Tag Archive for: Valaból

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel. Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Þá var haldið um Lambagjá upp í Helgadal þar sem nokkrir hellar voru barðir augum. Loks var gengið upp í Valaból og síðan um Valahnúka niður að Kaldárseli.

Kaldárssel

Í fjárskjól við Kaldársel.

Kaldársselssvæðið er nokkuð sérstakt, þótt ekki sé fyrir annað að það er bæði á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og innan Reykjanesfólksvangs. Auk þess er það eitt helsta útivistarsvæði Hafnfirðinga.

Lengi vel mátti sjá leifar veggja tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Loks voru þær sléttaðar út. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.
Kaldársel átti sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður sögum smábýla á þeim tíma. En sögu á þetta fona býli samt – “sigurljóð og raunabögu”. Kaldársel dregur nafn sitt af litlu ánni, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra frá Kaldá.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru sumarbúðir KFUM og K. Kvæðið er svona:

Kaldársel

Kaldársel – Helgafell fjær.

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.
Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin við Hvaleyrarvatn.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er, að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873.

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli um nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.
Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkra byggingar og önnur mannvirki.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.
Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt.
Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það samt.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Húsin voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamótin 1900. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert heillegt hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Margt er að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru félagsmanna KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum. Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop.
Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Valaból

Músarhellir í Valabóli.

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir. Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli, suðaustur af Kaldárseli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Framundan til suðausturs eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.
Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.
Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.

Kaldá

Kaldá í Kaldárbotnum.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru til hliða og framundan húsunum sunnanverðum, en þau hurfu ekki svo til alveg fyrr en KFUM og K húsið hafði risið í Kaldárseli árið 1925. Þegar síðan var byggt við litla húsið voru útihúsin sléttuð.
Sem fyrr sagði tilheyrði landið áður Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Gengið var að fjárhellunum norðan Kaldársels. Á Standinum er fjárborg, önnur af tevimur, sem þar voru. Hin, sú eystri, var fjarlægð á sínum tíma, sennilega verið notuð undir vatnsstokkinn. Gamlar sagnir eru til af hellum þessum. Þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Fjárhús undir Fremstahöfða.

Hellarnir, 6 talsins, fundust aftur tiltölulega nýlega á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.

Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Hraunið, sem kom úr Búrfelli, er um 7.000 ára. Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbotnum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður. Í vor voru í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið.

Kaldársel

Hleðsla undir vatnsleiðsluna.

Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal. Frá brúninni sjást nokkur misgengi. Eitt er t.d. eftir endirlangri Smyrlabúð og áfram út með Hjöllunum. Annað er í norðurbrún Helgadals og liggur í átt að Búrfelli. Kíkt var í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans voru í vor og síðan aftur í sumar þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í. Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.

Tvö nöfn eru á Rauðshelli; gamla nafnið er dregur nafn sitt af litnum, og einnig nafnið Pólverjahellir. Sumir hafa talið að hann væri svo nefndur eftir Pólverjum á skipi í Hafnarfjarðarhöfn, sem gist hafði í hellinum því hún fékk ekki inni í Hafnarfirði, en hið rétta er að ungir drengir úr Pólunum í Reykjavík, nefndir Pólverjar, dvöldu þarna um tíma.
Svo óheppilega vildi til að þegar hópurinn hafði komið sér fyrir innst í Rauðshelli heyrðust armæður og kvenstafir frá pari, sem lagst hafði til hvílu á bak við stóra steina í hellinum. Þar reyndust vera komin frú grýla og herra leppaúði. Báru þau sig illa yfir rúmraskinu og var því ákveðið að hverfa út úr hellinum svo þau gætu a.m.k. sofið þar enn um sinn.

Kíkt var í opið á Hundraðmetrahelli og síðan gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins. Þegar gengið var upp í gegnum hellinn var enn einn úr jólafjölskyldunni vakinn; kertasníkir. Hafði hann lagt sig yst í Fosshelli, en vaknað við umgang fólksins. Lét hann í sér heyra, en lagðist síðan til hvílu á ný, enda enn langt til jóla.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Frá Helgadal sést vel yfir að Búreflli í austri. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Þegar gengið er niður í Helgadal sét vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, upp í austanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Þegar komið var á jafnsléttu var gengið til suðurs með austanverðuverðu fjallinu, upp í Valaból. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir. Á Valahnúkum eru steingerð töll – í alvöru.

