Stefnan var tekin á Innstadal í Hengli. Ekki var genginn hinn hefðbundni stígur upp Sleggjubeinsskarð syðst í dalinn heldur haldið niður af norðvesturbrúnum (Vesturása) Skarðsmýrarfjalls, um gönguskarð, sem þar er og fáir fara að jafnaði um. Þaðan er hið ágætasta yfirsýn yfir gjörvallan dalinn sem og umlykjandi fjöll, auk þess sem ekki tekur ekki nema nokkrar mínútur að snerta dalbotninn.
Þegar niður var komið var gengið um grasgróninga til norðurs, áleiðis að Lindarbæ, skála nyst í dalnum, skammt neðan við Hveragilið. Það sem vakti sérstaka athygli á leiðinni var a.m.k. tvennt; annars vegar greinilega fjölfarin hestagata langsum eftir dalnum upp úr Grafningi (Miðdal og Fremstadal) og hins vegar nýlegri hraunmyndun. Svo virðist sem lítið gos hafi komið upp í dalnum löngu eftir myndunina (sjá meira um jarðfræðina hér á eftir), sennilega u.þ.b. þúsund árum fyrir norrænt landnám.
Á leiðinni var gengið fram á tvær grafir, greinilega teknar af jarðfræðingum er hafa verið að skoða góskulög í dalnum. Grafirnar voru í lægð á milli barða, en ekki utan í börðunum, sem eðlilegra væri, vildu þeir sjá tímabilið allt. En hvað um það; landnámsöskulagið var greinilegt í sniðunu á u.þ.b. 40 cm dýpi eða á rúmlega metersdýpi að börðunum meðtöldum. Segir það nokkuð til um nýmyndunina í dalnum, en af umhverfinu mátti ljóst vera að lækir hafa runnið um hann úr nálægum hlíðum og flutt niður með sér mikið magn jarðvegs. Grónir farvegir eru víða um dalinn svo sjá má að núverandi lækir hafa áður leikið sér annars staðar en nú gerist.
Í örnefnalýsingu Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti um “Örnefni í Henglinum og hálendinu, sem er áfast við hann”, segir m.a. um Innstadal: “Sunnan í Henglinum eru þessir dalir; Innstidalur, og austur frá honum Miðdalur og Fremstidalur. Milli dalanna eru Þrengslin og inni í þeim er Lambhóll. Úr þesum dölum rennur Hengladalaá, en við ána er Smjörþýfi. Skarðamýrar eru áfastar við Fremstadal, og sunnan við Skarðsmýrar er Skarðsmýrarfjall.”
Mikill jarðhiti er í Innstadal. Mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.
“Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður. Hæstur er hann að norðanvestanverðu þar sem heitir Skeggi eða Vörðu Skeggi (803m yfir sjávarmáli). Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum. Í sleggju sem gengur uppi á fjallinu er líparít. Jarðhiti er utan í Hengli á nokkrum stöðum. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi. Vestastur er Innstidalur, þá Miðdalur en Fremstidalur er austastur. Úr þeim fellur Hengladalaá. Í Innstadal, sem liggur milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls (597 m.y.s.), er einn mesti gufuhver landsins. Víðar er jarðhiti í Hengladölum. Þar er einnig ölkelda [norðan í Miðdal]. Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellir sem í eru mannvistarleifar. [Reyndar er ekki um kletta að ræða heldur standberg. Margir klettar eru undir því.] En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum.
Hengilssvæði nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðieldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Hún skiptist í tvær gosreinar. Önnur liggur gegnum Henglafjöll, hin um Hrómundartind. Gosmyndanir á Hengilssvæðinu spanna um 800.000 ár í aldri. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði, en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil. Þar á milli skipar sér fjölbreytt jarðlagsyrpa þar sem skiptast á móberg frá jökulskeiðum og hraunlög frá hlýskeiðum. Berggrunnur Hengilssvæðisins er að mestu úr móbergi. Um 500 metrum undir móberginu eru basalthraunlög.
Grafningsmegin á svæðinu má finna röð móbergshryggja sem fylgja sprungustefnu. Í jörðum svæðisins kemur grágrýti fram undan móberginu. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti eins og verið hefur á hengilssvæðum allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan frá inn í Hengilssvæðið. Sprungur tengdar því eru þekktar í Fram-Grafningi, um alla Hveragerðiseldstöðina og vestur á Hálsa við Skálafell. Jarðskjálftar eru tíðir, en smáir á þessu svæði, nema þegar suðurlandsskjálftar ganga yfir. Um 24.000 jarðskjálftar af stærðinni 0.5 (á Richter) eða stærri voru mældir á árunum 1993 til 1997. Sá stærsti var 4.1 á Richter.
Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar og byggist á því hvort og hversu þykkur Jökull lá yfir svæðinu þegar gosinn urðu. Aðalgerðir eldstöðvana eru þó einugis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem þar hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma (þ.e. eftir ísöld). Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það. Úrkoma á Hengilssvæðunum er mikil, raunar með því mesta sem hefur mælst á landinu. Á austanverðu Hengilssvæðinu eru stöðugar lindir og lækir einugis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau haldi vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð eða rennur stuttan tíma í leysingum. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir allt árið um kring. Í sumum er lindaþátturinn stór, en allar mega þær þó fremur teljast dragár. Heita vatnið á Hengilssvæðinu er álitið vera á eins til þriggja km dýpi. Á mörgum stöðum á svæðinu nær þessi hiti að komast upp á yfirborðið. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal. Hengilsvæðið er með þeim stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 ferkílómetrar. það er þó ekki allt sami suðupotturinn heldur er það a.m.k þrískipt: Hveragerðaeldstöðin, Ölkelduhálsvæðið og jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Boranir og virkjanir eiga sér stað á Nesjavöllum sem eru á vegum Orkuveitunnar. Einnig standa yfir miklar framkvæmdir á Hellisheiðarvirkjun, sem er á landi Kolviðarhóls. Þær framkvæmdir eru einnig á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Mikill jarðhiti eru í þessum jarðlögum. Regnvatn sem seytlar niður í berggrunninn og kemst í snertingu við heitt bergið þrýstist sjóðandi upp um sprungur og misgengi. En innskot frá kviku verða algengari því neðar sem dregur.”
Hér að framan er reyndar ekki minnst á hraunmyndunina í Innstadal, enda væri þar um að ræða nánari jarðfræðilega úttekt í dalnum og svæðinu umleikis. Eitt er það, sem vakti sérstaka athygli FERLIRs á þessari göngu, voru fagurmyndaðar og stórar hraunbombur er finna mátti í austanverðum dalnum. Benda þær til þess að þarna hafi um tíma verið kröftugt gjóskugos – þótt hraunmassinn frá því hafi ekki verið verulegur.
Eftir að hafa barið litadýrð Hveragils auga (ein ljósmynd segir meira en þúsund orð) var haldið upp og til vesturs með ofanverðum hömrunum, yfir gil og gjár. Upptök Hengladalsárinnar er þarna með öllum sínum grænsafaríku dýjamosum. Litskrúðið þar gefur Hveragilinu lítið eftir.
Sagnir eru til um það að í helli í Innstadal hefðu verið menn sem komu sunnan úr Höfnum. Þeir hefðu verið áhafnar meðlimir af einhverju skipi en verið brottviknir fyrir einhver níðingsverk. Ekki bera heimildum saman um hversu lengi þeir höfðust við í þessum helli, sumir sögðu eitt sumar aðrir tvö ár. Það er ekki vitað með vissu. Talið er að þeir hafi verið 6 til 7 karlmenn og tvær hlutakonur. Þau lifðu á saufé sem þeir stálu frá bændum í Grafningi og Ölfusi. Bændur sátu síðan fyrir þeim og drápu, en ekki fyrr en eftir miklar eltingar. “Þjófahlaup” í Henglinum er skýrt eftir þessar eftirfarir. Útilegumennirnir voru drepnir ýmist vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiðinni. Konurnar voru fangaðar eftir mikið viðnám. Ekki er heldur vitað með vissu hvaða ár þetta var en talið er að það hafi verið í kringum 1700.
Hellir þessi átti að hafa verið, sem fyrr segir, í Innstadal.
Heimildir skýra svo frá; “Norðan við sléttuna í dalsbotninum sé einn af mestu gufuhverum landsins, en örskammt norðvestur af honum er hár móbergsklettur. Ofarlega í þessum kletti er hellir og grastó fyrir framan hann. Hellismunninn sést strax og komið er yfir Sleggjuháls. Móbergið fyrir framan hellinn er mjög bratt og illkleift á tveggja til þriggja mannhæða kafla.
Lýður Björnsson, sagnfræðingur, fór í þennan helli 1978. Hann skýrir svo frá að hellir þessi sé um 2 til 3 metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um 2 metrar. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunann en hleðslan er nær hrunin, fallin bæði inn og út. Talsvert var af beinum undir hellum í hellinum, mest stórgripabein. Engar leifar sáust af eldstæði eða ösku.
Eins og heimildir greina frá þá er verulega erfitt að klífa upp í þennan helli. Alls ekki ráðlagt fyrir fólk að reyna uppgöngu án sérhæfðar búnaðar og kunnáttu. Bergið fyrir framan hellinn er bæði mjög bratt og laust í sér.”
