Tag Archive for: Urriðaholt

Urriðakot

Í Fornleifaskráningu fyrir Garðabæ árið 2009 má m.a. sá eftirfarandi um Urriðakot, sem var fyrrum í Garðabæ:

Ural shot

Urridakot –  Túnakort 1918.

„Bærinn stóð suðvestan í Urriðakotsholti norðaustan við Urriðakotsvatn. Bærinn stóð nálægt miðju túninu“, segir í örnefnaskrá SP. Á túnakorti 1918 sést Urriðakot í miðju túni og samanstendur úr sjö sambyggðum húsum. Þar af sýnast tvö þau suðvestustu vera úr torfi en tvö þau norðaustustu úr steini og gengur aftur af þeim minna torfhús. Tvö hús eru auk þess sýnd sem opnar tóftir. Stefnan er norðvestur-suðaustur. Skv. Fasteignabók var þarna komið timburhús með vatnsveitu árið 1932 (bls. 23). Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Bærinn stóð austur og upp frá Urriðavatni, við það kennt (…) því sem næst í miðju túni.“ (Uk. A20/Bt. B443). Í örnefnalýsingu 1988 segir:

Ural shot

Urridakot.

„Urriðakot er jörð í Garðabæ. Bærinn stóð suðvestan í Urriðakotsholti, norðaustan við Urriðakotsvatn. Bærinn stóð nálægt miðju túninu.“
„Túnið lá í halla í holtinu.“ segir í Fornleifaskráningu RT og RKT.
Á bæjarhólnum í dag eru leifar af yngsta bænum frá miðri síðustu öld en Urriðakot fór í eyði 1958. Grunnarnir af húsunum eru allir mjög greinilegir. Það eru háir steyptir veggir sem enn standa og bárujárnsleifar inni í tóftunum. Það er sennilegast að bærinn hafi alltaf staðið á núverandi bæjarstæði.
Bæjarhóllinn er nokkuð hár og breiður og hægt er að sjá á vettvangi að hóllinn er manngerður. Það er því nokkuð öruggt að undir yngstu húsunum er að finna mannvistarleifar,“ segir í Fornleifaskráningu RT og RKT.

Ural shot

Urriðakot – kort 1908. Götur til norðurs og vesturs eru merktar.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt ferningslaga útihús skammt (ca 6 m) suðvestan við bæjarhúsin. „Tóftin orðin mjög sokkin en sést þó enn á vettvangi“, segir í fornleifaskrá RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús skammt vestur af syðsta bæjarhúsinu. Útihúsið virðist vera um 4 m vestur af bæjarhúsunum og 2 m norður af útihúsi. „Þessar tóftir eru orðnar sokknar og sjá má móta fyrir grjóthlöðnum undirstöðum“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 110 m suðvestur af bæjarhúsum Urriðakots. „Hún (tóftin) er aflöng úr torfi og hefur stefnuna norður-suður… Leifar af grjóthlöðnum undirstöðum af útihúsinu fundust á vettvangi, tóftin er 11 m á lengd og 2,5 m á breidd. Líklega hefur grjót út túninu verið sett í útihúsið eftir að það var rúst. Stór steinn er við suður endann,“ segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 140 m SSV af bæjarhúsum Urriðakots og fast vestan við kálgarð.
„Ekki sáust nein merki um þessa tóft en leifar af kálgarðinum sáust óljóst á vettvangi, en mun betur á loftmyndinni“, segir í Fornleifaskrá RT og RTK

Urriðakot 1958

Urriðavatn og Urriðakot 1958 – loftmynd. Túngarður, bæjarhús og útihús sjást vel.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 90 m suður af bæjarhúsum Urriðakots og um 20 m suðvestur af útihúsi. „Á túnakorti 1918 er ferhyrningslaga torfhús neðan við ærhús …líklega lambhús sem nefnt er í Örnefnalýsingu 1988: „Túnið austan traðanna …var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð og lambhúsið neðar““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Tóftin af lambhúsinu snýr í N-S og er inngangur að norðan. Hefur hún verið grjót- og torfhlaðin, lengd um 11 m og breidd 9. Hleðsluhæð frá 20 cm til 50 cm. Rústin er töluvert sokkin í sinu“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Urriðakot

Urriðakot og Camp Russel, neðst t.h, 1958 – loftmynd.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús rúma 60 m suður af bæjarhúsum Urriðakots og um 20 m norðaustur af lambhúsi. „Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Túnið austan traðanna …var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð og lambhúsið neðar.“…Fjárhúsin má líklega sjá á túnakorti 1918 en þar eru tvö hús í túninu austan traðar…annað, væntanlega ærhúsið, uppi við túngarð …en hitt nokkru neðar“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

„Á Túnakortinu er ærhúsið byggt úr torfi, tvískipt með stefnuna norður-suður. Fjárhúsin sem við skráðum á vettvangi eru sennilega byggð ofan á eldri útihúsum. Húsgrunnurinn sem stendur enn er steyptur og má sjá leifar af bárujárnsplötu í tóftinni, þó eru líka leifar af torf og grjóthleðslu í hluta rústinni, sem eru merki um eldra hús. Við suðurenda hefur verið hlaða og í sjálfu fjárhúsinu má sjá garð og steypt fjárbað“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Urriðakot

Urriðakot.