Kaldársel

Jólasveinn í einum fjárhellanna.

Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar.

Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.

Kaldársel

Forynjur í einu fjárskjólanna.

Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.
Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“ Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.

Allnokkru ofan við hellana í Helgadal er Rjúpnadalahraun. Í því, norðan við Húsafell, er hlaðin refagildra. Fjárskjól er í norðvestanverðu í Húsfelli og eru sagnir eru til um það. Framan við það eru gamlar hleðslur.

Frá Valabóli var gengið áleiis niður í Kaldárbotna þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa.

Valaból

Í Valabóli.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna. Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.
Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni.
Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Hundraðmetrahellir

Hundraðmetrahellir.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í dag nýtur Kaldársel ýmissa forréttinda. Í fyrsta lagi nýtur svæðið verndunar þar sem það er innan Reykjanesfólksvangs og hefur verið það í um 30 ára skeið. Í öðru lagi er Kaldársel innan vatnsverndar höfuðuborgarsvæðisins og í þriðja lagi nýtur Kaldársel og nágrenni sérstakrar verndar skv. þjóðminja- og náttúruverndarlögum.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldársel

Kaldársel.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldá til austurs, yfir hlaðna vatnsstokkinn frá fyrstu tímum vatnsveitunnar skömmu eftir þarsíðustu aldarmót (1916), framhjá opi Níutíumetrahellisins og áfram ofan barms Helgadalsgjár að fallegum reglulega lögðum klettum mitt á milli Búrfellsgjáar og Helgadals.

helgafellshellar-221

Í Rauðshelli.

Frá þeim sést gamla Selvogsgatan mjög vel þar sem hún liggur vestan Smyrlabúðar og á ská til suðurs yfir Mosana að Helgadal. Þar liggur hún niður með austasta Kaldárhnúknum og síðan áfram á ská upp gróna hlíðina í suðaustanverðum dalnum. Þar liggur gatan svo til alveg við forna tótt, sem þar er uppi í hlíðinni. Önnur gata hefur myndast síðar austan dalsins, en hún liggur austur fyrir Helgadalshæðir og áfram áleiðis upp í Valaból og Mygludali. Frá klettunum var líka stórkostlegt útsýni að Búrfelli, sem glitraði í kvöldsólinni.
Fyrir neðan klettana er hlaðinn stekkur, greinilega mjög gamall. Hann er ekki til, þ.e. hans hefur hvergi verið getið. Skammt sunnan við stekkinn er op Rauðshellis og skammt austar op Hundraðametrahellisins. Ekki var farið inn í hellana að þessu sinni, enda veðrið utan þeirra frábært.
Á meðan áð var í hlíðinni ofan við hellana kom þar að hópur fólks, greinilega mikið útivistarfólk í grænum, gulum, bláum og rauðum rándýrum úlpum, vatnsþolnum göngubuxum, gönguskóm af dýrustu gerð og göngustöfum í stíl við fatnaðinn. Það hlaut þó hafa fengið tilboð í bakpokana því þeir voru allir eins. Fólkið virtist hvorki hafa áhuga á hinum fornu tóttum í Helgadal né hellunum skammt frá. Kannski vissi það ekki af hvorutveggja. Það hafði elt göngustíginn.
“Heyrðu!”, sagði sá sem fremstur gekk við einn í hópnum. “Veist´u hvað þetta fjall heitir?”, og benti á Helgafell.
“Gott kvöld”, svaraði sá, sem ávarpaður var. Honum var litið niður á gallabuxurnar og strigaskóna sína. Og íslenska lopapeysan hans virtist alveg út úr kortinu þessa stundina. “Þetta fjall…”, svaraði hann, leit upp og horfði á manninn. “Þetta litla fjall getur nú ekki heitið mikið”. FERLIRsþátttakandinn leit á einn félaga sinn og brosti. Hann hafði greinilega heyrt þennan einhvers staðar áður.

