Herdísarvík
Sú húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands var óðum að víkja fyrir nýrri í þeirra gömlu heimabyggðum.
Torfbær

Torfbær.

Í Svíþjóð og Noregi voru svo kölluð stokkhús og bindingsverkshús óðum að ryðja sér til rúms en á Skotlandseyjum vann steinninn á. Þannig áttu Íslendingar eftir að skapa sér sína eigin húsagerð, torfbæinn, sem í raun átti sér ekki sinn líka í nágrannalöndunum en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld.
Elsta gerð híbýla hér á landi er svo kallað langhús, sem hafði einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er Stöng í Þjórsárdal sem lagðist í eyði í Heklugosi árið 1104. Stöng var grafin upp árið 1939 en í tilefni 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 var reistur þjóðveldisbær í Þjórsárdal, með Stöng sem fyrirmynd.

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Einkenni gangabæja voru göngin sem lágu frá bæjardyrunum, venjulega á miðjum langvegg og gegnum húsin og voru göngin nokkurs konar aðalgangvegur. Gröf í Öræfum, sem fór í eyði í Öræfagosi árið 1362, er elsta heimildin um gangabæ. Gangabæir héldust að mestu óbreyttir til um 1900. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaði.

Torfbær

Torfbær – sunnlenskur.

Torfbæirnir voru misjafnlega stórir en eins og í nú, fór stærð bæjanna eftir efnahag íbúanna. Þannig var torfbærinn að Skálholti í Biskupstungum um 1271 m² árið 1784 en í Litlagerði í Grýtubakkahreppi í S-Þingeyjarsýslu aðeins um 51 m² árið 1828. Hægt er að hugsa sér að bæirnir á ríkustu jörðunum hafi verið sannkallaðar hallir á íslenskan mælikvarða.

Óvíða eru aðstæður til rannsókna á byggingasögu verri en á Íslandi. Ástæðuna má rekja til þess að hið íslenska byggingaefni hefur staðist tímans tönn mun verr en í mörgum öðrum löndum. Aðalbyggingarefni torfbæjanna frá upphafi og fram á 20. öld var mold, torf og grjót að utan en timbur til innansmíðar.

Torfbær

Torfbær – Norðlenskur.

Fyrsta stigið við byggingu torfbæja var að hlaða veggi eða gera tóft. Grafa þurfti fyrir tóftinni en misjafnt virðist hafa verið hve djúpt var grafið. Þó segir í sumum heimildum að grafa eigi niður fyrir frost. Grjótið, sem notað var við að hlaða tóftina, var ótilhöggvið en efni þess og lag fór eftir nánasta umhverfi. Grjótið gat verið stórt eða smátt, grágrýti, blágrýti, hraungrýti eða sandsteinn, það gat verið slétt eða hrjúft, ólögulegt eða vel kanntað. Gott hleðslugrjót var góð eign enda var það notað aftur og aftur en torfbæirnir voru í raun í stöðugri enduruppbyggingu þar sem hver bær stóð ekki í lengi. Grjóthleðslan var undirstaða torfveggjanna sem hlaðnir voru ofan á. Torfveggjahleðsla var mun flóknari heldur en grjóthleðslan en bæði stein- og torfveggjahleðsla hefur lengi verið sérstakt fag hér á landi og var það falið mönnum sem kunnu til verka, einkum þó þegar byggja átti vönduð hús. Þó er líklegt að flestir laghentir karlmenn hafi kunnað veggjahleðslu.

Torfbær

Torfbær – klambra.

Moldin var í raun aðalbyggingarefnið, hvort heldur um var að ræða torf- eða steinveggi. Moldinni var troðið þétt milli steins og torfs og gegndi því bæði hlutverki sem burðarás og einangrunarefni.

Torfið, sem notað var við bygginguna, var venjulega rist á vorin áður en grasið byrjaði að gróa á ný. Grasið var þá venjulega blautt í sér og því þurfti að þurrka torfið. Verkfærin, sem notuð voru við torfristuna, voru svokallaður torfljár og páll sem var eins konar skófla.