„Suður frá bænum lágu traðir, hlaðnar úr torfi og grjóti. Traðirnar svo sléttaðar út 1918. Í eystri traðarveggnum var stór steinn, sem ekki var hreyfður, þegar traðirnar voru sléttaðar“, segir í örnefnaskrá SP. „Á Túnakorti 1918 má sjá traðir sem liggja frá bænum suðvestur um túnið. Þetta eru líklega Suðurtraðir sem svo eru nefndar í Örnefnaskrá 1964, „traðir með tveimur görðum“ sem lágu „frá bæ niður undir Dýjakrók“ Suðurtraðarhlið hét svo hliðið “ þar sem saman komu garðar traða og túns““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Það má sjá fyrir hvar traðirnar lágu en þær voru sléttaðar út og því horfnar að mestu leyti“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK. Ekki sást til traðanna við vettvangsskráningu.

Urriðakot

Urriðakot.

„Urriðakotsbærinn stóð í Urriðakotstúni, nær miðju. Umhverfis túnið var Urriðakotstúngarður, hlaðinn af torfi og grjóti. Suðurtúngarður sunnan að túninu. Austurtúngarður að ofan og Vesturtúngarður vestan“, segir í örnefnaskrá GS. „Túnið austan traðanna var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð, og lambhús neðar“, segir í örnefnaskrá SP. „Á Túnakorti 1918 má sjá að túngarður liggur kringum túnið að sunnan, austan og norðan. Í Fasteignabók 1932 kemur fram að algirt var í kringum Urriðakot með túngarði og girðingu…Örnefnaskrá 1964 ber hins vegar saman við Túnakortið: „Urriðakotstúngarður: garður af torfi og grjóti umhverfis túnið, að norðan, austan og ofan og sunnan, allt niður í Dýjamýri““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Túngarðurinn er ágætlega varðveittur og er auðvelt að rekja hann allan eins og hann er á túnakortinu frá 1918. Sést vel að garðurinn er hlaðinn úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er frá 30 cm og allt að 1 metra. Hann hefur þó á stöku stað sokkið töluvert en með góðu móti væri hægt að varðveita hann allan og lagfæra þar sem hann er lægstur. Það er ekki ólíklegt að garðurinn sé í grunninn frá elstu tíð“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK

Urriðakot

Urriðakot.

„Ofan (norðaustan) bæjarins var Uppitúnið. Þar alveg við túngarðinn, beint upp af bænum, var fjárrétt, sem síðast var notuð u.þ.b. 1934-35“, segir í örnefnaskrá SP. Aðhaldið er fast austan við túngarðinn, upp af bæjarrústum Urriðakots.
Umhverfis aðhaldið er grasigróið þýfi, en austar og ofar í holtinu er mest megnis lyng. Búið er að ryðja veg þvert yfir Urriðakotsholt frá norðri til suðurs að Elliðavatnsvegi og liggur vegur þessi rúmlega 50 m austur af aðhaldinu.
Aðhaldið er hlaðið úr grjóti, grónu skófum og nokkrum mosa og er vesturveggur þess hluti af túngarði Urriðakots. Utanmál er um 12×6 m og snýr aðhaldið N-S. Um 2 m breiður inngangur er að sunnan. Fremur stórt grjót er í hleðslunum og þær virðast vera nokkuð tilgengnar, nema að garðurinn hafi í upphafi ekki verið vandlega hlaðinn. Mest er hægt að greina 5 umför og hæstar eru hleðslurnar um 1 m og rúmlega 1 m breiðar.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt gata sem liggur frá norðurmörkum túns, suður að bæjarhúsum. „Nyrst í túninu var slétta, sem kölluð var Kinn, en niður af henni úti undir garði var laut, sem kölluð var Snorralaut…Rétt fyrir neðan Snorralaut lá gata frá bænum norðvestur úr túninu“, segir í örnefnaskrá SP.
Gamalt tún, vaxið þykkri sinu og byrjað að þýfast.

Urriðakot

Urriðakot – uppdrátur.

„Neðan við traðirnar í mýrarjaðrinum rétt utan við túnið var brunnurinn, en leiðin frá brunninum til bæjar lá um traðirnar. Frá brunninum liggur Brunnrásin eftir mýrinni út í vatnið“, segir í örnefnaskrá SP.
„Niðurflöt var slétta kölluð ofan frá bæ niður að vatni sunnan við Hólmana. Neðst í Niðurflötinni var Brunnurinn, vel upphlaðinn brunnur“ segir í örnefnaskrá GS. Samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, hefur brunnurinn líklega verið við NA-verðan jaðar Dýjamýrar við enda Brunnrásarinnar, sem þaðan liggur í kræklóttum farvegi til NNV í Urriðavatn.
Brunnrásin er við gróna mýri og er þýft allt í kring. Í SSA-endanum er Brunnrásin breiðari en nær Urriðakotsvatni og myndar smá poll, um 2×1 m að stærð, sem er hinn gamli brunnur. Þar er að finna nokkuð af meðalstóru grjóti sem gæti verið ættað úr fallinni hleðslu. Grjótið er þó mjög tilgengið og yfirgróið.

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

„Mýrin sunnan við túnið heitir Dýjamýri. Ofan við veginn rétt fyrir sunnan túnið er Grjótréttin, rústir gamallar réttar, sem móðir mín veit ekki, hvenær hætt var að nota“, segir í örnefnaskrá SP. „Úr Suðurtraðarhliði lá Urriðakotsstígurinn. Ofanvert við hann mýrarblettur, nefndist Hlandpollur, og þar fyrir ofan Grjótrétt, rústir gamallar réttar. En suður af var Dýjakrókshóll“, segir í Örnefnaskrá GS. Heimildamaður, Svanur Pálsson man ekki eftir að hafa séð þessa rétt, en hún mun hafa verið sunnan túns og norðan Elliðavatnsvegar. Þar er nú grasi gróið þýfi.
Ekki sást til réttarinnar við vettvangsathugun, kann að vera að hún hafi verið rifin og grjótið nýtt í önnur mannvirki, t.d. er nokkuð um mannvirki úr seinni heimsstyrjöld í næsta nágrenni.

