Færslur

Maríuhellar

Maríuhellar eru hraunrásarhellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hraunið er komið úr Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Hellarnir eru þrír: Vífilsstaðahellir, Urriðakotshellir og Draugahellir. Sumir vilja bæta fjórða hellinum í hópinn sem er þar skammt frá og hefur á seinni árum verið nefndur Jósepshellir. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).

Maríuhellar

Maríuhellar.

Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar.“ Talið er að nafnið Maríuhellar sé dregið af því að fyrrum voru hellarnir í eigu Viðeyjarklausturs, en klaustrið og kirkjan þar voru helguð Maríu guðsmóður.

Á Vísindavef HÍ er spurt; “Hvers vegna heita Maríuhellar í Heiðmörk þessu nafni?” Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar, svarar:

Maríuhellar

Maríuhellar.

“Maríuhellar eru tveir hellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).
Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar“ (Örnefnaskrá Urriðakots; Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Safn til sögu Garðabæjar III. 2001, bls. 30, 37, 123).

Maríuhellar

Maríuhellar – kort.

Vitað er um Máríuhella (flt.) á einum öðrum stað. Það er í Kollabæ í Fljótshlíð, þar sem þrír skútar bera þetta nafn. Þar voru hafðir sauðir sem gengu að mestu úti (Örnefnaskrá). Maríuhellir er líka í Brynjudal í Kjós. Hann var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé (Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191).
Ekki er vitað hvernig nafnið Maríuhellar er til komið en líklegt er að þeir séu kenndir við Maríu guðsmóður, það hafi verið talið gott til verndar fé að kenna fjárhella við hana. Vífilsstaðir voru eign Garðakirkju á 19. öld, kirkjan var þó ekki helguð Maríu, en mynd hennar var í eigu kirkjunnar (Íslenzkt fornbréfasafn IV:107-108; Margaret Cormack, The Saints in Iceland 1994, 185).
Þess má geta að til er alþýðleg bæn fyrir fé í haga, þar sem Sankti María er nefnd (Fagrar heyrði ég raddirnar 1942, bls. 11-12). María verndaði bæði fólk og fé með möttli sínum, samkvæmt finnskri trú (Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 11:374).
Kvenmannsnafnið María varð ekki algengt hér fyrr en á 18. öld en ólíklegt er að hellar þessir séu kenndir við íslenskar konur með þessu nafni.”

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Árið 2014 var neðri hluti Urriðahrauns og Maríuhellar friðlýstir sem fólkvangur. Friðlýsingin var endurskoðuð 2021 og fólkvangurinn stækkaður upp í vestari hluta Selgjár.
Í auglýsingunni “um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ” segir í 1. gr.:

“Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands að friðlýsa Garðahraun, Vífilsstaðahraun (Svínahraun) og Maríuhella sem fólkvang samkvæmt 55. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8000 ára gömul. Meginhraunstraumurinn rann til sjávar til norðurs og nefnist þar Gálgahraun og var það friðlýst með auglýsingu nr. 877/2009. Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Hraunsvæðin eru ekki samfelld.
Hin friðlýstu svæði eru alls 156,3 ha að flatarmáli.”

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Mar%C3%ADuhellar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3986
-Nr. 510 30. apríl 2014 – Auglýsing um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ.

Maríuhellar

Maríuhellar – kort af  neðra friðlýsingarsvæðinu.