Raudshellir-221

Í Rauðshelli

“Veit eitthvert ykkar hvað þetta fjall heitir?”, spurði þá maðurinn og snéri sér að öðrum FERLIRsþátttakendum.
“Nei, við vorum að koma”, svaraði ein í hópnum. “Ég er úr Reykjavík, sjáðu til. Ég veit bara að þetta er ekki Hekla”, bætti hún við. “Hvaðan eruð þið?”, spurði hún síðan.
“Við erum úr Hafnarfirði”, svaraði einn úr hinum hópnum.
“Hafið þið búið það lengi”, var þá spurt.
“Þessi hjón hafa búið það í þrettán ár”, svarað

i foringinn og benti á par í stíl, “en við hin höfum bara búið þar í ellefu ár”, bætti hann við. “Við ákváðum nýlega að byrja að hreyfa okkur svolítið og höfum gengið um svæðið þarna”. Hann benti á Kaldársel. “Og svo höfum við gengið upp gjá einhvers staðar þarna”, sagði hann og benti í áttina að Búrfellsgjá. Aðrir snéru sér eftir því sem maðurinn benti.
Búnaður fólksins var greinilega góður, en nöfnin á landslaginu yrði því bara byrði.
“Hvert eruð þið að fara?”, spurði FERLIRsþátttakandinn.
“Þangað”, svaraði maðurinn og benti í átt að Valahnúkum.
“Í Músarhelli?”
“Eru mýs þarna”, spurði þá ein í hópnum. Angistin skein úr augum hennar.
“Eða ætlið þið kannski að skoða tröllin”?, spurði annar.
Fólkið leit hvert á annað. “Eigum við ekki bara að fara til baka”, spurði sá yngsti í hópnum og leit á foringjann.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

“Hafið þið reynt að skoða landakort”?, spurði þá einn FERLIRsþátttakandi og vildi greinilega reyna að gera gott úr öllu saman. Óþarfi að hræða byrjendur. “Það, sko, er alltaf betra að vita hvar maður er staddur”, bætti hann við og brosti.
Hin litu hvert á annað. Síðast sást til ofurútbúna fólksins þar sem það beygði vestur með vatnsverndargirðingunni, stystu og öruggustu leið að bílunum. Þau hafa sennilega ætlað að ná sér í landakort.
“Það mun líklega enginn trúa okkur ef við segjumst hafa séð álfa í þessari ferð”, varð einum að orði.
FERLIRsþáttakendur gengu hins vegar áleiðis að Valahnúkum, komu við í Valabóli og gengu síðan upp skarðið að Tröllunum, háum grannskornum berggangi þvert í gegnum hnúkana. Tröllafjölskyldan tók sig einstaklega vel út sem hún stóð þarna hnarrreist. Hrafnshreiður er í hæsta Hnúknum. Krunkið í krumma bergmálaði í kyrrðinni. Helgafell baðaði sig í kvöldsólinni.
“Það þarf eiginlega að merkja þetta betur”, varð einum að orði. “Hér er ekkert skilti sem segir hvað fellið heitir”. Brúnsvört lopapeysan hans féll vel inn í landslagið.
Gengið var eftir vegarslóða niður að Kaldárbotnum og að upphafsstað.
Gangan tók rúmlega klukkustund. Veður var frábært – eins og áður hefur komið fram.

Helgafell

Helgafell – séð frá Valahnúkum.

Valaból

Valaból, sunnan við Hafnarfjörð, hefur á stundum verið nefnt fyrsta Farfuglaheimilið á Íslandi. Fljótlega eftir að Bandalag íslenskra farfugla var stofnað árið 1939 var hafist handa við að leita að hellisskútum sem unnt væri að nota sem gististaði. Fyrstur fyrir valinu varð Músarhellir við Valahnúka, sunnan við Hafnarfjörð.
MúsarhellirFékk staðurinn snemma nafnið Valaból og hefur hann verið þekktur undir því nafni æ síðan. Engar öruggar heimildir finnast um það hvers vegna hellirinn fékk nafnið Músarhellir. En tvær tilgátur hafa einkum verið í gangi. Önnur er sú að hellirinn hafi verið svo lítill að hann minnti einna helst á músarholu. Hin kenningin er að mýs hafi leitað í nesti gangnamanna, en hellirinn var notaður sem náttstaður gangnamanna fram undir 1900.