Urriðakot

Urriðakot – ábúendur.

„Í austurhorni Dýjamýrar eru uppsprettur undan holtinu, og kallast það svæði Dýjakrókar. Ofan við Dýjakróka er lítill hóll, Dýjakrókarhóll. Í hólnum var talið búa huldufólk og sá afi minn, Guðmundur Jónsson bóndi í Urriðakoti, konu, sem hann þekkti ekki sækja vatn í fötum í Dýjakróka snemma á þessari öld“, segir í örnefnaskrá SP. Dýjakrókahóll er syðst í Urriðakotshlíð, skammt norðan Elliðvatnsvegar, sunnan túns og austan innkeyrslu að Urriðakoti. Umhverfis hólinn er gróið, en nokkuð mikið stórgrýti stingst gegnum gras, lyng og mosa á hólnum.

Urriðavatn

Urriðavatn – Dýjakrókahóll fyrir miðju.

„Frá Urriðakoti lá Gjáarréttargata upp Dýjakrókaflöt, norðan við Dýjakrókarhól og upp á Urriðakotsháls, venjulega stytt í Háls … Um Urriðakotsháls liggur nú bílvegur, sem venjulega er kallaður Flóttavegur eða Flóttamannavegur. Hann liggur milli Hafnafjarðar og Suðurlandsvegar og var lagður af bretum á Stríðsárunum. … Hið opinbera nafn hans á vegamerkjum er Elliðavatnsvegur, en einnig er hann nefndur Vatnsendavegur…Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. … Örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir. Sauðhellirinn er norðan við vörðu við Gjáaréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingjum í Vífilsstaðalandi“, segir í örnefnaskrá Urriðakots SP. „Þá lá hér undir Hraunhólnum Gjáarréttarstígur og síðan norðan hraunbrúnarinnar, fyrst um Maríuflöt eða Maríuvelli undir Hlíðarhorninu og síðan inn eftir lægð milli Vífilsstaðahlíðar og hraunsins,“ segir í örnefnaskrá Vífilsstaða GS.

Urriðakot

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Gjáarréttargata er undir Elliðavatnsvegi þar sem hann liggur úr landi Urriðkots austur í land Vífilsstaða að Maríuvöllum. Þar hefur Gjárréttargata sveigt til suðurs á svipuðum slóðum og Heiðmerkurvegur og marlarbornir gönguslóðar meðfram honum eru í dag. Gatan hefur legið yfir þröngt og gróið sléttlendi milli Flatahrauns og Vífilsstaðahlíðar, þar vex nú mosi, gras og trjágróður. Gatan sést enn greinilega þegar komið er ofan í Selgjár og liggur hún þar meðfram austur brún gjárinnar.
Gjárréttargata er að miklu leyti undir nýrri vegi, en hún er þó afar greinileg þegar komið er ofan í Selgjá og liggur þar meðfram eystri gjárbarminum. Gatan er sem nokkrar samhliða rásir í jörðinni og er vel gróin.

„Á holtinu beint upp af fjárhúsunum efst á Austurtúninu, sem áður voru nefnd, er Dagmálavarða, eyktarmark frá Urriðakoti, en norðar uppi á háholtinu er Stóravarða. Hana hlóð Jón Þorvaldsson, afi heimildarmanns, og var hún mjög vel hlaðin, en hefur nú verið spillt“, segir í örnefnaskrá SP. „Upp af Grjótrétt, þar sem holtið er hæst, er Stóravarða“, segir í örnefnaskrá AG.
„Stóravarða: Stór varða á Urriðakotsholti, þar sem það er hæst. Þar er staurasamstæða fyrir raflínu Suðurnesja,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi.
„Varðan stendur ennþá á klöppinni, neðst í henni er óvenju stórt grjót,“ segir í fornleifaskráningu RT og RTK

Urriðakot

Urriðakot – vegurinn um Vesturmýri.

„Í miðri Vesturmýri liggur Urriðakotsvegur yfir vatnslænu, sem nefnist Kelda. Við vegagerðina var hún brúuð og brúin nefnd Keldubrú. Áður var hún stikluð á steinum nokkru norðar“, segir í örnefnaskrá SP. Í skráningu RT og RTK var tekið hnit við Keldubrú en þar er ekki að finna frekari lýsingu á mannvirkinu né ástandi þess.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

„Mýrin sunnan vegar, en norðaustan undir Hrauntanga, kallast Kriki. … Norðavestan við Krikann, norðan vegarins, sem áður var nefndur, skagar hraunnef út í mýrina. Það kallast Kvíanef. Norðan undir því er rétt, sem kallast Kvíar. Síðast var fært frá 1918, og var þá búinn til stekkur í öðrum enda Kvíanna. Það var í eina skiptið, sem heimildamaður man eftir því að fært var frá, því það hafði ekki verið gert í langan tíma fyrir 1918“, segir í örnefnaskrá SP. Kvíarnar eru hlaðnar við austanverða hraunbrúnina fast vestan við Vesturmýri, um 200 m suður af nýju BYKO búðinni að Kauptúni 6 í Garðabæ og um 500 m NV af bæ.
Kvíarnar eru fast austan í úfnu hrauni, sem er að stórum hluta gróið grasi, mosa og lyngi, en fast vestan við er þýfð og grasi gróin mýri. Kvíarnar nýta sér náttúrulega hraunbrún og skarð í hrauninu sem hlaðið er við með hraungrýti til að skapa lokað aðhald.

