Færslur

Bær
Svíinn Carl Wilhelm Paijkull, steinafræðingur, ferðaðist hér víða um land á árinu 1865, og gaf út ferðasögu sína: “En sommer på Island”. Kemur höfundur víða við, og munu sumar lýsingar hans þykja í hispurslausara lagi. Fer hér á eftir lýsing hans á íslenska torfbænum:

Torfbær

Torfbær í Reykjavík á 18. öld.

“Hið fyrsta, sem vekur athygli ferðamannsins, þegar hann fer að kynna sér landið, er íslenski bóndabærinn. Hann er ýmist byggður úr torfi einu saman eða torfi og grjóti. Á sumrin, þegar þak og veggir er orðið grænt, er erfitt að greina bæinn frá umhverfinu. Híbýli fátækasta fólksins er nánast jarðhús, þótt raunar séu reist ofan jarðar. Ég kom t.d. einu sinni að bæ í nágrenni Reykjavíkur, sem gerður var úr venjulegu efni, en aðeins eitt herbergi, myrkt og lágt.

Eldhús

Hlóðareldhús – Gaimard.

Voru þar í öðrum enda tvö rúmstæði, en ferhyrnt borð á milli. Í hinum endanum var geymsla og vinnustofa. Þar hafði verið hlaðið eða fleygt frá sér ull, fjallagrösum og ýmsu fleira. En á miðjum vegg gegnt dyrum var eldstæðið, hlóðir úr lágum hellum. Ekki var trégólf í húsi þessu og ekki heldur loft, nema ef telja skyldi sperrurnar, sem halda uppi torfþekjunni. Birtan kom inn um tvo ljóra á þakinu, og húsið var svo lágt, að bjálkarnir undir sperrunum náðu mér á að giska í geirvörtu. Það liggur í hlutarins eðli, að allt er svart, sótugt og sóðalegt í slíkum bæ, enda verður ekki með orðum lýst, hvernig þarna var umhorfs.”

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – tilgáta.

Herdísarvík
Sú húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands var óðum að víkja fyrir nýrri í þeirra gömlu heimabyggðum.
Torfbær

Torfbær.

Í Svíþjóð og Noregi voru svo kölluð stokkhús og bindingsverkshús óðum að ryðja sér til rúms en á Skotlandseyjum vann steinninn á. Þannig áttu Íslendingar eftir að skapa sér sína eigin húsagerð, torfbæinn, sem í raun átti sér ekki sinn líka í nágrannalöndunum en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld.
Elsta gerð híbýla hér á landi er svo kallað langhús, sem hafði einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er Stöng í Þjórsárdal sem lagðist í eyði í Heklugosi árið 1104. Stöng var grafin upp árið 1939 en í tilefni 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 var reistur þjóðveldisbær í Þjórsárdal, með Stöng sem fyrirmynd.

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Einkenni gangabæja voru göngin sem lágu frá bæjardyrunum, venjulega á miðjum langvegg og gegnum húsin og voru göngin nokkurs konar aðalgangvegur. Gröf í Öræfum, sem fór í eyði í Öræfagosi árið 1362, er elsta heimildin um gangabæ. Gangabæir héldust að mestu óbreyttir til um 1900. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaði.

Torfbær

Torfbær – sunnlenskur.

Torfbæirnir voru misjafnlega stórir en eins og í nú, fór stærð bæjanna eftir efnahag íbúanna. Þannig var torfbærinn að Skálholti í Biskupstungum um 1271 m² árið 1784 en í Litlagerði í Grýtubakkahreppi í S-Þingeyjarsýslu aðeins um 51 m² árið 1828. Hægt er að hugsa sér að bæirnir á ríkustu jörðunum hafi verið sannkallaðar hallir á íslenskan mælikvarða.

Óvíða eru aðstæður til rannsókna á byggingasögu verri en á Íslandi. Ástæðuna má rekja til þess að hið íslenska byggingaefni hefur staðist tímans tönn mun verr en í mörgum öðrum löndum. Aðalbyggingarefni torfbæjanna frá upphafi og fram á 20. öld var mold, torf og grjót að utan en timbur til innansmíðar.

Torfbær

Torfbær – Norðlenskur.

