Færslur

Eldvörp

Gengið var um Sundvörðuhraun, svonefnd “Tyrkjabyrgi” og skútar sem eignaðir hafa verið útilegumönnum og m.a. “brauðofninn” skoðaður, auk þess sem ætlunin var að gaumgæfa svæðið betur m.t.t. mögulegra minja eða ummerkja eftir veru fólks á svæðinu fyrrum.

Eldvörp

Mannvistarleifar í skúta í Eldvörpum.

Við leit í nágrenni “útilegumannahellis”, sem FERLIR fann fyrir ári, kom í ljós einn merkilegur fornleifafundurinn á Reykjanesskaganum; tvo heilleg hlaðin hús. Þá fannst hlaðið byrgi. Út frá því var hlaðinn garður. Allt var þetta þakið mosa og því erfitt að koma auga á það. Líklegt má telja að enn eigi eftir að finnast fornar minjar í hraununum ofan við Grindavík.
Haldið var stað frá borholinu í Eldvörpum. Þegar leggja átti í Brauðstíginn austan borholusvæðisins kom í ljós hlaðið lítið byrgi. Þakið hafði fallið niður. Út frá því var hlaðinn lágur garður. Hér gæti verið um leiðigarð fyrir tófu að ræða út frá bergvegg því þarna var lengi vel auðunnið greni. Byrið gæti því hafa verið skjól fyrir refaskyttu.

Eldvörp

Óraskað byrgi í Eldvörpum.

Þá var komið niður í “Tyrkjabyrgin svonefndu undir hraunbrún og inni í einum krika Sundvörðuhrauns. Í krikanum og upp á hraunöxlinni að sunnanverðu eru um tugur hlaðinna byrgja. Þau fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883. Gerður var uppdráttur af svæðinu.
Sumir segja að byrgi þessi hafi verið aðsetur útilegumanna, en aðrir segja að í þeim hafi fólk dulist um sinn eftir að Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627. Byrgin eru fremur lítil, aflöng og þröng. Eitt kringlótt byrgi er uppi á hraunbrúninni og önnur þar hjá. Ummerki eru eftir mannvistir í skútum talsvert vestar í Eldvörpum. Hlaðin refagildra er framan við syðstu byrgin.
Ef einhver eða einhverjir hafa viljað dyljast þarna um sinn væri það tiltölulega auðvelt. Fyrir ókunnuga er mjög erfitt að finna staðinn, auk þess sem hann fellur vel inn í landslagið. Þótt mosinn hafi sest á byrgin og hraunið í kring er líklegt að þau hafi engu að síður fallið vel inn í landslagsmyndina þá og þegar þau voru gerð.

Eldvörp

Byrgi í Eldvörpum.

Eftir að hafa skoðað mörg byrgi á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. ofan við Húsatóttir, í Strýthólahrauni, í Slokahrauni, austan við Ísólfsskála, á Selatöngum, við Herdísarvík og við gömlu Hafnabæina er að sjá sem margt sé líkt með þeim. Svipað lag er á þessum byrgjum og t.d. í Slokahrauni og við Herdísarvík. Því er ekki útilokað að byrgin undir Sundvörðuhrauni hafi um tíma verið ætlað eða þjónað þeim tilgangi að varsla þurrkaðan fisk eða annan varning frá hreppsstjórasetrinu Húsatóttum. Eitt helsta verkefni hreppsstjórans var fátækrahjálp og samtrygging ef eitthvað bar út af. Þarna gæti því hafa verið forðabúr hreppsins. Refagildran við byrgin, sem að öllum líkindum er jafngömul þeim, segir þó sína sögu. Ekki er víst að byrgin hafi verið mikið notuð. Líklega hefur staðsetningin þótt óhentug.

Eldvörp

Garður í Eldvörpum.