Heimildir eru að finna m.a. í lesbók MBL frá 1939, grein sem Þórður Sigurðsson “Tannastöðum” skrifaði, Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra. Þar segir:
Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra“
Í annálum er þess getið, að útileguþjófar hjeldu til í henglafjöllum. Ekki er þó tekið til hvar í fjöllunum þeir hafi verið, en yfirleitt er afrjettur Grafningasmanna og Ölfusinga nefndur Henglafjöll í fyrri tíðar ritum. Þeirra er getið tvisvar að mig minnir, og að hafa að líkindum verið oftar, þó það sje ekki í frásögur fært. Í Nesjum í Grafningi höfðu þeir eini sinni vetursetu sína, en voru teknir og þeim refsað.
Þegar jeg var unglingur heyrði jeg sagt frá því, að útilegumenn hefðu verið í Henglinum; þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hafði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þeir skipshöfn, sem hefði gert einhver níðingsverk, en aldrei heyrði jeg hver þau hefðu átt að vera.
Tóku þeir sjer nú stöðu í þessum helli og höfðust þar við, sumir sögðu í tvö ár, en aðrir aðeins eitt sumar, en hvort sannara er verður ekki vitað. Og ekki vissu menn heldur, hve margir þeir voru – jafnvel 6 eða 7, og tvær hlutakonur voru með þeim, og eru ef til vill líkur fyrir því.
Þeir höfðu með sjer langan kaðal eða stjórafæri og drógu konurnar upp í hellirinn og föng sín jafnóðum og þeir öfluðu þeirra, en það var mest sauðfje Ölfusinga og Grafningsmanna.
Nú þótti sveitamönnum hart á barið að verða að þola slíka óhæfu, en fengu ekki að gert um sinn. Er frá leið þá gerðu þeir ráð sitt og tóku sig saman eitt haust litlu fyrir fjallreið og lögðust í leyni margir saman úr báðum sveitum, Ölfusi og Grafningi – sem að vísu var þá sama þingsóknin – og bíða þess að hellisbúar færu úr hellinum í smalatúr og ætluðu þeim svo syndirnar og var þess skamt að bíða. Fóru nú allir úr hellinum, en sveitamenn skipuðu sjer sem fljótast fyrir hellisbergið að neðan og komu hellismenn innan skamms með fjárhóp. En nú var ekki greitt aðgöngu og enginn vegur að ná hellinum. Sveitamenn veittu strax svo harða aðsókn, að hinir hjeldust ekki við, enda var liðsmunur ákaflegur, því sveitamenn höfðu verið milli 50 og 60. Fjárrekstur útilegumanna tvístraðist brátt, enda gáfu menn þá engan gaum að fjenu.
Hellsimenn tóku nú að flýja hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af hinum mesta ákafa og mest þeir, sem fótfrástir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan og vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Þar eru melar og skriður, segja kunnugir menn; eru þar kölluð “Þjófahlaupin” enn í dag sem örnefni síðan. Allir voru hellsimenn drepnir, ýmist vestan í Henglinum, eða niður á Mosfellsheiði, því undan hlupu þeir slíku ofurefli meðan þeir gátu uppi staðið sökum mæði.
Nú voru hellismenn allir unnir, en fylgdarkonur þeirra voru enn í hellinum. Þær höfðu veitt hart viðnám, og svo er haft eftir þeim mönnum, sem í atförinni voru, að svo ilt sem hefði verið að sigra hellisbúa, þá hefði þó hálfu verra verið að vinna fylgikonur þeirra. En samt að lokum urðu þær teknar og fluttar burtu, og er ekki getið að þær sýndu neinn mótþróa eftir að þær komu undir annara manna hendur.
Jón hjet maður, sem kallaður var “yddú”, Jónsson ins harða í Ossabæ, Sigurðssonar Þorkelssonar Jónssonar.
Jón var fæddur 1777. Hann var hverjum manni flínkari, ófyrirleitinn og harðfengur í meira lagi, nokkuð ertinn og kappsfullur, starfsmaður mikill og þrekmaður hinn mesti. Ekki fara sögur af honum í æsku. Hefir hann líklega alist upp hjá foreldrum sínum. Þegar hann var um tvítugsaldur var hann vinnmaður í Reykjakoti. Þá var það eitt sinn í fjallgöngum, að Jón kleif upp í þennan umtalaða hellir útilegumannanna. Ekki getur þess, að Jón fyndi þar neitt merkilegt, en öskuleifar litlar voru í einum stað utan við hellisopið, enda hefir alt verið tekið burt þaðan, hafi nokkuð verið að taka, þegar útilegumenn voru unnir.
