Tag Archive for: Valhúsahæð

Hernám

Herminjar eða stríðsminjar eru fjölmargar á höfuðborgarsvæðinu – og víðar. Á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi eru þær fjölmargar, s.s. grunnar undan bröggum og varðskýlum, götur, byssuhreiður, skotgrafir og -byrgi, auk hins forna Þvergarðs yfir hæðina.

Valhúsahæð

Á Valhúsahæð 1910.

Í „Fornleifaskráningu á Seltjarnarnesi“ frá 2006 segir m.a. um Valhúsahæð: „Umsvif hersins á Seltjarnarnesi voru töluverð og einna mest á Valhúsahæð. Á hæðinni voru settar upp
loftvarnabyssur til þess að verja innsiglingu Reykjavíkur. Af loftmyndum má m.a. sjá að talsverðar herminjar hafa verið þar sem núverandi kirkja Seltirninga stendur. Samkvæmt upplýsingum Þór Whitehead var þetta svæði við Nesveg nefnt Grotta Camp. Valhúsahæð hefur verið umturnað talsvert þar sem kirkjan var byggð. Engar herminjar sjást nú þar sem kirkjan stóð en reyndar virðist stærstur hluti herminjanna hafa verið norðar og NNV við kirkjuna. Kirkjan var reist snemma á 9. áratugnum. Í fornleifaskráningu frá 1980 voru allar
herminjarnar á þessu svæði skráðar saman undir einu númeri og þeim ekki lýst að ráði.

Valhúsahæð

Á Valhúsahæð 2020.

Árið 1906 var vígð ný skólabygging fyrir Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Húsið stendur enn. Það er sunnan við Kirkjubraut þar sem hún beygir frá norðvestri til VSV. Skólinn varð aðsetur hermanna fyrst eftir hernámið um vor og sumar 1940. Á sama stað, nánar tiltekið við skólahúsgirðinguna, var rekin veitingakrá fyrir hermenn, á hernámsárunum. Kráin var fyrst rekin án leyfis frá hreppnum en síðar var veitt leyfi til veitingasölu meðan brezka setuliðið hafði búsetu á Nesinu. Lýsing á skólahúsinu er að finna í Seltirningabók.

Valhúsahæð

Varðskýli á Valhúsahæð.

Á hernámsárunum reis talsvert stórt íbúðarhverfi hermanna á og við Valhúsahæð. Hverfið var nefnt Grótta kamp. Það var þar sem nú er skóla og íbúðarhverfi milli gatnanna Suðurstrandar og Kirkjubrautar, vestan Nesvegar. Hverfið var að stórum hluta innan þess lands sem tilheyrði Mýrarhúsum en hefur líklega náð inn í landareign Hrólfsskála.

Valhúshæð

Skotbyrgi á Valhúsahæð.

Í Seltirningabók segir: “ Í Grotta Camp, sem var stærsta braggahverfið, var 536. brezka stórskotaliðssveitin staðsett, en hún var sérhæfð í strandvörnum. Þar voru líka menn úr verkfræðingasveitinni Det. Renfrewshire Fortress. Samkvæmt Þór Whitehead má tala um a.m k. tvö hverfi á þessum slóðum, annars vegar sk. RAF Camp sem var á Valhúsahæð suðvestanverðri og hins vegar Keighly (sem kallað var Adams Camp frá júlí 1943) var syðst í braggabyggðinni við Mýrarhúsaskóla. Samkvæmt Þór var RAF Camp vestan við Keighly/Adams Camp og varð síðar hluti af því. Í RAF Camp bjuggu liðsmenn ratsjárstöðvarinnar bresku frá 1941. Á þessum slóðum hefur nú byggst upp íbúðarhúsahverfi, þarna er grunnskóli o.fl. stofnanir.

Valhúsahæð

Skotbyrgi á Valhúsahæð.

