Færslur

Vallasel

FERLIR hefur áður leitað og verið með tilgátur um staðsetningu Vallasels í Ölfusi (Hveragerði).
Vallasel-2Þar sem Hengladalsá fellur niður af fjallinu norðan við Kamba rennur hún á mótum hrauns og fjalls og fellur í allháum fossi niður í Nóngil en það er gljúfur, sem skorist hefur djúpt niður í berglögin. Ofan við fossinn koma fram tvö hraun mjög ólík að gerð.
Hengladalsá rennur saman við Reykjadalsá þar sem hún kemur úr Djúpagili, Grænadalsá og Sauðá, og nefnist hún Varmá neðan Sauðár. Rennur hún í gegnum Hveragerði og sameinast Þorleifslæk áður en hún rennur í Ölfusá. Hún er um 25 km löng og vatnasvið hennar um 55 km2. Hún dregur nafn sitt af heitu vatni sem rennur í hana á Hengilssvæðinu og í Hveragerði. Eldra nafn á Hengladalsánni niður að Sauðá er Kaldá.
Vallasel-3Lækir er nafn á hallandi flöt milli Hofmannaflatar og mynnis Nóngils. Ofan Lækja er, skv. örnefnaskrá, Vallasel. Fremst í Nóngili eru leifar Krosssels.”
Í örnefnalýsingu fyrir Reykjakot eftir Ólöfu Gunnarsdóttur segir m.a. um örnefni á þessu svæði: “Fláar eru brekkurnar suðaustan í Dalafelli niður að Grændalsá og Hofmannaflöt, með Reykjakot holum og giljum. Í þeim voru sauðahús frá Reykjakoti, á Hofmannaflöt. Rjúpnabrekkur eru brekkur vestur af flötinni og upp í Dalafell. Efribrekkur: upp þaðan, óvíst hvar. Lækir eru gróðurflatir með ánni vestur frá Hofmannaflöt, þar var slegið. Kálfagróf er gróið dalverpi upp frá Lækjunum til norðvesturs. Smjörgróf: gróf upp þaðan í Rjúpnabrekkum. Reykjadalsá er áin úr Reykjadal niður að ármótum Grændalsár – þaðan Varmá; áður fyrr rann Grændalsá í Reykjadalsá á Eyrunum skammt innan við túnið og neðan við Grændalsmóa.
Krosssel-21Djúpagilsfoss er foss í Reykjadalsá neðst í Djúpagili, sést frá bænum. Djúpagil er þröngur dalur neðan við Reykjadal. Reykjadalur: austan. Sigmundargil: neðst á Reykjadal, fremur lítið. Dalaskarðsmýri: allstór mýri, nær upp undir Dalaskarð – meðfram ánni. Fálkaklettagil er austasta gilið af þremur, sem Reykjadalur greinist í innst í botni. Djúpagilsmýri er dálítill mýrarblettur neðst í dalnum upp frá Djúpagili. Hverakjálkar: dalskvompa(ur) sem liggja vestur frá dalnum framarlega. Þar eru hveraaugu. Torfumýri er mýri innan við gil, sem liggur niður úr Hverakjálkum. Mýrin með ánni; mýrarteigur inn með ánni, undir Molddalahnjúk. Molddalir eru skvompa, nokkuð greinótt, vestur frá Reykjadal og bak við Molddalahnúk. Þar eru hverir. „Sandhnúkar“ kringum dalinn. Djúpagilseggjar eru klettabrún vestan við Djúpagil. 