Urriðakot

Urriðakot – kvíar.

Kvíarnar eru aflangar N-S, allt að 30 m á lengd og 3 m breiðar (með hleðslu). Við suðurenda er skilrúm sem myndar lítið hólf, um 2×2 m að utanmáli og inn af hólfinu gengur lítill hellisskúti inn í hraunið. Hellismunninn er um 1 m hár og 0,5 m breiður, en skútinn er ekki nema rúmlega 2 m djúpur en þrengist svo mikið. Einnig er hlaðið afmarkað hólf við norðurenda Kvíanna, sem er um 3 x 1,5 m N-S að stærð.
Miðja Kvíanna er eitt stórt hólf, allt að 25 m langt og 2 m breitt að innanmáli. Langveggir norðurhluta Kvíanna eru náttúrulegir sprunguveggir, allt að yfir 2 m háir, en hlaðið er fyrir N-endann. Eystri langveggur suðurhlutans er hlaðinn úr hraungrýti, um 4 umför og hæstur rúmlega 1 m. Mest er um miðlungsstórt hraungrýti í hleðslunum. Um 1 m breiður inngangur er um miðbik hins hlaðna eystri langveggs.

Urriðavatn

Urriðavatn – rétt.

„Í Hrauntanga rétt norðvestan við Mjóatanga er stór klettur með sýlingu í. Hann kallast Sýlingarhella og er á mörkum Urriðakots og Setbergs“, segir í örnefnaskrá SP. „Mjóitangi er kallað þar sem hraunið gengur lengst út í vatnið að vestan…Vestur af Mjóatanga er klettur sem kallast Sýlingahella“, segir í örnefnaskrá AG. Sýlingarhella er um 40 m norður frá Urriðakotsvatni, ef landamerkjagirðingu milli Urriðakots og Setbergs er fylgt, en girðingin liggur þvert á helluna.
Sýlingarhella er náttúrulegt hraunbjarg á úfinni hrauntungu sem gengur út í Urriðakotsvatn. Ekki er hægt að sjá að hellan sé tilklöppuð, sýlingsnafnið á líklega við spísslaga skarð sem gengur niður í helluna að ofan.

Miðaftansvarða

Miðaftansvarða.

„Norðvestur af norðurenda Vesturmýrar er hraunið tiltölulega slétt og flatt og kallast þar Flatahraun. Þar liggur nú akvegur, sem nefndur er Reykjanesbraut. Norður af Flatahrauni er nokkuð áberandi hóll með vörðu, Miðaftanshóll. Hann er á mörkum Urriðakots, Hafnarfjarðar og Vífilsstaða“, segir í örnefnaskrá SP.
Miðaftanshóll er einn mest áberandi hóllinn í Hafnarfjarðarhrauni. Hann er um 300 m suður af Hagakotslæk, í beinni línu frá grænum reit milli Bakkaflatar og Sunnuflatar. Miðaftanshóll er í fremur úfnu hrauni og er að nokkru leyti gróinn lyngi og grasi.
Varðan sem nú stendur á Miðaftanshól er ekki gömul. Hún er hlaðin úr hraungrýti og er steypt á milli umfara. Í steypulagið undir efsta grjótinu er letrað ártalið „1960“. Flatamál vörðunnar er 1×1 m og er hún 1,5 m á hæð.

Vífilsstaðir

Urriðakot-Dyngjuhóll.

„Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smáhorn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. … Nokkurn spöl suðaustur af hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu“, segir í örnefnaskrá SP.
„Grásteinsstígur lá fram hjá Grásteini frá Hraunhornsflöt að Kolanefsflöt,“ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Stígurinn hlykkjast til suðausturs inn á kargann á vesturmörkum Flatahrauns, úr viki sem er 30m ASA af rétt. Þaðan liggur stígurinn að beitarhúsi.
Grásteinsstígur er í úfnu og mosavöxnu hrauni. Stígurinn er ruddur í gegnum hraunkargann frá golfvelli og austur að beitarhúsi. Á Flatahrauni austan kargans var ekki mögulegt að rekja stíginn lengra sökum snjóa og gróðurs, þó að samkvæmt örnefnalýsingu hafi hann legið alla leið austur yfir Flatahraun að Kolanefsflöt. Grásteinsstígur hefur að líkindum ekki verið reiðgata heldur gönguslóði, sökum erfiðrar yfirferðar um hraunið.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

„Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smá horn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. … Nokkurn spöl suðaustur af Hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu. Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt, sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún“, segir í örnefnaskrá SP. „Í hrauninu suðaustur af Grásteini er hóll sem kallast Einbúi. Suðvestur af Einbúa er réttarbrot, þar er svokallað Stekkjartún“, segir í örnefnaskrá AG.
„Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauninu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar“, segir í örnefnaskrá GS. „Stekkatúnsréttin: Rétt þessi er nú (1964) horfin með öllu. Þarna hafa verið byggðir sumarbústaðir. Erfitt með vatn,“ segir í Skrá yfir örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
Stekkatúnsrétt er í litlu viki í karganum á vesturmörkum Flatahrauns, fast austan í golfvellinum. Rúst hennar er um 160 m SSV en rúst stekksins, um 220 m NV af rétt og hátt í 950 m SA af bæ. Samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, er réttarrústin sem hér er skráð líklegast Stekkatúnsrétt.
Fast austan við réttina er golfvöllur, sem hefur að líkindum farið yfir hluta mannvirkisins, en hún er annars í grónu viki inni í afar hrjóstrugri hraunbrún. Birki vex milli hólfs og garðlags, en einnig virðist jarðrask hafa átt sér stað sunnan við hólfið og norðan við garðinn.

