Færslur

Strandarkirkja

FERLIR hefur nokkrum sinnum áður bæði fetað og lýst Selvogsgötunni (Suðurferðagötu), hinni fornu þjóðleið millum Hafnarfjarðar og Selvogs.
UtvogsgataFáar, ef nokkrar, lýsingar eru hins vegar af síðasta áfanga götunnar, þ.e. frá “Skálanum” vestan Strandarhæðar niður að Útvogsrétt í Selvogi. Þegar gatan var rakin þessa leið reyndist það þó tiltölulega auðvelt viðfangs. Reyndar hverfur hún á kafla í túnrækt, en ef og þegar eðlilegri legu götunnar er fylgt í landslaginu má auðveldlega rekja áframhaldandi legur hennar, enda víða vörðubrot við hana að finna, ef vel var gáð. Gatan liggur ekki að Strönd, eins og ætla mætti, heldur að Útvogsréttinni fyrrnefndu. Þar greinist hún til austurs og vesturs, bæði á götuna ofan Fornagarðs og á kirkjugötuna skammt neðar (á millum hinna gömlu bæja).
Að teknu tilliti örnefna á svæðinu má sjá eftirfarandi í Örnefnaskrá fyrir Þorkelsgerði í Selvogi: “Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ. Þessar réttir eru enn notaðar. Réttin var flutt þangað eftir flóðið mikla 1925.
Utvogsgata-2Ofan túngarða tekur við Selvogsheiði. Er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Þorkelsgerðis- og Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði er land Eimu og Vogsósa. [Þarna fyrir ofan voru slægjupartar bæjanna (Þórður Bjarnason.]
Fyrir ofan túnin og veginn út að Strandarkirkju eru Þorkelsgerðisflatir. Þær eru uppblásnar nú, einkum næst bæjunum. Gata var frá túnhliði og í veginn upp frá bæjunum. Ofan garðs er Gunnustekkur á merkjum Þorkelsgerðis og Eimu. Ormsstekkur var austarlega í Þorkelsgerðislandi, austur undir Götumörkum. Vestar og ofar var Brynkastekkur, sem nú er kominn í kaf. Þar nokkru ofar er Stekkjarvarðan, áður nefnd, mið á innra sundið. Ofar og með veginum er klapparhæð, sem nefnd er Stóraklif, og á henni var Stóraklifsvarða. Austar er Austurklif, og á því var Markavarða milli Götu og Þorkelsgerðis, nú farin. Þá taka við Snældhólar, þar sem flatir minnka og móar taka við. 

Stekkjarvarda

Vegurinn liggur nú á milli þeirra. Snældhólar eru tveir, grænir grasi grónir hólar, ekki berir. Þeir eru svo lágir, að varla er tekið eftir þeim. Þegar kemur upp undir þjóðveg, taka við Dalhólalágar, eina graslendið, sem eftir var, annað blásið upp. Uppi undir þjóðveginum eru Dalhólar fyrir vestan veginn frá bæjunum. Þar er Dalhólabyrgi, skotbyrgi. Vestur af Dalhólum er Daunhóll, grasi vaxinn hnöttóttur hóll, og Eimuullhæðir sem tilheyra Eimu. Neshóll er grasi vaxinn bali eða hæð út í sandinn, eiginlega suðvestur frá Daunhól. Útvogsgata lá frá túngarðshliði í Þorkelsgerði, upp Dalhóla og upp hjá Skála, sem er rétt vestan við mörkin og því í Strandarlandi.”
Utvogsgata-3Hafa ber í huga að hæðin vestan Strandarhæðar, að sögn Þórðar Bjarnasonar frá Bjargi í Selvogi, er nafnlaus. Útvogsgatan (Selvogsgatan), liggur vestan við “Útvogsskálavarða” eða “Skálavörðuna (Skálann)”. Hún er áberandi kennileiti þegar farið er um hina fornu Selvogsgötu (Útvogsgötu) upp frá Útvogsrétt. Austan Skála eru Vellir. Skammt austar, neðan Strandarhæðar, er Árnavarða. Fornugötur liggja þarna um hæðina til austurs og vesturs. Þegar staðnæmst var við Árnavörðu á Dalhólum (sem Kristófer Bjarnason og fleiri endurhlóðu fyrir ekki svo löngu síðan, en hún var lengi eitt af kennileitum hæðarinnar) er þaðan ágætt útsýni, bæði yfir Selvogsbyggðina í suðri og fjöllin í norðri. Enn má vel sjá móta fyrir Fornugötu. Sunnar er Dalurinn. Vestar er varða (vörður), nefnd Dalhólabyrgi.
Utvogsgata-4Fyrrnnefnd ferhyrnd varða; “Skálinn”, er þó og verður um allnokkra framtíð, aðalkennileitið á hæðinni þegar ganga þarf um Selvogsgötu hina fornu. Hafa ber þó í huga að síðasti hluti leiðarinnar, að teknu tilliti til fyrrnefndar örnefnalýsingar, heitir Útvogsvegur. Líklegt þykir því, af bæði heimildum og ummerkjum að dæma, að gatnamót Selvogsgötu annars vegar og Fornugatna og Útvogsgötu hins vegar hafi fyrrum verið skammt norðan við “Skálann” vestan Strandarhæðar. [Þar byrjar Selvogsheiðin sunnanverð (Þórður Bjarnason).] Umleikis hana eru hleðslur. Þórður Sveinsson telur að þarna hafi fyrrum verið skáli, afdrep, t.d. fyrir smala í heiðinni. Minjarnar gætu alveg eins hafa orðið til vegna vegamóta er nefnd hafa verið.
Hvað sem öllum örnefnum líður er gatan augljós þarna frá hæðinni niður í Selvog. Hins vegar hefur nú verið gerður nýr vegur (Suðurstrandarvegur) neðan Strandarhæðar. Girt hefur verið beggja vegna vegarins. Þegar áhugasamt fólk vill feta hina gömlu götu kemur í ljós að girt hefur verið fyrir hana beggja vegna Suðurstrandarvegarins (Útvogsvegar). Klifra þarf því yfir tvær girðingar á leiðinni. Að vísu eru hlið á girðingunni, en þau eru allfjarri gömlu þjóðleiðinni. Úr þessu þyrfti að bæta.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði í Selvogi.

Selvogur

Við Sveinagerði í Selvogi.