Krosssel-22

Krossselsflatir eru suður af Djúpagilsfossi, en norðvestur af Svartagili. Gróðurflesjar, sjást frá bænum. Krossselsstígur er götuslóði upp brattann, þaðan upp í Árstaðafjall. Árstaðafjall er hryggur upp á heiðarbrúninni, samhliða Djúpagili. Svartagljúfur er gljúfrið að Hengladalaá, þar sem hún fellur ofan af heiðinni í Svartagljúfursfoss: hæsti fossinn í gljúfrinu.”
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Reykjakot segir: “Hengladalaá (Kaldá, eldra nafn, H.J. Lýsing Ölfus.) Kemur úr Hengladölum, rann áður niður hraunið í fjallshlíðinni og var mikil útsýnisprýði frá Reykjakoti. Á seinni árum hefur hún runnið eingöngu í Svartagljúfur. Gamla-Árfar: Þurr farvegur Hengladalaár. Kemur í núverandi farveg við brúna heim að Reykjakoti. Varmá: Mjög á reiki hvenær áin fær það heiti. Algengasta málvenja er nú að Varmárheitið fái hún þegar Hengladalaá og Grændalsá koma saman. Í lýsingu Ölfus frá 1705, eftir Hálfdán Jónsson, er Varmá talin byrja eftir að Sauðá er komin í ána. Nóngil eru tvö gróin gil, norðan Klofninga.

Djupagilsfoss-2

Nóngiljabrekkur eru grasbrekkur á milli giljanna.
Nóngiljabrekka er (K.G.) grasbrekka norðan giljanna.
Krosselsstígur er gömul gata sem lá upp á fjallið upp úr Nónbrekkunni.
Raufarberg er bergið ofan Nóngilja, sunnan Ástaðafjalls.
Ástaðafjall er (heim. notaði þessa mynd af nafninu) gróið fjall, norðan Raufarbergs, ber hæst.
Kvíar eru gróin hlíð og lautir austan í Ástaðafjalli, norðan Þúfudals. Þar var um eitt skeið nautagirðing. Krossselsflöt er slétt flöt, neðan (austan) Nóngilja. Fossdalur er grýtt laut við fossinn. Fossdalsfoss er lágur foss neðst í Reykjadalsá, sést frá bænum. Fagraflöt er slétt grasflöt vestan árinnar, norðan Fossdals. Djúpagil er gilið fram úr Reykjadal (suður). Djúpagilsfoss er foss þar sem áin fellur niður í Djúpagil úr Reykjadal. Rönghóll er smáhóll þýfður neðar við Hengladalaá. Lækir eru grasflöt með lækjum norður af Rönghól. Vallasel er grasflöt neðan við brekkuna, frá Lækjum og að borholunni.  Hofmannaflöt: Slétt flöt austan við lækinn, hærri. Þar var fjárhús í seinni tíð. Flötin slegin.  Stekkatún eru grónar brekkur austan litla gilsins. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti, sér fyrir tóftum. Grændalsvellir er bær kominn í eyði 1703. Ketill taldi að hann hefði verið í Stekkatúni.”
Þegar FERLIR skoðaði svæðið milli Rönghóls um Læki að nefndri borholu komu mannvistarleifar í ljós á nokkrum stöðum. Þeirra er hins vegar ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu. M.a. er um að ræða fjárborg, sem að öllum líkindum hefur verið byggð upp úr nefndu Vallaseli, enda “á milli Rönghóls og borholunnar”. Leifar selsins eru suðvestan við fjárborgina.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Náttúrufræðingurinn, 50 árg. 1980-1981, 1. tbl., bls. 37.
-Náttúrufræðingurinn, 47. árg. 1977-1978, 1. tbl. bls. 21-22.
-Örnefnalýsing frá Reykjakoti – Eftir Ólöfu Gunnarsdóttur, gamalli konu, sem lengi var í Reykjakoti og m.a. smali þar.
-Örnefnalýsin fyrir Reykjakot – Ari Gíslason.

Vallasel

Vallasel – uppdráttur.

Krosssel

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er, auk selja frá Reykjum og Vorsabæ, getið um selstöður frá Völlum og Krossi, hvorutveggja hjáleigur frá Reykjum.
MulagataÍ Jarðabókinni segir um selstöðu frá Völlum: “Selstaða er í betra lagi til fjalls í Reykjalandi, en hefur í nokkur ár ei brúkast”.
Um selstöðuna frá Krossi segir: “Selstaða hefur brúkuð verið í heimajarðarinnar landi, er enn nú til gagnleg, þó ei hafi í nokkur ár brúkast”.
Örnefni eru til upp undir fjalli, Múlanum, beint upp af bæjunum,s.s.
Kross-stekkatún, Kross-stekkur, Vallaá, Vallagil og Stekkhóll (Stekkjahóll / Stekkshóll). Um og neðan undir hólunum, sem eru þrír, lá Múlagatan og sést hún enn greinilega. Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði
á Hérðasskjalasafni Árnesinga. “Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.”