Byrgin í Sundvörðuhrauni fengu enn nýjan merkingamöguleika síðar í ferðinni. Ekki er ástæða er til að draga úr tilgátum manna um aðra notkun og tilgang, sbr. framangreint, enda má telja líklegt að fólk hafi dvalið, eða hafi ætlað að dvelja þarna í skjóli hraunsins, ekki síst í ljósi þess að mannvistarleifar hafa fundist þar á öðrum stöðum í nágrenninu.
Þá var haldið suðaustur eftir Brauðstígnum og honum fylgt að girðingu. Gengið var til suðurs með girðingunni, en með henni liggur slóði. Syðst við girðingarhornið var vent til austurs, inn í hrauni. Á loftmynd, sem skoðuð hafði verið, sást þar gróin lægð inni í hrauninu. Grunur var um að þar væri komið svonefnt Sauðabæli, sem getið er um á sumum kortum og í örnefnaskrá. Svæðið er algerlega utan gönguleiða og sennilega hafa fáir komið þarna inn í úfið og ógreiðfært hraunið í fjölda ára. Um er þó að ræða fallegt og aðgengilegt svæði. Í því er skjól fyrir öllum áttum. Stígur liggur upp í krikann og er hlaðið fyrir haft þar sem það er þrengst neðarlega í honum. Bendir það til þess að svæðið hafi einhvern tímann verið notað til einhvers og að öllum líkindum hefur það verið meira grasi gróið fyrrum, en nú er mosinn óðum að taka yfirhöndina. Að öllum líkindum er þarna um svonefndan Miðkrókakrika að ræða. Sauðbælin bíða því opinberunar.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Gengið var áfram til vesturs upp úfið og mosavaxið hraunið. Mosinn var frosinn svo ganngan var tiltölulega létt. Sunnan hraunrandarinnar liggur Prestastígurinn, gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Hafna. Á henni er m.a. gengið yfir fallega brúaða Hrafnagjá og eftir vel varðaðri götunni. Í úfnu hrauninu sást af og til móta fyrir stíg, sem einhvern tímann hefur verið farin.
Þegar komið var upp í Eldvarpagígaröðina var stefnan tekin til norðurs með henni vestanverðri uns komið var á svæðið þar sem hinn svonefndi “útilegumannahellir” fannst fyrir ári.
Jarðlægur einir teygði úr sér í brekku. Nóg er af honum í Eldvörpum. Einnig tófugras í hraunæðum og jarðföllum. Klepragíganir mynda svo til beina röð gíga og eru þeir hverjir öðrum stórbrotnari og fegurri. Þegar stigið er niður í hraunið undir gígunum brotnar það undan fótum, sem sýnir hversu lítið hefur verið farið um svæðið. Að mörgu leyti er það bæði ósnortið og óskoðað. Fallegar hraunæðar eru þarna víða sem og djúp jarðföll.
Í efri rás hellisins er steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin var mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, en hún var ekki skoðuð. Falleg rás. Niðri var góð hraunbóla og inni í henni mun meiri hleðslur. Hlaðið hafði verið fyrir op og framan við það var skeifulaga hleðsla. Bólan var um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Fulltrúi hellamanna skreið yfir fyrirhleðsluna. Þar er löng rás. Bein eru í rásinni. Eftir u.þ.b. 30 metra skiptist hún í tvennt og liggja báðir angar niður á við. Samtals er sá hluti rásarinnar, sem kannaður hefur verið, um 50 metrar. Endarnir eru enn ókannaðir.

Eldvörp

Við byrgin í Sundvörðuhrauni.

Rætt var um að eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær staðirnir voru notaðir. Ferðamálafulltrúi Grindavíkur, sem var með í ferð, glöggskyggn, stóð um stund og horfði yfir svæðið, leit upp og síðan niður. Þá gerðist það. Svo til undir fótum hans voru tvö heilleg hlaðin byrgi (hús) lík þeim sem eru í Sundvörðuhrauni. Þessi byrgi eru hins vegar alveg heil, mosavaxin að utan, og þunnar hraunhellur, sem notaðar hafa verið í þak, lágu á gólfi þeirra. Engin ummerki voru eftir mannaferðir í nágrenninu. Þarna gerðist það, sem gerist svo oft í FERLIRsferðum; tilgangi ferðarinnar var náð. Enn ein skrautfjöðurin í hatt Grindvíkinga og enn einn útivistarskoðunarmöguleikinn á Reykjanesskaganum hafa litið dagsins ljós. En fundurinn gefur einnig tilefni til íhugunar. Víðar kunna slíkar minjar að leynast og því þarf að fara varlega um svæðið með stórvirkar vinnuvélar.
Þegar Sundvörðuhraunsbyrgin uppgötvuðust árið 1872 þótti það merkilegt. Þessi fundur er litlu minna merkilegur, nú 134 árum síðar. Eftirleiðis verða þessi byrgi nefnd Eldvarpabyrgin. Yngsta Eldvarpahraunið í sunnanverðum Eldvörpum er frá því á 13. öld og er þetta að öllum líkindum í því. Um tilurð byrgjanna hafa “sérfræðingar” etið hver upp eftir öðrum, en í þeim efnum er ekki allt sem sýnist.

