Færslur

Torfdalur

Stefnan var tekin á Torfdal ofan við bæinn Helgadal í Mosfellssveit (Mosfellsdal). Dalurinn er fremur stuttur. Um hann rennur Torfdalslækur, vatnslítill nema í leysingum. Neðarlega myndar hann fossagil, Stórutorfugil. Ætlunin var að staðsetja Selhól, sem getið er í örnefnalýsingu svog mögulegar selminjar af draganda nafngiftar hólsins.

Torfdalur

Torfdalur – kort.

Að sögn bóndans í Helgadag, Ásgeirs Péturssonar, eftir að hafa ráðfært sig við húsfreyjuna, er hafði sótt örnefnalýsingu jarðarinnar sér til halds og trausts, mun Selhóll skaga út úr norðvesturhorni Grímarsfells, “augljós er upp væri komið”. Að sögn lægju “gamlar götur upp frá bænum áleiðis að Selhól, sem þó virtist ekki greinanlegt í dag”.
Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Helgadal (bls. 317); “Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa”. Þá segir: “Vatnsskortur er margoft um vetur að stórmeini.”

Torfdalur

Torfdalur – Varða á Selhól.

Skv. Jarðabókinni á Helgadalur að hafi selstöðu í Stardal ásamt allmörgum öðrum. Selfarir voru hins vegar einungis að sumarlægi. Ef aðstæður eru skoðaðar má telja að vatnsskortur hafi aldrei háð Helgadalsábúendum því þrjár ár renna við bæjarstæðið. Lýsingin virðist því eitthvað hafa skolast til hvað þetta varðar.
Þá má telja af líkindum að Helgadalssel hafi mögulega verið þar sem nefnt hefur verið Varmársel. Í Jarðabókinni er nefnilega ekki getið um selstöðu frá Varmá í landi Stardals og reyndar er alls ekki getið þar um selstöðu frá jörðinni, enda ólíklegra út frá landfræðilegum aðstæðum.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Í örnefnalýsingu Helgadals um göngusvæðið segir m.a.: “Jörð í Mosfellsveit, næst austan Æsustaða. Upplýsingar gáfu Hjalti og Ólafur Þórðarsynir, Æsustöðum, einnig frá föður þeirra.
“Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur.”
Í athugasemdum um lýsinguna segir m.a.: “Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983. Þær eru ýmist ritaðar inn á ljósrit af skránni eða færðar sem svör á spurningalista.
“Stóridalur er í Þormóðsdalslandi. Grímarsfell, ekki Grímansfell.

Torfdalur

Torfdalur ofanverður.

Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.”
Gata var rakin frá Helgadal upp eftir Torfdal, skammt neðan Hádegisvörðu og allt upp þangað er gil skiptu að Grímarsfelli. Sjóskaflar þökktu svæðið svo erfitt var um staðfestingu minjatilvistar þar.
Þegar horft var yfir Stórutorfu mátti telja líklegast að selminjar myndu vera undir lágum melhól norðan torfunnar. Á honum er vörðubrot. Önnur mannanna verk var ekki að sjá í Torfdal (utan framreisluskurðar undir Torfdalshrygg).
Ástæða er til að skoða Torfdalinn nánar þegar vorar.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Sumarið eftir var aftur gengið um Torfdalinn ofan Helgafells. Rifjuð var upp örnefnalýsing þeirra Hjalta og Ólafs: “Sunnan Helgadalsbæjar er hæð, sem nær vestur að Æsustaðafjalli. Á henni, beint suður af Helgadalsbæ er Hádegisvarða. Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. (Um það rennur Norðurreykjaá.) Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur. Austan við Stórutorfu og Stand, sunnar í fellinu, ofarlega, er dæld, sem heitir Stóridalur. Þar neðar og vestur af er urð mikil sem heitir Skollurð, er hún í Þormóðsdalslandi, og enn austar skerst djúpt gil sunnar í fellið er heitir Vondagil (mun nefnt Illagil á korti). Á háfellinu, upp af Torfdal, er kollóttur móbergshóll er heitir Kollhóll; er hann á há-Suðurfellinu vestanverðu. Enn vestar er Nóngilslækur, á merkjum Helgadals og Æsustaða. Má telja, að Suðurá byrji þegar Torfdalslækur og Nóngilslækur koma saman.
Í suðausturkrika dalsins, í Helgadalstúni og upp af því, er Bæjargil, enn vestar Torfdalsgil og Nóngil, sem er á mörkum Helgadals og Suður-Reykja. Nóngil er forn eyktamörk frá Helgadal. Í Torfdalsgili er Torfdalsfoss og í Nóngili Nóngilsfoss.”

Í athugasemdum Guðjóns Sigurðar við Örnefnalýsinguna segir m.a.: “Niður af Hádegisvörðu (á Hádegishæð) er djúpur hvammur sem nefnist Bolabás . Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.”

Torfdalur

Torfdalsfoss.

Í króknum þar sem Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast eru brattar grasbrekkur sem nefnast Stóratorfa, en „…norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur“ (Ólafur Þórðarson). Ekki er vitað hvort sel var við Selhól og ekki heldur hvenær síðast var haft í seli í Helgadal. Hvorki Sigurði Helgasyni, fyrrverandi bónda í Helgadal, né öðrum er kunnugt um rústir við Selhól eða sel í Torfdal.

Helgadalur

Helgadalur – Mosfellsbæ.

Líklegt má telja, ekki síst vegna þess hversu stutt er frá bæ að Selhól, að þar hafi um tíma verið heimasel. Í heimaseljum voru venjulega einungis eitt mannvirki; stekkur eða afdrep, allt eftir tilgangi selstöðunnar. Þegar framangreindri götu frá bæ var fylgt upp með Stórutorfugili austan Norðurreykjaár, upp með Hádegisvörðu og upp á Stórutorfu suðaustan Selhóls (á Selhól er varða, sem vandað hefur verið til) má sjá á einu barðinu móta fyrir mannvistarleifum. Líkast til er þar um að ræða fornan stekk eða annað mannvirki, að mestu gerður úr torfi, en þó má einnig sjá þar grjót. Minjarnar er skammt austan við ána ofan við flæður, sem í henni eru. Selstöður voru nytjastaðir, hvort sem var fyrir fé, nautgripi, fuglatekju, kolagerð, hrístöku, torfristu, mótekju eða annað þ.h. Af nafni dalsins má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi, líkt og svo margir nafnar hans á landinu, nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór (“elditorf”). Þess vegna má ætla að ekki hafi verið lagt í mikil mannvirki í dalnum því stutt er heim til bæjar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Ólafur Þórðarson frá Æsustöðum. Örnefnalýsing Helgadals, skráð 1968 sem endurbót á lýsingu Ara Gíslasonar og aftur endurbætt 22. sept. 1983.
-Athugasemdir við lýsinguna: Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983.
-Ásgeir Pétursson, bóndi í Helgadal.
-Jarðabók ÁM 1703.

Torfdalur

Helgadalur framundan – Hádegisvarða.