Stekkholl-1

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili, á Kross-stekkatúni, eru aflangar þústir er gætu verið leifar mannvirkja. Líklegt má telja að annað hvort báðar eða önnur hafi að geyma leifar fornrar selstöðu frá Völlum. Ekki vottar fyrir veggjum eða öðru í þústunum. Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Kross-stekkjatún, sem fyrr sagði. “Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.”
Þegar framangreindar tóftir voru skoðaðar má krosssel-2telja líklegast að þarna hafi Krossselstaðan verið. “Stekkurinn” hefur í raun verið síðasta selshúsið í selstöðunni, þ.e. skjól fyrir selsmatseljuna, og “garðlagið” aftan hennar hefur greinilega verið stekkur, sem tóftin dregur nú nafn sitt af. Um er að æða óvenjulegt sel á Reykjanesskaganum að því leyti að einungis er um eitt viðverurými að ræða en ekki þrjú eins og venja er. Skýringin getur auðveldlega verið sú að svo stutt er heim til bæjar, einugis um stundarfjórðungs gangur, að óþarfi hafi verið að byggja fullgilt sel á staðnum, enda er selstaðan bæði með afbrigðum skjólsæl fyrir rigningaráttinni þar sem hún kúrir undir klettunum og gnægt vatn hefur verið að fá úr læknum. Á meðfylgjandi mynd, sem tekin er ofan af klettunum má vel sjá stekkkinn og litla tóftina við enda hans vinstra megin. Mun líklegra er að þarna hafi verið selstaða frá Krossi, enda gefur örnefnið “Kross-stekkur” tilefni til að ætla að svo hafi verið, þrátt fyrir að hún liggi við Vallaá (reyndar austan við hana).

Vallasel-2

Vallsel – uppdráttur ÓSÁ.

Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3m x 5,7m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.” Þarna hefur líklega verið stekkur fyrrum frá eldri seltóftunum á Kross-stekkatúni, sem fyrr er getið.
Skammt vestar er Stekkhóll. Á honum eru leifar stekks undir brotabergskletti (allir klettar í hólunum eru sambland af móbergi og brotabergi). Af ummerkjum að dæma gæti efri hluti hans hafa þjónað sama hlutverki og tóftin í Krossseli, þ.e. verið skjól fyrir selsmatsseljuna. Ástæðulaust hefur verið að að byggja þarna fullgilt sel því vegalengdin frá því heim að bæ er sú sama og frá Krossseli. Líklegt má telja að selsmatsseljan hafi ekki hafst við í selstöðunni nema yfir dagmálstímann, en smalinn haft aðstöðu þar um náttmál. Vatn er stutt að sækja í Vallaána. Miðað við heilleika Krosssselsins má ætla að selstaðan hafi ekki lagst af fyrr en um aldamótin 1900 og þá hafa áður verið samnýtt með Völlum um nokkurn tíma.
Gengið var um svæðið til að gaumgæfa hvort þar kynnu að leynast fleiri minjar, en svo reyndist ekki vera. Í leiðinni voru skoðaðar minjar Reykjahjáleigunnar vestar undir Reykjafellinu. Hún fór í eyði skömmu fyrir miðja síðustu öld, enda ber hún þess öll merki.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.


Heimild:
-Kristinn Magnússon – Rammaáætlun, fornleifaskráning 2008.
-Þórður Ögmundur Jóhannsson. Reykjatorfa. Örnefnaskrá. Örnefnastofnun.

Krosssel

Krosssel.

Nesjavellir

Hér verður fjallað um Nesjavelli. Nesjavellir voru byggðir upp úr seli, Vallaseli, frá Nesjum. Auk Vallasels verður einnig getið um önnur sel frá Nesjum; Kleifarsel og Klængssel.
Í “Nokkur örnefni á Nesjavöllum” eftir Guðmund Jóhannsson, skrifað sept. 1949, sem Sigurður Jónsson hreppstjóri á Torfastöðum skráði, segir: “Þar austur af eru Stekkjarhöfðar og Gamlistekkur suðaustan við
undir Stekkjarklett, þar sem nú eru beitarhús. Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. Norður af Selklettum eru Mosarnir.” Gamlistekkur ku hafa verið í Vallaseli, en staðsetningar örnefna á svæðinu á nútíma loftmyndum virðast eitthvað hafa skolast til. Þannig eru Selklettar sagðir þar sem óbrennishóll er í Nesjahruni, Selskarð þar norðan við og Selhöfði á millum. Öll eru þessi örnefni mun sunnar en af er látið.

