Eftirfarandi er úrdráttur úr grein Harðar Ágústssonar í bókinni „Íslensk þjóðmenning I – uppruni og umhverfi“ um íslenska torfbæinn.
„Torfhúsið, torfbærinn íslenski, er þó framar öllu eitt af mörgum svörum mannsins fyrr og síðar við þeim vanda að reisa sér skjól gegn verðum og vindum, búa sjálfum sér og sínum athvarf í starfi og leik við tiltekin skilyrði á tilteknum tíma. Hann er þáttur í sögu hússins á jörðinni.“
Reykjavík – þurrabúð.
1. Samfelld og sérstök saga íslenska torfbæjarins hefur enn ekki verið rituð enda þótt fjallað hafi verið um einstaka þætti hennar (sjá Privatboligen paa Island I Sagatiden eftir Valtý Guðmundsson, Híbýlahættir á miðöldum eftir Arnheiði Sigurðardóttur, Húsagerð á Íslandi eftir Guðmund Hannesson, Húsaskipan og byggingar eftir Jónas Jónasson o.fl.).
2. Í engu landi í norðvestanverðri Evrópu, og þó víðar verði leitað, eru aðstæður til byggingasögurannsókna verri en á Íslandi. Ástæðan er einkum sú að hérlendis hefur hið forna íslenska byggingarefni staðist verr tímans tönn en það sem nágrannar okkar hafa notað. Telja má á fingrum annarrar handar torfhús sem eru eldri en hálf önnur öld. Það er því ekki að undra þótt leitað sé á vit fornleifafræðinnar þegar kanna á upphaf og þróun íslenska torfhússins.
Torfbær.
3. Elstu húsleifar hérlendis bera þess glöggt vitni hvaðan híbýli landsnámsmanna voru ættuð.
4. Veggir fyrstu húsanna voru gerðir úr torfi og grjóti, ívið sveigðir til hliðanna með dyrum utan til öðrum megin. Þak hefur verið borið uppi af tvísettum stoðarröðum. Á miðju gólfi er langeldur, til hliðar seyðir, einn eða fleiri, og hellulagt við dyr. Leifar slíkra húsa hafa fundist á Skotlandseyjum, Færeyjum og á Grænlandi.
5. Að frumbýlisárunum loknum tóku húsin breytingum og þeim fjölgaði.
Torfbær.
6. Segja má að fornleifafræðin veiti sæmilega vitneskju um þróun torfbæjarins frá landnámsöld fram undir aldarmótin 1100, en þá verður eyða fram á ofanverða 14. öld. Þar taka við ritaðar heimildir og ber sagnabálkur Sturlungu hæst. Þar er talað um litlustofu og baðstofu. Sama gildir um eldhúsin, þau eru ýmist inni eða úti.
7. Um aldamótin 1100 verður eyða í rannsóknum fornleifafræðinnar. Flest bendir til þess að gangnabærinn í hreinni mynd sé ekki kominn til sögunnar á 13. öld og að húsaskipan þá sé í stórum dráttum svipuð því sem sést á þjóðveldisbænum.
Þjóðveldisbærinn að Stðng.
8. Landnámsbærinn er einhúsa, en þjóðveldisbærinn marghúsa. Á 14. öld fer að votta fyrir göngum um leið og inngöngudyr eru settar milli skála og stofu.
9. Bæjarhúsaþorpið íslenska var sífellt verið að endurbyggja. Sérhver vistarvera í því var yfirleit sjálfstætt hús sem auðvelt var að ataka niður og reisa að nýju líkt og tjald án þess að það raskaði öðrum.
Torfbær.
10. Það er kunnara en frá þurfi að segja að upp úr miðbiki 18. aldar tóku Íslendingar að rumska af aldalöngum stöðnunarsvefni. Ungir hugsjónamenn geysast fram á svið sögunnar hver á fætur öðrum og reyna á öllums viðum að hvetja þjóð sína til dáða. Einn af þeim var Guðlaugur Sveinsson prófastur í Vatnsfirði. Hann skrifaði grein í Lærdómslistaritin 1791 er hann kallaði „Um húsa- eða bæjarbyggingar á Íslandi“. Birti hann með ritgjörðinni grunnmyndir og útlitsteikningar af þrem gerðum sveitabæa, smábýli, meðalbæ og stórbæ. Þetta var fyrsta burstabæjarteikningin hér á landi.
