hafnar.
Árið 1949 fékk Keflavík kaupstaðarréttindi. Gífurlegur vöxtur hljóp í byggðina á árunum eftir 1950 vegna uppbyggingar Keflavíkurflugvallar og veru varnarliðsins þar.

Þróun byggðar

Keflavík

Keflavík – húskönnunarsvæðið 2012.

Keflavík byggðist upp meðfram strandlengjunni eins og flest sjávarþorp á Íslandi. Hús verslananna stóðu meðfram götu sem síðar var nefnd Hafnargata. Þar fyrir ofan reis hin eiginlega íbúðarbyggð.
Um aldamótin 1900 var byggð tekin að myndast sem tengd var saman með gatnakerfi. Byggðin afmarkaðist af Vesturgötu í norðri, Kirkjuvegi til vesturs, Tjarnargötu til suðurs og strandlengjunni til austurs. Skólinn stóð við Íshússtíg, miðsvæðis í byggðinni á milli verslananna.
KeflavíkKauptúnið skiptist í tvö hverfi sem kölluð voru austurplássið og vesturplássið. Mikið tún, Norðfjörðstún, kennt við Ólaf Norðfjörð, faktor, klauf byggðina í tvennt. Eftir aldamótin 1900 fór byggðin að færast lengra suður og upp á melinn til vesturs. Edinborgarverslun ásamt bryggju reis við Hafnargötu og vegurinn í byggðina frá Reykjavík var að öllum líkindum úr suðri.
Að undirlagi Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og eiganda Keflavíkurjarðarinnar gerði prófessor Guðmundur Hannesson læknir skipulagsuppdrátt að Keflavík árið 1920. Var uppdrátturinn fyrsti vísir að skipulagi fyrir Keflavík. Þar voru teiknaðar götur yfir Norðfjörðstún þar sem nú eru Túngata, Norðfjörðsgata og Vallargata. Árið 1935 var Norðfjörðstúnið nánast fullbyggt.
Árið 1929 var fyrst kosið í sérstaka byggingarnefnd hreppsins. Engin byggingarsamþykkt var þá til í Keflavík en nefndinni var falið að kveða á um hvar og hvernig byggingum skyldi háttað. Árið 1930 fól hreppsnefnd byggingarnefnd að gera skipulagsuppdrátt að Keflavík.
KeflavíkJón J. Víðis mældi og dró upp Keflavík 1932 fyrir Skipulagsnefnd (Íslands). Um sama leiti var hafist handa við að semja byggingarsamþykkt fyrir Keflavík og tók hún gildi 27. júlí 1932. Þar kom fram að gerður yrði skipulagsuppdráttur samkvæmt skipulagslögum og færi skipulag kauptúnsins að því búnu eftir honum og ákvæðum skipulagslaga. Allar byggingar í kauptúninu skyldu vera samkvæmt uppdrættinum á því svæði sem hann næði yfir en annarstaðar skyldi byggingarnefnd ráða legu gatna og húsa. Sérstakt leyfi byggingarnefndar þurfti til að gera íbúðir í kjöllurum. Kröfur voru settar um að allar íbúðir nytu birtu og að hverri íbúð skyldi fylgja nokkur lóð.
Þegar Guðmundur Hannesson vann að skipulagi Keflavíkur 1932 skrifaði hann greinar í Morgunblaðið þar sem hann dró upp eftirfarandi mynd af bænum: „Keflavík er allstór og myndarlegur bær og hefur vaxið mikið á undanfarandi árum. [….] Ég hafði séð bæinn fljótlega fyrir nokkrum árum. Virtist mér hann þá skipulagslítill og bjóst því við, að ekki yrði hlaupið að því að gera þar skipulag. En þegar ég fékk nú tækifæri til þess að athuga hann nánar, þá reyndist mér hann hálfu betri en ég hafði búist við.
KeflavíkBæjarstæðið er tiltölulega flatlent og götur hafa verið lagðar út og suður og austur og vestur. Flestar göturnar eru 15m breiðar, ef mælt er milli húshliða, og er það meira en víðast í Reykjavík. Byggingareitir hafa ríflega breidd. Þeir hafa ekki verið skyni skroppnir mennirnir sem sáu um allt þetta, jafnvel séð lengra en Reykvíkingar þó sums staðar hafi þeim mistekist. Það varð þá fyrir, eins og vant er, að hyggja að bryggjunum og þörfum útvegsins.
Aðstaðan við sjóinn er erfið, höfnin ekki annað en opin vík, og lítil von um að þar verði fyrst um sinn gerð góð höfn. Við land er fremur útgrunnt í sjálfri víkinni, hraun undir og skerjótt við ströndina. Það búa margir við betra en bjargast þó miður en Keflvíkingar.
Aðalbryggjan er utan til í víkinni og er þar nóg dýpi fyrir báta um háfjöru. Önnur bryggja er þar utar, kynlega lögð og hlykkjótt, en með háfjöru er hún á þurru landi. Hún verður vafalaust lengd áður langt um líður, og getur þá komið að gagni. […….]
Keflavík
Sjálfur [er] bærinn ærið fyrirferðarmikill. Það er nálega 20 mínútna gangur eftir honum endilöngum. Þessi dreifing byggðarinnar er varasöm, því götur verða þá dýrar, ekki síst er ræsi og vatnsveita verða lögð. Hér, eins og víðar, er orsök dreifingarinnar sú, að lóðir fást ódýrari í suðurhluta bæjarins og þar vex því byggðin, en hins vegar eru húsin hvergi sambyggð, þó bæði sé það ódýrara og hlýrra“.
Skipulagsnefndin vann áfram með skipulagshugmyndir Guðmundar Hannessonar. Lögð var áhersla á að aðgreina íbúðar- og atvinnusvæði.