Urriðakot

Urriðakot – nafnlausa réttin.

„Við hraunið, nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Í hvammi neðan við Kúadali er rétt þétt við hraunbrúnina. Innst í réttinni er lítill skúti,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Réttin er fast vestan við hraunkargann sem myndar vesturbrún Flatahrauns, við austanverðan golfvöllinn. Réttin gamla er rúmlega 220 m suðaustur af réttarbroti, um 130 m VNV af beitarhúsi og um 1,2 km SA af bæ.
Að austanverðu er réttin byggð fast í úfið hraun sem er að mestu gróið mosa og lyngi, en skammt vestan við er golfvöllur og hefur hluti garðs sem tengist að réttinni að vestanverðu verið rifinn þegar völlurinn var gerður.
Eftir af réttinni er eitt hólf og um 20 m langt garðlag sem gengur austur úr því. Hólfið er um 10×6 m að utanmáli, snýr N-S og er inngangur að norðan. Réttin er hlaðin úr meðalstóru hraungrýti sem er ekkert tilklappað. Hleðslurnar eru mest um 1,3 m á hæð, 7 umför og þykkt er víðast um 0,5 m. Lítill skúti er í hrauninu syðst á austurhlið hólfsins, 2 m breiður, rúmlega 1 m djúpur og 0,7 m hár, og er austurveggur hólfsins hlaðinn yfir náttúrulega hraunþekju skútans. Um 2 m norðan við innganginn í hólfið er vesturendi 430 m langs garðs sem sem liggur SV-NA yfir Flatahraun.

Selgjá

Selgjá.

„Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjáar, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi“, segir í örnefnaskrá SP.
„Austan við Sauðahelli er Selgjá sem er lægð í hraunið er nær upp að Búrfelli þótt hún heiti ekki því nafni alla leið“, segir í örnefnaskrá AG. „Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir. Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu í 11 sambyggingum því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18. öld“, segir í örnefnaskrá GS.
Mikið af rústum eru í Selgjá og eru þær allar, sem og Norðurhellar, friðlýstar af Kristjáni Eldjárn með lögum frá 1964. „Slétt tún (hagi), um 100 m langt og 40-50 m breitt NV við hraun þar NV af melur, kjarr og grastorfur.“ Botn Selgjár er sléttur og gróinn grasi, mosa og lyngi og mynda gjárbarmarnir náttúruleg aðhald fyrir búfénað.
Selgjárhellir er náttúrulegur hellir í mosa og grasivöxnu hrauni. Hraunhellir þessi hefur áður verið lengri en hrunið saman að hluta í öndverðu svo labba þarf upp úr NV enda Selgjár og niður aftur í 7×3 m dæld sem er framan við hellismunnann.

Urriðakot

Urriðakot – Selgjárshellir.

Selgjárhellir er um 8-10 m djúpur SA-NV, 4 m breiður og lofthæð er 1,2-1,5 m. Í botni hans er mikið grjót. Tveir stuttir grjótgarðar hafa verið hlaðnir fyrir munnann og á milli þeirra er 1 m breiður inngangur. Í hvorum grjótgarði eru 7-9 umför og eru þeir 0,5-1,2 m háir og 1 m breiðir.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá. Sauðahellir, einnig nefndur Þorsteinshellir.

„Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. … Örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir. Sauðhellirinn er norðan við vörðu við Gjáaréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingjum í Vífilsstaðalandi. … Þessi hellir mun hafa verið notaður á svipaðan hátt og fyrr nefndur Sauðahellir, en fyrir minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Við vesturenda Selgjár er Sauðahellir efri“, segir í örnefnaskrá AG.

Selgjá

B-steinninn í Selgjá.

„Við norðausturbarm Selgjár, niðri í gjánni, er svokallaður B-steinn, en svo er nefnd hraunhella, sem rís þar upp á rönd líkt og legsteinn og bókstafurinn B hefur verið höggvinn í“, segir í örnefnaskrá SP. Steinninn er ofan í gjánni, næstum fast við eystri gjáarbarminn, um 180 m SA frá Selhelli við norðurenda Selgjár. Steinninn er í grónu hrauni.
B-steinn er hraunhella, um 1 m há, hátt í 0,5 m breið og 0,2 m á þykkt. Lag B-steins minnir helst á legstein og snýr hann flatri framhliðinni til vesturs. Framan á steininn, við hægra horn hans að ofan, er klappað B, um 20 x 10 sm í þvermál. Stafurinn líkur ekki ýkja ellilega út og er líklega frá því snemma á 20. öld. Hugmyndir hafa verið uppi um að stafurinn standi fyrir „brunn“, en samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, eru engar líkur til þess þar sem enginn brunnur er á þessum slóðum.