Loks var haldið yfir að “útilegumannahelli” vestan við borholuna í Eldvörpum. Hann er örstutt frá borholunni í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar. Til eru gamlar sagnir af Staðhverfingum er nýttu Eldvörpin til brauðgerðar. Bæði er að þarna hefur verið miklu mun meiri hiti fyrrum auk þess sem stígurinn í gegnum hraunið að þessum hluta Eldvarpa heitir Brauðstígur. Ummerki inni í hellinum benda og til brauðgerðar.
Loftlínumöstur Hitaveitu Suðurnesja rýrðu mjög annars hið stórbrotna útsýni frá Eldvörpunum til vesturs og norðurs.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Í Tyrkjabyrjunum

Áð við Tyrkjabyrgin.

Árnastígur

 Gengið var upp Árnastíg frá Húsatóftum og beygt inna á Brauðstíg skammt sunnan Sundvörðuhrauns. Stígnum var fylgt framhjá “Tyrkjabyrgjunum” svonefndu undir hraunkantinum, og yfir hraunið að Eldvörpum þar til komið var að helli í Eldvörpum. Þar er jafnvel talið að Grindvíkingar hafi bakað sitt braut fyrr á öldum. Mannvistarleifar eru í hellinum.

Brauðstígur

Brauðstígur.

Elstu heimildir um brauðgerð á Norðurlöndum komu í ljós við fornleifauppgröft á Austur-Gautlandi árið 1908. Brauðgerð og neysla virðist hafa verið fremur lítil á Íslandi langt fram á 18.öld ef treysta má heimildum eða réttara sagt heimildarskorti því að lítið er getið um slíkt. Korninnflutningur eða kornrækt virðist ekki hafa verið mikil, en það korn sem fékkst var notað til grautargerðar, ölgerðar og brauðgerðar að vissu marki. Það er líklegt að verkþekking og áhöld, sem snéru að meðferð korns til brauðgerðar, ölgerðar og grautargerðar, hafi flust með norskum landnámsmönnum til Íslands. í Noregi var hefð fyrir brauðgerð á landnámstíð og því ekki óvarlegt að ætla að slík hefð hefði skapast hér á landi þótt litlar heimildir séu til um slíkt. Brauðtegundir er ekkert vitað um en í Noregi voru bakaðar linar kökur og brauðhleifar sem voru með þykkar rendum og hvilft í miðju.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Brauðgerð er ein elsta iðja sem til er. Til eru heimildir um brauðgerð fyrir um 5000 árum síðan, bæði í hinni gömlu Babylon og einnig í Kína. Trúlega hefur þó brauðgerð hafist miklu fyrr eða tiltölulega skömmu eftir að menn fóru að nota korn fyrir fæðu, en það mun hafa gerst á mismunandi tíma á ýmsum stöðum á jörðinni.

Á átjándu öld mun fyrst hafa verið farið að gera lyft brauð hér á landi. Þau voru kölluð pottbrauð. Ekki voru til bakaraofnar á Íslandi eins og fyrr sagði en þess í stað notaðir járnpottar sem hvolft var yfir brauðið. Eins og við flatbrauðsgerð, var heit glóðin að lokinni eldamennsku sléttuð vel að ofan, járnplata lögð á og þar ofan á brauðið. Ofan á allt saman var svo hvolft stórum potti. Síðan var skarað að glóð upp með og ofan á pottinn og breidd yfir aska, moð eða afrak. Brauðið var látið seyðast í sex til tólf tíma. Einnig var pottbrauð bakað þannig að pottur var smurður innan með góðri feiti og deiginu þjappað þar í, hlemmur settur á eða öðrum potti hvolft yfir. Potturinn var grafinn ofan í glóðina, glóð sett upp með og yfir og byrgt vel með ösku.

