Færslur

Tyrkjahellir

Heimamönnum var mætt við sundlaugina og gengið þaðan undir leiðsögn þeirra austur með Stamphólsgjá.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir.

Að sögn Erlings Einarssonar mun gjáin áður fyrr hafa náð svo til upp í gegnum Járngerðarstaðahverfið. Hún hafi verið fyllt meira og minna, enda komin undir íbúðarbyggð, en áður fyrr hafi hún verið með þaki hluta leiðarinnar. Í botni gjárinnar hafi verið vatn á köflum. Skoðað var gat efst í gjánni. Þar niðri er hægt að komast niður í hana og eftir henni, bæði til vesturs og austurs. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindavíkurhellir hafi verið í Stamhólsgjá, jafnvel þarna sem gatið er núna. Það verður kannað betur síðar. Tiltölulega auðvelt er að komast þarna niður með aðstoð bands, en rusl hefur safnast fyrir á botninum og við opið.

Frá gjánni var gengið upp á Hópsheiðina eftir hluta Skipsstígs, sem leggur frá Njarðvíkum til Grindavíkur. Þarna er leiðin austur að Þórkötlustöðum. Tvær fallnar vörður á er á þessum kafla, austan og ofan við íþróttasvæðið.

Stamphólsgjá

Grindavíkurhellir í Stamphólsgjá.

Skammt sunnar kemur stígurinn inn á Skógfellaveginn, sem liggur að Vogum. Honum var fylgt spölkorn til norðurs og síðan beygt af honum til austurs að Hópsvörðunni, stóra og mikla vörðu efst á heiðinni. Hún hefur augsýnilega verið mið inn í Hópið því hún er í beina línu við Hópsvörðurnar austan og suðaustan við Hóp. Haldið var áfram upp á Vatnsheiði. Á heiðinni eru a.m.k. þrjár hæðir (dyngjur). Úr þeim rann hraunið, sem myndaði Hópsnesið og Þórkötlustaðanesið auk hraunanna austan Grindavíkur. Uppi á syðstu hæðinni er gat ofan í jörðina, um 12 metra djúpt. Það varð til er Catepillar 9 jarðýtu var ekið þarna vestur yfir hæðina. Ökumaðurinn fann að hún var farin að síga ískyggilega að aftan svo hann jók hraðann. Fyrir aftan jarðýtuna myndaðist gatið. Þarna er nú gjallgígop, nefnt Nían eða K-9. Niður í gígnum má sjá hraunrás liggja úr honum til vesturs.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (á Efri-hellu).

Austan í hæðinni var leitað að kvarnarsteini, sem þar átti að vera. Grindvíkingar munu hafa hoggið sína kvarnasteina þarna áður fyrr, en brotnað hafði úr þessum þegar verið var að gera miðjugatið. Brotið fannst, en ekki það sem eftir var af steininum.
Þá var haldið niður að Húshelli vestan Húsafjalls. Erfitt er að finna opið á hellinum, enda ætluðu Grindvíkingar að flýja þangað ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný í þorpinu. Eftir það mun hellirinn fallið í gleymsku og týnst. Norðaustan við opið er hlaðið byrgi. Hægt er að ganga í gegnum hellinn, þ.e. fara ofan í hann á einum stað og upp úr honum á öðrum. Hellirinn er u.þ.b. 30 metra langur. Hann er ekki hár, en í honum hafa verið pláss fyrir mörg bæli. Sandur hefur fokið niður í hellinn, en talsvert landrof er allt í kring.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason vísaði FERLIRsfélög á gildruna.

Haldið var niður í hraunið vestan Hrauns. Þar, skammt ofan Sanddals, er all sérstök refagildra, hlaðin krossgildra, þ.e. með fjórum inngöngum. Sigurður Gíslason á Hrauni sýndi FERLIR gildru þessa fyrir nokkrum misserum síðan. Þegar gengið var niður Sanddalinn rak einn þátttakenda augun í gamla hleðslu. Við nánari skoðun reyndist það vera gömul refagildra, sú 23. sem FERLIR skoðar á Reykjanesi. Haldið var yfir í gömlu garðana vestan Hrauns með viðkomu í Guðbjargarhelli. Í hann flýði Guðbjörg á Hrauni jafnan fyrr á öldum er hún vildi fá að vera í friði. Erfitt er að finna hellinn, en Sigurður Gíslason hafði áður sýnt FERLIR hann eftir nokkra leit á sínum tíma. Nú var hægt að ganga að opi hans vísu.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Tekið var hús á Sigurði og síðan gengið þaðan með ströndinni yfir í Slokahraun. Í hrauninu eru langir herðslugarðar og heilleg fiskibyrgi, líkt og á Selatöngum og austan við Ísólfsskála. Litið var á Sögurnarhól, en á honum var rekaviður sagaður fyrrum. Þaðan var haldið yfir að Hraunkoti, fallegu bæjarstæði austast í Þórkötlustaðahverfi. Mjög vel hlaðin heimtröð ásamt verklegum hleðslum eru þar allt í kring. Gömlu steingarðanir standa enn.
Tekið var hús á Stakkavíkurfólkinu í Buðlungu og Buðlunguvörin síðan skoðuð. Þá var leitað að dys Þórkötlu, en sagan segir að hún hafi mælt svo fyrir að hún yrði dysjuð þar sem hún sæi út yfir Þórkötlustaðarbótina. Ólafur Gamalíasson vísaði hópnum á dysina, en hún er í túninu austan við Hof.
Frábært veður.

Tyrkjahellir

Op Tyrkjahellis ofan Hrauns.