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

„Austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem Sauðahús“, segir í örnefnaskrá GS. „Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett“, segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Fjárhústóftin syðri er um 470 m NV af Selgjárhelli, skammt frá öðru háspennumastri frá Heiðmerkurvegi.
Fjárhústóftin er uppi á hárri mosa- og grasigróinni hæð í hrauninu. Tóftin er hlaðin uppvið náttúrulegt bjarg, sem myndar hluta suðurveggjar hennar. Innanmál tóftarinnar er 6×2,5 m A-V og dyr eru á vesturvegg. Veggirnir eru um 0,8 á hæð og um 1-2 m á breidd. Nokkuð hefur hrunið úr hraunhleðslum veggjanna, sem eru grónar mosa, grasi og lyngi. Gluggi er hlaðinn í suðurvegg tóftarinnar.

Urriðakot

Urriðakot – Selgjárhellir.

„Selstæðið þarna (Vestast í Selgjánni) var einnig nefnt Norðurhellar, Norðurhellnasel“, segir í örnefnaskrá GS. „Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar. Heimildarmaður kannast ekki við þessi nöfn úr mæltu máli,“ segir í örnefnaskrá SP. „Þetta nafn (Norðurhellar) á þessum stað er að finna í sóknarlýsingu síra Árna Helgasonar í Görðum frá 1842. Einnig segir frá þessu örnefni í lögfesti Þorkels prests Arngrímssonar frá 1661,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Norðurhellar eru skammt norðan við Selgjá, og ætti Selgjárhellir og Sauðahellir efri að flokkast með þeim, enda á sömu slóðum og hlutar af sama hellakerfi.
Hraunið er að mestu gróið mosa, lyngi og grösum. Við yfirferð um svæðið fundust 8 hellar til við bótar við Selgjárhelli [034] og Sauðahellinn efri, en snjór hamlaði nánari könnun þeirra. Hellarnir beint upp af (NV af) Selgjárhelli, virðast vera stærstir og í þeim mætti hugsanlega finna hleðslur. Þar af í helli A, sem er um 30 m NV af Selgjárhelli, virðist vera hlaðið þak úr meðalstórum hraunhellum sem er að hluta hrunið.

Hádegisholt

Hádegisvarðan á Hádegisholti.

„Flóðahjallavarða: Varða þessi átti að vera á Flóðahjalla, fyrirfinnst ekki,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Jafnframt segir í skrá þeirri að „Hálsinn“, „Urriðakotsháls“ og „Flóðahjallaháls“ séu allt örnefni á sama hálsinum og að „Flóðahjallatá“ sé „Vestur og upp frá Hálsinum“ og að þar hafi landamerkjavarðan átt að standa. „…Flóðahjallatá, en þar var Flóðahjallatávarða ,“ segir í örnefnaskrá GS. Varðan er á tá sem stendur út úr NV horni Flóðahjalla, fast sunnan við Urriðavatn og er þar vítt útsýni til allra átta. Flóðahjallavarða er rúmlega 300 m NV af herminjum. Varðan er á 30-40 m hárri hæð, á lúpínu-, mosa- og lyngigrónum mel, en gras grær næst vörðunni. Varðan er hrunin, en eftir er grjóthrúga, 3×2 m að flatarmáli N-S og 0,6 m há.

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

Ekki var saga hverrar rústar eða hver rúst skráð nákvæmlega, en herminjar eru ekki verndaðar í þjóðminjalögum. Þó hefur sú hefð skapast á síðustu árum að slíkar minjar eru skráðar en ekki mældar upp nákvæmlega eins og gert er þegar um fornleifar er að tefla. Eins og sést á kortinu er um er um allstórt svæði að ræða og fjöldi húsgrunna og annarra minja mikill“. segir í fornleifaskráningu RT og RKT. Herminjarnar eru á gróðurlitlu og grýttu svæði austast á Urriðaholti.
„Herminjar eru margar enn greinilegar í Urriðaholti, fæstar heillegar… Ber mest á steinsteyptri stjórnstöðinni, nokkrum steyptum grunnum, litlum turni og hliði inn á svæðið“. Á korti á bls. 67 í skýrslunni RT og RKT eru teiknuð upp um 40 mannvirki á svæðinu. Telja má nánast öruggt að hér sé komið braggahverfi er kallaðist Russell og var í Urriðakotsholti.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifarannsóknarsvæðið.

Fornleifauppgröftur fór fram á Urriðakoti árið 2010. Í ljós komu fornar selstöður, væntanlega frá Hofstöðum. Urriðakot á sér ekki langa sögu í heimildum en bæjarins er fyrst getið á 16. öld. Átti því enginn von á því þarna myndu koma í ljós svo umfangsmiklar minjar sem raun ber vitni.

Urriðaholt

Urriðaholt- snældursnúður eftir uppgröft.

Við uppgröftinn hafa fundist skáli, fjós, geymsla, búr og soðhola frá landnámi fram á 11. öld. Nánari aldursgreining þarf að fara fram til að hægt sé að segja hvort minjarnar séu frá fyrstu tíð landnáms. Frá miðöldum – eða rétt eftir 1226 – hafa fundist leifar af búri, eldhúsi og skemmu, en ekki hefur komið í ljós neitt íveruhús frá þeim tíma. Það kann að hafa staðið ofan við uppgraftarsvæðið.

Merkilegir gripir fundust á svæðinu, fyrst og fremst snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með áletruðum rúnum. Fátítt er að finna gripi með rúnaristum á Íslandi. Auk þess hafa fundist tvær perlur frá víkingaöld, bökunarhellur, brýni, innflutt frá Noregi, járnhnífar, naglar og ýmsar bronsþynnur.