Eina opinbera staðfestingin á landnámi Farfugla í Valabóli er að finna í fundargerðarbók Bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 13. júlí 1942 og er hún þannig: Farfugladeild Reykjavíkur fer fram á leyfi til þess að mega innrétta og hlaða fyrir hellisskúta norðanvert í Valahnjúkum. Bæjarráð leggur til að þetta leyfi verði veitt meðan ekki kemur í bága við annað sem talið er nauðsynlegra.

Frá upphafi átti Valaból að gegna tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi að verða áninga- og gististaður Farfugla og annars útivistarfólks, Farfuglahreiður. Í öðru lagi var hugmyndin að lagfæra og fegra umhverfi hellisins og gróðursetja blóm og tré.

Strax eftir að þetta leyfi var veitt hófust Farfuglar handa við að standsetja hellinn. Hann var mokaður út, því það var langt í frá að hann væti Í Valabólimanngengur. Var gólfið lækkað um hálfan metra og segl sett á moldargólfið. Auk þess voru veggir hlaðnir og sett var upp hurð með glugga. Þegar grafið var út úr hellinum fundust þar bein og fyrirhleðsla sem bentu til þess að einhvern tíma í fyrndinni hafi fólk dvalist í hellinum. Síðar var segldúknum skipt út fyrir trégólf, innréttingar gerðar og komið var upp aðstöðu til eldunar. Þá voru geymd þar ullarteppi sem voru næturgestum til afnota. Komu þau í góðar þarfir því hellirinn var óspart notaður til gistingar. Trégólfið var í hellinum allt fram til 1960 en þá var það orðið svo fúið að það var fjarlægt ásamt eldunar- og viðlegubúnaði. Um leið og trégólfið var fjarlægt var gólfið enn lækkað og það lagt steinhellum.

Fyrstu árin eftir að Músarhellir var gerður upp var hann mikið notaður til gistingar. Sú hefð skapaðist fljótt að hafa gestabók í hellinum og er svo enn í dag. Þessar gestabækur eru frábær heimild um þá stemningu sem myndaðist á staðnum og þann mikla fjölda gesta sem árlega heimsækir staðinn.

Við Valaból

Eftir að búið var að lagfæra hellinn og gera hann nothæfan fyrir gistingu var hafist handa við ræktunarstarf. Fyrst verkefnið var að girða nágrenni hellisins, en þar sem ekki var bílfært lengra en í Kaldárbotna varð að bera þaðan allt girðingarefnið. Við girðingarframkvæmdirnar var reynt eftir föngum að nota náttúrulegar hindranir, s.s. kletta sem hluta girðingarinnar. Annars staðar voru hlaðnir steingarðar og á sléttlendi var sett upp girðing á staurum.

Í Valabóli

Eftir að búið var að girða af svæðið var hafist handa við að undirbúa landið fyrir gróðursetningu því það var mest stórgrýtisurð og því illa fallið til ræktunar. Fyrst var stórgrýtinu safnað saman til að hlaða úr því stalla, síðan fyllt ofan á það með smærra grjóti, leir og öðru sem fyrir var og loks var sett mold til þess að unnt væri að þekja svæðið. Lítið var um farartæki á þessum árum og þurfti því að bera mold, þökur, áburð og annað sem til þurfti langan veg.

Mikill hugur var í mönnum við gróðursetninguna og fljótlega þurfti að fá leyfi til að færa út girðinguna. Til eru heimildir um að Farfuglar hafi 5 sinnum sótt um það til Hafnarfjarðarbæjar að stækka svæðið. Síðast var svæðið stækkað 1990 og var girðingin þá færð á þann stað sem hún er nú. Síðustu framkvæmdir í Valabóli áttu sér stað sumarið 2004 en þá var girðingin kringum svæðið lagfærð. Var þar um að ræða samstarfsverkefni Hafnafjarðarbæjar og Farfugla.