11. Alþýða manna nýtti sér hugmyndir séra Guðlaugs, en hafði ekki í fyrstu efni á að setja timburstafna á húslengjurnar þrjár nema bæjardyr.
Torfbær.
12. Upp úr 1870 myndaðist á Norðurlandi sérstök bæjargerð, framhúsabærinn, í framhaldi af gangnabænum þar.
13. Tvennt er áberandi í sögu torfbæjarins; myndun gangnabæjarins og breytt afnot baðstofu.
14. Elsta rituð heimild um orðið göng eru frá 1431 af Lá á Snæfellsnesi, sem getur hafa verið byggð um miðja 15. öld.
Torfbær.
15. Ályktað hefur verið að ganganbærinn hafi fyrst orðið til norðanlands. Hann verður því grónari sem lengra líður og er til í bland á Suður- og Vesturlandi á 15. eða 16. og 17. öld. Því nær sem dregur hlýjasta hluta landsins því minna gætir hans.
16. Af þessu verður vart önnur ályktun dregin en að gangnabærinn sé svar við köldu og kólnandi veðurfari. Fleira gat þó komið til en kuldinn.
17. Saga baðstofunnar er saga orkukreppu.
18. Tveir eru þeir meginþættir sem mótað hafa þróun torfbæjarins; kólandi veðurfar og minnkandi eldsneyti.
Torfbær.
19. Veggefni var eingöngu torf, mold og ótilhöggvið grjót.
20. Torf var mýratorf og vallendistorf. Mýrartorfið þótti betra byggingarefni. Torf var rist með torfljáum, einskerum eða tvískerum. Lögun torfsins fór eftir því hvernig það var rist eða stungið. Má skipa því niður í þrjá flokka; streng, hnaus og sniddu. Hnausinn var stunginn með pál og skptist í tvær gerðir; kvíahnaus og klömbruhnaus.
21. Grjót var ef svo má segja beint af skepnunni, ótilhöggvið og lag þess fór eftir umhverfinu. Það var blágrýti, grágrýti, hraungrýti eða sandsteinn, stór eða smár.
Torfbær.
22. Grafið var fyrir vegghleðslu. Þykkt veggja fór eftir hversu háir þeir áttu að verða.
23. Torfveggjahleðsla var flóknari en steinveggjahleðsla, meiri tækniþraut.
24. Íslenskur grjótveggur er ekki allur þar sem hann er séður. Í raun er hann moldarveggur með mótum utan og innan af hlöðnu grjóti. Moldin var burður hans og einangrun. Grjóthleðslur ásamt mold finnast svo til í hverri einustu rúst sem grafin hefur verið upp, heilir og hálfir veggir.
25. Laupurinn eða timburgrindin innan torfhússins var með ýmsu móti. Hún fór eftir stærð húsanna, notkun og byggingarlagi. Í útihúsum var hún frumstæð, en því margbrotnari sem nær dró aðalvistarverum fólksins.
Torfbær – sunnlenskur.
26. Í ásaþökum hvílir meginþungi þakisns á sverum ásum, einum eða fleirum.
27. Einfaldasta gerð ásahúss er sú þar sem einn ás hvílir á gaflhlöðum án styrktarstoða og raftar ganga af veggum á ás. Ásinn var ýmist kallaður mæniás eða mænitróða, en raftarnir máttar- eða skáldraftar.
28. Þríásaþök var með svipuðum hætti og tvíása, nema þriðja ásnum bætt við yfir miðjan vaglbitann.
29. Sperruþökin eru yngri og fullkomnari smíð en ásaþökin. Þunginn dreifist eftir sperrunum niður á vegg.
Torfbær – Norðlenskur.