Fyrsta stigið við byggingu torfbæja var að hlaða veggi eða gera tóft. Grafa þurfti fyrir tóftinni en misjafnt virðist hafa verið hve djúpt var grafið. Þó segir í sumum heimildum að grafa eigi niður fyrir frost. Grjótið, sem notað var við að hlaða tóftina, var ótilhöggvið en efni þess og lag fór eftir nánasta umhverfi. Grjótið gat verið stórt eða smátt, grágrýti, blágrýti, hraungrýti eða sandsteinn, það gat verið slétt eða hrjúft, ólögulegt eða vel kanntað. Gott hleðslugrjót var góð eign enda var það notað aftur og aftur en torfbæirnir voru í raun í stöðugri enduruppbyggingu þar sem hver bær stóð ekki í lengi. Grjóthleðslan var undirstaða torfveggjanna sem hlaðnir voru ofan á. Torfveggjahleðsla var mun flóknari heldur en grjóthleðslan en bæði stein- og torfveggjahleðsla hefur lengi verið sérstakt fag hér á landi og var það falið mönnum sem kunnu til verka, einkum þó þegar byggja átti vönduð hús. Þó er líklegt að flestir laghentir karlmenn hafi kunnað veggjahleðslu.

Torfbær

Torfbær – klambra.

Moldin var í raun aðalbyggingarefnið, hvort heldur um var að ræða torf- eða steinveggi. Moldinni var troðið þétt milli steins og torfs og gegndi því bæði hlutverki sem burðarás og einangrunarefni.

Torfið, sem notað var við bygginguna, var venjulega rist á vorin áður en grasið byrjaði að gróa á ný. Grasið var þá venjulega blautt í sér og því þurfti að þurrka torfið. Verkfærin, sem notuð voru við torfristuna, voru svokallaður torfljár og páll sem var eins konar skófla.

Strengur

Torfbær – strengur.

Þegar búið var að hlaða tóftina var hafist handa við að smíða grindina, sem m.a. hélt uppi þakinu. Í raun má segja að íslensk torfhús, einkum þau sem heldra fólk bjó í, hafi verið timburhús að innan en torfhús að utan. Líklegt er að meginhluti efnisins í innansmíðina hafi framan af öldum verið rekaviður. Þó eru til heimildir um að menn hafi snemma keypt timbur frá Noregi og er líklegt að viður hafi verið fluttur inn til Íslands í einhverju mæli allar miðaldir og á einokunartímanum 1602-1787. Þrátt fyrir þennan timburinnflutning til landsins hefur skortur á viði til húsagerðar sett varanlegan svip á íslenska torfbæinn. Væntanlega hefur verið notað mismikið timbur í húsbyggingar eftir efnahag húsbyggjenda og eftir tímum. Þannig hafa menn stundum séð þjóðveldisöldina (930-1264) sem eins konar gullöld Íslendinga. Gott dæmi um það er Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal, sem áður er getið, en þar er vel viðað og hátt til lofts en bent hefur verið á að ólíklegt sé að í Þjórsárdal, sem liggur 70 km frá sjó, hafi verið kleift að byggja svo vel viðaðan bæ á 11. öld.

Gluggi

Gluggi á torfbæ.

Á eftir grindarsmíðinni var hafist handa við þakgerðina. Yst var grastorf, því næst mold, þá þurrtorf og að lokum hella eða hrís sem var innsta lagið. Helluþökin voru að vonum mjög þung og því þurfti meira timbur en ella í grindina en þau höfðu þann kost að þau láku ekki. Í mörgum tóftum hafa fundist leifar helluþaka en lítið hefur fundist af leifum hrísþaka enda eyðast þau með tímanum. Gluggar voru á þekjunni til þess að hleypa inn birtu en gluggar voru m.a. gerðir úr líknarbelgjum húsdýra, eða fósturhimnum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá um 1750 segir að þær séu “svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.”

Gólfin í torfbæjunum voru moldargólf blönduð kolasalla en hellur voru þó yfirleitt lagðar í anddyri og á hlaði.

Torfbær

Torfbær.

Helstu vistarverur fólks voru þiljaðar en þegar líða tók á aldirnar virðist sem það hafi dottið upp fyrir, kannski vegna timburskorts. Líklegt er að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi veggir verið þiljaðir og á síðustu árum baðstofunnar á 19. og 20. öld.

Torfhúsin voru ekki endingargóð og voru því í stöðugri enduruppbyggingu. Svo virðist sem menn hafi verið misjafnlega færir í húsasmíðinni eftir landshlutum ef marka má Ferðabók Eggerts og Bjarna en þar segir m.a. að þó svo að Strandamenn séu góðir trésmiðir “þá eru þeir harla lélegir húsasmiðir, því að naumlega munu nokkurs staðar jafnilla hýstir bæir og á Ströndum, einkum norðan Trékyllisvíkur”.

