Færslur

Grindavíkurvegur

Tómas Snorrason, útvegsbóndi í Grindavík, skrifaði eftirfarandi grein í sjómannablaðið Ægir árið 1929:

Staðhættir

Grindavík

Grindavík – innsigling í Hópið fyrrum.

Grindavík er ysta byggð sunnan á Reykjanesinu. Það er í raun og veru þrjár víkur og sitt hverfi hjá hverri vík, auk þess nokkrar einstakar jarðir milli hverfa. Alls voru 26 grasbýli og 6 eða 7 þurrabúðir í sveitinni um 1890. Byggðin öll nær yfir ca. 14 km langa strandlengju; frá ystu byggð eru ca. 10 km út á Reykjanestá. Landrými sveitarinnar er allmikið og víðast mjög hrjóstrug hraun og blásin og ber eldfjöll. – Aðdýpi er all mikið, þó eru nokkur sker og boðar á öllum víkunum, þess vegna er brimasamt, þó aldrei landbrim í lendingum, nema flóðhátt sé.

Atvinnuvegir

Grindavík

Grindavík.

Frá landnámstíð hafa fiskveiðar og landbúnaður verið aðal atvinnuvegir hér, eins og allstaðar annars staðar á landinu, þar sem svipað er í sveit komið.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðaðferð notuð, nfl. handfæri. Á vetrarvertíð munu mest hafa verið notuð 8 og 10 róin skip, en tveggja og fögurra manna för voru aðallega notuð þar fyrir utan. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.

Grindavík

Grindavík – sjóbúð.

Þar sem veiðistöðvar liggja fyrir opnu hafi, er eðlilega brimasamt í hafáttum og því aðallega gæftir þegar aflandsvindur er, það var því eðlilegt að menn hættu sér ekki langt frá landi, síst meðan eingöngu var treyst á árarnar, til að komast um sjóinn, en ekki í annað hús að venda, ef ekki náðist lending. Í fiskigöngum gengur fiskur hér venjulega inn í boða, það var því sjaldan þörf að sækja langt á vetrum. Það kemur oft fyrir á vetrum, að sjór verður albrima á mjög skömmum tíma, jafnvel þó logn eða hægviðri sé og útsjór vel fær, mun það m.fl. hafa valdið því að hvert hverfi sótti sín mið öldum saman, jafnvel þó betra fiskirí væri í öðrum hverfum. Á sumrin og síðari hluta vorvertíðar var stundum róið langt á ýmis mið, frá Krýsuvíkurbjargi og vestur á Reykjanesröst.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Lengst af var allur fiskur hertur hvort heldur vera skyldi verslunarvara eða til heimilsnota. Aflinn var vel hirtur, hausar hertir til matar, sundmagi, kútmagi og svil sömuleiðis, allt var þetta góð og gild verslunarvara innanlands, hrygnir voru þurrkaðir til eldsneytis og annar úrgangur hirtur til áburðar. Fiskur og hausar voru hertir á þar til gerðum grjótgörðum, sömu garðar fygldu sömu jörðum eins og sömu tún eða sömu uppsátur.
Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) hingað. Sá sem fyrstur varð til þess hét Jón Guðmundsson, hann bjó lengi í þurrabúð, sem heitir Akrakot (fyrstu þurrabúðinni í Járngerðarstaðahverfi), en í daglegu tali kallað Kofinn. Hann fékk 2 strengi af línu inn á Vatnsleysuströnd og kom með þá um vor, þá var tregur fiskur á færi, en hann mokfiskaði á línuna.
ÞórkötlustaðanesÞað hefði mátt ætla að honum hafi verið þökkuð framtakssemin, en það varð öfugt farið. Þegar í land kom mættu honum ónot, hrakyrði og jafnvel haft í hótunum við hann, ef hann legði ekki þessa skaðlegu veiðiaðferð niður. Þó fór svo, að skömmu seinna fer það að tíðkast að nota lóðir á vorin, en stuttar voru þær. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. – Það má segja að með 20. öldinni breyttist hér veiðiaðferðirnar. Þá var byrjað að nota net. Sá sem fyrstur lagði þau mun hafa verið Gísli sál. Hermannsson á Hrauni. Hann lagði 3 net, en tapaði þeim, að mig minnir, áður en hægt var að vitja um þau. Næstu vertíð fóru fleiri að reyna og heppnaðist betur. Upp frá því fara allir að koma sér upp netum, en lítill útvegurinn til að byrja með. Um líkt leyti, eða aðeins seinna, er hætt að beita á sjó, en línan lengd að sama skapi og hefur haldið áfram að lengjast til þessa.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Árið 1925 var fyrst gerður út mótorbátur hér. Það var Gísli silfursmiður Gíslason í Reykjavík, sem kom með hann og gerði hann (dekkbát) út í Staðarhverfinu. Gísli gerði hann út í tvær vertíðir. Árið eftir voru settar vélar í tvö róðraskip í Járngerðarstaðahverfi. Árið eftir bættist eitt vélskipið við, en í fyrra (1928) voru settar vélar í níu róðraskip og þrjú ný smíðuð með sérstöku tilliti til þess að þau yrðu knúin vélum, en ekki árum, en allt eru það opin skip (dekklaus). Á næstkomandi vertíð er gert ráð fyrir að allt verði vélskip. Það mun mega telja sögulegan viðburð í Grindavík, að þar gangi ekkert róðraskip á vetrarvertíð.
Einhverjir kunna nú að spyrja: Hvernig stendur á að öll skip í Grindavík eru lítil og opin? Það er af því að skipin verður að setja á land eftir hvern róður, hvergi hægt að leggja þeim nema í Staðarhverfi, þar geta fáir bátar legið, en þar er útgerð minnst og hefur um alllangt skeið fiskast minnst. Skipin eru dregin á land með gangspili, en sett niður af handafli.

