Færslur

Esjuberg

Fyrir neðan bæinn Grund á Kjalarnesi, vestan Esjubergs, er útialtari. Á skilti við altarið má lesa eftirfarandi texta, auk svilitlum viðbótafróðleik:

“Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera”.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Hér í landi Esjubergs verður reist útialtari sem minnismerki um merkan kristinn kirkjustað. Sagnir herma að fyrsta kirkja á Íslandi fyrir kristnitöku hafi verið reist á Esjubergi á Kjalarnesi. Mun það hafa verið um árið 900. Ekki er vitað hvar í landi Esjubergs kirkjan stóð. Næsta líklegt er að skriðuföll í Esju hafi spill vegsummerkjum eftir hana en þau breyttu ásýnd jarðarinnar og huldu flestar minjar á Esjubergi sem þar höfðu staðið um aldir og m.a. svonefnda kirkjurúst.

Fornleifarannsókn fór fram árið 1981 á þeim stað á Esjubergi þar sem menn töldu að kirkja hefði staðið og kirkjugarður. Ekkert fannst sem gat staðfest að kirkja hefði staðið á þeim stað.

Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappsson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi “kirkjuvið ok járnklukku ok penárium ok mold vígða” til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar [sem] hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. örlygur reisti kirkju á Esjubergi.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

[Í 1, kafla Kjalnesingasögu segir: “Maður hét Örlygur. Hann var írskur að allri ætt. Í þann tíma var Írland kristið. Þar réð fyrir Konofogor Írakonungur. Þessi fyrrnefndur maður varð fyrir konungs reiði.

Hann fór að finna Patrek biskup frænda sinn en hann bað hann sigla til Íslands “því að þangað er nú,” sagði hann, “mikil sigling ríkra manna. En eg vil það leggja til með þér að þú hafir þrjá hluti. Það er vígð mold að þú látir undir hornstafi kirkjunnar og plenarium og járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan að Íslandi. Þá skaltu sigla vestur fyrir þar til er fjörður mikill gengur vestan í landið. Þú munt sjá í fjörðinn inn þrjú fjöll há og dali í öllum. Þú skalt stefna inn fyrir hið synnsta fjall. Þar muntu fá góða höfn og þar er spakur formaður er heitir Helgi bjóla. Hann mun við þér taka því að hann er lítill blótmaður og hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli er fyrr sagði eg þér frá. Þar skaltu láta kirkju gera og gefa hinum heilaga Kolumba. Far nú vel,” sagði biskup, “og geym trú þinnar sem best þóttú verðir með heiðnum.”

Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.”]

Esjuberg

Esjuberg – uppfærð örnefni.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið kirkju á Esjubergi: “Kirkja at Esjubergi.

Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 14. öld: “Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.

Þrátt fyrir áþreifanleg ummerki um kirkju á Esjubergi hafi ekki enn fundist á Esjubergi hafa Kjalnesingar hin síðari ár haft um hönd helgihald á staðnum í júnímánuði ár hvert.

Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjuergs er að vekja verðskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Útilaltarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eons og brúðkaup pg skírnir.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

Fyrsta skóflustunga var tekin að altarinu 8. maí 2016 af biskupi Íslands, prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, formanni Sögufélagsins Steina, formanni sóknarnefndar Brautarholtssóknar og einu fermingarbarni vorsins 2016.

[Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir tók þar skóflustungu að útialtari ásamt sr. Þórhildi Ólafs. prófasti Kjalarnessprófastsdæmis, Hrefnu Sigríði formanni Sögufélagsins Steina, Birni Jónssyni
formanni sóknarnefndar Brautarholtskirkju og fermingarbarninu Benedikti Torfa Ólafssyni.
Prófasturinn sr. Þórhildur Ólafs, leiddi helgistundina að keltneskum sið.]

Altarið sjálft verður sótt í Esjubergsnámur og upp úr því mun standa um tveggja metra hár keltneskur kross.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft forystu í máli þessu í samvinnu við ýmsa aðila.

[Guðni Ársæll Indriðason smíðaði mót fyrir krossinn sem rísa mun í miðju útialtarisins. Ákveðið er að hafa þrenningartákn, keltneska fléttu öðru megin og þrjá fiska hinu megin. Bjarni hefur verið í sambandi við Steinsmiðjuna S. Helgason sem ætla að sjá um smíðina á plötunum sem síðan verða festar á krossinn.]

Þetta söguskilti er sett upp hér til bráðabirgða en veglegra skilti verður síðar komið fyrir.

Esjuberg
[Kirkja Örlygs hefur sennilega aldrei verið við bæinn Esjuberg, miklu frekar í landi Esjubergs, er náði allt vestur í Kolafjörð. Þegar möguleg staðsetning framangreindrar kirkju gæti hafa verið þarf því að líta gagnrýnum augum í fyrirliggjandi örnefnalýsingar m.t.t. áttalýsinga, og horfa sérstaklega til örnefnanna “Leiðhamar” og “Leiðvöllur”, sbr.:

Vesturmörkin [austurmörkin], milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan [austan] hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.)