Inn á örnefnaloftmynd frá 1978 er merkt varða á hæsta punkti Valhúsahæðar, þar sem nú er útsýnisskífa og steinsteypt merki dönsku landmælingamannanna. Samkvæmt Guðrúnu Einarsdóttir sem gerði B.S. ritgerð um örnefni á Seltjarnarnesi 1979 og ræddi við fjölda heimildamanna, gat enginn þeirra staðsett þessa vörðu nákvæmlega, né höfðu um hana heyrt. Ekki er ólíklegt að hún hafi verið landamerkjavarða þar sem merkin lágu um háholtið. Hugsanlegt er og að svonefnd „Litlavarða“ hafi einnig verið landamerkjavarða, litlu norðvestar. Um þetta verður þó ekkert fullyrt enda eru vörðurnar löngu hrundar og horfnar. Á svipuðum stað og varðan á háholtinu, eða jafnvel á sama stað, var einnig ljósker fyrir sjófarendur, sett upp síðla á 19. öld.

Valhúsahæð

Ummerki efst á Valhúsahæð.

Varðan hefur verið á hæstu hæðinni en engin merki sjást um hana nú. Um ljóskerið er fjallað í Seltirningabók. Þar segir: „Ljóskerið var sett upp árið 1883 og kostuðu bændurnir það fyrstu tvö árin en bæjarfógeti í Reykjavík tók að sér að greiða kostnaðinn 1885.“ Árið 1892 eru varðveitt bréf um að staðið hafi til að setja upp kúlumyndað ljós á Valhúsahæð í stað þess gamla. Líklega hefur af því orðið en það ljós mun ekki hafa logað í mörg ár, aðeins fram til 1895 þegar farið var að huga að ljósi og síðar vita í Gróttu.

Valhúsahæð

Skotbyrgi og skotgrafir á Valhúsahæð.

„Valhúsahæð nefnist hæsta hæðin á Seltjarnarnesi. Sagt er að þar hafi verið hús fyrir fálka konungs. … Varða, sem nefndist Litlavarða, var ofan við Skólabraut 1. Laut var sunnan undir henni. Þar var hleðsla, og þar var talið, að fálkahúsið hefði verið. Nú hefur verið ýtt ofan í lautina,“ segir í örnefnaskrá. Engin ummerki sjást nú um Valhús né heldur Litluvörðu sem miðað er við í örnefnalýsingu. Svæðinu hefur mikið verið rótað.

Hér verður lýst þremur mannvirkjum af mörgum á norðvestanverði Valhúsahæð:

Valhúsahæð

Skotbyrgi og skotgrafir á Valhúsahæð.

„Leifar [fyrstu] húsarústar sem hér er lýst eru á norðvestanverðri hæðinni. Rústin er um 270 m vestur af merki dönsku landmælingamannanna (sem er á hæsta punkti Valhúsahæðar), beint suðaustur af Vesturströnd 31 og fast austan við Þvergarð. Í kringum húsarústina er melur sem er að hluta gróinn, en mjög stórgrýttur. Mannvirkið var skráð í fornleifaskráningu frá 1980. Í henni segir: “ Varðhús? Húsið skiptist í tvo hluta, 3×5 m og 4×5 m. Í öðrum hlutanum eru uppistandandi veggir, 1-2 m háir. Þeir eru hlaðnir úr grjóti og límdir með steypu.“ Húsarústin er tvískipt og hefur hús þetta því að líkindum haft tvö herbergi þegar það var undir þaki. Alls er rústin um 7×5 m að stærð og snýr norður-suður. Veggir syðri hlutans eru hrundir og hafa sennilegast verið rifnir. Eftir stendur steyptur grunnur. Nyrðri hlutinn er mun heillegri, veggir hans standa mest í 2 m hæð og eru um 0,5 m þykkir. Veggirnar eru hlaðnir úr litlu og meðalstóru grjóti og er steypt á milli umfara, sem eru mest um 9 talsins. Í norðausturhorni nyrðra herbergisins stendur steyptur stöpull upp úr gólfinu. Stöpullinn er 1,4 m á hæð og er 0,3 x 0,3 m að þvermáli. Hlutverk stöpulsins er óljóst.