Jóhann Hannesson skráði Nesjavelli eftir Guðmundi Jóhannssyni 1970. Guðmundur dó árið 1974:

Nesjavellir

Nesjavellir – tóftir.

“Í norðurátt frá bænum og völlunum eru Selklettar. Fyrir vestan [austan] þá er Gamlistekkur. Rústirnar rétt við veginn, þ.e. aðalakveginn suður Grafning, segir Guðmundur ekki hafa verið nefndar neinu sérstöku nafni, en álítur, að Nesjavallabærinn hafi fyrst verið byggður þar, en síðar fluttur vestur á vellina, sökum vatnsleysis á vetrum. Um sel frá Nesjavöllum vissi Guðmundur ekki, en áleit, að nöfnin Selbrekkur og Selklettar í landi Nesjavalla bendi til, að þar hafi fyrrum verið sel frá Nesjum. Þó man hann ekki eftir selsrústum.
Gamlistekkur var notaður til að stía á vorin. Guðmundur telur, að 80 ár (miðað við 1970) muni liðin frá því, að hætt var að færa frá. Segir hann, að faðir hans, Jóhann Grímsson, f. 5. jan. 1843, d. 3.júní 1926, hafi fyrstur manna í Grafningi lagt fráfærur niður.

Þjófahellir

FERLIRsfélagar í Þjófahelli.

Hellisskúti er í Selklettum og heitir Þjófahellir. Mátti þar hafa 30-40 sauði. Ekki var haft þar neitt hey handa sauðunum. Nokkuð hefir fallið úr berginu síðar.”

Í ónákvæmri skráningu “Fornleifa í Grafningi, Nesjum“, (Fornleifastofnun Íslands 1998), er fjallað um Nesjavelli:

Nesjar

Nesjar 1986.

“Fyrst getið 1539 en þá gaf Erlendur lögmaður Þorvarðsson dóttur sinni Margréti Nesjavelli. 1567 hafði Erlendur Þorvarðsson látið Guðmund Steingrímsson fá Nesjar en Jón Marteinsson lætur Guðmund fá Dragháls í staðinn.
Í máldaga Ölfusvatnskirkju frá 1570 eða síðar segir að nesjar og Krókur eigi þangað kirkjusókn. Presturinn, Jón Marteinssonar (Einarssonar biskups) átti Þorbjörgu Erlendsdóttur lögmanns.
1819 var nýbýlið Nesjavellir byggt út úr landi Nesja og fylgdi því efri og eystri hluti jarðarinnar. “Nesjar eru efsti bær í Grafningi. Stendur bærinn á vestasta nesinu af þremur nesjum sem ganga út í Þingvallavatn, milli Þorsteinsvíkur og Hestvíkur.””

Í skráningu “Fornleifa í landi Nesja og Ölfusvatns“, (Fornleifastofnun Íslands 1997), segir:

Nesjavellir – bæjarstæði/sel

Nesjavellir

Nesjavellir – Jóhann Grímsson, Katrín Guðmundsdóttir.

“Eftir frásögn Odds heitins Snorrasonar eru Nesjavellir byggðir úr Nesjalandi 1817. [Þorleifur Guðmundsson bóndi á Nesjum byggði] neðst á Völlunum, og norðast næst hrauninu. Stóð bærinn þar, þangað til Grímur, sonur hans, flutti bæinn nærri efst á Vellina. – Rústirnar rétt við veginn, þ.e. aðalakveginn suður Grafning, segir Guðmundur ekki hafa verið nefndar neinu sérstöku nafni, en álítur, að Nesjavallabærinn hafi fyrst verið byggður þar […]. – Eftir því sem sögur herma hefur fyrsti Nesjavallabærinn staðið nyrzt á Völlunum við hraunjaðarinn, en verið fluttur síðar syðst á vellina, þar sem vatnsból var betra. Á árunum kringum 1940, að mig minnir, reif Jón Sigurðsson bóndi þennan bæ og byggði íbúarhús og útihús nokkru sunnar, þar sem hærra var, sennilega vegna flóðahættu, segir í örnefnalýsingu.

