Gengið var niður að gígnum í Hrútagjárdyngju frá Djúpavatnsvegi (Undirhlíðaleið), yfir Hrútagjá og gamalli götu fylgt niður (norður) slétt mosagróið helluhraun austan við úfin hraunkant uns komið var Dyngjugrenjunum nyrst í brúninni áður en hraunið lækkaði til norðurs, í átt að Stóru-Sauðabrekku. Milli hans og brekkunnar eru Sauðabrekkuhellarnir sagðir vera, nokkrir hellar í stórum hraunbólum. Í örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík eru þeir nefndir Moshellar.
Nefnt Sauðabrekkuskjól er í Sauðabrekkum, en einungis FERLIR hefur hingað til tekist að staðsetja það [2001]. Að hellunum liggja götur úr þremur áttum. Einni þeirra var fylgt til austurs uns komið var að Skjólinu, fallegu sæluhúsi í mjórri hraunræmu í annars grónu hrauninu. Lítil varða er skammt norðan við sæluhúsið. Þá var haldið upp í Hrútagjárhella og síðan til baka um nyrstu Hrútagjárhrauntröðina, upp í þá austustu og áfram að upphafsstað.
Undirhlíðaleið hefst við Kaldársel og liggur norðan Undirhlíða yfir Bláfjallaveg að vatnsskarði. Þar er farið yfir Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Ketilsstígur liggur yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni að Seltúni og þar taka heimalönd Krýsuvíkur við.
Þegar komið var yfir fyrstu stóru sprunguna efst í Hrútagjá tók við tiltölulega slétt hraun vestan við austurtröð dyngjunnar. þegar komið var að enda hennar blasti dyngjuopið við. Það er hringlaga og reglulegt. Ljóst er að hraunið hefur bullað og kraumað í gígnum eftir að eiginlegu hraungosi lauk.
Hrauntaumurinn í austurtröðinni hefur runnið til baka í átt að gígnum og hraðkólnandi apalhraun hefur hrúgast upp norðan gígsins. Þegar staðið er á brún “hrúgaldsins” er horft yfir slétt hellurhraunið norðan af því. Það hraun hefur runnið áður og er dæmigert dyngjuhraun. Sérkennileg hrauntota kemur úr suðri, frá Mávahlíðahnúk, þar sem hraunið er allt markbrotið í hellur þvers og kruss. Svo virðsit sem hraun hafi náð aðskríða undir hið elda og brotið það upp á kafla. Norðan og austan viðþað er slétt og greiðfært helluhraunið.
Gömul gata liggur norður hraunið með stefnu á brúna yfir Sauðabrekkugjá sunnan við Stóru-Sauðabrekkur. Hún stefnir beint á Dyngjugrenin. Þau eru í hraunæðum fremst í brúninni. Varða er við grenin þar sem skjól refaskyttunar hefur verið. Frá því er gott útsýni yfir hraunbreiðuna neðanverða, milli brúnarinnar og Stóru-Sauðabrekkna.
Stutt er yfir að Sauðabrekkuhellum, en svo nefnast nokkrir hraunhellar sunnan Stóru-Sauðabrekku. Þar á meðal er Sauðabrekkuskjól, sem smalar Hraunamanna nýttu fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Hellarnir eru fallegar, bjartar og rúmgóða hraunbólur. Ein er sýnum stærst; Sauðabrekkuskjólið. Op þess nýr til austurs. Það hefur rúmað góðan fjárhóp, auk þess sem innan þess er hið ágætasta mannaskjól. norðaustan við skjólið er falleg hraunbóla. Einnig á gjárbarmi norðan þess. Austan skjólsins er hægt að ganga niður um sprunguenda og er þá komið inn í dimmara skjól, en rúmgott. Best er að finna hella þessa með því að koma að þeim úr suðri, líkt og nú var gert.
Sauðabrekkuskjólið sást vel á loftmynd, sem var meðferðis.
Götu var fylgt til austurs frá hellunum. Var þá, eftir stutta göngu, komið að Skjólinu, gömlu sæluhúsi nálægt Hrauntungustíg. Gengið hefur verið vel um Skjólið. Það er opið til suðurs. Hleðslur hafa verið við opið, en þær eru nú að mestu fallnar niður í það. Einhverju sinni fyrrum hefur meri orðið úti eða endað lífdaga skammt frá skjólinu. Sjá má enn þann hluta beinagrindarinnar, sem refurinn hefur ekki hirt.
Haldið var áfram upp í Hrútagjárhella. Hellarnir er samheiti fjölda hella sem eru í nokkrum hraunrásum vestan við Fjallið eina. Þetta er spennandi hellasvæði, en rétt er að fara varlega því víða leynast sprungur og glufur í hrauninu. Margir hellar eru í hrauninu og sumir þeirra alllangir. Sjá má hvar opnar hafa verið rásir og má fylgja sumum þeirra langar leiðir inn undir hraunið.
Hrútagjárdyngja er í rauninni heimur út af fyrir sig með sínum stórkostlegu hrauntröðum, hrikalegu gjám og upplyftingum á jöðrum meginsvæðisins. Talið er að dyngjan hafi gosið fyrir u,þ.b. 5000 árum. Hún er því með yngstu dyngjunum á Reykjanesskaganum.
Í Hrútadyngjuhrauni er margir hellar. Í ferðinni var m.a. kíkt á Neyðarútgöngudyrahelli. Steinbogahelli eða Hellin eina, Langahelli, Aðventuna, Húshelli, Híðið og fleiri, sem ekki hafa enn fengið nöfn.
Hraun frá dyngunni hafa runnið frá Hvaleyrarholti vestur í Vatnsleysuvík og austur að Undirhlíðum og niður í Sandfellskola. Til suðurs hafa einnig runnið hraun frá dyngjunni, nú að mestu þakin yngri hraunum. Jón Jónsson telur lágmarksútbreiðslu hraunsins ekki undir 80 ferkílómetrum og rúmmálið um 3,2 rúmkílómetra.
Sumir hellanna eru yfir 100 metra langir. Híðið er a.m.k. 500 m að lengd. Í honum er viðkvæmar dropsteinamyndanir og sumir allháir. Hellirinn eini er um 170 metrar, en hann er víða lágur er innar dregur. Í Húshelli, sem fannst 1988, er hlaðið skjól. Það er fallegt og greinilega gamalt.
Gengið var upp í norðurtröð Hrútagjárdyngju og henni fylgt til suðurs. Leiðin er greiðfær. Í fyrstu liggur hún um helluhraun, en ofar liggur hún um gróna rás. Þá var komið að eystri hrauntröðinni. Gengið var niður í hana norðanverða og henni síðan fylgt til suðurs. Hrauntröðin er tvískipt að austanverðu, en hún hefur rúmað mikla hrauná þegar atgangurinn var hvað mestur.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.