Valaból

Þrátt fyrir erfið skilyrði til ræktunar má fullyrða að árangurinn hafi verið vonum framar. Samkvæmt flórulista sem byggður var á athugunum Gests Guðfinnssonar og Mattihasar Guðfinnssonar 24. júlí og 23. ágúst 1970 þá fundust alls 103 innlendar plöntur og 9 erlendar í Valabóli þetta sumarið. Það eru ekki eingöngu hin náttúrulegu skilyrði sem hafa tafið uppgræðsluna í Valabóli heldur hefur ágangur sauðfés verið mikill í svæðið, enda gróðurlítið á stóru svæði umhverfis. En eftir að mönnum tókst að setja upp fjárheldar girðingar tók gróðurinn verulega við sér og tegundum fjölgaði.

Segja má að Valból sé sannkölluð vin í eyðimörkinni í Reykjanesfólkvanginum og er staðurinn í dag vinsæll áningarstaður gangandi fólks og hestamanna.

Heimild:
-www.hostel.is

Valaból

Valaból – Músarhellir 1952.

Rauðshellir

Árni Óla skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1946 „Um hraun og hálsa“:

Árni Óla

Árni Óla.

„Fyrir sunnan og austan Hafnarfjörð oru nokkrir dolerításar með stefnu frá norðvestri til suðausturs og dalir á milli. Í grjótinu í ásum þessum er mikið af „olivirí“, gulum krystöllum, og heldu útlendingar lengi vel, að hjer væri um sjerstaka tegund af grjóti að ræða, og kendu hana við Hafnarfjörð og kölluðu „Havnefjordit“.
Vestasti ásinn nær frá Hvaleyri og hamrinum við Hafnarfjörð fram á móts við Undirhlíðar. Aðskilur hann Hafnarfjarðarhraun og Kapelluhraun. Um uppruna nafnsins Kappelluhraun er svo sagt: Yfir Kapelluhraun er vegur svo vel lagður, að hann má skeiðríða. (Var það áður en bílvegurinn kom). En enginn veit af hverjum eða hvenær hann hefir verið lagður. Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rjett við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir, að þar sjeu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir voru í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551. En ólíklegt er að það muni satt vera.
Skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð er Ásfjall og er það hæsti hnúkurinn á þessum ásum. Fyrir sunnan það heitir hraunið Brunahraun eða Bruni. Þar er vegur til Kaldársels og var kallaður Stórhöfðavegur.

Selvogsgata

Selvogsgata undir Setbergshlíð.

Næsti ásinn er nefndur Setbergshlíð, og sá þriðji Vífilstaðahlíð, en Vífilstaðaháls er austur frá Vífilstöðum frá suðri til norðurs og þá Arnarnesháls. Frá Setbergi og fram undir Kaldársel gengur daldrag, sem gjarna mætti kalla Kaldárdal, því sennilega hefir Kaldá runnið um hann áður en hraunflóðið kom, sem fallið hefir um dalinn niður að Hafnarfirði og þaðan fram á Álftanes og er fyrst kallað Gráhelluhraun og suður að Kaldárseli meðfram vesturbrún hraunsins. Er hraunið víða úfið og brotið, hefir sporðreist og hlaðist upp á sumum stöðum, en sums staðar með djúpum skvompum og skorum.
Heiðin að sunnan heitir vestast Sljettahlíð. Er hún kjarri vaxin og graslendisræma milli hennar og hraunsins. Þarna hafa Hafnfirðingar reist sumarbústaðahverfi, og eru þar nú milli 20 og 30 snotrir sumarbústaðir í röð undir hlíðinni. Er þarna viðkunnanlegt og verður með tímanum mjög fagurt, því að hver maður er að rækta hlíðina upp frá sínum bústað og gróðursetja þar blóm og trje.

Selvogsgata

Selvogsgata vestan Setbergshlíðar.