Nesjavellir

Nesjavellir – tóftir.

Tóftirnar eru 3 og er ein vestast, norðan við þjóðveginn í beygjunni þar sem hann kemur niður úr Selskarði, en hinar tvær eru um 30 m austar, sunnan við veginn og eru um 10 m á mili þeirra. Miðtóftin er stærst og er hún á svolitlum hraunhól. Á mörkum hrauns og túns. Sunnan við eru sléttir grasvellir en strax norðan við tekur hraunkantruinn við. Tóftirnar standa undir hólaröð (framhald Selkletta til S) er er neðsti hjallinn í fjalllendinu sem gengur til norðurs úr Henglinum.

Nesjavellir

Nesjavellir – túnakort 1918.

Tóftirnar hafa greinilega verið í notkun löngu eftir að bæjarstæðið var flutt suður á vellina, og voru þar beitarhús fram á þessa öld. Bárujárn er í heygryfjunni í miðtóftinni. Vestasta tóftin hefur skemmst lítillega af vegarlagningunni en verði gerðar umbætur á veginum er ljóst að þesar minjar eru í uppnámi. Austasta tóftin snýr A-V og hefur dyr á A-gafli. Hún er 9×5 að utan en 5,5×2 að innan. Hleðsluhæð er 1,3 m og er mest 8 umför. Þykkt veggj er 1,5-2 m. Tóftin er á svolitlum hól en sunnan við hana og áfastur henni er heygarður, 18×10 að utanmáli og 13×8 að innan. Hleðsluhæð er 1 m og mest 4 umför. Þykkt veggja 0,7-1 m. Vestast í heygarðinum er lítill pallur sem gæti verið tóft.
NesjavellirSunnan við heygarðinn er mýrarblettur sem gæti hafa verið vatnsból er búið var á þessum stað. Miðtóftin er greinilega fjárhús frá því um aldamótin eða síðar. Það er 12×10 m að utan og er fjárhúsið sjálft 7×7 m að innan en heygryfjan við enda þess 7×3 m að innan. Í fjárhúsinu, sem er austar og hefur tvær dyr á austurgafli, eru 2 garðar, um 1 m á þykkt báðir. Þykkt veggja er um 1,5 m og hleðsluhæð 1,2 m. Heygryfjan er talsvert dýpri og þar er hleðsluhæð rúmlega 2 m og mest 12 umför. Þykkt veggja 1,5-2 m. Áfastur þessu húsi að vestan er heygarður, 15×10 m að utan og mjókkar til vesturs þannig að V-gaflinn er aðeins 6 m. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1 m á þykkt og stendur um 0,5 m hátt.
Vestasta tóftin, norðan við þjóðveginn, snýr SA-NV og hefur dyr á SA gafli. Hún er 12×6 m að utan og 8×2,5 að innan. Hleðsluhæð er 0,8 m og þykkt veggja 1,5-2 m. Smáskúti er í hraunhólnum sem miðtóftin er byggð á og hefur verið hlaðið fyrir gjótuna, norðn við heygarðinn, norðan við vírgirðingu sem liggur þétt meðfram mið- og austustu tóft.
Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar, segir í örnefnalýsingu. Klettarnir taka nafn sitt af seli, annaðhvort selinu (Gamlastekk) vestan við þá eða þá seli sem hefur verið á þessum stað áður en bærinn var reistur 1819. Selstöður á jörðin [Nesjar] í sínu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel, segir í JÁM II, 378. Líklegt verður að telja að Vallasel hafi verið á þessum stað.”

Nesjavellir

Nesjavellir 1937.