Hveragerði

Rúslahver / Önnuhver í Hveragerði.

Víkingar munu hafa bakað þrennskonar brauð, þ.e. grófir brauðhleifar bakaðir í ösku, þunnar byggmjölskökur bakaðar á grjóthellu og höfðingjabrauð-hveitikökur bakaðar á skaftpönnu. Á Íslandi á 18. og 19. öld voru engir ofnar til að baka brauð í og því var hverahitinn kærkominn búbót. Hverabrauð eru þekkt hér á landi um allnokkrun tíma. Í stað þess að láta brauðið bakast í potti umvafinn hlóðarösku var hverahitinn notaður til bakstursins.
Brauðstígurinn er vel greinilegur og hefur greinilega verið mikið genginn. Hann liggur út frá Árnastíg skammt sunnan við suðvesturhorn Sundvörðuhrauns. Stígamótin eru merkt með vörðu og frá henni sést Brauðstígurinn liggja inn í hraunið til vesturs. Honum var fylgt framhjá þyrpingu lítilla byrgja í kvos undir hraunkantinum, en ekki er með fullu ljóst hvaða hlutverki þeim var ætlað.

Tyrkjabyrgi

“Tyrkjabyrgi”.

Menn hafa furðað sig á því hversu lítil þau eru, hvert fyrir sig. Sumir segja að þau hafi átt að notast ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný við Grindavík, aðrir að þar gætu útilegumenn hafa búið. Enn ein kenningin er sú að þarna gætu Grindvíkingar hafa bakað sín brauð fyrrum, enda yfirborðsjarðhitinn þá verið mun virkari en nú er. Ljóst er að hann hefur farið dvínandi í Eldvörpum og því skyldi hann ekki hafa gert það annars staðar á svæðinu?

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Brauðstígnum var fylgt áfram inn á Sundvörðuhraunið og yfir að Eldvörpum. Þar var farið í helli, sem fyrir eru hleðslur í. Enn er nokkur hiti í hellinum, en þó ólíkt því sem var fyrir einungis nokkrum árum síðan. Þá sást varla handaskil fyrir gufu, en nú fer lítið fyrir henni. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi Grindvíkingar (Staðhverfingar) bakað sín brauð fyrrum.
Til baka var gengið út á Prestastíg og honum fylgt niður að Húsatóftum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.akmus.is/frodleiksmolar.htm

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Tyrkjabyrgi

Björn Þorsteinsson skrifaði eftirfarandi um “Rústirnar í Grindavíkurhrauni” í Þjóðviljann og Nýja Tímann árið 1950:

Undarleg mannvirki
Í SundvörðuhrauniÁ síðara hluta síðustu aldar fundu menn óvænt mannvirki inni í miðju  Grindavíkurhrauni og ollu þau ýmsum nokkrum heilabrotum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og Þorvaldur Thoroddsen athuguðu þau báðir, og skrifuðu um þau, annar í Árbók fornleifafélagsins 1903, en hinn í, Andvara, en síðan hafa menn ekki veitt þessum fornleifum frekari eftirtekt, þangað til síðastliðið vor. Eins og kunnugt er ritaði Halldór Kiljan Laxness „Litla samantekt um útilegumenn” í Tímarit máls og Menningar 1949 og komst að þeirri niðurstöðu, “að útilegumenn hefðu sennilega aldrei verið til á Íslandi”, að Fjalla-Eyvindi undanskildum. Unnendum útilegumanna fannst Kiljan gerast ærið stórhöggur í þessari grein  og tala gálauslega um viðkvæmt málefni. Útilegumenn hafa þess vegna komizt aftur á dagskrá, og á næstu árum mun verða úr því skorið, hverju menn eiga að trúa í þessu efni.
Síðastliðið vor tóku nokkrir menn sig til og leituðu rústanna, sem Brynjólfur og Þorvaldur geta um, að séu í Grindavikurhrauni, ef vera kynni að þar leyndust augljós merki um útilegumannabyggð.Eftir árangurslausa ferð fundu þeir rústirnar að tilvísan oddvitans í Grindavík, og nú kom í Ijós, að sízt hafði verið frá þeim logið. Þessar tættur eru þær langmerkustu slnnar tegundar, sem fundizt hafa, og sumar þeirra svo kyndugar, að engum getum er hægt að leiða að því, til hvers þær hafa verið notaðar. Eitt af þessum furðuverkum er rúst, sem minnir einna helzt á skýlin á áfangastöðum strætisvagnanna. Þetta eru þrjár skeifulaga tættur, sem snúa göflunum saman, en um 120 gráðu horn myndast milli opanna. Uppi á hraunbrúninni er rúst af hringlöguðum hrauk, innanmál 75 sm. á lengd og 60 sm. á breidd, mesta hæð 122 sm. Þetta eru ein tvö af þeim tíu undarlegu mannvirkjum, sem þarna getur að líta, og munu margir spyrja, hvers konar fólk hafi verið hér að verki.

Varnir gegn Tyrkjum?

Í Sundvörðuhrauni

Í Ferðabók Þ. Thoroddsens, I. b. Khöfn 1913, bls. 174—’75 segir Þorvaldur frá þessum fundi sínum:
„Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun. Það er mjög nýlegt og fjarska illt yfirferðar. Hesti er ómögulegt að koma við og illfært gangandi manni. Hraunið er grátt af gamburmosa, en mjög lítill jurtagróður er þar annar. Í því skoðaði ég á einum stað gamlar mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna: á afskekktum stað i versta brunahrauni. Þar hefur líklega einhverntíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefur orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos á flötum hraunbletti og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan víðast einföld. Gjort hefur verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 15—18 fet á lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki. Hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennan kofa er hlaðin tóft djúp eins og tunnur. Þar fundum við hálfúna tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraun brúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því að á beim var nærri eins þykkt mosalag og hrauninu sjálfu.

Enginn veit neitt um þessa kofa. Þeir fundust af tilviljun 1872. Það er mjög ólíklegt, að hér hafi verið mannabyggð að staðaldri; líklegra er, að kofum þessum hafi verið hróflað upp til bráðabirgða á ófriðartímum, og að menn hafi flúið í hraunið úr Grindavík. Þar hefur oft verið agasamt. Englendingar og Þjóðverjar börðust þar 1532, og 1627 herjuðu Tyrkir á byggðina. Gamlar sagnir geta um stigamenn eða útilegumenn á Baðvöllum einhvers staðar nálægt Grindavík, en hvort rústirnar standa í nokkru sambandi við þá illvirkja er efasamt.”

Barnagarðar?