Torfbær

Torfbær.

Um verkfæri íslenskra smiða fram á 19. öld er lítið vitað en líklegt er að þau hafi verið svipuð og frænda okkar Norðmanna. Algengasta verkfæri smiða hefur verið öxin sem notuð var við frumvinnslu timbursins. Þá hafa svo kallaðar sköfur og skeflar verið algengir en þeir voru eins konar undanfarar hefilsins. Smiðirnir notuðu bora sem þeir kölluðu nafra. Borinn hefur verið mikilvægt áhald hér á landi þar sem trénaglar voru notaðir fram á 17. öld en járnnaglar urðu ekki algengir fyrr en á 18. öld. Elsta heimild um notkun sagar hér á landi er frá 1470 en ekki er vitað hvenær hún kom til landsins. Þannig eru til heimildir um að þegar Brynjólfskirkja var reist um 1650 hafi stórviðarsög verið notuð við að saga viðinn í hana.

http://www.idan.is

Bær

Torfbær í Reykjavík.

Bær

Eftirfarandi er úrdráttur úr grein Harðar Ágústssonar í bókinni “Íslensk þjóðmenning I – uppruni og umhverfi” um íslenska torfbæinn.

“Torfhúsið, torfbærinn íslenski, er þó framar öllu eitt af mörgum svörum mannsins fyrr og síðar við þeim vanda að reisa sér skjól gegn verðum og vindum, búa sjálfum sér og sínum athvarf í starfi og leik við tiltekin skilyrði á tilteknum tíma. Hann er þáttur í sögu hússins á jörðinni.”

Reykjavík

Reykjavík – þurrabúð.

1. Samfelld og sérstök saga íslenska torfbæjarins hefur enn ekki verið rituð enda þótt fjallað hafi verið um einstaka þætti hennar (sjá Privatboligen paa Island I Sagatiden eftir Valtý Guðmundsson, Híbýlahættir á miðöldum eftir Arnheiði Sigurðardóttur, Húsagerð á Íslandi eftir Guðmund Hannesson, Húsaskipan og byggingar eftir Jónas Jónasson o.fl.).
2. Í engu landi í norðvestanverðri Evrópu, og þó víðar verði leitað, eru aðstæður til byggingasögurannsókna verri en á Íslandi. Ástæðan er einkum sú að hérlendis hefur hið forna íslenska byggingarefni staðist verr tímans tönn en það sem nágrannar okkar hafa notað. Telja má á fingrum annarrar handar torfhús sem eru eldri en hálf önnur öld. Það er því ekki að undra þótt leitað sé á vit fornleifafræðinnar þegar kanna á upphaf og þróun íslenska torfhússins.

Torfbær

Torfbær.

3. Elstu húsleifar hérlendis bera þess glöggt vitni hvaðan híbýli landsnámsmanna voru ættuð.
4. Veggir fyrstu húsanna voru gerðir úr torfi og grjóti, ívið sveigðir til hliðanna með dyrum utan til öðrum megin. Þak hefur verið borið uppi af tvísettum stoðarröðum. Á miðju gólfi er langeldur, til hliðar seyðir, einn eða fleiri, og hellulagt við dyr. Leifar slíkra húsa hafa fundist á Skotlandseyjum, Færeyjum og á Grænlandi.
5. Að frumbýlisárunum loknum tóku húsin breytingum og þeim fjölgaði.

Torfbær

Torfbær.

6. Segja má að fornleifafræðin veiti sæmilega vitneskju um þróun torfbæjarins frá landnámsöld fram undir aldarmótin 1100, en þá verður eyða fram á ofanverða 14. öld. Þar taka við ritaðar heimildir og ber sagnabálkur Sturlungu hæst. Þar er talað um litlustofu og baðstofu. Sama gildir um eldhúsin, þau eru ýmist inni eða úti.
7. Um aldamótin 1100 verður eyða í rannsóknum fornleifafræðinnar. Flest bendir til þess að gangnabærinn í hreinni mynd sé ekki kominn til sögunnar á 13. öld og að húsaskipan þá sé í stórum dráttum svipuð því sem sést á þjóðveldisbænum.

Þjóðveldisbærinn

Þjóðveldisbærinn að Stðng.