Ábúendur á Nesjavöllum eiga málverk sem sýnir gamla bæinn að sunnan. Hann snéri stöfnum í A og voru bæjardyr syðst í röðinni. Aftan við bæinn og laus frá honum (á.a.g.10 m) var heyhlaða. Austan í hólnum er 8×8 m ferhyrnd hvompa og er sennilega þar sem síðasti bærinn stóð. Af túnakorti frá 1918 hefur bærinn hinsvegar þá snúið A-V, verið mjó lengja eftir bæjarhólnum endilöngum og kálgarður verið norðan við hann og tveir smákofar utan í honum. Í kringum hólinn er iðjagrænt tún á sléttum völlum en hóllinn sjálfur er ósléttari og í sinu. Sunnan við hólinn eru rásir í túninu beggja vegna við hann þar sem vatn hefur runnið áður. Hóllinn snýr A-V og er hæstur að austan.

Gamlistekkur

Nesjavellir

Nesjavellir – Gamlistekkur.

“Norður af Skútabrekkum er Litluvellir. Þar norður af er Hjallatorfa. Þar austur af eru Stekkjarhöfðar og Gamlistekkur suðaustan við undir Stekkjarkletti, þar sem nú eru beitarhús. Norðaustur af Stekkjarklett eru Selklettar. – Gamlistekkur var notaður til að stía á vorin.
Guðmundur telur, að 80 ár (miðað við 1970) muni liðin frá því, að hætt var að færa frá. – Norðvestur af Völlunum er Vallarskarðið milli Stekkjarhöfða og Selkletta. Þar liggur Grafningsvegurinn í gegnum. Stekkur frá Nesjum var í Selklifi í Nesjavallalandi, frá gamalli tíð. – Selklettar eru nokkuð hár hraunkambur, sem nær frá Vallarskarði og að Selklifi, sem er norðaustast í Selskarðinu, segir í örnefnalýsingum.”
Gamlistekkur er ekki skráður í fornleifaskráningar af svæðinu. Hann er undir hraunbakka skammt norðan við tóftarsvæðið.

Klængssel

Klængsel

Klængsel.

“Selstöðu á jörðin í sinu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel [sma og Nesjavellir]. Ekki er vitað hvar það var”.

Í “Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi”, (Fornleifastofnun Íslands 2018), segir um Kleifarsel (lýsingin er ófullkomin, enda fundu skráningaraðilar aldrei selstöðuna, sem er á lyngbala upp undir hlíð Kleifardals):

Kleifarsel

Kleifarsel.

1706: “Selstöður á jörðin í sínu eigin landi, kallaðar Kleifarsel, Klængssel og Vallasel [sama og Nesjavellir].” segir í jarðabók Árna og Páls. Ekki vitað hvar Kleifarsel var. “Kleifardalur austan undir Jórutindi […] ” segir í sóknarlýsingu frá 1840 um eyðbýli og er þess getið að þar sartóft (eða seltóft), 9 fðm. löng og 2 1/2 fðm. breið, hefir dyr út úr suðvesturhorni. Við efri enda hennar var sem sæi á tóftarbrún, sem gæti verið hlöðutóft.[…] Hafi hér verið býli, þá hefi það verið hjáleiga frá Steinröðarstöðum (?) og síðar orðið, ásamt þeim, hjáleiga frá Nesjum.” Þetta eru friðlýstar minjar. Í Friðlýsingarskrá stendur: “Fornar rústir í vatnsbrekku á Setbergsbölum og í Kleifardal. Sbr. Árb. 1899: 5. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.” Ekkert friðlýsingarskilti er á staðnum enda ekki vitað með vissu hvar býlið var staðsett. Kleifardalur gengur inn til suðvesturs um það bil 1 km suðaustan við þjóðveg 360, í Jórugilinu.”

Heimildir:
-Nokkur örnefni á Nesjavöllum eftir Guðmund Jóhannsson, skrifað sept. 1949. Sigurður Jónsson hreppstjóri á Torfastöðum skráði.
-Fornleifar í Grafningi, Nesjar, Fornleifastofnun Íslands 1998.
-Fornleifar í landi Nesja og Ölfusvatns, Fornleifastofnun Íslands 1997.
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi, Fornleifastofnun Íslands 2018.

Nesjavellir

Nesjavellir – skráðar minjar. Gamlistekkur (rauður hringur).