Milli Setbergshlíðar og Vífilstaða hlíðar er annar dalur, og eftir honum hefir runnið önnur kvísl af Hafnarfjarðarhrauni og dreifir úr sjer á sljettunni fyrir vestan Vífilstaði. Liggja traðir úr Vífilstaðahlaði þar þvert yfir hraunið, og víða meðfram þeim eru bekkir fyrir sjúklinga hælisins. Er hraunið þarna gróið og kjarri vaxið og eru þar margir yndisfagrir staðir, sem sjúklingar munu áreiðanlega lengi minnast af hlýum huga, því að þessir staðir hafa sjálfsagt veitt þeim hugfró og unað í mótlæti þeirra.

Selvogsgata

Selvogsgata – örnefni.

Dalurinn þarna fram af er svipaður hinum, nema hvað hraunið er öllu stórbrotnara og þegar vestur úr dalnum kemur og það nálgast upptök sín verður það æ hrikalegra og þó fegurra, með mörgum gjám og kötlum. Er víða mikill gróður þarna innan um hinar furðulegustu klettaborgir. Fyrir mynni dalsins er lágt fell, sem Smalafell nefnist. Af því er góð útsýn yfir hraunið og lægðina þar fyrir sunnan, þar sem mikið landsig hefir orðið einhvern tíma.
Rjett fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur. Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri áður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmis merki við hann, svo sem smávörður, trjestaurar, eða járnhælar. sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hjer í óbygðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist mest gangstjett. Liggur hún þvert suður yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn fyrir austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast fram hjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sinn hvoru megin við jarðfallið.

Kaldá

Kaldá.

Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan beygir vegurinn vestur að Kaldárseli. Einu sinni var bygð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að engin vissi fyr en nokkuð seinna að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum reistu skátar þarna skála og höfðu þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. Er viðkunnanlegt þarna og hafa börnin unað sjer vel, enda frjálst um svo fjarri mannabygð og í návist fjallanáttúrunnar.

Helgafell

Helgafell – móbergsfjall.

Yfir Kaldárseli gnæfir Helgafell. Það er nokkuð hátt og illt uppgöngu nema að austan. Af því er ágætt útsýni yfir hraunin og gosstöðvarnar þar um kring.
Undir Helgafelli eru Kaldárbotnar í kvos nokkurri. Eru þar margar uppsprettur og mynda fyrst dálítið lón. Þangað sækir Hafnarfjarðarbær vatn sitt, og er sú vatnsleiðsla eldri en vatnsveita Reykjavíkur. Stíflugarður hefir verið hlaðinn fyrir lónið og frá honum liggur opinn timburstokkur norður yfir sljetta hraunið og Gullkistugjá, fyrir norðan Kaldársel. Hefir orðið að hlaða geisimikinn og háan steinvegg þvert yfir gjána undir stokkinn. Þar skamt frá er svo vatnið tekið í pípur og leitt til Hafnarfjarðar. En það er nú orðið viðsjárvert að hafa þennan langa opna stokk, og uppspretturnar ógirtar.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Stokkurinn er víða farinn að gefa sig og lekur drjúgum. Er einkennilegt að sjá það efst, að vatnið, sem niður lekur rennur í þveröfuga átt við rennslið í stokknum, og sameinast Kaldá. Rennur hún svo niður hjá Kaldárseli og þar í hálfhring, eins og hún sje að villast, en steypir sjer svo á kaf niður í hraunið og sjest ekki meir. Jörðin gleypir hana með öllu. Hefir mörgum þótt þetta furðulegt, og hefir þjóðtrúin spunnið út af því hinar furðulegustu sögur. Getur Eggert Ólafsson þess í ferðabók sinni, að menn haldi að Kaldá renni neðanjarðar alla leið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Getur hann þess einnig, að í samræmi við þessa tilgátu manna sje farvegur hennar þannig sýndur á hinu nýasta Íslandskorti, sem gert var á konungs kostnað.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – stífla.

Brynjúlfur Jónsson á Minna-Núpi segir, að það sje almælt, að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, er Kaldá er nefnd, eitthvert hið mesta vatnsfall á Íslandi. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar sem nú eru Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Sje sagt að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sjé úr henni. Er það haft til sannindamerkis, að hinir svonefndu Vesturvellir ofan frá Hengli til Litlafells, Fóelluvötn og þaðan niður undir Hólm líkist gömlum árfarvegi. En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, misti í hana tvo sonu sína, og kvað hana því niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.