30. Þekjunni var skipt í tvo höfuðflokka eftir gerð innsta byrðis; helluþök eða tróðþök.
31. Í helluþökum var hellan lögð á rafta, sperrur, reisifjöl eða skarsúð.
32. Innsta byrði tróðþaka var hrís lagður á rafta, reisiþil eða súð.
33. Tvær gerðir þilja tíðkuðust einkum hér á landi; stafverk og bindingsverk.
34. Í stafverki er grindin sýnileg.
35. Gólf var úr hellum, þykkari en þær sem notaðar voru í þök.
Víkingaaldaskáli.
36. Skálinn er tvímælalaust elsta hús íslenska torfbæjarins. Í upphafi var hann allt í senn svefnhús, eldhús, vinnustaður, veisluhús og geymsla. Með tilkomu búrs, eldhúss, stofu og skemmu verður skálinn framar öllu svefnhús, skipaður rúmstæðum með báðum hliðum. Þannig búinn er ekki annað að sjá en hann haldist óbreyttur frá því á 11. öld og alveg fram undir lok 18. aldar að hann er lagður niður.
37. Stofan kemur seinna til en skálinn og tekur meiri breytingum. Ætla má að hún sé orðin algeng á 11. öld. Í fyrstu gerð, sem kenna má við þjóðveldi, hefur hún verið dagstofa, vinnustaður kvenna og veisluhús. Allt önnur stofa er komin til á 16. öld.
38. Litlustofu er fyrst getið í Sturlungu upp úr 1234. Hún hefur verið eins konar gestastofa og fundarstaður fyrir aðvífandi tignarmenn.
Þiljuð baðstofa.
39. Baðstofa merkir í upphafi hús þars em menn fóru í bað, gufubað, með þeim hætti að kasta köldu vatni á heitan ofn.
40. Ónstofa er líkega þróun úr baðstofunni. Í ónstofu hlýtur að hafa verið ónn, steinofn eða reykofn til upphitunar.
41. Fjósbaðstofa er sennilega ekki mjög gömul. Bæði eru dæmi um að kýr eða sauðfé hafi verið haft undir baðstofunni til upphitunar.
42. Ástæðan fyrir breyttri notkun baðstofunnar var kólnandi loftslag og eldsneytsiskortur, sem fyrr segir.
43. Búr voru matforðabúr, einkum þó fyrir mjólkurfæðu. Í sumum búranna, sem grafin hafa verið upp, sjást ummerki eftir jarðgrafin stórkeröld.
Hlóðareldhús – Gaimard.
44. Eldhús hafa að sjálfsögðu verið fyrir matseld hvers konar. þau hafa tekið breytingum með breyttri húsagerð.
45. Borðhús voru geymslustaðir fyrir borðbúnað, einkum á stórbýlum.
46. Kamrar hafa ekki enn fundist á landnámsbænum, en þeir gætu hafa staðið úti í upphafi og því ef til vill ekki fundist við uppgrefti. Kamrar koma bæði fyrir í Íslendingasögum og Sturlungu.
47. Skemma var útigeymsla.
48. Húsagerð sú sem landnámsmenn fluttu með sér hingað í öndverðu, var um það bil að víkja fyrir öðrum nýrri í heimabyggðum þeirra.
Torfbær – strengur.
49. Til skamms tíma voru torfbæirnir kallaðir frumstæð húsagerð og í orðinu fólst ákveðin fyrirlitning, Nútíma listviðhorf hafa þaggað niður þann neikvæða tón.
50. Torfhúsið, torfbærinn íslenski, er þó framar öllu eitt af mörgum svörum mannsins fyrr og síðar við þeim vanda að reisa sér skjól gegn verðum og vindum, búa sjálfum sér og sínum athvarf í starfi og leik við tiltekin skilyrði á tilteknum tíma. Hann er þáttur í sögu hússins á jörðinni.
-Íslensk þjóðmenning I – uppruni og umhverfi – 1987 Frosti F. Jóhannsson (bls. 195-366).
-Íslenski torfbærinn – Hörður Ágústsson
Torfbær – klambra.