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur veit auðsæilega ekki hvað hann á að halda um þessi mannvirki, og sömu sögu er að segja um Brynjólf frá Minna-Núpi. Þegar hann fór að leita rústanna var Sæmundur bóndi Jónsson á Járngerðarstöðum, sá sem fylgdi Þorvaldi Thoroddsen um Grindavíkurhraun orðinn blindur. Fékk hann þá með sér tvo kunnuga menn, og leituðu þeir „nær heilan dag, en fundu ekki”. Með tilvísan hins blinda manns tókst þeim þó að finna rústirnar í annarri atrennu. Í Árbók fornleifafélagsins heldur Brynjólfur helzt, að tætturnar 3 í kvosinni „hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft svo lág, að veggirnir eru áð mestu mosa huldir. Það gæti verið niðurhrunin fjárrétt, en eigi bendir það þó til þess er Sæmundur sagði; að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni”. Brynjólfur fellst á, að þarna hafi verið gott fylgsni, ,,en ólíklegt er, að menn hafi getað dvalizt til lengdar á þessum stað. Þar hefur víst verið „á flestu góðu mesta óhægð”,” og bendir á, að þar hafi hvorki verið vatn né eldivið að fá. Kunnugir menn í Grindavík segja, að vatnsból sé sæmilegt í djúpri gjá sunnan við Eldvarpahraun um 20-30 mín. gang frá rústunum, en eldiviður hefur auðvitað verið enginn nema mosi. Brynjólfur bendir á, að sumar af tóftum þessum em svo smáar, „að það er eins og börn hafi byggt þær að gamni, og trúa mundi ég, að þetta væri allt saman eftir stálpuð börn, t. a. m. 10—14 ára gamla drengi, ef líklegt væri að þeir hefðu komið á þennan stað, en það sýnist mér ekki vera. Á vorum dögum mundu flestir drengir kjósa annað til skemmtunar en að leita leiksviðs í ófæru hrauni, og fyrrum hefur hraunið þó verið enn verra yfirferðar, er það var mosalaust og lítt saman sigið. Hafi drengir fyrri alda haft slíkar glæfraferðir og séu þessar menjar eftir þá, þá eru þær merkilegar fyrir þroskunarsögu vora, og þó þær séu eftir útilegumenn eru þær merkilegar, auk þess sem þær sýna eymdarstöðu slíkra manna og það þrek sem þurfti til að lifa í henni; þá sýna þær einnig það áræði, sem þrátt fyrir hættuna horfði ekki í að vera svo nærri mannabyggðum. „Karlmennskuhugurinn harði” lýsir sér á sinn hátt í hvoru tilfellinu sem er.”

Junkerar í Grindavík

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur og Brynjólfur vilja ekkert fullyrða um það, hverjir hafi staðið að húsagerðinni í Grindavíkurhrauni, en rústirnar benda ótvírætt til þess, að einihvern tima í fyrndinni hafi menn hafzt þar við. Skammt frá sjálfum tóftunum sér móta fyrir aðhaldi og lítilli rétt, en hverjir áttu að smala á þessum slöðum? Ef einhverjir óbótamenn óbótamenn hafa búið þarna, er harla ólíklegt, að einhver sögn um þá hefði ekki varðveizt, og nú vill svo vel til, að meðal Grindvíkinga hefur varðveizt saga um „útilegumenn” á Reykjanessskaga. Brynjólfur frá Minna-Núpi skrásetur þessa sögu, og er hún prentuð í Huld, H. b., útg. 1892, bls. 58-60.
Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn -— tólf eða átján — hafzt við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavik, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé, og vindur standi af landi. En junkarar reru heldur aldrei nema þar sem vindur stóð af landi, og þá er svo var hvasst að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir í landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn því illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar. Og þó að að menn kæmist í gerði þeirra, þá er þeir voru ekki við, þorðu menn eigi að láta junkara sjá þess merki, þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmissa bragða til þess. Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en júnkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björguðust svo til lands. Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu, þá er í land skyldi róa, því að þá var mótvindi. Þá reru junkarar við hné sér til lands. Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru junkarar, er vindur stóð af landi, en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig: Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi junkarar verið af dögum ráðnir.
Þessari sögu fylgir skýringarklausa frá Brynjólfi á Minna-Núpi: “Þessi munnmæli voru mér sögð í Grindavík 1861. En seinna hefur mér dottið í hug, að þessi sögn kunni að standa í sambandi við tóftarústir þær, er sjómenn frá Húsatóftum í Grindavík — einn af þeim var Guðmundur, bróðir minn — fundu veturinn 1872 norðan í Sundvörðuhrauninu, þar sem á stóru svæði er hvergi stingandi strá strá, og engin umferð af mönnum né skepnum, enda hafði þá enginn heyrt þeirra rústa getið áður. Þorvaldur Thoroddsen fann þær líka, er hann rannsakaði Rekjanesskagann, og áleit eins og hinir, að þar hefði verið mannahýbýli”.

