Þorpsmyndun hófst í Hveragerði árið 1929, Hveragerðishreppur var stofnaður 1946 og varð bæjarfélag 1987. Í árslok 2021 eru íbúar Hveragerðisbæjar 2.982.
Hveragerði byggðist í landi Vorsabæjar í Ölfusi en nafnið var upphaflega á hverasvæði því sem er í bænum miðjum, sunnan og vestan kirkjunnar. Hveragerði er fyrst skráð í Fitjaannál laust fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í landskjálftum 1597. Af lýsingu Ölfushrepps árið 1703 eftir Hálfdan Jónsson lögréttumann á Reykjum má ætla að hverir hafi þá verið nýttir til baða, suðu og þvotta. Enn kemur Hveragerði við sögu árið 1844 þegar ákveðið var að flytja lögréttir Ölfusinga frá Hvammi í Borgarheiði við Hveragerði. Fyrsta tilraun til þurrabúðarlífs í Hveragerði tengist byggingu ullarverksmiðju við Reykjafoss í Varmá árið 1902. Vatnshjól og reimdrif knúðu vélar hennar og árið 1906 var sett upp lítil vatnsknúin rafstöð til ljósa og gatan að þjóðvegi við Ölfusréttir upplýst ári síðar, fyrsta götulýsing í dreifbýli á Íslandi.
Reykjafossverksmiðjan var rekin til 1912 og árið 1915 var hún rifin nema grunnurinn sem enn sést.
Samvinnufélag um Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað 1928, 45 ha lands keyptir og var hverasvæðið þar í. Mjólkurstöðvarhús var byggt sumarið 1929 (Breiðumörk 26) og sama sumar risu tvö fyrstu íbúðarhúsin, Varmahlíð og sumarhús í Fagrahvammi þar sem ylrækt hófst í Hveragerði.
Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss í Varmá í Hveragerði á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjan var reist til þess að vinna afurðir úr íslenskri ull og var tilraun til þess að auka arðsemi ullarinnar og íslensks landbúnaðar. Ullarverksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar en einnig vegna þess að Varmá frýs aldrei, sem var mikilsvert fyrir verksmiðju sem átti að starfa allan ársins hring. Framleiðslan gekk þó ekki eins vel og vonir höfðu staðið til en lopi, sem var aðalframleiðsluvaran, þótti ekki henta nógu vel til tóskapar. Þann tíma sem fyrirtækið starfaði var því fremur haldið uppi af framfararhug og góðum vilja manna úr héraðinu en fjárhagslegri getu. Fór svo að lokum að verksmiðjan varð gjaldþrota og var húsið rifið í maí 1915 og selt á uppboði ásamt vélum.
Með ullarverksmiðjunni bárust jafnframt ýmsar nýjungar sem ekki höfðu áður sést í sveitum austan fjalls. Árið 1906 var tekin í notkun lítil vatnsaflsrafstöð til lýsingar og árið eftir var sett upp götulýsing frá heimreiðinni og út að þjóðveginum við gömlu Ölfusréttir.
Fjölbreytilegar tilraunir til nýtingar jarðvarma í atvinnurekstri einkenna sögu Hveragerðis. Jarðhitasvæði í miðjum bænum og næsta nágrenni skapa Hveragerði sérstöðu meðal þéttbýla á Íslandi og þó víðar væri leitað.
Heimildir:
-https://www.hveragerdi.is/is/mannlif/hveragerdisbaer/saga-hveragerdisbaejar
-https://www.facebook.com/HveragerdiSightseeing/photos/ullarverksmi%C3%B0jan-reykjafoss-var-starfr%C3%A6kt-vi%C3%B0-samnefndan-foss-%C3%AD-varm%C3%A1-%C3%AD-hverager/1607717886034702/