Valhúsahæð

Landamerkjasteinn á Valhúsahæð.

Leifar [annars] mannvirkis sem hér er lýst eru á norðvestanverðri hæðinni. Tóftin er um 26 m suðaustan við framangreinda rúst og um 80 m norðaustan af landamerkjasteini. Stórgrýti er á melnum í kringum tóftina.
Mannvirkið var skráð í fornleifaskráningu frá 1980. Í henni segir: „Skotbyrgi? Rúst, um 9×9 m. Veggir hlaðnir úr torfi og grjóti, hæstir um 50 cm. Dyr virðast snúa í austur og vestur.“ Nyrðri hluti rústarinnar er hringlaga tóft með tveim hólfum, en syðri hlutinn er þverþveggur sem virkar líkt og skjól fyrir tóftina. Vestara hólfið í tóftinni er opið til suðurs, að þverveggnum, en ekkert op er hægt að greina á eystra hólfinu.

Valhúsahæð

Þvergarður á Valhúsahæð.

Leifar þess [þriðja] mannvirkis sem hér er lýst eru á norðvestanverðri hæðinni. Tóftin er 50 m norðaustan við landamerkjasteininn. Mannvirkið var skráð í fornleifaskráningu frá 1980. Í henni segir: „Skotbyrgi? Rústin er U-laga um 5 x 6 m, og þverveggur fyrir. Undirstöður úr torfi og grjóti, hæð veggja mjög óregluleg, en þykkt um 1 m. Tvennar dyr eru á rústinni þar sem langveggir og þverveggur mætast. Dyrnar eru um 0,5 m á breidd og snúa í NNV og SSA.“

Skotgröfunum umleikis minjarnar á norðvestanverðri hæðinni er ekki lýst sérstaklega.

Þór Whitehead hefur það eftir Friðþóri Eydal að kampur, kallaður Curtis Bay Beach, hafi verið í landi Mýrarhúsa, á milli þeirra og Nýjabæjar. Samkvæmt upplýsingum Þór kannaðist Skúli Ólafsson, sem vel er kunnugur á Nesinu, ekki við kampinn. Hann er horfinn í íbúðarhúsabyggð og ekki reyndist unnt að staðsetja hann nákvæmlega.“

Valhúsahæð

Varðskýli á Valhúsahæð.

Í frétt MBL 5. júní 2012 segir: „Stríðsminjar gerðar upp á Seltjarnarnesi – Var ætlað að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja – Merkileg byggingaraðferð“.

„Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur hafist handa við að endurreisa gamlar stríðsminjar á Valhúsahæð. Er um að ræða tvenn mannvirki, byrgi á Valhúsahæð og ljóskastarahús í Suðurnesi.
Mannvirkin voru hluti af stjórnstöð strandvarna Reykjavíkur í síðari heimsstyrjöld en Bretar létu reisa það ásamt tveimur fallbyssum um sumarið 1940. Stjórnstöðinni var ætlað að verja innsiglinguna að Reykjavíkurhöfn og flotastöð Breta í Hvalfirði fyrir skipum og kafbátum Þjóðverja.

Stærstu byssur Breta á Íslandi

Seltjarnarnes

Ljóskastarahús á Suðurnesi.

Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fagnar því að Seltjarnarnesbær ætli sér að varðveita þessar minjar, þar sem nær skipulega hafi verið gengið fram í því að eyðileggja stríðsáraminjar í landinu á umliðnum áratugum. Hann segir að sérstök byggingardeild úr landgönguliði breska flotans hafi verið send til landsins til þess að gera smíði þeirra sem best úr garði. Þór segir að eitt það merkilegasta við mannvirkin hafi verið byggingaraðferðin en virkjagerðarmennirnir reistu byrgin á Valhúsahæð úr höggnu grjóti og steinsteypu og var þar fylgt sérstökum byggingarstaðli við virkjagerð sem ekki sást annars staðar á landinu. Þessi deild ferðaðist svo um landið og reisti önnur sambærileg mannvirki fyrir stöðvar Breta á landsbyggðinni, til dæmis í Hvalfirði og Eyjafirði.