Margt bendir til þess að þarna hafi verið seljabúskapur en ekki föst búseta. Er það mjög áhugavert þar sem ekkert sel hefur verið að fullu rannsakað á Íslandi.

Í Fornleifaskráning í Urriðaholti árið 2005 segir m.a. eftirfarandi um Urriðakot:

Urriðakot

Urriðakot 2005.

„Urriðakot er fyrst nefnt í jarðaskiptabréfi árið 1563, ein 19 jarða sem konungur fær ískiptum fyrir jafnmargar sem renna til Skálholtsstóls. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var kotið árið 1703 hálfbýli í eigu konungs, ekki með „fyrirsvar nema tilhelmings á móts við lögbýlisjarðir“. Ábúendur voru þeir Þórður Magnússon og Ólafur Ingimundarson en í Manntali sama árs er í stað hins síðarnefnda tilgreindur Guðmundur Nikulásson. Hjá Þórði bjó ein þjónustustúlka en með hinum 27 ára gamla Guðmundi var móðir hans, Ása Ólafsdóttir, ekkja, yngri systur hans, Steinunn og Þóra, og Ásdís Ásbjarnardóttir, 6 ára „sveitarómagi“. Í Manntali árið 1801 bjuggu á jörðinni hjónin Hannes Jónsson og Þorgerður Þorsteinsdóttir með Sigríði, 15 ára dóttur, og þrjá litla syni 2-5 ára. 15 árum síðar var dóttirin flutt að heiman en fæðst hafði önnur, Kristín. Þegar Manntal var tekið árið 1845 var þetta fólk á brott og Eyjúlfur nokkur Gíslason, 22 ára, orðinn bóndi í Urriðakot og Guðrún Gísladóttir 24 ára, ráðskona hjá honum. Ef til vill hafa þau verið systkini en bæði voru úr Ölvesi og þaðan var líka 16 ára gömul vinnukona þeirra, Þuríður Þorgeirsdóttir. Samkvæmt Jarðatali var Urriðakot komið í bændaeign árið 1847 og ábúandi einn leigjandi. Jörðin er einnig nefnd í Jarðabók 1861. 1932 var hún samkvæmt Fasteignabók í einkaeigu og sjálfsábúð eða sjálfsnytjun. Hún lagðist í eyði um miðja 20. öldina en var áfram nytjuð frá næstu jörðinni Setbergi.

Urriðakot

Urriðakot – útihús 2005.

Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld alls 20 álnir. Hún skiptist til helminga milli ábúenda og gallst í fiski í kaupstað, áður heim til Bessastaða. Leigukúgildi var eitt, hálft hjá hvorum og greitt í smjöri til Bessastaða. Ábúendur uppyngdu það sjálfir. Þórður átti tvær kýr og eitt hross og Ólafur eina kýr að hálfu en jörðin fóðraði þrjár. Kvaðir voru mannslán um vertíð sem þeir guldu til skiptis, dagsláttur og lambsfóður af báðum og tveir hríshestar árlega. Þegar Páll Beyer varð umboðsmaður konungs tók hann þó aðeins einn á tveimur árum. Aðrar kvaðir, svo sem skipaferðir og heyhestur til fálka sem bændum bar að bera, voru sjaldan heimtar. Ábúendur lögðuuppbótarlaust við til húsabótar í fjórtán ár og Þórður kvartaði yfir að hafa tekið viðhúsunum í lélegu ásigkomulagi. Þeir höfðu hrístekju til kolagjörðar og eldiviðar í landi konungs, torfristu og stungu. Engjar voru votlendar. Nokkur silungsveiði var ílandareigninni en hún þó ekki stunduð. Dýrleiki jarðarinnar taldist 3 1/3 hundruð árið 1847 en 17,4 ný hundruð 1861. Þegar kom fram á 20. öld var matsverðið 111-115 hundruð kr., kúgildi fimm, sauðir 140-50 og hrossin eitt eða tvö. Urriðakotstún hafði mest allt verið sléttað þegar Túnakort var gert árið 1918, þá 3,3 ha og 14 árum síðar fengust 154 hestburðir í töðu en 115 í útheyi. Vestan túnsins voru engjar, mýrlendi og móarætur.

Urriðakot

Urriðakot – fjárhús 2005.

Í Landamerkjaskrá frá 1890 segir: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar frammí vörðuna sín megin á Norðurhellragjáarbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni úr henni í Álp[t]artanga, þaðan í hellu sem er í miðjum hrauntanganum, kölluð Sílingarhella úr henni í uppmjóan háan Klett með Klofavörðu uppá sín megin [við] Stóra Krók og í gamlar Fjárrjettargrjótgirðingar í moldarhrauni, og uppí áðurnefnda Urriðakots Fjárhellra.“Undir skjalið rita Nikulás Jónsson, eigandi Urriðakots, Jón Þorvarðsson, bóndi í Urriðakoti og Jón Guðmundsson í Setbergi en Þórarinn Böðvarsson gerir eftirfarandi athugasemd: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju að öðruleyti en því, að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það, sem Vífilstaðir eiga sjerstaklega.“ Urriðakot er innan hinna fornu merkja á landi Garðakirkju á Álftanesi.

Urriðakot var sums staðar skrifað Aurriðakot eða Örriðakot en eftir að það lagðist í eyði var nafninu breytt í Urriðavatn.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.
–Fornleifaskráning í Urriðaholti, Ragnheiður Traustadóttir, 2005.

Maríhellar

Urriðakotshellir – fjárhellir.