Nú var Jón í hellinum og hafði tvisvar gert tilraun að komast niður, en hikað við. Sá Jón nú, að ekki dugði, að vera þar til lengdar og rjeð því til enn að nýju og komst með naumindum alla leið niður fyrir hellisbergið og ómeiddur að öllu leyti. Hafði hann svo sagt, að ekki mundi hann leggja upp í aðra för í þann hellir. Hefir þetta verið kringum aldarmótin 1800, eftir því sem næst verður komist, og vita menn hjer ekki til að síðan hafi neinn maður farið upp í þennan hellir.
Það er og haft eftir Jóni “yddú”, að þegar útilegumennirnir komu með fjárhópinn, að þá hafi sveitarmenn skipað sjer í kring og slegið hring um þá, en þó sluppu þeir allir til að byrja með, og byrjuðu þá strax eltingar. Það hafði og verið mestur tálmi hjá hellismönnum, að þeir voru illa skóaðir, en sveitamenn betur búnir til handa og fóta, og mest höfðu hellismenn fallið fyrir grjótkasti og bareflum, er hinir höfu, en eiginlg vopn voru fá eða engin.
Sögu þessa hafði Jón “yddú” eftir Jóni harða föður sínum og Sigurði Þorkelssyni afa sínum, en Jón “yddú” sagði aftur Hávarði gamla Andrjessyni, en þeir voru samtíða á Völlum meir en 20 ár, en Hávarður sagði oft gömlum karli, sem enn er á lífi. Jón “yddú” var hrekkjóttur í uppvexti, en svi fimur, að til þess var tekið. Hann var og ágætur vinnumaður til hvers er taka þurfti, og eru fáeinar smásagnir til um hann.”
Þessi sama frásögn birtist síðan í Lögbergi 2. mars 1939, bls. 4-5.
Þegar skoðað var neðanvert umhverfi “útilegumannahellisins” mátti sjá að milli stórra steina undir honum mátti greina aflagaða hleðslu. Við endann á henni að sunnanverðu var skúti undir stórum steinum. Ofanvert var náttúrulegt aðhald. Þarna hefði mátt geyma fé án þess að til þess sæist úr dalnum. Tvö bein lágu þar við skútann.
Þrátt fyrir framangeinda lýsingu er ekki ókleift upp í hellinn. Hins vegar þarf að fara varlega, bæði upp og niður. Sennilega á lýsing Jóns við um helli skammt norðar í berginu. Þar er aflöng sylla, líklegasta hellisstæðið þegar horft er upp í hamarinn. Til að komast þangað þarf að fara með erfiðsmunum upp móbergsbrúnir, en öllu erfiðara er að komast niður aftur. Freistingin gæti þó auðveldlega leitt áhugasama þangað upp, en uppgötvunin hlýtur ávallt að valda vonbrigðum. Þrátt fyrir álitlegan helli neðanvert séð er um að ræða slétta og grunna stétt í berginu. Af ummerkjum að dæma (göt í berginu) má ætla að margir hafi lagt leið sína á þessan stað í vissu um að hann væri sá er leitað væri að.
“Útilegumannahellirinn” umræddi er skammt sunnar. Hann er, sem fyrr sagði, tiltölulega auðveldur uppgöngu. Þegar þangað upp var komið mátti sjá leifar af fyrirhleðslu. Innar var grjót er gæti verið leifa af beðum. Tveir leggir lágu undir vegg. (Næst verður málmleitartæki með í för.) Útsýni úr hellinum er frábært yfir Innstadal og Miðdal. Enginn maður hefði getað óséður komist að hellinum án þess að vistverjendur hefðu áður komið auga á hann.
Undir hellinum eru skjól undir klettum. Líklegt er, ef einhverjir hafi hafst þarna við um tíma, að þeir hafi nýtt sér aðstöðuna þar. Hleðsla hefur verið fyrir opi að norðanverðu, en hún fallið inn. Op er milli steina að austanverðu – sem sagt hið ágætasta skjól og vandfundið. Þá er og bæði kalt vatn til svölunnar og heitt í grenndinni soðningar. Sérstaka athygli þátttkenda vöktu skessukatlar undir hellinum. Í þá hefur ávallt verið hægt að sækja drykkjarvatn að sumarlagi, auk þess sem Hengladalsáin kemur upp svo til undir hellismunnanum.
Tveir einkaskálar eru í Innstadal, annar er staðsettur austast í dalnum (Hreysi), en hinn er norðan meginn fyrir miðju við Hengilinn (Lindabær). Þessir skálar eru lokaðir almenningi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Lesbók Morgunblaðsins, Þórður Sigurðsson, Tannastöðum, “Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra”, 29. jan. 1939, bls. 30-31.
-www.wikipedia