Keflavík
Útgerðinni var ætlað svæði í Grófinni og á Vatnsnesi nærri hafnarmannvirkjum. Iðnaði var valinn staður á Vatnsnesi.
Verslunin átti að vera áfram við Hafnargötu þar sem gert var ráð fyrir sambyggðum húsum með vörugeymslum bakatil. Gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svæði sem afmarkaðist af Vesturgötu til norðurs, Hringbraut til vesturs, Vatnsnesvegi til suðurs og Hafnargötu til austurs. Teiknuð var ný íbúðarbyggð á Duus-túni þar sem fyrir var byggð. Götur lágu í beinum línum frá austri til vesturs og norðri til suðurs. Skipulagið var auglýst eins og lög gerðu ráð fyrir og gerðu hagsmunaaðilar, byggingarnefnd og sjálf hreppsnefndin athugasemdir. Voru menn ósáttir við breytingar frá upphaflegum hugmyndum Guðmundar Hannessonar sem flestar væru til þess að gera uppbyggingu dýrari. Ósátt var um að á helmingi svæðisins væri gert ráð fyrir tvílyftum húsum og sambyggðum húsum.
KeflavíkAðkoman að bænum var um Hafnargötu sem þá þegar var orðin aðalgata bæjarins og hefur ávalt verið það síðan. Skipulagið gerði ráð fyrir tveim opnum svæðum, annars vegar við kirkjuna við Kirkjuveg og hins vegar við bæjarvöll sem afmarkast af Suðurgötu, Tjarnargötu, Sólvallagötu og Skólavegi. Lögð var áhersla á að hagkvæmis[-] og fegurðarsjónarmið skyldu höfð að leiðarljósi við framtíðaruppbyggingu. Fyrsta skipulag Keflavíkur var staðfest í júní 1934.
Á vegum Skipulags ríkisins og Samvinnunefndar um skipulagsmál Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar voru síðan unnar aðalskipulagsáætlanir sem staðfestar voru 1973 og 1983 svo Aðalskipulag Reykjanesbæjar 1995-2015.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.

Í núgildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008 – 2024 segir: “Þéttbýli í Reykjanesbæ hefur markast af byggð í Keflavík, Innri Njarðvíkum, Ytri Njarðvíkum og Höfnum. Fram til þessa hefur byggðin fyrst og fremst verið austan og norðan Reykjanesbrautar. Þessi fyrrum sveitarfélög voru sameinuð í Reykjanesbæ árið 1994. Njarðvíkurfitjar mynda afgerandi skil í byggðinni, en eru um leið dýrmæt náttúruperla sem gefur bænum ómetanlegt gildi.
Byggð í Reykjanesbæ er fremur lág og eru einnar til þriggja hæða hús áberandi. Bygging hærri húsa hefur þó farið vaxandi á síðast liðnum misserum með allt að sjö til átta hæða húsum við strandlengju.
Fjölbýlishúsahverfi frá sjöunda áratug er í suðurhluta gömlu Keflavíkur og stórt fjölbýlishúsahverfi í norðri frá níunda áratuginum. Þéttleiki byggðar er nokkuð mismunandi eftir hverfum, á bilinu 10 til 30 íbúðir á hektara. Gott samhengi er í ákveðnum bæjarhlutum og fjölbreytni er í húsa- og íbúðargerðum, sérbýli og fjölbýli.
Keflavík
Heildstæður byggðarkjarni eldri timburhúsa er upp af gömlu Keflavík, en elstu hús bæjarhlutans eru timburhús frá því kringum aldamótin 1900. Bærinn byggðist á sínum tíma nokkuð þétt út frá víkinni í eins konar geislum. Uppgangstíma í útgerð má m.a. sjá í íbúðarbyggingum á fimmta áratuginum. Vaxtarkippur varð svo í íbúðarbyggingum á sjötta áratuginum með komu varnarliðsins og aftur í byrjun sjöunda áratugarins þegar fólk flutti frá Vestmannaeyjum eftir gos.

Keflavík

Keflavík – Hafnargata 2020.

Hafnargata, Hringbraut og Njarðarbraut eru helstu götur bæjarins með líflegan bæjarbrag og öflugan þjónustukjarna með blandaðri byggð. Hafnargata og Njarðarbraut mynda upphaf lífæðar bæjarins sem teygir sig til austurs að Tjarnarbraut og Dalsbraut, þar sem ný íbúðarbyggð hefur risið undanfarin ár og er enn í byggingu. Þar er mikilvægi lífæðarinnar fyrir samhengi byggðarinnar fylgt eftir, svo sem við mótun göturýmis, í húshæðum og þéttleika, sem er mestur við lífæðina. Í Höfnum eru elstu íbúðarhúsin frá um 1920 og nokkur ný hús hafa verið byggð á þremur síðastliðnum áratugum.
Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá myndarleg tré í húsagörðum. Nálægðin við sjó, hafnir, heiðar og berg gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika”.”

Heimild:
-Reykjanesbær – byggða- og húsakönnun, áfangaskýrsla, febrúar 2012.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.