Grindvíkingar hafa í seinni tíð verið duglegir að farga fortíð sinni á áramótabrennum. Má þar t.d. nefna gömlu árabátanna eftir að notkun þeirra var hætt.
Nú hafa nokkrir samviskubitnir afkomendur, „Hollvinir áttæringsins, látið smíða endurgerð af gömlum tírónum áttæringi með Grindavíkurlagi að tilstuðlan bátasmiða frá Reykhólum og komið honum fyrir utan Kvikuna (fyrrum Saltfiskssetursins) í Grindavík.
Þjóðminjasafnið hafði forgöngu um að láta teikna upp „síðasta Grindavíkurskipið“ á sínum tíma og Lúðvík kristjánsson notaði síðar í stórvirki sínu um „Íslenska sjávarhætti„.
Í nýjasta Sjómannadagsblaði Grindavíkur má lesa eftirfarandi um „Grindavíkurskipið„:
„Allt frá upphafi Íslandsbyggðar var árabáturinn eitt helsta tæki fólks við sjávarsíðuna til sjálfsbjargar. Hann var hluti af daglegu amstri fólks og áhrifavaldur í lífi þess og starfi. Báturinn var forsenda þess að maðurinn gat nýtt sér hafið til framfærslu. Í þúsund ár var hann fiskibátur Íslendinga, oftast knúinn afli mannsins þar sem hver og einn ræðari lagði til orkun af sjálfum sér. Þó að tími árabátanna sé löngu liðinn lifa áfram með þjóðinni ótal tilvitnanir og orðtök frá fyrri tíð sem vitna um mikilvægi hann fyrir líf og störf þjóðarinnar.
Haukur Aðalsteinsson segir m.a. eftirfarandi um fiskibátinn: Þótt uppruni tvíæringsins sé óþekktur er ástæða til að ætla að hann hafi verið algengur fiskibátur við Flóann allt frá fornu fari sbr. lýsingu Skúla Magnússonar: „Sótt var á tveggja manna förum frá ómunatíð í Hafnarfirði og við Stapa“.
Haukur segir að árabáturinn hafi jafnan verið skipt í stærðir og samkvæmt hefðinni voru þeir skilgreindir eins og áratal þeirra gaf til kynna: Tvíæringur, feræringur, sexæringur, áttæringur, teinæringur og tólfæringur. það var mikill munur á stærðum skipa og báta sem gengu til sjóróðra og má segja að þar hafi ólíkar aðstæður ráðið. Miðað við hleðslu batanna var miðað við að eftir stæði eitt borð fyrir báru. Á bátunum var sótt jafnt á handfæri og að net eftir að þau komu til sögunnar, en á færaveiðum var legið við stjóra meðan setið var fyrir fiski.
Við undirritun smíðasamnings um byggingu þessa tíróna áttærings með Grindarvíkurlagi voru m.a. fulltrúar Hollvinafélags Áttæringsins, Ólafur R. Sigurðsson, Óskar Sævarsson og Marta Karlsdóttir.
Á vefmiðlinum Vísi 19. jan. 2023 var viðtal við bátasmiðinn Hafliða Má Aðalsteinsson undir fyrirsögninni „Smíða áttæring forfeðranna úr sunnlenskum skógarvið“:
„Meira en öld eftir að Íslendingar hættu almennt að róa til fiskjar á áttæringum eru menn aftur teknir til við að smíða slíkt skip, og það úr íslenskum skógarvið. Tilgangurinn er að halda upp á menningararfinn. Í fréttum Stöðvar 2 var litið inn í skemmu í eigu Faxaflóahafna í Korngörðum í Sundahöfn. Þar vinnur Breiðfirðingurinn Hafliði Már Aðalsteinsson við þriðja mann við að gera upp gamla trébáta. En núna eru þeir að smíða fornbát, svokallaðan áttæring, sem menn réru á fyrir tíma vélbátanna.
„Þú verður að athuga það að þessir bátar eru grundvöllur að útgerð nútímans. Afar þeirra sem gera út núna gerðu út svona báta. Þetta er bara hluti af menningunni okkar og sögunni okkar,“ segir Hafliði.
Þessi verður ellefu metra langur, á stærð við teinæring en samt áttæringur, smíðaður eftir teikningu úr Íslenskum sjávarháttum. Áhugamenn í Grindavík undir forystu Ólafs Sigurðssonar skipstjóra ásamt Sjómannafélaginu í Grindavík standa fyrir smíðinni.
„Það var enginn svona til. Það var búið að henda þeim öllum. Við erum duglegir að brenna þetta á gamlárskvöld. Áttæringar voru ekkert margir. En svo voru sexæringar, það voru bátar sem þeir notuðu mest í sjóróðrana. Áttæringana í hákarlalegurnar og svoleiðis eitthvað stærra, og svo í flutninga. Menn réðu ekkert við stærri báta en sexæringa. Það þurfti að draga þetta upp alltaf undan sjó. Það voru engar hafnir.