Strengur

Torfbær – strengur.

Þegar búið var að hlaða tóftina var hafist handa við að smíða grindina, sem m.a. hélt uppi þakinu. Í raun má segja að íslensk torfhús, einkum þau sem heldra fólk bjó í, hafi verið timburhús að innan en torfhús að utan. Líklegt er að meginhluti efnisins í innansmíðina hafi framan af öldum verið rekaviður. Þó eru til heimildir um að menn hafi snemma keypt timbur frá Noregi og er líklegt að viður hafi verið fluttur inn til Íslands í einhverju mæli allar miðaldir og á einokunartímanum 1602-1787. Þrátt fyrir þennan timburinnflutning til landsins hefur skortur á viði til húsagerðar sett varanlegan svip á íslenska torfbæinn. Væntanlega hefur verið notað mismikið timbur í húsbyggingar eftir efnahag húsbyggjenda og eftir tímum. Þannig hafa menn stundum séð þjóðveldisöldina (930-1264) sem eins konar gullöld Íslendinga. Gott dæmi um það er Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal, sem áður er getið, en þar er vel viðað og hátt til lofts en bent hefur verið á að ólíklegt sé að í Þjórsárdal, sem liggur 70 km frá sjó, hafi verið kleift að byggja svo vel viðaðan bæ á 11. öld.

Gluggi

Gluggi á torfbæ.

Á eftir grindarsmíðinni var hafist handa við þakgerðina. Yst var grastorf, því næst mold, þá þurrtorf og að lokum hella eða hrís sem var innsta lagið. Helluþökin voru að vonum mjög þung og því þurfti meira timbur en ella í grindina en þau höfðu þann kost að þau láku ekki. Í mörgum tóftum hafa fundist leifar helluþaka en lítið hefur fundist af leifum hrísþaka enda eyðast þau með tímanum. Gluggar voru á þekjunni til þess að hleypa inn birtu en gluggar voru m.a. gerðir úr líknarbelgjum húsdýra, eða fósturhimnum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá um 1750 segir að þær séu “svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.”

Gólfin í torfbæjunum voru moldargólf blönduð kolasalla en hellur voru þó yfirleitt lagðar í anddyri og á hlaði.

Torfbær

Torfbær.

Helstu vistarverur fólks voru þiljaðar en þegar líða tók á aldirnar virðist sem það hafi dottið upp fyrir, kannski vegna timburskorts. Líklegt er að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi veggir verið þiljaðir og á síðustu árum baðstofunnar á 19. og 20. öld.

Torfhúsin voru ekki endingargóð og voru því í stöðugri enduruppbyggingu. Svo virðist sem menn hafi verið misjafnlega færir í húsasmíðinni eftir landshlutum ef marka má Ferðabók Eggerts og Bjarna en þar segir m.a. að þó svo að Strandamenn séu góðir trésmiðir “þá eru þeir harla lélegir húsasmiðir, því að naumlega munu nokkurs staðar jafnilla hýstir bæir og á Ströndum, einkum norðan Trékyllisvíkur”.

Torfbær

Torfbær.

Um verkfæri íslenskra smiða fram á 19. öld er lítið vitað en líklegt er að þau hafi verið svipuð og frænda okkar Norðmanna. Algengasta verkfæri smiða hefur verið öxin sem notuð var við frumvinnslu timbursins. Þá hafa svo kallaðar sköfur og skeflar verið algengir en þeir voru eins konar undanfarar hefilsins. Smiðirnir notuðu bora sem þeir kölluðu nafra. Borinn hefur verið mikilvægt áhald hér á landi þar sem trénaglar voru notaðir fram á 17. öld en járnnaglar urðu ekki algengir fyrr en á 18. öld. Elsta heimild um notkun sagar hér á landi er frá 1470 en ekki er vitað hvenær hún kom til landsins. Þannig eru til heimildir um að þegar Brynjólfskirkja var reist um 1650 hafi stórviðarsög verið notuð við að saga viðinn í hana.

http://www.idan.is

Bær

Torfbær í Reykjavík.