8. Landnámsbærinn er einhúsa, en þjóðveldisbærinn marghúsa. Á 14. öld fer að votta fyrir göngum um leið og inngöngudyr eru settar milli skála og stofu.
9. Bæjarhúsaþorpið íslenska var sífellt verið að endurbyggja. Sérhver vistarvera í því var yfirleit sjálfstætt hús sem auðvelt var að ataka niður og reisa að nýju líkt og tjald án þess að það raskaði öðrum.

Torfbær

Torfbær.

10. Það er kunnara en frá þurfi að segja að upp úr miðbiki 18. aldar tóku Íslendingar að rumska af aldalöngum stöðnunarsvefni. Ungir hugsjónamenn geysast fram á svið sögunnar hver á fætur öðrum og reyna á öllums viðum að hvetja þjóð sína til dáða. Einn af þeim var Guðlaugur Sveinsson prófastur í Vatnsfirði. Hann skrifaði grein í Lærdómslistaritin 1791 er hann kallaði “Um húsa- eða bæjarbyggingar á Íslandi”. Birti hann með ritgjörðinni grunnmyndir og útlitsteikningar af þrem gerðum sveitabæa, smábýli, meðalbæ og stórbæ. Þetta var fyrsta burstabæjarteikningin hér á landi.
11. Alþýða manna nýtti sér hugmyndir séra Guðlaugs, en hafði ekki í fyrstu efni á að setja timburstafna á húslengjurnar þrjár nema bæjardyr.

Torfbær

Torfbær.

12. Upp úr 1870 myndaðist á Norðurlandi sérstök bæjargerð, framhúsabærinn, í framhaldi af gangnabænum þar.
13. Tvennt er áberandi í sögu torfbæjarins; myndun gangnabæjarins og breytt afnot baðstofu.
14. Elsta rituð heimild um orðið göng eru frá 1431 af Lá á Snæfellsnesi, sem getur hafa verið byggð um miðja 15. öld.

Torfbær

Torfbær.

15. Ályktað hefur verið að ganganbærinn hafi fyrst orðið til norðanlands. Hann verður því grónari sem lengra líður og er til í bland á Suður- og Vesturlandi á 15. eða 16. og 17. öld. Því nær sem dregur hlýjasta hluta landsins því minna gætir hans.
16. Af þessu verður vart önnur ályktun dregin en að gangnabærinn sé svar við köldu og kólnandi veðurfari. Fleira gat þó komið til en kuldinn.
17. Saga baðstofunnar er saga orkukreppu.
18. Tveir eru þeir meginþættir sem mótað hafa þróun torfbæjarins; kólandi veðurfar og minnkandi eldsneyti.

Torfbær

Torfbær.

19. Veggefni var eingöngu torf, mold og ótilhöggvið grjót.
20. Torf var mýratorf og vallendistorf. Mýrartorfið þótti betra byggingarefni. Torf var rist með torfljáum, einskerum eða tvískerum. Lögun torfsins fór eftir því hvernig það var rist eða stungið. Má skipa því niður í þrjá flokka; streng, hnaus og sniddu. Hnausinn var stunginn með pál og skptist í tvær gerðir; kvíahnaus og klömbruhnaus.
21. Grjót var ef svo má segja beint af skepnunni, ótilhöggvið og lag þess fór eftir umhverfinu. Það var blágrýti, grágrýti, hraungrýti eða sandsteinn, stór eða smár.

Torfbær

Torfbær.

22. Grafið var fyrir vegghleðslu. Þykkt veggja fór eftir hversu háir þeir áttu að verða.
23. Torfveggjahleðsla var flóknari en steinveggjahleðsla, meiri tækniþraut.
24. Íslenskur grjótveggur er ekki allur þar sem hann er séður. Í raun er hann moldarveggur með mótum utan og innan af hlöðnu grjóti. Moldin var burður hans og einangrun. Grjóthleðslur ásamt mold finnast svo til í hverri einustu rúst sem grafin hefur verið upp, heilir og hálfir veggir.
25. Laupurinn eða timburgrindin innan torfhússins var með ýmsu móti. Hún fór eftir stærð húsanna, notkun og byggingarlagi. Í útihúsum var hún frumstæð, en því margbrotnari sem nær dró aðalvistarverum fólksins.

Torfbær

Torfbær – sunnlenskur.

26. Í ásaþökum hvílir meginþungi þakisns á sverum ásum, einum eða fleirum.
27. Einfaldasta gerð ásahúss er sú þar sem einn ás hvílir á gaflhlöðum án styrktarstoða og raftar ganga af veggum á ás. Ásinn var ýmist kallaður mæniás eða mænitróða, en raftarnir máttar- eða skáldraftar.
28. Þríásaþök var með svipuðum hætti og tvíása, nema þriðja ásnum bætt við yfir miðjan vaglbitann.
29. Sperruþökin eru yngri og fullkomnari smíð en ásaþökin. Þunginn dreifist eftir sperrunum niður á vegg.