Upp af Leiðvelli var Kirkjuflöt. Þar er líklegt að kirkja Örlygs hafi verið reist í árdaga, þ.e. á Kirkjuflöt. Nánast öllu svæðinu ofan Leiðvallar hefur nú verið raskað með námugreftri. Upp af  Kirkjuflöt var Kirkjunýpa, gamalt örnefni, sem nú virðist vera horfið.
Esjuberg

Esjuberg

Á vefsíðu kirkjunnar 18. júní 2021 má lesa eftirfarandi um útialtari á Esjubergi:

“Sunnudaginn 20. júní verður útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi, vígt af biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Með henni þjóna sóknarpresturinn sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Kór Reynivallaprestakalls syngur og organisti er Guðmundur Ómar Óskarsson. Athöfnin hefst kl. 14.00.

Esjuberg

Esjuberg – Biskup Íslands vígir útialtarið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft veg og vanda af útialtarinu og mun formaður félagsins, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, flytja ávarp við vígsluna.

Hátt í fjórir áratugir eru liðnir frá því að fyrst var hreyft þeirri hugmynd að koma upp á Esjubergi minnismerki í tilefni þess að sagnir herma að þar hafi verið reist fyrsta kirkjan á Íslandi og þá þegar fyrir kristnitöku árið 1000. Það var svo árið 2014 að var flutt tillaga á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar af tveimur Kjalnesingum um að reist yrði útialtari að Esjubergi. Tillögunni var vel tekið á þinginu en henni var vísað heim í hérað. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi tók svo málið í sínar hendur og hefur haft yfirumsjón með verkinu. Allar götur síðan hefur Sögufélagið Steini unnið jafnt og þétt að uppbyggingu útialtarisins. Þjóðkirkjan, ýmis félagasamtök, sjóðir og fjöldi einstaklinga hafa lagt fram fé til þess að þetta minnismerki yrði að veruleika. Stjórnarmenn í Sögufélaginu og velunnarar þess hafa lagt fram mikla vinnu við útialtarið. Fyrsta skóflustungan að útialtarinu var tekin 8. maí 2016.

Esjuberg

Biskup Íslands og sr. Arna Grétarsdóttir sóknarprestur Reynivallarprestakalls.

Nú er útialtarið tilbúið og er mannvirkið hið glæsilegasta. Útialtarið er hringur, með fjórum inngöngum sem snúa til höfuðátta, veggir eru hlaðnir af hleðslumeisturum sem og sæti. Upp úr níu tonna altarissteininum rís tveggja metra keltneskur kross sem steyptur var af hagleiksmanninum Guðna Ársæl Indriðasyni. Krossinn ber ýmis keltnesk tákn og á ytra borði hans eru steinvölur sem börn úr Klébergsskóla tíndu úr fjörunni á Kjalarnesi sem og steinar frá skosku (keltnesku) eyjunum Lindisfarne og Iona.

Útialtarið á Esjubergi er einstakur kristinn helgistaður og þar verða eflaust ýmsar athafnir hafðar um hönd, eins og skírnir, hjónavígslur og helgistundir.

Hvar er útialtarið?

Esjuberg

Esjuberg – skilti til leiðbeiningar að útialtarinu.

Þegar komið er upp úr Kollafirði blasir við skilti sem á stendur Kerhólakambur og einnig Útialtarið – og slaufumerkið um að þar sé að finna athyglisverðan stað til að skoða. Á vígsludaginn verður fánaborg við innkeyrsluna og ætti hún ekki að fara fram hjá neinum. Mælt er með því að fólk leggi bílum sínum til hliðar við innkeyrsluna og gangi að altarinu, en það eru 0.7 km. Spáð er ágætisveðri.” – hsh

Á MBL.is 19. júní 2021 var eftirfarandi umfjöllun um útialtarið á vefmiðlinum:

Biskup vígir keltneskt útialtari á Esjubergi
Talið er að fyrsta kristna kirkja Íslands hafi staðið við Esjuberg og á hún að hafa verið reist um árið 900 en hennar er getið í íslenskum ritheimildum. Þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkjuna og nú á sunnudag mun biskup Íslands vígja útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi.

Esjuberg

Sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur Kjalarnesprófastdæmis.

„Þjóðkirkjan hefur talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar, en ekkert bólaði á framkvæmdum,“ segir Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins. „Þá fékk okkar litla sögufélag þá fáránlegu hugmynd að þetta væri verðugt verkefni fyrir félagið að halda á lofti nöfnum Kelta í íslenskri sögu,“ segir Bjarni í léttum tón í Morgunblaðinu í dag.

Og þann 21. júní s.á. mátti lesa:

“Biskup Íslands vígði á sunnudag útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkju sem talin er hafa verið fyrsta kristna kirkja Íslands, reist árið 900 og stóð við Esjuberg.

Kirkjunnar var getið í íslenskum ritheimildum en þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins sagði Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins, að „þjóðkirkjan hafði talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar en ekkert hafði bólað á framkvæmdum“.”

Heimildir:
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2021/06/18/Vigt-a-sunnudaginn/
-Mbl.is Innlent | Morgunblaðið | 19.6.2021 og
Innlent | mbl | 21.6.2021 | 21:02

Esjuberg

Esjuberg – útialtarli.