Camp Russel

Ofarlega á Urriðaholti hefur verið komið skilti um herkampinn „Russel“. Kampurinn sá er hluti af mörgum slíkum á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu frá heimstyrjaldarárunum síðari. Í texta á skiltinu stendur eftirfarandi:

Urriðaholt

Urriðaholt – stríðssöguskiltið.

„Í landi Urriðakots og Vífilsstaða er víða að finna minjar um hernaðarumsvif í seinni heimstyrjöld.

Stórar herbúðir stóðu sunnan megin á Urriðaholti og voru varðstöðvar víða í hlíðunum. Búðirnar voru um skeið aðsetur símalagningarmanna bandríska seturliðsins og nefndust Camp Russel eftir Edgari A. Russel hershöfðingja sem farið hafði fyrir fjarskiptasveitum Bandarríkjahers í Frakklandi í fyrri heimstyrjöld.

Urriðaholt

Urriðaholt – Camp Russel; skilti.

Búðirnar samanstóði af íbúðarskálum (bröggum) og birgðaskemmum auk allmargra steinhúsa fyrir eldhús og salerni. Bandarískir braggar voru af svonefndri Quonsetgerð sem var almennt vandaðri smíð en Nissen-braggar sem Bretar byggðu. Má ætla að 80 braggar hafi staðið í búðunum en vorið 1943 bjuggu þar alls um 500 hermenn.

Hernám

Aðkoman að Camp Russel á Urriðaholti.

Við lok heimsstyrjaldarinnar glötuðu hernaðarmannvirki upphaflegu hlutverki sínu og voru nýtt til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð. Stærstur hluti Camp Russel er horfinn undir byggð. Þó má ská leifar hér og þar, til dæmis steinsteyptan vatnsgeymi, arinhleðslu og húsgrunna rétt norðan við Flóttamannaveginn (Setuliðsveg). Veginn lögðu Bandaríkjamenn á stríðsárunum til að tengja saman Suðurlandsveg og Hafnarfjörð ef senda þyrfti þangaðherlið frá Mosfellssveit og Hólmsheiði til að mæta þýskum innrásaher, en Íslendingar tóku að nefna hann flóttamannveg löngu síðar.

Grjóthleðslur og Hádegisvarða

Camp Russel

Kamp Russel – kort.

Flóðahjalli

Flóð'ahjalli

Flóðahjalli – uppdráttur.

Á klöppum á Flóðahjalla hlóðu hermenn miklar grjóthleðslur utan um 800 m2 svæði þar sem búist var til varna. Innan þeirra eru leifar af byrgjum.

Þar stendur einnig Hádegisvarða sem var eyktarmark fyrir Urriðakot.
Til að treysta varnir í Hafnarfirði og á Álftanesi voru í upphafi um 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sendir þangað. Áttu manvirki á Flóðahjalla og víðar að styrkja vígstöðu þeirra og varnir gegn mögulegri árás Þjóðverja. Syðst á klöppinni innan við hleðslurnar hafa verið höggnir nokkrir stafir og virðist þar að minnsta kosti mega greina áletrunina JE Bolan ásamt stöfunum DS og hernámsárið 1940.

Skotbyrgi

Braggi

Braggi í byggingu.

Steypt skotbyrgi er að finna á þremur stöðum í Garðabæ, á Hnoðraholti, í Vífilsstaðahlíð og tvö í Garðaholti. Gott útsýni er ú byrgjunum en þau eru hálfniðurgrafin með skotrauf á tveimur hliðum.

Hernámið

Camp Russel

Camp Russel – arinn…

Að morgni föstudagsins 10. maí árið 1940 gekk breskur her á land í Reykjavík og stóð þá Ísland ekki lengur utan styrjaldarátaka stórveldanna. Hernámið, sem hlaut dulnefnið „forkur“, kostaði þó ekki blóðsúthellingar. Þýskir herir höfðu náð Noregi og Danmörku á sitt vald en Íslendingar haldið fast við hlutleysisstefnu sína þrátt fyrir það og ekki viljað ganga til liðs við bandamenn.

Winston Churhill

Winston Churchill Reykjavík.

Winston Churchill, sem verið hafði flotamálaráðherra en varð þennan dag forsætisráðherra Bretands, gerði að sínum hin fleygu orð að sá sem réði yfir Íslandi beindi byssu að Englandi, Ameríku og Kanada. Til að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja í Ísland ákvað hann að verða fyrri til og tryggja með því siglingaleiðir um Norður-Atlantshaf. Íslendingar mátu sjálfstæði sitt mikils og mótmæltu stjórnvöld hernáminu formlega. Fer þó ekki á milli mála að flestir voru fegnir að njóta verndar fyrir nasistastjórn Þýskalands.
Í stuttri heimsókn Churchills til Íslands árið 1941 sagði hann Hermanni Jónassyni forsætisráðherra að Bretar hefðu neyðst til að hertaka Íslands og hefðu gert það jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu orðið á undan þeim.
Herverndarsamningur var undirritaður í júlí árið 1941 milli Bandarríkjanna, Bretlands og Íslands og fól í sér að bandarískar hersveitir myndu aðstoða og síðar leysa breska hernámsliðið að hólmi.“

Þrátt fyrir alla viðleitni um að varðveita söguna í formi skiltis ber að geta þess að allir hlutaðeigandi höfðu alla möguleika á að halda til haga minjum svæðisins áður en óðagot verktaka tók það yfir – með tilheyrandi eyðileggingu.

Urriðaholt

Urriðaholt – vatnsgeymir.