Torfbær

Torfbær – Norðlenskur.

30. Þekjunni var skipt í tvo höfuðflokka eftir gerð innsta byrðis; helluþök eða tróðþök.
31. Í helluþökum var hellan lögð á rafta, sperrur, reisifjöl eða skarsúð.
32. Innsta byrði tróðþaka var hrís lagður á rafta, reisiþil eða súð.
33. Tvær gerðir þilja tíðkuðust einkum hér á landi; stafverk og bindingsverk.
34. Í stafverki er grindin sýnileg.
35. Gólf var úr hellum, þykkari en þær sem notaðar voru í þök.

Víkingaaldaskáli

Víkingaaldaskáli.

36. Skálinn er tvímælalaust elsta hús íslenska torfbæjarins. Í upphafi var hann allt í senn svefnhús, eldhús, vinnustaður, veisluhús og geymsla. Með tilkomu búrs, eldhúss, stofu og skemmu verður skálinn framar öllu svefnhús, skipaður rúmstæðum með báðum hliðum. Þannig búinn er ekki annað að sjá en hann haldist óbreyttur frá því á 11. öld og alveg fram undir lok 18. aldar að hann er lagður niður.
37. Stofan kemur seinna til en skálinn og tekur meiri breytingum. Ætla má að hún sé orðin algeng á 11. öld. Í fyrstu gerð, sem kenna má við þjóðveldi, hefur hún verið dagstofa, vinnustaður kvenna og veisluhús. Allt önnur stofa er komin til á 16. öld.
38. Litlustofu er fyrst getið í Sturlungu upp úr 1234. Hún hefur verið eins konar gestastofa og fundarstaður fyrir aðvífandi tignarmenn.

Bær

Þiljuð baðstofa.

39. Baðstofa merkir í upphafi hús þars em menn fóru í bað, gufubað, með þeim hætti að kasta köldu vatni á heitan ofn.
40. Ónstofa er líkega þróun úr baðstofunni. Í ónstofu hlýtur að hafa verið ónn, steinofn eða reykofn til upphitunar.
41. Fjósbaðstofa er sennilega ekki mjög gömul. Bæði eru dæmi um að kýr eða sauðfé hafi verið haft undir baðstofunni til upphitunar.
42. Ástæðan fyrir breyttri notkun baðstofunnar var kólnandi loftslag og eldsneytsiskortur, sem fyrr segir.
43. Búr voru matforðabúr, einkum þó fyrir mjólkurfæðu. Í sumum búranna, sem grafin hafa verið upp, sjást ummerki eftir jarðgrafin stórkeröld.

Eldhús

Hlóðareldhús – Gaimard.

44. Eldhús hafa að sjálfsögðu verið fyrir matseld hvers konar. þau hafa tekið breytingum með breyttri húsagerð.
45. Borðhús voru geymslustaðir fyrir borðbúnað, einkum á stórbýlum.
46. Kamrar hafa ekki enn fundist á landnámsbænum, en þeir gætu hafa staðið úti í upphafi og því ef til vill ekki fundist við uppgrefti. Kamrar koma bæði fyrir í Íslendingasögum og Sturlungu.
47. Skemma var útigeymsla.

48. Húsagerð sú sem landnámsmenn fluttu með sér hingað í öndverðu, var um það bil að víkja fyrir öðrum nýrri í heimabyggðum þeirra.

Strengur

Torfbær – strengur.

49. Til skamms tíma voru torfbæirnir kallaðir frumstæð húsagerð og í orðinu fólst ákveðin fyrirlitning, Nútíma listviðhorf hafa þaggað niður þann neikvæða tón.
50. Torfhúsið, torfbærinn íslenski, er þó framar öllu eitt af mörgum svörum mannsins fyrr og síðar við þeim vanda að reisa sér skjól gegn verðum og vindum, búa sjálfum sér og sínum athvarf í starfi og leik við tiltekin skilyrði á tilteknum tíma. Hann er þáttur í sögu hússins á jörðinni.

-Íslensk þjóðmenning I – uppruni og umhverfi – 1987 Frosti F. Jóhannsson (bls. 195-366).
-Íslenski torfbærinn – Hörður Ágústsson

Torfbær

Torfbær – klambra.