Samgöngur

Skipsstígur

Skipsstígur.

Sökum hafnleysis hefur aldrei verið um samgöngur á sjó að ræða, er teljandi séu, þær urðu því að vera á landi. – Um nokkur ár síðast á 19. öldinni gekk lítill gufubátur (Oddur) milli Eyrarbakka og Grindavíkur á vorin öðru hvoru og sumrin, hann var eign Lefolisverlsunar og aðallega ætlaður til að draga kaupskipin út og inn á höfnina þar, en þess á milli var hann notaður til flutninga hafna á milli, þar sem verslunin hafði viðskipti. Að síðustu bar Oddur beinin hér, þ.e.a.s. strandaði.

Þó um eiginlega fjallvegi í venjulegri merkingu sé ekki hér að ræða sveita á milli, þá voru samgöngur mjög erfiðar og hættulegar í slæmri tíð á vetrardegi, enda var það stundum að slysi. Hvert sem farið var lá leiðin meira eða minna um ógreiðfær hraun, víða holótt og sprungin, sumstaðar lá örmjó gata yfir hyldjúpar gjár og var það ekki glæsilegt að vera þar á ferð er ekki sást til vegar fyrir snjó eða myrkri. Víðast voru djúpar götur, allvíða voru djúpar holur í götunum og stigu hestar ofan í þær, en á milli þeirra voru sumstaðar allt að hné há höft.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegur.

Hve fjölfarið hefur verið til verstöðvanna á Reykjanesskaganum sést best á hinum djúpu og mörgu götum og troðningum, jafnvel í hinum tiltölulega hörðu helluhraunum. Sennilega hafa fleiri en ég horft með undrun á götunar í helluhraununum, er þeir sáu þær í fyrsta sinn og fundist óskiljanlegt hvernig menn hafa getað farið svo nákvæmlega sömu slóð ára eftir ár að götur gætu myndast, þar sem ekkert er sjáanlegt að væri til leiðbeininga nema stefnan.

Samgöngubætur

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Það var ekki fyrr en eftir að akvegurinn var lagður milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur að menn hér fóru almennt að vakna til meðvitundar um hve hagkvæmt það væri að fá akveg hingað. Tvö slys vildi til um sama leyti (tvo menn kól til örkumla), sem hvöttu menn til framkvæmda og voru óhrekjanleg sönnun fyrir nauðsyn á fullkomri vegabót, einkum voru slys þessi sterk meðmæli með vegi í augum þeirra, er um málið urðu að fjalla áður en til framkvæmda kæmi, en voru lítt kunnir staðháttum. Var nú farið að vinna að því að fá vegarálmu frá Keflavíkurveginum til Grindavíkur. Vegarstæðið var mælt og kostnaðaráætlun saman af Sigurgeiri Gíslasyni verkstjóra í Hafnarfirði, sem síðan hafði umsjón verksins á hendi. Helstu hvatamenn þess, að hrinda verkinu í framkvæmd, voru Einar G. Einarsson kaupmaður í Garðhúsum og síra Brynjólfur Magnússon á Stað.

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

Hreppurinn tók að sér að greiða ¼ af kostnaðinum. Til þess að standast þá fjárframlög tókst helstu hvatamönnum fyrirtækisins að fá loforð flestra formanna og útvegseigenda um ½ hlut af hverjus skipi er út voru gerð á vetrarvertíð meðan verið væri að leggja veginn. Einstöku maður mun hafa verið tregur til að lofa ½ hlutnum og jafnvel neitað, þóttust tæplega hafa heimild til þess gagnvart hásetum sínum, en allir munu þó hafa látið hann, eða sem honum svaraði, áður en lyki. Þetta var hið mesta heillaráð og til heiðurs fyrri alla, er hlut áttu að máli. Með þessu komu þeir í veg fyrir að binda sveitinni erfiðar og dýrar skuldabyrðar, en sýndu um leið hve almenn samtök, því í litlu sveitafélagi sé, geta miklu til vegar komið. Sýslunefnd Gullbringusýslu lagði fram ¼ kostnaðar og Landssjóður helming kostnaðar, fyrir drengilega framgöngu þingmanna héraðsins og fleiri góðra manna, er það mál studdu.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Einn af merkari þingmönnum komst á þá eið að orði, að Grindavík hefði ekkert við veg að gera, því þar ætti enginn hest sem lið væri í. Þeim þingmanni hefur ekki komið til hugar, fremur en öðrum þá, að vegur mundi létta ferðalögum af hestum.
Á vegarlagningunni var byrjað vorið 1914 og lokið 1918. Alls mun framlag hreppsins hafa orðið rúmar 20 þúsund krónur, fór það langt fram úr áætlun sem vonlegt var, því áætlunin var gjörð áður en stríðið skall á, en verkið framkvæmt á stríðsárunum. Kauphækkunin, sem var aðalorsök þess hve vegurinn varð dýr, kom þó ekki beint hart niður á hreppsbúum, því fiskur hækkaði í verði fullkomlega í hlutfalli við hækkun vinnulauna.
Allar þessar fjórar vetrarvertíðir aflaðist vel, enda hafði ½ hluturinn þá líka borgað hreppstillagið að fullu, er vegurinn var kominn í Járngerðarstaðahverfið.

Úr Ægir 1929 – grein eftir Tómas Snorrason, útvegsbónda í Grindavík.

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir – kort ÓSÁ.