Gengið var suður Skipsstíg frá hitaveituveginum út að Eldvörpum, litið á flóraða uppgerða kaflann norðan Lágafells (sennilega atvinnubótavinna og undanfari Grindarvíkuvegarins um Gíghæð, sem lagður var á árunum 1914-1918) og komið við í Dýrfinnuhelli. Segir sagan að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín eftir komu Tyrkjans 1627 og hafst þar við um tíma (TÞ).
Þaðan var beygt inn á Baðsvelli og skoðuð Baðsvallaselin í hraunkantinum og norðan skógræktarinnar á miðjum völlunum, sem og í skóginum. Því miður hafði verið plantað í sumar tóftirnar og eru þær nú að hverfa í skógarbotninn.
Síðan var lagt á brattan og gengið upp um norðanvert Þorbjarnarfell. Þar uppi eru stríðsminjar í syðri dyngjunni. Gengið var áfram upp með henni, í Þjófagjá og síðan haldið niður einstigið, sem þar er. Þegar komið var í Þjófahelli í gjánni fannst bæði hákarl og gamalt Brennivín á kút. Eftir að því hafði verið gerð góð skil var haldið niður með Lágafelli. Útsýni af Þorbjarnarfelli frá gjánni er stórkostlegt í slíku veðri, sem þarna var. Baðsvallaselstígunum var fylgt að Skipsstíg.
Frá þeim hluta Skipsstígs var gengið áfram yfir að þeim hluta sem liggur fram hjá Títublaðavörðu að Járngerðarstöðum. Þau álög hvíla á vörðunni að henni verði að halda við, annars muni Grindavík illa farnast….
Stígnum var síðan fylgt áleiðis að Járngerðarstöðum, en staðnæmst var við Silfru. Frá Silfru var síðan gengið að næsta húsi í Grindavík og þar þegnar veitingar; páskaöl, brauð og annað meðlæti.
Veður var frábært – lygna og sól.
Gangan tók u.þ.b. 2 og ½ klst.