Helgadalur

Helgadalur.

Skammt fyrir austan Kaldársel er Helgadalur, djúp hvos með dálítilli tjörn. Er þráðbeint hamrabelti að norðan en grösugar hlíðar á tvo vegu. Er þarna tilvalinn og skemtilegur áfangastaður fyrir þá, sem kanna vildu fjallaslóðir þar um kring. Þaðan má fara t.d. Grindaskarðaveg upp undir fjöllin og síðan austur á við milli hrauns og hlíða um svonefnda Kristjánsdali.
Þar er ekkert vatn, en mjög grösugt. Þar voru áður geymdir hestar lestamanna þeirra, er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og var þá bygður kofi þar. Er svo haldið austur með yfir hraunfossana, og niður með Vífilfelli á Suðurlandsbraut.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Þá er og skemmtilegt að fara Grindaskarðaveg, yfir Heiðina há. Það er geisimikil elddyngja, lík í lögun og Skjaldbreiður, og um 700 metrar á hæð. Útsýn er þar víð og fögur í góðu veðri, sjer yfir alt Suðurlandsundirlendið að Eyjafjöllum, inn til jökla og vestur á Snæfellsnes. Vegurinn suður af liggur niður í Selvog, og er þar á brúninni fyrst komið að vörðu þeirri, er hinn alkunni galdramaður, síra Eiríkur í Vogsósum hlóð á sínum tíma.
Frá Kaldárseli er hæfileg gönguför upp í Brennisteinsfjöll. Er það aflangur fjallahryggur uppi á Lönguhlíð. Í austurhlíð þeirra eru óteljandi gígar og standa mjög þjett, og frá þeim hafa hraunfossar steypst niður hlíðina. Breiða hraunin síðan úr sjer yfir mikla sljettu, sem er þar á milli og Bláfjalla og Heiðarinnar há, en sljettu þessari hallar suður að brúnum fyrir ofan Stakkavík í Selvogi og Herdísarvík, og halda menn að hraunfossarnir sem steypst hafa þar fram af hengifluginu, sjeu komnir úr gígunum í Brennisteinsfjöllum. Mundi það hafa verið hrikaleg sjón, ef einhver hefði verið til að horfa á, er glóandi hraunið kastaðist í stórum fossum fram af bjargabrún.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – náma.

Upp úr hrauninu í austurhlíð Brennisteinsfjalla, koma gufur sums staðar og litlir brennisteinsblettir eru utan í rönd þess. Á því hafa menn þóst vita að þarna væri brennisteinsnámur og hafa svo gefið fjöllunum nafn af því.
Sumarið 1851 ferðaðist Jón Hjaltalín landlæknir nokkuð hjer um land til að rannsaka brennisteinsnámur, þar á meðal námurnar í Krýsuvík. Frjetti hann þá um þessar námur uppi í Brennisteinsfjöllum, og fór að spyrjast fyrir um það hvar þau væri, en svörin voru mjög sitt á hvað, sagði einn þetta annar hitt. Var það ekki fyr en að áliðnu sumri, að hann fann mann úr Selvogi, sem kvaðst þekkja fjöll þessi. Bauðst hann til að fylgja Jóni þangað, og lögðu þeir á stað í það ferðalag skömmu fyrir veturnætur. Fann Jón þarna fjórar námur og leist mjög vel á 3 þeirra. Þær eru í Krýsuvíkurlandi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

Sjö árum seinna (1858) keypti Englendingur nokkur, J.W. Busby að nafni þessar námur og Krýsuvíkurnámurnar fyrir milligöngu dr. Jóns Hjaltalíns. Eftir kaupbrjefinu máttu Englendingar taka allan brennistein í Herdísarvíkur og Krýsuvíkur landareignum svo og allar málmtegundir, er þar kynni að finnast, og ýmis önnur rjettindi voru þeim áskilin. Seljendur voru þeir síra Sig. B. Sivertsen á Útskálum og Sveinn Eiríksson í Krýsuvík og var söluverðið 1400 dalir.
Var nú stofnað námuhlutafjelag í Englandi og hafið brennisteinsnám. En fjelagið tapaði og gengu hlutabrjefin kaupum og sölum, og óvíst hvar þau eru nú niður komin.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