Vafasamt junkaragerði
Junkaragerði ofan við Stóru-Bót í GrindavíkÞetta er eina sögnin, sem hægt er að tengja við tóftirnar í Sundvörðuhrauni, en hún hefur á sér ýmis einkenni góðrar þjóðsögu. Junkararnir eru 12 eða 18, en talan 18 er algeng í þjóðsögum um líkt efni. Í Grindavík lifði einnig saga um 15 þjófa í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli en hún er farandsögn, sem ekkert á skylt við þessar rústir. Þrjár tilraunir eru gerðar til að ráða junkarana af dögum, og heppnast síðasta tilraunin, en slík efnisatriði eru einkenni allra góðra þjóðsagna.
Sannfræði þessarar sögu er því býsna vafasöm, en engu að síður standa rústirnar í Sundvörðuhrauni sem óbrotgjarnt vitni þess, að þar hafa menn verið að verki og sennilega dvalizt einhvern tima. Ef bófaflokkur hefur haft þar bækistöð sína ætti að finnast einhver urmull af beinum eða öðrum úrgangi þar í grendinni, en þess sér engin merki. Útilegumannadýrkendur benda þó rétti lega á, að tætturnar séu mjög gamlar, því að þær eru huldar þykku mosalagi. Fangamark útilegumanna getur því birzt einn góðan veðurdag undir mosalaginu.
Það er eftirtektarvert við rústirnar, að byggingarlag þeirra bendir til þess, að það sé miðað við þá möguleika, sem hraunhellurnar í nágrenninu skópu byggingameisturunum. Stærstu hraunhellurnar eru um 90 sm. á lengd, en tætturnar eru frá því um 50 sm til 80 sm. á breidd nema ein. Hún er um 150 sm., þar sem hún er breiðust. Þar hefur þó verið hlaðinn milliveggur, svo að þakhellurnar hafa ekki þurft að vera nema um 80 sm. til þess að ná milli veggja, Ef hér er um mannabústaði að ræða, þá er enginn öfundsverður af því að hafa hafzt þarna við.  Mér er ókunnugt, að orðið junkari komi fyrir annars staðar í þjóðsögum. Orðið kemur inn inn í íslenzkuna á ofanverðum miðöldum og er þá oft skrifað jungkæri, og bæjarnafnið Junkaragerði er skrifað Junkæragerði í Jarðabók Árna Magnússonar. Orðið jungkæri var notað um yngissveina af tignum ættum, en hefur festst t. a. m. í Þýzkalandi við landeigendaaðalinn. Inn í íslenzkuna er orðið auðvitað komið úr þýzku eða dönsku, en Þjóðverjar höfðu miklar bækistöðvar á þessum slóðum á 16. öld. Það er dálítið kátbroslegt, að tignarheiti! einnar illræmdustu landeigendastéttar Evrópu skuli tengt við kot eitt suður í Höfnum og þjóðsögn um kvennagull, sem eiga að hafa búið á óbyggðum Reykjanesskaga.

Heimildir m.a.:
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Þjóðviljinn 3. september 1950, bls. 5 og 7.
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Nýi Tíminn 28. september 1950, bls. 3 og 6.

Tyrkjabyrgi - uppdrattur

Eldvörp

Margir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum.

Fiskgeymsluhús á Selatöngum

Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.
Á  þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum. Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.

Fiskgeymsluhús í Sundvörðuhrauni

Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.
Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. 

Fiskgeymslur í Sundvörðuhrauni - flugmynd

Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurkkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Fiskbyrgi við EldvörpOg þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum. Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þegar verslunin færðist að Básendum er verslunin færðist frá Grindavík árið 1639.  Þær geymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta.

Skjól fiskivarða við Eldvörp

Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum. Ástæðan er tvíþætt; annars vegar eru þau yngri og auk þess hafa þau gleymst eftir að notkun þeirra lauk um 1800 eða skömmu eftir Básendaflóðið mikla 1799. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.
Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til að sömu stærð, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um varningin, sléttar þunnr hellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast matvöruna í byrgjunum. Vakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt frá geymslunum.

Áhugi

Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin rannsóknarvettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).
Auðvitað er ávallt “leiðinlegt” að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan “Tyrkunum” í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur.
Líklegast má þó telja, þrátt fyrir að hver hafi apað upp eftir öðrum hingað til, að umrædd byrgi hafi þjónað öðrum tilgangi en hingað til hefur þótt sagnakennt.
Sjá meira um byrgin HÉR og HÉR.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

 

Portfolio Items