Seltjarnarnes

Hernaðarmannvirki á Seltjarnarnesi.

Fallbyssurnar tvær sem reistar voru á Valhúsahæðinni voru, ásamt samskonar byssum í Hvalfirði, þær stærstu sem Bretar létu reisa á Íslandi, með sex þumlunga (15 cm) í hlaupvídd. Þær drógu um 12 kílómetra út á haf, og var ætlað að reyna að koma í veg fyrir að Þjóðverjar myndu gera hér innrás. Þrátt fyrir það þóttu byssurnar heldur lítilfjörlegar, og segir Þór ljóst að líklega hefðu byssurnar ekki haldið innrásarflota Þjóðverja lengi frá og hér hefði orðið fátt um varnir. Þegar Bandaríkjamenn tóku við hervörnum hér sumarið 1941 kom í ljós að þeim þótti lítið til koma til bresku byssanna. Bættu þeir þó sjálfir ekki úr bót, þar sem innrásarhættan frá Þjóðverjum minnkaði eftir því sem leið á stríðið.

Stundum skotið á vinveitt skip

Valhúsahæð

Herminjar ofan við kirkjuna á Valhúsahæð.

Ljóskastararnir á Seltjarnarnesi lýstu upp skip að nóttu til, svo að auðgreina mætti hvort þar væri vinur eða fjandmaður á ferð. Einnig var strengdur sérstakur strengur, sem nam breytingar á segulsviði, frá stjórnstöð í Bollagörðum á Seltjarnarnesi og yfir til Akraness. Var þannig hægt að vara við ferðum kafbáta og annarra skipa sem sigldu óboðin yfir strenginn. Vinveittum skipum var hins vegar gert að sýna sérstakar veifur að degi til og ljósmerki að nóttu til, sem höfðu verið ákveðin þann daginn.

Valhúsahæð

Skotbyrgi á vestanverðri Valhúsahæð.

Gerðist það að minnsta kosti tvisvar sinnum að íslensk skip hafi gleymt að sinna þessum fyrirmælum, og fengu þau að launum viðvörunarskot þvert yfir stafninn. Lá við stórslysi af þessum völdum að sögn Þórs. Kom þó sem betur aldrei til þess að vinveittu skipi væri sökkt af þessum völdum.“

Framangreindar stríðsminjar hafa enn ekki verið gerðar upp, ellefu árum eftir áætlun. Og svona, í sögulegu samhengi; ekki væri úr vegi að „Háhæðarvarðan“ og „Litlavarða“ yrðu hlaðnar upp að nýju á Valhúsahæð – þótt ekki væri fyrir annað en að varðveita hin sögulega gildi.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi, Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Rúnar Leifsson, Fornleifastofnun Íslands, 2006.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1424488/

Valhúsahæð

Valhúsahæð að NV – herminjar.

Seltjarnarnes

Valhúsahæð var friðlýst sem náttúruvætti árið 1998. Á Valhúsahæð er rákað berg eftir ísaldarjökul. Þaðan er víðsýnt um Faxaflóa. Hæðin ber nafn sitt af húsum sem fyrr á öldum geymdu veiðifálka Danakonungs. Valhúsahæð er hæsti staður á Seltjarnarnesi í 31 m hæð yfir sjó.

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – loftmynd.

Á Valhúsahæð er graslendi, lítt grónir melar, mólendistorfur og votlendisblettir. Þar er að finna fjölda tegunda t.d. olurt, túnvingul, blóðberg, vallelftingu, krossmöðru, gulmöðru, túnfífla, blávingul, vallhæru, axhæru, vallarsveifgras, hvítmöðru, klóelftingu, vallhumal, kattartungu, gleym-mér-ei, umfeðming, grávíðir, þursaskegg, túnvingul, mosajafna, krækilyng, mósef, brjóstagras, gullmuru, lógresi, friggjargras, mýrfjólu, þrenningarfjólu, njóla, túnsúru, brennisóley og maríustakk svo eitthvað sé nefnt.