En í Brennisteinsfjöllum má enn sjá verksummerki eftir brennisteinsnámið. Á dálítilli grasflöt við læk eru rústir húsanna, sem Englendingar reistu og skammt þar fyrir sunnan eru námurnar. Hefir ekki verið neinn hægðarleikur að vinna þær, því að þær eru undir hrauninu. Hafa Englendingar brotið þar stórar skvompur í hraunið, urðu að brjóta um tveggja mannhæða þykkt blágrýtishraunið til þess að komast að brennisteininum, því að hann hefir sest í glufur og hraunholur niður undir jörð. Hitinn í gufuholunum þarna er talinn vera 26—78 gráður. Hefir gufan soðið og etið hraunið í sundur allavega og umbreytt því, svo að þar hafa myndast krystallar og marglitir steinar, sem gaman er að eiga.
Leiðin frá Kaldárseli upp í Brennisteinsfjöll liggur um Kerlingarskarð, sem er rjett fyrir sunnan Grindaskarðaveginn. Eru þar á brúninni margir gígar og úr þeim hafa komið hraunin fyrir neðan Langahlíð. Einn af stærstu gígunum á þessum slóðum er Kistufell. Er af því víð og mikil útsýn. Gígurinn er mikill um sig og um 70 metra á dýpt. Vestan við Kistufell er viðsjált hraun. Eru þar sums staðar hringlaga gígop, þverhnýpt niður og svo djúp, að jökull er í botni þeirra.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Óteljandi gjár og hellar eru í hraununum á öllu þessu svæði, er nú hefir verið lýst, alt frá sjó og upp á Heiðina há. Kann jeg ekki nöfn á þeim, enda yrði það of löng upptalning, eigi heldur allar gjár skírðar, nje allir hellar fundnir enn.
Þegar Árni prófastur Helgason var í Görðum á Álftanesi samdi hann sóknarlýsingu og segir í henni: „Gjár eru víða í þessum hraunum, sumar bæði langar og djúpar. Merkilegastar þekki jeg tvær, sem liggja samsíða frá austri til vesturs fyrir ofan Setbergshlíð, og er ei lengra á milli en svo sem 100 faðmar, að jeg ætla. Í vatn sjer niður í þeim og er langt niður að því; sums staðar eru þetta fremur sprungur en gjár og sums staðar vottar ekki fyrir þeim. — Svokallaðir Norðurhellar eru hjá Vífilstaðahlíð og Kjötshellir í Setbergshlíð. Rauðshellir er skamt fyrir norðan Helgafell. Í honum eru pallar sjálfgerðir er bæði má sitja á og smjúga undir, og ná þeir yfir þveran hellirinn. Margir hafa grafið nöfn sín í bergið í Rauðshelli, sem þangað hafa komið. Sum staðar er hvað skrifað ofan í annað.“

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Eins hellis enn verður hjer að geta, ekki vegna þess að hann sje stór nje merkilegur frá náttúrunnar hendi, heldur vegna þess að Farfuglar hafa gert hann að bústað sínum. Hellir þessi er uppi í kletti nokkrum austan undir Valahnúk. Hann er rjett manngengur þar sem hann er hæstur. Þeir hafa sett fyrir hann hurð og komið fyrir tveimur gluggum, og síðan gert þar fjalagólf. Geta 8—10 menn sofið þarna á gólfinu í svefnpokum, og mun oft svo gestkvæmt þarna, bæði sumar og vetur. Umhverfis er afgirtur dálítill blettur, klettakvosir og brekka sem hefir verið ræktuð. Hafa þeir sáð þarna blómum og gróðursett trjáplöntur, og gert staðinn einkennilega fallegan og aðlaðandi. Verður þó betra seinna, því að alt er þetta svo að segja í byrjun. En alt, sem þarna hefir verið gert, lýsir smekkvísi og ást á náttúrunni, en hún er aðalsmerki allra farfugla.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 28. tbl. 01.09.1946, Um hraun og hálsa – Árni Óla, bls. 349-353.

Valahnúkar

Valahnúkar – tröll.