Bátasmíðin fer fram í skemmu Faxaflóahafna í Sundahöfn í Reykjavík. Hafliði er sjöundi ættliður bátasmiða, lærði skipasmíðar af föður sínum í Hvallátrum á Breiðafirði, og þar smíðuðu menn síðast svona bát árið 1904 eða 1906. Þó ekki úr íslenskum við.
„Forfeður okkar notuðu rekavið í þetta. Núna er hann hættur að koma. Þá notum við íslenskt.“
Þannig eru böndin og kjölurinn úr sunnlenskum skógi, íslenskt greni úr Þjórsárdal.
„Þetta eru máttarviðirnir. Eins og kjölurinn, rúmlega sjö metra langur. Þannig að það eru orðin sæmileg tré til.“
-Þannig að það er hægt að treysta íslenskum skógum fyrir bátum?
„Já, já, já. Við getum gert það,“ svarar skipasmíðameistarinn. „Finnsk fura fer þó í byrðinginn en möstrin tvö eru íslenskt lerki.“
En hafa menn áður smíðað bát úr íslenskum skógarviði?
„Ekki svo að ég viti.“
-Heldurðu að landnámsmenn hafi gert það?
„Jaa.. Hvernig voru skógarnir hérna þá? Voru þeir háir? Eins og það sem við þekkjum af þessu er óttalegt kjarr og hefur varla verið mikið nothæft í smíðar, – ekki í báta. En við vitum að fjörurnar voru fullar af við, væntanlega frá Síberíu.“
-En hvenær á svo að sjósetja?
„Sjómannadaginn.“
-Við hátíðlega athöfn í Grindavík?
„Það geri ég ráð fyrir, já. Það er þeirra hlutur. Ég ætla bara að vera við,“ svarar Hafliði Már Aðalsteinsson, bátasmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.“
Í Vísi 1. júní 2023 er aftur fjallað um bátasmíðina:
„Bátasmiðir voru í dag að leggja lokahönd á fyrsta áttæringinn sem smíðaður hefur verið á Íslandi í meira en öld. Máttarviðir bátsins eru afrakstur íslenskrar skógræktar.
Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá smíði bátsins í skemmu Faxaflóahafna í Sundahöfn. Þar var Hafliði Már Aðalsteinsson að tjarga, þó ekki með biksvartri tjöru heldur blandaðri með línóleum.
„Ef þetta er eintóm tjara þá verður hún lin í sólinni og þá fer fólk að skemma fötin sín á þessu. Af því að þetta verður sýningargripur fyrir fólk í góðum fötum en ekki fyrir sjómenn í skinnfötum, eins og var í gamla daga,“ útskýrir bátasmiðurinn.
Báturinn er ellefu metra langur og nær teinæringi í stærð en áttæringi. Svona bátar voru helstu atvinnutæki landsmanna á nítjándu öld fyrir tíma vélbáta.
Við sögðum frá bátasmíðinni í fréttum í janúar þegar hún var nýhafin. Verkbeiðendur eru áhugamenn í Grindavík um forna sjávarhætti og er áformað að Grindvíkingarnir sæki bátinn á morgun.
Hafliði heldur að svona skip hafi síðast verið smíðað á Íslandi árið 1910. Þó að báturinn teljist áttæringur er hann á stærð við teinæring, ellefu metra langur.
„Þeir voru ekkert mikið stærri meðan menn voru að nota þetta í alvörunni. Þetta er náttúrlega nítjándu aldar bátur í rauninni. Svona voru þeir áður en vélarnar komu til.“
Yngsti tréskipasmiður landsins, Einar Jóhann Lárusson, var að leggja lokahönd á siglutrén. Þau verða tvö á bátnum, afturmastur og frammastur, smíðuð úr íslenskum við.
„Íslenskt lerki úr Þjórsárdal. Það er mjög gaman að geta byrjað að nota íslenskan við í þetta,“ segir Einar.
„Máttarviðirnir, bönd, kjölur og stefni, eru greni innan úr Þjórsárdal og svolítið af því reyndar úr Heiðmörkinni líka. En furan er finnsk og naglarnir norskir. Þannig að þetta er svona norrænt, samnorrænt,“ segir Hafliði.
Báturinn verður frumsýndur á sjómannadeginum á sunnudag í Grindavík á Sjóaranum síkáta.“
Heimildir:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2023, Grindavíkurskipið, bls. 36-47.
-https://www.visir.is/g/20232366920d/smida-attaering-forfedranna-ur-sunnlenskum-skogarvid
-https://www.visir.is/g/20232422716d/fyrsti-attaeringurinn-fra-batasmidum-i-heila-old