Seltjanarnes

Valhúsahæð – hernaðarmannvirki.

Jarðfræði á Valhúsahæð er margbreytileg en þar er að finna laus jarðlög, basalthraunlög (grágrýti) og jökulrákir. Einnig er vel hugsanlegt að forna eldstöð sé að finna á Valhúsahæð. Aldur grágrýtishraunanna á Seltjarnarnesi er nokkuð óljós, en talið er að þau hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði. Laus jökulruðningur sem þar er að finna er væntanlega frá lokum síðasta jökulskeiðs. Á Valhúsahæð má skoða minjar sem tengjast hersetu og sögu hernámsins hér á landi í seinni heimstyrjöldinni

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – letursteinn.

Stærð náttúruvættisins er 1,7 ha.

Heimild:
Umhverfisstofnun | Valhúsahæð, Seltjarnarnesi (ust.is)

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – friðlýsingarmörk.

Seltjarnarnes

Á norðvestanverðri Valhúsahæð á Seltjarnarnesi er stór landamerkjasteinn, sem áður var í fornum landamerkjagarði frá því á 11. öld (að talið er). Garðurinn náði millum jarðanna Ness og Eiðis. Á steininn er klappað „LANDAMERKI„.

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinn á Valhúsahæð.

Á vefsíðu Seltjarnarnesbæjar 2. júní 2016 má lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ísland endurmælt með upphafspunkt á Valhúsahæð“:
„Eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins miðvikudaginn 1. júní, stendur til á næstu mánuðum að endurmæla og –reikna alla punkta í grunnstöðvaneti landmælinga á Íslandi. Verkefninu var formlega ýtt úr vör í gær þegar mælitæki var sett af stað á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi, en frá árinu 1904 hefur þar verið einn af grunnpunktum í mælikerfi landsins.
Eftir nokkra daga ættu að vera komnar niðurstöður úr þessari einstöku mælingu, segir í blaðinu. Umræddur grunnpunktur, sem fjallað er um, er svokallaður Landamerkjasteinn með áletruninni LANDAMERKI.
Steinninn var skráður í fornleifaskráningu árið 1980, en líklegt má telja að steinninn hafi átt að marka land á milli norðan- og sunnanverðs Ness“

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinninn – áletrun.

Í „Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi 2006“ segir: „Áletrun – landamerki; landamerkjasteinn með áletrun norðvestarlega á Valhúsahæð. Hann er fast vestan við Þvergarð, um 80 m austan við Valhúsabraut en um 130 m SSV við norðurenda Þvergarðsins. Ekki er ljóst á hvaða merkjum steinninn er. Þvergarður hefur frá fornri tíð markað land milli Ness og bæjanna austarlega á nesinu og því lítil ástæða til að ætla að klappað hafi verið í steinninn til að marka af land milli austur- og vesturness. Líklegra má e.t.v. telja að steinninn hafi átt að marka land á milli norðan- og sunnanverðs ness. Þá hugsanlega merki Bakka og Ness eða upphaf markalínu milli Mýrarhúsa/Eiðis og Hrólfsskála. Ekkert er vitað um aldur áletrunarinnar.
Valhúsahæð er lítt gróinn melur. Að vestanverðu er hún stórgrýtt klapparholt. Steinninn er talsvert stærri en aðrir steinar á holtinu. Landamerkjasteinninn er um 1,4 m hár, um 2 m á lengd en 1,5 m á breidd. Í norðurhlið hans er klappað „LANDAMERKI“. Áletrunin er tæpir 35 cm á lengd en 2-3 cm á hæð. Steinninn var skráður í Fornleifaskráningu.“

Heimildir:
-http://www.seltjarnarnes.is/frettirogutgefidefni/frettir/nr/9780 – www.selstjarnarnes.is 02.06.2016
-Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi, Fornleifastofnun Íslands 2006.

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinninn – áletrun.