Færslur

Þyrluvarða

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur, “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi”, segir m.a. um “Þyrluvörðuna”: “Næst höldum við suðvestur frá Strokkum, förum meðfram Reykjanesbrautinni að neðanverðu, yfir lægðina [Breiðagerðisslakka] sem þarna er og að Þyrluvörðunni svokölluðu”.

Þyrluvarðan

Það var 1. maí 1965 að Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu hrapaði niður í lægðina suðvestur frá Skrokkum norðan Reykjanesbrautar. Hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins og var varðan reist í minningu þeirra. Lægðin mun vera hluti af svonefndum Breiðagerðisslakka.
Fréttin birtist m.a. á forsíðu MBL þriðjudaginn 4. maí – Hörmulegt slys er 5 varnarliðsmenn farast í þyrlu, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli – “Sá hörmulegi atburður gerðist s.l. laugardagskvöld um kl. 19, að þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hrapaði til jarðar við jaðar nýja vegarins sunnan Kúagerðis upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd, með fimm mönnum. Allir biðu þeir bana, enda varð þyrlan alelda um leið og hún snerti jörðina. Þrír ungir piltar úr Reykjavík voru sjónarvottar að slysinu og hefir einn þeirra skýrt frá því í smáatriðum í samtali við blaðið, sem birtist á öðrum stað.
Blaðamenn Mbl. fóru á slysstað þegar á laugardagskvöld, en var meinað að koma nær en sem svaraði 30-40 m. Var þá verið að bera lík hinna látnu úr flakinu, en þau voru mjög illa farin og nánast óþekkjanleg, enda mikið brunnin. Meðal þeirra sem fórust var Robert R. Sparks yfirmaður á Keflavíkurflugvelli, næstæðsti maður varnarliðsins. Hann hafði komið til Íslands síðari hluta ársins 1963 og tók þá við fyrrnefndri stöðu á Keflavíkurflugvelli.
Þyrlan var á leið ofan úr Hvalfirði. Þangað höfðu yfirmaður Vallarins, og yfirmaður landgöngulið flotans hér, A. E. House (44 ára), farið í eftirlitsferð. Aðrir í þyrlunni voru: Clinton L. Tuttle, liðsforingi (32 ára flugmaður þyrlunnar), John Brink (39 ára) og Billy W. Reynolds (27 ára sjóliði).
Frá slysstaðHingað er komin rannsóknarnefnd frá Wasington til að kanna orsök slyssins undir yfirstjórn Q. E Wilhemy. Nefndin getur ekki að svo komnu máli gefið upp ástæður slyssins, enda ekki líkur til að hún sé komin að niðurstöðu.”
Þá segir m.a. í fréttinni (bls. 3): “Um kl. 19.00 á laugardagskvöld 1 maí s.l. var hringt sunnan úr Vogum til lögreglunnar Í Hafnarfirði og henni tilkynnt að heyrzt hefði í flugvél upp af Landakoti og Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, en síðan sézt þaðan eldstólpi eins og vélin hefði hrapað og brunnið um leið.
Hafnarfjarðarlögreglan sneri sér til flugturnsins í Reykjavík og Keflavík. Fékk hún þau svör, að engrar flugvélar væri saknað úr fluumferðarstjórn Reykjavíkurturns, en aftur á móti var skýrt frá því á Keflavíkurflugvelli að þyra væri á leið þangað frá Hvalfirði og mundi hún vera á svipuðum slóðum og upp voru gefnar.
FórustReykjavíkurturn kallaði flugbjörgunar-
sveitina á vettvang, en þar sem þyrlan féll til jarðar rétt í vegarbrún hins nýja Keflavíkurvegar var engin þörf fyrir leit, nema að lausum hlutum úr vélinni, og ennfremur var gerð leit að einu líka hinna látnu, sem ekki fannst þegar í stað, enda hafði það lent undir flakinu.
Blaðamenn Mbl. komu á slysstað um kl. 22 á laugardagskvöld. Við okkur blasti rúst vélarinnar í hraunflákum vegbrúnarinnar en stél hennar og afturhluti lá inn á veginn með knosaðri stélkrúfu. Afturhlutinn var rauðmálaður og sást í hvíta stjörnu á bláum grunni, einkennismerki bandaríska flughersins, en að öðru leyti hvar brak vélarinnar í rúst og myrkur.
Við komumst að því meðan við stóðum við, hverjir hefðu verið um borð í þyrlunni og  fengum í stórum dráttum lýsingu á atburðinum. Var okkur þá m.a. sagt að orðið hefði vart bilunar í vélinni áður en slysið varð.”
Þyrluvarðan er reyndar ekki við slysstaðinn sjálfan. Hann er u.þ.b. 600 m norðar. Þar má enn sjá ummerki eftir slysið.

Heimild m.a.:
-Mbl. 4. maí 1965, bls. 1 og 3.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þyrluvarðan